LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiBankahrun, Brandari, Fjölmiðill, Kreppa, Mótmæli, Munnmæli, Vísa
Ártal2006-2010
Spurningaskrá112 Kreppan; hrunið og Búsáhaldabyltingin

Sveitarfélag 1950Kópavogshreppur
Núv. sveitarfélagKópavogsbær
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2010-1-18
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/27.1.2010
TækniTölvuskrift

Nr. 2010-1-18.

Heimildarmaður er 29 ára opinber starfsmaður sem er að ljúka grunnnámi í háskóla og býr í Kópavogi.

Bankahrunið
Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu fyrir bankahrunið (lífsstíll, viðhorf, hugsunarháttur t.d.)? Ég myndi lýsa því þannig að allir voru mjög jákvæðir og bjartsýnir. Allt var öllum mögulegt. Það var rosalega mikill hraði og mikið af þeim gildum eða fjölskylduhittingum voru ekki í hávegum höfð. Það sem var neikvætt þá var að þeir sem voru ósammála ráðandi skoðunum í þjóðfélaginu voru litnir hornauga, þeir voru álitnir heimskir, kommúnistar, fólk sem nennti ekki að vinna eða aumingjar. Það var óþolandi viðhorf. Kapitalistinn var eina sanna, hann bjargaði okkur öllum. Það var mikil frestunarþörf í öllu þjóðfélaginu, allir uppteknir við að kaupa og lifa, en enginn var að eyða tíma saman eða spjalla. Enn fleiri voru að gagnrýna það sem var í gangi. Þeir sem gagnrýndu voru álitnir skrítnir eða furðulegir, en slíkt hafði áður ekki verið til vansa í þjóðfélaginu.

Árin fyrir hrunið einkenndust af miklum framkvæmdum og gríðarlegri þenslu. Hvenær finnst þér að þú hafir séð einhverjar vísbendingar um hvað væri í vændum?  Ég hafði aldrei hugmynd um hversu stórir og alvarlegir hlutir væri í vændum. En ég var orðinn mjög hræddur um þá galla sem komu fram í þeim byggingum sem byggðar voru. Þetta var árið 2006 og 2007, slíkt hefur aukist núna, fleiri gallar eru að koma fram og alvarlegri. Ég tók strax þá ákvörðun að kaupa ekki íbúð í nýju hverfum heldur valdi ég mér hverfi sem var byggt upp á áttunda áratug síðustu aldar. Á þeim tímum þar sem verk voru unnin vel.

Mikið var um gagnrýni á íslenska banka í útlöndum og jafnvel innanlands fyrir hrunið. Að hvaða leyti tókst þú mark á þessari gagnrýni og hvaða áhrif hafði hún á þig? Ég tók mark á þessari gagnrýni og ég þoldi ekki þann sofanda hátt í íslenskum fjölmiðlum í málinu. Þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynnti að réttast væri að bjóða Dönum í fjármálakennslu á Íslandi, þá áttaði ég mig á því að hrokinn í feðraveldinu var algjör. Þá fór ég að lesa um kenningar John Stuart Mills og bókina hans um kúgun kvenna. Það hafði farið mest í taugarnar á mér að konur voru ekki gerendur í neinu heldur klappstýrir á hliðarkantinum. John Stuart Mill segjir í bók sinni að ráðandi kyn í þjóðfélagi fyllist hroka þegar hitt kynið fái ekki að taka jafnan þátt eða frelsti til athafna á við hitt.

Segðu frá því sem þú upplifðir (tilfinningar, atburðir) þegar tilkynnt var um bankahrunið. Hvernig leið þér daginn eða dagana á eftir og hvernig líður þér núna? Ég var alveg pollrólegur og ég var svo viss um að það færi í gang einhver vinna sem að skilaði einhverjum árangri. Ég var stöðugt að átta mig á því að málefnið væri stærra en ég hafði áttað mig á hverju sinni. Ég varð ekki reiður fyrr en að það kom í ljós að ekkert væri að gera. Steininn tók svo út þegar Alþingi hittist eftir áramót en á þeim tíma hafði mikið komið í ljós og Sjálfstæðismenn vildu ræða léttvín í búðir. Þá fyrst varð ég reiður.
Í dag er ég rólegur. Ég er reiður út í þá stjórnmálamenn sem hafa verið við stjórnvölinn og þá hugmyndafræði sem var ríkjandi og mátti ekki gagnrýna. En ég er mest reiður út í þá útrásarvíkinga sem stýrðu þessu öllu saman.

Finnst þér að þú skiljir/skiljir ekki orsök og afleiðingar hrunsins og hvernig ástandið er í þjóðfélaginu í dag? Geturðu lýst þessu? Ég skil ekki orsök eða afleiðingar. Ég átta mig ekki á því hvað er orsök og hvað er afleiðing í þessu öllu. Ég tel bara að þjóðfélagið sé gjörspillt, bæði stjórnmál, viðskipti og almenningur.

Margir hafa orðið fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að skuldir þeirra hafa margfaldst eða tapað fjármunum vegna hrunsins. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf viðkomandi, þitt eða annarra sem þú þekkir til?  Ég held að fólk hafi þurft að endurskoða og endurskipuleggja fjármálin sín frá grunni. Skoða og meta tekjustofna, en ekki síst að forgangsraða og meta útgjöld. En það sem ég held að hafi gerst líka og er eiginlega það fallega í þessu öllu, að fólk er farið að hugsa gagnrýnið og gagnrýnir þann tíma sem í allt fer. Þannig er fólk í kringum mig, bæði fjölskylda og vinir sem eyðir tíma saman, spjallar, borðar og spilar. Þetta eru farnar að vera ómetanlegar stundir og ég er að kynnast mörgu fólki upp á nýtt þegar áður var enginn sem gaf sér tíma til þess eða var ekki tilbúinn að opna tilfinningar gagnvart hvoru öðru.

Íslendingar sem bjuggu erlendis lentu margir í fjárhagsörðugleikum og sumir ferðamenn gátu ekki notað íslensk greiðslukort í útlöndum. Þekkir þú einhver dæmi um þetta sem þú getur sagt frá? Nei, ég þekki engin dæmi um þetta og ég held að þetta séu ekki fleiri en handfylli af dæmum og að íslenskir fjölmiðlar hafi blásið þetta upp eins og allt annað sem að er í mýflugumynd á þessu landi. Samanber fár í hvert skipti sem að ísbjörn gengur á land hérna.

Talað var um að æðstu stjórnendur banka bæru gríðarlega ábyrgð og ættu þess vegna að hafa laun í samræmi við það. Hvaða skoðun hafðir þú á þessu fyrir hrunið? En í dag? Ég var ekki sammála því á þeim tíma. Það er enginn sem er mikilvægari en annar að eiga skilið mörg árslaun annars á einum mánuði. Auðvitað þarf að vera hvetjandi fyrir fólk að mennta sig og sækjast eftir ábyrgð. En í dag er ég brjálaður yfir því að þessir menn ætli svo ekki að taka þá ábyrgð sem við borguðum þeim fyrir.

Hvað fannst þér um hina svo kölluðu útrásarvíkinga fyrir hrunið? En í dag? Mig langaði aldrei að vinna fyrir útrásarvíkingana og mér þótti þeir mjög hrokafullir. Ég vann oft við þjónustu við þá. Þeir voru flestir hrokafullir og leiðinlegir.

Meðan allt lék í lyndi héldu ýmsir því fram að tala ætti ensku í stórfyrirtækjum hér á landi. Hvað fannst þér um þetta á sínum tíma? En í dag? Ég var alla tíð á móti því og er enn í dag. Mér fannst þetta vera tilbúin þörf.

Mótmælin - Búsáhaldabyltingin  
Hvernig fréttir þú af mótmælunum? Hvenær fórst þú að taka mark á mótmælunum og skipuleggjendum þeirra eða gerðirðu það kannski alls ekki? Ég frétti af mótmælunum í fjölmiðlum. En ég fór ekki að taka mark á þeim fyrr en fólk í mínu nærumhverfi fór að taka þátt.

Tókst þú þátt í mótmælunum og hvers vegna? Ef þú tókst þátt hvað var kornið sem fyllti mælinn?  Ég tók þátt því ég var orðinn þreyttur á því að mínar skoðanir hafi aldrei átt möguleika innan þjóðfélagsins í allan þennan tíma. Svo átti að halda áfram að kæfa þær þrátt fyrir að hugmyndafræði ráðandi hópa hefði hrunið.

Hefur þú mótmælt áður (fyrir hrunið) og ef svo er hvenær og af hvaða tilefni? Ég hafði aldrei mótmælt áður og ég er ekki viss um að ég myndi gera það aftur. Þetta voru mikil átök og kröfðust mikillar orku frá þeim sem tóku þátt.

Hvernig fannst þér að stemningin eða andinn hafi verið á mótmælunum? Mér fannst vera mikil reiði en mér fannst ég líka vera upplifa að fólk sem hefði verið í minnihluta væri að fá uppreisn æru. Fólk var reitt en það vissi ekki við hvern það ætti að vera reitt, en það var ekki reitt út í hvort annað.

Hvaða skoðun hefur þú á átökunum við lögregluna? Áttu þau fullan rétt á sér eða e.t.v. alls ekki? Fannst þér mótmælin ganga of langt, vera passleg og réttlát eða hafa gengið of skammt? Þau áttu aldrei rétt á sér og gengu allt of langt.

Hvað finnst þér um frammistöðu lögreglunnar? Mér fannst lögreglan hafa staðið sig mjög vel og mín afar takmörkuðu samskipti við lögregluna voru mjög vinsamleg.

Telur þú að mótmælin hafi skipt máli eða skilað einhverjum árangri? Hvernig þá? Þau skiptu máli og þau urðu til þess að ný stjórn var mynduð fram að kosningum sem mér þótti vera mikilvægast.

Segðu frá slagorðum og orðatiltækjum í tengslum við mótmælin sem þér er kunnugt um. Ég var sjálfur með skilti sem á stóð: „Takk Geir fyrir að leyfa mér að mótmæla“ en með því var ég að vísa í ummæli Geirs þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að hann leyfði fólki að mótmæla. En ég varð svo reiður, ég upplifði svo mikinn hroka, það var ekkert hans að leyfa mér að mótmæla. Það er réttur allra í lýðræðisþjóðfélagi.

Hefur þú tekið þátt í öðrum mótmælum nýverið, t.d. gegn Icesave? Viltu segja frá þessu? Nei, ég hef ekki mótmælt Icesave og ég er ekki á móti þeim samningum. En ég er á móti þeirri hugmyndafræði og því fólki sem keyrði okkur í gjaldþrot.

Kreppan
Finnst þér að það sé eða hafi verið kreppa á Íslandi sl. 12-14 mánuði? Hvernig hefur þú orðið var við hana? Nei, það hefur ekki verið kreppa. Það hefur þrengt að og laun hafa lækkað og verð hækkað ásamt lánum. En það er ekki kreppa. Hér sveltur enginn og hér er enn starfhæft samfélag.

Hefur þú upplifað kreppu áður? Að hvaða leyti er núverndi kreppa sambærileg eða ekki sambærileg við aðrar kreppur sem verið hafa í landinu að þínu mati? Hef ekki upplifað kreppu áður.

Hvernig hefur kreppan haft áhrif á neysluvenjur þínar (innkaup, akstur, munaðarvörur t.d.)? Þetta er ekki kreppa. En þessar þrengingar hafa endurskipulagt neyslu mína og útgjöld. Ég hef verið fúsari til þess að taka aukavaktir og yfirvinnu. Ég hef nýtt mér frystingu lána tímabundið til þess að skapa mér varasjóði sem hurfu við hrunið ásamt greiðsluaðlögun. Ég er í námi og hálfu starfi, en ég hef staðið í skilum allan tímann. Ég keypti mér kort í strætó en með því sparaði ég bílinn og bensín. Ég hef verið markvissari í matarinnkaupum og ég er gjarnari á að elda heima og taka með mér nesti. Þegar ég fór til útlanda borðaði ég aldrei úti heldur eldaði heima. Það finnst mér gaman.

Hver eru helstu áhrif kreppunnar á fjölskyldulíf þitt (streita, heilsufar, samvera t.d.)? Áhrifin eru helst þau að neikvæðnin er farin að taka á öllu, umræðum við ættingja og umfjöllun í fjölmiðlum. Það er að verða óbærilegt. Fjölskylda mín hefur samt tekið markvisst á þessu með því að segja upp áskriftum á fjölmiðlum, elda saman, spila, ganga, fara í ræktina, sinna heimanámi saman, fara í leikhús og slíkt.

Hver telur þú að sé upplifun barna almennt af kreppunni? Hafa þau verið upplýst um hana og ef svo er á hverju hefur það helst oltið (aldri t.d.)? Ég á ekki í samskiptum við mörg börn en systir mín sem er á fysta ári í menntaskóla hefur stundum talið að hér væri allt að fara til andskotans og ekki séð þær lausnir sem verið er að stefna að því um þær var ekki fjallað. Þetta hefur orðið til þess að það hefur þurft að ræða þessi málefni við hana, jafnvel að spyrja hana að fyrra bragði. Hún hefur orðið full vonleysi en það er auðvelt að vinna hana upp úr því.

Upplifir þú að löngun þín til að taka þátt í félagslífi og grasrótarstarfsemi hafi breyst á undanförnu ári? Geturðu lýst þessu? Já, það hefur breyst. Í dag nenni ég ekki að stunda slíkt starf. En áður stundaði ég slíkt starf af fullum krafti.

Hefur kreppan haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ef svo er hvaða ráð hefur þú notað til að takast á við þetta? Nei, það hefur haft lítil áhrif, enda kannski höfum við bara breytt okkar venjum.

Hvaða áhrif hefur kreppan haft á trúarlíf þitt (fer oftar/sjaldnar í kirkju t.d.)? Hún hefur ekki haft nein áhrif.

Í hvaða mæli hefur þú tekið upp „þjóðleg“ gildi eða siði í kjölfar hrunsins (ísl. matur, vel íslenskt, ferðast innanlands t.d.)? Í raun hef ég ekki tekist á við nein þjóðleg gildi sérstök. Ég fór fjórum sinnum utan á síðasta ári sem er meira en meðallagi hjá mér en ég fór hringinn síðasta sumar en það var í tengslum við ættarmót. Ég hef á hverju sumri farið í útilegur eða göngur á Íslandi. Það hefur ekkert breyst og tíminn eða peningurinn í það ekki heldur.

Hefur lífsviðhorf þitt hugsanlega breyst á einhvern hátt eftir hrunið og þá hvernig? Ég tek ekkert sem sjálfsögðum hlut og ég nýt hverrar stundar betur. Einnig er ég þakklátur fyrir það sem ég hef og mér finnst gaman að búa mér til áætlanir og fylgja þeim eftir, það er gaman að sjá ávöxt þeirra. Ég er rólegri.

Hefur viðhorf þitt gagnvart því að búa á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi  breyst á undanförnu ári og hvers vegna? Nei, það er eins. Ég bý á höfuðborgarsvæðinu en ég ólst upp úti á landi.

Hefur þú misst vinnuna? Ef svo er hvaða áhrif hefur það haft á þig og þína nánustu?
Ég var rekinn frá þremur störfum fyrsta hálfa árið eftir hrun. En það hafði engin áhrif á mig, ég fór bara í önnur störf tímabundið. Störf sem ég hefði annars aldrei farið í.

Hvernig hefur kreppan með tilheyrandi niðurskurði haft áhrif á vinnustað þinn? Öll laun voru lækkuð um 5-10%. Ekki er hægt að kaupa neitt inn eða eyða í búnað eða tæki.

Hvaða nýsköpun er þér kunnugt um eða annað jákvætt sem gæti komið út úr kreppunni? Hér eru allir að prjóna og nýta hlutina betur.

Hefur þú eða fólk sem þú þekkir leitað til hjálparsamtaka sem afleiðing af hruninu eða kreppunni? Viltu segja frá þessu?
Ég þekki bara fólk sem hefur farið til þess að aðstoða og vinna sem sjálfboðaliðar. Tvö sem sérstaklega vildu aðstoða innflytjendur og nýbúa.

Hefur þú íhugað að flytja úr landi? Hvers vegna og hvert þá helst? Þekkirðu aðra sem hafa gert það, til hvaða landa og hvers vegna?
Ég hef hugsað mér að flytja erlendis í haust, en það er ekki vegna kreppu. Í raun hef ég meiri áhyggjur af því að fara utan vegna þess að lána íbúðina mína út.

Áhrif kreppunnar á framtíðaráform ungs fólks eru margvísleg, t.d. í sambandi við húsnæðiskaup. Hver er reynsla þín af þessu?Ég keypti íbúð á erlendu láni. Ég ætlaði að stækka við mig núna, enda byrjaður í sambúð og sé um að framfæra tvö yngri systkini mín sem búa hjá okkur. Þetta er mjög erfitt og það er mjög þröngt hjá okkur. En næsta vetur stóð til að flytja út til náms og við ætlum okkur að standa við þau áform. Bankinn er æstur í að ég breyti erlenda láninu mínu í íslenskt lán, en ég vil heldur borga af erlendu láni en íslensku láni sem getur tekið stökkbreytingum í hvert skipti sem að íslenskt efnahagskerfi hnerrar og einhver sjálfstæðisgrísinn stingur pening undan skatti eða fær lán án veða.

Finnst þér að þú hafir orðið var/vör við óraunhæfar væntingar fólks í sambandi við björgunaraðgerðir frá hinu opinbera? Hvernig lýsir þetta sér? Fólk varð rosalega óraunhæft í öllum sínum kröfum. Skyndilega varð réttlætanlegt að fara fram á að borga ekki skuldir sínar og ef að þú gast ekki borgað þau lán sem þú sjálf/ur  stofnaðir til þá voru það Jóhönnu og Steingrími að kenna. Þessi látalæti segja meira um þá sem hafa uppi þessar skoðanir en nokkri sinni um þær aðgerðir sem eru í boði. Fólk bjóst við töfralausnum, eins og það stæði til að leyfa öllum að byrja upp á nýtt.

Annað sem tengist kreppunni og þú vilt segja frá, t.d. hvaða lærdóm má draga af henni.  Það má muna að gagnrýna bæði fjölmiðla og stjórnvöld. Það má líka muna að vera vinir, eiga í fallegum samskiptum við vini, ættingja og ókunnuga. Þínar skoðanir eiga rétt á sér og þær eru ekki rangar þó að þær séu ekki samhljóma ríkjandi stjórnvöldum.

Fjölmiðlun, umræða og upplýsingagjöf  
Hvernig finnst þér að fjölmiðlar hafi staðið sig við að upplýsa almenning um ástandið og ákvarðanir stjórnvalda? Hefur umræðan verið nægilega lýsandi eða skilvirk? Fjölmiðlar á Íslandi hafa valdið mér sífellt meiri vonbrigðum. Steininn tók úr þegar Davíð Oddsson var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins, þessu samfélagi er ekki viðbjargandi og verður ávallt gjörspillt þar sem að virðing verður borinn fyrir fjármagni en ekki völdum og lýðræði.

Hafa upplýsingar frá stjórnvöldum verið fullnægjandi að þínu mati? Ef ekki hvað finnst þér að helst skorti? Mér finnst stjórnvöld og stjórnsýslan staðið sig með prýði. Núverandi ríkisstjórn með Jóhönnu, Steingrími og Gylfa hafa komið á óvart og staðið sig miklu betur en þeirra fylgismenn sjálfur þorðu að vona. Fólk í kringum mig, jafnvel hörðustu Sjálfstæðismenn, eru gapandi yfir því hvað Steingrímur stendur sig vel og hvað hann er að koma sterkur inn í íslensk stjórnmál. Ég held að Jóhanna sé góður og frekur stjórnandi, en ég held að Gylfi sé heiðarlegur.

Hvað finnst þér um hina pólitísku umræðu í sambandi hrunið og Icesave? Hefur hún t.d. verið skiljanleg/óskiljanleg? Hún hefur verið skiljanleg, enda er ég nemi í stjórnmálafræði. En hún er á gjörsamlega lágu plani, allavega gagnrýni og sú vörn sem ráðandi hugmyndafræði hafði uppi.

Hafa skoðanir þínar hugsanlega fremur mótast af viðræðum við annað fólk, bloggi, spjallrásum eða Facebook og þá hvernig? Nei, ég hef ekkert tekið þátt í slíkum samfélögum.

Facebook var mikið notað við að skipuleggja mótmæli og fjöldi hópa stofnaðir um hitt og þetta. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um í hvaða hópa þú skráðir þig og hvers vegna.  Ég var aldrei skráður í neina slíka hópa.

Annað
Þekkirðu sögur af jákvæðum eða neikvæðum viðhorfum erlendis í garð Íslendinga eftir hrunið? Segðu frá! Ég þekki ekki til neikvæðna saga, nema þær sem sagt er frá í fjölmiðlum. Allir mínir vinir erlendis hafa skilning á málinu og eru frekar fróðir um framvindu mála.

Hvaða brandara, vísur og sögusagnir um spillingu, klíkuskap, forréttindi, óhóf, mútur og svindl hefur þú heyrt í tengslum við bankahrunið, kreppuna og Icesave? Skemmtilegt væri að fá þetta sett á blað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.