LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSund, Sundlaug, Sundlaugamenning
Ártal1955-2013
Spurningaskrá119 Sundlaugamenning á Íslandi

Sveitarfélag 1950Akranes, Akureyri, Kópavogshreppur, Reykjavík
Núv. sveitarfélagAkraneskaupstaður, Akureyrarbær, Kópavogsbær, Reykjavík
SýslaBorgarfjarðarsýsla (3500) (Ísland), Eyjafjarðarsýsla (6500) (Ísland), Gullbringusýsla (2500) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1948

Nánari upplýsingar

Númer2013-2-150
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið24.10.2013/2.12.2013
TækniTölvuskrift

(1).

Almennar upplýsingar um sundlauganotkun þína

Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).

 

Svar: Að sumri til og svo lengi sem hiti er fyrir ofan frostmark kýs ég að nota stóru útisundlaugarnar í Laugardal og Kópavogi. Kópavogslaugin líkar mér best. Það er mjög gott að synda í henni. Hún er svo víðáttumikil, vatnið er ögn salt og maður fær sterka tilfinningu fyrir náttúrunni umhverfis. Það sér í Reykjanesfjallgarðinn, með Keili sem helsta kennileiti. Laugardalslaugin er líka góð til að synda í og nýi saltpotturinn finnst mér bæði fallegur og góður til slökunar í. Hvora laugina sem ég sæki verð ég að fara á bíl, annars tekur ferðin of langan tíma. Þriðja laugin er Sundhöll Reykjavíkur og hún er í göngufæri frá heimili mínu. Hana sæki ég mest yfir veturinn. Ég labba þennan spöl með sundtöskuna á öxlinni, kasta kveðju á fólkið í afgreiðslunni og fæ lykil að einhverjum klefanum, borga mig svo inn með rafrænu korti. Ég er alltaf með tíu ferða kort, hvort sem það er einhver tegund klippikorts eins og var þar til fyrir um ári, eða þessi nýja gerð. Ég fer úr útiskónum neðan við tröppurnar og held á þeim inn í klefann, nota plastpoka utan um þá ef blautt er úti. Í klefanum klæði ég mig úr hverri spjör, eins og lög gera ráð fyrir og tek af mér úr og skartgripi. Læsi svo allt inni í klefanum nema sundfötin, handklæðið og sjampóið. Fer á klósettið, þurrka af setunni með klósettpappír, pissa, þurrka mér, sturta niður, þvæ mér um hendur og fer svo inn í almenninginn þar sem sturturnar eru. Vef handklæðinu utan um sjampóbrúsann og sting því í handklæðahólf, finn lausa sturtu, skrúfa frá krönum og þvæ mér vel með sápu úr sápuskömmturunum á veggnum. Þegar mér finnst ég vera alveg hrein fer ég í sundfötin, bind klefalykilinn við annan axlahýrann og læt vatnið fossa áfram yfir mig smástund, bara af því það er notalegt og gott. Síðan fer ég upp stigann sem liggur að lauginni og held mér í handriðið til öryggis. Ég kæri mig ekki um að mér skriki fótur í blautum tröppunum, gólf í sundlaugum er auðvitað hált. Ég fer ofan í laugina næst innganginum og nota tröppurnar ofan í djúpu laugina. Vatnið er pínu-kalt í fyrstu, en ég byrja strax að synda og eftir smástund finnst mér vatnið alveg hæfilega heitt. Í mörg ár hef ég synt 500 metra í hverri sundferð, en eftir síðustu Ólympíuleika  (sumarið 2010) hljóp mér kapp í kinn og fannst ómögulegt að hjakka alltaf í þessum sömu 500 metrum ár eftir ár og bætti 250 við, þannig að nú syndi ég 750 metra í hverri sundferð. 500 m  bringusund og 250 m baksund. Ég var rúmar fimmtán mínútur að synda 500 metrana, en er 20-25 mínútur eftir lenginguna.

            Eftir sundið fer ég í heita nuddpottinn (áður fór ég stundum í tækin á laugarbakkanum, en þau eru orðin svo óttalegar druslur að þau lokka mig ekki lengur). Ég er í pottinum í ca 10 mínútur, þá fer ég aftur inn að lauginni, upp á stökkpall og sting mér og syndi tvær síðustu ferðirnar nokkuð rösklega. Svo fer ég uppúr, í sturtu, þvæ af mér klórinn og vel um hárið, fyrri umferð með laugarsápunni, seinni með mínu eigin sjampói. Þá þurrka ég mér vel með góðu baðhandklæði, fer á klóið og pissa, þurrka mér og þvæ hendur, fer svo aftur í klefann minn og ber á mig andlitskrem, gel í hárið og vel ilmandi body-lotion hátt og lágt, set á mig úrið og hálsmenið. Þá klæði ég mig, þurrka á mér hárið með blásara, set í mig rúllur, bara smástund til þess að fá smá lyftingu í annars rennislétt hár mitt. Set á mig maskara og varalit.  Svo gæti ég að því að ég gleymi engu í klefanum, tek sundtöskuna og útiskóna og held á þeim fram ganginn, sest á stólinn við gangendann og klæði mig í skóna, geng upp tröppurnar, skila lyklinum að klefanum og kveð starfsfólkið. Kíki á forsíðu Grapevine, sem oftast liggur þar frammi, tek stundum eintak. Labba svo endurnærð heim til mín. Þetta geri ég tvisvar í viku að jafnaði.

 

Hvers vegna ferð þú í sund? Eftir hverju ert þú að sækjast?

 

Svar: Ég fer í sund til þess að njóta þess að vera í vatni og hreyfa mig. Ég er að sækjast eftir líkamsrækt og vellíðan. Og svo er þetta auðvitað baðferð, sunddagarnir eru dagarnir þegar ég þvæ og laga á mér hárið. Það er að auki sterk náttúruupplifun að fara í sund ef laugin er fallega staðsett í borgarlandinu eða landslaginu eins og sums staðar úti á landi. Ég nefni laugina sem auðkonurnar á Höfðaströndinni gáfu Hófsósbúum. Þar er eins og maður sé að synda út Skagafjörðinn með stefnu á Drangey! Maður fílar sig eins og míní-kvenútgáfa af Gretti (Ásmundarsyni). Þótt hann hafi reyndar synt í land hinum megin í firðinum. Og í útilaugunum hvolfist alltaf himinninn yfir, stundum með roða í skýjum, jafnvel stjörnubjartur ef maður fer í sund að kvöldi til. Í Reykljavík er Ábæjarlaugin ákaflega fallega staðsett. Stundum er eins og maður sé að synda út í Elliðaárnar og dalinn fyrir neðan, með skógi vöxnum hlíðum. Eini gallinn er að hún er of lítil til þess að ég njóti þess til fulls að synda í henni. Og eftir að skipt var um skápa og þeir minnkaðir til muna hætti ég að nenna að heimsækja hana. Maður þarf að geta komið fötunum sínum almennilega fyrir í skápunum sem og baðtöskunni. Hér á árum áður fór ég oft í Árbæjarlaugina ef ég fór í sund með yngstu dóttur mín og seinna barnabörnin.

 

Hvað ferð þú oft í sund að jafnaði? Hefur það verið breytilegt í gegnum tíðina? Hvaða laugar hefur þú mest sótt og hvers vegna?

 

Svar: Þegar ég nota sund sem hesltu líkamsrækt tiltekið tímabil fer ég að jafnaði tvisvar í viku, eins og ég lýsti að framan. Ef ég er í annarri líkamsrækt eins og Yoga, þá verða sundferðirnar stopulli, kannski bara einu sinni í viku, eða detta alveg út tímabundið. Og eins og ég sagði í fyrsta svarinu, þá sæki ég til skiptis Kópavogslaugina, Laugardalslaugina og Sundhöll Reykjavíkur. Ég sótti Vesturbæjarlaugina mikið á tímabili þegar vinnustaður minn var nálægt henni. Ég hef reyndar sótt flestar laugar á höfuðborgarsvæðinu fyrir forvitni sakir, allar laugar Reykjavíkur, laugina á Seltjarnarnesi, í Hafnarfirði og á Álftanesi, sem varð svo dýr að hún reið sveitarfélaginu á slig. Ég fer oft í sund í fæðingarbæ mínum Akranesi, hef sótt laugina í Borgarnesi, á Varmalandi (og í Reykholti meðan hún var og hét), Stykkishólmi, Hófsósi sem fyrr sagði, Þelamerkurlaug í Hörgárdal, sem er undursamlega fallega staðsett í sveit Jónasar milli himinhárra fjalla og svo fer ég á hverju sumri í laugina á Akureyri, sem er fantafín. Laugin í Hveragerði er góð og sú á Selfossi einnig þokkaleg sem og sú í Reykholti í Biskupstungum. Ég reyni að fara í sund hvar sem ég fer um á ferðalögum.  

 

Er eða hefur verið regla á því á hvaða tíma dagsins þú ferð í sund? Hvers vegna? Ferð þú að jafnaði ein(n) í sund eða með öðrum?

 

Svar: Það er ekki föst regla á því. Ég vil þó gjarnan nýta dagsbirtuna, þannig að ég fái smá sól á kroppinn þegar um útilaugarnar er að ræða. Í Sundhöllina reyni ég að fara öðru hvoru megin við hádegið, svo ekki sé of margt fólk í henni. Hún er svo lítil að maður nýtur þess ekki að synda ef mjög margir eru ofan í í einu. Ég fer oftast ein í sund, stundum lokka ég þó manninn minn með mér og það er mjög gaman. Hér áður fyrr fórum við oft með dætur okkar, og þá gat það verið heilmikið aukaerfiði að klæða þær úr og í, þvo þeim og þurrka. Og passa þær og kenna þeim. Við slíkar kringumstæður syndir maður ekki eins mikið sjálfur. En í staðinn kemur ánægjan af því að vera með börnunum sínum í vatninu, halda á þeim í fanginu, blautum og kátum, kenna þeim og leika við þau. Sama gildir um barnabörnin. En stundum vorkenni ég ungum foreldrum, einkum ef þeir eru með fleiri en eitt barn í einu, það verður svo mikið aukaerfiði og álag. Og ég vorkenni börnunum ef ég verð vör við að foreldrarnir missa þolinmæðina við þau. Það er reyndar hræðilegt að verða vitni að því að foreldrar/ mæður, séu vondir/ar við börnin sín í sundi. 

 

Sundkennsla

Á hvaða aldri byrjaðir þú að læra sund? Í hve mörg ár lærðir þú?

 

Svar: Ætli ég hafi ekki verið svona 7-8 ára. Ég lærði sund alla mína skólatíð alveg upp í Menntaskóla á Akureyri.

 

Var sundkennsla hluti af skólagöngu þinni eða fór hún fram utan skóla? Hvar var kennt og hve stóran hluta ársins?

 

Svar: Sundkennslan var hluti af skólagöngunni. Og hún fór fram í tólf og hálfsmetra laug, Bjarnalaug á Akranesi. Ég man ekki lengur hvort kennt var allan veturinn, kannski vorum við aðeins hálfan vetur, hver bekkur. Stelpur sér og strákar sér. Þetta voru stórir árgangar, við vorum því mörg og laugin lítil. Svo gat maður verið sendur á sérstakt íþrótta- eða sundnámskeið að sumrinu til, m.a. í Reykholt.

 

Hvernig var sundkennslu háttað? Var kennt eftir aldurshópum eða kyni? Hvað finnst þér um sundkennsluna og hverjar voru áherslurnar?

 

Svar: Við vorum fyrst látin raða okkur við bakkana, með svarta uppblásna gúmmíkúta á bakinu, reimaða að framan. Þetta voru mjög sterklegir kútar sem héldu manni vel á floti. Við byrjuðum á því að læra fótatökin með því að halda okkur í bakkann. Svo sögðu sundkennararnir, Hallur og Helgi: „Beygja, kreppa, út og saman.“ Þeir horfðu á okkur gera hreyfingarnar, sýndu þær sjálfir standandi uppi á bakkanum og reyndu þannig að hjálpa okkur að ná réttu tökunum. Næsta stig var að setja okkur á flot og þá með einn kút á baki og annan milli handanna sem við teygðum fram. Þetta var vandasamt en óskaplega gaman og mér finnst að ég hafi verið frekar fljót að ná þessu. Við syntum fyrst þvert yfir laugina og þegar við vorum orðin nokkuð örugg, þá slepptum við handakútnum og síðan báðum kútunum. Svo fórum við að synda eftir endilangri lauginni og þegar við gátum það kútlaus töldumst við synd á bringunni. Seinna tók við baksund og skriðsund og jafnvel flugsund hjá þeim allra duglegustu. Björgunarsund lærðum við held ég í tólf ára bekk og syntum með félagana. Og svo urðum við að synda kafsund. Eftir endilagri lauginni. Það er það eina sem mér fannst svolítið erfitt, að vera svona lengi í kafi og synda bara rétt yfir botninum. Blágrænum botninum. Annars gekk mér þetta allt ágætlega og fannst yfirleitt gaman að vera í sundi. Gaman að læra að stinga mér, fyrst krjúpandi af bakka. Síðan standandi. Og seinast af palli og bretti. Eina vesenið var hárið á mér. Ég var með svo sítt hár,alveg fram yfir fermingu, alltaf í tveim fléttum og flétturnar gátu orðið dálítið þungar, rennandi blautar. Þá þvoði maður ekki hárið eftir hvert skipti.

Stundum var efnt til keppni innan skólans og um tíma æfði ég sund ásamt vinkonu minni og við kepptum með sundfélaginu. Ég náði góðum árangri þótt ég yrði ekki nein sunddrottning. Það varð aftur á móti litla systir mín síðar og frænkur mínar nokkrar. Ein fór þrisvar eða fjórum sinnum á Ólympíuleika. Og tveir náfrændur mínir náðu líka slíkum árangri, fóru sinn á hvora Ólympíuleikana. Það er hreint ótrúlegt hve miklum árangri sundfólk á Akranesi gat náð við þessar frumstæðu aðstæður til æfinga. Kennararnir hljóta að hafa verið góðir og kappsfullir. Áherslurnar voru sem sagt á að ná góðum árangri í öllum greinum sundsins, bæði til þess að nýta það sem heilsubót og keppnisgrein og geta bjargað sér og öðrum ef maður lenti í slysi á sjó. Ég hef mjög gaman af því að fylgjast með sundkeppnum í sjónvarpi og les um þær í prentmiðlum. Ég sleppi aldrei að fylgjast með sundinu á Ólympíuleikum.

 

Samskipti og hegðun

Hvaða óskráðar reglur eða viðmið gilda um samskipti og hegðun sundgesta? Getur þú nefnt dæmi um að brotið sé gegn þessum óskráðu reglum?

 

Svar: Óskráðu reglurnar eru að bannað er að góna á nakta líkama annarra sem lenda með þér á sturtusvæðunum. Bannað að gera athugasemdir við útlit annarra. Bannað að snerta nakta líkama ókunnugra. Mér finnst sjaldgæft að brotið sé gegn þessum reglum. Kannski helst að maður horfi of lengi út undan sér ef eitthvað er mjög óvenjulegt í útliti manneskju; fötlun, blettir á húð, anoreexíu-einkenni eða offita. Einnig ef einhver er með óvenju fagran líkama. Og svo verður maður var við að stelpur á gelgjuskeiði geta sagt eitthvað miður þægilegt við bekkjarsystur sínar eða „vinkonur“ í skólasundi. Það er stundum mikil fyrirferð og hávaði í stelpum á vissum aldri í búningsklefum og sturtum. Sumar eru „bitsí“.

 

Hvaða munur er á þessum óskráðu reglum eftir svæðum (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.)?

 

Svar: Í anddyrinu gilda sömu almennu umgengnis- og kurteysisreglur og annars staðar í opinberu rými. Maður heilsar afgreiðslufólki, bíður á sínum stað í röðinni osfrv. Klefarnir í Sundhöllinni eru mest prívat og þar nýtur maður þess að klæða sig úr og í án þess að nokkur horfi á. Alls staðar annars staðar er maður innan um fólk og þá er einkarýmið lítið og maður þarf að taka tillit til annarra, dreifa ekki of mikið úr fötunum sínum, sunddótinu, snyrtivörunum osfrv. Fara eftir upphengdum, skráðum reglum og fyrirmælum. Þar skiptir mig mestu að fylgja ítrustu hreinlætiskröfum, þvo sér vel án baðfata áður en farið er ofan í laugina. Að baki fyrirmælunum sem byggja á heilbriðissjónarmiðum eru einnig óskrifaðar reglur um almenna kurteisi og tillitssemi við náungann. Þar sem hundruð manna synda í sömu lauginni á hverjum degi og fara í sömu pottana, verða allir að geta treyst því að enginn fari óhreinn út í vatnið. Flestir Íslendingar virðast læra þessa almennu tillits- og hreinlætisreglu samhliða sundnáminu en baðverðirnir eiga oft fullt í fangi með að fá erlenda gesti til þess að fara eftir þessum að mínu áliti sjálfsögðu fyrirmælum. Sundlaugamenning virðist að þessu leytinu ekki jafn þróuð og tillitssöm í öðrum löndum, þar sem menn eru vanir að baða sig í sjó og vötnum og þvo sér frekar þegar þeir koma upp úr en áður en vaðið er út í.

            Úti í lauginni þarftu að sýna því meiri tillitssemi sem fleiri eru ofan í samtímis. Það er bæði skráð og óskráð regla. Skráða reglan er sýnd grafískt uppi á bökkunum og sundfólk beðið um að synda í hringi innan brautanna eftir hægri umferðarreglu. Menn þurfa auðvitað að forðast árekstra sem geta valdið meiðslum en óskráða reglan snýst um að komast hjá snertingu við hálfnakta líkama ókunnugra.

            Í djúpu lauginni þarf maður að vera vakandi fyrir illa syndum einstaklingum, aðallega börnum, að þau fari sér ekki að voða.   

           Í barnalauginni þarf einnig að gá að því að ekkert barn hverfi undir yfirborðið og drukkni. Slík slys verða því miður öðru hverju í sundlaugum. Og eftir að kynferðisleg áreitni gagnvart börnum kom upp á yfirborðið sem alvarlegt vandamál þá er sjálfsagt að reyna að vera vakandi fyrir því að börnum sé ekki misboðið á þann hátt í sundlaugunum. Þar held ég að augu almennings séu börnum til varnar.

           Í pottunum og gufunni, þar sem líkamleg nálægð við ókunnuga verður mest, er óskráða reglan samt sú að hafa nægilega marga sentimetra á milli til þess að forðast snertingu. Aftur á móti er mjög notalegt að nudda sér upp við sinn eigin maka eða kærasta/ kærustu í volgu og heitu vatni. Slíkt sést á öllum þrem baðsvæðunum, úti í lauginni, ofan í potti og í gufunni. Mér finnst það fallegt.

 

Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?

 

Svar: Sundgestir tala mest í pottunum, því þar halda þeir lengst kyrru fyrir. Mest virðist mér talað um það sem efst er á baugi í fréttum og stjórmálum, það á einkum við um karla í efri aldurshópum, það sitja margir “besservisserar” í pottunum. Konur ræða meira um persónulega hluti við aðrar konur sem þær þekkja eða kannast við. Stundum lendi ég á slíkum kjaftatörnum, einkum í saltpottinum fallega í Laugardalslauginni eða í stóra nuddpottinum við Sundhöllina. Á þeim svæðum á ég fleiri kunningja en í Kópavogi. Þó get ég líka hitt fólk sem ég þekki þar. Kópavogslaugin er svo miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og mörgum finnst hún frábær. 

 

Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?

 

Svar: Það hefur ekki annað en góð áhrif á samskipti mín við aðra sundgesti að við erum öll í baðfötum og fylgjum sömu hreinlætisreglum. Allir gæta þess að fáeinir sentimetrar aðskilji þessa fáklæddu líkama, nema þar sem fólk er fyrir í nánum sambörndum. Það er ekki nema í undantekningartilfellum sem mér finnst óþægilegt að hitta einhverja persónu svona fáklædd. Og í raun er það svo að þegar maður situr í heitum potti er maður í raun “klæddur í vatnið”. Það er bara efri hluti líkamans sem er uppi úr, höfuð, háls og herðar og stundum brjóst. Og meðan maður syndir er maður meira og minna allur “klæddur í vatnið”, aðeins höfuð, herðar og handlegir sem koma reglulega upp úr. Mér finnst ég hegða mér mjög svipað við ókunnugt fólk sem ég ræði við annars staðar í opinberu rými. Maðir gætir þess að hafa hæfilega fjarlægð á milli, hver manneskja þarf sitt einkarými, alls staðar, ég tek tillit til þess og fer ekki alveg upp að fólki sem ég tala við, tala hvorki upp í vit þess né ofan í hálsmálið. En við vissar kringumstæður getur maður þurft eða viljað hvísla einhverju í eyra einhvers og þá er það gert með samþykki mótaðilans.

 

Líkami og hreinlæti

Hafa ferðir í sundlaugina áhrif á það hvernig þú hugsar um líkamann? Hvernig þá?

 

Svar: Já, tvímælalaust. Sundferðir mína hafa þann tvöfalda tilgang að stunda líkamsrækt og ástunda hreinlæti. Bónusinn er vellíðanin í vatninu, þaðan sem allt líf er upprunnið og nautn af fegurð himinsins og náttúrunnar umhverfis.  

 

Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?

 

Svar. Já ég gef öðrum gestum auga. Aðalmálið fyrir mér er að allir þvoi sér áður en þeir fara í sundfötin eins og þegar er komið fram. Ég tek eftir ef fólk reynir að koma sér hjá því vegna spéhræðslu eða skilningsskorts á reglunum. Stundum hvet ég baðverðina til þess að segja fólki til. Einstaka sinnum geri ég það sjálf. Og ef einhver spyr mig um eitthvað og biður um leiðbeiningar veiti ég þær undantekningarlaust, stundum á ensku, stundum á norðurlandamálum, jafnvel frönsku. 

 

Hvað finnst þér um hreinlæti á sundstað?

 

Svar: Ég geri miklar kröfur um hreinlæti á sundstað og sóðaleg gólf og subbuskapur á klósettum fer mjög í taugarnar á mér. Því fleiri sem gestirnir eru því oftar þarf að spúla gólfin og þrífa klósettin. Yfirferðirnar geta ekki bara farið eftir einhverju klukkustundabili, heldur eftir fjölda baðgesta.

 

 Í sundlauginni

Hvað kannt þú best að meta við sundferðina? En síst?

 

Svar: Það er margkomið fram að ég kann best að meta hreyfinguna, dvölina í vatninu sem færir frumstæða vellíðan, baðið og tilfinninguna um að vera hrein og fín á eftir, jafnvel þótt roði sé í augunum út af klórnum. Og svo fegurð himinsins og fjallasýn eða sýn út á Elliðaárnar, haf eða vatn þar sem slíkt er í boði. Sem sagt náttúruupplifun. Það sem ég kann síst að meta er vesenið í kringum hárið eftir sund. Þetta að bera í það confixor-gel, þurrka það með blásara, setja í það rúllur og blása aftur. Þetta er í sjálfu sér ekki leiðinlegt, en vesen og tekur tíma.

 

Hefur þú komið þér upp föstum venjum í sambandi við heimsóknir þínar á sundstað? Hvaða venjum? Hvers vegna?

 

Svar: Já, líf mitt er fullt af venjum. Sundlaugavenjunum lýsti ég í fyrsta svarinu, býsna nákvæmlega. Ég geri alltaf nánast sömu hlutina og í þeirri röð sem fram er komin. Þ.e.a.s. ef ég fer ein í sund. Meðan ég fór með börn og síðar barnabörn með mér bættist umönnunin um þau inn í ferlið. Venjurnar virðast mér annars vegar til komnar af settum formlegum reglum hvers sundstaðar og athöfninni eins og hún formar sig alveg eðlilega.

 

 Hvernig líður þér þegar þú ert búin(n) í sundi (líkamlega, andlega)?

 

Svar: Mér líður vel bæði á líkama og sál. Stundum hef ég jafnvel leyst eitthvert vandamál í huganum, sem áður þvældist fyrir mér.

 

Með hvaða hætti hafa sjón, lykt, hljóð, bragð og snerting áhrif á líðan þína í sundi?

 

Svar: Svörin við þessari spurningu hafa sum komið fram að framan, einkum það sem lýtur að sjón og snertingu. Lykt á sundstöðum er kannski ekki sú besta í heimi, sundstaðir lykta af klór. En þar sem salti er bætt í vatnið, eins og í Kóavogslauginni og sjópottinum í Laugardalnum, finnst mér lyktin þægilegri af vatninu sjálfu. Ef manni svelgist á vatninu er það yfirleitt ekki gott, hvorki bragðið né tilfinningin sem því fylgir.

Um snertinguna hef ég víða fjallað að framan. Hún er góð og notaleg ef um snertingu við vin eða maka er að ræða, en ef maður rekst utan í ókunnugan er það ekki gott og maður biðst afsökunar. Hætta á kynferðislegri áreitni er til staðar en hún er ekki mikil að mínu áliti. Flestir virða einkarými annarra og haga sér eins og fullklætt fólk gagnvart ókunnugum.

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður og hvernig þú hegðar þér á ólíkum svæðum eða í ólíkum tegundum lauga (t.d. í innilaug, útilaug eða heitri laug)? Hvernig þá?

 

Svar: Ég haga mér svipað í inni- og útilaugum, ég fer í þær til þess a stunda líkamsrækt með því að synda. Í útilaugum og pottunum við Sundhöllina nýt ég að auki útivistar. Eina laugin sem ég haga mér öðru vísi í er sundlaugin á Þelamörk í Hörgárdal. Hún er of heit til þess að unnt sé að synda í henni að gagni. Þar lætur maður sig bara fljóta og liggur í leti og leikur sér við börnin eða barnabörnin.

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir árstíðum, veðri eða tíma dags? Hvernig þá?

 

Svar: Eiginlega ekki. Hafi ég á annað borð drifið mig í sund finnst mér það jafn gott í öllum veðrum. Mér er sama þótt rigni á mig stundum, hef jafnvel lent í hagli. Það er ekki annað en skemmtileg ögrun af hálfu veðurguðanna. Þó finnst mér ekki gott að þurfa að hlaupa langa leið út í laug ef kallt er. Leiðin milli búningsklefa og sundlaugar er í lengsta lagi í Kópavogslauginni í köldu veðri.

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir því hve margir eða fáir eru í lauginni á sama tíma og þú? Hvernig þá?

 

Svar: Því færri sem eru því meira pláss getur maður tekið bæði í brautinni og pottunum. En maður er manns gaman. Mig langar ekkert í einkasundlaug, finnst gaman að synda og lauga mig með öðru fólki.

 

Hvað í hönnun og umhverfi þeirrar sundlaugar sem þú sækir mest ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með?

 

Svar: Þegar er komið fram hvaða sundlaugar ég tel fallegastar og mest aðlaðandi. En það sem mér finnst verst í hönnun og síðari tíma breytingum á annars góðum sundstöðun er hönnun skápa, þar sem þeir eru of litlir og of fá klósett í námunda við sturtusvæðin. Eitt versta dæmi síðari tíma um slíka galla er baðhúsið á Laugarvatni. Þar eru hundrað ef ekki hundrað og fimmtíu fataskápar, litlir og í tveim röðum, efri og neðri röð, en tvö klósett! (Annað bilað!) Þá varð mér hugsað: Svona geta bara karlar teiknað sem míga standandi úti við húsvegg! Ég varð öskureið! Og þetta á að heita lúxusbað og kostar formúu inn.

            Breytingarnar á búningsklefum í Laugardalslauginni eru því miður ekki nógu vel lukkaðar. Klósettum inni við sturtusvæðið fækkaði, vatnshalli á gólfum virðist ekki nægur, þannig að oft eru pollar inni á klósettunum, sem er ekki notalegt að stíga í og það sem er aðgjör skandall: vinnuaðstæður fyrir baðverði eru hörmulegar. Konurnar hafa ekkert almennilegt afdrep, en þurfa að vera í gufumekki og hávaða alla vaktina.

 

 Heiti potturinn

Hverju ert þú að sækjast eftir þegar þú ferð í heita pottinn? Er upplifunin breytileg eftir árstíðum, tíma sólarhringsins eða öðrum utanaðkomandi aðstæðum?

 

Svar: Ég sækist eiftir að komast í heitt vatn og mýkja vöðvana eftir sundið. Fá vatnsnudd úr kröftugri bunu á aumar axlirnar. Mér hættir til að fá vöðvabólgu í axlir og finnst ég geta haldið henni í skefjum með þessum hætti.  Upplifunin er yfirleitt góð óháð veðri og öðrum aðstæðum.

 

Hverjir eru það sem sækja heita pottinn? Er munur á aðsókn eftir kyni eða aldri?

 

Svar: Mér sýnist flestir sækja heitu pottana nema þeir sem eru með börn meðferðis. Þeir leika frekar við börnin í volgari hluta lauganna. Ég verð ekki vör við mun eftir kynferði eða aldri.

 

Hvaða samræður fara fram í heita pottinum og hverjir taka þátt í þeim? Er eitthvað umræðuefni frekar rætt en annað? En sem þykir síður við hæfi að ræða?

 

Svar: Eins og ég nefndi framar finnst mér karlar frekar ræða síðustu fréttir og pólitík í pottunum en konur. Ég forðast að blanda mér í umræðurnar sem mér finnst ekki alltaf mjög merkilegar eða djúpar. Sting þó einstaka sinnum inn einu og einu kommenti. Sjálf lendi ég helst á kjaftatörn í saltpottinum í Laugardal við kunningja, einkum konur, sem ég hitti af tilviljun.

 

Hafa aðstæður og umhverfið í heita pottinum áhrif á samræðurnar á einhvern hátt? Finnast þér samræður svipaðar í heita pottinum og annars staðar þar sem fólk kemur saman?

 

Svar: Veit ekki. Heiti potturinn heldur náttúrlega mjög vel utan um hópinn sem þar er saman kominn hverju sinni og afmarkar hann, gyrðir hann af og neyðir jafnvel til einhverrra samskipta.  Heitt vatnið fær fólk til að slappa af og verða kannski ögn lausmálla en annars væri. En mig langar til að geta um eitt mjög merkilegt atvik sem ég varð vitni að í stóra nuddpottinum við Sundhöllina fyrir rúmu ár. Þá kom niður í pottinn kona, líklega milli þrítugs og fertugs, klædd í sundbúning frá toppi til táar að hætti trúaðra kvenna meðal múslíma. Ég hafði tekið eftir henni áður fullklæddri að fylgjast með tveim börnum sínum som voru í sundkennslu í barnalauginni. Sundbúningur konunnar var súkkulaðibrúnn og samanstóð af buxum sem náðu niður á ökkla, mussu utan yfir sem náði niður á læri, með síðar ermar fram á hendur og um höfuðið og háls var hetta sem náði fram á enni. Öllum varð starsýnt á konuna andartak en enginn sagði neitt. Ég hugsaði: Ég vona bara að hún hafi þvegið sér áður en hún fór í þessa miklu múnderingu. En ég hugsaði líka: Sú er hugrökk. Framkoma hennar var tvíhliða ögrun. Annars vegar við okkur sem öll förum fáklædd í sund og sýnum hreina húðina og líkamann með sínum mismunandi skavönkum og ófullkomleika. Hins vegar við samfélag strangtrúaðra múslíma sem banna konum að fara í sund með körlum, að ekki sé talað um körlum annarrar trúar eða trúleysingjum.  Og það í heitan pott, þar sem nálægðin er mikil og viss hætta á snertingu við “vantrúaða”!

           Mér fannst konan vera að leita leiðar til að fara að siðum beggja og ögra siðum beggja. Fara í sund og pott með körlum eins og konur gera á Íslandi en klæða sig í samræmi við strangar kröfur trúarhópsins sem hún tilheyrir. Mér fannst þetta merkileg tilraun en ég hef ekki séð hana endurtekna. Ég hef aldrei aftur séð þessa konu í sundi í það minnsta ekki í þessum alklæðnaði.

 

Hvernig veljast menn saman í potta (tilviljun, kunningsskapur, menntun)?

 

Svar: Fyrir tilviljun, nema þar sem ákveðnir hópar hafa mælt sér mót.  Hluti eldri borgara er mjög duglegur við það að stunda sund og sundleikfimi og þá í hópum.

 

Sundgesturinn

Hvaða búnað tekur þú með þér á sundstað og í hvaða tilgangi?

 

Svar: Komið fram í fyrsta svari.

 

Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?

 

Svar: Vafalaust. En berir í sturtu eru allir menn jafnir.

 

Tekur þú eftir mismunandi sundtísku eða tískusveiflum, t.d. eftir aldri sundgesta, sundstöðum eða tímabilum? Hvernig lýsir þetta sér?

 

Svar: Á tímabili var vinsælt að nota sundfitjar.

Undanfarin ár hafa æ fleiri konur birst með tattoo af ýmsum stærðum og gerðum, aðallega þær yngri. Sami aldurshópur hefur líka látið raka af sér skapahárin að hluta eða alveg. Slíkt þekktist ekki í mínu ungdæmi.

 

Sundminningar og sögur úr sundi

Er einhver saga eða minningar úr sundi sem þú myndir vilja segja frá í lokin?


Kafli 1 af 9 - Persónuupplýsingar

Nafn, fæðingarár, sveitarfélag, starf, menntun/í hvaða námi, kyn, þjóðerni. Við hvaða staði og tímabil eru svörin miðuð? Þeir sem það kjósa geta svarað nafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð.

Kafli 2 af 9 - Almennar upplýsingar um sundlauganotkun þína

Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).
Hvers vegna ferð þú í sund? Eftir hverju ert þú að sækjast?
Hvað ferð þú oft í sund að jafnaði? Hefur það verið breytilegt í gegnum tíðina? Hvaða laugar hefur þú mest sótt og hvers vegna?
Er eða hefur verið regla á því á hvaða tíma dagsins þú ferð í sund? Hvers vegna? Ferð þú að jafnaði ein(n) í sund eða með öðrum?

Kafli 3 af 9 - Sundkennsla

Á hvaða aldri byrjaðir þú að læra sund? Í hve mörg ár lærðir þú?
Var sundkennsla hluti af skólagöngu þinni eða fór hún fram utan skóla? Hvar var kennt og hve stóran hluta ársins?
Hvernig var sundkennslu háttað? Var kennt eftir aldurshópum eða kyni? Hvað finnst þér um sundkennsluna og hverjar voru áherslurnar?

Kafli 4 af 9 - Samskipti og hegðun

Hvaða óskráðar reglur eða viðmið gilda um samskipti og hegðun sundgesta? Getur þú nefnt dæmi um að brotið sé gegn þessum óskráðu reglum?
Hvaða munur er á þessum óskráðu reglum eftir svæðum (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.)?
Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?
Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?

Kafli 5 af 9 - Líkami og hreinlæti

Hafa ferðir í sundlaugina áhrif á það hvernig þú hugsar um líkamann? Hvernig þá?
Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?
Hvað finnst þér um hreinlæti á sundstað?

Kafli 6 af 9 - Í sundlauginni

Hvað kannt þú best að meta við sundferðina? En síst?
Hefur þú komið þér upp föstum venjum í sambandi við heimsóknir þínar á sundstað? Hvaða venjum? Hvers vegna?
Hvernig líður þér þegar þú ert búin(n) í sundi (líkamlega, andlega)?
Með hvaða hætti hafa sjón, lykt, hljóð, bragð og snerting áhrif á líðan þína í sundi?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður og hvernig þú hegðar þér á ólíkum svæðum eða í ólíkum tegundum lauga (t.d. í innilaug, útilaug eða heitri laug)? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir árstíðum, veðri eða tíma dags? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir því hve margir eða fáir eru í lauginni á sama tíma og þú? Hvernig þá?
Hvað í hönnun og umhverfi þeirrar sundlaugar sem þú sækir mest ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með?

Kafli 7 af 9 - Heiti potturinn

Hverju ert þú að sækjast eftir þegar þú ferð í heita pottinn? Er upplifunin breytileg eftir árstíðum, tíma sólarhringsins eða öðrum utanaðkomandi aðstæðum?
Hverjir eru það sem sækja heita pottinn? Er munur á aðsókn eftir kyni eða aldri?
Hvaða samræður fara fram í heita pottinum og hverjir taka þátt í þeim? Er eitthvað umræðuefni frekar rætt en annað? En sem þykir síður við hæfi að ræða?
Hafa aðstæður og umhverfið í heita pottinum áhrif á samræðurnar á einhvern hátt? Finnast þér samræður svipaðar í heita pottinum og annars staðar þar sem fólk kemur saman?
Hvernig veljast menn saman í potta (tilviljun, kunningsskapur, menntun)?

Kafli 8 af 9 - Sundgesturinn

Hvaða búnað tekur þú með þér á sundstað og í hvaða tilgangi?
Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?
Tekur þú eftir mismunandi sundtísku eða tískusveiflum, t.d. eftir aldri sundgesta, sundstöðum eða tímabilum? Hvernig lýsir þetta sér?

Kafli 9 af 9 - Sundminningar og sögur úr sundi

Er einhver saga eða minningar úr sundi sem þú myndir vilja segja frá í lokin?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana