LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiBankahrun, Brandari, Fjölmiðill, Kreppa, Mótmæli, Munnmæli, Vísa
Ártal2008-2010
Spurningaskrá112 Kreppan; hrunið og Búsáhaldabyltingin

StaðurHof
ByggðaheitiVatnsdalur
Sveitarfélag 1950Áshreppur
Núv. sveitarfélagHúnavatnshreppur
SýslaA-Húnavatnssýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1928

Nánari upplýsingar

Númer2010-1-68
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/18.1.2011
TækniSkrift

Nr. 2010-1-68

s1
Bankahrunið.
Þar sem ég á heima norður í Vatnsdal varð ég eingöngu vör við óróann í blöðum og útvarpi. Og þar sem hér er eingöngu um RÚV að ræða sem slíkan fjölmiðil vita og sáu allir sem sjá vildu hvernig fréttir og fréttaskýringar voru bornar þar á borð fyir alþjóð. Hér var keypt morgunblaðið og ekki jók það á réttar upplýsingar á ástandinu.
Hér rennur góð veiðiá við túnið, Vatnsdalsá. Og hefur hún alltaf verið í leigu hjá einkaaðilum en ekki stangveiðifélagi eða þess háttar. Lengi fyrir hrun réðu Heklumenn ríkjum á árbökkunum (áður en ættarveldið sprakk). Þeir áttu og eiga Þingeyrar sem var langbesta mjólkurkýrin, ósajörð og lengd lands mikil. Arðgreiðsla er flókið mál. Önnur arðmesta áin er Grímstunga í Vatnsdal. Þar urðu á þessum árum kynslóðaskipti og ýmis vitleysa. Grímstungu eignaðist Andri nokkur Teitsson ásamt fleiri jörðum hér í sýslum. Hann hefur nú lagt höfuðbólið í eyði en hirðir veiðiarðinn, einhverjar millur. Annars á bankinn nú allt þetta gilli þó það sé á nafni umrædds Andra. Þetta er bein afleiðing af hruninu og svindlinu með KEA þar sem Andri var kaupfélagsstjóri. Og flækjur og svik með SÍS og seinna Kaldbak. Nóg um það. Þetta eru áþreifanlegustu afleiðingar hrunsins í þessu byggðalagi þó jarðir hafi farið í eyði þá er þetta verst.
Þegar þetta gerðist hafði sonur minni (okkar hjóna) tekið við búskapnum á jörðinni. Sem betur fer var hann gætinn og þó hann byggði mikið upp (útihús fyrir sauðfé) og ferðaþjónustu slapp hann vel (betur en margir ungir bændur sem nú reka búin fyrir lánastofnanir sem eiga allt gillið). Af þessu leiddi að maðurinn minn sem alltaf hafði verið mikið að heiman fór að hafa afskipti af Hólum í Hjaltadal, lenti þar inn í skólanefnd en þá va komið að því að annað hvort var að leggja niður

s2
Hólaskóla eða hefja endurbætur. Sem varð gert. Einnig klakstöð o.fl. þó þetta væri fyrir hrun og kreppu þá var ekki langt um liðið þegar farið var að spila á kerfið með góðra manna hjálp. Og allt í einu blasti framtíðin við með volduga banka og bankastjóra sem framleiddu peninga svo bráðum þyrfti enginn að vinna. Útrásarvíkingarnir sem nú spruttu upp myndu sjá um afganginn. Eitthvað trúði hann þeim fyrir af elliáraaurunum sínum. Ég held þeir hafi ekki sést síðan. Þið spyrjið um útrásarvíkinga í dag. Þeir ættu auðvitað alls ekki að ganga lausir með bros á vör.
Síðustu dagana fyrir hrunið var fólk meira hissa en reitt. Hvernig gat þetta gerst. Forsætisráðherrann í viðtölum með refssvipinn og spúði lyginni út og suður. Af hverju segir maðurinn okkur þjóðinni ekki satt? Þegar allir vissu að hverju fór og þá kom það einkum frá erlendum fréttastofum og alltaf var logið um sannleikann. Það var ekki bara að Ingibjörg Sólrún yrði veik. Hún laug líka og allt íhaldið í kór. Ég held nú stundum að RÚV hafi tileinkað sér að miklu leytinu enskuna og yngra fólkið virðist margt hvert vera að tala eitthvert enskuskotið nýmál.
Það vita auðvitað allir að útrásarvíkingarnir oftnefndir gátu ekki komið sínum málum svona áfram ef hér hefði verið ábyrg ríkisstjórn og aðrir embættismenn er unnu vinnuna sína á heiðarlegan hátt (ein, tvær ferðir í einkaþotu o.s.frv, í partý úti í heimi gerði sitt).

Þá er það Búsáhaldabyltingin þegar íslenska þjóðin afriðaðist og barði mann og annan og jós óþverra á Alþingishúsið. Aldrei hefði ég tekið þátt í slíku þó ég hefði búið á svæðinu. Fólk gekk gjörsamlega af göflunum a.m.k. sumir. T.d. maður að nafni Sturla sem taldi sig eiga vörubíl en annað virtist nú vera réttara í því máli (það er að segja einhver bankinn)

s3
Sturla þessi gekk hart fram á ýmsum sviðum t.d. sem „uppreisnarforingi“ á ýmsum vígstöðum og síðasta trixið hans var brottför af landi brott og nú átti að fara að hafa það gott. Og ýmsir sögðu „aumingja maðurinn“ og slógu sér á lær er hann kvaddi landið sitt á harmrænan hátt er hann ók inn í þokuna á Reykjanesbrautinni. Nú fer ég í betri heim, finn mér bústað og sæki konu og börn. Aldrei aftur Ísland. En hvað skeði. Síðastliðið haust á setningardegi Alþingis hver var þar kominn nema títtnefndur Sturla með hnefann og kjaftinn á lofti og hrinti lögreglumönnum og æsti fólk til illra verka. Annar aðili sem lék í sömu „kvikmynd“ og Sturla sagðist fara burt og aldrei ætla að koma aftur. Hún sagðist vera einstæð og eiga afar bágt. Ekki voru liðnir margir mánuðir þegar hún var komin í Kastljós eða eitthvað. Búin að gista Danmörk og Noreg en skárst væri ísland. Og margir voru þeir sem fóru engar frægðarfarir til annarra landa en þeir eru nú ekki til stórræðanna.
Lífsstíll minn tók engum breytingum svo sem, við í sveitinni norður í landi horfðum á landa okkar ganga allt of langt þó að fyrstu útifundirnir hafi átt rétt á sér og verið prúðmannlegir snérist þetta í skrílslæti og reiða fólkið tók yfir. Kúlulánafólkið sem átti hálfkláruðu húsin og óborguðu bílana á planinu sínu. En hver bað þau að ana áfram. Fyrirmyndirnar voru vel varðar innan við skrifborðin í bönkum. Ég tók aldrei mark á mótmælum né tók nokkurn þátt í því eða gekk af göflunum á neinn hátt og dáðist að framgöngu lögreglunnar oft á tíðum. Þó að sumar löggur væru öðrum fremri eins og gengur. Hef aldrei farið í kröfugöngur og mun ekki gera.

Kreppan hefur litlu breytt fyrir mér. Fjölskylda mín hefir haldið sínu að mestu. Hér um slóðir er ekki leitað til hjálparsamtaka eftir mat. Ég hef ekki verið kirkjurækin fyrir eða síðan.

s4
Ekki heldur hefur fólk hér um slóðir flutt til útlanda sem ég veit enda lítið atvinnuleysi. Góðærið kom aldrei norður í land.
Hér var og er fólk „þjóðlegt“ fyrir og eftir hrun og „lopapeysan okkar“ var til margra ára okkar besta skjólflík. Matarruglið nenni ég ekki að nefna.
Ég á ekki tölvu og hér er ekki gemsasamband eða stöð 2 sem betur fer svo að RÚV er aðalfrétta- og afþreyingarmiðillinn. Þeir eru (sumir fréttamenn) afskaplega einslitir í fréttaflutningi og sýna oft ótrúlega frekju og dónaskap í viðtölum. En nú má víst allt. A.m.k. virðast margir sem komast bak við hljóðnemann varla vita hvað er almenn kurteisi eða almenn skynsemi.
Ráðamenn hefðu getað sagt meira frá málum en bara um leið og þeir segja eitthvað er búið að kalla til álitsgjafa, stjórnmálafræðinga og fl. menntafólk og sérfræðinga og tæta allt sundur og snúa til verri vegar. „Ekki benda á mig“ o.s.frv. Svo menn kjósa ef til vill að segja sem fæst.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.