LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiBankahrun, Brandari, Fjölmiðill, Kreppa, Mótmæli, Munnmæli, Vísa
Ártal2008-2010
Spurningaskrá112 Kreppan; hrunið og Búsáhaldabyltingin

StaðurLáginúpur
ByggðaheitiKollsvík
Sveitarfélag 1950Rauðasandshreppur
Núv. sveitarfélagVesturbyggð
SýslaV-Barðastrandarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1930

Nánari upplýsingar

Númer2010-1-89
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/15.2.2011
TækniSkrift

Nr. 2010-89


s1
Bankahrunið.
Mitt umhverfi í þjóðfélaginu takmarkast að vísu við búsetu vestur á fjörðum langt frá vettvangi atburða í þjóðfélaginu en fjölmiðlaumfjöllun nær þó til okkar hér. Enda hefur lítið mark verið á okkur tekið, löngu afgreidd sem annars eða þriðja flokks borgarar. Undanfarin ár eða jafnvel áratugir eru liðin síðan þessir almáttugu bankar hættu að lána pening í framkvæmdir hér t.d. húsbyggingar því hér væru eignir manna ekki talin veðhæf. Svo að þeir sem ekki fluttu suður til að dansa með kringum gullkálfinn sátu bara eftir og sáu lítið af góðærinu. Unga fólkið varð að leita burt til að mennta sig og fékk svo ekki störf í heimabyggð. Húseignir hér óteljanlegar því þó einhverjir vildu kaupa þá fékkst engin fyrirgreiðsla frá bönkunum. Enda var þetta orðið láglaunasvæði sem tórði á útgerðinni sem útrásarvíkingar og þeirra lið taldi ekki marktæka fremur en landbúnað. Nei nú átti að láta peningamálin sjá fyrir okkur.
Hér kom hrunið fyrir mörgum árum og engin þensla hér. Ég hef aldrei skilið þetta brjálæði sem greip allt þjóðfélagið eftir að bankarnir voru einkavæddir. Eftir að stjórnvöld frömdu það stjórnarskrárbrot að samþykkja E.E.S. Samninginn án þess að þjóðin fengi að greiða um það atkvæði fengu bankarnir frítt spil eftir að þeir voru seldir (eða gefnir) og þá byrjaði ballið. Svo þegar útrásarvíkingarnir fóru að kaupa upp stóreignir í nálægum löndum þá virtist þjóðin sitja með stjörnur

s2
í augunum af aðdáun á snilli þessara manna svo að þó einhver afdalakerling skyldi þetta ekki þá vottaði það bara hennar heimsku!
Ég á ekki nógu sterk orð til að lýsa fyrirlitningu minni á þessari græðgi sem stjórnendur banka og allt þetta útrásarlið sýndi og kom fram í fjölmiðlum og sagði frá sínum launum sem eðlilegum þó mánaðarlaunin væru oft margfaldar árstekjur venjulegs launamanns jafnvel ekki láglaunamanns. Þeir töldu þetta í samræmi við þá miklu ábyrgð sem þeir bæru. Hvar er svo ábyrgðin?
Það sem mér fannst um útrásarvíkinga fyrir hrun er það sama og nú nema hvað ég, og sjálfsagt flestir, hafði ekki hugmynd um hvað gróf þessi græðgi var og skefjalaus.
Hvað snertir þetta umtal að fara að taka upp ensku hér í stórfyrirtækjum þá fannst mér það nú jaðra við landráð sem betur fer er þetta ekki til umræðu í dag vonandi. Þegar þjóðin hafnar íslenskunni þá erum við búin að vera sem þjóð.


Mótmælin - Búsáhaldabyltingin.
Fréttir af mótmælum komu til okkar landsbyggðafólks vitanlega úr fjölmiðlum. Mér finnst það svo sem nokkuð eðlilegt að fólki hitnaði í hamsi þegar í ljós kom að þeirra ævisparnaður brann upp í bönkunum og mótmæltu harðlega óréttlætinu. Í góðu lagi að berja potta og pönnur til að fá útrás fyrir reiðina. Líka til að krefjast úrbóta. En svo fóru hlutir að fara úrskeiðis og alls konar villingalýður

s3
eyðilagði þessi friðsömu mótmæli. Þá var farið að berja á lögreglunni, kasta grjóti í Alþingishúsið og Dómkirkjuna, eggjum og öðrum matvælum í þingmenn og fleiri. Úr þessu urðu svo skrílslæti sem mér finnst alveg forkastanleg. Ekki síst þar sem þetta þing var að reyna að bæta úr mistökum fyrri stjórnar sem allt vildi einkavæða, bankana og annað án þess að setja neinar skorður við þetta margnefnda „fjármagnsflæði“ samkvæmt E.E.S. reglum! Einu sinni áður hef ég mótmælt gerðum stjórnvalda það var þegar stjórnvöld létu sig hafa það að brjóta stjórnarskrána með því að setja ekki E.E.S. samninginn til þjóðaratkvæðagreiðslu. Í stjórnarskrá er mælt fyrir um að þjóðin sé til kvödd ef um er að ræða samning sem skerði fullveldi Íslands sem þessi samningur gerði ótvírætt. Við risum þá upp þrjár konur úr „grasrótinni“ og söfnuðum undirskriftum um áskorun á forseta um að vísa málinu í þjóðaratkvæði. Undirskriftir urðu um 35000 en ekki dugði það til!


Kreppan.
Eins og ég tók fram í upphafi þá var kreppan komin hér fyrir löngu. Ég er fædd í kreppu. Þá kom sér vel að búa í sveit þar voru úrræði sem bæjarbúar höfðu ekki, það var allt nýtt, slátur, kjöt, mest af gamalám því lömbin fóru í sláturhús og þó ekki væru þau mörg þá áttu þau að duga fyrir því sem þurfti að kaupa, mjölvöru o.fl. og efni í nauðsynlegasta fatnað. Svo var farið á sjó frá hafnlausri strönd 1 - 2 á sumri og fiskur saltaður. 2 kýr sáu fólki fyrir mjólk, skyri og smjöri. Móðir mín sagði mér að eitt vorið hafi verið til 10 kr. í peningum sem átti að nota í brýnni þörf á sumrinu. Þær tíu krónur voru til um haustið þar sem þörfin var ekki metin það brýn um sumarið að ekki dygði úttektin í kaupfélaginu. Ég held að kaupfélögin hafi bjargað þjóðinni

s4
að miklu leyti í þessari kreppu a.m.k. í dreifðari byggðum. Þessi kreppa hefur ekki haft nein áhrif á mínar neysluvenjur. Uppeldi í fyrri kreppu hefur kannske kennt mér nýtni sem ég held að löngu sé horfin í þessu neysluþjóðfélagi. Ég veit um fjölskyldu sem flutti til Reykjavíkur um 1935, þar var bara daglaunavinna föðurins til að treysta á. Þau áttu 5 syni og einn þeirra sagði mér að þeir hefðu oft verið svangir. Oft var heimilisfaðirinn án vinnu dögum saman. Á vorin var sagt upp leigunni á smákjallaraholu en móðirin réði sig í kaupavinnu með yngsta barnið en hinir komust í sveit sem matvinnungar. Faðirinn fékk að vera í einhverju kytruskoti og svo að hausti varð að finna einhverja kjallaraholu til að hírast í yfir veturinn. En svo kom stríði! Þá batnaði hagurinn með nægri vinnu. Ég vona að þjóðin læri eitthvað af þessari kreppu, kannske helst að styðja við innlenda framleiðslu til lands og sjávar. Okkar landbúnaðarvörur eru viðurkenndar þær bestu í heimi og hreinustu. Og guð forði okkur frá að tapa slitrunum af sjálfstæðinu í E.S.B. það bjargar okkur ekki frá kreppum framtíðarinnar fremur mergsýgur okkur.

(..1..)

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.