LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar

Fiskvinna

ÞMS
Spurningaskrá 2006-1
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Skrá 107. Fiskvinna

Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að safna upplýsingum um fiskvinnu á síðari hluta 20. aldar, og er hún skilgreind í víðustu merkingu þess orðs, þ. e. vinnsla á bolfiski, humar, rækju, skel og fleiri tegundum. Spurt er um ráðningu, kaup og kjör, vinnutíma, starfshlutfall, verklag, verkunaraðferðir, vélvæðingu, vinnufatnað, hreinlæti, hollustuhætti, matarvenjur, tóbaksneyslu, samskipti á vinnustað, nýliða, kynjahlutverk, afstöðu til vinnunnar, erlent vinnuafl, íslenska farandverkamenn, heilsufar, slys, samskipti utan vinnutíma og dularfull fyrirbæri.
Október 2006. 62 svör tölvusett. Einnig voru tekin 16 viðtöl og eru þau öll aðgengileg sem textar og hljóðskrár.

Skrá 107. Fiskvinna

Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að safna upplýsingum um fiskvinnu á síðari hluta 20. aldar.

Tekið skal fram að hér er fiskvinna skilgreind í víðustu merkingu þess orðs, þ. e. vinnsla á bolfiski,

humar, rækju, skel og fleiri tegundum.

Þú ert beðin(n) um að segja frá þinni eigin reynslu en ekki er nauðsynlegt að svara spurningunum í

réttri röð og má því frásögnin vera í samfelldu máli. Allar upplýsingar eru mikils virði jafnvel þótt svör

fáist ekki við hverju atriði.

1. Ráðning

Hvenær og hvers vegna hófst þú vinnu í fiski? Leistu á að um tímabundið starf væri

að ræða?

Hvernig fór ráðningin fram? Var krafist einhverrar verkkunnáttu eða tekið fram hvaða

starfi þú áttir að gegna?

Hvernig fóru uppsagnir fram og með hve miklum fyrirvara?

2. Kaup og kjör

Hvernig þóttu kjörin í vinnunni? Hvernig gekk að framfleyta sér af þessum launum?

Tíðkuðust almennar yfirgreiðslur umfram taxta eða voru þær einstaklingsbundnar?

Hvað geturðu sagt um staðbundna munnlega vinnustaðasamninga?

Hvenær var farið að vinna í bónus? Hvernig var hann skipulagður og hvaða áhrif

hafði hann á vinnuna? Var hugsanlega um kynjamun að ræða í þessu sambandi?

Hve mikið umfram taxta gátu menn fengið með bónus?

Var dregið af launum ef fólk mætti of seint til vinnu? Hvers konar fyrirkomulag var á

því?

Fengu konur og karlar sömu laun fyrir sömu störf? Var um launamun að ræða án

tillits til kynferðis eftir eðli starfsins eða starfsaldri? Hafði launamunur einhver áhrif á

samskipti fólks á vinnustað?

Kom fyrir að þú eða aðrir þyrftu að leita til trúnaðarmanns og hvers vegna?

3. Vinnutími

Klukkan hvað byrjaði vinnudagurinn og hvenær lauk honum? Hve mikið var um

yfirvinnu?

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir? Voru gerð önnur hlé á vinnunni yfir

daginn? Hvað fannst yfirmönnum um þau?

Hve hátt var starfshlutfall þitt? Hvaða kosti eða ókosti hafði það í för með sér ef um

hlutastarf var að ræða? Var vinnan hugsanlega árstíðabundin hjá þér?

4. Vinna og verklag

Segðu í aðalatriðum frá þeirri starfsemi sem fram fór á vinnustaðnum. Úr hvaða

hráefnum var unnið og um hvaða verkunaraðferðir var að ræða? Skýrðu einnig frá

tímabundnum breytingum á vinnslunni, t.d. árstíðabundnum.

Lýstu þeim störfum sem voru í þínum verkahring, einnig utanhúss ef um það var að

ræða. Hvaða verkfærum vannst þú einkum með?

Hvar var vélvæðing á vegi stödd þegar þú varst að byrja? Hvaða breytingar hafði hún

í för með sér? Hvaða vélar eða tæki vannst þú við og hvernig var að vinna við þær?

Hver ákvað hvaða störf hver og einn vann? Gátu menn neitað að vinna þau störf sem

þeim var uppálagt?

Var fylgst náið með starfsfólkinu meðan á vinnu stóð? Hver gerði það og hvernig var

það liðið?

5. Vinnuföt

Lýstu vinnufatnaði, hlífðarfötum, fóta- og höfuðbúnaði. Útvegaði atvinnurekandi

vinnufatnað og hvenær fór það að tíðkast?

Voru skápar eða herbergi þar sem starfsfólk gat geymt vinnuföt sín og haft fataskipti?

Hvenær kom slík aðstaða fyrst til sögu?

6. Hreinlæti og hollustuhættir

Hvernig var hreinlætisaðstöðu háttað? Var t.d. sameiginlegt salerni fyrir bæði kynin?

Hvenær kom þessi hreinlætisaðstaða?

Hve oft var þrifið og hvernig var umgengnin meðal starfsfólksins?

Hver annaðist eftirlit með hreinlæti eða hollustuháttum og hvenær kom það til sögu?

Hvernig var háttað með loftræstingu og varnir gegn hávaða?

7. Matur og tóbak

Hvað hafði fólk með sér í nesti og hvernig var það borðað? Hve algengt var að fara

heim til að matast?

Borðaði allt starfsfólkið saman? Hverjir sátu saman? Um hvað var helst talað í matar-
og kaffitímum? Hvað var gert annað en að borða?

Hvenær kom fyrst mat- eða kaffistofa og hvaða tæki voru þar til afnota? En

mötuneyti?

Hversu algeng var tóbaksneysla og hvernig tóbak var aðallega notað? Hvaða munur

var á tóbaksneyslu kvenna og karla? Tóku menn sérstök reykinga- eða

neftóbakshlé?

8. Starfsfólk og samskipti á vinnustað

Hversu margt starfsfólk var á vinnustaðnum? Voru bæði konur og karlar og í hvaða

hlutföllum?

Hver var þinn yfirmaður og hvaða störf vann hann? Hvernig var samskiptum háttað

milli hans og undirmanna?

Var hægt að tala saman meðan á vinnu stóð og við hvaða tækifæri? Hvernig voru

samræður starfsfólks litnar af yfirmönnum og vinnufélögum?

Hvernig lærðu nýliðar á starfið? Þekktist stríðni gagnvart þeim eða öðru starfsfólki?

Í hvaða mæli var hlustað á útvarp við vinnuna?

9. Viðhorf og kynjahlutverk

Hvernig fannst þér að fiskvinna væri metin? Skipti máli í þessu sambandi úr hvaða

hráefni var unnið?

Voru sum störf álitin skemmtilegri eða leiðinlegri en önnur? Breyttist afstaða fólks til

vinnunnar, veitti hún t.d. meiri lífsfyllingu áður fyrr?

Voru viss störf ætluð körlum en önnur konum eða unglingum og eldra fólki? Hvaða

störf og hvers vegna?

Hvaða breytingar hafa orðið á hlutverkum kynjanna á vinnustaðnum? Fengu karlar

t.d. lengri kaffitíma en konur og undir hvaða kringumstæðum?

10. Erlent vinnuafl

Hvenær manst þú fyrst eftir útlendingum á þínum vinnustað og hvaðan voru þeir?

Voru þetta bæði konur og karlar og í hvaða hlutföllum?

Unnu útlendingar sömu störf og Íslendingar eða var einhver munur þar á? Fengu

erlendir starfsmenn sérstaka þjálfun umfram innlenda?

Hvernig voru samskipti við útlendinga? Í hvers konar húsnæði bjuggu þeir?

11. Íslenskir farandverkamenn

Hversu algengir voru farandverkamenn á þínum vinnustað? Hvert var hlutfall karla og

kvenna? Voru þetta einhleypingar eða fjölskyldufólk?

Hvernig var háttað samskiptum við farandverkafólk? Í hvers konar húsnæði bjó það?

12. Heilsufar og slys

Hvaða áhrif hafði vinnan á heilsufarið (t.d. bakverkur, höfuðverkur, exem, sálrænt

álag)? Hvað með hávaða?

Var um einhver störf að ræða sem þóttu hættulegri en önnur? Var hættulegt að vinna

við vélar? Hversu algeng og alvarleg voru slys?

Var eitthvert eftirlit með vélum eða tækjum og hvenær kom það til sögu? Þekktir þú til

reglna sem giltu í þessu sambandi?

13. Samskipti utan vinnutíma

Hvaða tengsl voru milli vinnufélaga utan vinnutíma? Var t.d. haldið upp á afmæli eða

þegar fólk hætti störfum? Hvað með árshátíðir og starfsmannaferðir?

14. Dularfull fyrirbæri

Manstu eftir einhverjum dularfullum atvikum í vinnunni (óvæntar bilanir, draugar,

búálfar t.d.)? Var spáð fyrir fólki, t.d. í matar- eða kaffitímum? Hvað með drauma?

/