LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1968-1972
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurReykjanesskóli við Djúp
ByggðaheitiDjúp
Sveitarfélag 1950Reykjarfjarðarhreppur
Núv. sveitarfélagSúðavíkurhreppur
SýslaN-Ísafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1955

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-83
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/19.11.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?
Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.
Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?
Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?
Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?
Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Ég var í Héraðsskólanum í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp frá haustinu 1968 til vorsins 1972 að undanskildu haustmisserinu 1970 og haustmisserinu 1971, Á þessum árum var ekki kominn svokallaður unglingaskóli í Reykhólahrepp og fóru unglingar sumir í Reykjanes, aðrir að Reykjum eða Reykholti og sumir annað. Systkini mín höfðu verið í Reykjanesi og hafði það áhrif á val skólans. Undirbúningur var nokkur, ég man að ég fékk nýja sæng og kodda og ný rúmföt. Einnig þurfti að kaupa handklæði og eitthvað af fötum. Myndaalbúm hafði ég meðferðis. Fyrsta haustið sem ég fór var orðið ófært og við fórum með flugvél í skólann. Ég var bara spennt, kveið ekki fyrir. Fyrsta veturinn var ég í herbergi með æskuvinkonu minni úr sveitinni og tveimur öðrum stelpum sem voru úr Ísafjarðardjúpi. Ég man ekki nákvæmlega hvernig var valið í herbergi. Þarna voru tvær efri og tvær neðri kojur, tvöfaldur skápur þar sem hver hafði sínar hillur, tvö skrifborð, vaskur með spegilskáp. 9 herbergi voru á hverjum gangi, tvö salerni. Við vorum í skólanum frá byrjun október og fram í miðjan desember og síðan frá ca. 6. janúar og fram í miðjan maí en vorið 1972 þegar ég tók gagnfræðapróf vorum ekki búin fyrr en 25. maí ef ég man rétt. Við fórum heim um jólin en ekki um páskana. Tvenna páska fór ég heim með vinkonu minni úr Ísafjarðardjúpi og eina páska til Ísafjarðar og gisti þá hjá fyrrverandi skólasystur. Mér leið yfirleitt alltaf vel í skólanum og átti góðar vinkonur og vini. Í raun leiddist mér aldrei. Fyrsta árið var bekknum mínumkennt eftir hádegi nema í handavinnu, þá vorum við þrisvar í viku í handavinnu tvo tíma í senn fyrir hádegi. Við vorum alltaf í handavinnu í 6 klst á viku. Kennt var mánudaga – laugardaga og frí á sunnudögum. Síðan var almenn kennsla eftir hádegi. Þetta var nú bara þennan vetur, þá hafa kennarar og skólastofur verið færri en bekkirnir. Ég var ekki fegin að komast í burtu og saknaði vinanna. Ég man eftir miklum gráti á kveðjustundum. Samskipti heim voru ekki mikil, það var hægt að hringa í gegnum skiptiborð,tvo tíma á dag, foreldrar mínir hringdu nánast aldrei en við skrifuðumst á, aðallega ég og pabbi. Ég fékk ekki oft pakka en krakkarnir úr Ísafjarðardjúpinu fengu mjög oft pakka, kökur, ávaxtadósir og hina sívinsælu Royalbúðinga. Börnin voru aldrei heimsótt í skólann,  ALDREI NEINN enda var alltaf ófært. Engar samgöngur voru við skólann nema með Djúpbátnum Fagranesi sem kom tvisvar í viku og síðan flugleiðis en flugvöllur er í Reykjanesi.Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?
Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?
Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).
Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?
Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?
Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Sæta- og svæðisskipting. Ég man ekkert eftir sætaskipan í kennslustofum, við réðum hjá hverjum við sátum. Í matsalnum voru ákveðin stelpna og strákaborð og yngstu nemendurnir sátu öðrum megin í salnum og eldri hinum megin, oftast eitt borð fyrir hvert kyn í hverjum bekk. Eitt kennaraborð í matsalnum.


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Húsakynni Heimavistirnar í Reykjanesi voru fjórar, ein stelpnavist og þrjár strákavistir. Eina vistina notaði skólastjóri greinilega til að hafa þar drengi sem hann vildi hafa sérstakt eftirlit með en íbúðin hans var innaf þessari vist. Innaf stelpnavistinni var íbúð handavinnukennarans, Ragnheiðar Hákonardóttur, sem var 66 ára þegar ég byrjaði í skólanum og 70 ára þegar hún hætti sama vor og ég útskrifaðist. Hún hafði aðeins auga með okkur og við gátum leitað til hennar ef mikið lá við. Við fengum stundum að poppa inni hjá henni. Stofan hennar var jafnframt handavinnustofan okkar. Kennslustofur voru fremur gamaldags, nánast enginn búnaður nema krítartafla. Borð og stólar. Setustofa var og ég upplifði það að sjónvarp kom í skólann líklega síðla vetrar 1969. Það gladdi mig ekkert sérstaklega, hef aldrei verið fyrir sjónvarp og mér fannst það trufla. Setustofan var annars notuð til að hanga í og tala saman.Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?
Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?
Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?
Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Mötuneyti og þvottahús Bryti annaðist matinn og konan hans bakaði kökur. Þrjár starfsstúlkur voru í eldhúsi. Nemendur önnuðust ekki húsverk nema þrífa eigin herbergi. Kennsla byrjaði yfirleitt kl. 8:00 á morgnana og kl. 8:45 var ,,grautur´´, hafragrautur, slátur, lýsi, mjólk. Aldrei annað. Kl. 12:00 var hádegismatur. Oft þverskorin ýsa með kartöflum og tólg. Oft hrefnukjöt sem á þessum árum fékkst á afar góðum kjörum. Kjötbollur o.fl. hefðbundinn heimilismatur. Alltaf súpa eða grautur. Oft sætsúpur, grjónagrautur, kraftsúpur og þess háttar. Á sunnudögum lambasteik með brúnuðum kartöflum, sósu og meðlæti. Alltaf vatn með matnum en á þessum árum varð ráðsmaður að sækja það í brúsa inn í Reykjarfjarðará því ekki er kalt vatn í Reykjanesi. Kaffitími var 15:30 og þá var heilhveitibrauð með smjöri og það var alltaf ein áleggstegund á dag, til skiptis heimatilbúin kæfa, mysingur, appelsínumarmelaði og á laugardögurm var ein kringla á mann frá Gamlabakarínu á Ísafirði og þá var mjólkurostur og kaffi. Annars var mjólk og te. Kvöldmatur kl. 19:00 og það var oft eitthvað kjöt, bixímatur eða plokkfiskur. Alltaf súpa. Kvöldkaffi kl. 21:30 þá fengum við tvær kökur heimabakaðar. Okkur þótti þær misgóðar og vinsælt var að skipta á kökum. Stundum voru svona kökur með kaffinu og alltaf á sunnudögum. Þá var kakó og afgangurinn af því var í eftirmat á mánudögum sem kakósúpa með tveimur tvíbökum á mann. ALLTAF. Mér fannst maturinn ekki vondur og kvartaði ekki en margir kvörtuðu. Ég segi oft að ég borði allt enda alin upp á heimavistarskólum. Þess má geta að ég var fyrst í heimavist barnaskólans á Reykhólum frá 9 ára aldri og seinna í Samvinnuskólanum á Bifröst í tvo vetur 1973-1975, Þar var veislumatur miðað við Reykjanes enda mikið dýrara fæði. Það voru aldrei ávextir eða grænmeti en það var heldur ekki mikið á borðum landsmanna á þessum árum. Það var nánast aldrei unninn matur og því tel ég að maturinn hafi verið frekar hollur, nýr fiskur og nýtt kjöt, saltkjöt og kartöflur. Ekkert iðnaðargums. Um vorið þegar ég var að klára 4. bekk hótuðum við að fara ekki úr skólanum fyrr en við fengjum pylsur í matinn. Skrifuðum kröfubréf þess efnis.  Skólastjóra og bryta þótt þetta greinilega skemmtilegt og við fengum eina pylsumáltíð! Einn starfsmaður í skólanum sá um ræstingar á skólanum og þvotta. Við fengum þvegið af okkur á tveggja vikna fresti. Við þvoðum samt oft föt í vaskinum. Niðri í kjallara var ,,þurrkuklefi´´ og þar gátum við hengt föt til þerris. Stelpur þvoðu oft föt af kærastanum sínum (!)en mikið var um parsambönd í skólanum.Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?
Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).
Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?
Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?
Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?
Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?
Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Skóladagurinn Eins og fyrr segir var kennt 6 daga í viku, frá 8 og líklega eitthvað eftir hádegi. Einhverjar breytingar voru milli ára. Ég man að þegar ég var í fyrsta bekk var stundaskráin mín á þriðjudögum: Danska, reikningur, eðlisfræði, íslenskar bókmenntir, enska. Í þriðja og fjórða bekk lærðum við bókfærslu og vélritun. Eins og fyrr segir var mikil handavinnukennsla á þessum árum. Stúlkur voru í hannyrðum og drengir í smíðum. Á hverju ári urðum við að gera eitt stykki af hverju, útsaumi, vélsaumi, prjóni og hekli. Ég saumaði fermingarkjólinn minn í Reykjanesi og buxnadress í 2. bekk og fínan kjól í þriðja bekk. Ragnheiður handavinnukennari leyfði okkur að velja efni (hún var með prufur) pantaði efni, tók mál af okkur og sneið flíkina og við saumuðum undir hennar leiðsögn. Ég á klukkustrengi sem ég saumaði í Reykjanesi. Ég er nú meðlimur í handverksfélagi og nýt þess að gera handavinnu. Drengirnir smíðuðu góða gripi í skólanum á þessum árum og nýttu þá kennslu ekki síður en við stúlkurnar. Leikfimi var ekki kennd á þessum árum en það var alltaf sundnámskeið á hverju ári. Einnig dansnámskeið. Þeir kennarar komu að sunnan og voru í viku eða tíu daga. Sundlaugin var mikið nýtt, við fórum flest mjög oft í sund. Ég man eftir helgum þar sem við héldum til í lauginni. Við fórum líka mikið í gönguferðir og ég þekki Reykjanesið mjög vel. Strákarnir voru mikið í fótbolta. Frímínútur voru alveg frjálsar, lengd þeirra man ég ekki. Okkur var sett fyrir að læra heima og síðdegis voru svokallaðir lestímar, yfirleitt voru þeir inni í kennslustofu, líklega frá 17-19. Sannast að segja var námsaðstaða kannski ekki upp á marga fiska eða við ekki mjög áfjáð í lærdóm. Ég man eftir að hafa stundað þá íþrótt að fá kennarann til að tala um eitthvað annað en námsefnið og ég og vinur minn reyndum að skipuleggja þetta. En þar kom líka þörf okkar til að ræða við fullorðið fólk um aðra hluti en námsefnið.Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).
Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?
Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Hefðir Ég man ekki eftir miklum hefðum. Það var ekki busað eða neitt slíkt. Niðri á bryggju í Reykjanesi er skúr, kallaður bryggjuskúrinn. Þar átti að vera afturganga, bláklædda konan og gott ef hún átti ekki að hafa tekið eigið líf. Við fórum oft niður í bryggjuskúr að reykja eða hanga. Þá var vinsælt að gera fólki bylt við.Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?
Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?
Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?
Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?
Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Félagslíf Haldnar voru tvær hátíðir ár hvert, 1. des og árshátíðin sem var yfirleitt haldin kvöldið áður en haldið var í páskafrí. Fyrir þessar hátíðir voru æfð skemmtiatrið, skólinn skreyttur og góður matur var á borðum.Stundum voru sett upp leikrit eða stuttir leikþættir.  Fólkinu úr sveitinni var boðið á þessar hátíðir. Þá voru fengnar hljómsveitir til að spila fyrir dansi.  Á laugardagskvöldum héldum við oft böll, einhverjir áttu plötuspilara og plötur og einhver var plötusnúður. Sum árin voru hljómsveitir sem æfðu og spiluðu á skólaböllunum, oftast voru strákar í þessum hljómsveitum. Einn bekkjarfélagi minn hefur tónlist að atvinnu. Það var nú ekki talað um að þetta væri sérstök félagsleg þjálfun en vafalítið hafa kennararnir hugsað það þannig. Skólablað var gefið út, Saltið, sem vísaði til saltverksmiðjunnar sem þarna var á 18. öld. Skólablaðið kom yfirleitt út á árshátíðardaginn. Íþróttastarf var í skötulíki, ég man samt eftir sundkeppnum og strákarnir kepptu í fótbolta, fóru einhvern tímann að keppa á Ísafirði. Mig minnir að vistum hafi verið lokað kl. 23.00. Við fórum nú ekkert alltaf strax að sofa, oft var mikið spjallað. Strákar máttu ekki koma inná  stelpuvist né öfugt nema eftir hádegi á sunnudögum. Sú hefð komst á einhvern tímann á þessum árum sem ég var þarna. Oft var farið í andaglas og ég man eftir atviki þar sem við stelpurnar vorum í andaglasi fram á nótt og Ragnheiður handavinnukennari kom og stoppaði okkur. Sagðist hafa vaknað og verið send til að láta okkur hætta þessu, eitthvað óhreint komið í glasið. Verið getur að einhver stelpa hafi látið hana vita, annars var eitthvað yfirnátturulegt á ferðinni Árið 1970 var tekið upp refsingakerfi sem fólst í að þú þurftir að ,,sitja inni´´ ef þú hafðir brotið reglur. Það þýddi að eftir hádegi á sunnudögum varðstu að vera inni í skólastofu ef þú hafðir verið tekin fyrir að reykja eða fara inn á vist hjá hinu kyninu. Eitt brot þýddi klst. innisetu o.s.frv. Mjög margir reyktu, sjálfsagt helmingur án þess að ég geri mér alveg grein fyrir því. Það kom fyrir að áfengi var smyglað inn í Reykjanes og nemendur voru reknir fyrir áfengisneyslu, bæði tímabundið og fyrir fullt og allt. Ég held að einhverjir hafi hegðað sér þannig að þeir yrðu reknir og að það hafi verið ásetningur. Ef ég man rétt þá varð breyting varðandi reykingar meðan ég var í skólanum. Fyrst voru reykingar alveg bannaðar en síðan máttu þeir krakkar reykja sem höfðu leyfi að heiman. Ég reykti mest allan tímann en án leyfis, hefði aldrei dottið í hug að biðja um leyfi, hefði ekki fengið það.Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?
Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?
Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?
Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?
Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?
Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?
Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Samskipti Flestir kennararnir voru mjög almennilegir en gerðu kannski svolítið upp á milli nemenda. Ég man að hafa verið hrædd við konu brytans. Löngu seinna hitti ég hana og drakk með henni kaffibolla. Það var mjög sérstakt að upplifa hana sem jafningja því mér fannst hún líta niður á okkur krakkana. Handavinnukennarinn var mjög þýðingarmikil fyrir okkur stelpurnar, eina konan sem við höfðum raunveruleg afskipti af allan þennan tíma því hinir kennararnir voru karlar. Guðjón Skarphéðinsson kenndi í Reykjanesi þessi ár. Mér þótti mjög vænt um Guðjón og örlög hans höfðu mikil áhrif á mig. Þá upplifði ég að einhver sem mér þótti vænt um lenti milli tannanna á þjóðinni og var dæmdur fyrir aðild að morði, væntanlega saklaus maður. Síðan hugsa ég alltaf til fjölskyldna þeirra sem eru umtalaðir á neikvæðan hátt eða fremja afbrot því ég veit hve alvarleg áhrif þetta mál hafði á alla fjölskyldu Guðjóns og vini. Seinasta veturinn minn var þarna ungur stúdent sem kenndi stærðfræði. Ég hafði ekki áhuga á stærðfræði og nennti ekki að læra hana. Ég og vinkona mín settumst stundum fremst og horfðum á buxnaklaufina á honum. Vá hvað við vorum miklar tíkur. Hann var bara fjórum árum eldri en við og leið hræðilega. Seinna hitti ég hann og hann sagðist hafa hætt við að verða kennari eftir að hafa verið þarna þennan vetur. Í heimavistarskólanum kynntumst við svo vel. Þessi dvöl hafði mikil áhrif á mig en líka það að vera svona mikið í burtu frá fjölskyldunni. Ég missti að mestu leyti af að vera með foreldrum mínum á unglingsárunumog þau misstu af mér. Vinasambönd haldast við suma og eru mjög sterk. Það voru mörg kærustupör og þarna urðu til nokkur hjónabönd sem enn halda. Það urðu líka til börn í skólanum, stúlkur urðu ófrískar en það var ekki algengt. Foringjar. Það voru margir sterkir einstaklingar þarna og voru áberandi. Það voru líka ,,kennarasleikjur´´ og kannski var ég ein þeirra vegna þess að ég lærði snemma að tala við fullorðna. Ég man eftir stelpu sem bannaði vinkonum sínum að tala við mig af því að ég var með stráknum sem hún var skotin í en þær voru líka vinkonur mínar. Einelti var alveg til. Ég man eftir stelpu sem var mjög sérstök og enginn þoldi hana, hún var kölluð Furða. Hún hætti í skólanum og fór.  Það var alveg kynferðislegt áreiti og ég lenti í því tvisvar að vera lokuð inni hjá strák sem var að káfa á mér en ég varðist eins og ljón og minnist þessara stráka sem hálfvita en ég kannast ekki við að hafa kennt mér um þetta. Það var eitthvað að þeim. Eitt árið var þarna stelpa sem sagt var um að strákarnir gætu riðið þegar þeir vildu. Ég veit það ekki en þetta var sagt. Greinilegt var að hún átti erfitt. Enginn gerði neitt í þessu. Ég hef oft hugsað um að reyna að hafa upp á þessari stelpu (ég þekkti hana ekkert) og athuga hvort þetta er rétt og hvort einhver hefur beðið hana afsökunar en ég veit að það skiptir máli að fá viðurkenningu á að brotið hafi verið á manni. Bekkurinn minn, hópurinn sem útskrifaðist með gagnfræðapróf 1972 hefur hist nokkrum sinnum, oftast á 5 ára fresti. Mjög misjafnt er hvernig mæting er, sumir hafa aldrei mætt, aðrir alltaf. Hópur sem ég þekki til, þeir sem voru í skólanum á árunum 1966-1969 hittist í kaffi í Perlunni fyrsta laugardag í hverjum mánuði og ég hef stundum farið þangað, þekki nokkra í þeim hópi.Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Börnin úr Reykjavík og fátækt. Ég vil hafa kafla um þau. Í raun voru í Reykjanesinu nokkrir hópar. Krakkarnir úr Djúpinu, krakkarnir frá þorpunum á Vestfjörðum og við aðrir sveitakrakkar af Vestfjörðum og svo börn úr Reykjavík. Jú, það voru krakkar af Suðurnesjum og Vestmannaeyjum og einn og einn Austfirðingur. Ástæður gátu verið mismunandi, stundum hrein ævintýraþrá að fara eitthvert í skóla en það voru nokkrir krakkar úr Reykjavík sem bjuggu við erfiðar félagslegar aðstæður. Einn veturinn voru margir slíkir krakkar í einum bekknum og ég tel að þann vetur hafi lítið verið lært í þeim bekk, ástandið var ekki gott og allir kraftar kennaranna fóru í að halda uppi aga. Við hin skynjuðum þetta. Ég gleymi aldrei að eitt vorið vorum við nokkrir krakkar að tala saman um hvað við hefðum það gott í skólanum, þá sagði einn strákurinn: ,,svo fer maður bara alltaf niður í matsal að borða og þarf aldrei að hafa áhyggjur af því hvort það verði til matur á morgun´´. Ég varð alveg orðlaus. Þarna er ég 14 ára að heyra það í fyrsta sinn að það væru til heimili á Íslandi þar sem ekki var alltaf til matur. Það var alltaf til matur heima, mér fannst hann ekki alltaf góður en það var alltaf til matur. Veikindi Mig langar að bæta við þætti um heilsufar og veikindi. Þessa vetur sem ég var í Reykjanesinu fékk ég alla barnasjúkdómana, hlaupabólu, rauða hunda, mislinga og hettusótt. Einnig gengu flensur. Þegar við vorum veik vorum við algerlega háð vinum okkar um að færa okkur mat upp á herbergi og annast okkur í veikindunum. Kona eins kennarans var hjúkrunarkona en hún annaðist okkur ekkert. Í rauninni var lögð mikil ábyrgð á samnemendur að hugsa um sjúklinga en ég veit samt ekki annað en það hafi gengið vel. Við bara vorum unglingar og kunnum þetta ekki. Enginn að hugsa um að við drykkjum vatn eða neitt slíkt. Þetta bara reddaðist. Ég hafði gaman af að rifja þetta upp og er þakklát fyrir að verið sé að safna frásögnum af heimavistarskólunum. Kær kveðja (...)


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana