LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1966-1967
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn að Laugarvatni
ByggðaheitiLaugarvatn
Sveitarfélag 1950Laugardalshreppur
Núv. sveitarfélagBláskógabyggð
SýslaÁrnessýsla (8700) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1946

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-92
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/28.11.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

Ég var í Héraðsskólanum á Laugarvatni árið 1966 -´67. Ég hafði tekið mér tak eftir fjögurra ára nám í barnaskóla (9-12 ára) og settist í landspróf til að freista þess að komast í kennaranám. Verð að geta þess að áður hafði ég verið í Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni (1963 -´64) og einnig hafði ég unnið við mötuneyti Héraðsskólans á Laugarvatni veturinn (1964 -´65) og var því alls ekki ókunnug á Laugarvatni. Valið var einfalt; eini héraðsskóli sýslunnar (er úr Árnessýslu), þekkti mig vel á Laugarvatni og þekkti líka eitthvað af nemendunum sem voru þar á fleti fyrir. Þetta var einnig heimavistarskóli og þá þurfti ekki að leigja sér einhvers staðar í nálægð við skóla enda alls ekki einfalt.


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Það var svo sem stutt að fara og ég hafði verið að heiman áður og var svo sem ekki að kvíða því sérstalega. Mér fannst þó slæmt að reikna með því að ég væri elsti nemandinn vegna þess að margt var/er svo aldursmiðað og varla reiknað með því þá að nemendur í slíkum skóla væru mjög á skjön við aðra m.t.t. aldurs. Pabbi fór með mig á Willy‘snum en einnig yngri bróður minn sem settist í 1. bekk 14 ára gamall.


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Ég fór bara með fötin mín ásamt sængurfötum. Ég átti svo sem gítar og kunni nokkur vinnukonugrip en ekkert til að spila fyrir aðra.


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Ég upplifði líklega kvíða vegna þess að það var nokkuð bratt að fara í landspróf – frekar en gagnfræðadeildina – en ég hafði vorið áður þó tekið vorpróf með 2. bekk (nú 9. bekk) og talið var að ég gæti sest í landspróf miðað við þá útkomu. Ég er reyndar mjög feimin að eðlisfari svo að þetta var ekkert auðvelt þannig lagað séð. Ein stúlka úr minni sveit bað mig fyrirfram um að vera með sér í herbergi og það var vissulega mikil bót.


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

Ég helda að skólinn hafi bara byrjað í október og auðvitað var kennt á laugardögum þá (1966). Skólinn endaði svo um 20. maí en 1. og 2. bekkur var þá farinn til síns heima. Gagnfræðadeildin fylgdi landsprófsnemendum en þau próf voru náttúrlega tekin á sama tíma um allt land.


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

Skólalok vour þarna einhvern tíma um 20.  maí eins og áður sagði en ég man ekki eftir neinni formlegri útskrift þannig eins og þær gerast í dag. Við fórum strax að loknu síðasta prófi í ferðalag norður í land og til Akureyrar og í Þingeyjarsýslu. Þá voru vegir svo slæmir að þungatakmörkunum var víða beitt á þjóðvegi 1. Við vorum þó heppin með það að íslenskukennarinn okkar Helgi Geirsson  og fararstjóri - var að auki starfsmaður BSÍ (Bifreiðastöðvar Íslands) á sumrin og hann möndlaði það nú eitthvað fyrir okkur að við komumst meira en mátti í raun. Skólastjórinn kvaddi okkur á hlaðinu segar við fórum og margir sögðu: „Þetta voru nú „krókódílatár“!


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Við máttum fara einu sinni heim fyrir jól og svo einu sinni á vorönninni auk hefðbundins jólafrís. Ég rakst á bréf frá mér til móður minnar þessi orð: „Við (ég og Þorgeir bóðir) komum ekki heim um næstu helgi því að hann Óli Ket hefur ekki nógu margar rútur til að  flytja alla nemendur (á Laugarvatni; mennta-, húsmæðra-, íþróttakennara- og gagnfræðaskóla) burt um sömu helgi.“ Þetta voru bara reglurnar að fara ekki af staðnum oftar en þetta og því hlýddu bara allir. Það var helst að ég skrifaði bréf stöku sinnum, en ég man svo sem ekki eftir símtölum, en þá var farið á símstöðina til að hringja.


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Ég var fegin að komast að heiman (fór t.d. í fiskvinnslu í Þorlákshöfn og svo áður – eins og fyrr segir – á Laugarvatn í Húsó og að vinna) og var aldrei með heimþrá þó að það væri gaman að koma heim.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

Skólaúsið (Hriflu-Jónasar) á Laugarvatni var (er) náttúrlega afar fallegt eins og allt umhverfi þar og ég kunni vel við það. Við stelpurnar í 3. bekk vorum sumar uppi á efri burst og svolítið út af fyrir okkur og það var fínt. Þess má geta að útsýnið var/er afar fallegt – yfir sjálft Laugarvatnið. Í raun þurfti maður varla að fara úr inniskónum; mötunneyti í kjallara, skólastofur á 1. hæð, yngri nemendur á 2. hæð og ég á 3. hæð, íþróttahúsið í samliggjandi byggingu en þurfti að fara út á stéttina meðfram húsinu. 


Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

Kennt var með „kjafti og krít“ eins og það var nú seinna kallað á mínum kennsluferli. Húsgögnin voru þessi gömlu hörðu tréstólar sem þoldu að nemendur rugguðu sér á þeim og borðin voru tveggja manna  og raðað í tvær raðir. Held að landakort hafi verið einu kennslugögnin.


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Þeir yngstu voru kannske þrír eða fjórir - man það ekki svo og kom líklega aldrei á strákavistina sem var í tveimur eða þremur húsum spölkorn frá aðalhúsinu, en oftast voru bara tveir í herbergi og vinkona mín bauð mér að vera með sér. Ef nemendur komu einsamlir frá einhverjum stað á landinu mun það hafa verið tilviljun með hverjum þeir lentu en annars gátu nemendur eitthvað valið.


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

Eitt rúm fyrir hvern en líklega kojur hjá þeim yngri þar sem fleiri en tveir deildu herbergi . Ég held að við höfum haft sitt borðið hvor ég og Lilja herbergisfélagi, til að læra við. Fataskápar voru í herberginu. Eitt sameiginlegt salerni var á okkar hæð en á hæðinni fyrir neðan voru fleiri salerni og sturtur sem allar stelpur gátu farð í að vild. Mikil íþrótta- og sundkennsla var á Laugarvatni og þar var líka að sjálfsögðu farið í bað.


Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Nemendur átt sín sæti í skólastofunum og í matsalnum einnig en þá var nú frekar verið að velja sér sæti að vild. Sjálfsagt var það nú eitthvað bekkjarskipt en ég man ekki til þess að búin væru til nokkurs konar „bannsvæði“ eins og mun eitthvað tíðkast í framhaldsskólum núna.


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Það var stórt anddyri fyrir framan kennslu stofurnar en þar var t.d. ekki hægt að setjast niður því ekkert var þar sætið. Þeir sem komu utan að – strákarnir – fóru þar úr skóm og þeim var mjög vel raðað þar upp fyrir utan stofur enda mikil reglufesta  sem skólastjóri sá um og fylgdi eftir.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?

Man það ekki glöggt en þó ; morgunmatur kl. 8, hádegismatur kl. 12, kaffi kl. 15. 30., kvöldmatur kl. 7:00 og svo kvöldhressing sem farið var með á herbergin um 21:30 (kex („Sæmundur“) og mjólk) ef nemendur vildu.


Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

Þar sem ég hafði tveim árum áður unnið í þessu sama mötuneyti þá var maturinn einhæfur miðað við daginn í dag. Fiskur á mánudögum, salkjöt (!) á þriðjudögum o.s. frv. Einhver steik á sunnudögum. Alltaf var einhver grautur/súpa á eftir. Ég man (þegar ég var að vinna þarna) að menntskælingar voru fúlir yfir því að fá bjúgu og skyr á laugardögum því að ef einnhver ætlaði að læðast í að fá sér vín á laugardegi þá er skyr of þungmelt undirstaða fyrir alkóhól svo að erfiðara var að finna á sér! Kökur – bakaðar á staðnum -  voru alltaf í boði í kaffitímum en ég man ekki eftir smurðu brauði. Líklega var mesti lúxusinn að fá pylsur kannske einu sinni að vetri. Ég heyrði þá sögu að einn hefði sporðrennt 20 stykkjum sama kvöldið! Nemendur átu náttúrlega það sem var á borðum því það var ekkert annað í boði og að sjálfsögðu gengu nemendur bara að því sem í boði var. Ég man (þegar ég var sjálf að vinna þarna) hvernig matarsmekkur nemenda var eftir aldri. Héraðsskólanemendur vildu það sæta, grauta og svoleiðis, menntaskólanemendur heldur ket og fisk og íþróttakennaraefnin átu allt því að þau voru sísvöng. Hægt var að bæta sér í munni með því að fara í kaupfélag staðarins en það var ekki svo mikið um það því að (héraðsskóla-) nemendur voru almennt ekki með mikil auraráð held ég. Ég hef aldrei verið matvönd svo að það kom ekki að sök, en við hugsuðum örugglega ekki mikið um það að vera alltaf að éta eitthvað eins og er í dag;  að vera alltaf að velja eitthvað sér ofan í sig. Einum man ég eftir (þegar ég vann í mötuneytinu) sem var að mér sýndist mjög matvandur því að hann kom oft í matsalinn fékk sér aðeins vatnsglas – settist með félögunum  - og skilaði svo glasinu. Hvernig mátti það vera og hvernig lifði hann þetta af þessi strákur sem var númer 7 í röðinni af 16 systkinum? Hann hefu líklega ekki vanist því að geta valið sér rétti. Hann er þjóðkunnur maður enn í dag og búinn að vera lengi og myndi sjálfsagt þiggja að ég setti nafn hans hér við. Hann hefði alveg húmor fyrir því!


Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

Ég held að nemendur hafi þurft að vera 2-3var á vetri í borðsal og líka skipta með sér ræstingum.


Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

Það var reyndar þvottahús niðri við vatnið (Laugarvatnið) og einhverjir nýttu sér það. Ég sendi þvott að mestu heim með mjólkurbíl og það kostaði líklega bara lítið eða ekki neitt. Vafalaust höfum við eitthvað handþvegið en það var ekki þá verið að skipta um föt daglega þannig að allt færi jafnóðum í þvottakörfuna.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?

6 daga vikunnar og kennt ca. 8:30 til 14: 00  eða 15:00, en ég get ekki staðfest það.  Kennslu lauk fyrir hádegi á laugardögum.


Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

„Kjaftur og krít“ var mest notað. Krítin og krítartaflan fyrir utan hnattlíkanið og veggkort í landafræðinni. Ég man Óskar Ólafsson taka afþurrkunarklútinn fyrir krítartöfluna og nota hana sem „Jörð“ til að útskýra gang himintungla.


Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Engin verkleg kennsla var fyrir landsprófsdeild og við fengum ekki að læra á ritvél heldur, sem þó gagnfræðadeild fékk, af því að það þótti tefja okkur frá bóklegu námi væntanlegs landsprófs. Þetta var náttúrlega mikill misskilningur því að þeir sem ætluðu í bóknám voru nú líklegri til að þurfa að kunna eitthvað á ritvél. Það var náttúrlega handavinna stúlkna eins og þá tíðkaðist og mjög fín. Drengirnir (utan landsprófs) fengu fína smíðakennslu og fóru heim að vori t.d. með heilu svefnbekkina og þess vegna mjög eigulega hluti. (Aths. Um áratug seinna þegar meint jafnrétti tröllreið öllu varð þessi verklega kennsla að engu – strákar og stelpur í báðum greinum – tímum skipt í tvennt og allt drepið niður sem hægt var. Veit nákvæmlega að dæmi eru þess að strákur í 10. bekk þorði ekki að halda á hamri vegna þess að hann  hélt að hann myndi lemja á puttana á sér!).


Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?

Ekki í mínu tilfelli sjá hér að ofan, en það sem ég lærði í gamla barnaskólanum og húsmæðraskólanum nýttist mér vel fyrir utan það að læra snemma að vinna með puttunum – sveitalubbinn sjálfur.


Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Leikfimikennsla var mjög góð og einnig sundkennsla því að eins og fyrr segir voru á staðnum nemar í íþróttakennslu og þeir kenndu nemendum í Héraðsskólanum og öðrum skólum staðarins auk þeirra kennara sem svo voru að kenna þeim. Tæki voru kannske ekki mikil, hestur, boltar og eitthvað svoleiðis.


Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

Yfirleitt var bara verið inni í frímínútum en eitthvað voru það helst strákarnir sem voru að fara út og sparka á flötinni fyrir utan skólann. Það var ekki íþróttavöllur sérstaklega fyrir Héraðsskólann. Man ekki tímalengd frímínútna en vafalaust voru þær bara skv. námskrá þess tíma.


Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

Það var skipulögð „þögn“ í húsinu milli 16:00 og 18:00 nema á laugarsdögum. Þá áttu allir að vera að læra. Við vorum inni á herbergjum að læra en engin sérstök aðstaða annars. Engin aðstoð var veitt á þessum tímum a.m.k. man ég ekki eftir því.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

Engar hefðir voru utan árshátíðar sem nemendur sáu um innanhúss sjálfir.


Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?

Nei. Þetta var bara eitthvað svo friðsælt og þó kom nú sitthvað uppá sem ég vil ekki segja frá hér en það var nú ekki alvarlegt á nútíma mælikvarða. Skólastjórinn var mjög harður á öllum reglum og sumir nemendur önduðu því einhvern veginn að sér ef hann brá sér af bæ t.d. til Reykjavíkur. Þá vissu það einhvern veginn allir!


Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).

Það er ekki í frásögur færandi; talað um að einhver hafi drepið sig eða þess háttar. Allt slíkt var ekki á rökum reist.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

3. bekkur hafði forystu með skemmtanalífið eða félagslífið og hafði yfirumsjón með árshátíðinni og það var líklega hljómsveit sem starfaði í Menntaskólanum (ML) sem lék fyrir dansi. Ég man svo sem ekki eftir öðrum dansleikjum en aðeins var um einhver skemmtikvöld a.m.k. í 3. bekk. Kannske man ég bara eftir árshátíðinni vegna þess að ég tók þátt í undirbúningnum og vorum við að alla nóttina og fórum að sofa kl. 10:00 um morguninn og þá komin með einhvern svefngalsa þannig að ég ætlaði ekki að komast upp á burst fyrir fáránlegum hlátri. Kennarar tóku ekki þátt sjálfir en nemendur sömdu sum skemmtiatriði og fluttu einnig og þá var eitthvað verið að herma eftir kennurum og svoleiðis.   Stundum söfnuðumst við stelpurnar á vistinni saman á „neðri burst“  þar í holinu í náttfötunum og gjarnan með sængurnar og sungum. Sérstaklega minnist ég tveggja systra Jónínu og Ólöfu Zóphoníasdætra frá Mýrum í Skriðdal syngja saman tvíraddað við gítarundirleik. Það var aldeilis ógleymanlegt.  


Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Geri mér nú ekki grein fyrir því en krakkar voru vafalaust vanir að taka þátt í einhverju félagslegu s.s. að hafa verið í ungmennafélagi, skátum eða öðru eftir því hver venja var í því sveitar- eða bæjarfélagi sem þau ólust upp í eða bara úr sínum fyrrverandi barnaskóla sem svo hét þá.   Nei, kennarar tóku ekki þátt en voru með eftirlit svona í bakhöndinni.


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

Helst boltaleikir því að það var mjög góð aðstaða á Laugarvatni. Þar er vagga körfuboltans sem Þórir Þorgeirsson kennari þar var talinn hafa verið frumkvöðull í að kenna. Eitthvað var verið að keppa og ég man eftir því að hafa keppt í körfubolta með stelpum á móti „antisportistum“ sem voru strákar. Að sjálfsögðu unnu stelpurnar!


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Áfengi og tóbak einfaldlega stranglega bannað. Einum nemanda var  vísað endanlega á brott úr skólanum eftir páskafrí en hann hafði orðið uppvís af því að vera drukkinn  („inni í Dal“) í fríinu. Þessi  nemandi fór ekki heim í páskafríið enda átti hann langt að fara og hefur líklega verið í skólahúsnæðinu yfir páskafríið. Reykingar voru eitthvað stundaðar og þá farið „inn í Dal“ eða „upp í skóg“ til að reykja. Man þó ekki eftir því að nokkrum hafi verið vísað á brott fyrir það enda mjög leynt með slíkt farið. Á þessu tíma voru „sterkari efni“ en ofan getur nær óþekkt sem slík í dreifbýlinu.


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

Stelpuvist og strákavist alveg aðskild hús og aðeins leyfður samgangur milli vista um helgar – um miðjan dag en auðvitað voru allir í sama mötuneytinu og allir saman úti eftir skólatíma og lestrartíma sem var milli 16-18. Húsunum var lokað kl 22:00 og ljós átti að slökkva kl. 23:00 á kvöldin. Húsvörðurinn sem jafnframt var kennari leit eftir þessu öllu.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Samskipti við kennara voru mjög góð hvað mig varðar. Skólastjórinn var reyndar ofurstrangur og niðurlægði nemendur þ.á.m. mig. Ég var svo sem ekki mikið að taka það nærri mér og fannst það bara rétt hjá honum að ég væri lélegur námsmaður. Um leið og hann þurfti að bregða sér af bæ „lá það í loftinu“ – nemendur önduðu því að sér og slaknaði dálítið á. Strangar reglur voru um alla umgengni bæði í skólahúsum og á heimavistum og það var bara gott að kenna unglingunum þá snyrtimennsku. Skólastjórinn fór vissulega oft offorsi í samskiptum sínum við nemendur og sumir þoldu hann illa. Hann hundskammaði mann og fleiri nemendur fyrir röng svör, en einhvern veginn var ég honum bara svo sammála að ég væri heimsk. Hins vegar var hann raungóður og vildi manni vissulega vel þegar maður leitaði til hans. Hann var svona dálítið tvískiptur; góður og grimmur. Hann kenndi Oxford-ensku og dönsku. Svo voru ljúfmenni þarna önnur eins og stærðfræðikennarinn sem líka kenndi landafræði og sögu og var góðmenni, einnig íslenskukennarinn - einstakt góðmenni, náttúrufræðikennarinn, sem aldrei leit í bókina en mjög fínn og kunni svo margt sem ekki stóð í bók. Eðlisfræðikennarinn – sem jafnframt var bankastjóri staðarins fyrir alla nemendur skóla staðarins var kannske ekki mjög áhugasamur fyrir kennslunni en hann kunni annað sem fæstir og vafalítið engir myndu gera enn í dag; mætti nokkru fyrir kennslustund, settist við stóra svarta píanóið í holinu fyrir framan stofurnar og spilaði „Til Elísu“ með tilþrifum, rauk svo upp og inn í stofu og kenndi sitt fag. Hann hleypti svo út á undan hringingu og snaraðist út.   (Tek það fram að slíka hegðun – niðrandi ummæli - hafa kennarar í HÍ eða KHÍ og KÍ einnig sýnt þó einkum með hrokafullum skriflegum athugasemdumen og ég þekki nemendur úr HÍ á þessari öld sem enn eru að gráta undan kvikindislegum, dónalegum ummælum frá háskólakennurum. Gott efni í rannsókn t.d. hjá sálfræðinemendum. („Hvernig orða háskólakennarar athugasemdir sínar í verkefnum nemenda?“)


Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

Þá kynnist maður öðrum svo miklu betur og þá er mun líklegra að maður eignist vini fyrir lífstíð. Ég er mjög hörð á því. 


Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Já, hópurinn hefur auðvitað dreifst en við vitum nokkuð hvert um annað, en auðvitað þekkjast þeir best sem næst hver öðrum búa.


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

Það var eitthvað um kærustupör í skólanum en aðeins eitt af því sem ég þekki til eru hjón í dag. Vel má vera að það séu fleiri. Veit bara ekkert um kynlífið í skólanum!


Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?

Einn úr landsprófi og heitir Albert Eymundsson var formaður skólafélagsins og einfaldlega enn kallaður „Albert formaður“. Hann var/er afskaplega vel til forystu fallinn og ég hélt svo sannarlega að hann YRÐI þingmannsefni. Hann er nú samt of góður í það miðað við óheiðarleikann sem nú er frumskilyrði fyrir því að komast áfram í pólitík að því er manni virðist. Albert var ekki með frekju og ég fann aldrei fyrir því að hann væri ekki starfi sínu vaxinn sem leiðtogi innan skólans. Hann var mikill tengiliður milli nemenda og kennara. Ath. Albert var á þessum tíma 17-18 ára (nem. margir nemendur aðeins eldri á þessum tíma sem nam kannake 2-3 árum). Hann hefur haft það embætti að smala saman fólki ef það vill koma saman og „jubilera“.


Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Sjálfsagt hefur eitthvert einelti verið en ég man þó ekki hvort það var eitthvað sem allir urðu varir við eða eitthvað sem tekið var á þannig, en eitt atvik var þannig að herbergisfélagar gengu of langt gagnvart öðrum og voru með ósæmilegar (?) spurningar og það leiddi til þess að gerendur voru sendir til sálfræðings. Flestum þótti þetta lítilvægt. Sjálfsagt var það samt rétt. 


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Við vitum nokkuð hvert um annað og vinátta þeirra sem búa á sama svæði verður að líkindum ævölöng – eftir 50 ár! Hittumst í gamla skólanum í vor og það urðu sannarlega fagnaðarfundir og vel mætt. Margir gerðu þó lítið úr afrekum sínum og töldu sig hafa verið lélega námsmenn en það er náttúrlega hæverskan ein.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Aðeins yfirlit um skólagöngu mína: heimavist – ekki heimavist sem heildarsvar við upphaflegu spurningunni.   Barnaskóli – heimangönguskóli – ágætt - fámennur  sveitaskóli Húsmæðraskóli – heimavist – mjög skemmtilegt – nemendur alls staðar af landinu – enn talsveð samskipti og mikil við suma – en hópurinn dreifður Gagnfræðaskóli – heimavist -nemendur víðsvegar af landinu  - mjög skemmtilegt talsverð samskipti ennþá og sumir mjög góðir vinir ennþá. Kennaraskóli. Meirihluti nemenda úr Reykjavík – lítil samskipti innan skólans því að það var alltaf verið að færa sig um stofur upp og niður út og suður allan daginn. Í lok skóladags hvarf fólk út í loftið og sást kannske í Glaumbæ um helgar eða á öðrum búllum ef þú áttir pening, sem ég átti ekki. Það kostaði að hitta fólk (í heimavistarskóla ekki). Umgengst tvo bekkjarfélaga ennþá en ekki mikið. Framhaldsnám í KHÍ. – heimavist - úti á landi: Laugarvatni (gisti þá í gamla herberginu mínu!), Flúðum, Varmalandi í Borgarfirði. Gerðum alveg heilmikið okkur til skemmtunar utan kennslutíma. Þetta var skemmtilegt og mikil samheldni meðal nemenda  - frekar að nem. úr Rvk. yndu þessu illa og ein hafði að leggja allar þessar“ útilegu“ af  „því að fólk ætti að fá að dvelja heima hjá sér“. Landsbyggðarnemendur þurftu ekki að vera heima hjá sér! Talsvert mikið samband milli nemenda enn í dag. Háskóli Íslands. Alltaf sami hópurinn saman, en eins og í Kennaraskólanum hvarf fólk um leið og síðati tíminn var búinn og ég gæti ekki rifjað upp í huganum þessa 30 nemendur sem með mér voru með nafni án þess að skoða listann! Fannst ekki gaman þó að ég hefði ekki yfir samnemendum mínum að kvarta – heldur var það bara „heimavistin“ sem ég bar þessa lausung saman við. Þekki einn nemanda ennþá og get spurt um einn. Aldrei samskipti innan hópsins.Ég gæti líka skrifað heilmikið um hrokafulla kennara  innan HÍ og alvöru hæverska kennara sem vita ekki allt eins og hinir hrokafullu. (...NN...)Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana