LeitaVinsamlega sýnið biðlund
ListamaðurJón Stefánsson 1881-1962
VerkheitiEiríksjökull
Ártal1920

GreinMálaralist - Olíumálverk
Stærð93,5 x 113,5 cm
EfnisinntakJökull, Landslag

Nánari upplýsingar

NúmerLÍ-342
AðalskráMyndlist/Hönnun
UndirskráAðalskrá

EfniOlíulitur
Aðferð Málun
HöfundarétturJón Stefánsson-Erfingjar , Myndstef

Lýsing

Sumarið 1919 kom Jón til Íslands og málaði fyrstu landslagsmyndir sínar þar. Næstu sumur kom hann reglulega heim og mun þessi mynd af Eiríksjökli vera máluð árið 1920, en þá um sumarið hafði Jón dvalist um tíma á Húsafelli. Var myndin á þriðju almennu listsýningu Listvinafélagsins í Reykjavík árið 1922 undir heitinu Skúlaskeið. Eins og þeir Ásgrímur Jónsson og Þórarinn B. Þorláksson sér Jón landið í fjarska, en beinir sjónum sínum að því, sem tekur við, er byggð og gróðri sleppir og stórbrotið öræfalandslagið blasir við. Andspænis slíkri sýn leitar hann aftur til klassískrar landslagshefðar og byggir mynd sína á þrem stigum inn í myndrýmið, en frá þeirri myndbyggingu hvikar hann nær aldrei í landslagsmyndum sínum. Í forgrunni er hvöss urðin, þá eyðisandurinn og loks jökullinn í bakgrunni. Þetta brot af íslenskri náttúru fellir hann í samstæða heild, þar sem öll smáatriði hafa verið þurrkuð út svo að eftir standa hrein form landsins. Litirnir eru allir tengdir jörðinni og með þeim er mynd landsins meitluð fram og dýpt myndarinnar sköpuð. Rík áhersla er lögð á forgrunninn, þar sem hvassar brúnirnar í urðinni eru dregnar upp með svörtum strikum og hlýir jarðlitirnir skapa nálægð í skynjun áhorfandans. Er innar dregur er mynd landsins ekki eins skarpt dregin og litirnir svalari, uns bláir litatónar verða ríkjandi í hlíðum fjallsins og hjúp jökulsins. Skýjaklasinn yfir jöklinum er mótaður með ívið hlýrri litum, sem draga skýin að og gera þau allt að því áþreifanleg. Við það verður svið myndarinnar samanþjappaðra og fjarsýnin ekki eins eindregin og virðist í fyrstu. Íslenskt öræfalandslag átti eftir að verða eitt af höfuðviðfangsefnum Jóns og í þessu verki koma mörg helstu einkenni landslagstúlkunar hans fram, þar sem skynjun hans á nekt landsins liggur til grundvallar. Listasafn Íslands keypti málverkið árið 1929. (Júlíana Gottskálksdóttir, „Umfjöllun um tíu meginmyndir Jóns Stefánssonar í Listasafni Íslands“, Jón Stefánsson 1881-1962 (Listasafn Íslands: Reykjavík, 1989).)

Þetta aðfang er í Listasafni Íslands. Safnið varðveitir rúmlega 13 þús. listaverk eftir rúmlega 800 listamenn og er tæplega helmingur þeirra Íslendingar. Meirihluti verkanna er eftir innlenda listamenn eða um 12 þús. verk. Flest verkanna eru gjafir til safnsins en tæplega fjórðungur safneignarinnar er keyptur.

 

Öll verk í safneigninni eru skráð í stafrænan gagnagrunn sem er aðgengilegur í safninu. Unnið er að skráningu þeirra í Sarp og birtingu upplýsinga á vefnum Sarpur.is.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.