LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiBankahrun, Brandari, Fjölmiðill, Kreppa, Mótmæli, Munnmæli, Vísa
Ártal2008-2010
Spurningaskrá112 Kreppan; hrunið og Búsáhaldabyltingin

Sveitarfélag 1950Kópavogshreppur
Núv. sveitarfélagKópavogsbær
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2010-1-11
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/18.2.2010
TækniSkrift
Nr. 2010-1-11

Heimildarmaður: Óþekkt kona, 22 ára búsett í Kópavogi.

s1.
Bankahrunið
Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu fyrir bankahrunið (lífsstíll, viðhorf, hugsunarháttur t.d.)?
- Meira var alltaf betra. Þú hafðir það gott ef að þú áttir tvo bíla, fórst í verslunarferðir til útlanda og varst alltaf tilbúinn að eyða, ekki töff að spara. Það skipti miklu máli að líta vel út, vera í tískunni og að mínu mati var þörf landans að sýna hvað Ísland var í raun stórt og merkilegt land.

Árin fyrir hrunið einkenndust af miklum framkvæmdum og gríðarlegri þenslu. Hvenær finnst þér að þú hafir séð einhverjar vísbendingar um hvað væri í vændum?
- Þegar gjaldeyririnn fór að hækka, þannig mál leysast sjaldan af sjálfu sér.

Mikið var um gagnrýni á íslenska banka í útlöndum og jafnvel innanlands fyrir hrunið. Að hvaða leyti tókst þú mark á þessari gagnrýni og hvaða áhrif hafði hún á þig?  
- Tók lítið eftir því, var/er það ung.

Segðu frá því sem þú upplifðir (tilfinningar, atburðir) þegar tilkynnt var um bankahrunið. Hvernig leið þér daginn eða dagana á eftir og hvernig líður þér núna?
- Var ekki alvega að trúa þessu. Áhyggjurnar komu ekki fyrr en seinna, var ekki að kaupa að þetta væri jafn alvarlegt og það var í raun. Er í dag auðmjúk og reyni að vera raunsæ um hvernig ástandið hefur áhrif á mig og mín framtíðarplön.

Finnst þér að þú skiljir/skiljir ekki orsök og afleiðingar hrunsins og hvernig ástandið er í þjóðfélaginu í dag? Geturðu lýst þessu?
- Mér finnst ég skilja þetta nokkuð vel. Góðærið hlaut að enda. Mér finnst samfélagið hafa sýnt nokkuð góð viðbrögð þó kannski fullgróf á tíma en fólk barðist loksins fyrir sínu og tók afstöðu. Ég er ánægð með hvernig þjóðin tók þessu og jafnvel þótt að það sé ansi þungskýjað yfir öllum núna þá get ég ekki annað en vonað að við lærum af þessu.

Margir hafa orðið fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að skuldir þeirra hafa margfaldast eða tapað fjármunum vegna hrunsins. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf viðkomandi, þitt eða annarra sem þú þekkir til?
- Mér finnst leiðinlegt þegar ég heyri t.d. af gömlu fólki sem missa h´sin sín, þurfa að vinna lengur af því

s2
að þau eiga ekki efni á því að fara á eftirlaun. Auðvitað er ömurlegt að heyra svona sögur og óneitanlega verður erfitt hjá því fólki og þau fá alla mína samúð. Ég hef samt ekki orðið vör við nein sýnileg áhrif hjá því fólki sem ég þekki. Kannski tek ég ekki eftir því.

Íslendingar sem bjuggu erlendis lentu margir í fjárhagsörðugleikum og sumir ferðamenn gátu ekki notað íslensk greiðslukort í útlöndum. Þekkir þú einhver dæmi um þetta sem þú getur sagt frá?
- Ég á frænku sem er í námi í Danmörku sem fékk ekki greidd LÍN greiðslurnar sínar rétt eftir hrun og ekki var hægt að millifæra milli landa. Þetta var erfiður tími hjá henni og fannst henni svolítið sárt að þurfa fá lán fyrir mat hjá samnemendum sínum.

Talað var um að æðstu stjórnendur banka bæru gríðarlega ábyrgð og ættu þess vegna að hafa laun í samræmi við það. Hvaða skoðun hafðir þú á þessu fyrir hrunið? En í dag?
- Persónulega finnst mér þessi „gríðarlega ábyrgð“ sem þeir fengu borgað fyrir bull og vitleysa. Peningum fylgir jú ábyrgð en þeir voru greinilega ábyrgðarinnar ekki verðugir. Þegar þjóðin er í jafn miklu basli og hún er finnst mér allir eiga að bíta í það súra epli að þurfa að sjá fram á erfiðleika og þá sérstaklega þeir sem eiga í hlut á þessu ástandi.

Hvað fannst þér um hina svo kölluðu útrásarvíkinga fyrir hrunið? En í dag?
- Fyrir hrun - glæpamenn í jakkafötum. Eftir hrun - glæpamenn í felum.

Meðan allt lék í lyndi héldu ýmsir því fram að tala ætti ensku í stórfyrirtækjum hér á landi. Hvað fannst þér um þetta á sínum tíma? En í dag?
- Hafði ekki skoðun á því áður. Finnst það hálfkjánalegt að tala ensku sína á milli ef báðir aðilar eru íslenskir.


Mótmælin - Búsáhaldabyltingin  
Hvernig fréttir þú af mótmælunum? Hvenær fórst þú að taka mark á mótmælunum og skipuleggjendum þeirra eða gerðirðu það kannski alls ekki?
- Þau fóru fyrst eiginlega framhjá. Fyrstu mótmælin sem ég sá voru í ráðhúsinu þegar stjórnin sprakk.

s3
Tókst þú þátt í mótmælunum og hvers vegna? Ef þú tókst þátt hvað var kornið sem fyllti mælinn?
- Ég tók mark á mótmælunum en vildi ekki mæta í þau því mér fannst áherslan í bænum ekki vera á hrunið og afleiðingar þess heldur meira á unglingana sem vildu skemma og hafa ástæðu til að kasta eggjum í hús og geta svo fela sig í þvögunni. Ég tók þátt í söngmótmælunum.

Hefur þú mótmælt áður (fyrir hrunið) og ef svo er hvenær og af hvaða tilefni?
- Ég mótmælti gegn samræmdum stúdentsprófum.

Hvernig fannst þér að stemningin eða andinn hafi verið á mótmælunum?
- Mikil reiði. En þó mikill samhugur hjá þeim sem komu til að mótmæla.

Hvaða skoðun hefur þú á átökunum við lögregluna? Áttu þau fullan rétt á sér eða e.t.v. alls ekki? Fannst þér mótmælin ganga of langt, vera passleg og réttlát eða hafa gengið of skammt?
- Annars fannst mér allt of mikið um að fólk (aðallega krakkar og ungt fólk) mættu til að mótmæla og vera með í fjörinu en hafði ekki grun um út á hvað þetta allt gekk eða ráðast á lögguna finnst mér skýra það vel. Ef að þú fattaðir ekki að þetta voru ekki löggumótmæli og fattaðir ekki að með þessu værirðu í raun að skemma fyrir málstaðnum þá varstu ekki í raun hluti af Búsáhaldarfólkinu.

Hvað finnst þér um frammistöðu lögreglunnar?
- Ég var ánægð með lögguna.

Telur þú að mótmælin hafi skipt máli eða skilað einhverjum árangri? Hvernig þá?
- Þau blésu andann í lýðinn. Fólk gat komið saman og heimtað að fá svör og að eitthvað yrði gert. Fólk stóð á sínu og það finnst mér skipta gríðarmiklu máli.

Segðu frá slagorðum og orðatiltækjum í tengslum við mótmælin sem þér er kunnugt um.
- Banvæn ríkisstjórn!

Hefur þú tekið þátt í öðrum mótmælum nýverið, t.d. gegn Icesave? Viltu segja frá þessu?
- Nei.


Kreppan
Finnst þér að það sé eða hafi verið kreppa á Íslandi sl. 12-14 mánuði? Hvernig hefur þú orðið var við hana?
- Hef ekki orðið vör um hana.

Hefur þú upplifað kreppu áður? Að hvaða leyti er núverandi kreppa sambærileg eða ekki sambærileg við aðrar kreppur sem verið hafa í landinu að þínu mati?
- Nei.

Hvernig hefur kreppan haft áhrif á neysluvenjur þínar (innkaup, akstur, munaðarvörur t.d.)?
- Þar sem ég fátækur námsmaður þá hefur þetta litlu breytt hjá mér. Ég er kannski aðeins

s3
skynsamari með fjárhag minn núna.

Hver eru helstu áhrif kreppunnar á fjölskyldulíf þitt (streita, heilsufar, samvera t.d.)?
- Ekki mikil breyting. Kannski færri útlandaferðir sem er nú ekki neitt.

Hver telur þú að sé upplifun barna almennt af kreppunni? Hafa þau verið upplýst um hana og ef svo er á hverju hefur það helst oltið (aldri t.d.)?
- Þau þekkja orðið kreppa en vita held ég ekki hvað það er. Held að fáir leggi í það að útskýra fyrir þeim.

Upplifir þú að löngun þín til að taka þátt í félagslífi og grasrótarstarfsemi hafi breyst á undanförnu ári? Geturðu lýst þessu?
- Nei.

Hefur kreppan haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ef svo er hvaða ráð hefur þú notað til að takast á við þetta?
- Meiri áhyggjur en ekki meira en það.

Hvaða áhrif hefur kreppan haft á trúarlíf þitt (fer oftar/sjaldnar í kirkju t.d.)?
- Bað kannski aðeins oftar en trú mín er enn sú sama.

Í hvaða mæli hefur þú tekið upp „þjóðleg“ gildi eða siði í kjölfar hrunsins (ísl. matur, vel íslenskt, ferðast innanlands t.d.)?
- Les meira, prjóna og reyni frekar að velja íslenskt.

Hefur lífsviðhorf þitt hugsanlega breyst á einhvern hátt eftir hrunið og þá hvernig?
- Hef þurft að spara og það hefur gert mér gott.

Hefur viðhorf þitt gagnvart því að búa á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi  breyst á undanförnu ári og hvers vegna?
- Nei.

Hefur þú misst vinnuna? Ef svo er hvaða áhrif hefur það haft á þig og þína nánustu?
- Nei.

Hvernig hefur kreppan með tilheyrandi niðurskurði haft áhrif á vinnustað þinn?
- Minni fríðindi en annars lítil breyting.

Hvaða nýsköpun er þér kunnugt um eða annað jákvætt sem gæti komið út úr kreppunni?
- Prjónabrjálæðið. Öll sprotafyrirtækin sem einbeita sér að sköpun og eflingu þess er íslensk.

Hefur þú eða fólk sem þú þekkir leitað til hjálparsamtaka sem afleiðing af hruninu eða kreppunni? Viltu segja frá þessu?
- Nei ekki svo ég viti til.

Hefur þú íhugað að flytja úr landi? Hvers vegna og hvert þá helst? Þekkirðu aðra sem hafa gert það, til hvaða landa og hvers vegna?
- Nei.

Áhrif kreppunnar á framtíðaráform ungs fólks eru margvísleg, t.d. í sambandi við húsnæðiskaup. Hver er reynsla þín af þessu?
- Bý enn heima.

Finnst þér að þú hafir orðið var/vör við óraunhæfar væntingar fólks í sambandi við björgunaraðgerðir frá hinu opinbera? Hvernig lýsir þetta sér?
-Nei.

Annað sem tengist kreppunni og þú vilt segja frá, t.d. hvaða lærdóm má draga af henni.
- Nei.

Fjölmiðlun, umræða og upplýsingagjöf  
Hvernig finnst þér að fjölmiðlar hafi staðið sig við að upplýsa almenning um ástandið og ákvarðanir stjórnvalda? Hefur umræðan verið nægilega lýsandi eða skilvirk?
- Ég er ánægð með fjölmiðla þó finnst mér stundum vanta að útskýra báðar hliðar mála, t.d. í ESB-málinu sem og Icesave.

Hafa upplýsingar frá stjórnvöldum verið fullnægjandi að þínu mati? Ef ekki hvað finnst þér að helst skorti?
- Finnst bara ekki nógu mikið af upplýsingum.

Hvað finnst þér um hina pólitísku umræðu í sambandi hrunið og Icesave? Hefur hún t.d. verið skiljanleg/óskiljanleg?
- Illskiljanleg. Vil betri útskýringar á mannamáli.

Hafa skoðanir þínar hugsanlega fremur mótast af viðræðum við annað fólk, bloggi, spjallrásum eða Facebook og þá hvernig?
- Aðallega þegar fólk hjálpar mér að skilja en ég er enn ekki búin að móta mér skoðun á Icesave af ofangreindum skýringum.

Facebook var mikið notað við að skipuleggja mótmæli og fjöldi hópa stofnaðir um hitt og þetta. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um í hvaða hópa þú skráðir þig og hvers vegna.
- Gekk sem mótmælti skerðingu á fæðingarorlofi, Björgum Neyðarmóttökunni, Skerum niður hjá RÚV ekki Landspítalanum.


Annað
Þekkirðu sögur af jákvæðum eða neikvæðum viðhorfum erlendis í garð Íslendinga eftir hrunið? Segðu frá!
- Var í Hollandi í sumar þar sem ein kona gaf okkur mat af hún hélt að við værum svo fátæk á meðan annar maður hrópaði til okkar „Give me back my money“

Hvaða brandara, vísur og sögusagnir um spillingu, klíkuskap, forréttindi, óhóf, mútur og svindl hefur þú heyrt í tengslum við bankahrunið, kreppuna og Icesave? Skemmtilegt væri að fá þetta sett á blað.
- Man helst eftir brandaranum um nýju pickup-línuna „Hæ ég er ríkisstarfsmaður“. Líka „Hver er munurinn á Robert Peston viðskiptaritstjóra BBC og Guði? Guð heldur ekki að hann sé Robert Peston“

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.