LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1953-1955
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn að Skógum
ByggðaheitiSkógar
Sveitarfélag 1950A-Eyjafjallahreppur
Núv. sveitarfélagRangárþing eystra
SýslaRangárvallasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1938

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-91
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/21.11.2018
TækniTölvuskrift

Upprunalegt skjal (svör) með myndum er á innri vef Sarps.


Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

Árnesingar og Rangæingar höfðu um langt árabil rætt stofnun sameiginlegs “alþýðuskóla” fyrir sýslurnar tvær, en ekki komist að samkomulagi um það hvar skyldi vera staðsettur.  Langvinnu þófi lauk svo, að Árnesingar stofnuðu Laugavatnsskóla árið 1928. Þar með opnuðust leiðir fyrir námfús ungmenni í Arnessýslu og raunar sóttu Laugavatnsskólann einnig all mörg ungmenni úr Rangárvallasýslu, þar á meðal Magnea Helga, dóttir Ágústs Andréssonar bónda í Hemlu og síðar stjúpa míns. Magnea Helga var 10 árum eldri en ég. Umræða fór af stað milli Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga um sameiginlegan alþýðuskóla á heimaslóðum þeirra. Lauk þessu svo að lög voru sett á Alþingi 1940 um að reistur skyldi héraðsskóli á hentugum stað í þessum sýslum. Sýslunefndirnar tvær komu sér ekki saman um staðsetninguna, en brátt leystist vandinn.   Austasti bær Rangárvallasýslu er Eystri-Skógar, en hann er uppi í hlíðunum, skammt vestan Jökulsár á Sólheimasandi. Ytri-Skógar er næsti bær vestan Eystri-Skóga og þar var tvíbýli allt fram til ársins 1944. Bæjarhús beggja býlanna stóðu nánast hlið við hlið, skammt frá hvort öðru. Í vesturbænum bjó árið 1944 Margrét Oddsdóttir (1869-1959), ekkja Páls Bárðarsonar (1876-1943) bónda þar og í austurbænum bjuggu Guðmundur Kjartansson (1867-1957) og Margrét Bárðardóttir (1885-1967).   Í ársbyrjun 1944 barst áðurnefndum tveimur sýslunefndum bréf, undirritað af þeim Bárði Óla Pálssyni og Gústaf E. Pálssyni, sonum Margrétar Oddsdóttur ábúanda vesturbæjarins og af Kjartani R. Guðmundssyni, sem var sonur Guðmundar Kjartanssonar og Margrétar Bárðardóttur, ábúenda austurbæjarins. Með bréfinu buðu þessir ábúendur og eigendur jarðarinnar, meiri hluta hennar sýslunum tveimur að gjöf. Einu skilyrðin voru þau, að reistur yrði væntanlegur héraðsskóli á staðnum og að sýslurnar starfræktu bú á jörðinni í tengslum við skólahaldið.   Bréfið kom eins og himnasending og  skemmst er frá því að segja, að sýslurnar þáðu gjöfina með miklu þakklæti. Þær keyptu einnig þann hluta jarðarinnar sem ekki fylgdi gjöfinni, húsakost, bústofn, vélar og verkfæri og hófu þá strax að reka búskap á jörðinni. Bústjóri var ráðinn Árni Jónasson frá Grænavatni í Mývatnssveit.   Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði síðan skólahúsið og bygging héraðsskólans hófst vorið 1946.  Skólastjóri var ráðinn Magnús Gíslason (1917-1979) frá Eystra Súlunesi í Leirársveit.  Skólinn var ekki fullgerður, þegar hann tók til starfa, en fyrsta skólasetningin var 19. nóvember 1949. Nemendur fyrsta skólaárið 1949-1950 voru aðeins 47 samtals. Þarna opnaðist langþráður möguleiki til menntunar á heimaslóðum  fyrir ungt fólk í þessum sýslum tveim.   Ég átti á þessum árum heima hjá móður minni og stjúpa, sem bjuggu í Hemlu í V-Landeyjum. Skógaskóli var tvímælalaust hentugasti og besti skólinn fyrir mig, til þess að ljúka landsprófi, en ég var ákveðinn í því að fara í langskólanám og naut til þess  fulls stuðnings móður minnar og stjúpa míns.   Ég var í Skógaskóla undir A-Eyjafjöllum í tvo vetur. Var í 2. bekk veturinn 1953-1954 sem var fimmta starfsár skólans og veturinn 1954-1955 var ég í 3. bekk-landsprófsdeild skólans.   Ljósmynd af Skógaskóla (Þjh-2017-1-5). Myndatexti: Skógaskóli á þessum fyrstu  árum. Eins og sjá má, eru engin tré í brekkunum ofan skólahússins. - Myndin er áræðanlega tekin af heimildarmanni.   Ljósmynd af heimildarmanni (Þjh-2017-1-6).


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Ég lauk fullnaðarprófi 13 ára gamall vorið 1951 frá farskóla V-Landeyja, en í honum var ég 2 vetur. Þetta voru fyrstu ár mín í opinberum skóla, en móðir mín hafði fram til þess kennt okkur bræðrunum heima og við tekið vorprófin í sveitaskólanum með öðrum börnum í sveitinni, síðast vorið 1949 á Strönd á Rangárvöllum, en þá áttum við heima á (...) á Rangárvöllum.   Í farskóla V-Landeyja voru allir nemendurnir, á aldrinum 9-14 ára gamlir og saman í einum hópi eða bekk. Í hreppnum var kennt á tveimur stöðum, tvær vikur í senn á hvorum stað. Í mínum hópi vorum við 10 og ég held að svipaður fjöldi hafi verið í hinum nemendahópnum sem kennt var vikurnar 2 á móti okkur í Akurey, sem er sunnar og vestar í sveitinni.   Þannig var minn hópur 2 vikur í skólanum og næstu tvær vikurnar heima, meðan kennarinn flutti í hinn enda hreppsins og kenndi hinum hópnum í þeim hluta hreppsins. Þannig gekk þetta koll af kolli til vors. Kennarinn hét Guðmundur Rósmundsson (1894-1960), frá Urriðaá í Miðfirði og hinn besti kennari. Okkur var sett fyrir heimanám í vikunum 2 heima og þetta gekk prýðilega.   Það var langt í frá, að margir skólafélagar mínir í farskólanum færu í framhaldsskóla eftir barnaskólann. Af þessum um það bil 20 börnum sem þar voru samtals á mínum árum, fóru líklega 5 í framhaldsskóla, þar á meðal ég og (....NN...) bróðir minn sem var  1½ ári yngri en ég,  ein stúlka fór í Skógaskóla og ein í ljósmæðraskólann.   Móðir mín, (...) var kennaramenntuð og hún var kennari af Guðs náð. Veturinn 1951-1952 var ég heima í Hemlu, hjálpaði stjúpa mínum við búskapinn og las námsefni 1. bekkjar heima undir leiðsögn móður minnar. Fór um vorið 1952  að Skógum og tók þar prófið upp í 2. bekk. Ég minnist þess, að skömmu síðar fékk móðir mín bréf frá Magnúsi Gíslasyni, þáverandi skólastjóra Skógaskóla. Þar segir hann, að (...NN...) sonur hennar hafi staðist prófið með prýði og að hann hlakki til þess að fá “(...NN...) litla” í skólann næsta vetur. Ekki var mér nú gefið um þetta orðalag Magnúsar en hlakkaði þó auðvitað til þess að setjast í skólann þá um haustið.    Um mitt sumar 1952 veiktist ég af lömunarveiki og var rúmfastur heima allt fram í desember, en var þá fluttur á Landakotsspítala í Reykjavík, þar sem ég lá til febrúarloka. Ég lamaðist ekki sem betur fer og náði mér að lokum nokkuð vel. Þannig varð ljóst, að skólavistinni á Skógum seinkaði um eitt ár og hæfist ekki fyrr en haustið 1953. Þess vegna var ég árinu eldri en flest bekkjarsystkini mín.   Loks rann dagur sá upp haustið 1953, að nemendur 1. og 2. bekkjar áttu að koma í skólann. Mig minnir að það hafi verið um 10. október, en 3. bekkur hafði mætt nokkru fyrr, eða um 1. október. Ég var snemma á fótum og kvaddi móður mína, (...NN...) bróður minn, (...NN...) stjúpa minn og ömmu mína (...NN...) frá Keldum á Rangárvöllum, sem átti þa heima hjá okkur í (...). Þetta var síðasta árið sem hún lifði, en hún lést  snemma næsta vor, eða (...).   Mjólkurbíllinn frá Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi sem sótti mjólkurbrúsa bændanna undir Austur-Eyjafjöllum, var snemma á ferðinni. Hann fór framhjá Hemlu um kl. 07 á morgnana, á leið sinni frá Selfossi austur að Skógum. Ég stóð einn niður við brúsapallinn okkar með farangur minn og veifaði honum. Bílstjórinn, sem Kjartan hét og var hið mesta lipurmenni og hafði oft tekið okkur bræður upp á þjóðveginum, þegar við þurftum að skreppa t.d. í Hvolsvöll, nam staðar. Ég bað hann um far að Skógaskóla og fékk það með ljúfu geði.


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Móðir mín undirbjó skólavist mína vel. Ég var með góðan fatnað, bæði til skólasetunnar og til útivistar, svo og góðan fótabúnað og hlífðarfatnað. Ég hafði skólabækurnar frá fyrra ári, varðandi námsefni 1. bekkjar meðferðis, svo og til viðbótar flestar þær bækur sem ég átti að nota í 2. bekk sem nú var framundan og ég hafði útvegað mér, en þær fengust í kaupfélaginu í Hvolsvelli. Útvarpstæki átti ég ekki og ekki heldur plötuspilara eða hljóðfæri. Ég hafði aldrei heyrt um það sem síðar nefndist kassettutæki. Hins vegar hafði ég með mér spil, taflborð og taflmenn.


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Ég hafði mjög gaman af því að fara þessa ferð með mjólkurbílnum, austur um A-Landeyjar og meðfram Eyjafjöllum allt til Ytri Skóga, þar sem skólinn var. Sveitin var falleg og ég þekkti flesta bæina. Hafði farið þarna um einu sinni áður.   Þegar ekið var frá þjóðveginum á Skógasandi heim að Ytri-Skógum og komið var að brekkurótum, lá vegurinn til beggja átta. Á að giska 100 metra vegur lá til hægri og heim að skólahúsinu. Til vinstri lá á að giska 300 metra vegarspotti út að bæjarhúsunum tveimur á Ytri-Skógum og útihúsum býlisins. Íbúðarhúsin voru áþekk, bæði járnklædd timburhús, ein hæð og ris og þau stóðu nálægt hvort öðru. Í vesturhúsinu bjó bústjóri skólabúsins, Árni Jónasson (1916-1998) frá Grænavatni í Mývatnssveit með fjölskyldu sinni, konu og tveimur ungum sonum. Átti ég síðar eftir að kynnast honum, svo og sonum hans.   Magnús Gíslason skólastjóri Skógaskóla bjó á efri hæðinni í skólahúsinu sjálfu, næst aðalbyggingunni í álmunni þar sem fyrirhuguð sundlaug átti að vera. Kona hans var sænsk, Britta Person Gíslason (1923-2010) söngkona og þau áttu þarna 5 ung börn. Þetta var síðasta ár Magnúsar sem skólastjóri á Skógum, en þau hjónin fluttu með börn sín til Reykjavíkur haustið 1954, þar sem Magnús var ráðinn námsstjóri. Síðan flutti fjölskyldan til Svíþjóðar þar sem Magnús varð óperusöngvari og ráðinn skólastjóri Lýðháskólans í Kungelv. Britta var ófrísk að 6. barni sínu þennan vetur og alls eignuðust þau hjónin 9 börn.     Í skólahúsinu bjuggu einnig í lítilli íbúð á 2. hæð skólahússins, einn kennari með konu sína og eitt ungt barn. Einnig bjuggu þrír aðrir kennarar sem allir voru ógiftir á þessum árum, í litlum herbergjum á 1. hæð skólahússins, þar sem 3 aðal skólastofurnar voru.   Íbúðarhúsinu á býlinu í Ytri-Skógum hafði verið breytt og í því voru nú á jarðhæðinni, anddyri og 5 eða 6 misstór íbúðarherbergi fyrir nemendur auk snyrtiherbergis. Auk þess var þar eitt herbergi með sér inngangi, fyrir kennara sem var eins konar húsvörður eða gæslumaður hússins. Í risinu voru sitt í hvorum enda, tvö all stór íbúðarherbergi fyrir nemendur. Sú hefð hafði skapast, að piltar í  2. bekk bjuggu í þessu húsi og þannig var þetta á mínum árum þarna.   Heimavist nemenda var að öðru leyti í skólahúsinu sjálfu, sem var þá eina bygging sjálfs skólans. Kvennavistin var samfelld á 2. hæð aðalbyggingarinnar og á þeirri hæð, í svo nefndum “turni” var einnig lítil kennslustofa, þar sem bókasafni skólans var ætlað rými. Þar var landsprófsbekknum komið fyrir, seinna árið mitt í skólanum.  Karlavistin var margskipt og var a.m.k. á tveimur stöðum í skólabyggingunni auk íbúðarhússins í Ytri-Skógum sem áður var greint frá.   Eftir  komuna í skólann þennan morgun, fór ég á fund Magnúsar skólastjóra. Hann tók mér mjög vel og sagði, að flest allir nemendur 1. og 2. bekkjar mundu koma þá um kvöldið. Hann vísaði mér á áðurnefnt íbúðarhús á býlinu Ytri-Skógar og lagði fyrir mig að koma mér fyrir í tveggja manna herbergi þar á 1. hæðinni. Herbergisfélagi minn mundi verða Magnús Tómasson, bóndasonur frá Skarðshlíð, sem ég vissi að var frændi minn og leist mér vel á það.   Sannarlega var ég eftirvæntingarfullur, hlakkaði til skólavistarinnar á komandi vetri og kveið engu. Ég þekkti nokkra á mínum aldri, sem ég vissi að voru í skólanum, eða mundu hefja þar nám í 1. bekk um leið og ég settist í 2. bekk. Einnig þekkti ég fáeina, flestir voru þeir árinu yngri en ég, sem ég vissi að mundu vera með mér í 2. bekk þennan vetur, en ég hafði misst eitt ár úr vegna veikinda minna, eins og áður sagði. Ég fæddist (...) 1938 og var því þarna 15 ára.   Ljósmynd Þjh-2017-1-20. Eftirtaka af skólaspjaldi 1953-1954. Myndatexti: Í skólahúsinu bjuggu einnig í lítilli íbúð á 2. hæð skólahússins, einn kennari með konu sína og eitt ungt barn. Einnig bjuggu þrír aðrir kennarar sem allir voru ógiftir á þessum árum, í litlum herbergjum á 1. hæð skólahússins, þar sem 3 aðal skólastofurnar voru.


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

Skólaárið fyrir 1. og 2. bekk, var frá um 10. október til um 18. desember og svo frá um 3.-4. janúar fram til um 15. maí. Þessir árgangar voru ein bekkjardeild hvor. Hins vegar var skólaárið hjá 3. bekk sem skiptist í tvær bekkjardeildir, gagnfræðadeild og landsprófsdeild, frá því um 1. október til 18. desember og frá 3.-4. janúar til maíloka, eða um þremur vikum lengra en fyrir 1. og 2. bekk.   Jólafrí var rúmlega 2 vikur, frá um 18. desember og fram yfir áramótin og þá fóru allir heim til sín. Frí var um helgidaga páskanna, en ekki minnist ég þess að nemendur hafi þá farið heim til sín, utan ef til vill nokkrir, sem áttu stutt að fara. Önnur almenn frí voru ekki gefin.   Flestir nemendurnir voru úr Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslum. Þarna voru á mínum árum einnig nemendur af Norðurlandi og all margir voru af Vestfjörðum. Einnig nokkrir af Vesturlandi og nokkuð margir úr sveitum og þorpum á Reykjanesi og úr Reykjavík og jafnvel nokkrir úr Árnessýslu.   Skólabragurinn og aginn í skólastarfinu og félagslífinu var í mjög föstu formi. Magnús var mikill á velli, dimmraddaður og með þrumurödd, ef þess þurfti með. Nemendur báru nánast óttablandna virðingu fyrir honum og hann hélt fast í stjórntaumana. Kennararnir höfðu gott vald á kennslu sinni og ekki minnist ég neinna agavandamála í kennslutímum.


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

Eftir að vorprófunum 1. og 2. bekkjar lauk um miðjan maí, var það siður að nemendur unnu í einn eða tvo daga að gróðursetningu trjáplantna í brekkunum ofan við skólann. Þriðju bekkingar unnu einnig við gróðursetninguna í 1 eða 2 daga í maílok, eftir að prófum þeirra lauk og farið var yfir úrlausnir. Þegar gróðursetningin var að hefjast, kom vörubíll hlaðinn plöntum, frá Gróðrarstöðinni á Tumastöðum í Fljótshlíð. Þá fannst okkur vorið sannarlega komið.   Fyrst og fremst var gróðursett birki í brekkurnar fyrir ofan skólann. Smám saman stækkaði þetta skógarsvæði og teygði sig austur og vestur brekkurnar og nánast upp undir brún Skógaheiðarinnar ofan skólasetursins.   Þegar skólinn tók til starfa haustið 1949, voru þarna engar trjáplöntur, aðeins rótnagaðar brekkur og hlíðar heiðarinnar eftir sauðfé bændanna, eins og sést á myndinni hér í upphafi. Á árum mínum þarna 1953-1955, var farinn að sjást fallegur og hlýlegur trjágróður í brekkunum ofan Skógaskóla og að því kom síðar, að staðurinn fór að bera nafn með rentu.   Fyrri vetur minn, 1953-1954, voru 29 nemendur í 2. bekk þar sem ég var, en all margir þeirra hættu námi eftir svonefnt “Unglingapróf” upp úr 2. bekk eða fóru í aðra framhaldsskóla eftir þennan vetur. Vegna þess, að þriðji bekkur skiptist í tvær deildir, komu eðlilega all margir nýir nemendur í 3. bekk sem ekki höfðu verið í 2. bekk. Í 3. bekk mínum haustið eftir eða 1954, voru samtals 45 nemendur. Þar af voru 14 í landsprófsdeild og 31 í gagnfræðadeildinni þá um haustið. Landsprófið var samræmt og haldið á sama tíma alls staðar á landinu. Lokapróf beggja 3. bekkjardeildanna voru þegar landsprófinu lauk, síðustu dagana í maímánuði. Þá luku allir 14 nemendur landsprófsdeildarinnar prófinu, en 28 luku gagnfræðaprófinu, en þrír hættu af ýmsum ástæðum í skólanum um veturinn.   Skólalok 1. og 2. bekkjar voru um miðjan maí, að loknum vorprófum og áðurnefndri vinnu við  gróðursetningu. Lokapróf í 2. bekk nefndist “Unglingapróf” og í sveitunum hættu því miður margir unglingar þá skólanámi, ýmissa ástæðna vegna. Þegar ég lauk unglingaprófinu vorið 1954 unnum við, ásamt 1. bekkingum í einn til tvo daga við gróðursetningu trjáplantna í brekkunum ofan við skólann og sama fyrirkomulag var árið eftir, þegar ég var að ljúka 3. bekk.   Yfirmaður gróðursetningaverkefnisins var Jón Jósep Jóhannesson, íslenskukennari. Hann var ákafur áhugamaður um uppgræðslu, gróðursetningu trjáa og skógrækt. Áður er gróðursetningarvinnan hófst, var hverjum bekk skipt í 5-6 manna flokka og tilnefndur var flokksstjóri yfir hverjum flokki. Hann hafði áður verið tekinn á stutt námskeið og kynnt fyrirhuguð vinnubrögð. Ég var einn þessara flokksstjóra bæði vorin.     Einhverjir nemendur fengu þarna áhuga á gróðursetningu trjáa í annars fremur trjálítilli heimabyggð sinni. Þar á meðal var ég og með samkomulagi við Jón Jósep Jóhannesson kennara og verkstjóra í skógræktinni á Skógum, fékk ég 20 birkiplöntur keyptar. Ég sendi þær heim í Hemlu, þar sem ekki ein einasta trjáplanta var fyrir. Ég gróðursetti þessar birkiplöntur mínar eftir heimkomuna á nokkuð öruggum stað að ég taldi. Hins vegar kom í ljós, að hrossafjöldinn í Hemlu tróð niður og eyðilagði allar plönturnar mínar næsta vetur, þegar snjór hafði kaffært girðinguna mína umhverfis þær. Þannig lauk fyrstu skógrækt minni, en hún átti eftir að verða meiri og árangursríkari síðar.        Engin formleg skólaslit voru, þegar 1. og 2. bekkur útskrifuðist. Ég minnist þess, að þegar ég lauk unglingaprófinu upp úr 2. bekk, þá kallaði Magnús Gíslason skólastjóri nemendur 1. og 2. bekkjar saman á fund í skólastofum bekkjanna kvöldið fyrir brottförina. Vegginn milli þessara skólastofa sem voru nokkuð stórar, var unnt að brjóta saman millivegginn og draga hann til hliðanna og þetta var samkomusalur skólans. Þarna um kvöldið afhenti Magnús hverjum og einum nemanda umslag með undirrituðu prófskírteini, áritað einkunnum viðkomandi.   Eftir afhendinguna var hátíðamatur í mötuneyti skólans og síðan tóku nemendur saman föggur sínar og bjuggu sig fyrir brottför morguninn eftir.   Það var svona blanda - annars vegar af feginleika yfir því að hafa lokið þessum áfanga, svo og gleði og tilhlökkun að komast í umhverfi fjölskyldu og vina á komandi sumri og hins vegar  söknuður yfir því að skiljast um sinn við vini og félaga í skólanum. Þó finnst mér, að feginleikinn og tilhlökkunin hafi verið sterkari.   Næsta morgun voru rútubílar frá Brandi Jóni Stefánssyni, sérleyfishafa í Vík mættar nokkuð snemma í skólaportinu. Eftir morgunmatinn kvöddum við kóng og prest og héldum í skólaferðalag til Reykjavíkur, þar sem meiningin var að fara í Þjóðleikhúsið þá um kvöldið.   Rútan mín stoppaði aðeins við brúsapallinn í Hemlu, þar sem ég hitti (...NN...) bróður minn og fékk honum rígmontinn umslagið með prófskírteininu mínu og eitthvaðaf farangri mínum. Síðan var haldið suður til Reykjavíkur, með stuttu stoppi á Hellu og við Vegamót í Holtum, þar sem nokkrir nemendur hittu sitt fólk, í líkum erindum og ég áður við brúsapallinn í (...).   Kennarar sem með okkur voru sögðu, að leiksýningin hæfist kl. 8 um kvöldið og að rúturnar mundu bíða okkar utan við Þjóðleikhúsið eftir sýninguna, aka aftur austur í Vík og keyra þá sem vildu fara heim austur í sveitir, en þeir nemendur voru lang stærsti hluti hópsins. Okkur var sleppt lausum nokkru eftir hádegið, hjá “Ferðaskrifstofu ríkisins”  sem var við Kalkofnsveg.   Skipulagið var nokkuð laust í reipunum og eftir komuna til Reykjavíkur var ég svona á flækingi þar seinni part dagsins, ásamt nokkrum öðrum félögum mínum, en ég þekkti enga í Reykjavík nægilega vel að því að mér fannst til þess að heimsækja þá, þótt vafalaust hefði mér verið tekið með kostum og kynjum af frændfólki og vinum móður minnar, ef ég hefði sýnt mig. Ég rölti með  með einum bekkjarfélaga sem líkt var ástatt með, inn í NýjaBíó og við horfðum á einhverja vitlausa bíómynd þarna síðla dags.   Loks var komið að leiksýningunni í Þjóðleikhúsinu. Tveir kennarar okkar voru þá mættir þar og afhentu okkur aðgöngumiða. Ekki man ég lengur hvaða leikrit var þarna á fjölunum.   Að lokinni sýningunni söfnuðumst við saman í anddyrinu, kvöddum þá sem urðu eftir í Reykjavík og þeir sem ætluðu heim, austur í sveitir settust inn í rúturnar og þar á meðal var ég. Ekki minnist ég þess að hafa fundið til verulegs söknuðar á kveðjustundini. Ferðin gekk vel og eftir miðja nótt steig ég út við brúsapallinn í Hemlu. Sumarið beið með sín æfintýri.   Skólahald seinna árið mitt 1954-1955 var með nokkuð öðrum hætti. Heimavistin var með sama sniði og sama hætti og árið áður. Stúlkurnar bjuggu sem fyrr í kyrfilega aðskildri kvennavistinni á 2. hæðinni og við strákarnir í 3. bekk vorum í prýðis góðum herbergjum á efri hæð þverbyggingarinnar, þar sem leikfimisalurinn var fyrir öðrum endanum. Fyrir hinum enda gangsins þar sem við bjuggum, var íbúð skólastjórans. Inngangur í hana var af ganginum okkar, svo vissara var að hafa ekki hátt á síðkvöldum. Ég sjálfur bjó í þriggja manna herbergi með tveimur góðum félögum mínum frá fyrra ári. Það voru þeir Vésteinn Ólason frá Villingaholtsskóla í Flóa, síðar prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar og Grétar Ingi Sigurðsson frá Stúfholti í Holtahreppi, síðar húsgagnasmiður í Reykjavík. Vésteinn var með mér í landsprófsdeildinni þennan vetur en Grétar var í gagnfræðadeildinni.    Nú var kominn nýr skólastjóri að Skógum, hann var Jón Rafnar Hjálmarsson (1922-) frá Bakkakoti í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Þetta var fyrsta starf hans sem kennari og skólastjóri. Jón Rafnar var nýgiftur góðri og vel menntaðri konu, Guðrúnu Hjörleifsdóttur, sem öllum þótti vænt um og báru mikla virðingu fyrir. Hún starfaði þennan vetur, ásamt Jóni Rafnari manni sínum, sem kennari í hand


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Ég naut þess, að unnt var að skreppa einstaka sinnum í einnar nætur eða í stutta helgardvöl heim til mín. Andrés H. Ágústsson, sonur stjúpa mína af fyrra hjónabandi ók olíuflutningabíl fyrir Kaupfélagið í Hvolsvelli, sem sá Skógaskóla og skólabúinu fyrir olíu m.a. á ljósavélar og hitakatla, en rafmagn frá virkjunum var þá ekki komið austur fyrir Hvolsvöll. Ég fékk nokkrum sinnum að skreppa með Andrési í stutta ferð heim að Hemlu og kom aftur með mjólkurbílnum snemma næsta morgun. Svona var þetta báða veturna.   Ég hringdi stundum í móður mína og hún svo aftur í mig. Gallinn var raunar sá, að margir bæir voru á sveitasímanum og því gat nánast öll sveitin hlustað á símasamtöl sem þar fóru fram. Því voru þau oftast stutt og skorinorð.   Aðstandendum var boðið á hátíðir í skólanum, svo sem á “Lucíuhátíð” (sjá síðar), sem haldin var í tíð Magnúsar og Brittu Gíslason og á árshátíðina sem var seinni part vetrar. (...NN...) bróðir minn kom alltaf á þessar hátíðir en móðir mín ekki. Hins vegar heimsótti hún mig að minnsta kosti einu sinni. Sambandið við fjölskylduna var mjög gott, hlýlegt, mjög eðlilegt og óþvingað.


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Minnist ekki neinna sérstakra tilfinninga. Líf mitt var skemmtilegt og ég vissi að heima var allt í góðu lagi og að ég gat hvenær sem var haft samband eða fengið leyfi til þess að skreppa í stutta heimsókn, sem ég og gerði. Heimþrá hefur annars aldrei plagað mig.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

Mér fannst skólahúsið og öll aðstaða til kennslu vera í góðu lagi. Hins vegar var þar engin aðstaða fyrir nemendur að setjast niður og spjalla saman o.s.frv., önnur en gangar skólans og skólastofurnar. Nemendur héldu sig í borðsal, í kennslustofum og á herbergjum sínum og svo reyndum við að njóta útiveru þegar veður leyfði. Íþrótta- eða leikfimisalur skólans var mjög góður og mikið notaður utan skylduleikfimitíma. Þar spiluðu nemendur handbolta og körfubolta og nokkurt pláss var fyrir áhorfendur.   Skólahúsið var vel upphitað og traust, engir lekar og því síður rakaskemmdir, en á Skógum komu oft mjög vond veður, afar hvasst, mikil rigning og þrumuveður voru tíð, t.d. að kvöld- og næturlagi á útmánuðum.   Heimavistir sættu menn sig við og aldrei heyrði ég neinn kvarta, þó svo ljóst sé núna eftir á, að öll aðstaða og aðbúnaður var langt í frá að vera í samræmi við nútímakröfur og mundi aldrei verða samþykkt nú á dögum. Raunar fór vel um okkur á herbergjum okkar. Piltar í 2. bekk bjuggu í íbúðarhúsinu á skólabúinu í Ytri-Skógum, svo sem áður sagði. Þangað giska ég á að hafi verið um 400 m. gangur að skólahúsinu. Því varð að búa sig vel á þessum gönguferðum á milli skólans og heimavistarinnar, t.d. á morgnana þegar veður voru vond, rok og rigning eða snjókoma. Ég var svo heppinn að vera í tveggja manna herbergi í 2. bekk og svaf þar í neðri koju, en herbergisfélagi minn Magnús Tómasson svaf í efri kojunni. Herbergið var mjög þröngt, en þó höfðum við lítið borð, hvor um sig. Þarna voru flest herbergin hin fjögurra manna og þar var þröngt. Annar hver varð að sofa í efri koju. Salerni og snyrtiherbergi var á neðri hæðinni og það var í góðu lagi.   Í sjálfu skólahúsinu var ein samfelld kvennavist á efri hæðinni, ofan við skólastofurnar. Þar voru góð herbergi og í flestum herberjunum voru 5 stúlkur, þar af urðu 2 að sofa í efri kojum og borðpláss var lítið. Eitt snyrtiherbergi var frammi á ganginum hjá þeim. Dyrunum að kvennavistinni var læst á kvöldin og ég minnist þess ekki að neinir brunakaðlar og því síður neyðarútgangar væru þarna, ef voða hefði borið að höndum.   Karlavistir í sjálfu skólahúsinu voru a.m.k. tvær. Önnur þeirra var á milligangi á efri hæð þess hluta hússins sem hýsti leikfimisalinn, íbúð skólastjórans og rýmið fyrir væntanlega sundlaug, svo og búningsklefana fyrir leikfimisal og sundlaug. Einnig var m.a. þvottahús skólans í kjallara byggingarinnar. Piltarnir í 3. bekk bjuggu á milliganginum í þessum hluta heimavistarinnar.  Þar voru góð herbergi, en misstór og annar hver íbúinn varð að sofa í efri koju. Ég var heppinn að fá þar þriggja manna herbergi í 3. bekk, en svaf þá í efri koju.   Önnur herbergi á þessum gangi voru stærri en þetta, eða 4-6 manna og þar voru sömu þrengslin. Tvö sex manna herbergi voru þversum fyrir enda gangsins, innréttuð í rými sem hannað var fyrir væntanlegar áhorfendasvalir fyrir enda leikfimisalarins. Á þessum gangi voru þrengsli mikil og aðstaðan var líkt og í kvennavistinni, að aðgangshurð var læst á kvöldin, engir  brunakaðlar eða neyðarútgangar og engin útganga möguleg nema opnað væri með lykli sem nemendur höfðu ekki. Þó var innangengt af ganginum í íbúð skólastjórans og hann hafði auðvitað lykil.   Á neðri hæð þessarar byggingar voru nokkur stór herbergi, sem innréttuð voru í rýmum, þar sem  áætlað var að hafa búningsherbergi fyrir leikfimisalinn og væntanlega sundlaug. Tvö stór búningsherbergi voru ætluð fyrir leikfimisalinn. Annað þeirra var notað sem slíkt fyrir leikfimitíma nemenda, bæði pilta og stúlkna. Hitt herbergið var innréttað sem íbúðarherbergi. Þar bjuggu margir og annar hver var í efri koju. Þá voru innréttuð íbúðarherbergi í öðrum rýmum þarna, svo sem í væntanlegum búningsklefum fyrir sundlaugina. Einnir var innréttað eitt íbúðarherbergi í timburbyggingu sem komið var fyrir í rýminu, þar sem sundlaugin átti að vera. Sundlaugin var síðar fullgerð, eftir að hús fyrir nemendabústaði voru byggð fyrir skólann.   Þetta voru ekki vönduð herbergi og þar var þröngt um menn. Í herbergjunum voru þó all góðir skápar, en snyrtiherbergi og salerni var frammi á ganginum fyrir öll herbergin.   Eins og fram kom fyrr í þessum punktum, man ég ekki eftir því að neinn kvartaði yfir aðbúnaðinum. Kröfur fólks voru aðrar á þessum tíma, en gengur og gerist í dag.  


Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

Skólastofur 1., 2. og annars 3. bekkjarins voru samliggjandi á aðalgangi á 1 hæð skólahússins. Samanbrotin hurð sem draga mátti til hliðanna og opna þannig alveg á milli, aðskildi 1. og 2. bekkjar stofurnar. Allar voru þessar stofur ljósmálaðar, stórar og bjartar og á gafli fyrir enda hverrar þeirra var stór skólatafla fyrir krítarskrif og framan við hana var að mig minnir um 20 sm. hár pallur þar sem kennaraborðið var.   Sæti nemendanna voru þriggja manna bekkir, sem var komið fyrir í tveimur röðum. Á hverjum bekk aftanverðum, var borð fyrir þá sem sátu í bekknum fyrir aftan og mátti fella það borð niður. Þétt var setið og voru oftast nálægt 30 manns í hverjum bekk, nema í landsprófsdeild 3. bekkjar. Þar voru þegar ég var þar aðeins 14 nemendur. Nokkrar stúlkur úr gagnfræðadeildinni voru þó með okkar hópi í tímum þegar sama námsefni var á dagskrá og í gagnfræðadeildinni, en þær fluttu sig svo yfir í troðfulla gagnfræðadeildina þegar sérstök landsprófsfög voru á dagskrá hjá okkur. Þetta byggðist á skipulagu skólans  og stundatöflugerð.   Skólastofa landsprófsdeildar 3. bekkjar, var fremur lítil, en björt og hátt var þar undir loft. Hún var á 2. hæð “Turnsins” sem svo nefndist, yfir alalinnganginum framan á húsinu. Þetta rými hafði verið hugsað sem bókasafn og setustofa, en var notað á þessum árum m.a. sem kennslustofa fyrir fámennan bekk, svo sem landsprófsdeildina.   Stofan var björt og stór hluti framhliðar var gluggar ofan aðalinngangsins. Þarna var þó líka bókasafn skólans og gátum við notfært okkur það. Skólatafla var á veggnum og prýðis góð lýsing var þarna.


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Eins og fram hefur komið hér á undan, voru stúlkurnar yfirleitt 5 saman í herbergi. Á piltavistunum voru misstór hebergi, tveggja, þriggja, fjögurra, fimm og 6 manna herbergi og mig minnir að eitt herbergið, sem innréttað var í sundlaugarrýminu hafi verið fyrir 8 manns.   Ég held að annað hvort tilviljun, eða niðurröðun skólastjórans og/eða kennara hafi ráðið því hverjir lentu saman á herbergi. Velti annars aldrei vöngum yfir því. Man ekki eftir því að menn skiptu um herbergi við einhvern annan eftir að skólinn var kominn af stað á haustin


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

Þegar hefur komið fram, hvernig þetta var í mínum herbergjum þessa tvo vetur. Í 2. bekk vorum við tveir saman í litlu herbergi og annar var í efri koju. Lítið borð var fyrir hvorn okkar, lítil bókahilla var ofan við borðin og góður gluggi var á herberginu. Fyrir utan gluggann var gamli kirkjugarðurinn á Ytri-Skógum, en þar var eitt sinn kirkja. Hlýtt og gott var í húsinu.   Seinni veturinn minn á Skógaskóla (1954-1955) vorum við þrír saman í herbergi. Þar var líka þröngt á þingi, en þó var unnt að geyma skólabækurnar í hillum og föt sín í fataskáp. Einn svaf í efri koju, annar í þeirri neðri og á þriðji svaf á dívan. Herbergið var tvær rúmlengdir og í því var aðeins eitt lítið borð. Því urðum við að lesa og vinna verkefni okkar í skólastofunum.     Ekki voru borð fyrir alla íbúana í mörgum herbergjum heimavistanna og urðu nemendur sem þar bjuggu að lesa námsefni morgundagsins, vinna verkefni og undirbúa morgundaginn og fyrirhuguð próf í skólastofunum.


Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Vissulega tryggðu menn sér sæti í kennslustofu og í matsal og var nokkur samkeppni um að ná góðum sætum. Félagar og vinir sátu þó oft saman við borð. Frekar var þó að 2. og 3. bekkingar hefðu vit á því að krækja sér strax í “góð” sæti, sem þeir vissu um vegna fyrri reynslu sinnar. Mörgum þótti betra að sitja aftarlega í skólastofunni fremur en á fremstu bekkjunum. Ég sat aftarlega í 2. bekk og sat þar hjá Magnúsi Tómassyni herbergisfélaga mínum og Baldri Ólafssyni frá Árbæjarhjáleigu í Holtum, sem hætti raunar eftir 2. bekk. Í 3. bekk var ég einn af þremur, í öftustu röð í  3. bekk og kunni því ve og ekki spillti, að fallegar bekkjarsystur mínar sátu framan við okkur. Þarna í landsprófsdeildinni deildi ég bekknum með tveimur vinum mínum, þeim Vésteini Ólasyni og Erni Karli Sigfried Þorleifssyni, síðar kennara og bónda í Húsey í Hróarstungu.   Ég minnist þess, að betra þótti að sitja fremur framarlega í borðsalnum. Þar sátu 3. bekkingar við fremstu borðin, en þó sátu kennararnir við fremsta borðið hægra megin. Þarna voru langborð í tveimur röðum, þversum, við báðar hliðar matsalarins. Mig minnir að 8 hafi setið við hvert borð, 4 hvoru megin. Sætin sem menn náðu þannig fyrsta daginn í borðsal annars vegar og í kennslustofunni hins vegar, höfðu menn trygg allan veturinn.   Maturinn var á langborði sem var þversum og allra fremst. Sessunautar hvers borðs - 3. bekkingar fyrst, stóðu upp allir í einu og sóttu sér matinn og drykkinn á langborðið. Síðan kom næsta borð og svo koll af kolli. Lagt var sérstaklega á borð fyrir kennaranna og matur var líka settur á borð þeirra, þannig að þeir þurftu ekki að sækja hann líkt og nemendurnir. Við sem gátum fylgst með, höfðum stundum gaman af því, hvað kennararnir voru mismunandi miklir matmenn.


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Á mínum árum voru sameiginleg rými fá í skólahúsinu. Helst var sest niður í aðalfordyri, þar sem bekkir og nokkur sæti voru, eða þá í skólastofunum.   Setustofa var engin í húsinu fyrir nemendur. Sjónvarp var að sjálfsögðu ekki komið til landsins og ég minnist þess ekki, að neinn nemandi hafi átt eða verið með útvarpstæki í heimavistinni.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?

Mig minnir, að morgunmatur hafi verið kl. 8, áður en kennslan hófst og að hádegismatur hafi verið kl. 12. Síðdegishressing var eftir að kennslu lauk, um kl. 15-16 og kvöldmatur var síðan kl. 19 minnir mig. Hver maður settist í sæti sitt við sitt borð og kennararnir borðuðu með okkur í borðsalnum og fyrri vetur minn, þegar Magnús Gíslason var skólastjóri, borðaði hann nánast alltaf kvöldmatinn þar. Borðhaldinu lauk, þegar einn kennarinn stóð upp og bauð hópnum að verða að góðu.   Sjálfsagt hafa matar- og hressingatímar tekið 30 og 60 mínútur. Aldrei man ég eftir því að rekið væri á eftir okkur.


Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

Ekki treysti eg mér til þess, en í minningunni var allur matur mjög venjulegur og líkur því sem ég hafði vanist, bæði vel útilátinn,  góður og alls ekki einhæfur. Á sunnudögum, hátíðisdögum og helgidögum var greinilega meira lagt í matinn. Persónulega var ég mjög ánægður með hann.   Ég minnist þó að hafa heyrt kvartanir og jafnvel að fyrir kæmi að reynt væri að fá menn til þess að “stræka” á matinn. Mér fannst svoleiðis nokkuð alltaf kjánalegt og út í hött. Tók ekki þátt í neinu slíku.


Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

Ég minnist þess að það kom einu sinni fyrir, þegar ég var í 3. bekk, að konu vantaði í eldhúsið. Þá var um tíma sett upp “þegnskylduvinna”. Hvað mér viðvék, þá held ég að þetta hafi aðeins verið einn dagur í eldhúsinu. Ég vann við að skræla kartöflur, taka saman matarílát og áhöld og aðstoða við uppþvott. Þannst þetta hundleiðinlegt og sá eftir kennslustundunum sem ég missti.


Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

Þvottahús var í kjallara þeirrar álmu skólans, þar sem heimavist pilta og íbúð skólastjórans var. Ég er ekki viss um hvort þvegið var af nemendunum, held það þó. Man samt að sumir þvoðu af sér sjálfir, en í þvottahúsinu var þvottavél og mig minnir að nemendur hafi getað  fengið leyfi til þess að nota hana. Mig minnir að við sjálf höfum lagt okkur til rúmfatnað, svo sem lök, sængurver og koddaver sem ég sendi í þvott heim til móður minnar og hún passaði það vel að senda mé hluti til skiptanna.  Ég þvoði skyrturnar mínar og sokkana sjálfur, straujaði skyrturnar og lærði að pressa pressa buxurnar mínar og þ.h., en annars sendi ég rúmfatnaðinn heim og móðir mín þvoði hann eins og áður sagði.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?

Kennt var alla 5 virka daga, frá kl. um 8:30 fram til kl. 15 – 16, með hádegishléi þó og kennt var fyrir hádegi á laugardögum og jafnvel lengur í landsprófsdeildinni.   Þegar ég var í landsprófsdeildinni, þá lagði William Thomas Möller sérstaklega sig fram um að kenna okkur fög sín vel og við fengum marga aukatíma hjá honum. Ég held, að það hafi verið hans eigin framtak, gert af einskærum áhuga hans. Líka lögðu kennararnir æði oft fyrir okkur gömul landsprófsverkefni og létu okkur spreyta okkur á þeim. Þetta þótti flestum okkar afar vænt um og kunnu vel að meta, enda er ég viss um að þetta kom sér vel. Konan mín, sem seinna varð, fékk t.d. ekki slíka kennslu í Gagnfræðaskóla Austurbæjar, þar sem hún var í framhaldsskóla.


Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

Því miður á ég ekki - eða finn ekki! stundaskrárnar frá Skógaskóla. Í minningunni voru allir kennararnir hið besta fólk sem var sínu starfi fullkomlega vaxið og hafði lag á því að koma fræðunum inn hjá mis vel gefnum og/eða mis duglegum og iðnum nemendum sínum. Allir héldu þeir góðum aga og ég minnist aldrei neinna slíkra vandamála í tímum og ekki man ég eftir því að nemanda væri vísað úr tíma.   Þó persónulegt sé, ætla ég að nefna kennara mína þessi tvö ár og kennslugreinar sem þeir kenndu. -          William Tomas Möller (1914-1965) frá Siglufirði kenndi stærðfræði í 2. bekk. Í landsprófsdeildinni kenndi hann einnig stærðfræði og algebru. Þar kenndi hann einnig eðlisfræði. Hann var sannkallaður þungaviktarmaður í orðum og í kennslunni. Hann hélt góðum aga og blandaði oft inn sögum frá Siglufirði og Akureyri, sem tengdust kennslu-efninu og náminu. Hann hafði sannarlega lag á að gera fræðin lifandi. -          Albert Jóhannsson frá Teigi í Fljótshlíð var dönskukennari okkar í 2. og 3. bekk. Hann var lifandi, glaðvær og skemmtilegur maður, sem gerði dönskuna skemmtilegri en mörgum öðrum hefur tekist. Albert var góður dönskumaður og mjög listfengur. Hann kenndi okkur teiknum í 2. og 3. bekk og  kenndi þar m.a. til dæmis um þrívídd í teikningum og litaval. Kunni vel sitt fag. -          Snorri Jónsson (1925-1912) frá Siglufirði var leikfimikennari pilta og stúlkna. Hann kenndi einnig piltunum handavinnu eða smíðar, sem var fyrst og fremst húsgagnasmíði. Einnig kenndi hann meðferð trésmíðavéla, vélhefla, fræsara og rennibekkja. Snorri var lipur og léttur á sér og taldi ekki eftir sér að fara með strákahóp í fótbolta á túninu neðan við skólann og spilaði þá gjarnan með hópnum. -          Jón Jósep Jóhannesson 81921-1981) frá Hofsstöðum í Skagafirði kenndi alla íslensku við skólann, þar með talda málfræði,  stafsetningu og íslenskar bókmenntir. Einnig kenndi hann landsprófsdeildinni bragfræði í3. bekk. Jón var mikill íslenskumaður og mikill áhugamaður um skógrækt og hann smitaði marga af þeim áhuga, þar á meðal mig. -          Júlíus Jón Daníelsson (1925-2017 ) frá Syðra Garðshorni í Svarfaðardal kenndi ensku í skólanum veturinn minn í 2. bekk. Einnig kenndi hann okkur a.m.k. þann vetur mannkynssögu. Þá kenndi hann okkur landafræði og náttúrufræði í 2. bekk. Júlíus setti þar sumum nemendum sínum fyrir verkefni í mannkynssögu, en það var að halda stutt erindi um einhvern þekktan eða frægan erlendan stjórnmála- eða listamann. Ég fékk eitt slíkt verkefni, en ég minnist þess að ég var skikkaður til þess að halda stutt erindi um Benjamin Disraeli (1804-1881), fyrrum forstisráðherra Breta, sem ég vissi ekkert um, en einhvern vegin tókst það, eftir að ég kynnti mér manninn í bókasafni skólans. Við sem gerðum þetta urðum að kynna okkur efnið og læra að setja það fram fyrir framan hópinn. Júlíus var menningarlega sinnaður mjög og hann kom t.d. með grammifón sinn í sögutíma og spilaði verk stórmannana. Mér er mjög minnisstætt, að þar heyrði ég Tunglskinssónötu Beethovens spilaða og útskýrða í fyrsta sinn. Seinna hef ég heyrt gamla bekkjarfélaga mína frá Skógum  minnast sérstaklega á þetta framtak Júlíusar. -          Þórey E. Kobeins (1927-1998) frá Bygggarði á Seltjarnarnesi kenndi mínum bekk  landafræði og náttúrufræði í landsprófsdeildinni. Þóreyju tókst að gera landafræðina skemmtilega, enda hafði hún háskólapróf frá Osló í henni og kunni vel sín fræði. -          Jón R. Hjálmarsson (1922- ) skólastjóri kenndi okkur mannkynssögu og Íslandssögu í 3. bekk, svo og ensku. Jón var mikill enskumaður, hörkugóður kennari og kunni mannkynssöguna og önnur þau fög sem hann kenndi sérstaklega vel.   Af Þórði Tómassyni. Þórður Tómasson frá Vallnatúni í Eyjafjallasveit var góður vinur móður minnar og ég man eftir því, að hann kom í heimsókn að Hemlu eftir að að fluttist þangað árið 1949.  Hann fékk lánaðar teikningar móður minnar, sem við bræðurnir gáfum síðan Skógasafninu og voru þær til sýnis í skólanum einhvern tíma. Þess má geta, að við bræður gáfum teikningarnar út árið 2015 og ritaði Þórður þá formála að bókinni. Vinátta okkar Þórðar hefur staðið föstum fótum í  bráðum 65 ár. Þórður býr hjá Guðrúnu systur sinni í Skógum, en hún er gift þeim góða dreng, Magnúsi Tómassyni, sem var herbergisfélagi minn í 2. bekk.   Á Skógum kynntist ég svo Þórði betur. Við fyrstu kynni okkar þar, heilsaði hann mér mjög vinsamlega og við töluðum eitthvað saman. Hann hafði þá fengið herbergi til afnota í kjallara skólans og var byrjaður hinu stórmerka og sögulega starfi sínu, að safna gripum úr fortíð og nútíð.  Á þessum tíma kenndi Þórður ekki við skólann, en hann var þar  tíður gestur.   Svo var það einn góðan veðurdag seinni veturinn minn 1954-1955, mig minnir að það hafi verið rétt fyrir jólafríið eða rétt eftir að við komum úr jólafríinu, að Þórður kom upp í herbergi mitt í heimavistinni. Hann bað okkur strákana, sem voru að sjálfsögðu m,argir sterkir og orkumiklir, að koma og aðstoða sig við að taka skipið Pétursey af bílpalli og hjálpa til við að setja það niður á túnið. Við vorum nú aldeilis til í það og gengum með Þórði suður fyrir skólann, á þann stað sem Minjasafnið reis síðar. Þar stóð vörubíll mikill og Péturseyjan var á palli hans.   Okkur tókst að koma skipinu óskemmdu niður á túnið, nákvæmlega eins og Þórður vildi hafa það og þar sem hann vildi hafa það. Einmitt þarna byggði Þórður svo, eða stjórnaði byggingu hins stórmerkilega minjasafns umhverfis skipið. Húsið reis svo og skipið Pétursey var inni í sýningarsalnum þegar húsið var tilbúið, þar sem það hefur verið síðan.   Ekki rek ég hér frekar löng kynni okkar Þórðar, en í mínum huga er aðeins til einn Þórður Tómasson til á Íslandi.    Ljósmynd 2017-1-25. William Th. Möller og Jósep Jóhannesson, kennarar í Skógum.          


Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Kennslan var kynjabundin. Piltum – var kennd handavinna og smíði, meðferð trésmíðavéla og eðli viðartegunda, bæði í 2. bekk og 3. bekk. Stúlkurnar – fengu kennslu í handavinnu svo sem saumaskap og ef til vill útsaumi, en ég get ekki útskýrt það nánar.  


Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?

Við strákarnir lærðum og  fengum síðan að umgangast trésmíðavélar skólans og var treyst til þess. Smíðakennslan fór fram í viðbyggingu, sem var við enda rafstöðvarhúss skólans. Þetta hús stóð nokkuð ofan skólans og var all vel búið tækjum. Við fengum vandaða tilsögn hjá Snorra Jónssyni, áður en við snertum trésmíðavélarnar, en eftir það var okkur treyst til þess að fara eftir reglum og hafa öryggið í huga. Ég minnist þess ekki að neitt slys eða óhapp hafi hent þarna í smíðakennslunni þessi tvö ár mín í skólanum.   Kennslan og vinnan á trésmíðavélunum reyndist a.m.k mér afar vel og sannarlega hefur sú kynning og þjálfun sem ég fékk þarna  reynst mér vel í lífinu, þegar ég ungur maður vann oft síðar í byggingavinnu á sumrin og enn síðar við smíði og innréttingar eigin húsnæðis o.fl


Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Leikfimikennslan fór fram í leikfimisal skólans. Þar var Snorri Jónsson lipur og liðugur, afar áhugasamur og hreif fólk með sér. Seinni veturinn minn var komið með körfur frá Reykjavík og við félagarnir hjálpuðum Snorra við að við að setja þær upp og síðan var körfubolti mikið leikinn.   Sundkennsla var engin í skólanum, enda engin sundlaug á staðnum, þar sem fyrirhuguð sundlaug var ekki tilbúin og engin vinna við hana hafin. Hins vegar fóru kennararnir  einu sinni eða jafnvel tvisvar á vetri með bekki skólans í sundlaugina á Seljavöllum undir A-Eyjafjöllum. Slíkar ferðir vorufremur eins konar skemmtiferðir fremur en sundkennsla og voru mjög vinsælar.   Ljósmynd Þjh-2017-1-8. Myndatexti:  Þessa mynd tók ég af bekkjarsystkinum mínum, við sundlaugina á Seljavöllum undir A-Eyjafjöllum. Annar frá vinstri er Örn heitinn K. S. Þorleifsson, síðar bóndi og kennari í Húsey í Hróarstungu.  


Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

Ekki held ég, að frímínútur hafi verið langar og engar “löngu frímínútur” voru þarna, eins og ég kynntist síðar í MA og þegar ég fór sjálfur að kenna síðar. Helst minnir mig, að í frímínútum hafi nemendur annað hvort setið inn í kennslustofunum, eða farið út á ganginn, hitt gjarnan nemendur annarra bekkja og rabbað saman, eða farið út á útidyratröppurnar til þess að hitta og tala við félagana. Einstaka brá sér austur fyrir skólann og hitti þar aðra sem skruppu út til þess að reykja.   Minnist þess ekki, að fótbolti hafi verið iðkaður í frímínútunum, sem voru yfirleitt fremur stuttar. Íþrótta- eða fótboltavöllur var enginn, aðeins túnið neðan við skólann og þar var ekki unnt að spila, nema jörð væri auð og helst þurr.   Körfubolti var aðeins stundaður í leikfimisalnum.


Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

Eins og tíðkaðist á þessum tíma a.m.k., þá var nemendum sett fyrir námsefni fyrir næstu kennslustund í faginu og gilti það í öllum bóklegum greinum. Oft voru líka sett fyrir verkefni sem leysa átti næstu 2-3 dagana, svo sem stílar nýir eða hreinskrift eldri stíla og annað, eða þá t.d. heimaverkefni í t.d stærðfræði og eðlisfræði. Hver og einn bar auðvitað ábyrgð á iðni sínu og náminu.   Á Skógum ríkti frelsi og hver og einn var sem sagt ábyrgur fyrir námi sínu og námsárangrinum. Það var skýrt tekið fram við okkur strax í upphafi skólavistar og hvers kennsluárs. Þrengsli og fjöldi á vistarherbergjum olli því, að margir - þar á meðal ég - notuðu sér að sitja í skólastofunum þegar lesið var “fyrir morgundaginn” eða gerðir stílar og önnur heimaverkefni. Námsaðstoð var engin af hálfu skólans, engin sérkennsla eða hjálparkennsla þekktist eða var þarna, en nemendur aðstoðuðu gjarnan hver annan, ef svo bar undir


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

Hefðir eru mér ekki sérstaklega minnisstæðar úr daglegu lífi nemenda á Skógum og því síður í  tengslum við komu nýrra nemenda eða brautskráningar nemenda úr hvaða bekk sem var. Hefðum kynntist ég hins vegar eftir veruna á Skógaskóla, í fjögurra vetra dvöl minni í heimavist MA. Um þær hefðir er vafalaust hægt að skrifa miklar lýsingar, en því var ekki til að dreifa hér.   Þó var það hefð á mínum árum a.m.k, að piltar í 2. bekk fengju heimavist í íbúðarhúsinu í Ytri-Skógum. Ég giska á að það hús hafi verið um 400 metra frá sjálfu skólahúsinu. Þetta var að vissu leyti bagalegt og hamlaði nokkuð samveru og tengslum við stúlkurnar í bekknum okkar sem voru í heimavistinni í skólahúsinui, svo og við aðra skólafélaga.   Á árum Magnúsar Gíslasonar og Brittu konu hans, var það að vísu hefð að halda svonefnda Lúcíuhátíð um 15. desember, rétt áður en haldið var heim í jólafrí. Þannig var þetta fyrra árið mitt, en seinna árið var haldin hátíð - “Litlu jólin” - og þá gjarnan sett upp smá leikrit og heimatilbúnar skemmtanir af ýmsu tagi. Árshátíð skólans var að sjálfsögðu fastur liður, seinni hluta vetrar.   Ljósmynd Þjh-2017-1-15. Myndatexti: Skemmtiatriði á Lúcíuhátíðinni sett upp á heimatilbúnu leiksviði  í leikfimisalnum 1953. Talið frá vinstri: Brynjólfur Samúelsson, Guðmundur Stefánsson, Sverrir Ólafsson, Njörður Geirdal, Sigrún I. Halldórsdóttir, Steinunn Sigurmundsdóttir og Jón Bragi Gunnarsson.


Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?

Vil ekki segja frá gamansögum eða kímni okkar nemendanna, varðandi ýmislegt í daglegu lífi og tómstundum kennara skólans. Þar gæti þó verið af ýmsu að taka og góðlátlegt gaman var alltaf vinsælt. Við fylgdumst með kennurunum við matarborðið og góðlátlega með samdrætti kennara og starfsstúlkna í mötuneyti skólans. Einnig var gaman að sjá til Jóns Jóseps Jóhannessonar, þegar hann fór í útreiðartúra, en hann átti eða hafði afnot af hesti sem Árni Jónasson staðarráðsmaður geymdi fyrir hann.  Hesturinn var fjörugur og hefur líklega staðið mikið inni, þvi stundum virtist Jón ekkert ráða við hann.   Þó minnist ég þess að í svokölluðum jólaprófum í skólanum þegar ég var í landsprófsdeildinni, sem haldin voru rétt áður en jólafrí var gefið, skeði dálítið atvik. Ég var sestur við borð í einni skólastofunni í þessu prófi, og ætlaði að byrja á því að leysa verkefnið sem fyrir mig var lagt.   Við borðið á móti mér sat ungur drengur úr 1. bekk og framan við hann var prófverkefni hans í stærðfræði. Pilturinn sat hreyfingarlaus og starði á verkefnablaðið. Ég sá að hann var í miklum vandræðum, hreinlega frosinn.   Ég gat lesið fyrsta dæmið hans, á hvolfi frá mér að sjá. Reiknaði það i snatri, snéri blaðinu við svo hann gæti séð það og benti honum með augunum að líta á það. Hann skrifaði útreikninga mína á blaðið sitt. Það var eins og hann losnaði úr fjötrum við þetta, komst í gang og hann tók til við að vinna og reikna. Ég man ekki betur en að hann hafi átt góða frammistöðu í þessu prófi og öðrum. Þessi maður varð síðan þekktur og farsæll í starfi sínu og leiðir okkar lágu saman seinna í lífinu. Hann þakkaði mér seinna fyrir þessa sérstöku hjálp.   Snorri Jónsson leikfimi- og handavinnukennari lék stundum fótbolta á túninu fyrir framan skólann. með okkur strákunu, þegar leikfimitími átti að vera. Eitt sinn þegar ég var í 2. bekk, var Snorri að spila með okkur og skaut boltanum fast á mark andstæðinganna. Það lenti í höfðinu á “markverðinum”, sem rotaðist og steinlá. Urðum við ap bera hann af vellinum. Leiknum lauk þarna, en markmanninum varð ekki meint af þessu svo ég muni eftir.


Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).

Ekki kannast ég við að hafa heyrt um neitt slíkt.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

Félagslífið var eðlilega nokkuð sérstakt og mjög staðbundið. Nemendur og kennarar gerðu sitt besta  og í hópi nemenda voru alltaf einhverjir sem léku listilega á t.d. píanó eða gítar og voru þeir vafalaust svona eftir á skoðað, sumir hverjir notaðir e.t.v einum of mikið í þágu okkar hinna, til þess að halda uppi t.d. hljómlist á dansæfingum, sem kallaðar voru. Slíkar dansæfingar voru, að mig minnir, yfirleitt haldnar annað eða þriðja hvert laugardagskvöld og fóru fram í samkomusalnum, sameinaðri kennslustofu 1. og 2. bekkjar. Stúlkurnar voru miklum mun meira drífandi í félagslífinu en piltarnireins og oftast vill verða og á mínum árum lék ein bekkjarsystir mín var mjög músíkölsk og yfirleitt listilega á píanó skólans, þegar dansæfingar voru haldnar.   Fyrra árið mitt var haldin Lúcíuhátíð um 15. desember að sænskum sið, eins og  áður hefur verið sagt frá og stjórnaði Britta Gíslason skólastjórafrú þessari gleði. Ég minnist þess að ég og félagar mínir í heimavistarhúsinu á Ytri-Skógum vöknuðum snemma þennan morgun, við það að hópur stúlkna, þar af voru flestar bekkjarsystur okkar, voru komnar inn í húsið okkar, opnuðu herbergisdyr okkar. Þær höfðu krans með kertum um höfuðið og sungu Lúcíusönginn um “Sancti Lúcíu”. Sama skeði á öðrum karlavistum um líkt leyti. Stúlkurnar settu þetta atriði svo upp um kvöldið á sjálfri Lúcíuhátíðinni, sem haldin var í leikfimisalnum og voru þá talsvert mikið fleiri en þær sem heimsóttu okkur strákana í 2. bekk um morguninn.   Á þessari miklu Lúcíuhátíð í leikfimisalnum voru settir upp smá leikþættir og alls konar gamanmál. Seinna árið mitt 1954-1955 og þaðan í frá, var engin Lúcíuhátíð, enda var frú Britta Gíslason flutt frá Skógum. Í stað Lúcíuhátíðarinnar var haldin hátíð sem nefnd var “Litlu jól” rétt fyrir brottför okkar í jólafríið og svo var grímudansleikur í skólanum,  fljótlega eftir að við komum úr jólafríinu   Magnús Gíslason skólastjóri var mikill söngvari og naut þess að syngja fyrir okkur. Hann söng með drynjandi baritónrödd sinni og fórst það vel úr hendi. Britta kona hans var einnig mjög góð söngkona og hafði fallega og hreina rödd.  Þessi góðu og merku hjón héldu nokkrum sinnum söngskemmtanir fyrir nemendur og Magnús átti það til við kvöldverðarborðið, þegar kvöldverði var að ljúka, að standa upp og syngja nokkur lög fyrir nemendur, kennara og starfsfólk. Þetta var afar vinsælt og hin besta skemmtun.   Árshátíð skólans var haldin í febrúar eða í fyrri hluta mars. Hún var vel undirbúin og alls konar sýningaratriði voru æfð, svo sem fimleikar í leikfimihúsinu, og leikrit sett upp á svið, tónlistaratriði og svo var hin besta matarveisla í borðsalnum. Nemendur fengu að bjóða foreldrum eða nánustu ættingjum og komu margir, líklega þó aðallega þeirra nemenda sem áttu heima í nágrannahéruðunum.   Einstaka sinnum, ef til vill einu sinni á vetri, var farið á skemmtun eða leiksýningu austur í Vík í Mýrdal og man ég að Brandur Jón Stefánsson sem rak rútufyrirtækið þar, bauð til þessarar ferðar, veturinn sem ég var í 2. bekk.   Farið var e.t.v. einu sinni á vetri í sundlaugarferð að Seljavöllum undir A-Eyjafjöllum, svo sem áður sagði. Slíkar ferðir voru auðvitað afar vinsælar.   Nokkuð oft var farið í fjöldagönguferðir, oftast skipulagðar af kennurunum. Minnist ég þess, að eitt sinn var gengið var niður að sjó og til baka, einnig nokkrum sinnum á Drangshlíðarhnjúk. Það gerum við líka félagarnir nokkrum sinnum sjálfir og án hvatningar. Einnig var gengið austur að Sólheimajökli, en það voru frekar litlir hópar pilta sem það gerðu.   Vorið 1955 rétt áður en lokaprófin byrjuðu, gengum við 6 bekkjarbræður í miklu góðviðri á sunnudegi - með leyfi Jóns skólastjóra, frá Skógum og alla leið upp í gamla skálann sem Guðmundur frá Miðdal reisti efst á Fimmvörðuhálsi. Skálinn var opinn og hálf fullur af snjó, en sem betur fer var færið gott og skyggnið fínt þarna í vorblíðunni.   Einstaka sinnum voru haldnir málfundir og einföld mál á dagskrá. Ekki man ég sérstaklega eftir umfjöllun eða ræðum nemenda og ég tók ekki til máls á þessum fundum.   Gönguferðir upp á “Ingimund”, sem er klettanöf í heiðarbrúninni ofan skólans voru einnig vinsælar og þó sérstaklega voru gönguferðir nemenda eða minni hópa þeirra mjög vinsælar, annars vegar út að Skógafossi og hinsvegar til austurs inn í svokallað Kvernugil og að Kvernufossi.  Slíkar gönguferðir voru oft farnar með rómantísku hugarfari og margir gamlir nemendur minnast þeirra. Fyrir kom, að hópar fóru annað hvort niður að Kvernuá, eða upp í heiðarbrúnina og þeir hörðustu busluðu eða tóku stundum sundtökin í köldu vatninu, þegar veður var gott.   Kvikmyndasýningar voru mjög vinsælar í samkomusalnum og voru haldnar stundum á laugardögum þegar ekki var dansæfing. Albert Jóhannsson kennari okkar stóð fyrir þessum sýningum með mikilli prýði og skemmti sér líka sjálfur mjög. Hann bjó einn á herbergi þessa vetur og var ógiftur. Síðast seinni veturinn var hann  búinn að krækja í eina fallega stúlku sem vann í eldhúsinu, ættaða úr Skaftafellssýslu. Hún varð síðar eiginkona hans í farsælu hjónabandi, eins og þeirra var von og vísa.   Ljósmynd Þjh-2017-1-14. Myndatexti: Skólastúlkur syngja Sankti Lúcíu til heiðurs á Lúcíuhátíð, 15. deseber 1953.   Ljósmynd Þjh-2017-1-16. Myndatexti:  Frá Lúcíuhátiðinni 15. des. 1953. Vitringarnir eru: Í fremri röð: Othar Smith, Grétar Ingi Sigurðsson og Skúli Jónsson. Í aftari röð eru þeir Guttormur Einarsson og Njörður Geirdal. Á sviðinu eru frá vinstri: Birna Daníelsdóttir, Valborg Sigurðardóttir og Teitur Ólafur Albertsson. Ljósmynd Þjh-2017-1-10. Myndatexti: Guðni S. Sigurðsson og Ásta Sveinbjarnardóttir leika gömul hjón, sem ræða búskapinn í fortíð og nútíð. Ljósmynd Þjh-2017-1-13. Myndatexti:  “Jólasveinar” komu í heimsókn á Lúcíuhátíðinni 15. des. 1953. Talið frá vinstri: Sverrir Ólafsson, Óskar Reynir Eiríksson, Sigmar Jóhannsson, Brynjólfur Samúelsson, Gunnar Ingi Jónsson, Brynjólfur Gíslason, Þorsteinn Eyjólfsson, Tómas B. Sigurðsson og Guðmundur Stefánsson. Ljósmynd Þjh-2017-1-21. Myndatexti:  Þessa mynd tók ég af félögum mínum í gönguför niður Skógasand og niður að sjó.        


Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Ekki er ég viss um það svona almennt. Þetta var fyrst og fremst afþreying og skemmtun fyrir orkumikla unglinga, til þess að eyða tómstundum og frítíma. Þó held ég svona eftir á að hyggja, að kennsluaðferðir Júlíusar Daníelssonar hafi einmitt verið til þess ætlaðar að efla félagslega þjálfun og framsögn. Mér fannst a.m.k síðar meir ég hafa haft gott af þessu og skildi betur tilgang hans síðar. Kennarar tóku ekki þátt í dansæfingum eða í málfundum


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

Íþróttir voru lítið stundaðar, Þó léku menn handbolta o.fl.í leikfimuhúsinu, en utan dyra var lítið annað en knattspyrnuleikir. Þar á meðal voru knattspyrnuleikir milli bekkja og bekkjardeilda.   Seinni veturinn minn var haldið knattspyrnumót allra bekkja skólans. Landsprófsdeildin tók auðvitað þátt í því, en við vorum 14 talsins í deildinni og þar af aðeins 8 strákar og svo harðneituðu tveir þeirra að spila og því  urðum við að setja stúlkurnar í liðið. Auðvitað töpuðum við öllum leikjuum okkar og urðum neðst.


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Áfengisneysla var auðvitað harðbönnuð alls staðar. Þó varð það svo að fara, veturinn sem ég var í 3. bekk, að nokkrir óprúttnir bekkjarbræður í gagnfræðadeildinni og raunar voru einn eða tveir í landsprófsdeildinni, sem voru í þessum  laumulegum hópi, sem tók upp á því að brugga landa..   Þeir höfðu líklega fengið sent bruggefnið, en sykrinum náðu þeir einhvernvegin frá skólamötuneytinu. Blöndu sína settu þeir í landaflöskur eða landageyma og komu þessu fyrir í fjárhúshlöðu skólabúsins, sem á þeim tíma var nokkurn vegin á þeim stað þar sem Byggðasafnið magnaða er núna, eða aðeins austar. Hlýtt var í heyinu og þetta gerjaðist eitthvað. Svo var það á samkomu í skólanum, að einhverja kennarana grunaði að tilteknir nemendur væru “kenndir”. Þá hófst mikil eftirgrennslan og leynileg leit að áfenginu.   Þessu komumst við að þegar svo bar við, að einn morguninn kom Jón skólastjóri rjóður í framan og reiður mjög, skyndilega inn í tíma hjá okkur í landsprófsdeildinni og kallaði tvo bekkjarfélaga okkar strax á sinn fund. Við komumst á eftir að því, að bústjórinn hafði kvöldið áður verið að leysa hey í hlöðunni, til þess að gefa fénu í fjárhúsinu. Þá fann hann brugglagerinn, sem nánast hrundi í fangið á honum. “Bruggararnir” voru svo ógætnir, að setja miða á flöskurnar og skrifa nafn eigandans á þær, svo eftirleikurinn var auðveldur. Bruggið var eðlilega gert upptækt og því hellt niður og “bruggararnir”  fengu “loka áminningu” fyrir brottrekstur. Við það sat, en enginn “bruggaranna” var þó rekinn úr skólanum fyrir þetta.   Varðandi tóbaksnotkun, var harðbannað að reykja í húsum skólans eða nálægt útidyrum, gluggum og inngöngum. Reykingar voru alls ekki almennar, en nokkrir reyktu þó, ef til vill þó ekki ennþá af fíkn eða þörf. Ekkert var þó sagt við því að þeir sem vildu reykja að þörf eða monti, færu alveg suður og austur fyrir sundlaugarbygginguna og reyktu þar undir gluggalausum veggnum í hvarfi við alla.   Sterkari efni voru alls óþekkt á þessum árum, að minnsta kosti í þeim hópum sem ég umgekkst.


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

Skólahúsinu var lokað kl. 10 á kvöldin. Gilti það líka fyrir allar heimavistirnar, sem voru læstar, svo og voru allar millihurðir innanhúss læstar, held ég. Mig minnir að slökkt hafi verið á ljósavélum skólabygginganna og alls staðarins kl. 11 á kvöldin. Líklega voru þær gangsettar um eða fyrir kl. 7 á morgnana og því var alls staðar svarta myrkur á nóttunni og ekki hægt að kveikja ljós. Margir áttu þó vasaljós og þar á meðal var ég.   Ég og herbergisfélagar mínir þessa tvo vetur, urðum sjálfir að sjá um að vakna á réttum tíma og koma okkur í morgunmat og í skólann. Þessi um 400 metra ganga í skólann, oft á móti leiðu veðri, gat verið erfið árið sem ég var úti í heimavistarhúsinu á Ytri-Skógum og veður var vont, t.d. þegar hávaðarok var, úrkoma eða snjókoma, sem oft kom fyrir.   Ekki minnist þég þess, að kennarar eða skólastjórinn færu í eftirlitsferðir um heimavistirnar eftir lokun þeirra á kvöldin. Varð að minnsta kosti ekki var við það, en sumir töldu sig vita um slíkar eftirlitsferðir í myrkrinu. Ekki var ástæðulaust að fylgjast með því að strákarnir reyndu ekki að læðast milli vistanna á síðkvöldum eða á nóttunni.   Eðlilega var bannað og raunar ómögulegt að fara út af heimavistargöngunum eftir kl. 10 á kvöldin. Þegar ég var í 2. bekk og þá í húsinu á býlinu í Ytri-Skógum, var allt mikið frjálslegra en í sjálfu skólahúsinu. Þar giltu þó þær reglur að það væri bannað að fara út eftir lokunartíma, þó svo að við gerðum það stundum ef veður var gott, annað hvort í óleyfi eða með leyfi Jóns Jóseps Jóhannessonar kennara, sem sjálfur hafði herbergi þarna og fylgdist með okkur, svona að nafninu til og aldrei urðu nein eftirmál af hans hálfu. Hann treysti okkur bara og það var ekki gott að bregðast því.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Allar slíkar minningar eru góðar og engin sérstök atvik komu upp, sem vert er um að geta hér. Samskiptin við starfsfólkið, eldhúsfólk og húsvörðinn eða staðarráðsmanninn Þórhall Friðriksson, voru með ágætum. Ein dóttir staðarráðsmannsins var raunar ein af bekkjarsystrum mínum og hann var hinn besti maður og vinsæll meðal kennara og nemenda.   Sumir kennararnir voru meiri “spæjarar” en aðrir og þar var William Th. Möller fremstur í flokki. Vart kom nokkuð fyrir sem fram hjá honum fór. Hann var ógiftur á þessum tíma, en seinna árið fundum við það út, að einhver samdráttur væri með honum og matráðskonunni. Hvort það var matarást veit ég ekki, en efast þó um það þótt William væri mikill matmaður. Þau giftu sig seinna og hjónabandið varð farsælt.  Williams Thomas lést aðeins 51 árs gamall, árið 1965.   Við höfðum líka gaman af því, þegar við vorum í 3. bekk, að fylgjast með inngangi að herbergjum eldhússtúlknanna, sem voru í sjónsviði frá okkar glugga. Bóndasonur sem við nokkrir þekktum og var hinn mesti myndarmaður, var á höttunum eftir einni fallegri eldhússtúlku. Við sáum hann stundum læðast til hennar á síðkvöldum.


Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

Sannarlega hafði þessi dvöl mín í Skógaskóla áhrif á mig og líf mitt. Í heimavistinni varð maður nokkuð sjálfstæður einstaklingur. Varð t.d. að þvo og strauja skyrturnar sínar og pressa buxurnar sjálfur. Dvölin hafði áhrif í þá átt, að gera mann sjálfstæðan. Þetta kom sér vel í langri heimavistardvöl næstu 4 veturna á Akureyri og seinna í lífinu.   Þessi dvöl á Skógum og umgengni við skólafélaga mína og vini, hafði einnig mikil áhrif g þekkti ekki og hafði jafnvel ekki hugmynd um að væri tilil þess að notaá á félagslegan þroska og meðvitund. Efldi tillitssemi og skilning á ýmsum vandamálum, sem jafnaldrar mínir þurftu sumir að glíma við, en ég þekkti ekki og hafði jafnvel ekki hugmynd um að væru til.


Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Einhvert spakmæli segir, að maður eignist vini fyrir tvítugt en kunningja eftir tvítugt. Þetta má vissulega til sanns vegar færa. Á Skógum eignaðist ég nána og góða vini, þar sem vinskapurinn entist til æfiloka sumra og stendur enn föstum rótum. Í 3. bekk kom t.d nýr piltur úr Hafnarfirði, Björn Ólafsson (1939-2006) og við vorum þarna saman í landsprófsdeildinni einn vetur. Vinskapur okkar skaut sterkum rótum og ég tel hann hafa verið minn besta vin um langa æfi. Við fórum saman í MA og deildum þar herbergi í heimavist í tvo vetur. Náið samband hans og  konuna hans við mig og mína konu hélst allt til láts hans í mars 2006.   Mér er kunnugt um að á Skógum urðu til mörg vinatengsl sem entust vel. Einnig voru nokkrir sem fundu þar maka sinn og ég þekki dæmi þar um að sum þau tengsl entust vel og til æfiloka, en önnur flosnuðu upp, sum þeirra nokkuð fljótt eftir að skólavistinni lauk.   Ljósmynd Þjh-2017-1-4. Myndatexti:  Bekkjarfélagar í 3. bekk. Talið frá vinstri: Bragi Óskarsson, Elín Skarphéðinsdóttir, Íris Gísladóttir Fanndal, Skúli Jón Sigurðarson, Sigrún Ingibjörg Halldórsdóttir, Magnús Kristjánsson, Elva Thoroddsen, Jóna Jónsdóttir og Guðmundur Sigurðsson. Ljósmynd Þjh-2017-1-9. Myndatexti:  Hér er enn ein mynd sem ég tók af bekkjarsystrum mínum í 3. bekk: talið frá vinstri: Ingibjörg Þorgilsdóttir, Elín Skarphéðinsdóttir, Ásdís Björnsdóttir og Harpa Þorvaldsdóttir. Ljósmynd Þjh-2017-1-24. Myndatexti:  Góðir vinir í 3. bekk Skógaskóla veturinn 1954-1955. Talið frá vinstri – fremri röð: Skúli Jón Sigurðarson, ÖrnKarl Sigfried Þorleifsson (d.2017), Vésteinn Ólason og Sævar Þ. Jóhannesson.  Aftari röð: Grétar Ingi Sigurðsson, Stefán Kr. Sverrisson, Kristinn Kristinsson, Bragi Óskarsson og Björn Ólafsson (d.2006). 


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

Þarna voru unglingar, flestir á aldrinum 13 -17/18 ára í nokkuð lokuðu samfélagi og dvölin var samfelld allan skólatímann, frá hausti til vors. Eðlilega mynduðust vinahópar af ýmsum stærðum og talsvert var um það pör yrðu til.   Sum þessara para voru mjög náin og mjög ástfangin. Oftast fór þó svo, að sambandið entist ekki og ég minnist þess, að slík pör sem voru þannig fyrri veturinn minn, en síðari veturinn var öllu lokið og enginn samdráttur lengur á milli þeirra. Svo voru afar náin pör allan tímann og ég veit að æði mörg þessara sambanda gufuðu upp! – en önnur entust og örfá mjög lengi, einstaka allt til æfiloka, eins og áður sagði.   Ekki hætti ég mér út í frásagnir af kynlífi, en það var ekkert óþekkt og aðstæður voru hreint ekki svo slæmar utanhúss góðu veðri og í fallegu landslagi hlíðanna í nánd við skólann. Svo voru fjárhús og fjárhúshlaða býlisins skammt frá og í hvarfi við skólann!


Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?

Þetta varð maður var við. Samt held ég og þá tala ég af tilfinningu sem ég fékk, að all flestir nemendurnir komu úr sveitum sýslnanna tveggja og voru fremur sjálfstæðir í hugsun og framkvæmdum. Minnist þess þó, að við töluðum sumir um klíkur, þar sem einn og einn safnaði um sig litlum hópi og vildi stjórna e.t.v. fleiru en öðrum líkaði. Í þessu sambandi get ég minnst á t.d. hópinn sem tók upp á því að brugga áfengi, til þess að njóta betur skemmtana og lífsins þarna. Ég a.m.k. hafði frekar ýmugust á þessu og man ekki sérstaklega eftir svona “foringjatilburðum”.   Skólafélagið var ekki öflugt. Þar var þó kosin stjórn, sem hélt skráða fundi af og til. Ég var í einni svona stjórn, en man ekki eftir neinu merkilegu sem frá henni kom. Félagslífinu var mest stjórnað af kennurunum, svo sem af hinum ágæta Albert Jóhannssyni


Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Einelti var óþekkt hugtak á þessum tíma. Hins vegar man ég eftir því að einstaka einstakling var strítt meira en góðu hófi gegndi og var það vafalaust það sem nú er nefnt einelti.   Hins vegar fullyrði ég, að í allri minni skólavist var aldrei um nokkuð slíkt að ræða sem kalla mátti einelti, í þeim bekkjum sem ég var í. Gildir það sérstaklega um fjögurra ára heimavistar-dvöl mína í MA næstu veturna á eftir Skógadvölinni.   Kynferðislegt áreiti er eitthvað sem ég minnist ekki og aldrei kom í hugann. Ef til vill var skilgreining þessa hugtaks ekki eins skýr og umtöluð og nú á dögum. Vafalaust mætti nú kalla margt “kynferðislegt áreiti”  sem kom fyrir og átti sér stað þarna í samskiptum kynjanna.   Samkennd og samstaða var okkar einkenni. Ég er þó viss um, að slík samkennd og samstaða skapast ekki, nema sterkir einstaklingar móti hana með framkomu sinni í orði og í æði. Það er hægt að sanna með því sterka sambandi sem er enn milli bekkjarfélaga minna og árlegra samfunda okkar. Það á raunar við bæði Skógafélagana og MA-félagana. Engar slíkar tilfinningar eða minningar eru í huganum um einelti eða niðurlægingu.


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Ég veit, að enn eru hópar gamalla vina og þá sérstaklega meðal bekkjarsystranna svo sem gamalla herbergisfélaga þeirra, sem hittast reglulega t.d. í “saumaklúbbum” og hafa gert alla tíð, allt frá því að skólavistinni lauk á Skógum fyrir tæplega 63 árum síðan.   Eins og áður kom fram, þá er enn, eftir öll þessi ár sem liðin eru frá útskrift okkar bekkjarfélaganna á Skógum, mjög traust vináttusamband milli gamalla félaga í bekknum mínum frá Skógaskóla.   Ég verð að viðurkenna, að ég á e.t.v. sjálfur nokkurn þátt í því, að hópur okkar hefur haldið saman og komið reglulega saman alla tíð. Ég og ein bekkjarsystir mín, Guðbjörg Ársælsdóttir, sem lést 2016 úr krabbameini, tókum okkur fljótlega saman um að halda utan um hópinn og kalla allan eftirlifandi hópinn reglulega til samfunda, við miklar vinsældir gömlu félaganna. Hennar vinnustaður var tengdur mínum vinnustað,  við hittumst oft í vinnunni og ég þekkti “Tedda listamann” manninn hennar nokkuð vel. Við ákváðum að halda utan um hópinn okkar.   Fyrstu fjörtíu árin eftir útskrift hittumst við - öll sem áhuga höfðu -  og þeir voru æði margir og við fórum þá nánast alltaf árlega í dags ferðalag saman. Þessir samfundir voru fyrst á 10 ára fresti og síðan nokkrum sinnum á 5 ára fresti.   Síðustu tæplega 20 árin, höfum við hist saman í kaffi einu sinni á hverju vori og frá því að við fórum að hittast í kaffi hér í Reykjavík, þá hafa nokkrir makar gjarnan komið og blandast þessum góða hópi.   Nokkuð hefur dregið úr mætingu og verður að telja það eðlilegt. Af þeim 42 sem útskrifuðust vorið 1955 úr 3. bekk Skógaskóla, eru 17 núna látnir, nokkrir búa úti á landi, einn eða tveir erlendis og a.m.k einn er á hjúkrunarheimili.   Ljósmynd Þjh-2017-1-23. Myndatexti:  Þessi mynd er frá 60 ára útskriftarafmæli okkar 3. bekkinga, sem haldið var upp á haustið 2015. Þá buðum við hinum hressu og ótrúlega “ernu” skólastjórahjónum, Jóni Rafnari Hjálmarssyni og Guðrúnu Hjörleifsdóttur í samkvæmið. Eins og sjá má, þá er ekki auðvelt að greina það að þau eru þarna um nírætt - hann 93 ára, en hun 88 ára gömul Við hin flest erum um 75 - 80 ára gömul. Nöfn þeirra sem eru á fyrri myndinni eru hér á eftir, 6 makar eru merktir með (M): Fremsta röð frá vinstri: Magnús Theodór Magnússon(Teddi) (M), Emma Raskhilda Hansen Jóhannesson(M), Harpa Þorvaldsdóttir, Guðrún Hjörleifsdóttir, Jón R. Hjálmarsson, Skúli Jón Sigurðarson. Miðröð frá vinstri: Guðbjörg Ársælsdóttir (látin 2016), Unnur Alexandra Jónsdóttir(M), Jóhann Kjartansson (M). Aftasta röð frá vinstri: Sjöfn Friðriksdóttir(M), Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir, Erla Markúsdóttir (látin 2017), Ásdís Björnsdóttir, Jóna Jónsdóttir, Sigrún Ingibjörg Halldórsdóttir,  Stefán Kr. Sverrisson, Vésteinn Ólason, Valgerður Gísladóttir, Sævar Þ. Jóhannesson, Ingibjörg Þorgilsdóttir, Bragi Óskarsson, Áslaug Ólafsdóttir, Villard Fiske Ólason(M), Njáll Þorbjörnsson(M), Jón Birgir Guðnason (M) (látinn 2016) og Jón Rögnvaldsson (M). Ljósmynd Þjh-2017-1- 19. Myndatexti: Að lokum er mynd, sem tekin var í maí 2017, á síðusta endurfundi okkar hóps, það er að segja þeirra 14 sem þá komu. Á myndinni eru að auki  7 makar: Aftari röð; Jón Rögnvaldssog(M), Skúli Jón Sigurðarson, Kristþór Z. Sveinsson(M), Njáll Þorbjörnsson(M), Jóna Jónsdóttir, Villard Fiske Ólason(M), Valgerður Gísladóttir, Áslaug Ólafsdóttir, Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir, Ingibjörg Þorgilsdóttir, Harpa Þorvaldsdóttir, Sigrún  I. Halldórsdóttir, Sævar Þ. Jóhannesson. Fremri röð: Ásdís Björnsdóttir, Sjöfn Friðriksdóttir(M), Erna G. Þórðardóttir, Stefán Kr. Sverrisson, Jóhanna Guðný Sigurðardóttir (M), Bragi Óskarsson, Guðlaug Þorsteinsdóttir(M) og Emma Raskhilda Hansen Jóhannesson(M).          


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana