119 Sundlaugamenning á Íslandi
Persónuupplýsingar
Nafn, fæðingarár, sveitarfélag, starf, menntun/í hvaða námi, kyn, þjóðerni.
Við hvaða staði og tímabil eru svörin miðuð?
(...) fædd (...) 1961 í Reykjavík. Ég er oftast kölluð (...). Ólst upp á Eskifirði en bý á Reyðarfirði í dag. Hef grunnskólapróf og próf í Fjölmiðlafræði með bókasafnstækni frá Borgarholtsskóla. Ég vann við fiskvinnslu fyrrihluta ævinnar en er nú forstöðumaður Bókasafns og Grunnskóla Reyðarfjarðar.
Ég stundaði mikið sund þegar ég var að alast upp á Eskifirði og fór mikið í sund í Sundhöll Reykjavíkur, þegar ég fór í heimsókn til ömmu og afa í Reykjavík. Ég minnist aðeins á sundlaug Blöndóss en þar var ég í námi í eitt ár. Svo hef ég verið dugleg að fara í sund þegar ég er á ferðalögum bæði innanlands og erlendis. Þar sem ég bý núna er búið að loka almenningssundlauginni en skólasund er 2x á ári. Þetta læt ég þó ekki stoppa mig og hef ég ( ásamt vinkonu minni ) stundað sund á Eskifirði ( en þar er útisundlaug ) síðastliðin 5 ár. Förum við 3x í viku, á morgnana kl.6:30 og erum komnar í vinnu kl. 8:00. Nú í byrjun nóvember var svo farið að opna kl. 6:00 svo það gerir okkur auðveldara fyrir.
Tímabilið er því frá því þegar ég var 6 ára 1967 til dagsins í dag með smá hléum, best að ég Þtiltaki árin jafnóðum og ég rifja upp.
Almennar upplýsingar um sundlauganotkun þína
Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).
Eftir 10-15 mín. ( fer eftir árstíma ) akstur frá Reyðarfirði á Eskifjörð komum við á stundstað. Þegar við komum inn, bjóðum við að sjálfsögðu góðan daginn og förum úr skónum og beint inn í klefa. Við erum með árskort sem liggja inni hjá sundvörðum. Beint inn í klefa og alltaf í sama skáp; ég legg undir mig 2 skápa 141 og 142. Handklæðið í grindina og fötin í efri skáp og taskan í neðri skáp. Tek með mér sundbol, sundhettu, sundgleraugu, blöðkur og sjampó. Blöðkurnar set ég við vegginn sem er á leið út, en hitt hef ég með mér í sturtuna. Skrúfa frá ( allt of heitt vatnið til að byrja með ) set sjampóið, gleraugun og hettuna á rörið og skelli mér undir sturtuna og þvæ mér. Í sundbolinn, hettan á, gleraugun á ennið og út í kuldann. Lognið er alltaf best, sama hvert hitastigið er, það verður ótrúlega kalt í vindinum. Beint út í laug, alltaf á sömu braut, 2 þ.e.a.s. ef hún er laus, ég get alveg synt annarstaðar en vaninn er lúmskur J Eftir 1km. sund( skrið og bringu m/blöðkum ) fer ég í pottinn, ef tími vinnst til er gott að fara undir Sveppinn í 10 mín. Svo uppúr að gera sig klára fyrir daginn,
Hvers vegna ferð þú í sund? Eftir hverju ert þú að sækjast?
Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir hreyfingu, gengið á fjöll og verið í kröftugri leikfimi. Þegar ég þurfti í mjaðmaaðgerð fyrir u.þ.b. 10 árum og fór m.a. í sundleikfimi til að ná mér eftir aðgerðina. Ég upplifði líka nokkuð sem ég hafði aldrei upplifað áður, ég hafði ekki lengur löngunina til að hreyfa mig. Þetta varð mér ákveðið áfall og ég fann að eitthvað varð ég að gera. Vinkona mín frá Eskifirði henti þá til mín líflínu; hún vildi endilega hitta mig í sundi á morgnana áður en við færum til vinnu. Þannig vildi það til að ég byrjaði. Ég hugsaði líka til langframa, þetta er sport sem meiðsli eru fátíð og fólk getur stundað til æviloka. Þegar við vinkona mín frá Eskifirði höfðum stundað sundið í u.þ.b. ár fór hún í barneignarorlof og hefur ekki synt með mér síðan. Þá hélt ég að dagar mínir í sundinu væru taldir en þá kom til mín samstarfskona og sagðist hafa frétt að ég væri að synda á Eskifirði þrisvar í viku, hvort hún mætti ekki koma með og við gætum skipst á að keyra og nú eru 5 ár síðan og við erum enn að synda þrisvar í viku.Það gerir mér svo sannarlega gott, andleg og líkamlega að synda.
Hvað ferð þú oft í sund að jafnaði? 3x í viku, sjaldnar á sumrin.
Hefur það verið breytilegt í gegnum tíðina? Mjög oft þegar ég var barn, oft 2x á dag á sumrin, 2-3 svar í viku á veturna.
Hvaða laugar hefur þú mest sótt og hvers vegna? Gamla sundlaugin á Eskifirði þegar ég var barn ca. 1967-1975, Sundhöllin í Reykjavík ef ég var í heimsókn hjá ömmu og afa. Sundlaugin á Blönduósi en þar var ég í námi eitt ár, Sundlaug Akureyrar þegar ég bjó þar í eitt ár; 1985-6 og Sundlaugin á Reyðarfirði eftir að ég flutti þangað 1980. Eftir að henni var lokað hef ég stundað sund í nýju útisundlauginni á Eskifirði.
Er eða hefur verið regla á því á hvaða tíma dagsins þú ferð í sund? Kl.6:00 á morgnana en síðan opnað var kl.6 leggjum við á stað 5:45.
Hvers vegna? Vinnan býður ekki upp á annað, hef ekki úthald í að fara eftir vinnu kl 17:30.
Ferð þú að jafnaði ein(n) í sund eða með öðrum? Við keyrum 2 frá Reyðarfirði á Eskifjörð en það eru 15 km. önnur leiðin svo það er svolítið dýrt en heilsan verður ekki metin til fjár.
Sundkennsla
Á hvaða aldri byrjaðir þú að læra sund? 6 ára
Í hve mörg ár lærðir þú? Í 10 ár.
Var sundkennsla hluti af skólagöngu þinni eða fór hún fram utan skóla? Hluti af skólagöngu.
Hvar var kennt og hve stóran hluta ársins? Vor og haust, í Sundlaug Eskifjarðar og eitt ár á Blönduósi.
Hvernig var sundkennslu háttað? Kennarinn stóð á bakkanum og sagði okkur til. Við byrjuðum með kút ( svörtu, sem eru festir á bakið ) og kork en sleppum því fljótt. Svo lærðum við að stinga okkur en var frekar lengi að læra það, fór fyrst magaskell. Það þótti ekki flott.
Var kennt eftir aldurshópum eða kyni? Aldurshópum þegar ég var yngri en kyni á efri skólastigum.
Hvað finnst þér um sundkennsluna og hverjar voru áherslurnar? Sundkennslan var fín, Ernst Backman kenndi okkur fyrstu árin en ýmsir á unglingsárum. Sundkennslan var ágæt, held ég.
Samskipti og hegðun
Hvaða óskráðar reglur eða viðmið gilda um samskipti og hegðun sundgesta?
- Þú horfir ekki á aðra eða starir. Þá meina ég á líkamann, þú horfir framan í fólk ef þú talar við það. Annars einbeitir þú þér að sjálfri þér og þínum ef þú ert með einhvern með þér.
- Þegar fleiri en einn er á braut er synt í hringi.
Getur þú nefnt dæmi um að brotið sé gegn þessum óskráðu reglum?
- Eftir að ég lenti í brunaslysi var ég mjög örótt og oft skrautleg á litin, sér í lagi á sumrin. Þá fannst ungri dóttur minni leiðinlegt fyrir mína hönd hvað fólk, aðallega börn, störðu á mig. Ég tók það ekki nærri mér. Börn stara oft á aðra í sundi en þá er það okkar að kenna þeim.
- Mér finnst óþægilegt að synda á undan eða eftir öðrum sem syndir annaðhvort hægar eða hraðar en ég.
Hvaða munur er á þessum óskráðu reglum eftir svæðum (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.)?
Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?
Það er mjög misjafnt eftir því hverjir eru í pottinum, um hvað er talað. Karlar tala gjarnan um fréttir og veður en konur um áhugamál og fjölskylduna. Í lauginni tölum við um hvað við erum búin að synda mikið, ruglumst oft á ferðum og miðum þá oft við hvor aðra. Einnig um taktík, hvort betra sé að synda í skorpum eða á sama hraða allan tímann. Ásta kennir mér mikið þar sem hún var með sundæfingar fyrir mörgum árum.
Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Engin.
Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Kannski stend ég ekki eins nálægt fólki þegar við erum uppúr lauginni.
Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta? Á tímabili fór dóttir mín ekki í sund því hún gat ekki hugsað sér að aðrir sæu hana svona fáklædda en það fór af henni sem betur fer og hún fer nú í sund eins og ekkert sé. Ég veit til þess að kona frá Frakklandi sem var í gistingu hjá vinkonu minni ( Gistihúsinu ; Hjá Marlín ) kom til baka úr sundlauginni og átti ekki orð yfir því að fólk sprangaði um nakið í búningsklefanum og þvoði sér nakið fyrir framan hvert annað. Hún snéri snarlega frá. Ég heyrt að útlendingum finnist þetta mjög óþægilegt. Sundstaðir sem taka á móti mörgum útlendingum hafa sett upp sturtur sem hægt er að draga fyrir, hef ég séð þetta í Jarðböðunum við Mývatn, en þetta er ekki í Sundlaug Eskifjarðar.
Líkami og hreinlæti
Hafa ferðir í sundlaugina áhrif á það hvernig þú hugsar um líkamann? Hvernig þá? Ég hugsa meira um að halda líkamanum hreinum.
Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?
Að sjálfsögðu verða allir að þvo sér vel án sundfata áður en farið er út á sundsvæðið. Það kemur fyrir að unglingar sem eru mjög spéhræddir fara í sundbolinn við skápinn og sturta sig án þess að þvo sér, þá annaðhvort bendum við kurteislega á skiltið sem er á veggnum eða tilkynnum það til sundlaugarvarðar. Einnig var orðið mikið um það að fólk væri að raka sig í sturtunni, undir höndum og á fótun ( veit ekki hvernig það var í karlaklefanum ). Einhver hefur kvartað yfir því, vegna þess að í sumar kom upp skilti á vegginn; Allur rakstur bannaður.
Hvað finnst þér um hreinlæti á sundstað? Í Sundlauginni á Eskifirði er mjög hreint í anddyri, búningsklefum, sundlaug og potti. Það getur þó verið sandur og annað í sundlauginni á morgnanna því engin yfirbreiðsla er komin og þau hreinsa laugina ekki áður en við byrjum að synda. Það er þó ekkert sem fælir okkur frá.
Í sundlauginni
Hvað kannt þú best að meta við sundferðina? Stundin þegar ég geng út í bíl eftir að hafa synt mikið er yndisleg, vellíðanin sem er í líkamanum er frábær.
En síst? Að koma sé á fætur til að fara af stað.
Hefur þú komið þér upp föstum venjum í sambandi við heimsóknir þínar á sundstað? Hvaða venjum? Ég fer alltaf með handklæðið mitt á leiðinni að skápunum, er alltaf í sömu skápum, læsi ekki skápunum, set blöðkurnar við vegginn á leiðina út, set sjampóið, sundhettuna og sundgleraugun í sömu röð á rörið og þvæ mér alltaf eins,syndi á sömu braut ( ef hún er laus ), fer í pottinn, set sundbolinn í kalt vatn á meðan ég sturta mig ( kreisti hann en vind ekki ),set allt dótið mitt ( blöðkur,sund-bol,gleraugu og hettu ) á sama stað við handklæðastandinn, því ef ég geri það ekki gleymi ég venjulega einhverju. Eftir að ég kem fram, fæ ég mér djúsglas, út í bíl, fer beint í vinnuna og borða morgunmat.
Hvers vegna? Þá þarf ég ekki að hugsa of mikið, er varla vöknuð svona snemma og erfitt að hugsa mikið.
Hvernig líður þér þegar þú ert búin(n) í sundi (líkamlega, andlega)? Frábærlega.
Með hvaða hætti hafa sjón, lykt, hljóð, bragð og snerting áhrif á líðan þína í sundi?
Sjón; Logn, norðurljós og stjörnubjart er upplifun, móða á sundgleraugunum er pirrandi.
Lykt; Það er yfirleitt góð lykt í lauginni, enda útilaug og ekki mikil klórlykt, en það er önnur lykt sem er ömurleg og það er lyktin frá bræðslunni, en stundum liggur hún yfir sundlauginni. Bensínlykt berst líka stundum frá sjálfsafgreiðslu rétt hjá.
Hljóð; Rólegt og gott er í lauginni, stundum gæti ég hugsað mér að hafa tónlist eða útvarpið í eyrunum en á móti kemur að það er gott að hugleiða þegar ég er að synda.
Snerting; Mér finnst vatnið yndislegt, mér finnst stundum að það sé eins og silki. Það hefur klárlega heilandi áhrif á mig. Það er Sveppur í barnalauginni sem við fáum stundum að setja í gang þegar við höfum tíma. Við notum hann til þess að nudda á okkur bakið og herðarnar. Vatnið kemur með svo miklum krafti úr honum að það er frábært að láta það skella á sér. Það er ekkert annað nuddtæki í lauginni. Mig hefur oft langað í sjósund, því ég held að það sé frábært fyrir húðina.
Finnur þú mun á því hvernig þér líður og hvernig þú hegðar þér á ólíkum svæðum eða í ólíkum tegundum lauga (t.d. í innilaug, útilaug eða heitri laug)? Hvernig þá?
Eftir að hafa verið svo mikið í útilaug með allskonar hitastigi verð ég að segja að heitar laugar eiga ekki við mig, ef ég ætla að synda. Innilaugar eru með allt of mikilli klórlykt fyrir mig.
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir árstíðum, veðri eða tíma dags? Hvernig þá?
Ég syndi á morgnanna en er löt seinnipartinn og hangi þá frekar í pottinum. Á veturna syndi ég mun meira en hangi í potti eða buslulaug á sumrin og sleiki sólina.
Í verra veðri syndi ég yfirleitt hraðar því sundlauginn er kaldari, en syndi kannski styttra fyrir vikið og fer þá í pottinn.
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir því hve margir eða fáir eru í lauginni á sama tíma og þú? Hvernig þá? Mér líður betur ef við erum ekki of mörg.Oft er ég með barnabörnin með mér og þá finnst mér ég hafa meiri tilgang.
Hvað í hönnun og umhverfi þeirrar sundlaugar sem þú sækir mest ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með? Ánægðust er ég með að þetta er útilaug, potturinn er kominn með hlífðarveggi úr plexigleri.Mjög ánægð með móttökurnar.
Óánægðust er ég með að það er ekki yfirbreyðsla ( er reyndar komin en eftir að setja hana á ) staðsetninguna á sumrin, en sólin fer snemma úr lauginni, og lyktina frá bræðslunni.
Heiti potturinn
Hverju ert þú að sækjast eftir þegar þú ferð í heita pottinn? Hita í kroppinn og slökun í vöðvana eftir sundið. Félagsskapinn.
Er upplifunin breytileg eftir árstíðum, tíma sólarhringsins eða öðrum utanaðkomandi aðstæðum? Ég fer helst ekki í hann þegar hann er fullur af fólki.
Hverjir eru það sem sækja heita pottinn? Er munur á aðsókn eftir kyni eða aldri?
Flest allir sækja pottana.
Hvaða samræður fara fram í heita pottinum og hverjir taka þátt í þeim? Allskonar; pólitík, vinnan, börnin, veðrið, slys, facebook, fólk planar hitting o.s.frv.
Er eitthvað umræðuefni frekar rætt en annað? En sem þykir síður við hæfi að ræða?
Hafa aðstæður og umhverfið í heita pottinum áhrif á samræðurnar á einhvern hátt? Finnast þér samræður svipaðar í heita pottinum og annars staðar þar sem fólk kemur saman? Kannski grípur fólk ekki eins mikið framí í pottinum og annarstaðar og kynið skiptir ekki eins miklu máli, meira jafnrétti.
Hvernig veljast menn saman í potta (tilviljun, kunningsskapur, menntun)?
Tilviljun og kunningsskapur.
Sundgesturinn
Hvaða búnað tekur þú með þér á sundstað og í hvaða tilgangi? Sundföt, blöðkur, sundhettu, sjampó og snyrtidót. Reyni að geyma verðmæti í bílnum því ég læsi ekki skápnum. Ég syndi í bolnum og líður betur ef ég nota sundgleraugu. Get illa synd bringusund vegna mjaðmaskiptiaðgerðar og syndi þessvegna með blöðkur. Sundhettu nota ég til að liturinn fari ekki eins fljótt úr hárinu og til að halda hita á höfðinu, Sjampó til hárþvotta og snyrtidót til að setja á mig andlit áður en ég fer í vinnuna.
Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?
Lítið finnst mér gefa vísbendingu um stöðu, kannski fatnaður og tegund snyrtivöru, en persónuleiki er oft sýnilegur þegar fólk brosir og hlær mikið, býður góðan daginn og vill aðstoða þegar eitthvað bjátar á, eða sýnir hroka, snýr upp á sig og býður ekki góðan daginn.
Tekur þú eftir mismunandi sundtísku eða tískusveiflum, t.d. eftir aldri sundgesta, sundstöðum eða tímabilum? Hvernig lýsir þetta sér? Yngra fólk eða þeir sem eru með gott sjálfstaust er gjarnan ílitríku bikini eða litríkum efnislitlum sundbolum. Eldri konur eru gjarnan í svörtum aðhaldssundbolum með opið í bakið til að fá sólina. Meira er um bikiní á sumrin.
Nú orðið eru karlar í víðum sundbuxum væri jafnvel hægt að villast á þeim og stuttbuxum. Allavega boxer. Það virðist ekki vera eins nauðsinlegt fyrir þá eins og konur, að fylgja tískunni.
Sundminningar og sögur úr sundi
Er einhver saga eða minningar úr sundi sem þú myndir vilja segja frá í lokin?
2012; Ég vakna í myrkrinu, klæði mig og gríp sundtöskuna, vona að allt sé í henni og er að opna dyrnar þegar Ásta kemur að sækja mig ( Ásta keyrir á mánudögum, ég á miðvikud. og svo skiptum við föstud. á milli okkar ). Það er ágætis færð, smá snjór en ekkert til að æsa sig yfir. Við tölum um blessað lognið og eitt og annað úr vinnunni þegar ég sé glitta í eitthvað utanvegar og svo á veginum dálítið fyrir framan okkur, stopp,stopp,stopp kalla ég og Ásta byrjar að hægja á sér og nær að stoppa. Það rennur þessi líka stóra hreindýrahjörð yfir veginn og það sem ég sá voru augun sem glömpuðu í myrkrinu. Ekki nóg með það, þegar dýrin voru öll komin yfir kemur tarfurinn til baka út á veginn, gengur að kantinum til að kanna hvort öll dýrin séu komin yfir. Gengur síðan hnarreistur til baka en stoppar á miðjum veginum, lítur á okkur með þessu líka augnaráðinu, eins og hann vilji segja, hvað eruð þið að vilja? Og skokkar svo yfir til hjarðarinnar. Við vorum náttúrulega í losti og veltum því fyrir okkur hvort við ættum að láta vita af þessu, sem við og gerðum. Síðan þetta gerðist höfum við haft varann á okkur og nokkru sinnum þurft að stoppa fyrir hreindýrum.Nú er búið að setja upp umferðarskilti til að vara við hreindýrum.
Mér er líka minnisstætt þegar ég var á Blönduósi á heimavist í 9.bekk 1976-7 með hússtjórnarbraut sem valgrein. Þá vorum við 9 á heimavistinni; úr Reykjavík, Dalvík, Höfn, Eskifirði og Bolungarvík. Allar höfðum við alist upp við sundlaugar. Það höfðu krakkarnir frá Blönduósi ekki. Einhver kergja var í gangi gagnvart okkur af heimavistinni, og sundkennarinn ( sem var jafnframt skólastjórinn ) skipti okkur alltaf í lið þannig að við á heimavistinni vorum á móti staðarkrökkunum, í stað þess að blanda okkur saman til að við aðlöguðumst betur.Þetta hleypti illu blóði í okkur á vistinni og vorum við staðráðnar í að vinna allar keppnir sem við tækjum þátt í gagnvart þeim, honum til refsingar. Síðasta keppnin sem hann atti okkur útí var einmitt sundkeppni, 4x 1oo m fjórsund. Við burstuðum auðvitað stelpugreyin og sögðum eftir keppnina að þetta væri í síðasta sinn sem við tækjum þátt í þessu og þá hætti hann þessu loksins.Hann hafði þó alltaf horn í síðu okkar allann veturinn.
Kafli 1 af 9 - Persónuupplýsingar
Nafn, fæðingarár, sveitarfélag, starf, menntun/í hvaða námi, kyn, þjóðerni.
Við hvaða staði og tímabil eru svörin miðuð?
Þeir sem það kjósa geta svarað nafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð.
Kafli 2 af 9 - Almennar upplýsingar um sundlauganotkun þína
Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).
Hvers vegna ferð þú í sund? Eftir hverju ert þú að sækjast?
Hvað ferð þú oft í sund að jafnaði? Hefur það verið breytilegt í gegnum tíðina? Hvaða laugar hefur þú mest sótt og hvers vegna?
Er eða hefur verið regla á því á hvaða tíma dagsins þú ferð í sund? Hvers vegna? Ferð þú að jafnaði ein(n) í sund eða með öðrum?
Kafli 3 af 9 - Sundkennsla
Á hvaða aldri byrjaðir þú að læra sund? Í hve mörg ár lærðir þú?
Var sundkennsla hluti af skólagöngu þinni eða fór hún fram utan skóla? Hvar var kennt og hve stóran hluta ársins?
Hvernig var sundkennslu háttað? Var kennt eftir aldurshópum eða kyni? Hvað finnst þér um sundkennsluna og hverjar voru áherslurnar?
Kafli 4 af 9 - Samskipti og hegðun
Hvaða óskráðar reglur eða viðmið gilda um samskipti og hegðun sundgesta? Getur þú nefnt dæmi um að brotið sé gegn þessum óskráðu reglum?
Hvaða munur er á þessum óskráðu reglum eftir svæðum (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.)?
Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?
Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?
Kafli 5 af 9 - Líkami og hreinlæti
Hafa ferðir í sundlaugina áhrif á það hvernig þú hugsar um líkamann? Hvernig þá?
Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?
Hvað finnst þér um hreinlæti á sundstað?
Kafli 6 af 9 - Í sundlauginni
Hvað kannt þú best að meta við sundferðina? En síst?
Hefur þú komið þér upp föstum venjum í sambandi við heimsóknir þínar á sundstað? Hvaða venjum? Hvers vegna?
Hvernig líður þér þegar þú ert búin(n) í sundi (líkamlega, andlega)?
Með hvaða hætti hafa sjón, lykt, hljóð, bragð og snerting áhrif á líðan þína í sundi?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður og hvernig þú hegðar þér á ólíkum svæðum eða í ólíkum tegundum lauga (t.d. í innilaug, útilaug eða heitri laug)? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir árstíðum, veðri eða tíma dags? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir því hve margir eða fáir eru í lauginni á sama tíma og þú? Hvernig þá?
Hvað í hönnun og umhverfi þeirrar sundlaugar sem þú sækir mest ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með?
Kafli 7 af 9 - Heiti potturinn
Hverju ert þú að sækjast eftir þegar þú ferð í heita pottinn? Er upplifunin breytileg eftir árstíðum, tíma sólarhringsins eða öðrum utanaðkomandi aðstæðum?
Hverjir eru það sem sækja heita pottinn? Er munur á aðsókn eftir kyni eða aldri?
Hvaða samræður fara fram í heita pottinum og hverjir taka þátt í þeim? Er eitthvað umræðuefni frekar rætt en annað? En sem þykir síður við hæfi að ræða?
Hafa aðstæður og umhverfið í heita pottinum áhrif á samræðurnar á einhvern hátt? Finnast þér samræður svipaðar í heita pottinum og annars staðar þar sem fólk kemur saman?
Hvernig veljast menn saman í potta (tilviljun, kunningsskapur, menntun)?
Kafli 8 af 9 - Sundgesturinn
Hvaða búnað tekur þú með þér á sundstað og í hvaða tilgangi?
Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?
Tekur þú eftir mismunandi sundtísku eða tískusveiflum, t.d. eftir aldri sundgesta, sundstöðum eða tímabilum? Hvernig lýsir þetta sér?
Kafli 9 af 9 - Sundminningar og sögur úr sundi
Er einhver saga eða minningar úr sundi sem þú myndir vilja segja frá í lokin?