LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1961-1962
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn að Laugarvatni
ByggðaheitiLaugarvatn
Sveitarfélag 1950Laugardalshreppur
Núv. sveitarfélagBláskógabyggð
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1946

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-89
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/20.11.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

Ég var í landsprófsdeild í Héraðsskólanum á Laugarvatni veturinn 1961-1962. Það var engin landsprófsdeild í mínum heimabæ og þess vegna varð ég að leita annað. Ég sótti um í þremur skólum; landsprófsdeild Menntaskólans á Akureyri, Héraðsskólanum á Skógum og Héraðsskólanum á Laugarvatni. Laugarvatnsskólinn var sá eini sem veitti mér skólavist svo valið var auðvelt. Kristján Ingólfsson, skólastjóri Barna- og unglingaskólans á Eskifirði aðstoðaði okkur við að sækja og hefur líklega lagt inn gott orð fyrir okkur. Við vorum sjö Eskfirðingar sem fórum í skólann þetta haust, 5 stelpur og 2 strákar. Ein stelpan var í öðrum bekk, þrjár stelpur í gagnfræðadeildinni og ég og strákarnir í landsprófsdeildinni.


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Skólinn hófst í byrjun október. Ég man að í september barst bréf frá skólanum þar sem tekið var fram hvað hafa þyrfti með sér; rúmföt, handklæði, leikfimiföt, sundföt, borðlampa o.s. frv. Einnig var tekið fram að neysla tóbaks og áfengis væri bönnuð í skólanum og með því að þiggja skólavist hefðu nemendur undirgengist það bann. Mér fannst þetta allt mjög spennandi.


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Transistor útvarpstæki.


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Leiðin lá um Reykjavík og þangað fórum við með flugvél frá Egilsstöðum. Ég gisti nokkra daga í Kópavogi hjá móðursystur minni sem þar bjó. Ég átti eftir að verða reglulegur gestur hjá henni þá fimm vetur sem skólavist mín á Laugarvatni stóð. Svo lá leiðin frá BSÍ við Kalkofnsveginn austur fyrir fjall með rútu frá Óla Ket. Við sátum saman í rútunni tvær eskfirskar stelpur. Við vorum spenntar og svolítið kvíðnar. Amma sessunautar míns hafði gefið henni vínber í nesti og við mauluðum þau á leiðinni. Við höfðum aldrei farið þessa leið fyrr. Á hlaði Héraðsskólans tók skólastjórinn á móti okkur. Ég hafði vonast til að verða á herbergi með einhverri af eskfirsku stelpunum en lenti með annarri stelpu sem líka var í landsprófi. Við vorum 20 í landsprófsbekknum, 4 stelpur og 16 strákar. Skólinn valdi þá nemendur sem fengu að setjast í landsprófsbekkinn. Það var skilyrði að hafa fengið 1. einkunn (7,25) á unglingaprófi uppúr 2. bekk. Sambúðin við þessa bekkjarsystur mína gekk ágætlega en eftir nokkra daga kom í skólann herbergissystir hennar frá fyrra ári og þær óskuðu eftir að vera saman og fékk ég þá Eskfirðing til mín (samferðakonuna með vínberin) og varð því ósköp fegin.  


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

Skólinn byrjaði sem fyrr segir í byrjun október og lauk seinni part maí hjá þriðju bekkingum en eitthvað fyrr hjá fyrsta- og annarsbekkingum. Jólafrí var 2-3 vikur. Við vorum öll samferða austur með Esjunni í jólafríið. Einu sinni fyrir jól og einu sinni eftir var langt helgarfrí sem var kallað leikhúsfrí. Þá fóru flestir til Reykjavíkur og skipulögð var ferð í Þjóðleikhúsið. Svo var páskafríið 10 dagar. Við fórum bara heim í jólafríinu, í hinum fríunum dvaldist ég hjá ættingjum í Reykjavík.


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

Síðustu helgina áður en 1. og 2. bekkingar héldu heim um vorið var haldið svokallað Táraball. Þar urðu sumir að kveðja elskuna sína. 3. bekkingar urðu eftir og voru útskrifaðir með pompi og prakt að loknum prófum. Eftir það var haldið í skólaferðalag vestur á land undir stjórn skólastjórans og gist í svefnpokum í skólanum á Reykhólum við Breiðafjörð. Einhverjum okkar þótti tilhlýðilegt að stelast út í bjarta vornóttina og niður að sjó eftir að við áttum að vera gengin til náða. Tilgangur þess var enginn annar en að gera það sem var bannað eins og oft vill verða á þessum aldri. Leiðir flestra skildi svo þegar við komum til baka til Reykjavíkur. Því fylgdu blendnar tilfinningar, leiði yfir að kveðja félagana og ánægja yfir því að þessum áfanga var lokið.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Ég skrifaðist á við móður mína, ömmu mína og yngri frænku  mína sem bjuggu í Reykjavík, vinkonu mína á heima á Eskifirði og einhverja fleiri eins og þá gekk og gerðist. Móðir mín hringdi reglulega í mig. Enginn sími var á heimavistinni. Það var sendur drengur frá símstöðinni með kvaðningu á miða um að mæta skyldi þar á tilteknum tíma til símtals. Svo fór maður inn í „box“, örlítinn klefa á símstöðinni, og talaði þar. Símstöðin var í einu heimavistarhúsinu í mjög litlu rými og hún var ekki opin allan daginn. Það vann ein kona.   Einu sinni kom faðir minn og faðir annarrar stelpu frá Eskifirði í heimsókn. Þeir voru staddir í Reykjavík á fiskibát sínum, einhverra hluta vegna, og ég man ekki betur en að þeir tækju sér leigubíl austur á Laugarvatn til að heimsækja okkur.   Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?   Auðvitað saknaði ég fjölskyldu minnar og heimilis. Ég saknaði mest litla bróður míns sem var sex ára. Hann var (og er) eina systkini mitt. En í aðra röndina var ég fegin að vera laus undan húsaga móður minnar. Ég var fimmtán ára og mér fannst þetta stórt skref í áttina til þess að verða fullorðin. Og ég undi hag mínum nokkuð vel og líkaði vel við stelpurnar á vistinni.  


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Auðvitað saknaði ég fjölskyldu minnar og heimilis. Ég saknaði mest litla bróður míns sem var sex ára. Hann var (og er) eina systkini mitt. En í aðra röndina var ég fegin að vera laus undan húsaga móður minnar. Ég var fimmtán ára og mér fannst þetta stórt skref í áttina til þess að verða fullorðin. Og ég undi hag mínum nokkuð vel og líkaði vel við stelpurnar á vistinni.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

Skólahúsið sjálft var hið fallega og mjög svo ljósmyndaða burstabæjarsstílshús, hannað af Guðjóni Samúelssyni. Á neðstu hæð þess var eldhús og borðsalur og karla- og kvennasalerni. Á hæðinni þar fyrir ofan voru skólastofurnar fjórar og kennarastofan. Á milli skólastofanna voru léttir „harmonikku“ veggir á hjörum þannig að hægt var að opna á milli þeirra allra og gera úr þeim eitt rými þegar mikið lá við, t.d. á árshátíð og á prófatíma. Heimavist fyrir stelpur var í þessu húsi. Á þriðju hæðinni sem kallaðist „neðri-burstir“ voru herbergi sem ætluð voru 3-4 stelpum. Það bjuggu allar 1. og 2. bekkjar stelpurnar og  u.þ.b. helmingur af gagnfræðadeildarstelpunum. Efsta hæðin kallaðist efri-burstir. Þar var allt undir súð, 5 heimavistarherbegi, salerni og ein kennslustofa, handavinnustofan. Herbergin á efri-burstunum voru minni en á þeim neðri, en á móti kom að þar voru aðeins tvær stelpur  á hverju. Það þóttu forréttindi að búa á efri-burstunum, þar vorum við þessar þrjár landsprófsstelpur sem bjuggum á vistinni (ein var „af staðnum“) og 7 gagnfræðadeildarstelpur. Í ystu burstunum voru íbúðir fyrir starfsmenn, það bjuggu tveir kennarar með fjölskyldur sínar og hjúkrunarfræðingur sem annaðist nemendur allra skólanna á staðnum; Héraðsskóla, Menntaskóla, Húsmæðraskóla, Íþróttakennaraskóla og Barnaskóla. Strákarnir bjuggu í þremur heimavistarhúsum skammt frá skólahúsinu. Þau hétu (og heita) Hlíð, Mörk og Grund. Tvö  þeirra voru einnar hæðar en undir Mörkinni var kjallari. Í Merkurkjallaranum bjuggu starfsstúlkur mötuneytisins Herbergin þar voru flest lítil, tveggja manna. Í hverju húsi var eitt stærra herbergi þar sem bjuggu þrír.  Ein kennaraíbúð var í hverju þessara húsa.


Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

Stofan var meiri á breidd en lengd. Við sátum í þremur röðum, þessir tuttugu nemendur. Fremst var kennaraborð og stóll uppi á einhvers konar palli, á bak við það var tafla. Þetta var ósköp venjuleg skólastofa með einföldum borðum og óþægilegum stólum.  


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Sjá framar.


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

Það voru tvö rúm en við færðum þau saman í „hjónarúm“  Tvö lítil borð og tveir stólar. Mig minnir að vaskur hafi verið inni á herbergjunum en eitt salerni var sameiginlegt fyrir þessar 10 stelpur sem bjuggu á efri burstunum. Baðherbergi með baðkeri var á neðri-burstunum og höfðum við aðgang að því. Ég man ekki hvort það voru eitt eða tvö baðherbergi fyrir þesssar ca. 40 stelpur.  


Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Það var ákveðin sætaskipan í matsal og kennslustofu. Hún réðist bara af því hvar menn náðu í sæti í upphafi skólaárs. Stelpur sátu yfirleitt saman og strákar saman.  


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Slíku var ekki til að dreifa. Það var safnast saman í smáhópum á herbergjum t.d. á kvöldin.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?

Morgunmatur var etinn áður en skóli hófst kl. um 8.. Mötuneytið var tvísetið, nemendur Menntaskólans og Íþróttakennaraskólans snæddu þar líka á eftir Héraðsskólanemum. Þeir fengu t.d. ekki morgungrautinn fyrr en eftir fyrstu kennslustund kl. 8:40  


Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

Maturinn var einfaldur og einhæfur. Hann fór að einhverju leyti eftir vikulegri skrá, t.d. var oftast saltfiskur í hádeginu á laugardögum. Sunnudagsmaturinn var gjarnan lambasteik (steiktir súpukjötsbitar) með hefðbundnu meðlæti. Í morgunmat var hafragrautur. Brytinn fylgdist með því að menn fengju sér ekki of mikð á diskana og ekki var í boði að fá sér tvisvar. Þetta var ekki tilfinnanlegt fyrir okkur stelpurnar en strákarnir voru oft svangir. Einn eftirmiðdag í viku komu þeir svangir úr sundi í kaffitímann og þá var brytinn sérlega passasamur með að þeir fengju sér ekki meira en hinn leyfilega skammt, eina kökusneið og eitt Frónkex með mjólkurglasinu. Ef einhver sást taka meira varð hann að skila því aftur.  Kaffi var ekki á boðstólum, hvorki fyrir hérskælinga, menntskælinga né íþróttakennaraskælinga. Nokkrir kennarar borðuðu í mötuneytinu. Þeir borðuðu að sjálfsögðu við sér borð og fengu matarföt á borðið til sín en nemendur tóku sér mat á diska af sérstöku borði og fóru með á borð sín. Að máltíð lokinni skiluðu menn diskum og hnífapörum við eldhúsið. Stelpurnar borguðu aðeins 80% af því sem strákarnir borguðu í mötuneytiskostnað. Ekki veit ég hvort það var hugsað útfrá því að þær ætu minna eða því að þær höfðu almennt lægri laun fyrir sumarvinnu. Stundum fengu nemendur senda pakka að heiman og þá gjarnan með kökum eða einhverju öðru matarkyns og deildu því með vinum sínum.  


Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

Nemendur unnu í borðsal, fjórir saman í hvert sinn að mig minnir og mættu þá ekki í skólann þá daga nema að takmörkuðu leyti. Vinnan fólst í því að bera á borð og taka af þeim og einhverjum þrifum. Mig minnir samt að við höfum ekki þurft að vaska upp. Ætli hver nemandi hafi ekki „verið í eldhúsinu“ 4 sinnum yfir veturinn. Strangt eftirlit var með umgengni og þrifum á herbergjum nemenda. Skólastjóri gekk á öll herbergi meðan fyrsta kennslustund stóð yfir og leit eftir að búið væri um rúm, gólf væru sópuð og hrein og ekkert dót á glámbekk. Eitt sinn sótti hann bekkjarbróður minn í kennslustund og rak hann samstundis niður í Grund til að þrífa upp kusk undan rúmi sín. Og ein stelpan var rekin úr tíma upp á herbergi til að ganga frá hárrúllum sem hún hafði skilið eftir á borðinu.  


Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

Niðri við hverinn var þvottahús og þar var kona, Ásta Halldórsdóttir að nafni sem sá um að þvo rúmföt og handklæði fyrir okkur. Ásta var einstaklega alúðleg kona. Fatnað okkar þvoðum við stelpurnar hins vegar sjálfar uppúr handlauginni á klósettinu á efri burstunum og þurrkuðum hann þar á snúru.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?

Það var kennt sex daga vikunnar, alla daga frá 8-12 og flesta daga eitthvað eftir hádegi, ekki þó á laugardögum.  


Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

Kennslugreinar í landsprófsbekknum voru íslenska, danska, enska, stærðfræði, eðlisfræði, saga, náttúrufræði og landafræði. Kennslan fór að mestu leyti þannig fram að nemendum var sett fyrir tiltekið efni til að læra heima og kennararnir tóku þá svo upp í tímum og yfirheyrðu þá til að kanna hvernig til hefði tekist með heimalærdóminn. Stærðfræðin var þó undantekning, þar voru tímarnir meira notaðir til útskýringa. Við gerðum  danska og enska stíla heima, fengum þá til baka leiðrétta með rauðu og ef villufjöldinn fór yfir einhverja mjög lága tölu varð að hreinskrifa stílinn í aðra bók og skila honum aftur. Engin hlustun á framburð innfæddra var í boði, engar myndir voru notaðar í landafræði eða náttúrufræði aðrar en þær sem voru í kennslubókunum. Ég man ekki eftir að við gerðum ritgerðir í íslensku enda var ekki prófað í því á landsprófi. Landsprófið byggiðst nær eingöngu á utanbókarlærdómi minnisatriða (Að kannski undanteknum stærðfræðinni og eðlisfræðinni.).  


Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Landsprófsnemendur fengu ekki kennslu í handavinnu og vélritun ens og gagnfræðadeildarnemendurnir. Þeir áttu að einbeita sér að hinni andlegu spekt. Ég fékk heldur enga kennslu í vélritun í menntaskóla og það hefur hamlað mér alla tíð að hafa lært fingrasetninguna of seint.


Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?

  Enga.


Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Sundtími var einu sinni í viku og leikfimi tvisvar. Stelpur og strákar voru í aðskildum hópum.  


Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

Það var yfirleitt ekki farið út í frímínútum. Stelpurnar gátu skroppið upp á herbergi sín ef þær vildu, þar sem þau voru í sama húsi og kennslustofurnar en annars var hangið í holinu framan við stofurnar.


Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

Það var lestími frá kaffi og fram að kvöldmat og var þá ætlast til að við værum á herbergjunum og læsum og værum ekki að trufla aðra. Skólastjórinn gekk stundum á herbergin í lestímum til að líta eftir því að nemendur væru niðursokknir í lesturinn. Um aðstoð var ekki að ræða, aðra en þá sem nemendur veittu hver öðrum.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).
Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?
Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

Skólafélag var starfandi. Formaður þess, ritari og gjaldkeri voru allt strákar. Annað kom ekki til greina. Gefið var úr fjölritað skólablað einu sinni yfir veturinn. Skólafélagið hélt málfundi, böll og árshátíð. Á árshátíðinni var sýnt leikrit sem hét „Borðdans og bíómyndir“. Skólafélagið stóð fyrir skólaböllum. Nokkrum sinnum yfir veturinn voru sameiginleg böll fyrir nemendur allra skólanna. Nemendur Menntaskólans stóðu fyrir þeim að undanteknum árshátíðum Héraðsskólans og Húsmæðraskólans. Hin böllin fylgdu ákveðnum hefðum t.d. hjónaballið, þar sem pör voru dregin saman með númerum. Skylda var að dansa a.m.k. þrjá dansa við „maka“ sinn. Á beatballið átti að mæta í búningum (en ekki með grímu.) Dimmisjón menntskælinga fylgdi líka ball sem mig minnir að hafi verið opið öllum nemendum á staðnum. Á þessi sameiginlegu böll voru stundum fengnar aðkomuhljómsveitir en annars spilað skólahljómsveit eða notast var við segulband.


Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Skólastjórinn stjórnaði æfingum á leikritinu fyrir árshátíðina. Ég minnist þess ekki að kennararnir skiptu sér af félagslífinu að öðru leyti en því að þeir sinntu eftirliti á böllum.  


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

Mig rámar í sundkeppni milli bekkja.


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Reykingar og áfengisneysla voru bönnuð. Engu að síður voru nokkrir nemendur sem reyktu í laumi. Það var t.d. farið upp í skóg og út á vatn til að reykja. Í stofuglugganum hjá skólastjóranum stóð yfirleitt sjónauki. Við höfðum fyrir satt að hann væri notaður til að fylgjast með bátsferðum nemenda á vatninu til þess að sjá hvort þeir væru að reykja.  Ég varð ekki vör við áfengisneyslu og held að það hefi verið lítið um hana, ef nokkuð.  


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

Heimsóknir milli karla- og kvennavistar voru heimilar í hádegishléinu að afloknum mat og eftir hádegi á sunnudögum. Ekki  var þó alveg laust við að farið væri í heimsóknir á öðrum tímum, t.d. man ég eftir að skólastjórinn gómaði okkur herbergissysturnar eitt sinn í heimsókn á strákavistinni, líklega í lestíma og bað okkur að „hætta að trufla þessa ungu fræðimenn.“   Skólastjórinn gekk líka stundum á herbergin á kvöldin til að líta eftir að allir væru á sínum stað og allt komið í ró. Eitt sinn við slíkt tækifæri kom hann að einni námsmeynni hálfháttaðri á brókinni. Hún rak upp vein og skýldi sér á bak við skápshurð en stjóri lét sér hvergi bregaða og stóð og spjallaði drjúga stund.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Brytinn var ekki vinsæll af nemendurm. Því er áður lýst hve naumur hann var á matinn. Eitt sinn  sem oftar stóðum við í biðröð eftir því að komast inn í matsalinn. Þegar brytinn opnaði dyrnar að matsalnum skaust mús yfir gólfið. Hann lyfti fæti og trampaði á henni svo eftir lá blóðug klessa á gólfinu. Það var ekki lystaukandi.


Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?
Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Það var fyrst og fremst gaman að kynnast nýjum krökkum en þau urðu flest kunningjar mínir frekar en vinir. Ég eignaðist þó eina nýja vinkonu, við skrifuðumst á í 1-2 ár og hittumst stöku sinnum. En svo fjaraði sambandið út og við hittumst ekki aftur fyrr en bekkurinn fór að koma saman næstum 50 árum síðar.  


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

Það var töluvert um pör en samböndin entust oft stutt. Sumar átt 2-3 kærasta yfir veturinn. Þó voru lögð drög að tveimur hjónaböndum í mínum árgangi, annað endist enn og hitt entist til dauða eiginmannsins. Ég held að þessi sambönd hafi yfirleitt takmarkast við vangadans, kossa og kelerí. Hafa verður í huga að nemendur voru á aldrinum 13-17 ára. Viðhorf til kynlífs  var allt annað þá en nú. Getnaðarvarnir fyrir unglinga lágu ekki á lausu, allra síst í uppsveitum Árnessýslu. Og næði til kynlífs var torfundið á heimavistinni.


Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?
Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Við nemendur lögðum einn kennaranna í einelti. Hann var ungur stúdent og nýbyrjaður að kenna. Honum gekk illa að halda uppi aga og nemendur gengu á lagið og voru  með hávaða og fíflalæti í tímum. Hann fékk engan stuðning frá samkennurum eða skólastjóra svo ég vissi, fyrr en tveir nemendur sýndu honum mjög grófa áreitni. Þeir hægðu sér í skóhlífarnar hans. Fyrir það var þeim vísað úr skóla tímabundið en svo teknir aftur. Ég hitti þennan mann löngu síðar á skólaslitum þar sem verið var að „júbílera“ og fólk orði hreift af víni. Ég færði þetta í tal við hann, hvað við hefðum hagað okkur illa. Þá sagði hann: „Þið í landsprófinu voru nú ágæt.“ Í minningu minni er það ekki þannig en líklega hafa aðrir bekkir verið enn verri. Þess má geta að þessi maður átti seinna langan og, að því er ég best veit, farsælan kennsluferil við framhaldsskóla.   Skólastjórinn lagði suma nemendur í einelti. Hann valdi sér fórnarlömb sem voru feimin, áttu í erfiðleikum með námið eða stóðu að öðru leyti höllum fæti.  Nemendur af staðnum eða úr sveitinni sem áttu vísan bakhjarl í foreldrum sínum voru yfirleitt látnir í friði. Eftirfarandi atvik úr enskutíma er mér minnisstætt:   Skólastjóri:  X, vilt þú lesa. X stendur upp samkvæmt venju þegar nemendur voru teknir upp og les. Skólastjóri: Horfið nú á þennan mann. Hann kemur hingað með háa einkunn í ensku frá unglingaskólanum á Y.  Og svo stendur hann hér og segir „skurk“ þegar hann á að segja „church“ Horfið nú vandlega á hann.


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Hópurinn hittist þegar 30 ár voru liðin frá útskrift, 1992 og aftur þegar fimmtíu ár voru frá útskrift 2012.  Síðan höfum við hist nokkrum sinnum á kaffihúsi og hist var yfir kvöldverði sl. vor 2017 í tilefni 55 ára frá útskrift. Þátttaka hefur verið nokkuð góð og þessar samkomur ánægjulegar.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana