LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1972-1974
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn í Reykholti
Annað staðarheitiReykholtsskóli
ByggðaheitiReykholtsdalur
Sveitarfélag 1950Reykholtsdalshreppur
Núv. sveitarfélagBorgarbyggð
SýslaBorgarfjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1957

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-85
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/19.11.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

Heimili (sveitarfélag) meðan á námi stóð:  Þórshöfn á Langanesi. Í Reykholti í Borgarfirði 1972-1974. Foreldrar mínir ákváðu í raun að ég færi ekki í Eiðaskóla eins og tíðkaðist með krakka frá Þórshöfn. Ég held þeim hafi fundist systir mín helst til of frjálsleg en hún dvaldi þar. Hún byrjaði að reykja þar og fór að vera með strákum. Þeir ákváðu þá í samráði við skólastjórann á Þórshöfn að sækja um fyrir mig í Reykholti. Ég fór því ein þangað.


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Frekar kvíðin að fara ein en ég mótmælti samt aldrei að fara. Ekki svo erfitt að kveðja heimafólk. Flaug ein til Reykjavikur og fór með áætlunarbílnum í Reykholt.  


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Rúmföt man ég. Átti ekki kassettutæki.


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Kvíði en tilhlökkun. Í rútuferðinni (með Sæmundi) fann ég fyrir heimþrá sitjandi ein alla leiðina. Reyndar sátu flestir einir í rútunni. Mikið hlegið að þessu síðar !  


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

Skólaárið hófst í byrjun október og önninni lauk í desmber. Fríin voru jólafrí og páskafrí. Ég fór alltaf heim um jólin en ekki um páska þar sem langt að fara fyrir nokkra daga. Við vorum alltaf nokkur sem vorum á vistinni um páska.  


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

Skólalokin voru mjög skemmtileg báða veturna. Ég var í landsprófi, sem var yfirleitt síðasti bekkurinn til að klára próf á vorin. Mikil spenna hvort allir næðu prófum og tóku allir þátt í þessu. Mig minnir að allir hafi náð lágmarkseinkunn,sem var 6.0. Mikill fögnuður þá. Mjög samstilltur hópur. Við fórum svo flest á næsta ár, í 5.bekk. Þá var ný heimavist. Dásamlegur tími sem ég gleymi aldrei. Ég upplifði söknuð þegar ég hætti. Ef það hefði verið 6.bekkur (2.bekkur í menntó) hefði ég skráð mig þar.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Samskiptin voru símtöl og sendibréf.Mamma hringdi nokkrum sinnum. Þá varð að fara á símstöðin til hennar Halldóru og koma sér í símabox. Svo sendi mamma pakka annars slagið, t.d kleinur og fleira nammi. Ég hitti Halldóru stöðvarstjóra fyrir nokkurm árum og ég fór nærri þvi að gráta! Held að þá hafi komið fram að ég saknaði fjölskyldunnar stundum og að Halldóra var mín tenging við hana. Yndisleg kona. Aldrei heimsóknir að heiman.  


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Já, stundum kom heimþrá.  Grét stundum. Hágrét reyndar þegar báturinn hans pabba slitnaði frá bryggju í óveðri og eyðilagðist ! En í minningunni leiddist mér aldrei.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

Húsakynnin voru fín, fannst mér á þessum tíma. Eina sem ég óskaði mér strax var að íþróttasalurinn mætti vera stærri. Sundlaugin var skemmtilega lítil. Herbergin flest fín. Ég var fyrri veturinn í 4ra manna herbergi og svaf í efri koju. Það voru 4 herbergi í þessum kjallara og 4 stelpur í hverju. Nándin var mikil en það fór vel um okkur. Matsalurinn var nokkuð góður. Þvottahús var í kjallara. Lágt til lofts. En þvottaþjónustan til fyrirmyndar. Stórt miðrými og breiðir gangar. Seinni vetur minn í Reykholti dvaldi ég á nýju vistinni. Algjör lúxus miðað við húsnæðið fyrri veturinn. 2 í herbergi, setustofa, nokkur salerni og allt frábært.  


Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

2 stórar skólastofur og 2 frekar litlar. Mér fannst allt vera til alls.  


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Fyrri veturinn vorum við 4 saman í herbergi. Veit ekki hvernig var valið. Seinni veturinn vorum við tvær saman. Fengum að velja þá.  


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

Fyrri vetur voru sem sagt 2 kojur í herbergi. Fataskápar og 2 borð til að læra við. Vaskur,salerni og sturta á ganginum. Seinni veturinn var vaskur á herbergi en salerni og sturta á gangi.  


Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Ekki var sérstök sætaskipan í kennslustofum. Í matsal var raðað við borðin, svo kallaðir borðstofuflokkar. Einn úr hverjum bekk við borð og var farið eftir stafrósröð innan bekkjanna.  


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Setið og spjallað, spilað.sungið. Seinni veturinn sem ég var, þá var 5.bekkur í nýju húsnæði utan aðalbyggingar. Að sjálfsögðu eyddum við 5.bekkingar miklum tíma þar enda aðstaðan þar alveg til fyrirmyndar. Seturstofur og stór herbergi.    


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?

Ég man ekki glöggt með kaffitímana. En matartíminn var ½ klst minnir mig.


Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

Maturinn á þessum tíma var frekar einfaldur íslenskur matur. Matur sem allir borðuðu. Fiskur,grjónagrautur,saltkjöt,bjúgu,lambakjöt o.frv. 1x á önn  var afmælisveisla fyrir þá sem höfðu átt afmæli á önninni. Það var sko hlaðborð af besta tagi. Þá var flutt smá ræða um afmælisbörnin og sáu herbergisfélagar um það.  


Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

Nemendur þurftu að vinna í borðsal. Við færðumst um set á hverjum degi og svo þegar var komið á endann þýddi það að við áttum að sjá um borðsalinn. Þurftum ekki að sjá um ræstingar á göngum en að sjálfsögðu á herbergjum.  


Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

Já, það var þvottahús í kjallara. Starfsmaður þar sá um þvotta. Man ekki alveg fyrirkomulagið. Man samt að maður náði í allt saman saman brotið og fínt.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?

Það var kennt alla daga og stundum á laugardögum.  


Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

Kennslan var hefðbundin. Frábærir og eftirminnilegir kennarar. Mikil áhersla á íslenskuna, man ég. Einnig stærðfræði.


Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Ég man bara eftir handvinnukennslunni. Þetta venjulega fyrir stelpur. Strákar í smíðahúsinu.  


Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?

Nei, man ekki eftir annarri verklegri kennslu.


Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Mikil áhersla á íþróttir. Leikfimi,handbolti,körfubolti,frjálsar,sund. Bæði kyn stunduðu þessar íþróttir. Íþróttasalurinn með minnsta móti en það stoppaði menn ekki.  


Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

Alltaf hægt að fara í salinn ef ekki var kennsla. Frímínútur voru frjálsar (nema þegar samsöngur var).  


Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

Við lærðum oft í stofunum eftir að kennslu lauk. Líka í herbergjum. Svo var bókasafn i turnbyggingunni,þar sem hægt var að lesa. Ég nýtti það aldrei. Ég man að ég fékk svo lánað herbergi í kjallara hjá prestinum, þegar ég var að lesa  undir landspróf. Gott næði þar að lesa.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

Það var venjan að fara í fjallgöngu við upphaf á haustin. Gengið var á Skáneyjarbungu. Einnig var söguferð um héraðið með eldri bekkina,sem voru oftast eldri nemendur, einn dag við upphaf haustannar. Var það gert til að nýliðar fengju næði til að skoða skólann. Busað var í íþróttasalnum. Á hverjum degi var samsöngur á ganginum sem staðarpresturinn stjórnaði. Söngbók var úthlutað. Stundum skrifað í þær (ég gæfi mikið til að fá eitt eintak af söngbók RHS)Allir urðu að vera með í samsöngnum.  


Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?
Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).

Mikill metnaður lagður í mánaðarprófin, bæði af nemendum og kennurum. Í Árbókunum,sem gefnar voru út að vori) er annáll skólans og líka úrslit (einmitt orðað þannig) úr mánaðarprófum hvers bekkjar. 3 efstu nefndir og aðaleinkunn.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

Mjög öflugt félagslíf. Alls konar klúbbar. Kvikmyndaklúbbur,ljósmyndaklúbbur,íþróttaklúbbur… Það var kosið í þessa klúbba og jafnt stelpur sem strákar.  


Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Já, ég held að það hafi verið hluti af náminu að vera í alls konar nefndum. Skólakerfi minnti soldið á nám í lýðháskóla. Allir að taka þátt en ekki of mikil pressa. Kennarar voru hressir og skemmtilegir. Kórstjóri góður og íþróttakennarinn frábær. Skólastjórinn sjálfur mikill maður,sem maður bar óblandna virðingu fyrir.  


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

Handbolti,körfubolti,frjálsar og sund.Mjög öflugt körfubolta lið karla. Íþóttakeppni við Reykjaskóla í Hrútafirði. 1x á önn heima og að heiman. Mjög mikill metnaður á báðum stöðum.Keppt í handbolta,körfubolta,sundi,stökkum án atrennu og skák. Einnig var keppt við skólana á Hvanneyri og á Bifröst.  


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Mjög strangt tekið á brotum um áfengi. Það mátti reykja í ákveðnu reykherbergi. Þeir sem voru uppvísir að drykkju voru kallaðir fyrir og settir í straff,sem gat falist í því að vera reknir í nokkrar vikur af heimavist. Sterk efni þekktust ekki,svo ég viti til.


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

Það voru vistarverðir,sem ofast voru makar kennara. Þeir sáu um að koma í ró á kvöldin. Man ekki alveg klukkan hvað. Nú, svo bara sunnudagaheimsóknir milli stelpu-og strákavistanna.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Man bara það góða, sem er þá af því að það var yfirsterkara. Starfsfólkið einstakt líka. Konan með þvottinn í kjallaranum, lágvaxin,róleg og brosmild. Kokkurinn hann Tryggvi alveg frábær og Guðbjörg konan hans líka,sem var líka í eldhúsinu og stjórnaði að mig minnir borðstofuflokkunum. Búri gamli var úti í skemmu, man ekki hans hlutverk. En allir yndislegir.  


Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

Ég segi alltaf að ég hafi verið svo heppin að fara í heimavistarskóla. Af hverju? Jú, ég naut dvalarinnar og ekki síst þekki ég svo marga um land allt. Þegar ég ferðast um landið (sem ég geri mikið af) og kem á hina ýmsu staði, þá fer ég að rifja upp samnemendur mína. Hef bankað uppá og heilsað.  


Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Ég er allavega í góðu sambandi við nokkrar vinkonur úr Reykholti. Kannski ekki í daglegu sambandi en þegar við hittumst er eins og við höfum verið í miklum samskiptum. Fylgjumst líka vel með lífi hverrar á samskiptamiðlum. Svo er það líka þannig að maður man eftir öllum nöfnum og hvaðan fólk var.  


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

Það voru reglulega skólaböll – í særstu kennslustofunni. Þar mynduðst oft pör, allavega vangað og nokkrir kossar. Sumir héldu svo kallaðan paralista, þ.e færðu inn á hann öll pör sem mynduðstu í skólanum. Alveg nóg að vanga eða kyssa til að vera settur á listann. Á sunnudögum milli frá kl1-5 var opnað á milli heimavista stráka og stelpna. Á öðrum tímum mátti ekki vera samgangur þarna á milli. Sumir náðu þó að brjóta af sér.  


Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?

Ég var ekki vör við slíkt. Sumir voru hressari en aðrir en enginn yfirgangur.  


Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Ég man ekki eftir neinu slíku.  


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Það eru reglulega nemendamót. Ég hef sótt 2- annað í Hafnarfirði og hitt í Reykholti.  Sumir árgangar hittast reglulega, sé ég á Facebook.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana