LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiBankahrun, Brandari, Fjölmiðill, Kreppa, Mótmæli, Munnmæli, Vísa
Ártal2008-2010
Spurningaskrá112 Kreppan; hrunið og Búsáhaldabyltingin

StaðurHlégarður
ByggðaheitiHjaltastaðaþinghá
Sveitarfélag 1950Hjaltastaðahreppur
Núv. sveitarfélagFljótsdalshérað
SýslaN-Múlasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1944

Nánari upplýsingar

Númer2010-1-72
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/21.1.2011
TækniSkrift

Nr. 2010-1-72


s1
Bankahrunið.
Mikil spenna einkenndi þjóðfélagið fyrir bankahrun. Felstir voru fullir bjartsýni og margir lifðu hátt, hugsunarháttur fólks breyttist þannig að menn leyfðu sér að framkvæma og fjárfesta í dýrum hlutum og leyfðu sér ýmislegan munað sem áður tíðkaðist ekki. Næg atvinna var og meiri kaupmáttur jókst hjá flestum. Árin fyrir hrunið einkenndust af gríðarlegri þenslu, fjármálakerfið þandist út og óx og óx sem endaði svo með græðgi einni saman og eiginhagsmunapoti. Maður fór að leiða hugann að því hvort þetta gæti gengið svona mikið lengur en fólki fannst það vera fáránlegt að vera að spá í þvílíka hluti, þetta væri ástand sem væri komið til að vera. En það hlaut að enda svona. Það að hægt væri að fá endalaust lán ofan á lán og fólk var hvatt til þess af bönkunum, sérstaklega yngra fólk sem var líklegast til að fara að koma sér þaki yfir höfuðið, var spanað áfram. Þetta blessaða fólk var svo blint að maður ímyndar sér að það hafi haldið að peningar yrðu til í bönkunum. En við sem eldri erum vissum betur og fórum þess vegna hægar í sakirnar.
Þótt að gagnrýni á íslenskum bönkum og í útlöndum og jafnvel innanlands hafi verið þá held ég að fólk hafi ekki hlustað á það. Ég persónulega stóð sjálf ekki í neinum stórum viðskiptum við bankana á þessum tíma. Mínar aðstæður voru þannig en var rækilega minnt á hvort ég þyrfti ekki að fara kaupa nýjan bíl eða fara í einhverjar stórframkvæmdir. Hins vegar hafði ég áhyggjur af börnum mínum og fjölskyldum og leið ekki vel út af þeim.

s2
Þegar svo þessi hræðilegi atburður var orðinn að veruleika, blossaði upp í manni mikil reiði út í bankana og alþingi. Helst hugsaði ég um hvað verður um peningana sem ég átti inni á sparisjóðsbók yrðu þeir teknir af manni forspurðum og dæmt í allt sukkið? Reiðin í mér var mest út af því hvernig forystumenn banka og alþingis komu fram dag eftir dag og lýstu því yfir alþjóð að engar blikur væru á lofti og allt væri í himnalagi og bankar stæðu aldrei eins vel og nú. Svo þyrnir þetta allt yfir einn daginn, bara allt hrynur og allt stöðvast. Þessi framkoma pólitíkusa og bankamanna er svo svívirðileg að með ólíkindum er að nokkur maður á þessum tímum, 21. öldinni, skuli leyfa sér aðra eins framkomu, þeir vissu betur og áttu því að vera búnir að stoppa þetta af fyrir löngu. Reiði mín til þessara manna er þvílík að hún ristir mjög djúpt í sálu manns. Og mér líður alls ekki vel í dag, reyni að hugsa sem minnst um það. En stundum kemst maður ekki hjá því, maður er minntur á það svo rækilega í blöðum og fjölmiðlum, því alltaf eru að koma upp ný og ný mál í ljós um þetta hrun sem tengjast svikum og prettum.
Talað var um að æðstu stjórnendur bankanna bæru gríðarlega ábyrgð og ættu þess vegna að hafa laun í samræmi við það. En þá segi ég þess meiri þörf á að standa vel um vörð þeirra og halda vel um alla þá fjármuni sem þar voru. Hvers vegna eiga forystumenn banka að vera yfirlaunaðir, af hverju er þá ekki hægt að hækka laun lægri stétta því það er fólkið í landinu sem aflar þessara peninga

s3.
en ekki einhverjir forstjórar og embættismenn á skrifstofum þeirra út í bæ.
Mér fannst svo sem ekkert athugavert við það að Ísland kæmist vel á kortið í útlöndum en var samt farið að finnast þetta nokkuð mikið bákn og ekki alveg traustvekjandi eftir því sem lengra leið, of mikil yfirbygging, engin takmörk, endalaust haldið áfram að þenja sig út um allar koppagrundir í meiri græðgi og blindni. Í dag er svo komið að Íslendingar eru ekki hátt skrifaðir í útlöndum þ.e.a.s. ekki freistandi en þó er nú eins og sé aðeins að koma aukinn áhugi á landinu aftur en það fer mjög hægt.

Mótmælin - Búsáhaldabyltignin.
Ég frétti af mótmælunum í útvarpi og sjónvarpi, ég hef aldrei tekið þátt í mótmælum, þau voru í smáum stíl hér á mínu svæði þ.e. á Fljótdalshéraði. Það sýndi sig þótt þátttakan væri ekki mikil í fyrstu að þá jókst hún jafnt og þétt og reiðin og harkan líka. Hvað varðar lögregluna þá var hún einfaldlega að vinna vinnuna sína og ekki réttlátt af fólki að beina reiði sinni að henni. Lögreglan fannst mér standa sig með prýði af því að innan hennar hafa ábyggilega verið einstaklingar sem misstu ýmislegt í hruninu eins og aðrir og áttu fjölskyldur sem eflaust áttu mjög erfitt. Ég tel að mótmælin hafi skipt máli og skilað árangri. Ráðamönnum og viðskiptabönkum veitt aðhald með þeim og þessum háu herrum gert ljóst að fólki stóð ekki á sama hvernig þeir lék sér með fé almennings. Að örfáir menn skuli að því er virtist með einu hnefahöggi geta sett heila þjóð í rúst. En eldurinn var búinn að krauma lengi það vitum við nú.

s4
Kreppan.
Það er svo sannarlega kreppa, atvinnulíf hér á mínu svæði er mikið og uppsagnir fólks, heilu bygginga- og verktakafyrrtæki alveg farið í rúst. Færri hendur þurfa nú að vinna allt að því tvöfalt miðað við það sem áður var og fyrir lægri laun. Mín börn hafa lent í þessum aðstæðum. Það sem er öðruvísi með þessa kreppu en aðrar er að ekki hefur orðið vöruskortur. Ég man aðeins í enda kreppunnar sem kom í kjölfar seinni heimstyrjaldar en þá varð vöruskortur, fólki var úthlutað skömmtunarseðlum fyrir mat og öðrum nauðsynjum en vörur fengust ekki nema með framvísun þessara seðla og þá skammtað visst magn á hvert heimili sem varð svo að duga í x langan tíma.
Mínar neysluvenjur hafa breyst að því leyti að ég fer sjaldnar í kaupstað, bensín er dýrt, ég tala sjaldnar í síma, á ekki tölvu, ég reyni að kaupa íslenskt þótt það sé dýrara því það er betri vara, kaupi því minna, hún geymist líka betur. Ég held að upplifun barna sé ekki góð af kreppunni þau voru svo góðu vön og skilja ekki alveg hvurs vegna þau fá ekki alla hluti eins og var t.d. jólagjafir, afmælisgjafir, ferðalög o.s.frv. sérstaklega unglingar eiga margir hverjir mjög erfitt og fjölskyldur hafa tvístrast út af hruninu. Ég hef alltaf þjóðleg gildi að leiðarljósi, haldið mér mikið við íslenskar matarvenjur og kann að búa til úr því sem landið og jörðin gefur af sér. Er alin upp við það. Ég hef ekki misst vinuna vegna hrunsins, hætti að vinna utan heimilis 2008 vegna heilsubrests og er nú 75% öryrki en það var mjög erfitt. Ég hef lent í skerðingu á mínum litlu launum eins og aðrir. Ég þekki til fólks héðan austan af landi sem hefur farið til Danmerkur og Noregs til að fá vinnu, aðallega í byggingageiranum. Það er ýmislegt jákvætt sem út úr kreppunni hefur komið. Fólk treystir á sjálft sig, lætur ekki stjórnast af öðrum, fer betur með fjármál sín og eigur, það

s5
virðist vera að renna upp ljós hjá mörgum að peningarnir vaxa ekki á trjánum eða í bönkum. Með öðrum orðum, við þurfum að afla þeirra. Alls kyns þjóðleg gildi hafa verið tekin upp aftur sem voru alveg að glatast vegna þess að það þótti „púkalegt“ að fara eftir þeim. Smáiðnaður hefur sprottið upp og lítil fyrirtæki eru að blómstra og dafna þó aðallega úti á landsbyggðinni.
Fjölmiðlar hafa verið ötulir við að færa okkur fréttir af ástandinu og allar frekar neikvæðar, hvort þær eru allar réttar er svo annað mál einfaldlega vegna þess að ég hef margoft rekið mig á að þeir sem talað er við fara ekki með rétt mál, segja ekki satt, þurfa svo seinna meir að éta „ýmislegt“ ofan í sig. Það er alltaf mikið um að pólitíkusar hlýða ekki sinni eigin samvisku, þeir þora því ekki af ótta við að verða reknir. Þess vegna treystir fólk þeim ekki lengur.
Ég vil enda þetta á björtu nótunum.
Í þessu landi býr margt þróttmikið og dulget fólk. Með þeirra hjálp og annarra tekst okkur að blómstra á ný. En höfum hugfast. Kennum börnum okkar að fara vel með það sem við öflum. Öll þessi yndislegu ungmenni sem við eigum og eiga að erfa landið munu muna þessa erfiðu tíma sem við lifum í nú í dag, ef til vill hafa sum þeirra gleymst í lífsgæðakapphlaupinu og er það miður. Óska þessa lands á framtíðina fyrir sér, kennum þeim að vera heiðarleg og temja sér góða siði og ekki gleyma Guði, þá mun okkur öllum farnast vel. Ég segi „Íslandi allt - Ísland lifi“.

(..1..)

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.