117 Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf
Lýsing á uppvaxtarheimili. Eins og komið hefur fram í öðrum könnunum ólst ég upp á Undralandi, Fellshrepp í Strandasýslu fram til 1958 Foreldrar mínir stofnuðu nýbýlið Undraland 1937 og byggðu íbúðarhús úr steini árið eftir. Húsið var ca 55 - 60 m2 að stærð á einni hæð með valmaþaki. Gengið var inn í pínulitla forstofu þar sem voru snagar fyrir fatnað og pláss fyrir skófatnað meðfram vegg. Í forstofunni var lítill gluggi en hurðin sjálf var gluggalaus og opnaðist út. Úr forstofunni var komið inn í mjóan gang vart meira en 80 -100 cm á breidd og fyrst gengið úr honum inn í lítið eldhús. Í eldhúsinu var fast hornborð með vaski, og yfir vaskinum lítill skápur undir leirtau. Í skápnum voru tvær skúffur önnur undir hnífapör og hin undir aðskiljanlegt dót. Við endan á hornborðinu var lítið eldhúsborð þar sem fjölskyldan mataðist. Eldavélin var kolavél með innbyggðum vatnstank, sem hitaði húsið, semsagt miðstöðvarkynding í húsinu, ofnar í öllum herbergjum nema eldhúsi og búri, sem var inn af eldhúsinsu. Í búrinu var borð þvert fyrir enda búrsins og þar var skilvinda og strokkur og á borðinu allskyns áhöld tengd mjólkurvinnslu og mjólkurgeymslu t.d. smjörmót o.fl. Ofan við borðið voru hillur sem á voru allskyns áhöld og varningur, sem nota þurfti daglega eða oft, t.d. mjöl- og sykurdúnkar, kökubox, sultur ofl. Til vinstri þegar komið var inn um búrdyrnar var sláturtunnan. Hún geymdi súrmatinn, mikilvægan kost til vetrarins. Beint á móti eldhúsdyrunum var gengið inn í litla stofu. Í stofunni var dívan og einhverskonar borð (ekki eiginlegt borðstofuborð lengi framan af, það kom um 1956 með 4 stólum), Þegar gestir komu lengra að var borið fram kaffi/matur í stofunni. Rétt er eð geta þess að í tvö ár kringum 1950 bjuggu hjón í stofunni, sem elduðu þar inni á lítilli steinolíuvél, en notaði eldhúsvask til uppþvotta og kalt búr til geymslu, í annað skipti var farskóli hreppsins vetrarapart í stofunni. Þegar kom inn á ganginn var gengið til hægri inn í hjónaherbergi, þar var hjónarúm með fiðurdýnum og fyrir enda þess var kommóða undir rúmföt og þesshátta og yfir henni hilla þar sem útvarpið var og í horninu til hliðar dívan, þar sem einhver okkar bræðra svaf lengi fram eftir meðan allir voru heima. Það var svo þröngt í hjónaherberginu að fólk varð að skáskjóta sér áfram þar inni. Á móti dyrunum inn í hjónaherbergið var lítil snyrting með klóseti, vaski og vatnsdælu (handdælu) Helt var í klósetið úr vatnsfötu eftir notkun, og rann úr því og vaskinum í hlandfor, sem grafin var í jörð skammt frá bænum. Hlandforin var tæmd einu sinni á ári og innihaldinu dreift á tún. Vatnsdælan var brúkuð til að dæla vatni úr jarðbrunni, sem grafin var ofan í túnið utan við bæinn og upp í tunnu uppi á lofti, svo sjálfrennandi kalt vatn var í klóset vask og eldhúsvask, vatnið var ekki gott, sérstaklega á sumrin var það leiðinlega vont og helst ekki drukkið. Allt heitt vatn var hitað á eldavélinni, sem kynnt var allan vökutímann og því nægjanlegt heitt vatn ætíð til. Beint inn af ganginum var gengið inn í vesturherbergið, lítið herbergi með tveim rúmum og pínulitlu ferhyrndu borði, heimasmíðuðu. Seinna um 1950 var hengdur upp fatapoki í herberginu undir skárri föt fullorðna fólksins, annars var allur fatnaður ýmist geymdur í kommóðunni í hjónaherberginu eða á snögum fram í forstofu. Engir fataskápar voru í húsinu. Þvottahús var í sérstöku húsi skammt frá íbúðarhúsinsu, í þvottahúsinu var eldstæði með innmúraðri 200 l stáltunnu, sem hafði verið söguð í tvennt. Þar var þvotturinn soðinn. Ekkert rennandi vatn var í þvottahúsinu. Í þvottahúsinu voru eldiviðargeymslur mó- og kolastíur. Áfast við þvottahúsið var önnur geymsla þar sem geymd voru útivinnuverkfæri og svo var þar líka hefilbekkur og hillur með smíðaáhöldum, en faðir minn var góður smiður og smíðaði allt sjálfur bæði hús og ýmis áhöld til heimilisnota. Í þessari geymslu var loft þar sem m.a. var geymd mjölvara til vetrarins og ýmislegt annað svo sem heyvinnuverkfæri yfir veturinn, orf, ljáir, hrífur og svoleiðis. Undir stiganum upp á loftið var trékassi í honum var geymdur vetrarforði af söltuðum þorskþunnildum. Í geymslunni voru geymdar saltkjötstunnur með saltkjöti til vetrarins og á bitum hengu hangikjötsstykki, þau sem ekki voru send til geymslu í frystihúsið á Hólmavík. Heimilið var lýst upp með vindrafstöð, 12 volta spenna, geymarnir sem tóku við umframhleðslu semnýttist svo í logni var komið fyrir í geymslunni, upp úr 1950 var keyptur 1 hestafls bensínmótor til að framleiða rafmagn á móti vindrafstöðinni. Lampaljós og kamrar voru ekki á Undralandi. Það svaf aðeins einn í hverju rúmi utan að foreldrar mínir svafu saman í hjónarúminu. Meðan við bjuggum á Undralandi, til 1958 að fjölskyldan flutti til Akureyrar, var ekki ríkmannlega búið. Undanteknining var að við fengjum nýja flík, móðir mín saumaði allar flíkur á okkur bræðurna[1] fram að fermingaraldri, oftast upp úr gömlum flíkum, sem fengust gefnar eða að yngri bræður fengu flíkur, sem þeir eldri voru vaxnir uppúr, en þá var flíkinni oftast vent[2] sem kallað var og sumað nýtt fat. Þegar við fermdumst var lögð áhersla á að við fengjum ný föt, jakkaföt, fína skó, hvíta skyrtu og svoleiðis, í mínu tilfelli voru þetta fyrstu nýju fötin, ef frá eru talin ein stígvél á ári, sem voru daglegur fótabúnaður og svo eina strigaskó á ári. Sumir gengu í heimagerðum gúmiskóm gerðum úr bílslöngum. Í mat var byggt á því sem búið gaf, gert mikið slátur, sviðinir hausar og lappir og sultað eða fryst, kjöt saltað og reykt og svo þorskþunnildin eins og áður er getið. Kæfugerð var mikið stunduð, kæfan sett í léreftsbelgi, kannski 1 kg þeir stærstu og notuð ofan á brauð. Allt brauð var bakað heima. Allan ársins hring var etinn mjólkurmatur, á veturna meðan mjólk var til, fyrst var aðein kú og þá þraut mjólk um hríð, en þegar kúnum fjölgaði fyrst í tvær og síðan þrjár var alltaf til nógur mjólkurmatur og hann mikið borðaður. Saltað og reykt var vetrarfæða, því var það mikil hátíð þegar hrognkelsi fóru að veiðast úti á Nesjum[3] og við fengum senda poka fulla af hrognkelsum. Næst var það þegar selurinn fór að veiðast úti á Broddanesi þá fengum við sent nýtt selkjöt sem okkur fannst góð tilbreyting. Með vorinu þegar ísinn tók af firðinum og fært var á báti til Hólmavíkur kom Ágúst á Hvalsá á trillunni sinni með vörurur úr frystihólfinu, frosinn fisk og mjölvöru fyrir skepnur, þá varð loks kærkomin breyting á mat og hlé á saltkjöts- og saltfisksáti um hríð. Annars entist saltkjötið langt fram á sumar. Grautar voru mikið borðaðir hafragrautur, heilhveitigrautur, hræringur og grautur sem nefndist Íslendingur, soðinn úr undanrennu og haframjöli frekar þunnur og slepjulegur, mér fannst hann alltaf ólystugur. Þegar bleikjan tók að veiðast við sandinn seinast í júni og fram í ágúst, var mikil veisla, ný bleikja með bráðnu smjöri og kartöflum var meira lostæti en orð fá lýst, enn í dag þykir mér þessi matur allra mata bestur og minnist í hvert sinn þess tíma þegar maður losaði fyrstu vorbleikjuna úr netinu og bar heim, þá vissi maður að daginn eftir yrði veisla. Til að veiðin gengi betur létum við oftast eitthvað maðka á fjörukambinum og svo henti maður maðkinum út í netið, bleikjan sótti í maðkinn og þá veiddi maður stundum vel. Dágóður sumarmatur var rabbarbaragrautur með rjóma, sem var mjög oft á borðum yfir sumarið. Annars var rabbarbarinn mest notaður til sultugerðar og svo í bakstur t.d. jólabaksturinn randalínubakstur og hálfmána auk þess að vera álegg ofan á brauð með smjöri. Leitarlambið á haustin var mikil tilbreyting leitarlambinu var slátrað rétt fyrir haustsmalamennsku, þá var gert slátur sviðin sviðin og fyrsta máltíðin var soðið lambakjöt, með kjötsúpu, soðnum rófum og kartöflum. Í súpuna var sett haframjöl og rófur og stundum grænkál þegar það var ræktað. Rófur og kartöflur var eina grænmetið sem ræktað var heima, ræktun á káli var aldrei stunduð á Undralandi af mínum foreldrum. Á haustin vorum við krakkarnir send í berjamó að tína krækiber, lögð var mikil áhersla á berjatínsluna og berin notuð í saft til vetrarins. Það þótti bráðnauðsynlegt að eiga sem mest af berjasaft út á hrísgrjónagraut og líka til að búa til berjagraut. Móðir mín var kvennaskólagengin og kunni góð skil á matargerð og hversu mikilvægt af að gæta að eins fjölbreyttri fæðu og kostur var. Oft kom hvalsölubíllin á sumrin meðan hvalvertíðin stóð yfir, þá kom vörubíll frá hvalstöðinni og seldi hvalspik, sem alltaf var dálítið keypt. Rengið var skorið í hæfilega bita og soðið í stóra þvottapottinum. Þegar það var fullsoðið var það fært upp og látið kólna og síðan sett í súrtunnuna í búrinu og borðað súrt yfir veturinn oftast með heitum kartöflum eða stundum með súru slátri út á hafragraut. Mér þótti ágætt að smakka heitt hvalspik með kartöflum í þá daga, en ekki lengur. Um jól voru bakaðar kökur og í þær notaðar bökunarvörur eins og gerist í dag, nema stundum þraut smjörlíki og þá var notuð hrossafeiti og eins ef egg þraut þá var notað einhverskonar duft, sem kallað var eggjaduft. Á jólum fékk fjölskyldan úhlutað 5 kg af eplum og 5 kg af appelsínum. Byrjað var að smakka ávextina á aðfangadagskvöld og þá fékk hver heimilismaður hálft epli eða hálfa appelsínu í hvert sinn, því mikilvægt var að láta góðmetið endast sem lengst. Hátíðamatur var hangikjöt með hvítri sósu og kartöflum eða steikt lambalæri með brúnuðum kartöflum, brúnni sósu og rabbarbarasultu. Matmálstímar voru: Morgunmatur, hádegismatur, miðdegiskaffi, kvöldmatur og yfir sumarið kvöldkaffi. Við krakkarnir drukkum mjólk, fullorðna fólkið drakk mjólk og rótarkaffi, te var stundum til. Mamma sá um öll húsverkin matartilbúning, þvotta og þrif, auk þess að vinna í heyskap á sumrin þegar þörf var á. Pabbi sá um útiverkin, mjólkaði, sá um gegningar og flest annað, sem sneri að búinu sjálfu. Á sumrin utan háheyskapartímans vann hann mikið utan heimilis við smíðar, en kom oftast heim á seint kvöldin, þá varð mamma að mjólka þótt henni leiddist beljustússið. Hreinlæti var öðruvísi háttað en í nútímanum, ekki var notaður klósetpappír heldur rifnar niður tuskur. Klósetið var yfirleitt ekki notað af karlmönnum frá vori og fram á haust, þá fóru strákar og karlmenn út, niður fyrir túngarð og gerðu þar þarfir sína og notuðu mosa eða gras til þrifa. Það þótti ekki karlmannlegt að nota klóset yfir sumarið. Farið var í bað tvisvar í mánuði. Baðferðir voru þannig að blandað var hæfilega heitt vatn í vaskafat og svo þvoði fólk sér með þvottapoka hátt og lágt, höfuðþvottur var úr sérstöku vatni, öðru en notað var á skrokkinn. Skipt var á rúmum einu sinni í mánuði stundum sjaldnar yfir veturinn þegar ekki var hægt að þurrka þvottinn, en hann var alltaf þurrkaður á útisnúrum. Engin heimilistæki voru á æskuheimilinu á Ströndum utan skilvindan og strokkururinn, jú straujárnið, sem hitað var á eldavélinni fyrir notkun. Allir hlutir voru sparaðir, gert við fatnað, stagað í sokka, stígvél bætt, hnoðað blý í lekar fötur o.sv. frv. Peningar sáust yfirleitt ekki, það var ekki fyrr en við fluttum til Akureyrar og ég fór að vinna við höfnina, þá 14 ára, að maður fór að sjá aura. Hagur fjölskyldunnar batnaði þegar búskaparhokrinu lauk, bæði var það að pabbi fékk ágæta vinnu og laun fyrir hana og svo vorum við bræður orðnir stálpaðir og unnum fyrir okkur að miklu leyti frá 13 – 14 ára aldri. Mér leið í sjálfu sér ágætlega á Undralandi, enda þekkti maður ekki annað, ég vissi þó alltaf af því, að handan við fjöllin beið annarskonar líf, semég ætlaði nálgast áður en langt liði á ævina. Aðstæður á Undralandi voru svipaðar og á öðrum bæjum, enginn verulegur mismunur þar á. Heima á Undralandi var til gamall vörubíll, sem notaður var við búskapinn þar sem hvorki var til hestur né dráttarvél. Lengi vel slóum við allt túnið með orfi og ljá, við strákarnir fengum orf um 11 – 12 ár aldurinn og slóum á heilan vinnudag frá morgni til kvölds ef því var að skipta. Seinustu árin var bóndinn á næsta bæ fenginn til að slá með dráttarvélinni sinni. Á veturna var lítið um að vera, skólinn var farskóli stóð samtals 3 mánuði á vetri, þar á milli var maður heima las mikið og stundaði útileiki, fór á skauta ef gerði svell, lítið sem ekkert á skíði, reyndi að aðstoða við gegningar og fóðraði hænsnin. Nútímanum þætti daufleg vistin í vetrarríkinu norður á Ströndum á sjötta áratugnum, því í raun var ekkert við að vera. Skákin kom á heimilið eftir einvígi þeirra Friðriks og Larsens, við komumst fljótt upp á lag með að tefla og var það drjúgt tómstundagaman, sem hefur enst síðan. Ferðalög voru ekki stunduð, ekki einu sinni á milli bæja nema maður ætti erindi annað var talið flakk. Þegar við fluttum til Akureyrar 1958 hafði ég komið nokkrum sinnum til Hólmavíkur, dvalið viku við sundnám á Reykjaskóla og þá eru ferðalög fyrstu 14 ára ævinnar upptalin. Ég læt hér staðar numið að segja frá aðstæðum á Undarlandi, vísa í bók mína Fyrir miðjum firði, Myndbrot frá liðinni öld, sem gætu fyllt upp í eitthvað sé hér vantar. (..1..) [1] Singer handsnúin saumavél [2] Það sem inn sneri á gömlu flíkinni sneri nú út á þeirri nýju [3] Broddanesi og Broddadalsá
Kafli 1 af 3 - Lýsing á uppvaxtarheimili
Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd.
Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið.
Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að næsta spurningakafla sé svarað.
Kafli 2 af 3 - Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum
Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.
Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?
Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?
Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?
Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?
Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.
Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?
Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?
Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?
Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?
Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?
Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.
Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?
Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?
Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?
Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.
Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?
Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?
Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?
Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.
Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.
Kafli 3 af 3 - Dagur í lífi heimilismanns
Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.