LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFerming
Ártal1968-2013
Spurningaskrá106 Fermingar og ungmennavígslur

ByggðaheitiKeflavík, Vatnsleysuströnd
Sveitarfélag 1950Keflavík, Vatnsleysustrandarhreppur
Núv. sveitarfélagReykjanesbær, Sveitarfélagið Vogar
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1954

Nánari upplýsingar

Númer2011-2-154
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið27.12.2011/12.2.2020
Stærð4 A4
TækniHandskrift

Óinnslegið.


Kafli 1 af 7 - Undirbúningur

Hvers vegna gekkst þú undir fermingu/ungmennavígslu? Var það þín ákvörðun, vilji foreldra þinna, hefð eða hugsanlega eitthvað annað?

Ég lét ferma mig vegna þess að ég vildi það. Einnig var það vilji foreldra, og svo líka rík hefð í þá daga að láta ferma sig. Ég fermdist í Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströnd.


Hvort var þín ferming/ungmennavígsla kirkjuleg eða borgaraleg?

Ég er í þjóðkirkjunni.


Hvaða trúfélagi eða söfnuði/hópi tilheyrir þú?

Ég er í þjóðkirkjunni.


Hvað varstu gamall/gömul/gamalt þegar þú varst fermd/-ur/-t eða tókst ungmennavígslu?

Ég var á 14 ári.


Á hvaða tíma árs fór fermingin/ungmennavígslan fram? Hvað réði valinu á þessari tímasetningu?

Ferming var oftast um hvítasunnu á Kálfatjörn, og eins var hjá mér, ég fermdist 12 mai á Hvítasunnudegi.


Hvernig var undirbúningi fyrir fermingu/ungmennavígslu þína háttað? Hver annaðist t.d. fræðslu eða námskeið og hvar og hvenær var það haldið? Þurfti að skrá sig á það? Var hægt að velja um mismunandi leiðir í fræðslunni?

Fermingarundirbúningur stóð frá hausti til vora þegar ferming fór fram. Sóknarpresturinn séra Bragi Friðriksson sá um fræðsluna sem fór fram í skólatíma samhliða öðru námi. Kennt var kristinfræði, utanbókarlærdómur á völdum sálmum og svo trúarjátningu og einstaka ritningargrein. Það var ekki val um mismunandi leiðir í fræðslunni.


Hvaða námsefni eða námsgögn voru notuð?

Mig minnir að það hafi verið einhver kristinfræðibók og sálmabók.


Hvað þurfti að kunna utanbókar (sálma, ritningargreinar t.d.)? Var próf/ könnun, skrifleg eða munnleg? Er þér kunnugt um að einhverjir hafi þurft að endurtaka prófið?

Eins og fyrr sagði þó lærum við eitthverja sálma utanbókar, eins valdi hver um sig eina ritningargrein sem hver og einn lærði og fór með við ferminguna. Það voru engin próf, svo ég muni.


Var ætlast til þess að þú mættir í messur eða á trúarsamkomur meðan á undirbúningi fermingar/ungmennavígslu stóð? Hvernig var fylgst með mætingunni?

Ekki var nein skyldumæting í guðsþjónustu svo ég muni eftir.


Tók fjölskylda þín þátt í undirbúningnum? Á hvaða hátt, ef svo var?

Fjölskyldan tók ekki þátt í undirbúningi fermingar.


Var æft fyrir fermingarathöfnina/ungmennavígsluna? Hvar og hvernig fór æfingin fram? Hverjir voru viðstaddir?

 Mig minnir að ein æfing hafi farið fram í kirkjunni með presti.Kafli 2 af 7 - Fatnaður, útlit

Fékkst þú ný föt fyrir ferminguna/ungmennavígsluna? Hvernig föt? Voru þau valin samkvæmt ákveðinni hefð, eftir nýjustu tísku eða einhverju öðru? Hvað hafðir þú mikið að segja varðandi val á þessum fötum?

Ég fékk ný föt fyrir ferminguna. Það voru dökk jakkaföt, oftar voru strákar í dökkum jakkafötum, hvítri skyrtu og með svarta þverslaufu. Eflaust hef ég eitthvað haft um fatavalið að segja.


Gerðir þú einhverjar breytingar á útliti þínu fyrir ferminguna/ungmennavígsluna (brúnkumeðferð, hárgreiðsla, klipping, líkamsrækt t.d.)?

Fór í klippingu.


Hvaða máli skipti það fyrir þig að fá ný föt í tilefni af fermingunni/ungmennavígslunni?

Ég held að það hafi þótt nauðsynlegt að fá ný föt.


Varst þú í kyrtli eða hliðstæðum klæðnaði við athöfnina? Hvað fannst þér um það? Var einhver sem ekki var í þannig klæðum?

Ég var í kyrtli ásamt öllum öðrum sem fermdust það skiptið, sú hefð að nota kyrtla er jákvæð að mörgu leiti t.d. ef einhver skar sig úr vegna klæðaburðar og eins er það hátíðlegra.


Hversu algengt var að ungmennin væru með sálmabók við athöfnina og stúlkur með hanska?

Öll fermingarbörnin voru með sálmabók, strákar með svarta, stelpur með hvíta og þær voru með hvíta hanska.Kafli 3 af 7 - Athöfnin

Getur þú sagt frá sjálfri fermingarathöfninni/ungmennavígslunni, hvar og hvernig hún fór fram?

Ég fermdist 12.mai 1968. Í Kálfatjarnarkirkju í Vatnsleysustrandarhreppi og það var Hvítasunnudagur. Það var hefð fyrir því að ferma á Hvítasunnudag í Kálfatjarnarsókn. T.d var faðir minn fermdur í sömu kirkju á Hvítasunnudegi 1933. Mig minnir að fermingarbörnin hafi verið 12. Það var mætt þó nokkuð fyrir athöfn að Kálfatjörn þar sem við fórum í kyrtlana og vorum löguð til, en það fór fram í íbúðarhúsinu á Kálfatjörn. Það var ekkert pláss í kirkjunni til slíks. Fólkið sem bjó á Kálfatjörn lagði heimili sitt til fyrir þessar athafnir og fór þetta fram í stofunni hjá þeim, þetta var líka skrúðshús prestsins. Þegar þessu var lokið var gengið í einfaldri röð með prest í fararbroddi til kirkju. Í upphafi athafnar sátum við á stólum sem staðsettir voru á milli kirkjugólfs og altaris, þegar sjálf fermingin hófst fórum við öll upp að grátinum í einu og krupum þar. Hvort okkar hafði valið sér ritningargreinar og lært í undirbúningnum og við ferminguna, fór hver og einn með sína ritningargrein. Það var venja á Kálfatjörn að þegar presturinn las upp nafn fermingarbarns þá stóðu nánustu ættingjar upp úr sætum sínum. Eftir ferminguna var gengið til altaris. Prestur var séra Bragi Friðriksson.


Hverjir úr þinni fjölskyldu eða vinahópi komu á athöfnina? Voru einhverjar leiðbeiningar um hverjir máttu vera viðstaddir og ef svo er hvaða?

Foreldrar mínir og systkini, amma voru viðstödd ferminguna.


Voru teknar ljósmyndir/vídeómyndir meðan á athöfninni stóð eða á eftir henni? Hverjir tóku þessar myndir? Fórst þú til ljósmyndara í tengslum við ferminguna/ungmennavígsluna?

 Það voru ekki teknar myndir svo ég muni. Ég fór ekki til ljósmyndara.


Voru einhverjir í þinni fjölskyldu eða skóla sem ekki létu ferma sig eða tóku ekki ungmennavígslu? Af hverju, ef svo er?

Ég man ekki eftir neinum sem lét ekki ferma sig.


Hvaða breytingar hafa orðið á athöfninni frá því á þínum tíma, t.d. miðað við þín eigin börn?

Aðalmunurinn á fermingunni nú og þegar ég fermdist er fólgin í undirbúningnum sem er allt öðruvísi í dag heldur en áður. Í dag eru börn skikkuð til að mæta í guðsþjónustu á undirbúningstímanum, eins er um tímasetningu ferminga, fólk hefur val. Foreldrar taka meiri þátt í undirbúning fermingar en áður var.Kafli 4 af 7 - Veisla

Var haldin veisla? Getur þú sagt frá henni? Hvaða veitingar voru t.d. á boðstólum, voru einhver skemmtiatriði, tónlist eða ræður? Hvert var þitt hlutverk?

Það var haldin veisla í sal og veitingar voru aðkeyptar. Veislan var á víkinni í Keflavík og það var kvöldmatur. Það voru engin skemmtiatriði eða þess háttar. Mitt hlutverk var að taka á móti gestunum.


Hvernig var staðið að undirbúningi á veislunni? Hvert var þitt hlutverk?

Ég kom ekkert að undirbúningi veislunnar það var alfarið ákvörðun foreldrana.


Hverjum var boðið í veisluna? Hvernig var staðið að vali á boðsgestum? Var prestinum eða þeim sem framkvæmdi athöfnina boðið? Hverjir mættu ekki af þeim sem boðið var í veisluna?

Mig minnir að það hafi verið ca 60-70 manns í veislunni minni. Það voru afar og ömmur einnig systkini foreldra minna ásamt mökum og restin vinafólk. Prestinum var ekki boðið. Ég man ekki eftir forföllum gesta.


Þekktist að ekki væri haldin veisla? Í hvaða tilvikum helst?

Ég heyrði ekki um tilvik þar sem veisla var ekki haldin.Kafli 5 af 7 - Gjafir

Hvaða gjafir fékkst þú í tilefni af fermingunni/ungmennavígslunni?

 Það var venja hjá okkur, að foreldrarnir gáfu armbandsúr, einnig fékk ég svefnpoka, einhver ósköp af ermahnöppum og bindisnælum, klukku og þó nokkuð af peningum, eflaust hefur það verið eitthvað meira sem ég hef gleymt.


Þekktir þú stórgjafir? Hvað telst vera stórgjöf og hversu algengar voru þær að þínu mati?

Ekki þekkti ég til stórgjafa.


Voru gefnar sérstakar tegundir af gjöfum? Hvers konar gjafir, ef svo er? Hvað voru vinsælustu gjafirnar, og skipti máli af hvaða kyni ungmennið var?

Ég held að gjafir hafi verið smærri í sniðum þegar ég fermdist heldur en síðar varð. Eins og fyrr sagði þá var vinsælt að gefa strákum ermahnappa og bindisnælu í setti. Stelpur fengu mikið undirkjóla eða náttkjóla.


Hvaða máli finnst þér að gjafirnar hafi skipt? Voru þær t.d. ómissandi, mikilvægar eða kannski alls ekki?

Auðvitað skiptu gjafir krakkana miklu máli þá eins og nú og voru mikilvægur hluti af öllu tilstandinu.


Fannst þér að það hafi verið einhver metingur eða samanburður um hver fengi mestar gjafir? Geturðu sagt frá þessu, ef svo er?

Það var metingur á milli krakkana hver fékk mest og þessháttar og menn voru að bera sig saman, helst fannst mér það skipti máli hvað hver fékk mikla peninga.


Fékkst þú heillaóskaskeyti eða kort? Vissir þú til þess að aðrir fengju þau? Var það algengt/sjaldgæft?

Ég fékk þó nokkur heillaóskaskeyti, einnig mörg kort og var það almennt þá að fermingarbörn fengju slíkt, margir sendu fermingarbörnum kort með kveðju þó að þau þekktu ekki mikið. Ekki veit ég hvort þessi siður með fermingarkort er gamall, en ég á kort sem faðir minn fékk á sínum fermingardegi 1933.Kafli 6 af 7 - Viðhorf

Hvaða þýðingu hafði fermingin/ungmennavígslan fyrir þig? Hvert fannst þér t.d. vera inntak hennar og tilgangur? Hvort var hún þér fremur trúarleg eða veraldleg upplifun?

Almennt held ég að 14 ára unglingur hugsi ekki mjög djúpt um tilgang eða þýðingu þess að fermast. Heldur frekar að þetta var venja sem allir gengu undir. Þó ferming sé trúarleg athöfn þá held ég að hún hafi miklu frekar verið veraldleg upplifun fyrir mig.


Hvernig líkaði þér við prestinn eða þann sem að sá um athöfnina? Hafði hann mikil/lítil áhrif á lífsviðhorf þitt, bæði þá og seinna á ævinni?

Mér líkaði vel við prestinn sem fermdi mig, hann kenndi okkur einnig í barnaskóla og svo seinna á ævinni þá skírði hann eitt barna minna. Ég er ekki viss um að hann hafi haft nokkur áhrif á lífsviðhorf mitt þá né seinna. Ég held að það séu aðrir þættir sem móta slíkt, heldur en fermingarfræðsla og ferming unglings.


Hvað fannst þér um þína eigin fermingu/ungmennavígslu? Var hún þér minnisstæð? Hvað var ánægjulegast við hana? Var eitthvað sem var síður skemmtilegt? Hvað, ef svo er?

Í minningunni þá skipti fermingin sára litlu máli í mínu lífi. Þetta var frekar atburður sem allir tóku þátt í heldur en eitthvað sem var mjög sérstakt.


Varst þú litin/-nn/-ð öðrum augum eftir ferminguna/ungmennavígsluna? Hvernig lýsti það sér, ef svo var?

Ég held að ég hafi ekki verið litinn öðrum augum eftir ferminguna.


Hvaða aðrar breytingar urðu á lífi þínu eftir ferminguna/ungmennavígsluna? Fannst þér t.d. að þú stæðir á tímamótum?

Engar breytingar.Kafli 7 af 7 - Fermingarbarnamót

Hefur þú tekið þátt í fermingarbarnamóti? Hvenær fóru þau að tíðkast? Hvað er gert og af hvaða tilefni eru slík mót haldin?

Hef aldrei tekið þátt í fermingarbarnamóti. Slíkt hefur aldrei verið í okkar hópi. Aftur á móti hafa slíkar samkomur verið haldnar í þéttbýlinu t.d. hjá konu minni og man ég fyrst eftir því fyrir ca 30-35 árum þegar 10 ár voru frá fermingu. Þá hittist fermingarárgangurinn upp í kirkju, einnig presturinn, þar sem spjallað var og rifjað upp. Síðar var farið á veitingahús þar sem borðað var og skemmt sér. Þessi mót hafa verið haldin á 10 ára fresti.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana