LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiBankahrun, Brandari, Fjölmiðill, Kreppa, Mótmæli, Munnmæli, Vísa
Ártal2008-2010
Spurningaskrá112 Kreppan; hrunið og Búsáhaldabyltingin

Sveitarfélag 1950Hafnarfjörður
Núv. sveitarfélagHafnarfjarðarkaupstaður
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2010-1-16
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/16.3.2010
TækniSkrift
Nr. 2010-1-16

Heimildarmaður: Óþekkt kona, 65 ára sérkennari í Hafnarfirði.

s1
Ég er 65 ára kona, sérkennari í Hafnarfiði. Mér hefur alla tíð þótt fremur ógeðfellt þegar talað er um að þeir sem gæta peninga bæru meiri ábyrgð en þeir sem gæta barna og sjúklinga eða bara fólks yfirleitt. Og kannski vegna þess hve ég er lítið „peningalega þenkjandi“ var ég einfaldlega lítið að spá í þessa yfirþyrmandi þenslu. Hrunið kom því yfir eins og jarðskjálfti, átti alls ekki von á því. Við hjónin töpuðum ca. 1.200.000 á peningamarkarðssjóði en hugsum og segjum oft á dag „Hvað er það miðað við að missa vinnu“. Okkar börn halda öll sinni vinnu og reyna að takast á við vaxandi lán. Ég finn mikið til með fólkinu sem tekst það ekki, er hrædd um að margur sé að bugast út af því og vinnumissi. Í skólum landsins hafa allir áhyggjur af börnum og heimilum.
Ég dáðist mikið að fólkinu sem dreif sig í mótmælin þó ég sæti heima. Við höfum tekið þátt í greiðslustöðvun þegar hún hefur verið á döfinni, svo þægilegt að geta setið heima með prjónana í mótmælunum(!). Frammistaða lögreglunnar var góð og oft til fyrirmyndar.
Viðhorf mitt til landssvæða m.t.t. búsetu hefur ekkert breyst. Þegar börnin voru lítil bjuggum við úti á landi og það var dásamlegt og er það öruggleg enn. Ég hef ekki verið nógu dugleg í að breyta mínum neysluvenjum, ætla alltaf alveg

s2
að fara að gera það! Það segir sig sjálft að venjulegt launafólk ferðast lítið til útlanda á svona tímum, lætur sér fallega föðurlandið duga enda óteljandi staðir að skoða og veðurblíðan hér undanfarið yndisleg. Gaman að sjá og heyra hve margir eru að uppgötva hvað þeir búa á frábæru og fallegu landi. Ég er alveg jafn löt að fara að heiman eftir vinnu og áður en samverustundir stórfjölskyldunnar eru þær sömu og áður sem betur fer. Svo finnst mér prjónavakningin mjög góð, prjónaði meira að segja jólakortin í ár!
Já hrunið hefur haft ýmsar jákvæðar afleiðingar þó þær neikvæðu séu auðvitað skelfilegri. Fólk vakir betur yfir auðlegðum landsins, sér hvað virkjanir hafa skemmt og vill stoppa það. Það hugsar meira inn á við, vill rækta sjálft sig og sína sem betur fer. Íslenskt hugvit, hönnun og bara allt sem íslenskt er nýtur forréttinda. Fólk vill aukna framleiðslu, íslenskt grænmeti, finnur hvað það skarar fram úr því innflutta. Ég get t.d. ekki hugsað mér að bíta í innfluttan tómat í dag!
Björgunaraðgerðir? Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þær. Ég hef stutt þessa ríkisstjórn, get ekki hugsað til þess að þeir sem komu okkur í þessa stöðu taki við aftur. Og ég veit að þetta fólk hefur oft unnið nótt og dag. En einhvern

s3
veginn finnst mér eins og skipulagið sé ekki nógu markvisst. þá á ég sérstaklega við íbúðalán og bílalán sem snerta alla íbúa þessa lands. Og að byrja á að skerða ellilífeyrinn er gjörsamlega ósættanlegt. Eins að skilanefndir bankanna spili frítt án eftirlits strangra aðila. Afskriftir lána fólks og fyrirtækja virka handahófskenndar á almenning. Samlíkingin við „ættbálkaþjóðfélag“ var góð. Við erum svo fá og tengd að yfirstjórnin verður kannski alltaf erfið. Og við hugsum svo stórt, viljum vera eins og stóru löndin úti í heimi, yfirbyggingin er svo mikil. Kannski höfðum við alls ekki efni á að t.d. einsetja grunnskólana? Byggja allar þessar flottu byggingar? Þegar við heimsækjum skóla erlendis komum við oft inn í gömul hús. Og svo þarf alltaf arkitekta-samkeppni. Aldrei hægt að læra af mistökunum, alltaf eitthvað öðruvísi en gott þykir. Af hverju er ekki hægt að teikna einn skóla sem hentar ýmsum stefnum og endurtaka eða endurbyggja þegar næst þarf að byggja? Skólafólk kvíðir farmtíðinni. Umræðan er alla vega hér í Hafnarfirði að fjölga í bekkjum og jafnvel sameina skóla. Og sérkennslan hún er dýr, minnkar hún ekki? Einmitt þegar þörfin eykst.
Ég held nú að mér finnist upplýsingar frá stjórnvöldum hafi verið þokkalegar en ómarkvissar. Eins og langtíma- og skammtímamarkmið hafi skort.

s4
Og fólk spyr hvort annað: „Af hverju var ekki hægt að ná til baka eignum þessara útrásarvíkinga?“, „Af hverju var ekki hægt að ? ?“
Nú fagna Bakkavarabræður sigri í dýrasta salnum í London - hlægja að þjóðinni!

Afsakið hvað þetta berst seint, þetta var dálítið óaðgengilega sett upp. Lenti í „Frestunarbunkanum“.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.