LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiBankahrun, Brandari, Fjölmiðill, Kreppa, Mótmæli, Munnmæli, Vísa
Ártal2008-2010
Spurningaskrá112 Kreppan; hrunið og Búsáhaldabyltingin

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2010-1-19
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/28.1.2010
TækniTölvuskrift
Nr. 2010-1-19.

Heimildarmaður er 33 ára karlmaður, tæknifræðingur, fyrrv. varaþingmaður og býr í Reykjavík.

Bankahrunið
Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu fyrir bankahrunið (lífsstíll, viðhorf, hugsunarháttur t.d.)? Það dró mjög úr jöfnuði, ríkir urðu ríkari og fátækir fátækari.  Margir voru orðnir reiðir yfir hlutskipti sínu og ósáttir við firringuna sem fylgdi bankafólkinu.

Árin fyrir hrunið einkenndust af miklum framkvæmdum og gríðarlegri þenslu. Hvenær finnst þér að þú hafir séð einhverjar vísbendingar um hvað væri í vændum? Ég sá það í raun ekki.  Enginn talaði um það í raun og sífellt var hamrað á því að svona ættu hlutirnir að vera.  Ef maður fór að hugsa um að kaupendur vantaði að öllum nýbyggingunum, þá fuku þær hugsanir fljótt vegna áhrifa fjölmiðla.

Mikið var um gagnrýni á íslenska banka í útlöndum og jafnvel innanlands fyrir hrunið. Að hvaða leyti tókst þú mark á þessari gagnrýni og hvaða áhrif hafði hún á þig? Ég tók ekki mikið mark á þeirri gagnrýni.  Hérlendir ráðamenn og fjölmiðlar sögðu annað og ég treysti þeim betur, enda sífellt talað um að hér væri lítil spilling, að hér væru bankar í lagi og að ekkert væri óeðlilegt við ástandið.  Þetta sögðu líka erlendir aðilar, matsfyrirtæki m.a.

Segðu frá því sem þú upplifðir (tilfinningar, atburðir) þegar tilkynnt var um bankahrunið. Hvernig leið þér daginn eða dagana á eftir og hvernig líður þér núna?Ég átti ekki mikið fé á bók og gat því verið nokkuð sama á þeim tíma.  Ég hjálpaði mér efnameira fólki við að setja peninga á mínar bækur og barna minna þannig að upphæðin yrði undir 3 milljónum á kennitölu sem mér skildist að væri tryggðar upphæðir.

Finnst þér að þú skiljir/skiljir ekki orsök og afleiðingar hrunsins og hvernig ástandið er í þjóðfélaginu í dag? Geturðu lýst þessu?
Ég skil það alvg að vont fólk sogaði til sín peninga sem það átti ekki rétt á og skildi okkur hin eftir í súpunni.  Afleiðingarnar eru skert lífsgæði til handa mér og mínum.

Margir hafa orðið fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að skuldir þeirra hafa margfaldst eða tapað fjármunum vegna hrunsins. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf viðkomandi, þitt eða annarra sem þú þekkir til? Þetta hefur lítil áhrif á mitt líf.  Ég tók ekki þátt í sukkinu fyrir hrun, endurfjármagnaði ekki lán mín eða keypti mér drasl.  Þeir sem það gerðu sjá hinsvegar eftir því núna.  Ég tel það þó hafa verið þeirra eigin ákvarðanir sem þeir einir beri ábyrgð á.  Ég fagna lækkandi íbúðarverði þar sem ég á börn sem ég vil að geti keypt sér þak yfir höfuðið án þess að selja framtíð sína til lánastofnunnar.

Íslendingar sem bjuggu erlendis lentu margir í fjárhagsörðugleikum og sumir ferðamenn gátu ekki notað íslensk greiðslukort í útlöndum. Þekkir þú einhver dæmi um þetta sem þú getur sagt frá?Nei.

Talað var um að æðstu stjórnendur banka bæru gríðarlega ábyrgð og ættu þess vegna að hafa laun í samræmi við það. Hvaða skoðun hafðir þú á þessu fyrir hrunið? En í dag? Ég hafði þá skoðun að ábyrgð slíkra væri í raun ekki til staðar, enda hafði ég aldrei séð háttsettan, vellaunaðan mann taka ábyrgð á sínum mistökum.  Sú skoðun mín hefur ekki breyst.

Hvað fannst þér um hina svo kölluðu útrásarvíkinga fyrir hrunið? En í dag? Mér fannst þeir berast of mikið á, annars hugsaði ég lítið um þá.  Í dag fyrirlít ég þessa menn.

Meðan allt lék í lyndi héldu ýmsir því fram að tala ætti ensku í stórfyrirtækjum hér á landi. Hvað fannst þér um þetta á sínum tíma? En í dag?
Ég vissi ekki af því umtali þá, en mér finnst það svosem ekkert óvitlaust þar sem það á við.  Það væri örugglega til bóta að vera vanur því tungumáli sem maður á mest viðskipti með.

Mótmælin - Búsáhaldabyltingin  
Hvernig fréttir þú af mótmælunum? Hvenær fórst þú að taka mark á mótmælunum og skipuleggjendum þeirra eða gerðirðu það kannski alls ekki?  Ég frétti af mótmælunum þann 31.12.2008 sama dag.  Ég frétti af mótmælunum 20.1.2009 nokkrum dögum fyrr (kannski 1-3 dögum eða svo)  Ég tók mark á mótmælendum frá upphafi og tók þátt í mótmælum frá upphafi.

Tókst þú þátt í mótmælunum og hvers vegna? Ef þú tókst þátt hvað var kornið sem fyllti mælinn? Ég fór á Kryddsíldarmótmælin til að sjá hvað þar færi fram og sýna stuðning með viðveru minni.  Ég tók ekki þátt í mótmælunum sjálfum að öðru leiti en því að ég kallaði; „Við erum óþjóð“ með Birgittu Jónsdóttur nokkrum sinnum eftir ummæli Ingibjargar Sólrúnar um að þjóðin væri ekki að mótmæla fyrir utan.  Ég mætti kl.12:30 á Austurvöll þann 20.1.2009 þar sem mér ofbauð dagskrá Alþingis þann sama dag, sem ég hafði lesið um á vef Alþingis daginn áður, en skv. þeirri dagskrá ætlaði enginn flokkur að tala um hrunið.  Ég ráðlegg ykkur að skoða þá dagskrá og jafnvel ramma hana inn.  Hana má örugglega enn finna á vef alþingis, nú eða þá á slóðinni : http://bloggheimar.is/bjoddn/?p=348.

Hefur þú mótmælt áður (fyrir hrunið) og ef svo er hvenær og af hvaða tilefni? Ég hafði aldrei mótmælt áður.

Hvernig fannst þér að stemningin eða andinn hafi verið á mótmælunum? Þann tíma sem ég tók þátt fann ég fyrir því að fólki var ofboðið sú spilling og það afskiptaleysi sem stjórnvöld sýndu af sér gagnvart okkur venjulega fólkinu.  Fólk var reitt og búið að fá nóg.

Hvaða skoðun hefur þú á átökunum við lögregluna? Áttu þau fullan rétt á sér eða e.t.v. alls ekki? Fannst þér mótmælin ganga of langt, vera passleg og réttlát eða hafa gengið of skammt?  Ég var ósáttur við grjótkastarana því þeir komu óorði á annars gott fólk sem var að mótmæla ástandinu.  Mótmælin áttu fullan rétt á sér, enda ætluðu stjórnvöld ekki að hlusta á fólkið í landinu og sýndu því hroka ef eitthvað er.

Hvað finnst þér um frammistöðu lögreglunnar? Lögreglan gekk of langt í ofbeldi sínu gagnvart mótmælendum, þeir hefðu mátt spara gasið og ógnanirnar, þá hefði þetta farið betur fram.  Líklega er um að kenna reynsluleysi en hvorki borgarar né lögreglan höfðu nokkra reynslu af slíkum atburðum.  Báðir aðilar gerðu því gloríur, þó ég kenni lögreglunni og þá síðan grjótkösturunum um það sem fór úr hófi fram.  

Telur þú að mótmælin hafi skipt máli eða skilað einhverjum árangri? Hvernig þá? Mótmælin komu heilli ríkisstjórn frá og buðu upp á nýjar kosningar.  Hvernig landinn nýtti það tækifæri var síðan til skammar fyrir íslenska þjóð.  Ég les oft á netinu að fólk tali um að byltingin hafi skilað hinu eða þessu, en byltingin skilaði fólki nýju vali og engu öðru.  Það var fólkið sjálft sem valdi í kosningunum, ekki byltingin sjálf.

Segðu frá slagorðum og orðatiltækjum í tengslum við mótmælin sem þér er kunnugt um.   Vanhæf ríkisstjórn, við erum óþjóð.

Hefur þú tekið þátt í öðrum mótmælum nýverið, t.d. gegn Icesave? Viltu segja frá þessu? Nei, ég hef ekki tekið þátt í fleiri mótmælum nema með undirskrift minni á mótmælalista InDefence samtakanna sem að lokum felldu IceSave samninginn.

Kreppan
Finnst þér að það sé eða hafi verið kreppa á Íslandi sl. 12-14 mánuði? Hvernig hefur þú orðið var við hana? Ég hef verið atvinnulaus í 1 ár í þessum mánuði þannig að ég hef orðið vel var við kreppuna.  Er með háskólapróf og féll úr 800.000 kr/mán niður í 170.000 kr/mán í launum.

Hefur þú upplifað kreppu áður? Að hvaða leyti er núverndi kreppa sambærileg eða ekki sambærileg við aðrar kreppur sem verið hafa í landinu að þínu mati? Ég er 33ggja ára og hef ekki upplifað kreppu áður að mínu viti.

Hvernig hefur kreppan haft áhrif á neysluvenjur þínar (innkaup, akstur, munaðarvörur t.d.)? Ég ek minna, nota eingöngu seðla í viðskiptum og spara mjög við mig.  Hinsvegar hef ég þannig séð ekki mikið minna á milli handanna, ég greiði minna niður af lánum.  Ég var aldrei vanur að spreða í munað, jafnvel þegar tekjurnar voru mjög góðar.  Ég hef alla tíð skammtað minni fjölskyldu ákveðna upphæð til að lifa af mánuðinn og sú upphæð hefur ekki breyst, þó hækkað smá í takt við verðlagið.

Hver eru helstu áhrif kreppunnar á fjölskyldulíf þitt (streita, heilsufar, samvera t.d.)? Kreppan hefur lítil sem engin áhrif á neitt af þessu.  Mér leiðist stundum að hafa ekki vinnu, en ég eyði meiri tíma með mínum börnum en áður, sem og minni konu og í raun líður mér afskaplega vel.  Hefði ég fjárhagsáhyggjur liði mér þó hörmulega, en sem betur fer tók ég ekki þátt í góðærinu, skulda lítið og slepp því líklega betur en flestir, jafnvel þeir sem hafa vinnu.

Hver telur þú að sé upplifun barna almennt af kreppunni? Hafa þau verið upplýst um hana og ef svo er á hverju hefur það helst oltið (aldri t.d.)?   Almennt tel ég að börn fari ekki illa út úr kreppunni.  Mín börn vita varla af henni nema þegar ég er að tuða eitthvað um hana og nota hana sem afsökun fyrir því að kaupa ekki eitthvað sem þau langar í.  Þó hef ég séð dæmi í skóla minna barna þar sem börnum líður illa, oftast þá vegna skilnaðar foreldra og fjárhagsvanda þeirra.  Flestum börnum stendur þó á sama held ég, kannski fagna sum börn henni ómeðvitað þar sem þau fá nú meiri athygli foreldra sinna.

Upplifir þú að löngun þín til að taka þátt í félagslífi og grasrótarstarfsemi hafi breyst á undanförnu ári? Geturðu lýst þessu?  Já.  Ég fór t.d. í framboð fyrir Borgarahreyfinguna á síðasta ári þar sem ég vildi koma slíkri rödd áfram inn á þing.  Þar áður hafði ég ekki verið meðlimur í félagi síðan ég æfði fótbolta 9 ára gamall.

Hefur kreppan haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ef svo er hvaða ráð hefur þú notað til að takast á við þetta?  Lítil áhrif, ég verð þó stundum dapur yfir því að hafa ekki vinnu, en það er ekki eitthvað sem veldur mér þunglyndi samt.  Í raun líður mér vel með mína tilveru og tel það ekki svo slæmt að geta í framtíðinni sagst hafa verið fórnarlamb kreppunnar þó ég hafi sloppið vel úr henni og lifað hana af á góðan hátt þrátt fyrir töluvert mótlæti.

Hvaða áhrif hefur kreppan haft á trúarlíf þitt (fer oftar/sjaldnar í kirkju t.d.)?Ég er trúlaus og kreppan hefur ekki haft nein áhrif á trúarlíf mitt.

Í hvaða mæli hefur þú tekið upp „þjóðleg“ gildi eða siði í kjölfar hrunsins (ísl. matur, vel íslenskt, ferðast innanlands t.d.)?  Ekkert slíkt hef ég tekið upp, utan þess að ég vel kannski ómeðvitað oftar íslenskar vörur?

Hefur lífsviðhorf þitt hugsanlega breyst á einhvern hátt eftir hrunið og þá hvernig? Ég held ekki.  Ég hef alltaf verið álitinn léttruglaður og það hefur ekkert breyst.

Hefur viðhorf þitt gagnvart því að búa á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi  breyst á undanförnu ári og hvers vegna? Nei, ég hef lengi viljað búa í þorpi úti á landi.

Hefur þú misst vinnuna? Ef svo er hvaða áhrif hefur það haft á þig og þína nánustu? Já ég hef misst vinnuna, sjá svör hér að ofan hvað það varðar.

Hvernig hefur kreppan með tilheyrandi niðurskurði haft áhrif á vinnustað þinn? Vinnustaður minn lagðist af.

Hvaða nýsköpun er þér kunnugt um eða annað jákvætt sem gæti komið út úr kreppunni? Ef ég vissi það, þá væri ég að vinna að henni.

Hefur þú eða fólk sem þú þekkir leitað til hjálparsamtaka sem afleiðing af hruninu eða kreppunni? Viltu segja frá þessu? Ég þekki engann sem leitað hefur til slíkra samtaka og mér dettur heldur enginn í mínu nánasta umhverfi í hug sem slíkt gæti hafa þurft að gera.  En maður veit hinsvegar aldrei...

Hefur þú íhugað að flytja úr landi? Hvers vegna og hvert þá helst? Þekkirðu aðra sem hafa gert það, til hvaða landa og hvers vegna? Ég mundi flytja úr landi ef mér byðist vinna þar.  Ég er þó ekki að leita eftir slíku.

Áhrif kreppunnar á framtíðaráform ungs fólks eru margvísleg, t.d. í sambandi við húsnæðiskaup. Hver er reynsla þín af þessu? Ég reikna með því að fólk muni sjá að sér á næstunni og ekki reikna sín framtíðaráform út frá forsendum bankanna heldur gera ráð fyrir meiri verðbólgu og slíku.   Persónulega hafði ég hugsað mér að stækka við mig eða jafnvel huga að kaupum á annarri íbúð en ætla að bíða þar til lánakjör verða betri og þak verður sett á verðbólguna og þannig verði áhættunni jafnað á milli lántaka og lánveitanda.

Finnst þér að þú hafir orðið var/vör við óraunhæfar væntingar fólks í sambandi við björgunaraðgerðir frá hinu opinbera? Hvernig lýsir þetta sér?  Já, ég er þreyttur á sukkurum sem vilja að ríkið borgi undir þá jeppann.  Mér var boðin endurfjármögnun á sínum tíma og mér sagt að þá gæti ég veitt mér hitt og þetta.  Ég neitaði og í dag neita ég að borga fyrir gloríur annarra sem höfðu sömu valkosti og ég.

Annað sem tengist kreppunni og þú vilt segja frá, t.d. hvaða lærdóm má draga af henni. Bankinn þinn elskar þig ekki, bankanum þínum er sama um þig.

Fjölmiðlun, umræða og upplýsingagjöf  
Hvernig finnst þér að fjölmiðlar hafi staðið sig við að upplýsa almenning um ástandið og ákvarðanir stjórnvalda? Hefur umræðan verið nægilega lýsandi eða skilvirk? Greinilega eru fjölmiðlar misnotaðir í pólitískum tilgangi, en það getur oft á tíðum verið upplýsandi þar sem fréttir þessa miðils eru ætlaðar til að klekkja á hinum en hins miðilsins til að klekkja á þessum.  Umræðan í fjölmiðlum er ekki hlutlaus og ekki nægilega skýr fyrir meðaljón eins og mig.  Álitsgjafar eru pólitískir eða hagsmunaaðilar að jafnaði.

Hafa upplýsingar frá stjórnvöldum verið fullnægjandi að þínu mati? Ef ekki hvað finnst þér að helst skorti? Ég hef ekki séð mikið af upplýsingum koma frá stjórnvöldum, hvorki frá pönnukökustjórn Geirs og Ingibjargar eða alltuppáborðum stjórn Jóhönnu og Steingríms.

Hvað finnst þér um hina pólitísku umræðu í sambandi hrunið og Icesave? Hefur hún t.d. verið skiljanleg/óskiljanleg?  Hún hefur snúist um skotgrafarpólitík og hefur verið algjörlega til skammar.

Hafa skoðanir þínar hugsanlega fremur mótast af viðræðum við annað fólk, bloggi, spjallrásum eða Facebook og þá hvernig? Ég les bloggsíður töluvert og líklega hafa þær mótað skoðanir mínar eitthvað.  Þó eru þær jafn misjafnar og þær eru margar og mismunandi skoðanir koma þar fram þannig að hver áhrif slíkra síðna eru í reynd, þori ég ekki að segja til um.  Ég nota ekki spjallrásir eða Facebook og er vinafár.

Facebook var mikið notað við að skipuleggja mótmæli og fjöldi hópa stofnaðir um hitt og þetta. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um í hvaða hópa þú skráðir þig og hvers vegna. Ég er ekki skráður á Facebook.

Annað
Þekkirðu sögur af jákvæðum eða neikvæðum viðhorfum erlendis í garð Íslendinga eftir hrunið? Segðu frá!  Ég man ekki eftir slíkum sögum í augnablikinu.

Hvaða brandara, vísur og sögusagnir um spillingu, klíkuskap, forréttindi, óhóf, mútur og svindl hefur þú heyrt í tengslum við bankahrunið, kreppuna og Icesave? Skemmtilegt væri að fá þetta sett á blað. Ég læt öðrum eftir að lista það upp, bendi þó á blogg Láru Hönnu Einarsdóttur á Eyjunni.

Þessi viðbót kom frá heimildarmanni 30. janúar 2010:

Ég vil bara ítreka við þig að komi Þjóðminjasafnið til með að halda til haga atburðum í kringum búsáhaldabyltinguna, að þið gleymið ekki dagskrá Alþingis þann 20.1.2009. 
Ég er nokkuð öruggur um að sú dagskrá kveikti í fleirum en mér.
Sjá : http://bloggheimar.is/bjoddn/?p=348
 
Þegar menn skoða í samhengi örvæntingu fólks, atvinnumissi, gengisfall o.fl og bera það svo saman við umræður ráðamanna á fyrsta fundi eftir mánaðarlangt jólafrí, þá er það að mínu mati lýsandi fyrir stéttaskiptinguna, hrokann og firringuna sem hinn svokallaði aðall býr við.  Persónulega missti ég vinnuna eftir búsáhaldabyltingu svo það var ekki minn hvati að því að mæta þarna heldur blinda ráðamanna sem Marie Antoinette kemst ekki einu sinni nálægt því að hafa sýnt. Sú blinda sýnir sig hvað best í dagskrá alþingis á fyrsta þingfundi ársins 2009.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.