Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSund, Sundlaug, Sundlaugamenning
Ártal1979-2013
Spurningaskrá119 Sundlaugamenning á Íslandi

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavíkurborg
SýslaGullbringusýsla (2500) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1970

Nánari upplýsingar

Númer2013-2-114
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið24.10.2013/27.11.2013
TækniTölvuskrift

(1):

Fer langoftast í Laugardalslaug og hef gert það nokkuð, óreglulega verður að segjast, síðustu 14 ár.

 

Þeir sem það kjósa geta svaraðnafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð.

 

Almennar upplýsingar um sundlauganotkun þína

Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).

 

Hef, ekki fyrir svo ýkja löngu, fjárfest í rafrænu hálfsárs korti en keypti yfirleitt annars bara staka heimsókn eða 10 tíma kort.  Á svo alltaf 10 tíma klippikort fyrir syni mína 2 sem eru 10 ára og elska að fara í sund.  Þannig að ég fer þá rakleitt að inngönguhliðinu þegar ég kem inn nema þegar synirnir eru með, þá förum við að afgreiðsluborðinu til að klippa á kortin þeirra.  Fer svo og finn mér skáp.  Hef tekið eftir því að þegar ég er einn leita ég alltaf á svipuðum stað eftir skáp sem er laus.  Þegar við erum þrír saman þá er það sem skápar eru að mestu samliggjandi.  Afklæðumst í flýti og förum í sturtu, oft farið að pissa áður en farið er út í laug.

 

Þegar við erum þrír saman þá er farið fyrst í „steinapottinn“ svokallaða í lauginni.  Þar sitjum við og spjöllum í nokkrar mínútur.  Þeir fara svo í barnalaugina til þess að leika sér og þá fer ég í heitari potta sem eru í norðurenda laugarinnar.  Fer einnig í sjópottinn og oftast í gufubaðið.  Ef ég er einn á ferð þá fer ég strax í þá rútínu.  Á tímabili synti ég líka nokkrar ferðir og ætla að reyna að taka þann hátt upp fljótlega aftur.

 

Ef ég er með drengina þá fer ég aftur í steinapottinn og venjulega förum við svo allir saman í einhvern leik í barnlauginni (grísinn í miðjunni og körfubolti vinsælast)  Við erum yfirleitt 1 – 11/2 klukkutíma saman í sundi en ef ég er einn þá er það yfirleitt 20 – 40 mínútur.

 

Hvers vegna ferð þú í sund? Eftir hverju ert þú að sækjast?

 

Fyrst og fremst afslöppun.  Get líka flokkað þetta sem heilsurækt, hef reynt að synda en er ekki nógu duglegur við þetta.  Fer líka oft til að liðka stirða vöðva eftir fótbolta eða aðra hreyfingu.  Þá getur verið gott að fara í heita potta og, á stundum, nuddpotta.

 

Hvað ferð þú oft í sund að jafnaði? Hefur það verið breytilegt í gegnum tíðina? Hvaða laugar hefur þú mest sótt og hvers vegna?

 

Þetta er nokkuð misjafnt en eftir að ég keypti mér 6 mánaða kort, er hægt að segja að ég fari kannski að jafnaði 3 í viku.  Þetta hefur verið mjög breytilegt í gegnum tíðina en synir mínir hafa þó passað upp á að ekki líði allt of langur tími á milli sundferða.  Fer langoftast í Laugardalslaug og er það sú laug sem ég fer nánast bara í hér á höfuðborgarsvæðinu þó svo að kortið mitt gildir í fleiri laugar.  Fyrst og fremst er það staðsetning, er rétt hjá heimili og vinnustað mínum.  Þá finnst mér sú laug einnig hafa mesta úrvalið af heitum pottum og er rúmbest.  Þegar ferðast er þá erum reynir maður að fara í laugar á staðnum.  Förum stundum saman á Laugarvatn í sumarbústað og notum þá laugina þar mikið.  Förum líka þaðan í laugarnar á Borg í Grímsnesi og í Reykholti.

 

Er eða hefur verið regla á því á hvaða tíma dagsins þú ferð í sund? Hvers vegna? Ferð þú að jafnaði ein(n) í sund eða með öðrum?

 

Það er ekki beint regla en þegar ég er einn þá fer ég líklega oftast fyrir vinnu, sem hefst kl. 08:00.  Finnst gott að byrja daginn á því að fara í heita potta og virka frískari á eftir.  Fer líka á stundum eftir vinnu enda laugin við hliðina á vinnustað mínum.  Ef ég fer með drengina þá er það oftast um helgar og er það í raun á öllum tímum.

 

Sundkennsla

Á hvaða aldri byrjaðir þú að læra sund? Í hve mörg ár lærðir þú?

 

Nú minnir mig að hún hafi byrjað við 9 ára aldur.  Hinsvegar varð ég ekki syndur fyrr en um 13 ára aldur.  Sundkennsla var til 15 ára aldurs, þ.e. út grunnskólanámið.

 

Var sundkennsla hluti af skólagöngu þinni eða fór hún fram utan skóla? Hvar var kennt og hve stóran hluta ársins?

 

Þetta var hluti af skólagöngunni en við komum okkur sjálf úr Vogaskóla og í Laugardalslaug og fengum til þess strætómiða.  Fengum jafnan afhent strætómiða hjá kennaranum eftir tíma þegar við sátum í heita pottinum og er reyndar alveg magnað að ég man ekki eftir að hafa týnt þessum tveimur miðum sem við fengum jafnan í einu þó svo að eftir heita pottinn, hafi maður átt eftir að fara í sturtu og klæða sig og að passa upp á þess blautu pínu litlu miða!  Nú man ég ekki hversu stóran hluta ársins þetta var, finnst eins og þetta hafi kannski verið helming skólaársins í hvert skipti.

 

Hvernig var sundkennslu háttað? Var kennt eftir aldurshópum eða kyni? Hvað finnst þér um sundkennsluna og hverjar voru áherslurnar?

 

Strákar úr bekknum voru sér og stelpur sér í kennslunni þannig að það voru allir jafngamlir saman í kennslu.  Hef reyndar ekki mikið út á kennsluna að segja nema að erfitt var fyrir einn kennara að kenna heilum strákahóp þar sem menn voru á svo misjöfnum stað í getu.

 

Samskipti og hegðun

Hvaða óskráðar reglur eða viðmið gilda um samskipti og hegðun sundgesta? Getur þú nefnt dæmi um að brotið sé gegn þessum óskráðu reglum?

 

Þó svo að þú hefjir umræður eða svarir fólki þegar setið er í heita pottinum þá er því ekki að heilsa t.d. í sturtunni.  Þar er ákveðin friðhelgi, ekki verið að tala við ókunnuga og ekki verið að horfa mikið á náungann.  Þá eru ærsl, læti og hávaði illa séður í sturtunum, hvort sem er af gestum eða starfsmönnum.

 

Hvaða munur er á þessum óskráðu reglum eftir svæðum (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.)?

 

Helst finnst mér það, sem áður var frá greint, að sturturnar njóta ákveðnar friðhelgi umfram aðra staði í sundlauginni.

 

Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?

 

Heitu pottarnir njóta þar sérstöðu, þar er hægt að tala um allt á milli himins og jarðar.

 

Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?

 

Við Íslendingar erum vanir því að afklæðast og baðast fyrir framan aðra svo að það er ekki mikið vandamál.  Það er hinsvegar svo að auðvitað eru öðruvísi hegðun þegar fólk er í fötum heldur en ekki.  Maður er ekkert að spássera mikið á bakkanum(allavega ekki ég) heldur fer nokkuð rakleitt á þann stað í lauginni sem maður ætlar sér. Maður sér vel á erlendum gestum að þessir hlutir eru þeim ekki eðlislægir og þeim líður illa, bæði að þurfa að sturta sig í nekt og eins að þurfa að ganga eftir sundlaugarbakkanum í sundfötum.

 

Líkami og hreinlæti

Hafa ferðir í sundlaugina áhrif á það hvernig þú hugsar um líkamann? Hvernig þá?

 

Ekki get ég sagt það en auðvitað vill maður líta sem best út, hvort sem farið er í sund eða ekki.  Sundferðir sýna þá auðvitað meira af líkamanum og hvort maður hafi verið að syndga eða taka sig á.

 

Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?

 

Man ekki eftir neinu dæmi og er ekki að velta því fyrir mér almennt.

 

Hvað finnst þér um hreinlæti á sundstað?

 

Almennt finnst mér það í góðu lagi og finnst sjálfsagt að settar séu nokkuð strangar reglur um lágmarks hreinlæti hjá fólki sem nýtir sundlaugarnar.

 

Í sundlauginni

Hvað kannt þú best að meta við sundferðina? En síst?

 

Afslöppun, andleg og líkamleg meðferð.  Einhverra hluta vegna líður manni vel að sitja í heitu vatni.  Einnig er þetta góð líkamsrækt þegar maður tekur sig til og syndir.  Börnin njóta sín vel í sundi og brýtur daginn upp hjá þeim.  Einnig finnst mér ekki skipta máli hvernig veðrið er þegar ég er í sundi.  Get verið þar í hvaða veðri sem er án þess að finna svo mikinn mun.

 

Hefur þú komið þér upp föstum venjum í sambandi við heimsóknir þínar á sundstað? Hvaða venjum? Hvers vegna?

 

Lýsti því í byrjun að ómeðvitað fer ég í svipaða rútínu þegar farið er í sund, fer reyndar eftir því hvort ég fer einn eða með öðrum.  Fer alltaf á sama stað inn í klefann, leita á sama stað í byrjun eftir skáp o.s.frv.  Einnig er misjafnt eftir því hvenær dags ég fer í sund.

 

Hvernig líður þér þegar þú ert búin(n) í sundi (líkamlega, andlega)?

 

Ferskur, hreinn, léttur

 

Með hvaða hætti hafa sjón, lykt, hljóð, bragð og snerting áhrif á líðan þína í sundi?

 

Á erfitt með að svara þessari spurningu

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður og hvernig þú hegðar þér á ólíkum svæðum eða í ólíkum tegundum lauga (t.d. í innilaug, útilaug eða heitri laug)? Hvernig þá?

 

Fer nánast aldrei í innilaug svo ég get ekki borið það saman.  Sumar laugar eru meira „leiklaugar“ þegar maður er með börnin í sundi.  Best er þegar það eru sér „barnalaugar“ eða grunnar laugar sem eru meira ætlaðar fyrir leik og ærsl heldur en aðrir staðir laugarinnar.

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir árstíðum, veðri eða tíma dags? Hvernig þá?

 

Já, hegða mér öðruvísi t.d. þegar ég fer á morgnana fyrir vinnu heldur en t.d. eftir vinnu á virkum dögum.  Á morgnana er það nánast alltaf sama rútínan.  Heitur pottur og svo gufa en fyrst syndi ég, í þau örfáu skipti sem ég nenni því!  Eðlilega ílengist maður kannski stundum lengur í sundi á sumrin en veturna sökum veðurs en mér finnst alveg jafn notalegt í sundi á veturna.

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir því hve margir eða fáir eru í lauginni á sama tíma og þú? Hvernig þá?

 

Það er meiri afslöppun þegar eru fáir en þetta hefur hinsvegar ekki mikil áhrif á mig.  Helst á góðviðrisdögum á sumrin, þegar mikill fjöldi er í sundi, að það getur verið þreytandi að komast hvergi fyrir!  Ef svo er þá er maður meira fastur á sama stað til að missa ekki staðinn sinn.

 

Hvað í hönnun og umhverfi þeirrar sundlaugar sem þú sækir mest ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með?

 

Er bara nokkuð ánægður með Laugardalslaugina eins og hún er í dag.  Auðvitað er eitt og annað sem örugglega mætti betur fara en yfir það heila er upplifun mín af hönnun og öðru jákvæð.

 

Heiti potturinn

Hverju ert þú að sækjast eftir þegar þú ferð í heita pottinn? Er upplifunin breytileg eftir árstíðum, tíma sólarhringsins eða öðrum utanaðkomandi aðstæðum?

 

Afslöppun fyrst og fremst og oft líka að mýkja auma vöðva eftir að hafa verið í einhverri hreyfingu kvöldið eða daginn áður. 

 

Hverjir eru það sem sækja heita pottinn? Er munur á aðsókn eftir kyni eða aldri?

 

Held að allir sem sækja sundlaugarnar fari í heita pottinn, sama eftir aldri og kyni, allir!

 

Hvaða samræður fara fram í heita pottinum og hverjir taka þátt í þeim? Er eitthvað umræðuefni frekar rætt en annað? En sem þykir síður við hæfi að ræða?

 

Öðruvísi andrúmsloft á morgnana, yfirleitt eldra fólk og þá oft fólk sem er orðið málkunnugt.  Þá er greinilega rætt það sem er efst á baugi í hvert skipti í stjórnmálum og íþróttum.  Veðrið er svo alltaf með.

 

Hafa aðstæður og umhverfið í heita pottinum áhrif á samræðurnar á einhvern hátt? Finnast þér samræður svipaðar í heita pottinum og annars staðar þar sem fólk kemur saman?

 

Mér finnst mjög afslappaðar umræður í pottinum og mjög sjaldan sem ég verð vitni af rifrildi eða karpi á milli sundlaugagesta.  Held að heiti potturinn sé mjög einstakur þegar kemur að umræðum þar sem ókunnugir hefja samræður upp úr þurru.  Gerist held ég ekki þannig á mörgum öðrum stöðum.

 

Hvernig veljast menn saman í potta (tilviljun, kunningsskapur, menntun)?

 

Finnst allavega í Laugardalslaug að yngra fólk fari frekar í stóra steinapottinn en eldra fólk í hina fjóra pottana og sjópottinn. Get engan veginn séð að menntun komi þar við sögu.

 

Sundgesturinn

Hvaða búnað tekur þú með þér á sundstað og í hvaða tilgangi?

 

Sundskýlu(sem eru reyndar stuttbuxur), handklæði og snyrtitösku.  Stundum rakvél og raksápu.

 

Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?

 

Ekki sem ég hef tekið eftir

 

Tekur þú eftir mismunandi sundtísku eða tískusveiflum, t.d. eftir aldri sundgesta, sundstöðum eða tímabilum? Hvernig lýsir þetta sér?

 

Er ekki mjög „tískulæs“ maður.  Sé þó að eldri karlmenn eru frekar í svokölluðum „Speedo“ sundskýlum en þeir yngri frekar í stuttbuxnasundskýlum.  Tók hinsvegar eftir því í einu hádegi síðasta sumar(2012) að þá voru óvenju margir karlmenn á miðjum aldri í þessum „Speedo“ sundskýlum.  Rak svo augun í síðar sama dag að þá stóðu yfir Heimsleikar samkynhneigðra í sundi!

 

Sundminningar og sögur úr sundi

Er einhver saga eða minningar úr sundi sem þú myndir vilja segja frá í lokin?

 

Hitti núverandi unnustu mína fyrst í sundi, í heita pottinum.  Hef aldrei litið á sundlaugarnar sem góðan stað til að hitta maka en það getur þó bara vel verið!


Kafli 1 af 9 - Persónuupplýsingar

Nafn, fæðingarár, sveitarfélag, starf, menntun/í hvaða námi, kyn, þjóðerni. Við hvaða staði og tímabil eru svörin miðuð? Þeir sem það kjósa geta svarað nafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð.

Kafli 2 af 9 - Almennar upplýsingar um sundlauganotkun þína

Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).
Hvers vegna ferð þú í sund? Eftir hverju ert þú að sækjast?
Hvað ferð þú oft í sund að jafnaði? Hefur það verið breytilegt í gegnum tíðina? Hvaða laugar hefur þú mest sótt og hvers vegna?
Er eða hefur verið regla á því á hvaða tíma dagsins þú ferð í sund? Hvers vegna? Ferð þú að jafnaði ein(n) í sund eða með öðrum?

Kafli 3 af 9 - Sundkennsla

Á hvaða aldri byrjaðir þú að læra sund? Í hve mörg ár lærðir þú?
Var sundkennsla hluti af skólagöngu þinni eða fór hún fram utan skóla? Hvar var kennt og hve stóran hluta ársins?
Hvernig var sundkennslu háttað? Var kennt eftir aldurshópum eða kyni? Hvað finnst þér um sundkennsluna og hverjar voru áherslurnar?

Kafli 4 af 9 - Samskipti og hegðun

Hvaða óskráðar reglur eða viðmið gilda um samskipti og hegðun sundgesta? Getur þú nefnt dæmi um að brotið sé gegn þessum óskráðu reglum?
Hvaða munur er á þessum óskráðu reglum eftir svæðum (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.)?
Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?
Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?

Kafli 5 af 9 - Líkami og hreinlæti

Hafa ferðir í sundlaugina áhrif á það hvernig þú hugsar um líkamann? Hvernig þá?
Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?
Hvað finnst þér um hreinlæti á sundstað?

Kafli 6 af 9 - Í sundlauginni

Hvað kannt þú best að meta við sundferðina? En síst?
Hefur þú komið þér upp föstum venjum í sambandi við heimsóknir þínar á sundstað? Hvaða venjum? Hvers vegna?
Hvernig líður þér þegar þú ert búin(n) í sundi (líkamlega, andlega)?
Með hvaða hætti hafa sjón, lykt, hljóð, bragð og snerting áhrif á líðan þína í sundi?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður og hvernig þú hegðar þér á ólíkum svæðum eða í ólíkum tegundum lauga (t.d. í innilaug, útilaug eða heitri laug)? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir árstíðum, veðri eða tíma dags? Hvernig þá?
Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir því hve margir eða fáir eru í lauginni á sama tíma og þú? Hvernig þá?
Hvað í hönnun og umhverfi þeirrar sundlaugar sem þú sækir mest ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með?

Kafli 7 af 9 - Heiti potturinn

Hverju ert þú að sækjast eftir þegar þú ferð í heita pottinn? Er upplifunin breytileg eftir árstíðum, tíma sólarhringsins eða öðrum utanaðkomandi aðstæðum?
Hverjir eru það sem sækja heita pottinn? Er munur á aðsókn eftir kyni eða aldri?
Hvaða samræður fara fram í heita pottinum og hverjir taka þátt í þeim? Er eitthvað umræðuefni frekar rætt en annað? En sem þykir síður við hæfi að ræða?
Hafa aðstæður og umhverfið í heita pottinum áhrif á samræðurnar á einhvern hátt? Finnast þér samræður svipaðar í heita pottinum og annars staðar þar sem fólk kemur saman?
Hvernig veljast menn saman í potta (tilviljun, kunningsskapur, menntun)?

Kafli 8 af 9 - Sundgesturinn

Hvaða búnað tekur þú með þér á sundstað og í hvaða tilgangi?
Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?
Tekur þú eftir mismunandi sundtísku eða tískusveiflum, t.d. eftir aldri sundgesta, sundstöðum eða tímabilum? Hvernig lýsir þetta sér?

Kafli 9 af 9 - Sundminningar og sögur úr sundi

Er einhver saga eða minningar úr sundi sem þú myndir vilja segja frá í lokin?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana