Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSund, Sundlaug, Sundlaugamenning
Ártal2006-2013
Spurningaskrá119 Sundlaugamenning á Íslandi

Sveitarfélag 1950Hafnarfjörður, Kópavogshreppur, Reykjavík, Seltjarnarneshreppur
Núv. sveitarfélagHafnarfjarðarkaupstaður, Kópavogsbær, Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstaður
SýslaGullbringusýsla (2500) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1958

Nánari upplýsingar

Númer2013-2-116
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið24.10.2013/27.11.2013
TækniTölvuskrift
Sendandi:

(... kona) (...) Hafnarfirði

 

Flott framtak

Vinsamlega senda svarpóst til staðfestingar á að þetta bréf berst ykkur.

 

Almenningssund

Bíddu smá það er alveg að losna. Sko, væna mín, þú verður að muna númerið þitt. Og þú kemur STRAX uppúr þegar þitt númer er kallað. Grunna laugin var full af krökkum. Allir hoppuðu og skvettu. Færri í djúpu, en maður vill helst ekki synda þangað. Ég heyrði af stelpu sem missti eitthvað og kafaði eftir því en hún synti svo nálægt stjörnunni að hún sogaðist niður í botn og var næstum druknuð. Nú kemur sundlaugarkonan alveg æf. Strákar, já þið þarna, kíkið á númerin ykkar það er búið að kalla ykkur upp. Oft! Af stað, uppúr núna. Ykkar tími löngu búinn. Skammirnar að láta reka sig uppúr. Þeim virðist finnast það gaman.

 

Okkur finnst eins og að við eigum langa sundlaugamenningu en þó sagnir séu af heitum laugum frá elstu tíð er það allt annað en að almenningur hafi haft kost á því að æfa sund eða haft aðgang að heitu vatni til makindabaða. Sú saga nær yfir u.þ.b. 70 ár. Ofangreind minning er 40 ára.

 

Á síðu Sundfélags Hafnarfjarðar, sh.is, er grein um sund og sundkennslu eftir Högna Sigurðsson, sem birt var í “Skólapiltinum”- innanskólablaði Flensborgarskóla, árið 1894. Í þeirri grein er margt fróðlegt, m.a.: “Það er sagt að fyrir rúmum 70 árum hafi ekki verið fleiri en svo sem 6 menn á öllu landinu, sem voru sjálfbjarga ef þeir lentu í polli, sem þeir náðu ekki niðrí.” Og í Sögu FH í 75 ár eftir Björn Pétursson, bls. 2, er vitnað í skólaskýrslu fyrir veturinn 1894-5 þar sem kemur fram að kennd hafi verið m.a.: “Glímur og sund á þurru.” Sundlaug var byggð í Hafnarfirði 1943 sem útisundlaug með upphituðum sjó.

 

Hafnfirðingar eru í maí 2007, 24.231. Þeir fóru 373.780 sinnum í sund í sundlaugar Hafnarfjarðarbæjar á árinu 2006, skólasund og ferðir sundfélaga meðtalin. Miðað við það þá er merkilega lítið af dægurefni um sundstaði, sundferðir, aðstöðu, gufur, sundföt ofl. Allir eiga “sína” laug, sínar venjur í gufu og potta. Mér þykir mjög fróðlegt að heyra hvernig aðrir vilja hafa það í sundlaugarferðum sínum. Hvað syndir meðalmaðurinn í sundferðinni? Hversu lengi í potti og gufu? Er allt gott sem hefur verið gert? Má gagnrýna?  Er hægt að bera almenningssundmenningu okkar í dag saman við aðrar þjóðir a.m.k. aðrar Evrópuþjóðir? Hvaða hlutfall er á syndu fólki á Íslandi m.v. Evrópu?

 

Er sundlaugarferð til heilsueflingar, þrifa, samveru, slökunar, skemmtunar eða allt í senn?

Sundlaugarnar okkar hafa hver sinn karakter eftir því hvenær og hvernig þær eru byggðar, eftir staðsetningu og eftir stjórnendum. Sumt er e.t.v. einstakt eins og að í sundlauginni á Hvammstanga er stemning í frítt jólasund á aðfangadag og öllum boðið konfekt. Í Sundhöll Hafnarfjarðar eru “fullorðinstímar” milli kl. 19 og 20 á þriðjudögum og fimmtudögum og “kvennatímar” á sömu dögum milli kl. 20 og 21. Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði hefur innilaugina heitari en venja er fyrir litlu börnin á laugardögum og sunnudögum, svo eitthvað sé nefnt.

 

------

Böð

 

Heit og köld böð, fótaböð, víxböð, ilmböð, olíuböð, leirböð, flotböð, sólböð, sjóböð ... Því er haldið fram að ýmiskonar böð séu ígildi kínaelexírs og til bóta fyrir húð, vöðva- og liðbólgur, ónæmiskerfið, efnaskipti, meltingu, sogæðakerfi, fótaóeirð, æðaþrengsli, hárglans,  þunglyndi, svefn, verki og stress svo fátt eitt sé talið.

 

Húðin er stærsta líffæri mannsins og aðal skynfæri okkar. Full af taugaendum sem gefa boð um sársauka og stjórna hitastýringu með því að draga saman æðar, eða víkka ef er heitt og þá auka framleiðslu svitakirtla þannig að húðin verði rök og kæli blóðið. Sem skynfæri hefur hún mjög mikið að segja með almenna vellíðan.

 

Vatnsmeðferðir byggja á því að örva blóðstreymi eftir ýmsum leiðum, mýkja vöðva og liðka liðamót. Kjarninn er hið augljósa að heitt rói og mýki, en kalt örvi. Best er að þreifa sig áfram með það hversu heitur maður vill vera til að þykja köld sturta góð. Ef volgt eða kalt bað gefur ekki góða tilfinningu eftirá, er líklega betra að sleppa því.

 

Hin besta uppskrift af spennulosun er að fara í venjulegt bað en síðan að fara í 3 mínútur í vel heita sturtu og síðan í 30 sekúndna kalda sturtu og endurtaka eins og þurfa þykir. Þekt er í heimi íþrótta að kæla vöðva til að auka blóðstreymi og minnka bólgur eftir erfiða leiki og æfingar í baði með ísmolum í 1-2 mínútur.

 

Okkar volgu laugar, heitu pottar og aðgangur að gufu fara langt með þetta því kælingin er jú einfaldlega að standa úti. Það er þó mín skoðun að á hverjum laugarbakka við heita potta eigi að vera sturta með gamaldags blöndunartækjum, s.s. ekki forstilltum, þannig að maður geti stýrt sinni kælingu sjálfur.

 

Mitt uppáhalds baðhús er Moskan í París. Þar er tyrkneskt baðhús með forsal eins og klipptum út úr Þúsund og einni nótt, með nöktum konum (á kvennadögum) að bíða eftir nuddi á bláum legubekkjum (fram er borið tyrkneskt myntute) með útskornum stoðum og á miðju gólfi lítill gosbrunnur og nuddbekkir. Salirnir innaf eru marmaraklæddir rangalar, stór heitur salur með einskonar básum þar sem innst er krani í hverju rými með köldu vatni, konurnar bleyta handklæðin, skrúbba sig, smyrja og spjalla, í alheitasta gufurýminu er einnig ísjökulkaldur pottur sem verður besti staðurinn að fara í á milli þess sem maður liggur í sæluvímu.

 

Í Baðstofunni í Laugum er albesta baðaðstaðan á landinu. Á slíkan stað borgar sig ekki að fara nema að hafa tíma til að slappa af. Vel reynd rútínan; bláa gufan (í henni er mynta sem er gott fyrir öndunarfærin og slöngur með köldu vatni, hægt að vera þar lengst), volgi fossinn, gula gufan, kalt fótabað, frumskógasaunan, köld sturta, heiti potturinn,  ískaldi potturinn og loks nudd í hálftíma og hvíld tekur um þrjár klukkustundir. Þess vegna er um að gera að vera í góðra vina hópi og njóta lífsins.

 

Í Ironmonger Row baðhúsinu í London (sem er farið að láta á sjá á íslenskum kvarða) eru einskonar rúm sem maður fær fyrir sig til hvíldar og koma borgarfrúr vel búnar nesti, snyrtivörum og lesefni, það er spjallað látlaust og drukkið te (borið fram á rósóttum málmbakka) milli þess sem farið er í sund, gufu, sturtu, kaldapottinn, nudd eða aðrar snyrtimeðferðir.

 

------------------

 Sjóbað

 

20. maí 2007. Seltjarnarnes. Lofthiti 7 °C. Sjávarhiti 7 °C. Skýjað. Vindur um10 m/sek.

Mér skilst að lífslíkur manns í 0°C köldum sjó séu innan við15 mínútur. Í 0-4°C séu þær 30-90 mínútur. En við 4-10°C  má vænta meðvitundarleysi eftir 30-60 mínútur en lífslíkur 1-3 stundir. Það er nú fínt.

 

Sjóbaðsfélagið Skítkalt hittist hvern sunnudagsmorgun klukkan 11.00 og fær sér hressandi sundsprett út á Seltjarnarnesi. Með ofangreindar staðreyndir í huga má benda á þann góða kost við þetta sport að ekki er það tímafrekt við strönd þessa lands. Ég hugsaði um það þennan morgun þegar ég var á leiðinni út á Seltjarnarnes. Vindurinn blés og mér varð skítkalt við það eitt að fara út úr bílnum. Félagar úr Sjóbaðsfélaginu Skítköldu voru mættir og við gengum yfir kambinn, menn sviptu sig klæðum og hlupu út í sjó. Þeir félagar syntu smáspöl út og spjölluðu en ég fór mér hægar. Taldi nóg að ná einu til tveim sundtökum, snúa mér við og taka lífsmörk. Jú, ég var lifandi, gat að vísu ekki stjórnað andardrættinum, til skiptis ískalt og all í lagi. Ok, þá bara að koma sér í land. Það tók lengri tíma. Landtaka vakti mér alsælukennd. Frábært veður, hlýr andvari, hitinn streymdi út í húðina að nýju. Alveg til í þetta aftur.

 

Ég spurði manninn minn hvort þetta hafi ekki tekið 3 mínútur en hann hélt helst það þetta hefði tekið eina mínútu. Þegar þeir félagar komu í land, sprettu þeir úr spori eftir ströndinni, berfættir í sandinum. Það er ekta strandlíf á Nesinu. Svo var haldið í Seltjarnarneslaug.

 

Aðspurðir segja félagarnir að þeir hafi farið flesta sunnudaga síðustu ára í sjóinn. Kuldaþolið aukist tvímælalaust með tímanum, og kvefpestir heyri sögunni til.  Ég kíkti á sjávarhitatölur á árinu og mér sýnist að hitinn sé um 1°C í byrjun árs, 3°C í mars, 7°C í maí og fer síðan hátt upp í 15 gráður um hásumar.

 

Ég reyni að synda í sjó í útlöndum. Á Spáni má sjá hitatölur sjávar á veðurspákortum m.a. í blöðum. Að synda í sjó gefur allt aðra kennd en að synda í sundlaug. Í fyrsta lagi er maður léttur eins korktappi, líkingin á vel við ef það eru öldur og maður fyllist auðmýkt gagnvart þessu ógnarafli sem býr í sjónum. Það er skemmtileg upplifun að sjá torfu af fiskum synda undir sér og ógnvænleg upplifun þegar dýpið er mikið.

 

Nýverið synnti lögmaður nokkur Lewis Gordon Pugh í -1,8°C köldum sjó í vök á Norður pólnum (90°) vegalengd sem svaraði til eins km og tók hann 18 mín og 50 sek. Sá maður segist geta aukið líkamshita sinn fyrir sundið um 1,4°C. Í heitapottinum nýverið var umræða um sundafrek Benediktanna (Hjartarsonar og Lafleur)  í sumar og einni konu varð að orði; “ja ég læt mér 250 metrana nægja áfram og það í 28°C heitri lauginni”. Þannig er þetta með markmiðin.

 

---------------

Kópavogslaug

Ég fór í sund 11.9.2006.- 6.6.2007

 

Kópavogslaug varð fyrir valinu í blíðskaparveðri. Kópavogslaug er eiginlega uppáhaldssundlaugin. Maður þarf að synda svo fáar ferðir, og þó það sé skólasund er næstum alltaf ágætt pláss til að synda. Á góðum degi hefur hún allt sem prýða má góða laug. Sæmilegt skjól og grænt í kring.  Í verra veðri hefur verið betra að fara í aðrar laugar. (Þetta með að ganga eftir hálum bakkanum hina löngu leið í gufuna var s.s. ekki minn tebolli.)

 

Nú horfir það til betri vegar. Verið að byggja og breyta.  Ný gufa og nýjir útiklefar og búningsklefar.  Í blaðagreinum var í sífellu tekið fram að viðbótin verði í anda fyrri arkitekts. Það er einhver misskilningur á ferð ef haldið að hugverkastæling bæti úr því að gengið var fram hjá arkitekti hússins. En sumsé, það á að tvöfalda húsnæði Nautilus, sem  verður frábært.

 

Þessi hugmynd Nautilus með tækjasal og sund er frábær hugmynd en aðstaðan sem Nautilus hefur sætt sig við, a.m.k. í Kópavogslaug og Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði, hefur súrnað ef svo má að orði komast, enda þröngt frá upphafi. Ég hef ekki getað sætt mig við aðstöðuna hjá Nautilus hingað til en nú langar mig að fylgjast með.

 

Byrjaði í heitasta pottinum sem var alveg passlega heitastur. Kíkti inn í bráðabirgða "útiklefann" á sundlaugarbakkanum sem reyndist óupphitaður inniklefi án sturtu, en með hitara ...hmm? Spurði starfsmann á bakkanum hvort væri að vænta þess að fá bráðabirgða gufu en hann hvað nei við. Spurði hvaðan ég væri og sagði svo: “Ja með fullri virðingu fyrir Hafnfirðingum verð ég að segja að þessi laug er miklu betri.”

 

Þegar ég hóf sundið þá vorum við 2 ofan í lauginni. Næstum einkasundlaug - lífið er stundum lúxus. Synti svo mínar ferðir. Velti því fyrir mér hvort hendurnar á mér séu utan staðla að lengd, Kópavogslaug er 0,93m í grynnri endann og það borgar sig ekki að koma hugsunarlaust syndandi skrið að grynnri bakkanum væri maður með  keyptar neglur.

 

Ætlaði bara að taka því rólega en ákaflega skýr digital tímamælir hélt athygli minni, það er gott mál. Það að synda rólegt skrið í 50 metra laug er púra slökun – sund tai chi, næstum sömu hreyfingar, og á baksundi í miðri þessari stóru laug er himininn allt sjónsviðið. Lét mig fljóta og heilabylgjurnar tóku sökk yfir í theta. (http://www.float.co.uk/)

 

 

Tillaga að mynd úr myndasafni Mbl. Silkiormar í Grasagarði.

 

----------------

(...NN)

 

Nýr sundbolur

 

Ég hef mjög ákveðnar skoðanir á hvernig sundbolur á að vera “til að synda í”. Hann á að ná yfir mjaðmasvæðið, með breiðum hlírum sem alls ekki falla út af öxlunum, ekki með klofsaum, og helst eitthvað sem heldur þeim saman hátt í bakið. Svo er það efnið.

 

Sú var tíð að venjulegur sundbolur varð gegnsær á viðkvæmum stöðum á einu ári. Ég var lengi óhress með litla endingu þeirra eða uns ég keypti mér sundbol með “endurance” efni, þá fór ég fyrst að sakna efnis sem teygðist óendanlega þegar það var blautt. Stóð mig jafnvel að því að gera tilraun til að smokra mér í þurran bolinn áður en ég fór í sturtuna til að sleppa við barninginn við bolinn blautan en samviskan... Enn 3 árum síðar sér ekki á efninu. Allir í nýjustu tísku og ekki ég.

 

Við nákvæma skoðun má sjá að saumar eru farnir að daprast og gott ef ekki blettir á baki eftir sumarfríið og vatnshelda sólarvörn nr. 60. Ákvað að velja mér nýjan bol. Að lokum stóð valið milli tveggja, svipaðir útlits nema annar úr mjúku vel teygjanlegu efni nokkuð heilum, og hinum sem var með mikið af grennandi saumum að framan, með stillanlegum hlírum og stóð Speedo sculpture á honum. Þó mjúki væri þægilegri var ég jú formaðri í síðarnefnda og hugsaði með mér að úr því að efnið væri ekki endurance þá yrði þægilegt að komast í bolinn blautan þrátt fyrir aðskorið sniðið.

 

Svo hófst sundferðin í nýja bolnum. Fínt að fara í bolinn blautan í sturtunni, ekkert mál með það. En hvað var þetta .. hmm? Bolurinn byrjaði að safna í sig vatni og belgjast út milli fóta mér og svo að síga í að aftan. Í snarhasti sleppti ég vatninu út. Dreif mig úr bolnum og leitaði að plasti sem væri skýring en ekkert plast. Ég vatt bolinn nokkrum sinnum og fór í hann aftur, líklegast of mikil steining í efninu. Alveg sama. Jaa, þetta hlýtur að lagast í klórvatninu, hann mýkist upp, bolir eru auðvitað ekkert hannaðir til að standa í þeim í sturtu, hvað veit ég. Gaman að vera í formandi sundbol. Svo hóf ég sundið.

 

Um leið og ég ýti mér frá bakkanum upplifði ég alveg nýja tilfinningu. Eins og köld laugin fyllti sundbolinn, og það sama í næsta sundtaki og einnig þar næsta. Sundtökin voru eitthvað svo máttlaus, ég komst ekkert áfram. Ég synti baksund og hugsaði að þetta væri bara ekki svona. Hver hefur heyrt um svona? Bolurinn virkaði fínt í baksundi. Ég prufaði aftur bringusund; sama. Ég stytti í hlírunum uns hálsmálið var upp undir höku. Alveg sama. Bolurinn belgdist út og þegar ég kíkti niður var ljóst að ég leit út fyrir að vera með skálarstærð D+ og nokkuð framstæð. Ég þreifaði um magann og togaði í efnið og viti menn. Bolurinn var tvöfaldur að framan. Ég ákvað að hugsa mjög jákvæðar hugsanir. Sko, þetta er eins og að synda með dragsegl, ný uppfinning, bara eins og að hlaupa með lóð á fótum. Ný æfing og til að bæta sundstílinn að kreista að sér frambungurnar í öðru hvoru sundtaki. En s.s. á 5. ferð þraut mig orkuna sem dugir vanalega í 10 ferðir í Kópavogslaug og hætti.

 

Þegar uppúr kom leit ég í spegilinn og var að hugsa hvort gott útlitið væri þess virði að upplifa svona sundferð aftur, en það sem blasti við var að öll “formun” var úr sögunni. Þegar heim kom skoðaði ég miðann sem fylgdi bolnum mjöög vel. Á glærum miða var eitthvað D og undir því með litlum stöfum cup.  Síðar sagði mér einhver að þetta sé eins og með push upp sokkabuxur. Svona boli þurfi að kaupa a.m.k. 2 númerum of litla. Ég hef reynt að bjóða systrum mínum bolinn sem sundlaugarbakkabol en þær fara bara að hlæja.


--------

Kynbundnir sólbaðsklefar og óupphitaðir (eða lítt upphitaðir) skiptklefar.

 

Sumir fara alltaf í útiklefana, en flestir láta sér ekki detta það í hug. Mín fyrstu kynni af útiklefum var í Laugardalslaug, slíkir klefar eru kynbundnir sólbaðs og skiptiklefar án sturtu. Í minningunni brúnar naktar konur í sólbaði, ótrúlega framandi hiti og sólarolíulykt. Þá var sagt að það væri hollt að láta sólina skína á beran kroppinn. Jafn hollt og að taka inn vítamín og nauðsyn að baða sólþyrsta líkama (hvíta) í sjaldfengnum yl sólar. Mér barninu þótti sólbað af sama meiði og að fara í ljós hjá nunnunum á St. Jóseps.

 

Sundhöll Reykjavíkur hefur sérstöðu með risa teppalögðum sólveröndum uppi á þaki, með sólbekkjum og útsýni. Þar mætti hugsa sér Mullersæfingar allan ársins hring en auk þess auðvitað sólböð og samveru.

 

Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði hefur góðan kvennaútiklefa með bekk, rimlum til að gera teygjur og æfingar, sturtum, og mjúku barnvænu gólfi, allt undir berum himni, auk WC og snaga undir skýli. Ég hef heyrt að karlaútiklefinn sé enn betri; þar séu græjur úr stáli. Treysti mér ekki í að sannreyna það. Svipaðir klefar eru í Sundlaug Garðabæjar og á Seltjarnarnesi. Í Vesturbæjarlaug og um þessar mundir í Kópavogslaug eru sturtulausir lítt upphitaðir klefar að mestu lokaðir. Ég set spurningarmerki við þá og jafnvel við útfærsluna í Versölum þó hún sé með sturtum og bæði ný og snyrtileg.

 

Ég var nýlega (þegar þetta er skrifað) á göngu í Setbergshverfi í Hafnarfirði um kl. 10 á sunnudagsmorgni í súld og 3°C þegar út kom maður með handklæði um sig miðjan. Meðan við gengum framhjá húsi hans varð tilgangur ferðar hans ljós. Hann var s.s. á leið í sturtu. Útisturtu.

 

En hví að nota útisturtur? Tilbreytingin er jú meiri, að njóta dagsins á eigin skinni örlitla stund. Ef sólin skín myndast strandastemning og að vera nakin í heitri sturtu úti í snjókomu er ígildi þess að vera inni í jólakúlu, sem alla hefur dreymt um.

--------------

Græjur

 

Það þarf ekkert til að byrja að synda, ja jú, auðvitað sundbol, já og sundgleraugu, og sundhettu og kannski kork og blöðkur og ...

 

Það er alveg merkilegt hvað er mikið í sundtöskunni. Samt, allt sem er í sundtöskunni er bráðnauðsynlegt við ákveðnar aðstæður en ef maður gleymir einhverju eða öllu þá skiptir það ekki máli. Sundhetta er t.d. góð ef það er mjög vindasamt og kalt.

 

Sundgleraugu eru þarfaþing og fyrir þá sem sjá illa eru til gleraugu með styrk. Þau er hægt að kaupa víða. Ég hef keypt sundgleraugu með styrk í gleraugnaverslun í Kringlunni, í Aqua Sport í Kópavogi og nú síðast í gleraugnaversluninni í Fríhöfninni. Í Fríhöfninni var sú þjónusta að hægt að kaupa glerin með sitthvorum styrknum og þau líta út fyrir að vera af vönduðustu gerð.

 

Fyrir þá sem eru með viðkvæm eyru eru til sundeyrnatappar úr síliconi. Ég hef gert tvær tilraunir til að venja mig á kollhníssnúning en gefist upp eftir að sundlaugavatn fór ítrekað ótilteknar leiðir bak við augu, til eyrna og heila sem var svo klórlegið í marga daga eftir. Nýverið rakst ég hinsvegar á að til eru sundmanna nefklemmur. Svo næsta tilraun verður gerð með eina slíka.

 

Sundskór eða töflur eru góðar á hálum gólfum og til varnar fótsvepp. Ég á eitt par sem hægt er að hafa á fótum niður í laug sem er þarfaþing þegar sprækt barnabarnið tekur á rás uppúr eftir flughálum bakkanum eða til að ganga eftir grýttum botni út í sjó, og flipp floppers s.s. tátöflur mjög góðar og voru smart á sínum tíma, keyptar í Brasilíu og hafa marga fjöruna gengið.

 

Reyndi að endurnýja þær en lenti á töflum sem voru með gljásléttan innansóla úr efni án viðloðunar þannig að þó ég stæði kyr þá rann ég út af sólanum jafnt aftur og til hliðar. Líklegast hannaðir fyrir þurra fætur? Sá það ekki fyrir.

 

Góð sundtaska er því taska sem opnast vel til að finna allt dótið? Núverandi taska er reyndar sérhönnuð ... balletttaska. Féll fyrir ballettskógeymslunni undir töskunni sem er s.s. úr neti og kjörin fyrir sundfitin. Var nýverið að skoða töskur í versluninni Brim á Laugavegi og sá þar bakpoka sem eru með böndum fyrir bretti framaná. Slíkt hlýtur að ganga fyrir sundfit einnig? Þar er líka að finna stóra bakpoka sérhannaða fyrir vatnasport að sögn verslunarmannsins, með vatnsheldum poka ofaní fyrir blauta dótið.

 

Já, það er margt hægt að kaupa og sumt ekki alveg það fyrsta sem maður tengir sundi. Ég var einu sinni í gufu með fullt af konum og ein kom inn og spurði viðstadda hvað klukkan væri. Ekki nokkur kona hafði úr á hendi. Skömmu síðar komu nokkrir karlar inn og hver einasti þeirra hafði úr á hendi og það var hægt að svara með allmikilli nákvæmni hvað rétt klukka væri. Þetta varð mér íhugunarefni og umræðuefni sem leiddi til þess að minn ektamaki gaf mér, daginn eftir, Swatch úr sem á stendur “water resistant” og ég hef tekið með mér í sjó, sund, gufur, sturtur og heita potta síðan og það eru líklega um 3 ár. Gott að hafa tímann á hreinu.

 

Las nýverið grein eftir mann sem syndir langsund og hann segist ekki skilja hvernig hann þraukaði æfingar áður en hann fékk sér vatnshelda iPodin sinn. Það eru til vatnsheldir pokar og hulstur utan um alla hluti, veskið, myndavélina, símann. Ja, og auðvitað vatnsheldir símar og myndavélar. Einnig vatnsheldir púlsmælar og armbönd t.d. fyrir börn eða hjartveika sem gefur frá sér merki ef sundmaður lendir í vanda.  Ég rakst nýverið á að til sölu er á netinu græja sem telur ferðir manns og tímamælir; það held ég sé sniðug græja, allavega, ef ég kaupi stóra bakpokann.

-----------------

Sundhöll Reykjavíkur

 

Sundhöllin í Reykjavík er frá 1937 og hefur sérstakan stíl Guðjóns Samúelssonar húsameistara. Laugin  (10m x 33,33m) , búningsklefarnir og sturtur voru friðaðar árið 2003.

Búningsklefarnir eru völundarhús og að hafa einkabúningsklefa er snilld. Alger lúxus.

Í huga mínum var Sundhöllin alltaf svo stór en hún hefur minnkað. E.t.v.vegna þess að skilrúmið styttir sundsvæðið eða e.t.v. vegna þess að flesta eftirmiddaga eru sundæfingar og plássleysi.

 

Prufaði að fara í hádeginu í nokkurn tíma. Það var fínt. Passlega margir eða um 8 manns á meðan ég synti. Ég hafði það á tilfinningunni að sundfélagar mínir í hádeginu væru mest fastagestir. Karlkyns fastagestir. Í endanum bak við skilrúmið oftast sundkennsla. Síðar komst ég að því að sundkennslan náði yfir meira svæði en ég hugði. Ég stóð mig að því að álykta að þetta væru líklegast mest útlendingar sem sæktu þessi sundnámskeið hjá honum Brynjólfi en  endaði svo sjálf á námskeiði. Skemmtilega uppbyggt námskeið. Hvorugt okkar vissi hvað yrði kennt á námskeiðinu en ég lærði mikið. Dularfullt? Bara að prófa.

 

Rólegt andrúmsloft. Miðað við hversu fáar líkamsræktarstöðvar eru niðri í miðbæ er undarlega rólegt í almenningssundinu. Einn og einn í tækjunum á bakkanum. Ég skoðaði tækin nánar og þau eru eins og annað þarna, slitin en af sterkri gerð. Heitu pottarnir eru stórir og í góðu skjóli - alveg hægt að halda góða fundi þar. Hinsvegar er eitthvað sem er ekki að ganga upp með gufubaðið. Líklegast bara hvað það er pínkulítið og einhvernveginn fullt þegar tveir setjast inn og þetta með plastmottuna í sætunum sem gerir ósjarmerandi þverrákir á lærin.

 

Laugin sjálf er eins og einkennir eldri laugar, mjög djúp eða 4 metrar í annan endann, með 2 dýfingabrettum - hið hærra 2,7 metrar. Þetta er ævintýralegt eins og margt annað í þessari laug. Áskorun. Það eru ekki margar laugar sem bjóða upp á aðstöðu til dýfinga- og köfunaræfinga. Uppi á þaksvölum er einstök sólbaðsaðstaða fyrir karla sér, og konur sér, með sólbekkjum og útsýni. Kvennaklefinn er niðri í kjallara en þar er nóg pláss og bjart í sturtuklefum. Sturturnar eru almennilegar með hitastýritækjum og því hægt að fara í passlega kalda sturtu ef maður vill eftir gufu eða pott. Auk þess er boðið upp á herbergi til teygjuæfinga og e.tv. jóga með rimlum og speglum inn af WC gangi sem er líka lúxus.

 

Á veggjum í forstofu hanga hugmyndir að stækkun laugarinnar. Spa heilsurækt. Jú væri það ekki kjörið?

 

Ath. mynd  Mbl. “dýfingar”

------------------

Þrifnaður eða kúltúr?

 

Og veistu hvað, konan við hliðina á mér fór ekkert í sturtu, var í sundfötunum innanundir og fór beint útí. Svo fór ég útí eftir mitt skrúbb og byrjaði að synda, tandurhrein. Þá kom vörðurinn. Einhverra hluta vegna þá labbaði hann allan hringinn til að tala við mig og benti mér að koma upp á bakkann. Hann klóraði sér í höfðinu. Ef til vill var hann að reyna að hugsa upp orð á ensku. Hann sagði eitthvað á spænsku og togaði  í hárið á sér. Svo benti hann á hina sem voru að synda. Ég yppti öxlum. Hann togaði eins og ímyndaða húfu á hárið á sér og ég skildi. Úpps, allir með sundhettu og ekki ég. Ó, eskúse, comprendo, e,e,e, hvar kaupir maður svoleiðis?

 

Ég mátti ganga eftir mílulöngum göngum og stigum niður í afgreiðsluna á blautum bolnum. Þar tók á móti mér kona sem með vorkunarblik í auga lét mig hafa sundhettu, á 4 evrur. Þessir útlendingar, ekkert vita þeir um þrifnað þessi grey. Já og allir eru á sundtöflum í sama útlandi, það þykir snyrtimennska.

 

Ég las nýverið grein eftir konu í Félagi íslenskra fótaaðgerðarfræðinga sem vildi meina að sundtöflur væru góð vörn gegn fótsvepp en sumir segja að aðalatriðið sé að fara með fæturna alveg þurra í sokkana. Bæði í Vesturbæjarlaug og Seltjarnarneslaug eru rafdrifnar táþurrkur sem er um að gera að nota.

 

Kona sem ég þekki hefur búið í Noregi mjög lengi. Í því landi er e.t.v styttri baðmenning heldur en hér og fjölmenning hefur í ákveðnum bæjarhlutum náð að rugla systeminu verulega. Þannig var að einn veturinn tóku 2 börn hennar á barnaskólaaldri upp á því að koma með nærfötin blaut heim úr skólanum þá daga sem var leikfimi. Hverju sætir þetta? Fyrsta svar var: Jú, nú verða allir að fara í sturtu, það má ekki sleppa því. Já, og enginn fer nakin í sturtu. Enginn, og þá ekki við. 

 

Mín blés til fundar í foreldrafélaginu og þar voru málin rædd. Það gustaði milli tyrknesks karls sem var líklegast að ræða kúltúr og trúarbrögð og íslenskrar frúr sem var að tala um “þrif”. Men kultur kan man ikke göre noget med segja Norðmenn og niðurstaðan var: Sturta án bols.

 

Líklegast var verið að ýkja þegar mér var sagt að baðverðir á Toyen sundlauginni í Ósló hefðu áhyggjur af björgunarsundi ef þeir lentu í að reyna bjarga konum í búrkum upp úr lauginni. Er þetta ekki bara einhver illmælgi. Fer einhver að synda í svo efnismiklum sundfötum?  Síðasta sumar var ég að synda í Toyen badet og ég sá enga í búrku. Hinsvegar sá ég konu sem ég taldi með sundhettu í síðum sokkabuxum og kjól með síðum ermum á sundi. Burkini?  (http://www.ahiida.com/) Í volga barnapottinum sátu indverskar konur með litlu börnin sín og höfðu það mjög skemmtilegt. Þær voru að pakka saman nestinu og ég sá marglit hrísgrjónin fljóta í vatninu.

 

Ég kann vel við okkar sundbaðstaðareglur. Þrátt fyrir að allir viti að klórvatnið sé svo sótthreinsandi að það er alveg sama hvað fer í það þá er þetta virkilega góð regla sem líklegast minnkar álag á síur og er bara partur af eðlilegum þrifnaði. Upp kemst um hvern sem gleymir forsturtunni því alskonar lykt, t.d. af hárlakki eða rakspíra, magnast upp á hreina lyktlausa sundlaugarsvæðinu. Það er betra þegar allir fara eftir sömu reglum skrifuðum og óskrifuðum, eins og til dæmis þurrka sér á þurrksvæðinu og ganga ekki rennblautum fótum inn að skápunum, eins og Víkverji skrifaði um. Í ljósi reynslunnar álykta ég sem svo að nýjum sundgestum þætti fengur að vita af þessum óskrifuðu t.d. í formi ábendinga.

 --------------------

Hversu mikið?

Sund er heilsubót en hvernig er að nota sund til heilsuræktar? Almennt er talað um heilsubót af því að hreyfa sig í um hálftíma á dag eða lengur a.m.k. þrisvar í viku og að besta hreyfinging sé ganga.  Ganga styrkir helst hjarta, lungu, fótavöðva og bein en sundið hjarta, lungu, hina ýmsustu vöðva og bætir liðleika? Fyrir þá sem eru þungir eða slæmir í liðum er sund málið.

 

Sem fyrsta markmið í átt til heilsuræktar með sundi þarf því augljóslega að synda a.m.k. í 30-40 mínútur (eða ca. 20 ferðir fram og til baka sem gera 1 km. í 25 metra laug) þrisvar eða oftar í viku.

Til að hreyfingin sé ekki of einhæf er um að gera að skipta reglulega um sund og synda t.d. skriðsund, bakskriðsund, bringusund og baksund til skiptis. Ef skriðsundið er ekki alveg komið þá er um að gera að nota blöðkur til að létta sundið til að byrja með eða fara á námskeið. Fyrir u.þ.b. 10 árum fór ég á námskeið hjá Matthildi Guðmundsdóttur (Lóló) sundkennara í Kópavogslaug og sé ekki eftir því.

 

Nýverið fór ég á námskeið hjá Brynjólfi Björnssyni í Sundhöll Reykjavíkur. Ég mæli með þeirri aðferð sem hann notar við kennsluna en hún er meira og minna þannig að hver og einn mætir og fær einstaklingsmiðaða kennslu. Hann er með námskeiðin í hádeginu og maður bara mætir og byrjar sitt sund. Allt í einu er hann kominn á bakkan og gefur manni komment sem maður æfir svo uns hann gefur merki næst. Ég kunni mjög vel við þetta. Hann sagði mér af sundhópi í Árbæjarlaug sem væri að nota sund og vatnsleikfimi sem alh

 

Einn sundþjálfari sagði mér að á sundæfingum sundfélaga sem unglingar fara á sé æft upp í sex sinnum í viku, synt í um einnog hálfan klukkutíma og á þeim tíma séu syndir 3 til 4 kílómetrar. Auk sundæfinga eru styrktaræfingar með lóð m.m. Hann sagði að fyrir venjulegt sundfólk sé besta leiðin að fylgjast með tímanum, þannig sæi maður árangur sinn, og slakaði ekki of mikið á.

Fyrir mér vill jú sundferðin verða slökun og kann ég betur við langsundið en spretti. Heilsunnar vegna er þó betra að taka smá á með augað á klukkunni og bæta stundum við ferðum þó svo að þær nái e.t.v. ekki þessum 15 km sem nú eru á milli í viku hverri.

 

Sund vinnur á móti vöðvabólgum ef synt er rétt og styrkir flesta vöðvahópa líkamans en sérstaklega handleggi (burt með bingóvænginn) og efri hluta bols. Mikið skriðsund gefur stinnann bakhluta og styrkir aftari lærvöðva. Sund styrkir lungu og er strangt til tekið ein stór öndunaræfing. Hef átt ánægjulega umræðu um það á fæðingarstofu.

 

Námskeið eru víða haldin í vatnsleikfimi svo um að gera að finna sínar viðbótaræfingar. Ef maður vill t.d. bæta við æfingum eins og leggja áherslu á maga, þá er einfalt að gera magaæfingu með sundblöðkum á fótum. Tók eitt sinn mann tali í Laugardalslaug sem var á harðahlaupum í dýpri enda laugarinnar allan þann tíma sem ég var að synda. Sá hafði lóðbelti um sig miðjann og hljóp allt hvað af tók að mestu á sama stað. Jú, hann kvaðst vera að æfa langhlaup eftir liðbandauppskurð og að þessi æfing héldi honum við á meðan hann ekki mætti reyna á.

Á flestum sundstöðum má finna rimla, e.t.v. inni í útiklefa, svo ekki gleyma að teygja.

---------------

Heyrt í heita pottinum í Akureyrarlaug ca. 2006 - 2007

 

Þrír menn á besta aldri sátu saman. Einn segir þessa sögu:

 

Fyrir 30 til 40 árum þegar hann Ó vinur minn var að klára stýrimanninn sagði hann mér að nú væri illt í efni. Hann þyrfti nefnilega að þreyta sundpróf til að réttindin, en hann var ósyndur. Ég sagði honum að ég skyldi synda fyrir hann, það væri ekki mál fyrir mig. Svo fór ég á uppgefnum tíma, svaraði nafnakalli og synti nokkrar ferðir, var einnig látin synda kafsund og hélt þetta væri frá. En, nei þá átti ég að sýna hæfni mína í björgunarsundi. Það kom maður útí sem ég mátti synda með yfir laugina, og allt í lagi með það.  En, þá loks kárnaði gamanið. Því þegar ég kom uppúr og hélt að allt væri búið vildu þeir taka mynd af mér til að hafa í skírteinið. Maður minn. Ja, myndina tóku þeir.

 

Ég hitti nú þennan vin minn ekki oft en fyrir svona einu til tveim árum hittumst við úti við kaupfélagið og hann segir: "Nú verður þú að koma með mér heim. Ég hef svolítið að sýna þér sem þér þykir skemmtilegt. Þegar heim var komið bauð hann mér inn og náði í mynd af veggnum. Þá hafði hann rammað inn skírteinið með myndinni góðu.

 

Heyrt í gufu

 

Kókosolía gerir húðina mjúka. Hún lyktar líka svo vel. Ég kaupi þetta í Bónus og fylli á plastflösku til að hafa með mér í gufuna. Gott að bera á sig í gufunni þá fer hún inn í húðina opna. Svo fer ég bara í mína sturtu og aldrei vesen með að það komi olía í fötin eða neitt.

 

Ég kaupi þessa sesamolíu í Fjarðakaupum ég set út í hana nokkra dropa af zedrus ilmolíu og hita í potti uns einn dropi af vatni gufar upp ef settur ofan á olíuna. Þannig er olían hreinsuð af aukaefnum.

 

-------------

Suðurbæjarlaug

Ég fór í sund 23 sept 2006

 

Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði er stuðlaug. Þar er hið viðfræga Sundfélag Hafnarfjarðar með aðstöðu og síðasta sumar með hjálp Actavis voru uppákomur, sundþjálfarar að veita almenningi leiðbeiningar og grill.

 

Sundlaugin státar af góðum útiklefum, s.s. sturtum undir berum himni, auk tveggja búningsklefa að auki fyrir hvort kyn. Annar er venjulegur almenningur en þó með sér búningsherbergjum og tveim aflokuðum sturtum auk búningsherbergis með gufu, hvíldarherbergi, nuddherbergi og tveim ljósaherbergjum.

 

Sturturnar eru með góðri bunu og handstýrðum blöndunartækjum þannig að hægt er að blanda með köldu eða velja kalda sturtur hvar sem er. Í kjallaranum er Nautilus með tæki og nýtir hvern krók á ekki mörgum fermetrum. Tengt Nautilus eru búningsherbergi með snögum en skápar á gangi fyrir verðmæti.

 

Útisundlaugin sjálf er í góðu skjóli bæði við húsið og einnig er skjól af hlíðinni fyrir ofan og gróskumiklum gróðri í afgirtum garðinum sem er ansi stór með malbikuðum göngustíg í hring. Innilaugin er höfð heit á laugardags- og sunnudagsmorgnum sérstaklega með lítil börn í huga. Innilaugin er notuðu fyrir ungbarnasund og námskeið ungra barna og  greinilega vel sótt og því betra að kynna sér dagskrána áður en haldið í sundferð með litlu krílin. Á kvöldin eru haldin þar námskeið svo ekki er gefið að hægt sé að fara í innilaugina.

 

Þá er komið að einu sem ég hef aldrei skilið í Suðurbæjarlaug. Úr innilauginni út í útilaugina er sundútgangur svona eins og í Árbæjarlaug en sá útgangur er alltaf hafður lokaður. Óskiljanlegt. Á köldum vetrardegi skiptir það öllu máli hvort maður þarf að ganga 10 skref eftir hálum bakkanum í frosti eða norðan stormi eða syndir í ylvolgu vatninu út. Hef valið að keyra alla leið upp í Árbæ í köldu veðri.

 

Við útilaugina eru þrír heitir pottar, misheitir, sem er lúxus, auk barnapotts. Laugin býður upp á kúta fyrir börnin og sundblöðkur.

 

Útilaugin er tvískipt 25 metra laug með brautum og grynnra barnaleiksvæði með foss og rennibraut. Stiginn upp í rennibrautina nýtur hinsvegar ekki skjóls af neinu og er það hin mesta áskorun að komast í rennibrautina.

 

Að lokum má bera saman innigufuna og útigufuna. Innigufan, sem verður að greiða sérstaklega í, er ágæt að stærð og útlitshönnun, himinblá standard plasteiningasæti  og mjög vinsæl. Hinsvegar er hönnunin á gufustútunum mislukkuð því hún er í gólfinu undir gangveginum (1 til 2 skref) en upp um götin kemur brennheit gufan og heita vatnið leitar undir hurðina og litlum iljum hefur brugðið við. Svo er það hitt að hávaðinn er mikill og ekki sérlega í anda þess að vera róandi.

Útigufan er í svipuðum útlitsstíl, mjöög kósí en þar er snilldarausumix við heitavatnsspíssa, sem gefur góða raun. Frábær gufa, alltaf passleg og rólegt andrúmsloft. Fyrir utan gufuna eru svo útisturtur sem má nota til að kæla sig í.

 

----------------


Kveðja, (...NN)

Kafli 1 af 9 - Persónuupplýsingar

Nafn, fæðingarár, sveitarfélag, starf, menntun/í hvaða námi, kyn, þjóðerni. Við hvaða staði og tímabil eru svörin miðuð? Þeir sem það kjósa geta svarað nafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð.

Kafli 2 af 9 - Almennar upplýsingar um sundlauganotkun þína

Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).
Hvers vegna ferð þú í sund? Eftir hverju ert þú að sækjast?
Hvað ferð þú oft í sund að jafnaði? Hefur það verið breytilegt í gegnum tíðina? Hvaða laugar hefur þú mest sótt og hvers vegna?
Er eða hefur verið regla á því á hvaða tíma dagsins þú ferð í sund? Hvers vegna? Ferð þú að jafnaði ein(n) í sund eða með öðrum?

Kafli 3 af 9 - Sundkennsla

Á hvaða aldri byrjaðir þú að læra sund? Í hve mörg ár lærðir þú?
Var sundkennsla hluti af skólagöngu þinni eða fór hún fram utan skóla? Hvar var kennt og hve stóran hluta ársins?
Hvernig var sundkennslu háttað? Var kennt eftir aldurshópum eða kyni? Hvað finnst þér um sundkennsluna og hverjar voru áherslurnar?

Kafli 4 af 9 - Samskipti og hegðun

Hvaða óskráðar reglur eða viðmið gilda um samskipti og hegðun sundgesta? Getur þú nefnt dæmi um að brotið sé gegn þessum óskráðu reglum?
Hvaða munur er á þessum óskráðu reglum eftir svæðum (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.)?
Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?
Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?

Kafli 5 af 9 - Líkami og hreinlæti

Hafa ferðir í sundlaugina áhrif á það hvernig þú hugsar um líkamann? Hvernig þá?
Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?
Hvað finnst þér um hreinlæti á sundstað?

Kafli 6 af 9 - Í sundlauginni

Hvað kannt þú best að meta við sundferðina? En síst?
Hefur þú komið þér upp föstum venjum í sambandi við heimsóknir þínar á sundstað? Hvaða venjum? Hvers vegna?
Hvernig líður þér þegar þú ert búin(n) í sundi (líkamlega, andlega)?
Með hvaða hætti hafa sjón, lykt, hljóð, bragð og snerting áhrif á líðan þína í sundi?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður og hvernig þú hegðar þér á ólíkum svæðum eða í ólíkum tegundum lauga (t.d. í innilaug, útilaug eða heitri laug)? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir árstíðum, veðri eða tíma dags? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir því hve margir eða fáir eru í lauginni á sama tíma og þú? Hvernig þá?
Hvað í hönnun og umhverfi þeirrar sundlaugar sem þú sækir mest ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með?

Kafli 7 af 9 - Heiti potturinn

Hverju ert þú að sækjast eftir þegar þú ferð í heita pottinn? Er upplifunin breytileg eftir árstíðum, tíma sólarhringsins eða öðrum utanaðkomandi aðstæðum?
Hverjir eru það sem sækja heita pottinn? Er munur á aðsókn eftir kyni eða aldri?
Hvaða samræður fara fram í heita pottinum og hverjir taka þátt í þeim? Er eitthvað umræðuefni frekar rætt en annað? En sem þykir síður við hæfi að ræða?
Hafa aðstæður og umhverfið í heita pottinum áhrif á samræðurnar á einhvern hátt? Finnast þér samræður svipaðar í heita pottinum og annars staðar þar sem fólk kemur saman?
Hvernig veljast menn saman í potta (tilviljun, kunningsskapur, menntun)?

Kafli 8 af 9 - Sundgesturinn

Hvaða búnað tekur þú með þér á sundstað og í hvaða tilgangi?
Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?
Tekur þú eftir mismunandi sundtísku eða tískusveiflum, t.d. eftir aldri sundgesta, sundstöðum eða tímabilum? Hvernig lýsir þetta sér?

Kafli 9 af 9 - Sundminningar og sögur úr sundi

Er einhver saga eða minningar úr sundi sem þú myndir vilja segja frá í lokin?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana