LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiBankahrun, Brandari, Fjölmiðill, Kreppa, Mótmæli, Munnmæli, Vísa
Ártal2008-2010
Spurningaskrá112 Kreppan; hrunið og Búsáhaldabyltingin

Sveitarfélag 1950Akureyri
Núv. sveitarfélagAkureyrarkaupstaður
SýslaEyjafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2010-1-17
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/1.4.2010
TækniSkrift
Nr. 2010-1-17

Heimildarmaður: Óþekkt kona, 75 ára húsmóðir á Akureyri.

s1
Ég er húsmóðir sem verð 75 ára á þessu ári og hef átt heima á Akureyri s.l. 22 og hálft ár og þar áður á kirkju- og skólastað í sveit í 32 ár þar sem maðurinn minn var kennari. Ég hugsa um tveggja manna heimili, hús og garð og eiginlega er það nóg starf fyrir mig núorðið. Ég hef litla menntun en hún hefur dugað mér. Lauk svokölluðu fullnaðarprófi úr barnaskóla. Er alin upp af einstæðri móður sem veiktist þar næsta haust og þurfti að vera á sjúkrahúsi allan veturinn og þá var nú búið með mína skólagöngu. Stóri bróðir útvegarði mér vinnu í vist hjá fólki sem hann þekkti við að passa börn, þvo upp, þvo gólf og bleyjur, kaupa mjólk daglega og fleira og aldrei frí. En mig langaði í skóla og frétti af því að skólastjórinn minn ætlaði að stofna kvöldskóla og samdi við hjónin um að fá að fara en þá bara minnkaði kaupið mitt um helming, í 100 kr. úr 200 kr. á mánuði þó þetta væri bara að kvöldinu. Þarna voru kennd byrjunaratriði í ensku og dönsku og reikningur. En svo kom Akureyrarveikin og þá var búið með þennan skóla. Svo þegar ég var 19 ára fór ég í húsmæðraskóla og hafði bæði gagn og gaman af því og var búin að vinna mér fyrir vistinni þrátt fyrir eins árs vinnuhlé vegna berklaveiki. Frá 10 - 13 ára var ég í sveit að sumrinu við útiverk aðallega, reka kýr og sækja, sækja hesta og teyma við slóðadrátt og flytja mó á þurrkvöll, rifja hey og raka. Lítið gerði ég inni við annað en búa um rúmin á morgnana og hella úr koppunum og þrífa þá í læknum en það var ekkert klósett á bænum og heldur ekki vatns- eða skólpleiðsla en þarna kunni ég vel við mig samt. Frá 13 ára aldri hef ég aðallega unnið heimilisstörf, fyrst hjá öðrum og seinna á mínu heimili. Við vorum sex í heimili þegar flest var og enginn leikskóli eða skroppið út í búð eftir brauði eða öðru í sveitinni. Þegar börnin stækkuðu fór ég að vinna utan heimilis við það sem til féll, s.b. þrif í skólum, veðurathugun og kirkjuvörslu.

Og þá eru það nú svörin við spurningunum.

Bankahrunið
Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu fyrir bankahrunið (lífsstíll, viðhorf, hugsunarháttur t.d.)?
- Mér fannst bara vera alltof mikið hugsað um peninga og mikið var ég orðin leið á þessum fjármálafréttum sí og æ í sjónvarpinu og fegin þegar því linnti. Nú svo kepptist fólk við að kaupa, t.d. stærri.

s2
og stærri bíla og þó það ætti ekki fyrir þessu þá var ekkert mál að fá lán, seljendur lánuðu og svo bankarnir. Það var kannske von að fólk biti á agnið og sérstaklega yngra fólk og reynsluminna. Það var sagt frá því í fréttum fyrir hrun að skuldir heimilanna væru mestar hér af öllum Norðurlöndunum. Er það furða þó illa sé komið núna?

Árin fyrir hrunið einkenndust af miklum framkvæmdum og gríðarlegri þenslu. Hvenær finnst þér að þú hafir séð einhverjar vísbendingar um hvað væri í vændum?
- Ég gat alls ekki látið mér detta í hug þessi ósköp. En landið var stórskuldugt, ekki bara heimilin, vöruskiptajöfnuðurinn var búinn að vera óhagstæður ár eftir ár og þeir tóku bara lán til að borga eldri lánin. Mín húsmóðurhagfræði segir mér að það gangi ekki til lengdar að kaupa fyrir meira en kemur inn og lifa af lánum svo það hlaut eitthvað að gerast en hvað og hvenær? Frændi minn sagði við mig „Eftir fyllerí koma timburmenn“ og það eru orð að sönnu. Við vorum að tala um ástandið í þjóðfélaginu og leist ekki á, þetta var fyrir hrun.

Mikið var um gagnrýni á íslenska banka í útlöndum og jafnvel innanlands fyrir hrunið. Að hvaða leyti tókst þú mark á þessari gagnrýni og hvaða áhrif hafði hún á þig?  
- Ég hef líklega ekki fylgst nægilega vel með fréttum því ég man ekki eftir neinni gagnrýni á bankana, hef heldur ekki aðgang að netinu.

Segðu frá því sem þú upplifðir (tilfinningar, atburðir) þegar tilkynnt var um bankahrunið. Hvernig leið þér daginn eða dagana á eftir og hvernig líður þér núna?
- Auðvitað brá manni alveg rosalega og fyrst að Geir endaði töluna með því að mælast til þess að Guð blessaði landið þá hlaut nú útlitið að vera svart. Þá tóku við áhyggjur. Hvað verður um peningana sem við höfum nurlað saman og eigum í bankanum og ætlum að nota fyrir okkur sjálf, verða þeir að engu? En þetta varði ekki lengi, ég ákvað að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti eins og sagt var í mínu ungdæmi og þar við situr.

Finnst þér að þú skiljir/skiljir ekki orsök og afleiðingar hrunsins og hvernig ástandið er í þjóðfélaginu í dag? Geturðu lýst þessu?
- Jú mér finnst að ég skilji þetta nokkurn veginn. Það eru margar ástæður fyrir þessu og fyrst og fremst fráfarandi ríkisstjórn og hennar stefna. Það átti t.d. aldrei að selja bankana, ég var alltaf á móti því og það Björgúlfi og co ég held að hann hafi nú verið búinn að gera nóg af sér. Og nú er Ingibjörg Sólrún nýbúin að viðurkenna mistök sín og sinna, hún skrifar „Við hin höfðum ekki sjálfstraust til að draga það í efa“ þ.e.a.s. að stefna sjálfstæðismanna væri rétt. Þvílíkt óskasamstarfsfólk fyrir Sjálfstæðisflokkinn! Svo eru það útrásarvíkingarnir en ég er ekki viss um að þeir hafi gert annað en það sem leyft var í lögum eða a.m.k. ekki bannað en þau eru bara svo gloppótt sem alltaf er að koma í ljós, þeir sem setja þau, standa þeir sig nógu vel? Svo er það spilling og vinavæðing og fleira og fleira. Og allt þetta

s3
bitnar svo á almenningi, jafnt þeim sem ekkert hafa til saka unnið og hinum.

Margir hafa orðið fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að skuldir þeirra hafa margfaldast eða tapað fjármunum vegna hrunsins. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf viðkomandi, þitt eða annarra sem þú þekkir til?
- Hvað okkar líf varðar þá hefur þetta ekki mikil áhrif nema að peningarnir manns minnka og minnka þ.e.a.s. maður fær alltaf minna og minna fyrir 5000 kallinn. En við vorum einu sinni í þessari aðstöðu og það var ömurlegt að fá í hendur kvittun fyrir afborgun af húsinu og sjá að skuldin hafði bara vaxið. Við tókum það ráð að borga upp Lífeyrissjóðslánið með hagstæðara láni og vinna svo eins og við framast gátum því hana var hægt að fá í þá daga og allt blessaðist þetta. Það sama er uppi á teningnum hjá eldri dótturinni sem býr í Reykjavík, ég hef áhyggjur af henni því hún er ekki hraust og spurði hvort hún ætlaði ekki eitthvað að minnka við sig vinnuna hún er í þremur störfum „Nei“ sagði hún „Skuldirnar mínar eru alltaf að vaxa“. Og svo er maðurinn ekki í vinnu þó eru þau ekki nýbúin að kaupa húsið.

Íslendingar sem bjuggu erlendis lentu margir í fjárhagsörðugleikum og sumir ferðamenn gátu ekki notað íslensk greiðslukort í útlöndum. Þekkir þú einhver dæmi um þetta sem þú getur sagt frá?
- Nei ég þekki það ekki en það hefur verið annað en gaman. Yngri dóttirin býr í Berlín en hún er í vinnu og þarf ekki peninga að heiman.

Talað var um að æðstu stjórnendur banka bæru gríðarlega ábyrgð og ættu þess vegna að hafa laun í samræmi við það. Hvaða skoðun hafðir þú á þessu fyrir hrunið? En í dag?
-Það eiga allir að hafa laun í samræmi við sitt vinnuframlag og ábyrgð og eiga þá líka að standa sig en launamunur hefur aukist allt of mikið á undanförnum árum.

Hvað fannst þér um hina svo kölluðu útrásarvíkinga fyrir hrunið? En í dag?
-Mér fannst og finnst enn lítið til um þá og Jón  Ásgeir virkar eins og ábyrgðarlaus spjátrungur.

Meðan allt lék í lyndi héldu ýmsir því fram að tala ætti ensku í stórfyrirtækjum hér á landi. Hvað fannst þér um þetta á sínum tíma? En í dag?
- Það hefur mér alltaf fundist fráleitt þó það sé gott og nauðsynlegt að kunna önnur mál.


Mótmælin - Búsáhaldabyltingin  
Hvernig fréttir þú af mótmælunum? Hvenær fórst þú að taka mark á mótmælunum og skipuleggjendum þeirra eða gerðirðu það kannski alls ekki?
- Í svæðissjónvarpinu held ég og tók mark á þessu strax.

Tókst þú þátt í mótmælunum og hvers vegna? Ef þú tókst þátt hvað var kornið sem fyllti mælinn?
- Nei en ef dóttir mín sem býr í Berlín hefði verið hér þá hefðum við farið saman því við erum sama sinnis en maðurinn minn ekki og mér leiddist að hafa engan með mér.

Hefur þú mótmælt áður (fyrir hrunið) og ef svo er hvenær og af hvaða tilefni?
- Nei það hef ég ekki.

Hvernig fannst þér að stemningin eða andinn hafi verið á mótmælunum?
- Ég frétti af þeim í Reykjavík og fannst hann góður og Hörður Torfason standa sig vel.

Hvaða skoðun hefur þú á átökunum við lögregluna? Áttu þau fullan rétt á sér eða e.t.v. alls ekki? Fannst þér mótmælin ganga of langt, vera passleg og réttlát eða hafa gengið of skammt?
- Það er alltaf til fólk sem notar svona tækifæri til að gera óskunda og skaphundar til að fá útrás. En meiri hlutinn sýndist mér bara vera skikkanlegt fólk eftir sjónvarpinu að dæma.

Hvað finnst þér um frammistöðu lögreglunnar?
- Lögreglan var aðeins að gera skyldu sína og á rétt á því en auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé og ekki hægt að útiloka mistök.

Telur þú að mótmælin hafi skipt máli eða skilað einhverjum árangri? Hvernig þá?
- Já þau skiluðu þeim árangri að stjórnin fór frá og skipt var um seðlabankastjóra.

Segðu frá slagorðum og orðatiltækjum í tengslum við mótmælin sem þér er kunnugt um.
- Burt með Davíð! Vanhæf ríkisstjórn! og eitthvað fokking sme ég skil nú ekki (kannski eitthvað útlent blótsyrði).

Hefur þú tekið þátt í öðrum mótmælum nýverið, t.d. gegn Icesave? Viltu segja frá þessu?
- Nei ég hef heldur ekki frétt um nema þetta eina hérna.


Kreppan
Finnst þér að það sé eða hafi verið kreppa á Íslandi sl. 12-14 mánuði? Hvernig hefur þú orðið var við hana?
- Já svo sannarlega. Hærra vöruverð og minni atvinna, vinnuveitendur yngri

s4
sonar okkar sem býr í Reykjavík sögðu mörgum upp en hann var einn af þeim heppnu og hélt vinnunni.

Hefur þú upplifað kreppu áður? Að hvaða leyti er núverandi kreppa sambærileg eða ekki sambærileg við aðrar kreppur sem verið hafa í landinu að þínu mati?
- Ó já ég er nú ýmsu vön ég held að það sé meira atvinnuleysi núna en það kann að vera vegna þess að ungt fólk er orðið miklu menntaðra og sérhæfðara, t.d. eins og dótturdóttir mín sem útskrifaðist sem lyfjafræðingur í fyrrasumar, hún fékk bara sumarvinnu en til að gera eitthvað fór hún í Háskólann aftur, til að bæta einhverju við sig.

Hvernig hefur kreppan haft áhrif á neysluvenjur þínar (innkaup, akstur, munaðarvörur t.d.)?
- Á engan hátt, a.m.k. ennþá. Ef í hart færi myndi ég baka brauðið sjálf í staðinn fyrir að kaupa það. Ég hef vanist því að vera hagsýn í innkaupum og kaupi ekki einu sinni burðarpoka, það dregur sig saman og svo munar um það í sorpinu. Bóndinn sér um akstur og að sveitamannasið sameinar hann mörg erindi í eina ferð eins og áður.

Hver eru helstu áhrif kreppunnar á fjölskyldulíf þitt (streita, heilsufar, samvera t.d.)?
- Engin en við höfum bæði fengið krabbamein og lækningu við því en það tók sig upp í honum s.l. haust en það er ekki hægt að kenna kreppunni um það eða annað viðvíkjandi okkar heilsu.

Hver telur þú að sé upplifun barna almennt af kreppunni? Hafa þau verið upplýst um hana og ef svo er á hverju hefur það helst oltið (aldri t.d.)?
- Ég held að það velti algerlega á foreldrunum og aldri barnsins og skilningi. Þar sem ég þekki til hef ég ekki orðið vör við að þau líði neitt fyrir þetta ástand. Ég hafði gaman af því þegar yngri dóttirin sem býr í Berlín var hér heima s.l. sumar í fríi með dóttur sína og við vorum að horfa á sjónvarpsfréttir þá segir sú stutta „Alltaf þetta æseif“, „Mamma hvað er eiginlega þetta æseif“. Mömmunni vafðist nú bara tunga um tönn, að fara að útskýra það fyrir 6 ára barni en það gerði ekkert til því sú stutta var strax farin að leika sér aftur eins og ekkert væri.

Upplifir þú að löngun þín til að taka þátt í félagslífi og grasrótarstarfsemi hafi breyst á undanförnu ári? Geturðu lýst þessu?
- Nei alls ekki.

Hefur kreppan haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ef svo er hvaða ráð hefur þú notað til að takast á við þetta?
- Ekki hef ég orðið vör við það.

Hvaða áhrif hefur kreppan haft á trúarlíf þitt (fer oftar/sjaldnar í kirkju t.d.)?
- Því fer fjarri.

Í hvaða mæli hefur þú tekið upp „þjóðleg“ gildi eða siði í kjölfar hrunsins (ísl. matur, vel íslenskt, ferðast innanlands t.d.)?
- Engin breyting.

Hefur lífsviðhorf þitt hugsanlega breyst á einhvern hátt eftir hrunið og þá hvernig?
- Kannske farið að hugsa meira um þjóðfélagsmál.

Hefur viðhorf þitt gagnvart því að búa á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi  breyst á undanförnu ári og hvers vegna?
- Alls ekki.

Hefur þú misst vinnuna? Ef svo er hvaða áhrif hefur það haft á þig og þína nánustu?
- Nei ekki enn en auðvitað gæti það gerst s.s. vegna veikinda og það yrði vissulega áfall.

Hvernig hefur kreppan með tilheyrandi niðurskurði haft áhrif á vinnustað þinn?
- Þessu þarf ég ekki að svara.

Hvaða nýsköpun er þér kunnugt um eða annað jákvætt sem gæti komið út úr kreppunni?
- Maður er alltaf að lesa um ungt fólk sem er að hanna föt og vonandi er að þetta seljist hjá þeim. Svo var það ungur maður hér sem framleiddi dyramottur með kreppuslagorðum svo hef ég ekkert heyrt af því meira og held þetta hafi verið eitthvert grín. En það vantar ekki hugmyndirnar og vonandi að einhverjar komi að gagni. Jákvætt er að nú er mun auðveldara að fá menn til að vinna eitthvað smávegis. Í „góðærinu“ þurftum við t.d. að láta mála þakið. Málarar sögðu yfirleitt nei en svo var einn sem vildi gera það en kom svo ekki og lét ekki ná í sig. Að síðustu sá eldri sonurinn aumur á okkur og kom úr næstu sýslu með tvo strákana sína og þeir kláruðu þetta á einum degi. Síðastliðið ár höfum við líka látið gera við ýmsa hluti og heyrir ekki sagt „Þetta er ónýtt, keyptu bara nýtt“.

s5
Kannski kennir þetta fólki líka hagsýni.

Hefur þú eða fólk sem þú þekkir leitað til hjálparsamtaka sem afleiðing af hruninu eða kreppunni? Viltu segja frá þessu?
- Nei það hef ég ekki og myndi seint gera og ég þekki heldur engan sem hefur þurft þess. En fólk leitaði nú líka til hjálparsamtaka í sjálfu góðærinu, það sá maður í fréttum.

Hefur þú íhugað að flytja úr landi? Hvers vegna og hvert þá helst? Þekkirðu aðra sem hafa gert það, til hvaða landa og hvers vegna?
- Alls ekki. Ég þekki bara eitt tilfelli, það er sonur vinkonu minnar í Reykjavík, hann fór til Svíþjóðar með fjölskylduna og er núna búinn að fá vinnu og foreldrarnir ætla að fara þangað í heimsókn í sumar.

Áhrif kreppunnar á framtíðaráform ungs fólks eru margvísleg, t.d. í sambandi við húsnæðiskaup. Hver er reynsla þín af þessu?
- Yngri sonurinn, sem flutti suður, var farinn að velta fyrir sér íbúðarkaupum en var ekki búinn að gera alvöru úr því og hrósar nú happi enda í góðri leiguíbúð. Svo var það dóttursonur sem hafði augastað á íbúð, við vorum þá fyrir sunnan. Hann fór að skoða íbúðina og foreldrar, afar og ömmur líka, og allir voru sammála um að ráðleggja honum að bíða betri tíma svo hann leigir sér bara áfram húsnæði.

Finnst þér að þú hafir orðið var/vör við óraunhæfar væntingar fólks í sambandi við björgunaraðgerðir frá hinu opinbera? Hvernig lýsir þetta sér?
- Ég þekki engin dæmi um það en ég gæti trúað að það væru einhverjir. Það er alltaf til fólk sem finnst að einhverjir aðrir eigi að bjarga ef það kemst í vandræði.

Annað sem tengist kreppunni og þú vilt segja frá, t.d. hvaða lærdóm má draga af henni.
- Ég held að yngra fólk hafi bara gott af því að vita að það eru ekki alltaf jólin og forfeður þeirra hafi líka orðið að kljást við erfiðleika.


Fjölmiðlun, umræða og upplýsingagjöf  
Hvernig finnst þér að fjölmiðlar hafi staðið sig við að upplýsa almenning um ástandið og ákvarðanir stjórnvalda? Hefur umræðan verið nægilega lýsandi eða skilvirk?
- Nú ég hef ekkert út á fjölmiðla að setja ef þeir fá ekki upplýsingar geta þeir ekki miðlað þeim og stjórnvöld gefa þær stundum ekki upp frekar en lögreglan og hafa sjálfsagt einhverjar ástæður til þess.

Hafa upplýsingar frá stjórnvöldum verið fullnægjandi að þínu mati? Ef ekki hvað finnst þér að helst skorti?
- Sama og í næsta svari á undan.

Hvað finnst þér um hina pólitísku umræðu í sambandi hrunið og Icesave? Hefur hún t.d. verið skiljanleg/óskiljanleg?
- Mér finnst hún ekki kannske alveg óskiljanleg en ég vil segja flókin og illskiljanleg.

Hafa skoðanir þínar hugsanlega fremur mótast af viðræðum við annað fólk, bloggi, spjallrásum eða Facebook og þá hvernig?
- Fyrst og fremst af mínu eigin viðhorfi og kannske eitthvað viðræðum við annað fólk en alls ekki af bloggi eða þvíumlíku, af eðlilegum ástæðum því ég hef nefnilega ekki tölvu og skráði mig þess vegna ekki neins staðar. En börnin mín hafa öll tölvur og barnabörn á unglings- og fullorðinsaldri, einn var að sýna ömmu um daginn að hann væri meira að segia með Facebook í farsímanum sínum.

Facebook var mikið notað við að skipuleggja mótmæli og fjöldi hópa stofnaðir um hitt og þetta. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um í hvaða hópa þú skráðir þig og hvers vegna.
- Sama og í næsta svari á undan.


Annað
Þekkirðu sögur af jákvæðum eða neikvæðum viðhorfum erlendis í garð Íslendinga eftir hrunið? Segðu frá!
- Kunningi minn í Hollandi er nú ekki neikvæðari út í Íslendinga en svo að hann ætlar að koma hingað næsta sumar og kærastan hans líka. Ég býst reyndar við að krónan okkar spili þar eitthvað inn í. Ekki get ég heldur merkt það að pennavinkona mín í Þýskalandi sé neitt neikvæð út í okkur.

Hvaða brandara, vísur og sögusagnir um spillingu, klíkuskap, forréttindi, óhóf, mútur og svindl hefur þú heyrt í tengslum við bankahrunið, kreppuna og Icesave? Skemmtilegt væri að fá þetta sett á blað.
- Ég kunni brandara um þetta, ættaðan af netinu en er því miður búin að gleyma honum en ég skrifaði hann í bréf til þessa hollenska kunningja míns. Svo skrifaði hann mér í næsta bréfi brandara sem gengur þar um hollenska fjármálaráðherrann. Hann hljóðar þannig að það var svo kalt í Hollandi í vetur að fjármálaráðherrann þurfti að seilast í annarra manna vasa til þess að hlýja sér.
Svo er hér vísa, veit ekki eftir hvern.
Íslendingar Davíð dá
og dyggðir mannsins prísa.
Þetta er eins og allir sjá
öfugmælavísa.

Jæja seint koma sumir en koma þó og ég vona að þið séuð búin að fá fleiri en 30 svör núna og voru komin þegar viðtalið var í útvarpinu. En það er bara meira en að segja það að svara 45 viðamiklum spurningum og ekki gert í neinu hasti. Sérstaklega fyrir mig sem get ekki skrifað mikið í einu og hefði ekki gert þetta fyrir hvern sem er en mér er vel til Þjóðminjasafnsins, enda var ég starfsmaður þess um tíma þegar ég var í sveitinni. Bið svo kærlega að heilsa Lilju Árnadóttur.
Skrifað í mars 2010
Virðingarfyllst.
N.N.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.