LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiBankahrun, Brandari, Fjölmiðill, Kreppa, Mótmæli, Munnmæli, Vísa
Ártal2008-2010
Spurningaskrá112 Kreppan; hrunið og Búsáhaldabyltingin

SýslaÁrnessýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2010-1-12
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/26.2.2010
TækniTölvuskrift
Nr. 2010-1-12

Heimildarmaður: Óþekktur karlmaður, 56 ára, fv. alþingismaður, býr í Árnessýslu.

s1
Þjóðminjasafn Íslands.
b.t. Ágústs Ólafssonar,
fagstjóra þjóðhátta.

Efni: Svör við spurningum um kreppu, hrun og Búsáhaldabyltingu.

Bankahrunið
Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu fyrir bankahrunið (lífsstíll, viðhorf, hugsunarháttur t.d.)?

Árin fyrir hrunið einkenndust af miklum framkvæmdum og gríðarlegri þenslu. Hvenær finnst þér að þú hafir séð einhverjar vísbendingar um hvað væri í vændum?
- Grunnur þessa var í raun mistök sem áttu sér stað þegar bankarnir voru einkavæddir. Vísbendingar komu í raun ekki fram fyrr en síðla árs 2007, ýmsar spurningar vöknuðu en ég hafði þó ekki hugmyndaflug til þess að skynja að hlutirnir væru eins geggjaðir og síðar kom í ljós.

Mikið var um gagnrýni á íslenska banka í útlöndum og jafnvel innanlands fyrir hrunið. Að hvaða leyti tókst þú mark á þessari gagnrýni og hvaða áhrif hafði hún á þig?  
- Ég trúði að bankarnir stæðu miklu betur en síðar kom í ljós.

Segðu frá því sem þú upplifðir (tilfinningar, atburðir) þegar tilkynnt var um bankahrunið. Hvernig leið þér daginn eða dagana á eftir og hvernig líður þér núna?
- Mér leið illa, ámóta og um náttúruhamfarir hefði verið um að ræða. Núna er fyrst og fremst gremja út í þá hryðjuverkamenn sem stálu bönkunum og innistæðum almennings.

Finnst þér að þú skiljir/skiljir ekki orsök og afleiðingar hrunsins og hvernig ástandið er í þjóðfélaginu í dag? Geturðu lýst þessu?
- Hrunið tekur alltaf á sig nýjar myndir. Ótrúlegt að „athafnamennirnir“ og nokkrir lykilstarfsmenn skyldu hafa óheft lánstraust án veða.

Margir hafa orðið fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að skuldir þeirra hafa margfaldast eða tapað fjármunum vegna hrunsins. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf viðkomandi, þitt eða annarra sem þú þekkir til?
- Persónulega hafði hrunið áhrif á peningalega stöðu mína og minna. Hefur þó ekki leitt til mikilla vandræða. Mér finnst hins vegar sárt að margir þeir sem hafa verið að reyna að öngla saman til þess að eiga varasjóði til elliáranna hafa tapað öllu sínu. Ég þekki m.a. skúringakonu sem í gegnum mörg ár hefur lagt kr. 5.000 af afar lágum launum sínum í sjóð í Landsbankanum. Þessi sjóður hrundi og er tómur.

Íslendingar sem bjuggu erlendis lentu margir í fjárhagsörðugleikum og sumir ferðamenn gátu ekki notað íslensk greiðslukort í útlöndum. Þekkir þú einhver dæmi um þetta sem þú getur sagt frá?
- Þekki ekki persónuleg dæmi. Hef þó heyrt um mikil vandræði sem t.d. Íslendingar í útlöndum hafa lent í, t.d. námsmenn.

Talað var um að æðstu stjórnendur banka bæru gríðarlega ábyrgð og ættu þess vegna að hafa laun í samræmi við það. Hvaða skoðun hafðir þú á þessu fyrir hrunið? En í dag?
- Fullyrðing sem stenst aldeilis ekki. Enn er maðkur í mysunni. 40 manns hefur verið plantað inn í ráðuneytin án auglýsinga, meðreiðarsveinar ríkisstjórnarflokkanna.

Hvað fannst þér um hina svo kölluðu útrásarvíkinga fyrir hrunið? En í dag?
- Óskiljanlegir fuglar, eru það ennþá, og það sem verst er að þeir virðast enn eiga að fá tækifæri til þess að halda áfram í viðskiptalífinu s.s. Ólafur Ólafsson, Baugsfeðgar o.fl. slíkir. Hrokagikkir sem farið hafa afar illa með völd sín og almennings.

Meðan allt lék í lyndi héldu ýmsir því fram að tala ætti ensku í stórfyrirtækjum hér á landi. Hvað fannst þér um þetta á sínum tíma? En í dag?
- Velti þessu ekki fyrir mér á sínum tíma. Í dag finnst mér þetta algerlega út í hött.


Mótmælin - Búsáhaldabyltingin  
Hvernig fréttir þú af mótmælunum? Hvenær fórst þú að taka mark á mótmælunum og skipuleggjendum þeirra eða gerðirðu það kannski alls ekki?
- Mótmælin birtust mér fyrst og fremst í gegnum fjölmiðla, upplifði hins vegar ólguna þegar ég átti erindi við ráðherra og þingmenn í Alþingishúsinu skömmu áður en ríkisstjórn Geirs Haarde fór frá. Skynjaði þá líka að ákveðnir þingmenn VG áttu beinan þátt í að ýta undir mótmælin og stýra þeim eftir því sem þeir gátu.

Tókst þú þátt í mótmælunum og hvers vegna? Ef þú tókst þátt hvað var kornið sem fyllti mælinn?
- Ég tók ekki þátt í mótmælum.

Hefur þú mótmælt áður (fyrir hrunið) og ef svo er hvenær og af hvaða tilefni?
- Ég hef sjaldan tekið þátt í mótmælum, tók reyndar þátt í mótmælum þegar stóð til að rífa húsin á Bernharðstorfunni á sínum tíma.

Hvernig fannst þér að stemningin eða andinn hafi verið á mótmælunum?
- Fyrst og fremst til þess að mótmæla ástandinu, koma ríkisstjórn frá sem og forsvarsmönnum Seðlabankans.

s2
Hvaða skoðun hefur þú á átökunum við lögregluna? Áttu þau fullan rétt á sér eða e.t.v. alls ekki? Fannst þér mótmælin ganga of langt, vera passleg og réttlát eða hafa gengið of skammt?
- Mótmælin voru réttlát. Gremja almennings alveg skiljanleg. Fordæmi hins vegar átökin gegn lögreglu og greinilegt að óaldaseggir nýttu sér ástandið til þess að fá útrás fyrir annarlegar hvatir. Þeir eru ótrúverðugir og settu ljótan svip á mótmælin.

Hvað finnst þér um frammistöðu lögreglunnar?
- Lögreglan stóð sig vel miðað við aðstæður. Við erum ekki vön svona aðgerðum og lögreglan reyndi af fremsta megni að gera sitt besta við mjög sérkennilegar aðstæður. Ég ber virðingu fyrir lögreglu og Alþingi og engin ástæða til þess að ofbeldisseggir fái að valsa um að vild.

Telur þú að mótmælin hafi skipt máli eða skilað einhverjum árangri? Hvernig þá?
- Mótmælin höfðu áhrif. Ríkisstjórn fór frá svo og stjórnendur seðlabankans.

Segðu frá slagorðum og orðatiltækjum í tengslum við mótmælin sem þér er kunnugt um.
- „Helvítis focking fock“.

Hefur þú tekið þátt í öðrum mótmælum nýverið, t.d. gegn Icesave? Viltu segja frá þessu?
- Hef ekki tekið þátt í mótmælum.


Kreppan
Finnst þér að það sé eða hafi verið kreppa á Íslandi sl. 12-14 mánuði? Hvernig hefur þú orðið var við hana?
- Kreppa er ekki rétta orðið. Óvissa, atvinnuleysi, úrræðaleysi og viljaleysi stjórnvalda er réttara orð. Sérkennilegt að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé stýrt af Bretum og Hollendingum.

Hefur þú upplifað kreppu áður? Að hvaða leyti er núverandi kreppa sambærileg eða ekki sambærileg við aðrar kreppur sem verið hafa í landinu að þínu mati?
- Ég er það ungur að ég upplifði ekki heimskreppuna 1930. Hef ekki upplifað kreppu í þeirri merkingu sem ég legg í orðið. Íslendingar hafa oft lent í hremmingum ég keypti mína fyrstu íbúð 1983, það voru sérkennilegir tímar.

Hvernig hefur kreppan haft áhrif á neysluvenjur þínar (innkaup, akstur, munaðarvörur t.d.)?
- „Kreppan“ hefur ekki haft veruleg áhrif á neysluvenjur mínar enda hef ég haldið atvinnu, hef getað greitt af lánum og lifað eðlilegu lífi. Utanlandsferðum hefur fækkað vegna óhagstæðs gengis. Nýti betur föt og ýmsa hluti.

Hver eru helstu áhrif kreppunnar á fjölskyldulíf þitt (streita, heilsufar, samvera t.d.)?
- „Kreppan“ hefur ekki haft mikil áhrif á fjölskyldulíf mitt. Ég á uppkomin börn tvö þeirra eru í háskólanámi og önnur tvö hafa lokið háskólanámi og hafa vinnu. Allir hafa þó minna milli handanna. Heilsufar almennt gott. Samvera fjölskyldunnar mikil og ánægjuleg.

Hver telur þú að sé upplifun barna almennt af kreppunni? Hafa þau verið upplýst um hana og ef svo er á hverju hefur það helst oltið (aldri t.d.)?
- Þekki það ekki nógu vel.

Upplifir þú að löngun þín til að taka þátt í félagslífi og grasrótarstarfsemi hafi breyst á undanförnu ári? Geturðu lýst þessu?
- Í rauninni ekki. Ég er f.v. alþingismaður og þakka Guði á hverjum morgni fyrir að vera ekki á Alþingi um þessar mundir. Annars er ég virkur í félags- og grasrótarstarfi.

Hefur kreppan haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ef svo er hvaða ráð hefur þú notað til að takast á við þetta?
- Ekki að öðru leyti en því að það er viðurstyggilegt að skynja hvernig „athafnamennirnir“ hafa farið með vald sitt og sínu verst að þeir virðast ætla að geta haldið áfram. Þetta er í rauninni óþolandi. Almenningur er þrautpíndur og talin trú um að flatskjárinn sem margir keyptu eigi þátt í að allir hafi verið virkir í „partýinu“

Hvaða áhrif hefur kreppan haft á trúarlíf þitt (fer oftar/sjaldnar í kirkju t.d.)?
- Trúarlíf mitt er óbreytt. Sæki styrk til hins hæsta höfuðsmiðs himins og jarðar!

Í hvaða mæli hefur þú tekið upp „þjóðleg“ gildi eða siði í kjölfar hrunsins (ísl. matur, vel íslenskt, ferðast innanlands t.d.)?
- Ber enn meiri virðingu fyrir þjóðlegum gildum og mikilvægi undirstöðuatvinnuvega okkar, landbúnaðar og sjávarútvegs. Einnig ferðaþjónustu og ber meiri virðingu fyrir því sem innlet er og framleiðsluvöru sem verður til á Íslandi.

Hefur lífsviðhorf þitt hugsanlega breyst á einhvern hátt eftir hrunið og þá hvernig?
- Hugsanlega vakið mig til enn meiri umhugsunar um það sem skiptir mestu máli í lífinu þ.e. heilsan, fjölskyldan og vinnan. Jákvæðni og gott skap fleytir okkur einnig langt.

Hefur viðhorf þitt gagnvart því að búa á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi  breyst á undanförnu ári og hvers vegna?
- Ég er mjög færanlegur maður á m.a. íbúð í höfuðborginni en bý úti á landsbyggðinni. Skynja önnur viðhorf í höfuðborginni, meiri ólgu og óánægju. Spretturinn og neyslubrjálæðið var reyndar miklu meiri á höfuðborgarsvæðinu fyrir hrunið þegar miðað er við landsbyggðina.

s3
Hefur þú misst vinnuna? Ef svo er hvaða áhrif hefur það haft á þig og þína nánustu?
- Ég hef ekki misst vinuna.

Hvernig hefur kreppan með tilheyrandi niðurskurði haft áhrif á vinnustað þinn?
- Starfsfólk á vinnustað mínum er ánægðara með að halda vinnu og gerir sér gleggri grein fyrir hve miklu máli skiptir að „skútan“ strandi ekki.

Hvaða nýsköpun er þér kunnugt um eða annað jákvætt sem gæti komið út úr kreppunni?
- Virðingu fyrir því sem innlet er. Nýsköpunin fólgin í innlendri framleiðsluvöru, auknum tækifærum í ferðamennsku, hreinum afurðum o.s.frv.

Hefur þú eða fólk sem þú þekkir leitað til hjálparsamtaka sem afleiðing af hruninu eða kreppunni? Viltu segja frá þessu?
- Veit ekki til þess að fólk sem ég þekki hafi leitað til hjálparsamtaka.

Hefur þú íhugað að flytja úr landi? Hvers vegna og hvert þá helst? Þekkirðu aðra sem hafa gert það, til hvaða landa og hvers vegna?
- Ég hef reyndar oft íhugað það og reyndar búið í útlöndum. Það er fyrst og fremst af ævintýraþrá. Hins vegar eru fjölskylduhættir mínir með þeim hætti að ég tími ekki að klippa á fjölskylduböndin, vil vera nærri börnunum mínum o.s.frv.

Áhrif kreppunnar á framtíðaráform ungs fólks eru margvísleg, t.d. í sambandi við húsnæðiskaup. Hver er reynsla þín af þessu?
- Tvö elstu börnin mín eru farin að búa. Annað þeirra hefur fest kaup á íbúðarhúsnæði og er með öll lán í skilum, hitt er í leiguhúsnæði og leigir fyrir 130.000 á mánuði. Ég hef á tilfinningunni að þau hafi minna á milli handanna. Tvö yngstu eru í húsnæði sem við eigum, þau eru á námslánum og hafa minna á milli handanna en þau höfðu fyrir hrun. Þau velta mjög fyrir sér að foreldrar, jafnvel afar og ömmur, eru ábyrg fyrir námslánum þeirra meðan „athafnamennirnir“ fá ofurlán án veða.

Finnst þér að þú hafir orðið var/vör við óraunhæfar væntingar fólks í sambandi við björgunaraðgerðir frá hinu opinbera? Hvernig lýsir þetta sér?

Annað sem tengist kreppunni og þú vilt segja frá, t.d. hvaða lærdóm má draga af henni.
- - Lærdóminn sem læra má af „kreppunni“ hve nauðsynlegt að allar leikreglur í nútímasamfélagi séu öruggar. Það er of seint að „byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í“. Eða að setja reglur þegar pólitískir andstæðingar eignast fjölmiðla eða annað. Frelsið er gott og nauðsynlegt en frelsið felst ekki í því að sumir séu frjálsari en aðrir. Merkileg ummæli Davíðs Oddssonar þegar hann hætti sem forsætisráðherra sagði hann eitthvað á þessa leið: „Ég er stoltastur yfir því á ferli mínum að koma valdinu frá Alþingi yfir til athafnamanna“. Ummæli Hannesar Hólmsteins eru einnig merkileg: „Kapítalismi er í fullu gildi vandræðin eru bara fólgin í fólkinu sem hefur reynt að fylgja honum“.


Fjölmiðlun, umræða og upplýsingagjöf  
Hvernig finnst þér að fjölmiðlar hafi staðið sig við að upplýsa almenning um ástandið og ákvarðanir stjórnvalda? Hefur umræðan verið nægilega lýsandi eða skilvirk?
- Umræðan hefur verið afar þreytandi, langdregin og leiðinleg. Íslenskir fjölmiðlar eru almennt mjög pólitískir, Morgunblaðið „blað Sjálfstæðismanna“. Fréttablaðið „blað Bugsklíkunnar“ og þar með fréttaflutningur á Stöð 2. Skjár einn svar sjálfstæðismanna við samkeppni við Stöð 2 þar sem Síminn hefur komið íhaldsklíkunni til hjálpar og dregið þá að landi. Síminn ríkt fyrirtæki frá því að hann var í eigu ríkisin og erfitt við hann að keppa. Þar hefur einnig verið platað frjálshyggjumönnum sem ekki hafa plummað sig í viðskiptalífinu. Á ríkisfjölmiðlana hefur verið plantað gæðingum, einkum frá sjálfstæðimönnum og samfylkingarmönnum.

Hafa upplýsingar frá stjórnvöldum verið fullnægjandi að þínu mati? Ef ekki hvað finnst þér að helst skorti?
- Upplýsingar stjórnvalda eru á köflum sérkennilegar og ótrúverðuglegar. Blaðafulltrúi forsætisráðuneytisins hefur verið eins og flökkukind, fyrst var hann framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins, ritstjóri Fréttablaðsins, síðan starfsmaður Biskupsstofu. Hefur hann verið eins og förumaður á góðu kaupi hjá ríkinu, aðstoðarmaður utanríkisráðherra m.a. Honum var síðan troðið sem upplýsingafulltrúa hjá Landspítalanum án auglýsingar og þegar ljóst var að það væri ólöglegt og siðlaust. Þessi ferill er ekki trúverðugur. Mér finnst einnig fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafi verið óduglegir að kynna málstað Íslendinga á erlendri grundu. Það bar meira á því þegar Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún gerðu

s4
víðreist til þess að fegra starfsemi Íslensku bankanna á erlendri grund árið 2008. Viðtal við Forseta Íslands á BBC vakti athygli á málstað Íslands.

Hvað finnst þér um hina pólitísku umræðu í sambandi hrunið og Icesave? Hefur hún t.d. verið skiljanleg/óskiljanleg?
- Icesave umræðan hefur verið langdregin og leiðinleg en á köflum fróðleg. Best hefur fréttaritari Ríkisútvarpsins í London staðið sig.

Hafa skoðanir þínar hugsanlega fremur mótast af viðræðum við annað fólk, bloggi, spjallrásum eða Facebook og þá hvernig?
- Skoðanir mínar hafa mótast mest af fjölmiðaumræðum.

Facebook var mikið notað við að skipuleggja mótmæli og fjöldi hópa stofnaðir um hitt og þetta. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um í hvaða hópa þú skráðir þig og hvers vegna.
- Ég skrái mig ekki inn á Facebook og les ekki blogg.

Annað
Þekkirðu sögur af jákvæðum eða neikvæðum viðhorfum erlendis í garð Íslendinga eftir hrunið? Segðu frá!
- Rakarinn minn sem er sagnamaður sagði frá því þegar hann fór til Kanarí skömmu eftir hrunið hafi bæði Bretar og Hollendingar tekið út fóðrið í vösunum þegar þeir vissu að hann væri Íslendingur.

Hvaða brandara, vísur og sögusagnir um spillingu, klíkuskap, forréttindi, óhóf, mútur og svindl hefur þú heyrt í tengslum við bankahrunið, kreppuna og Icesave? Skemmtilegt væri að fá þetta sett á blað.
- Skemmtilega vísa:
Fjúka loforð falla vé,
fennir ört í skjólin.
Jóhanna fyrir Steingrím sté,
stakk honum undir kjólinn.

- Annar góður sagnamaður sagði. Það er merkilegt ég hélt að ég væri að spara 15 kr. þegar ég keypti baunadósina í Bónus. En þá var ég veðsettur fyrir 100 kall um leið.

- Annar sagði: Ef það er rétt að mesta framkvæmd íslensku þjóðarinnar Kárahnjúkavirkjun hafi kostað 100 milljarða kr. þá nema skuldir Baugsfeðgana 11 Kárahnjúkavirkjunum.

- Talað er um að Landeyjahöfn kosti um 10 milljarða kr. Afskriftir skulda Finns Ingólfssonar í flugrekstri hans hafi verið 14 milljarðar kr. svo dæmi séu nefnd.

- Húsið sem Jóhannes í Bónus lét reisa fyrir sig við Eyjafjörð er skuldsett upp á kr. 374 milljónir, þetta er líklegasta dýrasta félagslega íbúð sem er á markaðnum.

- Almenningur borgaði komu Eltons Johns í afmæli Ólafs Ólafssonar, sumarhús hans er í Miðhrauni í Miklaholtshreppi. Bóndinn á bænum er dugnaðarmaður með fiskþurrkun og hefur lyktin farið fyrir brjóstið á Ólafi þá sjaldan að hann hafi verið þarna. Hann bauð bóndanum kr. 400.000.000 í reksturinn ef hann vildi hætta. Bóndi bauð á móti 800.000.000 Ólafur var að hugsa þegar hrunið varð!

- Almenningur hefur verið að greiða fyrir flug Ólafs Ólafssonar og Magnúsar Kristinssonar í þyrluflugi þeirra félaga. Svo ekki sé talað m einkaþotur þar sem m.a. Forseti lýðveldisins fékk að fljóta með, með einum eða öðrum hætti!

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.