LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1947-1950
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn að Laugarvatni
ByggðaheitiLaugarvatn
Sveitarfélag 1950Laugardalshreppur
Núv. sveitarfélagBláskógabyggð
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1934

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-82
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/19.11.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

Laugarvatn 1947 – 1950.  Líklega af því að hann var sá eini í héraðinu sem hafði heimavist.


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Man lítið eftir því.  Eitthvað var saumað á mig af fötum, mest upp úr gömlu því á þeim árum fékkst lítið í búðum og peningar af skornum skammti.  Foreldrar mínir fóru með mig á Laugarvatn en þá var kominn jeppi á heimilið.


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Sængurföt, nauðsynlegasta fatnað, eitthvað af bókum sem eldri  bræður mínir höfðu notað áður. Man ekki eftir öðru.


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Ég hlakkaði til.


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

Man það ekki glöggt, sennilega frá oktober til maí. Jólafrí og Páskafrí annað ekki svo ég muni.


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

Held maður hafi verið feginn þegar prófum lauk en saknað félagsskaparins.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Sími var ekki heima hjá mér á þeim tíma en bréf gengu á milli.  Man að ég fór einu sinni heim um helgi þegar ég var í fyrsta bekk en ekki seinni veturna. Engin heimsókn að heiman.


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Ég var alltaf glöð að fara í skólann og upplifði ekki söknuð eða heimþrá


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

Þau voru góð en þröngt í herbergjunum.  Skólahúsið brann að hluta til sumarið áður en ég fór fyrst á Laugarvatn.  Burstirnar þar sem voru heimavist stúlknanna brunnu að mestu svo tekið var það ráð að setja fjóra í tveggja manna herbergi í Hlíð og Mörk (stök hús) svo ekki þyrfti að neita neinum sem höfðu fengið skólavist.  Þannig var það þessi þrjú ár sem ég var í skólanum.


Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

Held þær hafi verið svona venjulegar með stólum og borðum, töflu og kennarapúlti.


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Við vorum fjórar saman.  Tvær af þeim voru bara fyrsta veturinn  en ég og önnur vorum saman þrjá vetur og tvær aðrar voru með okkur seinni veturna tvo. Okkur var bara vísað til herbergja þegar við komum en ég veit ekki hvað réði því hver var með hverjum.


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?
Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Við höfðum oftast sömu sætin í kennslustofunum. Í matsal var dregið í númer og sat maður allan veturinn með þeim sömu  við borð.


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Engin setustofa var í boði en við gátum setið í kennslustofunum við að læra ef við vildum og notfærðu margir sér það enda þröngt í herbergjunum eins og fyrr segir.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?

Það man ég ekki.


Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

Maturinn var held ég bara svona eins og almennt á heimilum, man ekki eftir öðru.  Einhver óánægja kom stundum upp en ekki var mikið um það.


Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

Já, hvert númer (þeir sem sátu saman við borð) vann einn dag í einu í eldhúsi og borðstofu.  Einnig þvoðum við gólfin í kennslustofum og göngum og að sjálfsögðu þrifum við  herbergin okkar og ganga þar í húsunum.   Með því  hafði hjúkrunarkona skólans umsjón.         


Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

Já það var þvottaaðstaða í húsi niður við vatnið. Þar þvoðum við sjálf þvottana (rúmföt, nærföt og slíkt).  Engar vélar voru, allt þvegið á bretti og kunnátta nemenda  á þeim verkum var misjöfn.  Herbergin fengu úthlutað degi í þvottahúsinu en ég man ekki hve oft.  Sumir sendu þvottinn sinn heim.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?

Sex daga vikunnar var kennt en ég man ekki hve lengi hvern dag, trúleg frá átta til svona tvö þrjú.


Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

Allar almennar greinar voru kenndar s.s. grasafræði, landafræði, stærðfræði, mannkynssaga, félagsfræði, heilsufræði, náttúrufræði, söngfræði, Íslandsaga, íslensk málfræði, íslenska skrifleg, danska (valgrein í fyrsta bekk) og  enska.  Söngur var í hávegu hafður og æfingar reglulega.


Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Strákarnir voru í smíðum en stelpurnar í handavinnu. 


Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?
Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Bæði leikfimi og sund voru kennd. Man ekki eftir tækjum.  Held kennslan hafi verið svipuð hjá stúlkum og drengjum.


Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

Man að hlaupið var í skarðið.  Engir boltavelli voru á staðnum. Held að frímínútur hafi bara verið svona fimm mínútur milli kennslustunda en man það ekki glöggt.  Held við höfum bara verið á göngunum að spjalla svona oftast.


Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

Ætlast var til töluvert mikils heimanáms.  Sumir sátu í kennslustofunum  og lærðu eftir skólatíma en aðrir heima í herbergjum.  Man ekki eftir að nein aðstoð biðist nema að nemendur hjálpuðu hver öðrum eftir kunningsskap og getu.  Misjafnt hvað fólk eyddi miklum tíma í heimanámið, engar reglur um það.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

Þegar einhver átti afmæli var hann/hún  borin á gullstól, næsta laugardag  sem dansað var, af tveimur nemendum af gagnstæðu kyni  úr borðsalnum upp í stofu  þar sem dansað var.  Dansað var á laugardagskvöldum en ekki man ég hvort það var á hverju laugardagskvöldi en held þó ekki.  Árshátíð var einu sinni á vetri og sáu þá nemendur um skemmtiatriði.  Málfundafélag var og haldnir fundir reglulega.   Sundkeppnir voru og samkomur haldnar í leikfimisalnum þar sem sungið var og ýmis gamanmál höfð.


Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?

Man ekki eftir neinu slíku


Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).

Man ekki neitt slíkt.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

Sjá svarið við hefðum hér að ofan.


Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Já það held ég.  T.d. voru málfundir  ætlaðir til að þjálfa nemendur í framgöngu og framsögu. Kennarar tóku þátt.


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

 Sund og leikfimi voru skyldu greinar, man ekki eftir öðru.


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Algjört bann við neyslu bæði áfengis og tóbaks.  Einhver brot voru framin og man ég eftir einum sem var vísað úr skóla af þeim sökum.  Sterkari efnu þekktust ekki svo ég viti.


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

Man ekki eftir neinum reglum en vísast hafa verið reglur um hvenær hljótt ætti að vera á vistunum.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Samskipti við alla var góð og margir eftirminnilegir kennarar  við skólann.


Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

Ég eignaðist góða vini sem ég á enn.  Kinntist m.a. verðandi eiginmanni sem ég hef verið í hjónabandi með í 65 ár.


Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Sjá síðasta svar.


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

Mikið var um pör  í eldri bekkjunum. Held að kynlíf hafi lítið eða ekki verið stundað á þeim árum, fólk var þá ekki eins frjálslynt og í dag.


Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?

Fólk var eins og alltaf mis stjórnsamt en ég man ekki eftir neinu slíku sem til vandræða væri.


Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Held að um slíkt hafi ekki verið að ræða a.m.k. varð ég ekki vör við slíkt.


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Við höfum aldrei haft sameiginlegan hitting enda fólk víða að af landinu og samgöngur ekki eins greiðar og nú.  Við hjónin  höfum enn samband við herbergisfélaga og aðra vini frá skólaárunum.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana