LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSund, Sundlaug, Sundlaugamenning
Ártal1967-2013
Spurningaskrá119 Sundlaugamenning á Íslandi

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla (2500) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1958

Nánari upplýsingar

Númer2013-2-144
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið24.10.2013/29.11.2013
TækniTölvuskrift

Sundlaug Vesturbæjar, frásögn sundlaugargests

 

(1).

Ég hef verið fastagestur í Sundlaug Vesturbæjar frá árinu 2000 og mæti jafnan við opnun laugarinnar dag hvern kl. 6:30. Fyrst kom ég í laugina árið 1967, þá níu ára gamall, og tók strætisvagninn úr Smáíbúðahverfinu alla leið vestur í bæ til þess að þreyta sund í nýrri laug, en hafði fram að því sótt Sundhöllina við Barónsstíg. Mér þótti nýlunda að því að fá að vera við sundiðkun eins lengi og ég vildi, því að menn voru jafnan reknir upp úr í Sundhöllinni eftir 45 mínútur. Þá var öllum smalað upp á bakkann og lesið á númer hvers og eins og mönnum vísað frá ef þeir höfðu verið tilskilinn tíma.

Fastar venjur

Sem fyrr segir mæti ég til sunds kl. 6:30 á virkum dögum. Í anddyri laugar er þá ævinlega mættur fastur hópur fólks, kallaður Húnahópurinn því að menn hanga á hurðarhúninum. Hér áður fyrr tíðkaðist að sparka í hurðina ef okkur þótti dragast að opnað væri og fóru þar fremstir Björn R. Einarsson tónlistarmaður fæddur 1923 og Reynir Jónasson organisti fæddur 1932. Í seinni tíð hefur sá siður lagst af. Af öðrum föstum gestum sem mæta fyrstir eru Örlygur Hálfdánarson, bókaútgefandi, fæddur 1929, Pétur Þorsteinsson, sóknarprestur hjá Óháða söfnuðinum, fæddur 1955, Magnús Júlíus Kristinsson, tannlæknir, fæddur 1950 og Sigurlína Sigurðardóttir, barnakennari, kona hans, fædd 1950, Erla Bjarnadóttir, fædd 1925, (kölluð Edda), Guðmundur Lýðsson, fæddur 1938, Helga Jónsdóttir (Zoëga Gröndal Flygenring), mannauðsráðgjafi hjá Capacent, fædd 1954, Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, fæddur 1932, Vigfús Magnússon, læknir, fæddur 1933. Af öðrum gestum sem sóttu laugina og nú eru fallnir frá má nefna Jónas Jónsson búnaðarmálastjóra (ævinlega titlaður „búmálastjóri“ og Þórarin Árnason lögfræðing.  Þá má nefna Braga Hansson sem Þórarinn flæmdi á brott með því að heimta sæti sitt í potti.

Þegar komið er inn í komusal laugar skiptist karlahópurinn í tvennt, sumir fara niður í búningsklefa, en aðrir fara í útiklefa. Af þeim sem fyrr eru nefndir fara undirritaður, Vigfús læknir og Magnús Júlíus tannlæknir í útiklefa. Við hjálpumst að við að þræða plastskjól á fótabúnað okkar og förum svo til klefa. Þar eru allir með fasta snaga og afklæðast. Við Vigfús förum í útisturtu, en Magnús fer inn í innisturtu. Útisturturnar eru tiltölulega nýtilkomnar eftir að útiskýlið var endurbyggt árið 2000. Ekki voru allir baðgestir jafnhrifnir af notkun útisturtna og má þar nefna Reyni organista. Þótti honum mesta ósvinna af mönnum að þvo sér úti þar sem vatn slettist um allan klefa og varð óþrifalegt þar fyrir vikið. Hann bölsótaðist yfir þessari siðvenju að því marki að menn biðu með að þvo sér þar til hann var farinn. Ekki þótti gott að láta organistann góma sig í útisturtu og tók þó steininn úr þegar Oddur Björnsson, básúnuleikari, sonur Björns R., fæddur 1959, fór í sturtuna fyrir framan nefið á organistanum. Varð Reyni svo um þetta að hann hætti að koma til sunds í Vesturbæjarlaug og kemur nú eingöngu á fimmtudögum þegar fram fer vigtarmæling á hópnum.

Þegar ég hef þvegið mér byrja ég á að fara í heitasta pottinn og dvel þar um stund. Þessu næst fer ég í eimbaðið og hita mig vel upp. Þá fer ég aftur í útiklefa og raka mig, orðinn vel heitur og skeggrót orðin mjúk. Að því búnu fer ég aftur í eimbað og hef tóma vatnsflösku með mér. Þegar ég er aftur orðinn heitur og sveittur fer ég í kalda sturtu og fylli vatnsflöskuna með ísköldu vatni. Þá er farið í pott sem heitir Örlygshöfn eftir Örlygi Hálfdánarsyni og var komið fyrir í suðvesturhorni laugarinnar árið 2000. Þetta er aflangur pottur með plássi fyrir um 12 manns þegar hann er þéttsetinn og hentar vel til hvers konar þjóðmálaumræðu. Ég syndi ekki lengur í lauginni þar eð ég hef haft ónot í eyrum um árabil sem ég hef ekki losnað við.

Ég veit til þess að þeir sem fara í búningsklefa í kjallara laugarinnar eiga sér sína föstu skápa, Örlygur er t.d. með skáp nr. 84, Pétur prestur og Guðmundur eru á ganginum á móti honum. Einnig er með þeim Þórarinn tryggingasali, kallaður Tóti tryggingakarl eða Tóti tuð og er það viðurnefni komið af því að hann tuðar jafnan í prestinum um líkamsþvott. Þeir keppast um hvor verður fyrstur til að þvo sér og fara til laugar, en mikið kappsmál er að verða fyrstur til þess að rjúfa kyrran vatnsflötinn að morgni. Fullyrðir Þórarinn að Pétur þvoi sér lítt eða ekki í þeim tilgangi einum að verða á undan honum til laugar. Af öðrum sem eiga sér fastar venjur í sturtuklefa inni má nefna Reyni, hann telur sig eiga ákveðna sturtu, þá þriðju á hægri hönd þegar gengið er inn í sturtuklefa. Ef einhver er í sturtunni þegar hann kemur að lætur hann vita að honum geðjist ekki  slíkur yfirgangur og bíður eftir því að viðkomandi ljúki sér af, fer síðan í sturtu sína og þvær sér.

Örlygshöfn

Fyrstir koma til Örlygshafnar Pétur prestur og Guðmundur Lýðsson, og svo kem ég næst á eftir þeim. Þá er klukkan orðin 6:45. Þar sitja þeir og karpa um smámuni, en Pétur þykir þrasgjarn og eltir smáatriði í það endalausa. Hann gasprar mikið og gjammar og grípur fram í fyrir almennilegu fólki þegar það reynir að halda uppi skynsamlegri orðræðu. Fyrir þetta hefur hann oft verið snupraður og jafnvel verið beðinn um að hafa sig á brott. Allar slíkar umvandanir skella á Pétri eins og vatn á gæs og hefur hann aldrei orðið við óskum manna um að fjarlægja persónu sína af staðnum.

Þegar klukkuna vantar tíu mínútur í sjö tínist svo hver á fætur öðrum í Örlygshöfn: Örlygur sjálfur, Vigfús læknir, Helga Jónsdóttir, Edda, Árni – og loks kemur Þór Magnússon fv. þjóðminjavörður. Þarna er ekki töluð vitleysan. Hér er rætt um það sem efst er á baugi hverju sinni, um stjórnmál, menningu, málfar, um þjóðþekkta einstaklinga, bæði lífs og liðna. Við búum svo vel að hafa á meðal okkar mann sem þekkti Jónas frá Hriflu persónulega, Örlyg Hálfdánarson. Jónas er okkur því hugleikinn og af honum sagðar margar sögur. Einhverju sinni þegar Jónas búmálastjóri var enn á dögum sagði undirritaður dálítið hugsi: „Jónas frá Hriflu hefur verið svolítið eins og Davíð Oddsson í dag, hvílt eins og mara á samfélagsumræðunni.“ Við þetta sprettur Jónas upp eins og fjöður og hellir óbótaskömmum yfir mig fyrir að skilja ekki mikilvægi Jónasar frá Hriflu fyrir samfélagsþróunina. Ég segi ósköp aumur: „Hvað, má maður ekki hafa skoðanir á hlutunum?“ „Nei,“ segir Jónas. „Svona skoðanir á að kæfa í fæðingu!“  Það var fernt sem búmálastjóri þoldi ekki að talað væri illa um: sauðkindina, Framsóknarflokkinn, bændastéttina og Jónas frá Hriflu.

Skoðanir manna fara ekki alltaf saman í pottumræðum. Árni Björnsson og Vigfús Magnússon eru þar fulltrúar andstæðra sjónarmiða, Árni gamall kommúnisti, en Vigfús stækur íhaldsmaður. Þó má segja að samtöl manna hafi fært þá nokkuð saman og viðhorfin hafa mildast með árunum. Því hefur umræðan verið þroskandi og er ánægjulegt að sjá að menn hafa borið gæfu til þess að hlusta opnum huga hverir á aðra og endurskoða eigin viðhorf í ljósi fram kominna sjónarmiða.

Kveðskapur er í hávegum hafður í potti og tækifærisvísur rifjaðar upp, en Þór er hafsjór þekkingar á vísum hvaðanæva af landinu.

Margar vísu hafa flogið í potti og eru tvær tilfærðar hér á eftir:

Davíð tapaði sér í þinginu í tilefni af vantrú manna á Íraksstríðið og kallaði Samfylkinguna "afturhaldskommatittsflokk".  Þá orti Reynir:

Davíð á þingi háðung hlaut,
hátt upp á nef sér stokkinn.
Bölvaði og öskraði eins og naut
á afturhaldskommatittsflokkinn.

Árni og Vigfús fóru til Ástralíu haustið 2004. Árni orti í tilefni af mannlífskönnunum þeirra kumpána þar syðra:

Víða á jörðu er díladrit
og drykkir fylla magahólf.
Estherar í ýmsum lit
upp í klyftir 112.

Síðari vísuna skilja aðeins innvígðir.

Tíu mínútur yfir sjö fara Helga og Pétur úr potti og þá bætast fljótlega í hópinn þau Jón Kristjánsson fyrrv. ráðherra og Margrét kona hans. Einnig er á sveimi við pottinn Ólafur Jóhannsson sóknarprestur í Grensássókn, en hann kemur helst ekki í pott nema hann eigi þangað erindi, hafi boðskap að flytja eða vill koma á framfæri meinlegri athugasemd við einhvern sem staddur er í pottinum.

Pottverjar hafa ýmis viðurnefni, flest runnin undan rifjum Vigfúsar læknis. Þannig er undirritaður kallaður kansellisti verandi starfsmaður Stjórnarráðsins, Reynir er kallaður organisti og þarf ekki að koma á óvart, sr. Ólafur er kallaður „Stóriprestur“ til aðgreiningar frá hinum mjóslegna sr. Pétri , sem kallaður er Mjóni, en kenning sr. Ólafs í fræðunum þykir að auki þyngri á vogarskálunum en kenning Mjóna.  Af öðrum gestum sem ekki sækja lengur laug má nefna Þórarin Þórarinsson, starfsmann Reykjavíkurborgar og áhugamann um dulræn fræði, hann er kallaður „Hindurvitnahöfðinginn“.

Vigtarmælingar

Á fimmtudögum er tekinn fallþungi sundlaugargesta. Húnahópurinn er með eigin vigtarskrá sem kansellisti sér um að uppfæra. Þá safnast menn saman og ganga í virðulegri prósessíu til inniklefa og stíga þar á vigt. Allar niðurstöður eru færðar samviskusamlega á bók og fylgjast menn með breytingum milli vikna, sem ekki taka alltaf miklum breytingum. Einstakir baðgestir keppast um hver er léttari þá og þá vikuna. Einkum er þetta barátta milli organistans og Halldórs Bergmanns, foringja „Vina Dóra“ – og milli kansellista og Einars blómasala, sem nú verður sagt frá.  

Kansellisti og Einar blómasali eiga það sameiginlegt að berjast linnulausri baráttu við ofþyngd. Þeir eru báðir lífsnautnamenn og eiga erfitt með að neita sér um það góða sem lífið hefur upp á að bjóða í formi matar og drykkjar. Aldrei gefa þeir þó upp vonina um að verða slank með flatan maga og samsvarandi uppbyggilega niðurstöðu úr mælingum fimmtudaganna. Ansi oft verða þeir fyrir vonbrigðum þegar stigið er á vigt, en sverja þess þó jafnan dýran eið að halda hinni vonlitlu baráttu við kílóin áfram.

Einar kemur til laugar um 7:15 og þá er kansellisti jafnan farinn að þurrka sér í útiklefa og skiptast þeir þá á ónotum og athugasemdum um vaxtarlag hvor annars. Inn í umræðuna blandast svo aðrir viðstaddir, Aðalsteinn, starfsmaður Eimskipa og æskufélagi úr hverfinu, Flosi Kristjánsson, bróðir kansellista og þekktur barnakennari úr Hagaskóla. Aðrir gestir sem koma um þetta leyti eru Ögmundur Skarphéðinsson arkitekt og Þorsteinn Gunnarsson leikari og arkitekt. Verða þeir gjarnan áheyrsla að miklum fúkyrðaflaumi og skætingi manna á milli.

Að loknu sundi

Upp úr hálfátta eru flestir farnir úr Örlygshöfn, en þá hefjast líkamsræktaræfingar hjá Vinum Dóra, s.k. Müllersæfingar, en það er önnur saga. Menn koma saman í komusal laugar, setjast við borð út við glugga og fá sér kaffi eða te sem þar er á boðstólum. Svo er setið áfram framundir kl. átta og haldið áfram að ræða viðfangsefni pottumræðu. Þegar hér komið sögu líður flestum eins og hreinsuðum hundum og eru þess albúnir að takast á við verkefni dagsins sem framundan eru. Má segja að kansellisti telji sig vanbúinn til verka hafi dagurinn ekki byrjað með þeim hætti sem framan er lýst.

Hlaupasamtök Lýðveldisins

Þegar kansellisti hefur stritað í hinu háa ráðuneyti daglangt þykir honum ómissandi að mæta að nýju til laugar og skola af sér hversdagslegt þref. Á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum koma félagar Hlaupasamtaka Lýðveldisins saman í Vesturbæjarlaug og undirbúa hlaup. Meðal þjóðþekktra einstaklinga sem hlaupið hafa með samtökunum má nefna Þórarin Eldjárn rithöfund, Ingólf Margeirsson, rithöfund, Jón Braga Bjarnason, prófessor, og Vilhjálm Bjarnason, alþingismann. Ingólfur og Jón Bragi eru fallnir frá, en hinir hafa hætt hlaupum með okkur. Af núverandi félögum má nefna Flosa Kristjánsson, barnakennara, Einar Þór Jónsson, blómasala, próf.dr. Ágúst Kvaran, dr. Jóhönnu Arnórsdóttur, próf. dr. Sigurð Ingvarsson, dr. Karl Gústaf Kristinsson, Magnús Júlíus Kristinsson, tannlækni, Birgi Jóakimsson, jóga, Helmut Hinrichsen framhaldsskólakennara, Björn Ásgeir Guðmundsson, matreiðslumann, Bjarna „Benz“ Guðmundsson, bílstjóra, Kára Harðarson, tölvunörd, Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúa, Ósk Vilhjálmsdóttur, ferðamálafrömuð og Þorbjörgu Karlsdóttur, bókasafnsfræðing. Þá má nefna Jörund Svavar Guðmundsson, prentara, Þorvald Gunnlaugsson, fræðimann hjá Hafró – og síðastan, en ekki sístan, Ólaf Þorsteinsson, cand.oecon. et. qual., frænda kansellista, formann Hlaupasamtaka Lýðveldisins til lífstíðar. Um langömmu hans, Valgerði Ólafsdóttur, fædda í Viðey 1. janúar 1858 var sagt: „Hún var að upplagi blíðlynd, hæglát og hógvær.“ (Víkingslækjarætt I, Reykjavík 1939).

Þessi hópur safnast saman til brottferðar kl. 17:30 mánudaga og miðvikudaga, 16:30 á föstudögum og kl. 10:10 á sunnudagsmorgnum. Hópnum fylgir háværð og gleði, enda alltaf spenna samfara því að leggja braut undir sóla og þreyta létt skeið inn Ægisíðuna eða út á Nes. Glaðværðin hefur á stundum gengið fram af viðstöddum og gekk það svo langt að Ólafur Grímur Björnsson, fæddur 1944, sá sitt óvænna og hvarf af vettvangi með bókaskjóður sínar dag einn þegar Landsbókasafnið var búið að loka og hann hafði leitað næðis fyrir fræðistörf sín í sal Vesturbæjarlaugar.

Sérstakur pottur er að loknu hlaupi í hádeginu á sunnudögum. Þá mæta til samræðna hlauparar án hlaupaskyldu og fara fremstir þeir dr. Baldur Símonarson, fæddur 1942, og dr. Einar Gunnar Pétursson, fæddur í Dölum vestur 1941. Við slík tækifæri verða umræður gjarnan háfleygari en aðra daga og fjallað vítt og breitt um þjóðfræðileg og persónufræðileg efni. Á þessum vettvangi hefur orðið til ný fræðigrein sagnfræðinnar, sk. bílnúmerafræði. Mestur sérfræðingur í bílnúmerum landsins er fyrrnefndur Ólafur Þorsteinsson. Hann spyr gjarnan: „Hver átti bílnúmerið R-212?“ Og þegar menn standa á gati og segja: „Það veit ég ekki“, segir hann „ja, þá veistu ekki mikið!“

Hlaupasamtökin eru menningarsamtök, við erum sögð vinalausir aumingjar sem alltaf gera allt eins og líður best illa. Við þreytum 10-12 km hlaup, gjarnan austur Ægisíðuna, með viðkomu í Nauthólsvík, á Veðurstofuhálendinu, Klömbrum og svo er hlaupið niður á Sæbraut og þá leið tilbaka til laugar. Að hlaupi loknu er teygt í sal og haldið að því búnu til potts. Frá hlaupum samtakanna er sagt á vefnum hlaup.blog.is. Í potti eru aldrei sagðar nafnlausar sögur, þar eru ríkisstjórnir ýmist settar af eða nýjar myndaðar. Í hópnum er pláss fyrir alla, feitlagna miðaldra karla eins og okkur Einar blómasala jafnt sem afrekshlaupara á borð við próf. dr. Ágúst Kvaran og Ósk Vilhjálmsdóttur.

Vesturbæjarlaugin er miðpunktur félagslífs í Vesturbænum og gegnir ekki minna hlutverki en Melabúðin. Aðstaða þar er öll til fyrirmyndar og starfsfólk er viðmótsþýtt og hjálplegt. Ávallt má þó gera betur, svo sem að tryggja að búið sé að opna allar dyr á morgnana, t.d. að eimbaði, og að taka niður palla í útiklefa og þurrka af bekkjum.

Reykjavík, 22. nóvember 2013

(...NN)

 

 


Kafli 1 af 9 - Persónuupplýsingar

Nafn, fæðingarár, sveitarfélag, starf, menntun/í hvaða námi, kyn, þjóðerni. Við hvaða staði og tímabil eru svörin miðuð? Þeir sem það kjósa geta svarað nafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð.

Kafli 2 af 9 - Almennar upplýsingar um sundlauganotkun þína

Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).
Hvers vegna ferð þú í sund? Eftir hverju ert þú að sækjast?
Hvað ferð þú oft í sund að jafnaði? Hefur það verið breytilegt í gegnum tíðina? Hvaða laugar hefur þú mest sótt og hvers vegna?
Er eða hefur verið regla á því á hvaða tíma dagsins þú ferð í sund? Hvers vegna? Ferð þú að jafnaði ein(n) í sund eða með öðrum?

Kafli 3 af 9 - Sundkennsla

Á hvaða aldri byrjaðir þú að læra sund? Í hve mörg ár lærðir þú?
Var sundkennsla hluti af skólagöngu þinni eða fór hún fram utan skóla? Hvar var kennt og hve stóran hluta ársins?
Hvernig var sundkennslu háttað? Var kennt eftir aldurshópum eða kyni? Hvað finnst þér um sundkennsluna og hverjar voru áherslurnar?

Kafli 4 af 9 - Samskipti og hegðun

Hvaða óskráðar reglur eða viðmið gilda um samskipti og hegðun sundgesta? Getur þú nefnt dæmi um að brotið sé gegn þessum óskráðu reglum?
Hvaða munur er á þessum óskráðu reglum eftir svæðum (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.)?
Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?
Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?

Kafli 5 af 9 - Líkami og hreinlæti

Hafa ferðir í sundlaugina áhrif á það hvernig þú hugsar um líkamann? Hvernig þá?
Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?
Hvað finnst þér um hreinlæti á sundstað?

Kafli 6 af 9 - Í sundlauginni

Hvað kannt þú best að meta við sundferðina? En síst?
Hefur þú komið þér upp föstum venjum í sambandi við heimsóknir þínar á sundstað? Hvaða venjum? Hvers vegna?
Hvernig líður þér þegar þú ert búin(n) í sundi (líkamlega, andlega)?
Með hvaða hætti hafa sjón, lykt, hljóð, bragð og snerting áhrif á líðan þína í sundi?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður og hvernig þú hegðar þér á ólíkum svæðum eða í ólíkum tegundum lauga (t.d. í innilaug, útilaug eða heitri laug)? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir árstíðum, veðri eða tíma dags? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir því hve margir eða fáir eru í lauginni á sama tíma og þú? Hvernig þá?
Hvað í hönnun og umhverfi þeirrar sundlaugar sem þú sækir mest ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með?

Kafli 7 af 9 - Heiti potturinn

Hverju ert þú að sækjast eftir þegar þú ferð í heita pottinn? Er upplifunin breytileg eftir árstíðum, tíma sólarhringsins eða öðrum utanaðkomandi aðstæðum?
Hverjir eru það sem sækja heita pottinn? Er munur á aðsókn eftir kyni eða aldri?
Hvaða samræður fara fram í heita pottinum og hverjir taka þátt í þeim? Er eitthvað umræðuefni frekar rætt en annað? En sem þykir síður við hæfi að ræða?
Hafa aðstæður og umhverfið í heita pottinum áhrif á samræðurnar á einhvern hátt? Finnast þér samræður svipaðar í heita pottinum og annars staðar þar sem fólk kemur saman?
Hvernig veljast menn saman í potta (tilviljun, kunningsskapur, menntun)?

Kafli 8 af 9 - Sundgesturinn

Hvaða búnað tekur þú með þér á sundstað og í hvaða tilgangi?
Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?
Tekur þú eftir mismunandi sundtísku eða tískusveiflum, t.d. eftir aldri sundgesta, sundstöðum eða tímabilum? Hvernig lýsir þetta sér?

Kafli 9 af 9 - Sundminningar og sögur úr sundi

Er einhver saga eða minningar úr sundi sem þú myndir vilja segja frá í lokin?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana