LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar

Aukaspurning um gælunöfn

ÞMS
Spurningaskrá 2000-4
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Skrá 100a. Gælunöfn

Beðið er um sögur af uppruna og notkun gælunafna. Spurt um hver hafi fundið upp gælunafn heimildarmanns, hverjir kalli hann því og hvernig þetta hafi breyst á æviskeiðinu. 
Nóvember 2000. 122 svör. Tölvusett.

Gælunöfn

Það er algengt hér á landi sem annarsstaðar að menn séu kallaðir gælunafni eða stuttnefni.
Sum þeirra eru augljóslega dregin af skírnarnafni, til dæmis Gunni eða Pési.
Í öðrum tilvikum eru tengslin óljósari þó að þau séu fyrir hendi. Þetta á til dæmis við um hin hefðbundnu gælunöfn Magnús/Mangi eða Margrét/Manga.
Sum gælunöfn eru dregin af öðrum stofni en skírnarnafns svo sem Lilla og Lilli sem tengjast lýsingarorðinu lítill. Þá virðist gælunafnaval stundum vera tilviljunarkennt, til dæmis er sagt að konu megi kalla Stellu alveg óháð því hvað hún heitir.
Mörg gælunöfn verða til í bernsku eða æsku manna. Sum eru rakin til framburðartilrauna nafnbera eða annarra barna. Það gæti átt við þegar Sumarliði er kallaður Lummaliði. Slík gælunöfn eldast af mörgum en öðrum fylgja þau alla ævi. Sum gælunöfn eru aðeins notuð í fjölskyldu, meðal náinna vina eða elskenda, með sérstakri hlýju eða í spaugi, en önnur verða almenn heiti í hópi vinnufélaga og kunningja. Þá getur sami einstaklingur gengið undir fleiri en einu gælunafni. Vinirnir gætu til dæmis kallað Steinunni Steinu á meðan að ættingjarnir (e.t.v. einkum eldri kynslóðin) kalla hana Steinku sem kann að þykja meira gamaldags.
Hér er spurt um gælunöfn og sögur af uppruna þeirra og notkun.
Er nafnið þitt stytt? Veist þú af hverju? Hver hefur fundið upp gælunafnið eða er talinn hafa verið fyrstur til að nota það um þig og hvernig hefur það síðan dreifst?
Þekkir þú fleiri sem stytta nafn sitt á sama hátt og þú? Hverjir kalla þig gælunafninu (en hverjir gera það aldrei) og hvernig hefur þetta breyst á æviskeiðinu?
Svipaðra spurninga má einnig spyrja um nafnastyttingar annarra fjölskyldumeðlima og vina. Manst þú eftir einhverjum skemmtilegum gælunöfnum sem þú hefur rekist á?
Kannt þú einhverjar sögur af gælunöfnum eða uppruna þeirra, vísur eða kvæði þar sem gælunöfn koma við sögu.