LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiBankahrun, Brandari, Fjölmiðill, Kreppa, Mótmæli, Munnmæli, Vísa
Ártal2008-2010
Spurningaskrá112 Kreppan; hrunið og Búsáhaldabyltingin

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2010-1-13
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/26.2.2010
TækniSkrift
Nr. 2010-1-13

Heimildarmaður: Óþekkt kona, 31 árs, búsett í Reykjavík.

Bankahrunið
Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu fyrir bankahrunið (lífsstíll, viðhorf, hugsunarháttur t.d.)?
- Mér fannst t.d. sumarið fyrir hrunið allir byrjaðir að tala um kreppu þó svo að enginn tók það beint alvarlega og enginn virtist hafa beinar áhyggjur og héldu því uppteknum hætti í eyðslu og öðru.

Árin fyrir hrunið einkenndust af miklum framkvæmdum og gríðarlegri þenslu. Hvenær finnst þér að þú hafir séð einhverjar vísbendingar um hvað væri í vændum?
- Ég er ein af þeim sem tók ekki þátt í þessu brjálæði, keyri um á mínum gamla bíl og átti mitt túbusjónvarp. Mér fannst eyðslan í landinu oft gríðarleg og fannst fólk oftar en ekki lifa aðeins of hátt. Ég gat ekki séð að þetta gæti gengið til lengdar en grunaði samt aldrei að hlutirnir færu svona illa. Kannski er ég bara barnaleg á þann hátt.

Mikið var um gagnrýni á íslenska banka í útlöndum og jafnvel innanlands fyrir hrunið. Að hvaða leyti tókst þú mark á þessari gagnrýni og hvaða áhrif hafði hún á þig?  
- Ég pældi ósköp lítið í því.

Segðu frá því sem þú upplifðir (tilfinningar, atburðir) þegar tilkynnt var um bankahrunið. Hvernig leið þér daginn eða dagana á eftir og hvernig líður þér núna?
- Ég var ekki á landinu þegar hrunið varð. Ég var í bakpokaferðalagi um Afríku. Fór 1. sept. 2008 og kom til baka í endaðan jan. 2009. Því voru fréttirnar svolítið öðruvísi fyrir mig og ferðafélaga mína. Ég var í viðskiptum við Kaupþing og var það hann sem fór síðastur. Ég man að ég hugsaði hvað ég var fegin því því þegar hinir tveir voru farnir kom það mér ekkert á óvart þegar Kaupþing fór. Við reyndum að fylgjast með fréttum að heiman og vorum þó ósköp týndar fyrstu dagana. Mamma var dugleg að hafa samband og segja okkur fréttir. Hún er hörð kona en var oft klökk í símanum það fékk mikið á mig og ég vissi ekki hvað ég átti að halda. Vangaveltur okkar næstu daga voru hvernig þetta myndi hafa áhrif á okkar ferðalag, ættum við að fara fyrr heim, breyta áherslunum í ferðinni eða hvað annað. Við höfðum áhyggjur af peningunum okkar og eins hvað við myndum gera þegar heim kæmi í sambandi við vinnu og annað. Við breyttum ferðatilhögun okkar nokkur, við vorum fjórar

s2
saman en tvær fóru fyrr heim út af hruninu eða í endaðan nóv. Við vorum sem sagt tvær eftir, ég hafði náð að safna góðum pening og fyrst hann var öruggur ákvað ég að vera áfram og njóta lífsins ef þetta væri nú kannski í síðasta sinn í langan tíma og taka á hlutunum þegar ég kæmi heim. Hin var með örugga vinnu heima (í ferðaþjónustu) og gat því leyft sér að eyða meira. Hún fór þó aðeins fyrr en ég og ég fór til Dubai í tvær vikur til að klára ljúfa lifið áður en maður kæmi heim í kaldan veruleikann. Í dag er ég í ágætisstandi, hef vinnu og með fjármálin svona nokkuð á hreinu. En ég hef líka búið hjá foreldrum mínum til að ná endum saman en er loks flutt aftur í íbúðina mína sem hefur verið í leigu, er svo á leiðinni í 5 vikna ferð til Ástralíu í mars. Mitt viðhorf er sem sagt að lifa núna. Maður veit greinilega ekkert hvað gerist næst og þá er eins gott að hafa eytt peningunum í eitthvað skemmtilegt!

s3
Finnst þér að þú skiljir/skiljir ekki orsök og afleiðingar hrunsins og hvernig ástandið er í þjóðfélaginu í dag? Geturðu lýst þessu?
- Manni finnst auðvitað erfitt að skilja hvernig þetta gat allt gerst. Þetta er svo umfangsmikið, hvernig gat þessi gengdarlausa græðgi staðið svona lengi og hvernig komust þeir upp með þetta. Hverjar afleiðingarnar svo eru eiga örugglega eftir að koma betur í ljós. Allt hefur hækkað og fólk hefur minna á milli handanna en um leið finnst mér líf mitt og þeirra nánustu í kringum mig ekki hafa breyst mikið.

Margir hafa orðið fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að skuldir þeirra hafa margfaldast eða tapað fjármunum vegna hrunsins. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf viðkomandi, þitt eða annarra sem þú þekkir til?
- Ég lenti ekki illa í hruninu, hef alltaf passað vel upp á mitt. Auðvitað hafa lánin mín hækkað á íbúðinni en að öðru leyti hef ég ekki orðið fyrir miklum áhrifum og það má segja um flesta í kringum mig. En ég held að það er ekki spurning að margir hafa orðið illa úti og mun það hafa áhrif um ókomna tíð. Það er auðvitað misjafnt hver á í hlut eins og t.d. eldra fólk sem var að missa ævisparnað sinn eða hvort það var einhver sem lifði langt um efni fram. Ég finn til með fyrri einstaklingunum og held að hann eigi erfitt með að sætta sig við stöðu mála en ekki svo mikið með þessum seinni.

Íslendingar sem bjuggu erlendis lentu margir í fjárhagsörðugleikum og sumir ferðamenn gátu ekki notað íslensk greiðslukort í útlöndum. Þekkir þú einhver dæmi um þetta sem þú getur sagt frá?
- Enginn sem ég þekki lenti í þessu. Við vorum allar með 2 kort á mann Visa og Euro og alltaf virkaði alla vega annað kortið. Það sem gengið á kortunum var upp og niður vorum við oft hræddar að nota kortin út af því. Enda lentum við í því að gengið tvöfaldaðist einn dag þarna rétt á eftir hrun og við fengum að borga þann brúsa

s4
Talað var um að æðstu stjórnendur banka bæru gríðarlega ábyrgð og ættu þess vegna að hafa laun í samræmi við það. Hvaða skoðun hafðir þú á þessu fyrir hrunið? En í dag?
- Ég hef þá skoðun að greinilegt er að þeir hafa ekki verið að vinna vinnuna sína og bera svo enga ábyrgð þegar allt fer í hundana. Mér fannst þeir allir sleppa of auðveldlega en um leið hef ég kannski ekki kynnt mér málið nógu vel, veit ekki.

Hvað fannst þér um hina svo kölluðu útrásarvíkinga fyrir hrunið? En í dag?
- Ég pældi lítið í þeim fyrir hrunið. Í dag finnur maður auðvitað til reiði en ég reyni að láta það ekki hafa of mikil áhrif á mig.

Meðan allt lék í lyndi héldu ýmsir því fram að tala ætti ensku í stórfyrirtækjum hér á landi. Hvað fannst þér um þetta á sínum tíma? En í dag?
- Ég hafði ekki heyrt af þessu og því ekki velt því fyrir mér.


Mótmælin - Búsáhaldabyltingin  
Hvernig fréttir þú af mótmælunum? Hvenær fórst þú að taka mark á mótmælunum og skipuleggjendum þeirra eða gerðirðu það kannski alls ekki?
- Eins og gefur að skilja missti ég eiginlega alveg af þessum miklu mótmælum. Frétti af þeim aðeins út þar sem oftast voru fréttirnar ansi ýktar þannig að maður vissi varla hvað maður átti að halda.

Tókst þú þátt í mótmælunum og hvers vegna? Ef þú tókst þátt hvað var kornið sem fyllti mælinn?
- Ég tók voða lítið þátt. Enda lítið á svæðinu og þegar ég kom heim hélt ég bara áfram að skipta mér lítið að.

Hefur þú mótmælt áður (fyrir hrunið) og ef svo er hvenær og af hvaða tilefni?
- Hef lítið verið í því. Er frekar róleg týpa.

Hvernig fannst þér að stemningin eða andinn hafi verið á mótmælunum?
- Af því sem ég frétti fannst mér vera frekar ýkt stemmning og ég man ég hugsaði að nú væri fólk alveg búið að missa það.

s5
Hvaða skoðun hefur þú á átökunum við lögregluna? Áttu þau fullan rétt á sér eða e.t.v. alls ekki? Fannst þér mótmælin ganga of langt, vera passleg og réttlát eða hafa gengið of skammt?
- Mér fannst þau ganga allt of langt og þessar árásir á lögguna algjört bull.

Hvað finnst þér um frammistöðu lögreglunnar?
- Mér fannst löggan standa sig vel og máttu alveg taka á fólkinu sem var þarna eins og að fá útrás fyrir einhverja gremju eða skemmdarþörf sem var ekkert endilega tengd hruninu. Ég meina hver önnur en við borgum brúsann á öllum þessum skemmdum sem áttu sér stað á almenningseignum?

Telur þú að mótmælin hafi skipt máli eða skilað einhverjum árangri? Hvernig þá?
- Mögulega hafa þau gert það. Til að sýna stjórnendum að þjóðin er ekki til að taka hverju sem er.

Segðu frá slagorðum og orðatiltækjum í tengslum við mótmælin sem þér er kunnugt um.
- Það helsta er Iceslave og að eitthvað var keypt korteri fyrir hrun.

Hefur þú tekið þátt í öðrum mótmælum nýverið, t.d. gegn Icesave? Viltu segja frá þessu?
- Hef ekki gert það.


Kreppan
Finnst þér að það sé eða hafi verið kreppa á Íslandi sl. 12-14 mánuði? Hvernig hefur þú orðið var við hana?
- Ég hef aðallega fundið fyrir henni út af hækkunum á vöruverði, bensíni og skatti o.fl. Að öðru leyti hef ég svo sem ekki mikið fundið fyrir henni. Allar hækkanirnar koma auðvitað mikið við budduna. Ég hef því reynt að stilla innkaupum í hóf og hugsa mig alltaf tvisvar um áður en ég eyði peningum í eitthvað. Leita uppi tilboð og annað. Ég reyni líka að nýta allar ökuferðir eins og ég get.

Hefur þú upplifað kreppu áður? Að hvaða leyti er núverandi kreppa sambærileg eða ekki sambærileg við aðrar kreppur sem verið hafa í landinu að þínu mati?
- Nei hef ekki gert það.

Hvernig hefur kreppan haft áhrif á neysluvenjur þínar (innkaup, akstur, munaðarvörur t.d.)?
- Sjá svar nr. 1.

Hver eru helstu áhrif kreppunnar á fjölskyldulíf þitt (streita, heilsufar, samvera t.d.)?
- Hún hefur haft lítil áhrif á okkur.

Hver telur þú að sé upplifun barna almennt af kreppunni? Hafa þau verið upplýst um hana og ef svo er á hverju hefur það helst oltið (aldri t.d.)?
- Ég held þau finna fyrir henni en skilja hana kannski ekki nógu vel til að hafa of miklar áhyggjur en auðvitað fer það eftir aldri og svo heimilisaðstæðum hvort foreldrar eru í basli eða ekki.

Upplifir þú að löngun þín til að taka þátt í félagslífi og grasrótarstarfsemi hafi breyst á undanförnu ári? Geturðu lýst þessu?
- Get ekki sagt það.

Hefur kreppan haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ef svo er hvaða ráð hefur þú notað til að takast á við þetta?
- Hún hefur haft það en ég hef ekki leyft því að ná svo miklum tökum á mér. Reynt að taka „þetta reddast“ pakkann á þetta. Lifa svolítið í núinu og ekki hafa of miklar áhyggjur af framhaldinu.

s6
Hvaða áhrif hefur kreppan haft á trúarlíf þitt (fer oftar/sjaldnar í kirkju t.d.)?
- Ég er ekki mjög trúuð og hefur það lítið breyst.

Í hvaða mæli hefur þú tekið upp „þjóðleg“ gildi eða siði í kjölfar hrunsins (ísl. matur, vel íslenskt, ferðast innanlands t.d.)?
- Ég reyni að velja svolítið íslenskt þegar ég versla inn en því miður ræður samt oftast verðið því sem ég kaupi.

Hefur lífsviðhorf þitt hugsanlega breyst á einhvern hátt eftir hrunið og þá hvernig?
- Maður sér það hvað þetta er allt hverfult og eins gott að taka hlutina ekki sem sjálfsagða. Reyna að lifa meira í núinu og njóta lífsins.

Hefur viðhorf þitt gagnvart því að búa á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi  breyst á undanförnu ári og hvers vegna?
- Það hefur lítið breyst. Ég bý á höfuðborgarsvæðinu og myndi ekki vilja breyta því.

Hefur þú misst vinnuna? Ef svo er hvaða áhrif hefur það haft á þig og þína nánustu?
- Ég missti ekki vinnuna en hef alltaf getað gengið að vinu á vinnustað mínum þegar ég kem heim úr ferðalögum mínum. Þetta er í fyrsta sinn sem það gekk ekki. Ég var því atvinnulaus í ca. 4 mánuði þar til ég fékk vinnu um sumarið og hef svo verið með vinnu síðan.

Hvernig hefur kreppan með tilheyrandi niðurskurði haft áhrif á vinnustað þinn?
- Það hefur verið mun minna að gera. En samt í lagi ennþá.

Hvaða nýsköpun er þér kunnugt um eða annað jákvætt sem gæti komið út úr kreppunni?
- Fullt af fólki hefur tekið sig til og endurhugsað líf sitt og úr því hafa komið flott lítil fyrirtæki eða annað sem auðvitað er gaman.

Hefur þú eða fólk sem þú þekkir leitað til hjálparsamtaka sem afleiðing af hruninu eða kreppunni? Viltu segja frá þessu?
- Enginn sem ég veit af í kringum mig.

Hefur þú íhugað að flytja úr landi? Hvers vegna og hvert þá helst? Þekkirðu aðra sem hafa gert það, til hvaða landa og hvers vegna?
- Ég íhugaði það því eftir Afríku fannst mér ekki mikið fyrir mig að hafa og því fannst mér tilvalið að stinga bara af og lenda í fleiri ævintýrum. En ég fann svo ástina og hætti við að fara. Enginn í kringum mig hefur flutt sem hafði ekki planað það áður.

Áhrif kreppunnar á framtíðaráform ungs fólks eru margvísleg, t.d. í sambandi við húsnæðiskaup. Hver er reynsla þín af þessu?
- Fólk heldur að sér höndunum, enginn þorir að gera neitt eða kaupa.

Finnst þér að þú hafir orðið var/vör við óraunhæfar væntingar fólks í sambandi við björgunaraðgerðir frá hinu opinbera? Hvernig lýsir þetta sér?
- Mér finnst það einna helst hafa komið fram í að fólk vill að stjórnvöld bjargi heimilunum sem auðvitað er þörf á. Annars finnst mér flestir hafa litla trú á yfirvöldum og að þau muni bjarga einhverju.

s7
Annað sem tengist kreppunni og þú vilt segja frá, t.d. hvaða lærdóm má draga af henni.
- Allt er best í hófi!


Fjölmiðlun, umræða og upplýsingagjöf  
Hvernig finnst þér að fjölmiðlar hafi staðið sig við að upplýsa almenning um ástandið og ákvarðanir stjórnvalda? Hefur umræðan verið nægilega lýsandi eða skilvirk?
- Meðan ég var úti fannst mér hlutirnir vera málaðir ansi svartir. Maður bjóst nánast því við heimsendi þegar heim var komið sem var svo ekkert málið.

Hafa upplýsingar frá stjórnvöldum verið fullnægjandi að þínu mati? Ef ekki hvað finnst þér að helst skorti?
- Mér finnst umræða hafa verið mjög fram og til baka og það sama með upplýsingar frá stjórnvöldum. Maður vissi aldrei hvern maður átti að hlusta á eða trúa. Það var aldrei nein almennileg yfirsýn.

Hvað finnst þér um hina pólitísku umræðu í sambandi hrunið og Icesave? Hefur hún t.d. verið skiljanleg/óskiljanleg?
- Sama hér, maður fer gjörsamlega í hringi með því að reyna að fylgjast með og átta sig á því sem er í gangi fyrir utan hvað umræðan gat einfaldlega gert mann þunglyndan. Því forðaðist ég oft bara að hlusta.

Hafa skoðanir þínar hugsanlega fremur mótast af viðræðum við annað fólk, bloggi, spjallrásum eða Facebook og þá hvernig?
- Þær hafa mögulega gert það að vissu leyti því manni fannst kannski stundum umræðan þar vera á eðlilegra plani þar sem maður gat samsamað sig með þeim pælingum.

Facebook var mikið notað við að skipuleggja mótmæli og fjöldi hópa stofnaðir um hitt og þetta. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um í hvaða hópa þú skráðir þig og hvers vegna.
- Ég var lítið í því að skrá mig í hópa.


Annað
Þekkirðu sögur af jákvæðum eða neikvæðum viðhorfum erlendis í garð Íslendinga eftir hrunið? Segðu frá!
- Við fengum ýmis viðbrögð á meðan við vorum úti og þá alltaf frá öðrum ferðalöngum sem virtust vera að fylgjast nokkuð með því sem var að gerast úti í heimi. Flestir fundu til með okkur og höfðu áhyggjur að við ættum nú enga peninga. Við vorum meira að segja einu sinni spurðar hvort við værum búnar að borða og líka hvort við hefðum efni á að borga fyrir hluti sem við vorum að kaupa í búðum. En þetta fundum við mest fyrir rétt eftir hrun. Við lentum líka einu sinni í manni frá Frakklandi sem var mjög harður í okkar garð og sagði að við Íslendingar ættum

s8
þetta skilið. Við tókum þetta allar svolítið nærri okkur en tókum ákvörðun fljótt að láta ekki svona skemma fyrir okkur ferðina. Upp til hópa var fólk almennilegt við okkur. En það er á hreinu að við vorum ekki eins stoltar að segja frá því að við værum frá Íslandi út af smá stressi yfir því hvernig fólk myndi bregðast við. Við vorum yfirleitt að reyna að segja fólki að þetta væri ekki eins slæmt og það hljómaði í fjölmiðlum þó við kannski vissum það ekkert sjálfar.

Hvaða brandara, vísur og sögusagnir um spillingu, klíkuskap, forréttindi, óhóf, mútur og svindl hefur þú heyrt í tengslum við bankahrunið, kreppuna og Icesave? Skemmtilegt væri að fá þetta sett á blað.
- Ekkert sem ég man núna.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.