LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiSundlaug, Sundlaugamenning
Ártal1989-2014
Spurningaskrá119 Sundlaugamenning á Íslandi

StaðurReykhólar
ByggðaheitiReykhólasveit
Sveitarfélag 1950Garðahreppur, Reykhólahreppur, Reykjavík
Núv. sveitarfélagGarðabær, Reykhólahreppur, Reykjavík
SýslaA-Barðastrandarsýsla (4500) (Ísland), Gullbringusýsla (2500) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1982

Nánari upplýsingar

Númer2013-2-166
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið24.10.2013/10.3.2015
TækniTölvuskrift

[1]

 

Almennar upplýsingar um sundlauganotkun þína

Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).

 

 Hvers vegna ferð þú í sund? Eftir hverju ert þú að sækjast?

 Hreyfingum, útiveru, ró og að geta kjaftað við vinkonurnar um allt og ekkert. Finnst mun skemmtilegra að fara í sund en t.d. á kaffihús til að spjalla.

 

Hvað ferð þú oft í sund að jafnaði? Hefur það verið breytilegt í gegnum tíðina? Hvaða laugar hefur þú mest sótt og hvers vegna?

 Nú sæki ég mest Laugardalslaug en stundum Vestubæjarlaug. Æfði áður sund í Garðabæ og bjó rétt ofan við sundlaugina á Reykhólum og var þar fastagestur.

 

Er eða hefur verið regla á því á hvaða tíma dagsins þú ferð í sund? Hvers vegna? Ferð þú að jafnaði ein(n) í sund eða með öðrum?

 Fer oftast í sund á kvöldinn virka daga en um hádegi um helgar. Ég fer stundum ein en reyni oft að fá vinkonur mínar með mér í sund og stundum mömmu. Mér finnst gott að fara í sund eftir kvöldmat því þá eru oft frekar fáir í lauginni og gott pláss til að synda.

 

Sundkennsla

Á hvaða aldri byrjaðir þú að læra sund? Í hve mörg ár lærðir þú?

 Fyrsta sundkennslan var þegar ég bjó í Albany í Bandaríkjunum en þar var pabbi minn í mastersnámi í verkfræði. Ég var þá líklega í 5 ára bekk. Þar var kennt í einni lotu, við skiptum um föt í einstaklingsklefum og lærðum í lítilli innilaug. Ég stóð mig ekki sérlega vel í sundinu enda rétt að læra málið og held ég hafi oft alls ekki skilið hvað ég átti að vera að gera. Mér er minnistætt að mér fannst skrítið að fara ekki í sturtu áður en farið var í laugina eða á eftir en sundlaugamenningin var mjög ólík því sem ég átti að venjast úr sundferðum með afa í Garðabæjarlaugina.

Ég byrjaði að læra að synda í 6 ára bekk á Reykhólum en þar var ágæt sundkennsla einu sinni í viku enda góð heit laug sem hægt var að synda í allt árið. Þetta var 25m laug, steinsteypt með mjög djúpum dýpri enda og á botninum var jafnan þörungagróður sem mikið sport var að kafa niður að og skrifa nafnið sitt í. Lóa sundkennari kenndi sund og reyndar leikfimi líka. Ég var svo í sundkennslu alveg þangað til í 10. bekk, þá í Garðaskóla en þar var líka kennt einu sinni í viku. Mest sport var að fá að fara í fatasund. Þá mætti maður í gallabuxum og peysu í sund til að æfa sig að synda í fötum ef maður þyrfti skyndilega að bjarga einhverjum frá drukknun. Ég æfi sund með Stjörnunni í 7.-9. bekk. Það fór alltaf mjög í taugarnar á mér í sundkennslu í gagnfræðaskóla að stelpur gátu sleppt því að mæta ef þær voru á túr og margar notuðu þá afsökun óspart.

 

Var sundkennsla hluti af skólagöngu þinni eða fór hún fram utan skóla? Hvar var kennt og hve stóran hluta ársins?

 Sundkennslan var hluti af skólagöngunni og var einu sinni í viku allan veturinn enda var ég svo heppin að búa á stöðum þar sem voru góðar jarðhitasundlaugar.

 

Hvernig var sundkennslu háttað? Var kennt eftir aldurshópum eða kyni? Hvað finnst þér um sundkennsluna og hverjar voru áherslurnar?

 Það var alltaf kennt saman hverjum bekk fyrir sig og stelpur og strákar voru saman í sundi. Í leikfimi í Garðaskóla voru stelpur og strákar hins vegar oftast í sitt hvoru lagi. Á Reykhólum vorum við ekki nema 7 í árgangi svo við vorum öll saman. Mér fannst alltaf gaman í sundi og varð fljótt vel synd. Ég átti hins vegar vinkonur sem hötuðu sundkennsluna og lærðu aldrei vel að synda og það á við um ansi marga. Er minnistæð línan beygja kreppa sem hamrað var á þegar verið var að kenna bringusund. Mikil áhersla á að læra að fljóta sem er gott.

 

Samskipti og hegðun

Hvaða óskráðar reglur eða viðmið gilda um samskipti og hegðun sundgesta? Getur þú nefnt dæmi um að brotið sé gegn þessum óskráðu reglum?

 

 Hvaða munur er á þessum óskráðu reglum eftir svæðum (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.)?


Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?

 

Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?

 Ég er sjálf lítið spéhrædd. Stundum er vandræðalegt að hitta einhvern sem maður þekkir t.d. úr vinnu í sundi. Oft líka erfitt að þekkja fólk þegar það er ekki í sínum fötum og venjulega umhverfi.

 

Líkami og hreinlæti

Hafa ferðir í sundlaugina áhrif á það hvernig þú hugsar um líkamann? Hvernig þá?

 Nenni núna sjaldnast að hafa mig til eftir sundferðir nema ég sé að fara beint eitthvað annað. Ég fer að jafnaði í sturtu á morgnanna og þegar ég fer í sund á kvöldin virka daga þvæ ég ekki á mér hárið, rétt sápa skrokkinn til að losna við mestu klórlyktina (kem með mína eigin vel lyktandi sápu) skipti um nærbuxur og sokka en er annars ekki að hafa mikið fyrir þessu.

 

Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?

 Finnst alltaf sorglegt að sjá hve algengt er orðið að konur raki af sér öll líkamshár, man fyrst eftir að hafa tekið eftir þessu í ferðum í Árbæjarlaug þegar ég var unglingur, skyldi þetta ekki þá og skyl þetta ekki núna. Núna eru líklega um 70% allra kvenna sem ég sé í sundi rakaðar að neðan, það eru helst þær sem eru yfir sextugu sem ekki taka þátt í þessu.

 Mér finnst alltaf bæði broslegt og sorglegt þegar útlendir ferðamenn, sérstaklega Bretar og Bandaríkjamenn, verða alveg ruglaðar þegar þær komast að því að þær þurfa að vera alveg naktar og þvo sér í sturtunni. Var um daginn í sundi og þá voru tvær breskar konur með dætur sínar á barnsaldri frá svona 4-10 ára að fara í sund og þetta var bara meiriháttar neyðarástand að allir þyrftu að vera allsberir.

 Ég held það sé gott fyrir fólk, sérstaklega konur sem mikill þrýstingur er á um útlit og slíkt, að sjá að konur eru allskonar í laginu og að það er fallegt. Líkaminn breytist með aldrinum, barneignum og slíku og að á hverjum tíma er eitthvað við hann sem er gott og sundferðir þar sem við sjáum fullt af allsberu alvöru fólki geta verið leið til að minna okkur á þetta.

 

Hvað finnst þér um hreinlæti á sundstað?

 

Hreinlæti er ótrúlega mikilvægt í sundlaugum og í flestum laugum er það yfirleitt gott þó það megi alltaf gera betur í að hreinsa hár af gólfi og svoleiðis.

 

Í sundlauginni

Hvað kannt þú best að meta við sundferðina? En síst?

 Að vera í vatninu, fljóta, synda og spjalla í heita pottinum. Tíminn ofan í vatninu er bestur en það er oft ansi strembið að hlaupa á milli lauga og potta í kuldanum. Leiðinlegast finnst mér að fara upp úr og klæða mig.

 

Hefur þú komið þér upp föstum venjum í sambandi við heimsóknir þínar á sundstað? Hvaða venjum? Hvers vegna?

 Þær eru eitthvað fáar. Reyni yfirleitt að synda eitthvað og fer alltaf í pottinn. Þegar ég er á ferðalagi úti á landi reyni ég að prófa allar sundlaugar sem ég get og ef það er rennibraut fyrir fullorðna fer ég yfirleitt amk eina ferð, það er svo gott til að halda sér ungum.

 

Hvernig líður þér þegar þú ert búin(n) í sundi (líkamlega, andlega)?

 Alltaf rosalega vel andlega, er rólegri og oft þægilega þreytt. Er oftast þurr í húðinni en það er ekkert sem gott krem lagar ekki.

 

Með hvaða hætti hafa sjón, lykt, hljóð, bragð og snerting áhrif á líðan þína í sundi?

 Það er mikilvægt fyrir mig að umhverfi sundlaugarinnar sé snyrtilegt og mér finnst óþægilegt þegar það er mikill utanaðkomandi hávaði t.d. vegna fótboltaleikja á Laugardalsvelli. Það er samt oftast gaman að heyra annað fólk spjalla og börn að leik.

Mér finnst gott að labba á nýju gúmmíhellunum í Laugardalslauginni, mun þægilegra en á venjulegum hellum. Mér finnst líka einn af kostum Laugardalslaugarinnar vera arkítektúrinn sem mér finnst fallegur og nýtur sín vel núna eftir að búið er að taka sundlaugina svona rækilega í gegn. Mér finnst gaman þegar fólk er að hlaupa í stúkunni og æfa sig og fylgist oft með því úr pottunum.

Verandi mikill sundunnandi finnst mér klórlyktin í sundlauginni góð og það er líklega ein af þeim lyktum sem hefur róandi áhrif á mig.

Hef ekki mikið velt bragðinu fyrir mér en er ennþá hissa þegar ég finn saltbragðið í nýja pottinum í Laugardalslaug.

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður og hvernig þú hegðar þér á ólíkum svæðum eða í ólíkum tegundum lauga (t.d. í innilaug, útilaug eða heitri laug)? Hvernig þá?

 Ég er mjög lítið fyrir innilaugar og geri mér sjaldan ferð í þær. Hluti af því sem er svo dásamlegt við að fara í sund er að vera úti. Í venjulegum útilaugum reyni ég yfirleitt að synda nokkrar ferðir, helst ekki minna en 200m og helst 1 km ef ég hef tíma.

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir árstíðum, veðri eða tíma dags? Hvernig þá?

 Það er dásamlegt að sleikja sólina í sundi á sumrin en líka heillandi að fara í sund í brunagaddi, roki og snjókomu. Fátt fallegra en að sitja í heitum potti í hundslappadrífu.

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir því hve margir eða fáir eru í lauginni á sama tíma og þú? Hvernig þá?

 Mér finnst yfirleitt betra þegar það eru frekar fáir í sundi, þá er gott næði til að synda og spjalla við þá sem komu með manni í pottinum. Það er samt stundum gaman að það sé mikið af fólki, ég hef gaman að því að heyra alla útlendingana í Laugardalslauginni spjalla á mismunandi tungumálum og leik mér að því að reyna að skilja hvað þeir segja svona í gamni.

 

Hvað í hönnun og umhverfi þeirrar sundlaugar sem þú sækir mest ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með?

 

Besti kosturinn við Laugardalslaugina er 50 m sundlaugin, það er hvergi betra að synda en þar. Það mættu hins vegar vera fleiri og stærri pottar, er ansi oft mjög troðið þar.

 

Heiti potturinn

Hverju ert þú að sækjast eftir þegar þú ferð í heita pottinn? Er upplifunin breytileg eftir árstíðum, tíma sólarhringsins eða öðrum utanaðkomandi aðstæðum?

 

Hverjir eru það sem sækja heita pottinn? Er munur á aðsókn eftir kyni eða aldri?

 

Hvaða samræður fara fram í heita pottinum og hverjir taka þátt í þeim? Er eitthvað umræðuefni frekar rætt en annað? En sem þykir síður við hæfi að ræða?

 

Hafa aðstæður og umhverfið í heita pottinum áhrif á samræðurnar á einhvern hátt? Finnast þér samræður svipaðar í heita pottinum og annars staðar þar sem fólk kemur saman?

 

Hvernig veljast menn saman í potta (tilviljun, kunningsskapur, menntun)?

 

Sundgesturinn

Hvaða búnað tekur þú með þér á sundstað og í hvaða tilgangi?

 Sundföt, oftast sundbol þar sem ég vil helst geta synt í sundi þó það séu bara nokkrar ferðir. Ég er alltaf með sundgleraugu í töskunni en tek þau ekki alltaf með í laugina, fer eftir því hvort ég ætla mér að synda eða ekki. Ég tek alltaf stórt en létt handklæði, finnst gott að geta vafið mig inn í það þegar ég er að þurrka mér. Ég tek hrein nærföt og sokka og stundum líka hrein föt. Hárbursta, sjampó, hárnæringu og sápu. Ég nota helst alltaf sápustykki finnst það eitthvað svo mikill lúxus. Ég nota oftast sömu töskuna,dökkbláa Nike tösku sem lítur út fyrir að vera frá sjöunda áratugnum en ég keypti hana á Spáni fyrir mörgum árum. Ef ég ætla mér að synda set ég yfirleitt teygju í hárið á mér.

 

Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?

 Konur sem ætla sér að synda eru oftast í dökkum sundbolum. Konur sem eru meira til að sýna sig og sjá aðra eru í bikiníum. Sumir synda með blöðkur og slíkt.

 

Tekur þú eftir mismunandi sundtísku eða tískusveiflum, t.d. eftir aldri sundgesta, sundstöðum eða tímabilum? Hvernig lýsir þetta sér?

 Nú eru flestar konur yfirleitt í bikiní (tvískiptum sundfötum) og unglingsstúlkur næstum án undantekninga. Þegar ég var yngri sást þetta ekki nema á sérlega góðum sumardögum. Mér finnst þetta synd enda er ekki hægt að synda í þessum flíkum flestum með góðu móti. Sundferð er orðinn enn einn staðurinn þar sem allt þarf að líta rétt út, vera smart, sexý og fínt. Einu sinni voru eiginlega allar konur frá 6 ára til 90 ára í eins sundbolum, yfirleitt dökkum og einföldum. Held þetta sé ákveðin afturför. Það ber líka alltaf aðeins á því núna þegar ég fer í Laugardalslaugina að yngri konur og unglingsstúlkur séu stífmálaðar, með blásið og sléttað hár og fullt af skartgripum í sundi. Þær bleyta þá ekki hárið og synda auðvitað ekki. Get ekki ímyndað mér að svoleiðis sundferðir séu þægilegar eða skemmtilegar en ég er kannski bara orðin svona gömul.

Þegar ég var yngri voru líka flestir karlmenn í svokölluðum Speedo sundskýlum en núna eru margir í sundskýlum með stuttbuxnasniði sem aftur er erfitt að synda í. Útbúnaðurinn er farinn að snúast meira um útlitið en þægindi við að hreyfa sig.

 

Sundminningar og sögur úr sundi

Er einhver saga eða minningar úr sundi sem þú myndir vilja segja frá í lokin?

 

Ætla að reyna að setja hérna eina góða og aðra slæma sundminningu.

 Versta sundminning mín er þegar ég fór í sund ásamt tveimur öðrum krökkum í sundlauginni á Reykhólum. Ég held ég hafi verið 10 eða 11 ára. Þetta voru tveir krakkar úr Reykjavík, stelpa jafn gömul mér og strákur 1-2 árum eldri, börn tónlistarkennarans á staðnum sem voru í heimsókn hjá pabba sínum og Dídí vinkona mín sem var ári eldri en ég. Ég þekkti þau ekki vel en á nokkrum dögum hafði tekist með okkur ágætur vinskapur. Einhverjum 1-2 árum áður hafði sundlaugin verið tekin nokkuð í gegn, klefar lagaðir, sundlaugin sjálf máluð, hellulagt og bætt við tveimur heitum pottum. Ég held þetta hafi verið um vor og það var ekki búið að opna sundlaugina formlega en við þóttum nógu gömul og vön til að fara ein í sund og höfðum fengið til þess leyfi. Það hafði verið rafmagnslaust fyrr um daginn og hitastýringin í öðrum heita pottinum hafiði bilað. Stelpan úr Reykjavík sem var með okkur fór fyrst í hann og brenndist illa á öðrum fótleggnum. Við urðum öll mjög hrædd en ég hafði rænu á að fara með hana inn í klefa og láta standa undir kaldri sturtu meðan ég klæddi mig í rennandi blaut, hljóp heim og hringdi í pabba í vinnunni. Ef ég man rétt gekk mér illa að ná í einhvern fullorðinn og á þessum tíma var ekkert 112 og ég kunni ekkert neyðarnúmer utan að. Loksins náði ég í pabba gat sagt hvað hafði gerst og hann hrindi í einhverja viðbragðsaðila. Það kom sjúkraflug frá Reykjavík og stelpan var nokkuð lengi á Barnaspítala Hringsins. Ég hitti hana aldrei aftur. Eftir þetta var settur sími í anddyrið sem alltaf var hægt að hringja úr þó enginn væri á vakt í lauginni.

 


Kafli 1 af 9 - Persónuupplýsingar

Nafn, fæðingarár, sveitarfélag, starf, menntun/í hvaða námi, kyn, þjóðerni. Við hvaða staði og tímabil eru svörin miðuð? Þeir sem það kjósa geta svarað nafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð.

Kafli 2 af 9 - Almennar upplýsingar um sundlauganotkun þína

Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).
Hvers vegna ferð þú í sund? Eftir hverju ert þú að sækjast?
Hvað ferð þú oft í sund að jafnaði? Hefur það verið breytilegt í gegnum tíðina? Hvaða laugar hefur þú mest sótt og hvers vegna?
Er eða hefur verið regla á því á hvaða tíma dagsins þú ferð í sund? Hvers vegna? Ferð þú að jafnaði ein(n) í sund eða með öðrum?

Kafli 3 af 9 - Sundkennsla

Á hvaða aldri byrjaðir þú að læra sund? Í hve mörg ár lærðir þú?
Var sundkennsla hluti af skólagöngu þinni eða fór hún fram utan skóla? Hvar var kennt og hve stóran hluta ársins?
Hvernig var sundkennslu háttað? Var kennt eftir aldurshópum eða kyni? Hvað finnst þér um sundkennsluna og hverjar voru áherslurnar?

Kafli 4 af 9 - Samskipti og hegðun

Hvaða óskráðar reglur eða viðmið gilda um samskipti og hegðun sundgesta? Getur þú nefnt dæmi um að brotið sé gegn þessum óskráðu reglum?
Hvaða munur er á þessum óskráðu reglum eftir svæðum (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.)?
Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?
Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?

Kafli 5 af 9 - Líkami og hreinlæti

Hafa ferðir í sundlaugina áhrif á það hvernig þú hugsar um líkamann? Hvernig þá?
Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?
Hvað finnst þér um hreinlæti á sundstað?

Kafli 6 af 9 - Í sundlauginni

Hvað kannt þú best að meta við sundferðina? En síst?
Hefur þú komið þér upp föstum venjum í sambandi við heimsóknir þínar á sundstað? Hvaða venjum? Hvers vegna?
Hvernig líður þér þegar þú ert búin(n) í sundi (líkamlega, andlega)?
Með hvaða hætti hafa sjón, lykt, hljóð, bragð og snerting áhrif á líðan þína í sundi?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður og hvernig þú hegðar þér á ólíkum svæðum eða í ólíkum tegundum lauga (t.d. í innilaug, útilaug eða heitri laug)? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir árstíðum, veðri eða tíma dags? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir því hve margir eða fáir eru í lauginni á sama tíma og þú? Hvernig þá?
Hvað í hönnun og umhverfi þeirrar sundlaugar sem þú sækir mest ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með?

Kafli 7 af 9 - Heiti potturinn

Hverju ert þú að sækjast eftir þegar þú ferð í heita pottinn? Er upplifunin breytileg eftir árstíðum, tíma sólarhringsins eða öðrum utanaðkomandi aðstæðum?
Hverjir eru það sem sækja heita pottinn? Er munur á aðsókn eftir kyni eða aldri?
Hvaða samræður fara fram í heita pottinum og hverjir taka þátt í þeim? Er eitthvað umræðuefni frekar rætt en annað? En sem þykir síður við hæfi að ræða?
Hafa aðstæður og umhverfið í heita pottinum áhrif á samræðurnar á einhvern hátt? Finnast þér samræður svipaðar í heita pottinum og annars staðar þar sem fólk kemur saman?
Hvernig veljast menn saman í potta (tilviljun, kunningsskapur, menntun)?

Kafli 8 af 9 - Sundgesturinn

Hvaða búnað tekur þú með þér á sundstað og í hvaða tilgangi?
Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?
Tekur þú eftir mismunandi sundtísku eða tískusveiflum, t.d. eftir aldri sundgesta, sundstöðum eða tímabilum? Hvernig lýsir þetta sér?

Kafli 9 af 9 - Sundminningar og sögur úr sundi

Er einhver saga eða minningar úr sundi sem þú myndir vilja segja frá í lokin?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana