LeitaVinsamlega sýnið biðlund
MyndefniAlþingismaður, Peysuföt, Skólastjóri
Nafn/Nöfn á myndIngibjörg H. Bjarnason 1867-1941,
Ártal1910-1920

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland

Nánari upplýsingar

NúmerMRA-52
AðalskráMynd
UndirskráRangæingar
Stærð12 x 8 cm
GerðSvart/hvít pósitíf - Brúntónað

Lýsing

Að lokinni fermingu flutti Ingibjörg suður til Reykjavíkur og hóf nám haustið 1881 í þriðja bekk Kvennaskólans í Reykjavík. Árin 1882-1884 naut Ingibjörg leiðsagnar Þóru Pétursdóttur, einnig þekkt sem Þóra biskups og stundaði hún hjá henni nám í teikningu, dönsku og ensku. Sú kunnátta átti eftir að koma sér vel er Ingibjörg stundaði nám í Kaupmannahöfn fyrst 1884 og svo aftur 1886-1893 (Björg Einarsdóttir, 1986).

Á námsárum sínum í Danmörku komst hún í kynni við Lingsleikfimi og lauk leikfimikennaraprófi fyrst Íslendinga vorið 1892 frá Poul Petersens Institut. Ingibjörg lagði alla tíð ríka áherslu á mikilvægi íþróttakennslu og má með sanni segja að hún hafi verið brautryðjandi á því sviði. Einnig stundaði hún nám í hinum ýmsu greinum er tengdust uppeldi- og menntun (Björg Einarsdóttir, 1986).
Ingibjörg vildi vera áfram í Kaupmannahöfn en það var eindreginn vilji móður hennar að börn hennar snéru aftur til Íslands að námi loknu (Sigríður Briem Thorsteinsson, 1974).

Árið 1893 hóf Ingibjörg störf sem kennari við Barnaskólann og Kvennaskólann í Reykjavík. Hæfileikar hennar á sviði kennslu komu fljótlega í ljós. Eftir að hafa starfað sem nánasti samstarfsmaður Þóru Melsteð skólastjóra um nokkurt skeið tók Ingibjörg við starfi hennar er hún lét af störfum sökum aldurs 1906. Því starfi gegndi Ingibjörg í 35 ár. Greinilegt er að skólinn hefur skipað stóran sess í lífi Ingibjargar því við andlát hennar arfleiddi hún skólann að flest öllum eigum sínum og eru skrifstofuhúsgögn hennar enn á skrifstofu skólastjóra (Björg Einarsdóttir, 1986).

Ingibjörg lét einnig mjög til sín taka í félagsmálum og þá aðallega í málefnum kvenna. Var hún einn stofnenda Lestrarfélags kvenna í Reykjavík. Hún var einnig ein tólf kvenna er samdi frumvarp er flutt var á Alþingi árið 1915 um þörfina fyrir byggingu Landspítala. Má segja að það hafi verið upphafið á þeirri miklu fjáröflun sem fram fór á næstu árum. Ingibjörg var einnig skipuð formaður Landspítalasjóðs Íslands frá stofnun hans til æviloka (Björg Einarsdóttir, 1986). Einnig sat hún í menntamálaráði á árunum 1928-1932 (Alþingi 2001). Ingibjörg helgaði líf sitt baráttumálum sínum sem áttu hug hennar allan. Hún giftist aldrei og eignaðist engin börn.

Þetta aðfang er í Skógasafni. Heildarfjöldi gripa í safninu er um 15.000. Um 10.000 gripir hafa verið skráðir í Sarp sem er um 70% safnkostsins. Um er að ræða fullnaðar-skráningu án mynda og upplýsinga um geymslustað. Jafnframt er ætlunin að skrá geymslustað og ljósmynda gripi og setja inn í Sarp. Það er ærið verk og ræðst af fjárhagsstöðu safnsins. Um 5.000 ljósmyndir hafa verið handskráðar.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.