LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


Fylgiskjöl

EfnisatriðiDaglegt líf, Híbýli, Húsbúnaður, Húsnæði
Ártal1918-1995
Spurningaskrá117 Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf

StaðurBreiðavað, Drápuhlíð, Uppsalir
ByggðaheitiEiðaþinghá
Sveitarfélag 1950Eiðahreppur, Helgafellssveit
Núv. sveitarfélagFljótsdalshérað, Helgafellssveit
SýslaS-Múlasýsla, Snæfells- og Hnappadalssýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1918

Nánari upplýsingar

Númer2012-3-103
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið28.8.2013/20.8.2013
Stærð29 A4
TækniTölvuskrift

Skrá 117 – Híbýli, húsbúnaður og hversdagslegt líf     Undirskrifuð tók viðtal við þátttakanda með eftirfarandi hætti. Fyrst var þátttakanda gerð grein fyrir rannsókninni og skilyrðum. Síðan hafði þátttakandi spurningaskrá til hliðsjónar meðan rætt var við hann um viðfangsefnið, en einnig voru fleiri aðstandendur viðstaddir.  Viðtalið var tekið upp á lítið tæki með loforði um að upptökunni yrði eytt um leið og búið væri að skrá textann rafrænt. Undirskrifuð hefur tölvusett textann og leyft þátttakanda að lesa yfir ásamt fleiri aðstandendum til samþykktar. Upptökunni hefur verið eytt.     Eftirfarandi upplýsingar eru í frásagnarformi, flestum spurningum úr skránni svarað, þó ekki endilega í röð og misítarlega. Teikning af híbýli þátttakenda var gerð fyrir nokkrum árum eftir minni og skv. lýsingu þátttakenda. Teiknari var Hannes Lárusson, búsettur á höfuðborgarsvæðinu.     Þátttakandi:   KK. –  Jóhann Magnússon 95 ára, fæddur 8.apríl 1918 á Ytri-Drápuhlíð í Helgafellssveit   Á hrakholum fyrir vestan   Ég man ekki nákvæmlega í hve mörg ár við bjuggum þarna með foreldrum mínum. En þetta var harðindaárið 1918 og við bjuggum þarna í a.m.k. 2-3 ár. Við vorum eiginlega á hrakholum um alla sveit því þá fengust engar jarðir. Það vildu allir búa, en menn fengu ekki einu sinni jarðir til að búa á. Þá ákváðu foreldrar mínir að selja allar skepnur sínar og fara frá Ytri-Drápuhlíð að Kljá 1923. Þaðan fóru þau í skip í Stykkishólmi og stefndu austur á land. Ég man eftir því að við fórum á hestunum okkar. Það var rauður hestur og grá hryssa með folald sem við riðum á niður að bryggju í Stykkishólmi. Pabbi ætlaði með mig út í skipið en ég neitaði og stóð bara og öskraði því að ég vildi fá folaldið með. Systur mínar tvær sem voru með í ferðinni, Matthildur og Ingveldur, fóru út í skipið og þá gekk til mín strákur sem spurði: „Hví ert þú að skæla, frændi?“ Og ég sagði sem var að ég vildi fara með folaldið mitt, en það var búið að selja það.       Ferð austur   Þegar við komum í skipið réð pabbi eiginlega ekkert við mig, því að ég var uppi á daginn en þær mæðgur voru allar sjóveikar. Þannig að ég var bara uppi og pabbi á eftir mér. Uppi voru karlar að selja ýmsar vörur: skyr, egg og allt mögulegt. Ég bað pabba um að kaupa þetta og gefa okkur að borða. Ég hafði aldrei séð egg áður, því við höfðum verið svo fátæk að við höfðum aldrei átt hænu. Það var mjög mikil fátækt í þá daga. Við fórum norðurleiðina og vorum 4-5 daga, enda fórum við inn í allar helstu hafnir á leiðinni. Ég man vel eftir því þegar við komum í höfn á Reyðarfirði, um kl.6 að morgni. Við gengum upp að hótelinu og fengum okkur að borða. Þá var þar vinnumaður Ásmundar frá Eiðum sem hafði verið sendur með fjóra hesta til að sækja okkur. Sá maður hét Karl Jónsson frá Urriðavatni, kallaður Kalli snikkari og hafði lært smíði í Danmörku. Ég fór strax til hestanna og spurði hvað þeir hétu og var að stússast í kringum þá. Ég var svo hrifinn af hestum að ég man enn hvað þeir hétu: Kisi, Asninn, Sandhólaferja, Brúnn. Þegar allir voru búnir að borða og fengu eitthvert nesti með, þá lögðum við af stað upp í Hérað. Við vorum meiripartinn af deginum og komum í Eiða um kaffileytið. Þá var fólk úti á túni að raka í hrauka og taka hrúgurnar (haugana sem búið var að bera á) í poka og við komum þarna heim að skóla. Ég man þegar við fórum yfir Eyvindarábrú þá heyrði ég skrítið hljóð og ég spurði hvaða hljóð þetta væri. Þá var þetta hljóðið sem heyrðist þegar hestarnir stigu á tréfjalirnar í brúnni.   Í vist hjá skólastjóranum á Eiðum   Svo fengum við að borða þarna á Eiðum og pabbi og skólastjórinn þar, Ásmundur, ræddu saman í smá stund um hagi mína. Það var ákveðið að skilja mig eftir hjá þeim Ásmundi og Steinunni og ég var þar í um fimm ár, þar til ég var 10 ára gamall. Þá var Ásmundur búinn að útvega foreldrum mínum jörðina Uppsali og ég gat flutt aftur heim til þeirra. Elsti sonur konunnar á Uppsölum var á Eiðum og hafði umboð til að selja jörðina. Mamma hans hætti búskap 1923 eftir lát mannsins síns, bóndans á Uppsölum, því að hún átti svo mikið af börnum að hún varð að koma þeim fyrir á ýmsum bæjum. Hún treysti sér ekki lengur til að búa, því að jörðin var pínulítil, þar var fullt af þúfum og svoleiðis veseni. Á meðan ég var hjá Ásmundi voru foreldrar mínir í kaupamennsku á Eyjólfsstöðum. Foreldrar mínir áttu tvo aðra drengi meðan við bjuggum fyrir vestan, en höfðu misst þá, þannig að við vorum bara þrjú systkini sem fylgdum þeim austur og systur mínar bjuggu með foreldrum mínum en ég á Eiðum. Svo fæddist strákur, hann Ásmundur, meðan foreldrar mínir voru í vinnu á Eyjólfsstöðum og hann  er enn á lífi, níræður.   Húsakostur að Uppsölum   (Frá vinstri aftast: Jóhann Magnússon, Ingveldur Magnúsdóttir, Ásthildur Jónasdóttir frá Helgafelli, Snæfellsnesi.  Frá vinstri fremst: Ásmundur Magnússon, Matthildur Magnúsdóttir,Jónas Magnússon,Ástráður Magnússon. )   Ég man ekki hve mikið þurfti að borga fyrir bæinn, en hann var mjög ódýr. Pabbi fékk einhvers konar lán. Húsið á Uppsölum var varla íbúðahæft. Árið 1945 byrjuðum við að byggja nýtt hús á jörðinni. Það var talsvert neðar en torfbærinn. Pabbi var mjög óánægður vegna þess að hann vildi frekar byggja upp gamla torfbæinn. En ég neitaði. Verst við torfbæinn var hve lélegur hann var og var alltaf allur að hrynja. Við reyndum að halda öllu við, en það var ekki nóg. Þetta var bara ekki nógu gott. Við löguðum þakið reglulega svo að ekki læki mikið í gegnum það, en það lak samt annað slagið.       (Foreldrar Jóhanns: Magnús og Ásthildur)           Bróðir minn lét síðan rífa bæinn til grunna. Ekki eru til teikningar af bænum frá því hann var byggður, en það kom maður að sunnan, Hannes Lárusson í Reykjavík, sem teiknaði bæinn upp eftir upplýsingum frá mér. Hann teiknar íslenska torfbæi, teiknaði líka bæinn á Finnsstöðum. Ég fór með honum þá. Ég held að hann hafi ekki teiknað fleiri bæi úr Eiðaþinghá.     Herbergjaskipan Í myndinni sést hvernig er umhorfs fyrir utan bæinn. Ef þú stendur við útidyrnar að ganga inn, þá stendur þú sunnan við gluggana. Tveir gluggar uppi og tveir niðri. Þegar ég opna inn eru löng hlaðin göng úr torfi og grjóti. Eldhúsið var til hægri og svo var haldið áfram út í fjós og í hlöðuna. Þetta var allt innangengt eins og lítið þorp. Skemman var til hliðar við dyrnar þar sem reiðtygi og eitt og annað þess háttar var geymt. Þar voru sér dyr og loft ofan á skemmunni. Maturinn var oft geymdur þar í einhvers konar kistum. Þar var svalt og ekkert umgengi. Húsið var þannig að það var torfgólf í eldhúsinu, svolítill bekkur og pínulítil eldavél sem var kynt með skógviði úr Miðhúsaskógi, taði og sverði. Þar var stigi upp á loft, en þar var baðstofan með þremur rúmum. Baðstofan hefur kannski verið um 12-16 m2. Það var ekkert annað í eldhúsinu, það var mjög lítið. Pabbi aðstoðaði mikið til og lagaði það sem hann gat. Frammi var hlóðaeldhús sem var mikið notað til að reykja, svíða lappir o.s.frv. Það var líka búr frammi til að hafa tunnurnar í, sláturtunnurnar. Þar komust alveg 4 tunnur. Skilvindan var inni á litlu borði í eldhúsinu. Hún var handsnúin. Það voru fáar skepnur, en við vorum svo fátæk að við höfðum ekki efni á að kaupa margar. Við fengum þó strax kýr og lifðum lengi á mjólkinni. Það voru tvær kýr lengi fyrst og svo fjölgaði þeim seinna, fáeinar kindur til að nýta ullina og lifa af. Ég fékk eina hænu með mér frá Eiðum, og hún var dugleg að verpa í nokkur ár. Útifötin voru geymd frammi, ekki farið inn í þeim. Það var langt inn að eldhúsinu en ekkert annað herbergi á leiðinni. Svo ef maður hélt áfram gekk maður inn í hlöðu. Síðan lengra og þá gekk maður inn í búrið þar sem kjötið, súrmetið, slátrið og slíkt var geymt. Til hliðar var eldað slátur og sviðnar lappir og hausar og fleira og svo kom fjósið. Þessi rými eru öll á neðri hæðinni. Baðstofan er fyrir ofan eldhúsið til að fá hitann. Það var hleri settur yfir uppgönguna úr eldhúsinu. Í baðstofunni var aðeins pláss fyrir þrjú rúm. Þau voru áföst við vegginn, tvö að framan og eitt í norður-horninu. Það gátu tveir sofið í rúmunum en það var ekki hægt að stækka þau, hvorki að breikka né lengja. Það var líka lítið barnarúm. Borð og bekkur var á milli innri rúmanna og mig minnir að það hafi líka verið lítill kollur.   Þau hjónin og við börnin sváfum saman í baðstofunni. Ef strákarnir komu í heimsókn sváfu þeir í rúmi með mér. Ég man eftir kistli þar sem þvottur og barnableiurnar voru geymd. Engin kista fyrir spariföt, engir kassar undir rúmunum. Mig minnir að það hafi verið rúmfjöl á einu rúminu. Ég man ekki eftir útskurði eða slíku. Þetta var allt svo lítið fjörlegt og hún var ekki gjöf frá einhverjum öðrum.   Engir vinnumenn eða konur, því við vorum svo fátæk en við börnin hjálpuðum mikið til. Ég fékk oft að slá þúfurnar og kollana. Ég settist einu sinni á þúfu og pabbi spurði hvort ég ætlaði ekki að fara að gera eitthvað. Þá svaraði ég að ég væri að horfa á bændur á Egilsstöðum að heyja nesið. Því þetta var frábær staður, há þúfa á góðum stað með frábæru útsýni út yfir svæðið. Við þurftum að slétta túnin, því að jörðin var lítil og okkur vantaði almennileg tún.     Kynding, vatn og lýsing Við vorum ekki með neinn annan hita í húsinu en eldavélina. Það var rör frá eldavélinni upp í gegnum baðstofuna. Vatnið var sótt út í brunn sem var um 7-8 metrar frá dyrunum, en auðvitað lengra inn göngin. Við hituðum allt vatn sem við notuðum. En það var mjög langt að bera vatnið í fjósið. Við fylltum þar tunnu.   Olíulampar héngu á nagla, en það voru aðeins 2 eða svo, þannig að ekki var hægt að lýsa upp á mörgum stöðum í einu. Ég veit ekki hvort ég myndi segja að það hefði verið góð birta, en við þekktum ekkert annað og létum okkur það lynda. Maður þurfti jú að eiga peninga til að kaupa olíuna eða rafmagn í önnur ljós þegar það kom, en peningar voru ekki miklir á þessum tíma hjá fjölskyldunni minni. Olían var keypt í heilli tunnu. Engin olíukynding var í torfbænum.   Hreinlæti Við fórum ekki oft í bað, það var enginn bali eða slíkt til að lauga sig í, en á sumrin vorum við oft að sulla í læknum. Á veturna höfðum við ekki miklar áhyggjur af baði. Eftir að sundlaugin á Eiðum kom, þá fórum við þangað. Ég gekk með þvottinn minn frá Eiðum hálfsmánaðarlega heim og mamma þvoði hann. Við notuðum bretti og skoluðum þvottinn í læknum. Við söfnuðum keytu sem við notuðum til að þvo ullina. Við höfðum heyrt um að nota kýrhland í hárið og systurnar prófuðu þetta einhvern tímann, en ég man ekki til þess að þær notuðu það að staðaldri. Þó sérstaklega í baráttu við lúsina. Hún var svo svakalega ágeng. Hún var alls staðar á bæjum. Við þurftum að kemba og bera einhvern „andskotann“ í hárið. Ég man ekki hvað var borið í hárið. Þetta var eðlilega miklu verra hjá stelpunum. Lúsin barst svo auðveldlega á milli bæja. Það hreinlega hrundu lýsnar af sumum! J   Salernisaðstaða var þannig að það var farið út í móa til að pissa eða fjósið ef þurfti að gera meira. Koppar voru undir rúmunum. Við notuðum gras og laufblöð til að skeina okkur. Við sáum svo sjaldan dagblöð, því við höfðum ekki efni á þeim. Nema þegar pabbi varð Framsóknarmaður. Þá fékk hann Tímann (svo var bara Ísafold), en þau voru ekki notuð sem skeinipappír. Við tímdum því ekki og blöðin gengu stundum á milli bæja. Baðstofugólfið var þvegið tvisvar í viku. Við þurftum líka alltaf að þvo gólfið þegar eitthvert barn var að fæðast. Stundum með sandi. Við þvoðum okkur ekki að staðaldri fyrir matmálstíma og notuðum diska, glös og hnífapör, ekki aska.   Við sváfum í sömu fötunum og við notuðum á daginn. Við áttum ekki náttföt, ekki fyrr en ég var í skóla á Eiðum. Við skiptum ekki mjög oft um föt. Ég var 15-16 ára þegar ég fékk loks gúmmískó. Þeir höfðu verið smíðaðir af honum Sigurði í Heiðarseli. Hann var vel þekktur fyrir þetta, því að allir á svæðinu keyptu svona gúmmískó af honum. Það var svo óhollt að nota þessa skinnskó, að vera votur á fótunum í vinnu og göngu.     Innanstokksmunir Við áttum svo fátt í torfbænum, en það var ýmislegt úr bænum mínum, Breiðavaði, sem hefur verið sett upp á háaloftið þar. Það er ekkert sem ég eða systkinin mín tókum með okkur frá Uppsölum, en það gætu verið einhver föt af foreldrum mínum eða eitthvað slíkt. Þar er útvarpstækið sem ég keypti mér sjálfur um 1945. Ég man ekki eftir neinum húsgögnum, stelli eða slíku frá Uppsölum. Engin skrifborð, skatthol, stólar eða slíkt. Það var ekkert pláss fyrir slíkt og alltaf að bætast við börn. Þau urðu samtals 13, en tveir höfðu dáið fyrir vestan auk tvíbura sem fæddust á undan yngsta bróður mínum. Við vorum 7-8  samtals á bænum þegar flestir voru heima. Ein stelpnanna var send í fóstur á Eskifjörð og tvær fóru í Hallormsstað að vinna. Einn bróðir minn sem svaf alltaf hjá mér, pissaði oft undir. Það var óþægilegt!     Störf   Ýmis störf þurfti að vinna allt árið ef ekki var skóli. Það þurfti að gefa, brynna, sækja og sinna hestunum, kúnum og kindunum. Eldiviður var sóttur í Miðhúsaskóg. Móðir mín og systur mínar tæmdu koppana og þvoðu ullina og þvottinn í læknum. Þær þvoðu líka baðstofugólfið þegar von var á barni. Ég var stundum látinn aðstoða við slíkt verk en annars var óvenjulegt að karlmennirnir sinntu þrifunum. Á vorin var sauðatað malað í taðkvörn sem var í eigu Búnaðarfélagsins og gekk á milli bæja. Þá var líka svarfðatekja, en svörðurinn var langt í burtu. Í fyrstu var hann borinn á bakinu en seinna var hann sóttur í hestakerru sem við eignuðumst nokkrum árum eftir að við fluttum að Uppsölum. Á sumrin þurfti að rista torfþökur. Þá þurfti að rista ofan af þúfunum, slétta og raða þökunum aftur á. Ég lærði að dengja ljá og koma þeim fyrir í orfi og slá með orfi og ljá. Ég fór í fyrsta skiptið í göngur þegar ég var 14 ára gamall og þá á hestbaki. Þá fundum við heita laug niðri við bakka Eyvindarár sem hefur ekki fundist aftur síðan. Farvegur árinnar hefur breyst síðan í æsku minni og er líklegt að laugin hafi hreinlega farið á kaf. Við áttum enga eldsmiðju. Við þurftum að fara eitthvert annað til að láta smíða undir hestana. Pabbi sendi mig einu sinni með eldhúspott í Finnstaði fram og ég átti að biðja bóndann um að hrakballa pottinn. Hann vissi ekkert um hvað ég var að tala, en þetta var vestfirskt orð og þýddi að bæta í gatið í pottinum. Við áttum aldrei traktor. Við fengum bara lánaðan mann með hest og plóg sem sá um þá vinnu. Hrífur og slíkt keyptum við í Kaupfélaginu. Bóndinn á Finnstöðum fram smíðaði hestakerru sem var meira að segja notuð í vegagerð, annars var ekkert svoleiðis í kringum okkur. Sá bóndi eignaðist bíl, sem hann kallaði Bláfinn. Sá bíll er ennþá til og var til sýnis hér í fyrra eða fyrir tveimur árum.     Menntun   Það hafði verið farkennari í sveitinni. Við fórum á bæ þar sem húsakostur var nægilegur og við gátum hist með kennara. Það voru ekki margir bæir sem komu til greina: Breiðavað, Hamragerði og Miðhús, seinna í Mýnesi og mig minnir Brennistöðum. Þá vorum við um hálfan mánuð í senn. Þau sem fóru lengra í farskóla þurftu að gista, annars gengum við á milli daglega. Oftast var farskóli á Breiðavaði, því þar voru bestu aðstæður til slíks.   (Gamli bærinn á Breiðavaði þar sem farskólinn var oft haldinn. Héraðsskjalasafn Austfirðinga)   Í farskóla nýttu allir krakkarnir tækifærið og fóru oft í leiki saman. Börnin frá Mýnesi, Ásgeirsstöðum, Snjóholti og Fljótsbakka gengu daglega þegar farskólinn var haldinn í Breiðavaði en við gistum oft. Það var reynt að borga með einhverjum hætti fyrir mat og gistingu á meðan, en kennslan var orðin skylda. Allir krakkar áttu að fara í farskólann, en þeir fóru mislengi eftir því hvort fjölskyldur höfðu efni á því að missa börnin í nokkrar vikur í senn og að greiða fyrir uppihaldið á meðan. Við vorum bæði fyrir og eftir áramót. Ég gisti stundum á öðrum bæjum og gekk svo í farskólann, t.d. var ég í Mýnesi og gekk út í Breiðavað eða var í Gilsárteigi og gekk út í Brennistaði o.s.frv. Það var allur gangur á því eftir því hvernig ástandið var á bænum þar sem kennarinn var. Kennarinn var frá Sandi í Aðaldal fyrir norðan, sá sem var lengst af kennarinn minn. Svo var líka bróðir hans Þóroddur kennari á Eiðum. Hann var sjálfur í Eiðaskóla þegar ég var strákur. Margir kennarar höfðu verið nemendur í Eiðaskóla. Ég man þegar ég var 11 ára á einhverjum andskotans grjóthörðum skóm með þvengjum og ég gekk í Breiðavað í farskóla. Ég man eftir því að við gengum einu sinni þrjú saman inn í Finnstaði og þegar við komum inn fyrir lækinn, þá slitnaði þvengurinn í skónum. Hin systkinin ætluðu að bíða eftir mér meðan ég gerði við þetta, en ég sagði að þau þyrftu þess alls ekki, ég myndi bara ná þeim. Ég settist þar á stein og var að bisa við þetta. Þá er hvíslað í eyrað á mér: „Þessi kona á að verða konan þín.“ Það var stúlka sem varð samferða okkur og varð einmitt konan mín seinna! Ég trúði þessu ekki fyrr en af því varð. Hvíslað hátt og snjallt. En þetta hefur oft komið fyrir mig. Mig dreymir ekki svona en einhver rödd hvíslar svona að mér. Þetta var rödd afa míns.   Ég fór í Eiðaskóla þegar ég var 17 eða 18 ára. Ásmundur Guðmundsson og Steinunn Magnúsdóttir  höfðu verið úti í Ameríku og komu hingað og var Ásmundur fenginn til að vera (Ásmundur skólastjóri og Steinunn kona hans)   skólastjóri á Eiðum eftir að bændaskólinn var lagður niður og Alþýðuskólinn tók við. Ásmundur var skólastjóri í um 10 ár frá 1918-1928. Ég var hjá þeim hjónum í um fimm ár þar til foreldrar mínir hófu búskap að Uppsölum og ég flutti þangað til þeirra. Myndin er tekin eftir að Ásmundur og Steinunn fluttu suður með öll börnin sín.   Mamma var svo lagviss, en ekki pabbi. Við sungum öll saman aðfangadagskvöld, jóladag, gamlárskvöld og nýársdag eftir húslestur sem var einnig á kvöldin á veturna, áður en við fórum að sofa, því þá sofnaði maður ekki fyrir framan sjónvarp! Sjónvarp var ekki einu sinni til. Við sungum alls konar jólasálma. Mamma kunni allt mögulegt svoleiðis, óhemju mörg vers, og söng þetta með okkur alveg frá því þegar við vorum lítil svo að við lærðum þetta vel.   Samskipti   Fundargerðir, fréttir, fundarboð og tilkynningar frá sveitarstjórn, kirkjunni, Ungmennafélaginu og Búnaðar-félaginu gengu á milli bæja þannig að þegar búið var að lesa skjölin á einum bæ átti bóndinn þar að sjá til þess að þau kæmust áfram á næsta o.s.frv. Ég fékk stundum að fara með skjöl á næsta bæ. Gönguseðillinn fór einnig þannig á milli bæja. Sveitarstjórn skipaði hverjir færu í göngur, hvar og hvernig.   Það voru mörg félög hér á svæðinu: Ungmennafélag, Kvenfélagið, Búnaðarfélagið, Samvirkjafélagið Eiðaþinghá (SE) og fleiri. Guðlaug kona mín var fyrsti formaður kvenfélagsins, en hin félögin voru talsvert eldri, frá því þegar ég var unglingur. Ungmennafélagið Sprynir sá um forvarnarstarf og skemmtun fyrir unglingana. Stundum voru haldin böll og leikfimissýningar á Rauðalæk í Fellum og víðar. Þar var spilað undir á harmóniku og einstöku sinnum á píanó eða orgel. Þá voru oft dansaðir vangadansar og gömlu dansarnir en það voru fáir hérna fyrir austan sem vildu læra þá. Þá var rokkið ekki komið. Ég sá gömul hjón dansa gömlu dansana á skemmtun í Hjaltastað og það var stórskemmtilegt að horfa á þau, alveg stórkostlegt.   Prestur kom heim á bæ að skíra. Þegar fólk mætti í messu við Eiðakirkju voru hestarnir bundnir við kirkjugarðshliðið. Fjósið var hérna til vinstri, á bak við. (Mætt til messu í Eiðakirkju. Myndin varðveitt í Héraðsskjalasafni Austfirðinga)   Matarvenjur og gestagangur Í matinn var oftast hafragrautur, plokkfiskur, fiskur og kjöt í pokum sem hent var úr bílnum við vegamótin. Þetta voru oft óætir skrokkar úr Kaupfélaginu, hálf-myglaðir, en í fátækt þiggur maður það sem fæst.   Einhverjir strákar úr sveitinni komu stundum í heimsókn og við vorum mikið á ferðinni saman, en það var ekki mikill gestagangur. Þeir gistu yfirleitt ekki og ég gisti aldrei nema í farskólanum. Við fórum stundum á bæi til að hlusta á Helga Hjörvar og fleiri höfðingja sem voru í útvarpinu þá. Við áttum ekki útvarp lengi. Ég var orðinn mjög stálpaður þegar við fengum útvarp, engir peningar í slík óþarfatæki. Helgi Hjörvar var fæddur á næsta bæ við pabba fyrir vestan og því fannst okkur spennandi að hlusta á hann. Hann var í Efri-Drápuhlíð og þeir þekktust vel.   Á kvöldin fórum við stundum á milli bæja til að spjalla við annað fólk. Það var gaman að heimsækja fólkið á Eyvindará og víðar. Það var söngur og ýmislegt í útvarpinu. Við spiluðum ekki oft saman, en ég spilaði við konurnar, því þær voru duglegri í því en karlarnir. Mamma kenndi okkur að spila púkk og hjónasæng á jólunum. Hún var mjög félagslynd og söng líka. Það var talsverður söngur í kringum mig, svolítið í ættinni. Samgöngur   Við vorum einu sinni sendir eftir kú yfir í Fell, ég og Eiríkur, strákur frá Eyvindará. Við áttum að fara með kúna yfir á Seyðisfjörð. Ég tók rauða klárinn hennar mömmu og fór með kúna yfir heiðina að sumarlagi í hinu fínasta veðri. Kýrin var alveg að drepa mig í höndunum, þannig að ég batt reipið að lokum í taglið. En þegar ég kom á Seyðisfjörð, þá er mál að leysa úr taglinu og komu margir strákar af götunni til að hjálpa mér að leysa kúna. Ég fór náttúrulega aftur yfir heiðina tilbaka samdægurs. Ég hafði oft farið yfir heiðina.   Ég og Andrés, sonur skólastjórans á Eiðum, vorum mestu mátar, algjörir prakkarar. Við fórum stundum á bæi og stálum hestum, jafnvel tengdum við kerrur. Við riðum á næsta bæ og skildum hestana eftir þar og létum okkur hverfa. Hestarnir skiluðu sér svo heim aftur. Við vorum svo miklir gemlingar. Við fórum einu sinni niður á Ormsstaði, að gamla torfbænum þar, og bönkuðum á dyr. Þá kom gömul kona þar út og sagði við okkur að við ættum að koma í kaffi og hvort við vildum kaffi eða skyr og þá sögðum við: „ Hvort tveggja, takk!“ Þá vorum við sársvangir af að fara svona langt í einhverju prakkarastriki, búnir að vera að sundríða í Eiðavatni. Ímyndum okkur börn í dag að ganga þessar leiðir á milli bæja...   Tómstundir og frí   Í frístundum var hestamennskan aðaláhugamál mitt, enda hafði ég ávallt haft dálæti á hestum. Þegar ég var í Eiðaskóla var ég í knattspyrnunni, besta liðið hérna á Austurlandi! J Liðið hét Spyrnir. Ég á ennþá fótboltaskóna mína og UÍA íþróttabúninginn minn hérna í kommóðunni. Þar stendur að félagið hafi verið stofnað 1941 en ég keppti í honum 1944. (Fótboltaskór Jóhanns, varðveittir í Breiðavaði. Íris Magnúsdóttir útvegaði mynd.)             (Íþróttabúningur Jóhanns sem nýbúið er að færa Minjasafni Austurlands til varðveislu.)                   Ég fór líka mikið á skíði, yfir Fjarðar-heiði, Þórdalsheiði um Eiðaþinghá og um allt. Skíðin mín voru keypt í Kaupfélaginu.  Þau eru ennþá til heima í Breiðavaði.   (umræddu skíðin. Mynd: Íris Mganúsdóttir)                       Að fullorðnast og gerist bóndi   Ég held að ég geti sagt að ég hafi verið stoltur af heimilinu á Uppsölum. Við unnum mikið til að halda öllu gangandi og í sæmilegu ástandi þar. Ég var þó miklu stoltari af heimilinu sem ég eignaðist með konunni minni, Guðlaugu Þórhallsdóttur. Það var óánægja með það þegar ég fór að heiman 1948 í Breiðavað. Þetta var stærri jörð, en það var aðallega það að þá réðum við hjónin sjálf hvernig við höguðum vinnu okkar.   Við hjónin byggðum upp húsin á Breiðavaði og hófum þar búskap árið 1948. Gamla húsið þar var byggt 1906, en við byggðum allt nýtt, íbúðahúsið og útihús. Húsið sem stendur á Uppsölum hjálpaði ég við að byggja líka. (Gamli bærinn og nýja húsið. Mynd varðveitt í Héraðsskjalasafni Austfirðinga) Efniviður í húsbyggingar keyptur í KHB á Reyðarfirði. Ekkert annað var pantað annars staðar frá. Ég var með póstferðirnar í um 11 ár á bilinu 1946-56 og fór frá Eiðum út í Hjaltastað þar sem ég mætti Borgarfjarðar-póstbílnum. Mig minnir að sá bílstjóri hafi heitið Björn Andrésson. Það voru póstferðir einu sinni í viku fyrstu árin allan ársins hring eftir veðri á hestum, en ég held að ég hafi farið á bíl seinustu tvö árin, því þá hafði ég eignast bíl. Áður en mjólkurbúið kom í Egilsstaði fórum við með mjólk til Seyðisfjarðar á kerru og síðar á bíl í nokkur ár. Slátrað í tvö-þrjú ár á Seyðisfirði, en annars mest á Reyðarfirði. Síðustu árin þegar ég var bóndi sjálfur var komið sláturhús á Egilsstöðum. Annars var lógað heima. Eftir að ég varð bóndi á Breiðavaði voru sveitarfundir haldnir að Breiðavaði í mörg ár. Fyrstu dráttarvélina fékk ég talsvert eftir að ég flutti í Breiðavað, orðinn fullorðinn bóndi. Ég eignaðist fyrir rest um sjö bíla / dráttarvélar, alltaf að skipta og fá stærri og stærri. Jónas sonur minn var um 7-8 gamall þegar hann fór fyrst upp á vél, fékk algjöra véladellu, þannig að við höfum verið búin að fá okkur dráttarvél um miðja 6.áratugarins. Við fluttum frá Breiðavaði í Egilsstaði í ágúst 1995. Um það leyti hófum við skógrækt á Breiðavaði síðari árin og Lóa tengdadóttir mín var með í að setja niður fyrstu plönturnar. Aðrar fróðlegar frásagnir   Þegar ég var fullorðinn fór ég í göngur með son minn, Magnús, sem þá var á unglingsárum. Sonur minn var mjög duglegur og kvartaði sjaldan þegar þurfti að vinna verkin, en neitaði af einhverjum ástæðum að ganga ákveðna leið og gat ekki gefið skýringu á því. Ég tók það að mér og gekk fram á stóra dularfulla flösku beint á móti Vaðgilsá í Fagradal, ekki langt uppi í fjallinu. Einhver sendi mér skilaboð í kollinn minn að láta hana vera. Ég merkti staðinn samt með grjóti og að göngunum loknum náði ég í lögregluþjón. Það kom í ljós að þetta var virk þýsk sprengja og þurfti að ná í lögregluþjón að sunnan. Hann rak alla burt eins og skot, lagði 50-75m langan streng og sprengdi hana. Sprengingin gróf sig talsvert ofan í jörðina, en Magnús sonur minn kom með skóflu og gróf hluta sprengjunnar upp og þvoði í ánni.   (Sprengjubrotið, Íris Magnúsdóttir útvegaði myndina.)       Þegar lögregluþjónninn að sunnan frétti af því heimtaði hann að fá brotið en Magnús neitaði að láta það af hendi og sendi aðeins smá brot þrátt fyrir símtal frá ráðherra. Brotið hefur verið geymt heima í Breiðavaði síðan.         (Sprengjubrotið, Íris Magnúsdóttir útvegaði myndina.)     Við veiddum hreindýr og ólum upp hreindýrstarf sem var svo fluttur í Húsdýragarðinn í kringum 1986-87. Ég hafði gaman af að sinna jólasveinastörfum um tíma þegar ég var orðinn fullorðinn og á myndir af mér í því hlutverki. Margrét á Þjóðminjasafninu hafði samband við mig nokkrum sinnum til að spyrja mig um hitt og þetta, enda er ég með hálfgert safn á Breiðavaði og tengdapabbi, Þórhallur Jónasson, á allt mögulegt, bókbindivélar, peningar frá þjóðhátíðum og fleira sem við höfum varðveitt vel.   Það var rosalegur bruni á Eiðum 1960. Ég lenti þangað. Það var allt að fjúka upp. Enginn veit nákvæmlega hvernig kviknaði en það var talið að hafi hitnað og mikið í gleri í glugganum og kviknað í út frá því. Það munaði litlu þegar þakið fór af að yrði mannfall, en það var búið að færa alla lengra út á tún, þannig að allir sluppu.   Hér er mynd þar sem horft er í Uppsali í dag sem barnabarn þátttakanda, Íris Magnúsdóttir, útvegaði.          


Kafli 1 af 3 - Lýsing á uppvaxtarheimili

Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd. Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið. Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að næsta spurningakafla sé svarað.

Kafli 2 af 3 - Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum

Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.
Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?
Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?
Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?
Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?
Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.
Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?
Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?
Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?
Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?
Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?
Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.
Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?
Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?
Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?
Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.
Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?
Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?
Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?
Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.
Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 3 - Dagur í lífi heimilismanns

Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.