LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1957-1960
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurReykjanesskóli við Djúp
Annað staðarheitiHéraðsskólinn í Reykjanesi
ByggðaheitiDjúp
Sveitarfélag 1950Reykjarfjarðarhreppur
Núv. sveitarfélagSúðavíkurhreppur
SýslaN-Ísafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1942

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-87
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/20.11.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?
Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.
Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?
Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?
Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?
Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Heimili (sveitarfélag) meðan á námi stóð: Suðureyri við Súgandafjörð.   Haldið í héraðsskóla   Eftir “fullnaðarpróf,” sem tekið var að vori þess árs sem börn urðu 14 ára, fór ég í skóla í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.   Þetta var í janúar 1957 og síðan á sama tíma 1958 var svo einn vetur heima en þann vetur fékk ég bréf frá skólastjóranum um að veturinn 1959 – 1960 yrði starfrækt gagnfræðadeild þar og mér boðin þátttaka.  Það var þó ekki venjan heima í Súganda að nemendur færu í Reykjanes því hjá þeim sem fóru í héraðsskóla (það voru ekki allir) fóru flestir eða allir að Núpi.  Þangað fóru t.d. öll systkini mín.    Ástæða þess að ég valdi Reykjanes var tvíþætt.  Annars vegar vildi ég ekki vera eins og hinir og auk þess átti ég vinkonu sem talaði um það allan síðasta veturinn í barnaskóla hvernig við mundum haga okkur, hvað við mundum gera þegar við færum að Núpi og yrðum þar samtíða eldri bræðrum okkar.  Ég er ekki manngerðin sem er samloku-vinkona en á margar mismunandi vinkonur og á ýmsum aldri.  Líklega var vilji minn samþykktur vegna þess að það var mun ódýrara að vera í Reykjanesi því þar var ekki heils vetrar skóli heldur stóð hann aðeins í þrjá mánuði eða frá því eftir áramót og fram yfir eða að páskum.   Tveir fermingarbræður bróður míns höfðu verið veturinn áður í Reykjanesi og þótti hann strákaskóli því þar var kennd mikil handavinna.  Ég var hins vegar ekki mikið fyrir handavinnu og fannst ekkert verra en þegar stelpurnar voru að trufla spennandi lestur hjá kennaranum í barnaskólanum með því að biðja hana að hjálpa sér.  Enda var sú sem kenndi okkur handavinnu í barnaskóla mjög undrandi á hve mikla handavinnu ég hafði gert í Reykjanesi þegar hún kom heim og skoðaði afraksturinn.  Ég huggaði hana með því að ég hafi nú ekki verið sú duglegasta þar en ég nefndi það ekki að þar hafi ekki verið lesnar spennusögur fyrir nemendurna.   Ég minnist þess að mamma fór með mig til Ísafjarðar með póstbátnum til að kaupa eitthvað af fötum og eins var saumaður á mig kjóll, að minnsta kosti í fryrsta skiptið.  Ég átti hins vegar fyrir þessum innkaupum því það var hefð heima að við innum í frystihúsinu,  var ekki orðin 10 þegar ég byrjaði að þvo pönnur.   Líklega hef ég haft með mér sæng og rúmföt en ég man að ég hafði eina ferðatösku, ekki stóra, úr hertum pappa sem var sett undir rúm til geymslu og með einhverju af fötum í því það var bara einn lítill skápur fyrir fötin okkar í herberginu. Botninn á töskunni varð síðan allur í bylgjum vegna gufu og hita sem kom upp um rifur á steyptu gólfi heimavistarinnar. Ég átti ekki myndavél eins og sumir í skólanum og þetta var fyrir tíma kassettutækja en segulbönd voru þó sums staðar til, hef aldrei spilað á gítar og þótt mér hafi þótt gaman að syngja og spila á spil man ég ekki til þess að hafa haft þau með og engar bækur þótt ég væri nú frekar mikill bókaormur.   Mér fannst ekki erfitt að fara að heiman, ég var vön því og þótti alltaf gaman að flakka og þykir enn.  Það var venja heima að við brottför og heimkomu kvöddumst við og heilsuðust öll með kossi.  Ferðalagið í Reykjanes hófst með því að ég fór með póstbátnum Fagranesinu til Ísafjarar þar sem ég gisti hjá frænku minni áður en haldið var með póstbátnum inn í Djúp.  Viðkomustaðir bátsins  voru ansi margir á þessum tíma líklega ekki færri en tugur enda þetta eina samgöngutækið við bæji við Djúpið og eyjarnar því vegurinn var ekki lagður fyrr en í kringum 1970.   Eins og áður sagði hófst fyrsta skólaárið upp úr áramótum 1957 og lauk um eða eftir páska.  Líklega hafa skólalok verið fyrir páska fyrri tvo veturna því ég man bara eftir að hafa verið í skólanum yfir páska síðasta veturinn 1959 – 1960. Barnaskóli var starfræktur bæði vor og haust þegar unglingarnir voru ekki á staðnum en síðasta veturinn minn og fyrsta veturinn eftir að gagnfræðadeildin hófst var barnaskólinn starfræktur samhliða henni.  Ég hef alltaf verið mikið fyrir að hitta fólk og finnst ekkert erfitt að kveðja skólasystkinin. Það tóku alltaf ný ævintýri við.Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?
Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Tengsl við fjölskyldu og heimili  Það voru ekki mikil samskipti við heimili mitt á meðan ég var í skólanum.  Eingöngu bréfaskipti.  Enginn sími var heima á þessum tíma svo að ef þurfti að ná í mann á fljótlegri hátt en með bréfaskiptum þá varð að panta langlínusamtal með fyrirvara.  Engin helgarfrí voru heldur þar sem nemendur fóru heim eins og seinna tíðkaðist og þaðan af síður heimsóknir enda staðurinn afskekktur.  Ég man eftir að ég fékk bréf frá pabba síðasta veturinn minn en þá var hann veikur en bréfið fjallaði þó ekki um það.  Annars sá mamma um bréfaskriftir.  Ég skrifaðist líka á við föðursystur mína sem bjó á Ísafirði.  Kannski er ég kaldlynd en ég fann aldrei til heimþrár eða söknuðar hvorki við heimafólk eða skólafélaga en mér fannst alltaf gott og gaman að koma heim og hlakkaði til að fara í ferðalög.  Ég skrifaðist á við þá sem ég hafði samband við og hafði og hef gaman af að kynnast fólki og geri mikið af því að halda við vináttu með  heimsóknum og  samtölum í síma og núna á Fésbók.  Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?
Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).
Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?
Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?
Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?
Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Húsakynni og rými  Á þessum tíma voru húsakynni almennt ekki mikil svo að þau þættu þröng í skólanum, síður en svo.  Ein bókleg stofa var notuð en þar dönsuðum við á laugardagskvöldum við músik frá plötuspilara sem tveir bræður áttu sem voru í eldri deild.  Við hliðina á þeirri stofu var handavinnustofa stúlkna og þar fór heimanámið fram að mig minnir frá kl 14 til 16 en það var þó líklega ekki skylda, annars man ég það ekki því maður mætti þar bara og margir hjálpuðust að.  Fyrri veturna var síðan vefstofa þar sem við stelpurnar í eldri deild lærðum að vefa.  Mig minnir að þar hafi verið a.m.k. 6 vefstólar.  Þessi stofa var tekin undir kennslu í gafnfræðadeildinni þegar hún hófst.  Handavinna drengja var kennd í íþróttahúsinu sem var í sama húsi við endann á hinum stærri stofunum en vefstofan var í hinum endanum við hlið skrifstofu skólans og íbúð skólastjórans. Við vorum 4 saman í herbergi og eins var með stákana.  Í herbergjum voru fjögur rúmstæði, það er efri og neðri koja og 2 bekkir með dýnu.  Á daginn settum við stundum annað lausa rúmið upp á hitt til að skapa meira pláss.  Eitt borð var við gluggann og einn skápur fyrir fötin okkar var við hliðina á kojunum.  Þegar ég kom fyrst í Reykjanes var ég svo heppin að strákarnir að heiman komu mér fyrir hjá stelpum frá Hnífsdal.  Þetta voru bekkjarsystur þeirra og þeir vildu koma mér í öruggt skjól.  Þetta voru góðir félagar.  Næsta ár kom systir annars þeirra með mér í skólann og var með mér í herbergi ásamt bekkjarsystrum mínum.  Líklega höfum við ákveðið þetta á leiðinni í póstbátnum.  Salernin voru fyrir endanum á ganginum en engar sturtur voru þar, bara  við sundlaugina.    Heimavist stúlkna hét Suðurgarður en strákanna Norðurgarður.  Matsalur skólans var á milli heimavistanna og hægt að ganga þar í gegn á matmálstímum en á öðrum tímum voru hurðir læstar og ekki leyfður aðgangur að vist hins kynsins.  Við höfðum skyldur.  Þrjú langborð voru í matsal og sat kennari við endann á þeim öllim.  Nemendur skiptust á um að leggja á og  taka af borðum og þrífa þau.  Herbergin skiptust líka á að skúra heimavistina.  Öll herbergi voru skírð.  Ég var alltaf í sama herberginu öll árin og það herbergi hét Sólheimar.  Ég man nú ekki öll nöfnin en eitt herbergið hét Holliwood annað Glaumbær.  Engin setustofa var á vistinni en við notuðum skólann fyrir annað félagsstarf.  Skólahúsið með íbúð skólastjóra var í annarri byggingu.  Fáum árum efir að ég var í skólanum reis annað heimavistarhús með skólastofum á sama stað og hitt var. Þar er nú rekið hotel.   Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?
Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?
Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?
Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Mötuneyti og þvottahús  Morgunmatur var líklega um kl 8:30 og hádegismatur kl 12:00 kaffi um kl 15:30 og kvöldmatur um kl 18:30, kvöldkaffi um 21:30 þótt ég muni það ekki nákvæmlega enda skrifaði ég ekki dagbók.  Líklega voru kaffitímar um 15 til 20 mínútur en matartímar um 30 mínútur.  Allt kaffibrauð var bakað á staðnum nema kexið.  Okkur fannst maturinn alltaf mjög góður og Hassýið sem var einhvers konar hakkréttur með kartöflumús var í uppáhaldi hjá öllum.  Öfugt við það sem ég hef heyrt um hassýið á Núpi.  Mismunandi matur var eftir dögum og ekki breytt út af því.  Ég man aðallega eftir hassýinu og soðnu beljukjöti eða hrossakjöti sem var framreitt með kartöflum og hvítri sósu.  Lostæti en ég minnist þess að mér fannst frekar óárennilegt að sjá diskinn hjá kennaranum sem sat við borðsendann hjá okkur stelpum,  hann borðaði nefnilega alla fituna sem var á kjötinu og það var yfirleitt meira en sentimetri að þykkt á hverjum bita. Flestir skáru hana af.  Það var örugglega einhvers konar steik um helgar.  Hver hafði sitt sæti í matsal enda hefði verið erfitt að fylgjast með því hver átti að sinna borðstofunni ef sífellt væri verið að skipta um sæti.  Allur matur var soðinn í hverunum sem voru allt í kring.  Pottarnir voru settir í hverina.  Og kalda vatnið í kranunum var kælt hveravatn.  Maður vandist því nokkuð vel en lyktin er samt enn kunnugleg.   Við þvoðum fötin okkar sjálf og vorum sett í hópa.  Ég man ekki eftir vandræðum við það.  Hef örugglega verið heppin með hóp ætli það hafi ekki bara verið herbergisfélagarnir. Það byggðist á því að einhver hafði reynslu af handþvotti á fötum og kenndi okkur hinum.  Ekki man ég eftir hve oft var þvegið það var samt nokkrum sinnum yfir tímann en í mesta lagi var þetta gert hálfsmánaðarlega.  Þvottahúsið var klefi við enda skólabyggingarinnar.Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?
Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).
Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?
Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?
Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?
Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?
Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Skóladagurinn Ég minnist þess að bóklegir tímar voru fyrir hádegi en eftir hádegi verklegir tímar.  Ekki man ég hvort kennt var á laugardögum en eftir að hafa borið mig saman við eina skólasystur þá finnst okkur liklegt að það hafi verið kennt fyrir hádegi.  Það hefði ekki verið látið viðgangast að slugsa báða morgna helgarinnar.  Það var kennt á laugardögum heima þegar ég var í skóla þar.   Bóklegar greinar voru þessar hefðbundnu íslenska, stærðfræði,  Íslandssaga, danska og enska, teikning sem fór þannig fram að við fengum spjöld með fyrirmyndum og áttum að apa eftir frummyndinni og líffræði um manninn var kennd í mýflugumynd.  Sumir voru teknir upp að töflu til að reikna dæmi fyrir bekkinn og minnist ég þess að hafa fengið það hlutverk oft en ekki treystu sér allir í það.  Í gagnfræðadeild bættust við bókfærsla og eðlisfræði.  Eða það eru þær greinar sem ég man eftir.  Mig minnir að það hafi ekki verið kennd mannkynssaga en hana lærði ég þann vetur sem ég var heima því það var boðið upp á nokkur fög sem voru ætluð til undirbúnings fyrir gagnfræðadeild, eins og það var kallað.    Verklega kennslan var kynjabundin og hef ég lýst henni þar sem ég ræði um kennslustofurnar.  Við gátum fengið aðstoð eftir tíma ef við þurftum á að halda í handavinnunni og máttum nota saumavélar ef við kunnum á þær.  Eldri og reyndari nemendur voru einnig hjálplegir. Strákarnir máttu líka nota smíðastofuna og tæki þar svo sem rennibekki.   Engin íþróttakennsla var innan dyra en sund var kennt enda höfðum við stærstu sundlaug á landinu til afnota og þar var líka gufubað.  Það var samt einhver útikennsla eða hlaup og þess háttar  sem var iðkað á flötinni framan við skólann og vistina.  Við forum líka oft í gönguferðir í fjöruna og um nesið um helgar.  Sumir áttu skauta og fundu frosna polla til að nýta en snjólétt er þarna í inn Djúpinu og engar brekkur á Nesinu þar sem hægt er að renna sér á skíðum.   Á nemendamóti sem við höfðum í kringum árið 2008 eða 2009 kom fram að allir nemendur töldu sig hafa haft mikið gagn af þessarri veru í Reykjanesi sérstaklega hvað varðar verkkunnáttu hvort sem um var að ræða stráka eða stelpur.  Strákarnir smíðuðu ýmis konar húsgögn og renndu fallegar skálar eða skrín (sem sumar okkar fengu gefins) og stelpurnar lærðu að prjóna, hekla, sníða og sauma á saumavél og vefa handklæði, púða og ýmis konar dúka og mottur.  Í gagnfræðadeildinni lærðum við líka sniðteikningar en þá hefur vefnaðarkennslu verið hætt því að kennslustofan okkar var þar.   Stundum var farið í leiki á flöt sem var fyrir framan skólann og vistina.  Líklega hafa srákarnir eitthvað verið í fótbolta en ekki man ég mikið eftir því. Smávegis var farið í frjálsar íþróttir en körfubolta hafði enginn heyrt minnst á nema kannski þeir nemendur sem komu af Suðurnesjum.  En nemendur komu alls staðar að af landinu.  Frímínútur voru örugglega ekki skipulagðar og misjafnt hvort nemendur fóru yfir á heimavist eða voru bara í skólastofunum.  Annars man ég ekki mikið eftir þeim og þær voru örugglega ekki langar.  Það var örugglega ekki farið eftir stífri stundatöflu með þær.  Ætli þær hafi ekki verið einu sinni fyrir hádegi og einu sinni eftir hádegi.    Heimanám fór oftast fram eftir kennslu í handavinnustofunni en sjaldan heima á herbergi enda var ekki mikið pláss þar til náms.  Þó man ég einhvern tíma eftir að hafa lært þar en ekki oft.       Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).
Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?
Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Hefðir  Fáar hefðir held ég að hafi verið í Reykjanesi ég held að skólatíminn hafi verið of stuttur til að hægt væri að skapa miklar hefðir.  Þó var hefð fyrir því að á bolludagsmorgni kl 6 fóru stelpurnar yfir í strákavistina með blaut handklæði til að flengja strákana og endaði það oftast með því að þetta tækifæri var notað til þess að efna til nánari kynna en ekki mjög náinna og misjafnt hvort þau tengsl sem þarna mynduðust lifðu fleiri vetur.  Þó veit ég um nokkur sambönd sem enduðu með giftingu og vara enn.  Þegar ég var í gagnfræðadeildinni þá var haldið jólaball fyrir nemendur barnaskólans og fékk ég það hlutverk að leika jólasveininn.  Þetta hlýtur að hafa lagst af því að fljótlega fengu allir bekkir kennslu allt skólaárið.   Aðal kennari okkar varð þjóðsagnapersóna, séra Baldur Vilhelmsson í Vatnsfirði, og hafa verið skrifaðar bækur með skemmtisögum eignaðar honum.  Sumir skólabræðra minna kunna margar skemmtilegar sögur af honum og segja þær þannig að maður þekkir séra Baldur.  Ég vísa bara í Vestfirskar þjóðsögur þar sem ég er ekki tilbúin með neina sögu úr skólanum.  Ólíkt því sem þekkist í sumum öðrum skólum t.d. á Núpi þá man ég ekki eftir neinum draugasögum frá Reykjanesi.  Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?
Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?
Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?
Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?
Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Félagslíf   Margir fóru í gönguferðir í rökkrinu og alltaf var einhver útivist eftir kvöldmat en allir þurftu að vera komnir heim fyrir kvöldkaffið.  Á laugardögum var dansað og fyrsta veturinn voru það bræður tveir frá Búðardal sem lögðu til tónlistina því þeir áttu plötuspilara og vinsælustu plötur þeirra tíma.  En þeir voru einnig liðtækir í að kenna okkur að dansa og það voru líka strákarnir að heiman og stelpurnar frá Vogum á Vatnsleysuströnd. Þarna lærði ég gömlu dansana og að tjútta, sem hefur nýst mér fram á þennan dag.  Enginn hafði farið í dansskóla heldur var þarna um jafningjakennslu að ræða.  Ég man eftir einni árshátíð og hún var árið sem ég var í gagnfræðadeildinni.  Þá lékum við í leikriti sem sýnt var í skólanum og dansað á eftir.   Kennari var yfirleitt ekki langt undan þegar þessar skemmtanir fóru fram en ekki tóku þeir þátt nema við undirbúning fyrir leikritið.  Ég held að flestir nemendanna hafi tekið einhvern þátt í böllunum þó ekki væri nema til að spjalla frammi í handavinnustofu.   Mig minnir að stundum hafi verið keppt í frjálsum íþróttum innan skólans en ekki oft og engar keppnir fóru fram á milli skóla eða annarra.  Ég held að það hafi verið litið á það sem kost að maður tæki þátt í skólalífinu og ég man eftir tilraun til þess að stofna málfundafélag í skólanum en ég held að það hafi ekki orðið framhald á því og kennslan í þessu var ekki mjög burðug eftir því sem ég kynntist síðar á lífsleiðinni.  Þetta var mest í höndum nemenda.   Á laugardögum starfrækti gagnfræðadeildin sjoppu.  Þarna voru engir peningar notaðir heldur seldum við gos og malt og eitthvað súkkulaði upp á krít eins og það var kallað.  Við vorum með viðskiptabók þar sem hver nemandi átti sína síðu og síðan var þetta rukkað með öðrum kostnaði við skólagönguna.  Fyrri veturna var þetta í höndum skólastjóra. Einhverjar hömlur voru á þessu því að ekki var hægt að fá ótakmarkað magn af þessu góssi.   Það er kannski rétt að taka það fram á þessum árum fengu fjölskyldur skömmtunarseðla fyrir sykri og smjörlíki og einhverju fleira og við þurftum að hafa með okkur þessa dýrmætu seðla svo að skólinn gæti fengið þessar nauðsynlegu vörur.   Það var bannað að neyta áfengis og að reykja í skólanum.  Þetta var nú fyrir tíma annarra vímuefna nema þynnis.    Ekki veit ég til þess að nemendur hafi haft áfengi um hönd en eihverjir laumuðust til að reykja og var það gert held ég á bak við fjósið sem var lengra frá skólanum.  Einhverjir uppgötvuðu að það væri hægt að komast í vímu við það að lykta af þynni og einu sinni eða tvisvar kom upp þannig mál.  Þannig atvik kostuðu skammaræðu af hálfu skólastjóra og eins ef eitthvað annað fór úrskeiðis.  Ég held að flestir hafi látið sér það að kenningu verða.   Ljósavél sá um rafmagnið á staðnum og var slökkt á henni fljótlega eftir kvöldkaffið og þá áttu allir að fara í rúmið og sofa.  Einhvern tíma heyrði ég af því að strákar hafi reynt að laumast yfir á Suðurgarð til að fara inn um glugga eftir að ljósatíma lauk en skólastjórinn eða kennarar voru vel vakandi yfir því þannig að ég veit ekki til þess að einhver hafi gist næturlangt á rangri heimavist.Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?
Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?
Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?
Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?
Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?
Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?
Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Samskipti  Heimavistarlíf er mjög þroskandi og að mínu áliti mjög skemmtilegt.  Ég minnist þess að mér þótti þess háttar reynsla svo nauðsynleg að ég vildi helst að börnin mín fengju að kynnast svona lífi.  Að vísu fengu þau smá baragð af því í sumarbúðum.   Það er nú þannig að í Reykjanesi höfðu nokkrar stúlkurnar unnið fyrst í eldhúsinu eða sem hjálparstúlkur hjá skólastjóra hjónunum sem bæði voru kennarar.  Það gat líka verið að eftir skólaárið þá færu þær næsta vetur í vinnu í eldhúsinu.  Sumir nemendanna voru nokkrum árum eldri en aðrir og skólastjórahjónin voru um tæplega þrítug þegar við þessi yngstu vorum 15 eða 16 ára.  Einn smíðakennarinn var nemandi í eldri deild veturinn áður en hann varð kennari í Reykjanesi en hann fór í Kennaraskólann seinna.    Í fyrstu gagnfræðadeildinni voru bara 9 nemendur og eru tveir farnir yfir móðuna miklu fyrir mörgum árum.  Ég hef haldið mismunandi miklum tengslum við þessa félaga einhver tengsl  við þau öll enda vorum við mikið saman þar sem hópurinn var svo lítill og barnaskólinn starfræktur á sama tíma að hausti og líka að vori.  Við lásum t.d . saman Eglu og Sjálfstætt fólk á þessum tíma.  Bókin eftir Kiljan var ekki skólabók heldur ákváðum við bara að lesa hana saman.  Reyndar minnir mig að við stelpurnar höfum unnið handavinnu á meðan einn af strákunum las fyrir okkur og við söfnuðumst saman í  okkar herbergi á stelpuvistinni.  Einhverra hluta vegna var ekki amast við því.  Við ræddum efnið og ég minnist þess að ég var á öndverðum meiði við nemendurna sem voru úr Borgarfirði því ég sagði að ég hefði aldrei flutt lengra inn á heiðina eins og bóndinn í sögunni.  Ekki man ég hvort hinir strákarnir höfðu á þessu skoðun,  Það var ekki fyrr en ég var nokkur ár á Austurlandi að ég skildi hvers vegna ég hafði þessa skoðun.  Á Vestfjörðum eru heiðarnar gróðursnauðir fjallvegir en á Austurlandi eru heiðarnar gróðurmiklar langt inn í óbyggðir og þannig er það líka í uppsveitum Borgarfjarðar þaðan sem heimkynni þriggja nemendanna voru. Eitt sinn vinir alltaf vinir.  Það er líka sagt að vinir þurfi ekki að hittast oft en þegar þeir hittast er eins og tíminn hafi staðið í stað.  Þetta er líka mín reynsla.  Nokkrum sinnum frá skóladvöl í Reykjanesi hefur verið kallað til samkomu árganga sem voru í skólanum frá 1957 - 1958 og alltaf er jafn gaman að hittast.  Stundum hafa samskipti aukist á seinni árum.  Núna hittumst við nokkrar vinkonur nokkrum sinnum á ári en við vorum samtíða fyrir um 60 árum tvær okkar hittast mikið oftar.  Annar hópur nemenda sem ég fell í og voru í Reykjanesi 1960 til 1963 hittist reglulega einu sinni í mánuði yfir vetratímann og hafa gert það í nokkur ár.  Þetta byrjaði fljótlega eftir að við vorum í jarðarför fyrrum skólastjóra okkar.    Það var stofnað til nokkurra hjónabanda í skólanum og einhver þeirra eru enn í gangi en önnur hafa slitnað eins og gengur. Ég man nú ekki eftir að neinn ákveðinn stjórnaði samskiptunum í skólanum en það getur þó verið þótt ég tæki ekki eftir því. Hins vegar standa tvær konur að því að skipuleggja þessa mánaðarlegu fundi hópsins 1960 – 1963.   Ekki varð ég vör við einelti í skólanum en á seinni árum hef ég þó heyrt að slíkt hafi komið upp I tengslum við eitthvert óæskilegt atvik.  Hjá okkur stelpunum var það viðurkennt að ákveðinn strákur væri að reyna að káfa á okkur en ég held að við höfum allar haft það mikið bein í nefinu að hann komst ekki upp með það.   Eftir að Fésbókin kom til sögunnar er einfaldara að blása til samkomu það er að segja léttara að ná til þeirra sem eru virkir þar og alltaf eru einhverjir sem eru í sambandi við þá sem nota ekki þennan miðil og láta þá vita af því sem stendur til.  Samskipti undanfarinna ára hjá báðum þeim Reykjaneshópum sem ég hitti fara fram með boðum á Fésbókinn.Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana