LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiEndurnýting, Nýtni, Sjálfsþurft, Viðgerð
Ártal2005-2010
Spurningaskrá113 Heimatilbúið, viðgert og notað

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1942

Nánari upplýsingar

Númer2010-2-29
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.11.2010/29.11.2010
TækniTölvuskrift

Nr. 2010-2-29.

(..1..)

Foreldrar mínir voru (..2..) fædd 1916.  Bæði fædd og uppalin á Suðureyri og bjuggu þar mestan sinn búskap eða þar til þau fluttu á elliheimili í Reykjavík þar sem þau voru til dauðadags.  Guðjóna vann oftast með heimilinu í fiskvinnu.  Jón vann að mestu í landi, við verslunar- og skrifstofustörf,  í fiskvinnslu, taka á móti skipum, verksmiðjustörf o.fl.

Ég byrjaði í fiskvinnu af og til um 10 ára aldur (eins og algengt var þá) og vandist einnig sveitastörfum þar sem fjölskyldan átti nokkrar ær og hafði aðgang að sumarhúsi, með landi, inni í firði þar sem heyjað var fyrir þær.  Höfðum með okkur hænurnar í sveitina. Fór í kaupavinnu á unglingsárum –  bæði á Suðurlandi og í Eyjafirði.

Átti heima  á Suðureyri til 17. ára aldurs eða þar til ég byrjaði að búa.  Bjó þar líka annað búskaparárið mitt.  Eftir það kom ég aðeins í heimsóknir eða til að sækja börnin mín sem voru á sumrin hjá foreldrum mínum.  Nokkrum sinnum fór ég einnig vestur í fiskvinnu til að auðvelda íbúðakaup.  Var ekki í fastri vinnu fyrstu búskaparárin en vann þó við ýmislegt t.d. verslunarstörf, sá um eldhúsið í Skálafelli nokkra vetur hjá KR. Vann á dagblaði við símavörslu. Gerðist kaupmaður í Reykjavík með fyrrverandi maka (bjó þá í Garðabæ annars lengst af í Reykjavík) og síðar einnig garðyrkjubóndi í Borgarfirði í fáein ár en var jafnframt í MH.

Skildi eftir 25 ára hjúskap og fór einnig í fiskvinnu sumartíma til að komast af.  En vann líka á Kópavogshæli með skóla, bæði MH og KHÍ.  Kenndi tvo vetur áður en ég fór í KHÍ og 15 ár eftir það, alltaf utan Reykjavíkur.  Síðustu árin vann ég á sambýli í Reykjavík, fyrir þroskaheft fullorðið fólk.  Hætti að vinna 67 ára.

Bankahrunið

Flestir virtust hafa næga peninga fyrir hrun, ekki þurfa að spara, enda held ég að fáir af yngri kynslóðinni hafi kunnað það.  Auðvitað var þetta eitthvað misjafnt og margir voru skynsamir í fjárfestingum.  En algengt var að fólk byggði stórt, keypti stóra bíla og hafði ekki áhyggjur af fjármálum nema þeir sem höfðu reist sér  hurðarás um öxl (þeir voru líka fljótir að skella skuldinni á hrunið þótt þess væri ekki farið að  gæta) eins og kemur fyrir á öllum tímum.  En það virtist vera auðvelt að fá lán og margir lifðu samkvæmt hugsuninni: þetta reddast.  

Mér fannst matador kynslóðin standa sig vel í fyrstu, vera áræðin og framsækin en svo greip græðgin yfir. Árin  2006 – 2007 var ég hins vegar oft farin að segja að það gæti ekki gengið til lengdar að þessir drengir væru sífellt að kaupa og selja hverjir öðrum eignir og hlutabréf sem augljóslega átti bara að auka verðgildi eignanna, því jú, eftirspurnin eykur verðgildið, eða gerði það.  Þess vegna fann ég til efasemda þegar fólk blés á viðvaranir erlendra spekinga um að bankarnir stæðu tæpt.  

Þeir sem ekkert eiga hafa engu að tapa.  Þess vegna leið mér hvorki verr né betur eftir hrunið.  Að vísu veit ég núna að viðbótarlífeyrissparnaðurinn minn rýrnaði og er ekki sátt við það.  

Ég heyrði af því að fólk hafi lent í vanda með íslensk kreditkort erlendis en sonur minn bjó í Svíþjóð á þessum tíma og hann lenti ekki í vandræðum.  Sjálf heimsótti ég hann og athugaði málið í bankanum áður en ég fór út.  Ég hef ekki lent í vanda með kortið mitt hvorki þar eða í USA þegar ég heimsótti hinn soninn minn.  En það er orðið ansi dýrt að taka út peninga í USA.  Og fargjöld hafa hækkað um helming en breytingagjöld hjá flugfélögum um mörg hundruð prósent.  Svo að ég býst ekki við því að geta heimsótt son minn og hans fjölskyldu í USA oftar.

Hvað varðar laun efstu stjórnenda í fjármálastofnunum þá fannst mér þau ekki vera í takt við íslenskan veruleika enda að erlendri fyrirmynd.  Sjálfsagt að greiða góð laun en í takt við annað hér.  Þegar farið var að árangurstengja launin þá komu fyrstu hættumerkin í ljós.  Græðgin fékk yfirhöndina og siðferðið varð brenglað.  Þá var lögð meiri áhersla á fallegar tölur á pappírum en ekki skipti lengur máli hvernig þær voru fengnar.  Mér fannst launin oft óheyrilega há og finnst það enn.  Mér þótti það líka algjört bull þegar talað var um að innleiða ensku sem tungumál stórfyrirtækja.

Mótmælin – Búsáhaldabyltingin

Það fór ekki framhjá neinum að til stæði að mótmæla.  Því miður er það þannig með mótmæli að yfirleitt ná atvinnumótmælenduryfirhöndinni en hinir sem vilja mótmæla á mannlegan hátt verða ekki eins áberandi.   Með atvinnumótmælendum á ég við fólk sem elskar að spilla friðnum og langar í læti.  Það eru skrílslæti í mínum huga.  Ég átti oft leið um miðbæinn á þessum tíma (fór á bókasafnið) en tók ekki þátt í þessum mótmælum og hafði andstyggð á þeim.  Ég hlustaði reyndar einu sinni á fund á Lækjartorgi þar sem meiri skynsemi sveif yfir torginu og þar var ungt fólk á ferð.  Það voru hins vegar ekki margir á þessum fundi.  

Ég hef stundum mótmælt meðferð á fólki við þá sem málið snéri að en aldrei tekið þátt í svona skrísllátum enda tel ég að viðræður á skynsamlegum nótum séu vænlegri til árangurs og ekki skemma þau eigur fólks (almennings) eins og þessi skrílslæti höfðu í för með sér.  Fólk sem segist ekki eiga fyrir mat getur grýtt honum í Alþingishúsið og eyðilagt muni í almannaeign t.d. rándýra bekki, ekki lækkar það opinber gjöld.  

Lögreglan stóð sig vel.  Mér hefur oft fundist að það ætti að senda fólk sem hefur svona gaman af ofbeldi, eins og þessi skríll, til Palestínu eða á einhvern þannig stað þar sem fólk getur aldrei um frjálst höfuð strokið, og leyfa því að upplifa almennilegar hörmungar.  Mótmæli eiga rétt á sér en innan siðaðra marka og þau hefðu haft jafn mikil áhrif þótt þau hefðu verið friðsamlegri og þá hefðu þau einnig orðið enn margmennari og ekki skilið eftir svona mörg sár – sýnileg og ósýnileg.

Kreppan

Sumir voru fljótir að kenna kreppunni um að haf misst íbúðir en þá var hennar ekki farið að gæta.  Fyrstu merkin um breyttar aðstæður voru minni bílaumferð fyrstu mánuðina en síðan fór umferðin í sitt fyrra horf.  Núna aftur á móti virðist vera minni umferð út á land en áður.  Þó eru stórir jeppar enn áberandi. Sjálf er ég á gömlum sparneytnari bíl en áður.  Aðallega vegna þess að sá sem ég átti eyðilagðist (líka gamall) en ég hefði líklega þurft að spara hann hvort sem var vegna þess að hann var mun dýrari í rekstri.   Ég keyri samt minna en áður vegna aukins kosnaðar.  Er farin að draga úr ferðum út á land.

Ég er hætt að vinna.  Hafði reyndar hugsað mér að minnka bara við mig en veikindi og slys komu í veg fyrir það að ég gæti unnið, en ekki kreppan..  Það var því sjálfhætt þegar ég varð 67 ára.   Vegna breyttra aðstæðna fer ég ekki í búðir að óþörfu.  Fór mikið á tónleika og heimsótti fólk úti á landi en þetta er næstum úr sögunni þar sem það munar um tveimur milljónum í árslaunum eftir að ég hætti að vinna.  

Ég velti því fyrir mér fyrir hvern lífeyrissjóðir séu og komist að þeirri niðurstöðu að þeir séu bara fyrir sameiginlegan rekstur þ.e. ríkið.  Þess vegna væri best að hafa það eins og Ameríkanar að sjá sjálfir um að safna til elliára.  Ekki voru lífeyrissjóðir til þegar ég byrjaði að vinna úti og var heimavinnandi fyrstu búskaparárin, þess vegna er ég ekki með digran/gamlan lífeyrissjóð.  Hann er aðallega vegna kennslunnar og lítið meira.  Ef fólk hefur ekki greitt í lífeyrissjóð þeim mun lengur þá er fólki í raun hegnt núna fyrir að eiga einhverja peninga þar,  því núna skerðast greiðslur úr almannatryggingakerfinu(vegna kreppurnnar) ef þú færð einhverja smá peninga úr lífeyrissjóði.  Þannig að fólk sem hefur aldrei unnið er með jafn mikið af peningum handa á milli og þeir sem eiga einhverja peninga í lífeyrissjóði, nema þeir sem eiga  gilda sjóði.

Samvera við börnin mín og barnabörn, hér á landi, er með svipuðum hætti og áður en því miður verð ég að láta vera í framtíðinni að heimsækja son minn sem býr í USA vegna of mikils kostnaðar við ferðir, það sá ég í sumar þegar ég fór þangað.  Eins á ég bróðir í Ástralíu sem ég hafði hugsað mér að heimsækja aftur þegar ég væri hætt að vinna.  Ég sé ekki að af því geti orðið.  En meðan ekki kostar neitt að nota skype á tölvunni get ég þó talað við þá.

Ég held að það sé misjafnt hvort börnum er velt upp úr kreppunni eða ekki.  Ég hef ekki orðið mikið vör við krepputal hjá mínum barnabörnum hér þótt ég viti að fjölskyldurnar spari og þau viti að ég hafi minni peninga handa á milli.

Félagslífið er svipað hjá mér og áður.  Tek smá þátt í félagsstörfum og vinn öðru hvoru fyrir Rauða krossinn en verð að spara við mig skemmtiþáttinn, sem kostar.  Fer svipað oft í kirkju og áður.  Hef alltaf farið í kirkju af og til í gegn um tíðina enda ólst ég upp við það.  Ég held að lífsviðhorf mitt hafi ekki breyst mikið við ástandið.  Ég þekki fólk sem hefur flutt úr landi vegna þess að makinn fékk vinnu þar en ekki hér, en það er ekki nýtt.

Fólk sem komið er á minn aldur hefur að sjálfsögðu upplifað krappari kjör en núna og alvöru kreppu.  Þegar ég var barn og unglingur voru skömmtunarseðlar fyrir hinum og þessum nauðsynjum,  bæði matvöru og fatnað.  Ég þurfti meira að segja að fara með skömmtunarseðla, fyrir smjörlíki og sykri og kannski fyrir fleiru,  á heimavistarskóla árið 1957.  Það þýddi að þeir sem höfðu skömmtunarseðla gátu keypt þessar nauðsynjar.  Höft voru á innflutningi og einnig mörgum vörum sem voru framleiddar hér.  Meira að segja þurfti leyfi til að selja ákveðna tegund af sokkabuxum upp úr 1963 þótt eitthvað hefði rýmkast að flytja mætti inn þessar vörur.

Fyrst þegar ég fór til annarra landa (á fullorðinsárum) var gjaldeyrir skammtaður.  Fólk mátti ekki eyða eins og það lysti.  Annað hvort fékk fólk ferðatékka fyrir ákveðna upphæð eða gat keypt peninga að ákveðinni upphæð.

Fyrri kreppur voru partur af lífinu sem fólk tók sem hverju öðru hundsbiti ef svo má segja.  Þarna spilaði inn í veðurfar til lands og sjávar, aflabrögð og annað sem Íslendingar lifðu á.  Þessi kreppa er komin til vegna fárra einstaklinga sem höguðu sér eins og olíugreifar án þess að eiga nokkuð undir sér annað en bankastofnanir sem þeir umgengust ekki á þann hátt sem þeir hefðu átt að gera og komast enn upp með það.  Og það er kannski verst að sætta sig við það.  Þeir eru enn að.  

Mér virðist margir hafa forgangsraðað hlutunum eftir kreppu, a.m.k. barnafólk sem ég þekki til.  Og umræðan um lífskjör er orðin skynsamlegri hjá almenningi, eða ég held það.  Fólk er almennt orðið nægjusamara og innflutningur hagstæðari, semkvæmt fréttum.  Líklega verður fólk almennt varkárara í eyðslu sinni í framtíðinni, sumir af nauðsyn en aðrir þrátt fyrir að hafa mikið handa á milli.

Fjölmiðlun, umræða og upplýsingagjöf

Allir sem hlusta yfirleitt á fréttir eða umræður í fjölmiðlum hafa ekki komist hjá því að vita gang mála, þótt mis skiljanlegt sé.  Hins vegar finnst mér ríkisstjórnin sem situr núna ekki hafa staðið sig í að gefa upplýsingar um ýmis mál en hafði samt lofað meira gagnsæi og betri upplýsingagjöf.  Það hafa verið fleiri leyndarmál í sambandi við framkvæmdir til að laga ástandi.  Eða er kannski lítið verið að gera?

Skoðanir mínar hafa mótast af upplýsingum sem fjölmiðlar hafa gefið fremur en umræður manna og kvenna á Facebook.  Þótt ég hafi notað þann vef í nokkur ár tek ég ekki þátt í pólitískum umræðum þar enda sýnist mér skoðanir fólks snúist oft eins og þeytispjald.   Enda er pólitísk umræða oft mjög tilfinningaþrungin.  Ég les heldur ekki bloggsíður almennt og alls ekki þar sem fólk viðrar pólitískar skoðanir.  Mér finnst meira atriði að halda sálarró minni og sökkva mér ekki í endalausa neikvæðni.  Í framhaldi af því hætti ég að hlusta á fréttir kl. 22.  Tek mér heldur bók í hönd eða handavinnu.

Annað

Hef heyrt marga brandara í sambandi við hrunið en er gjörn á að gleyma bröndurum.  Einn hef ég heyrt tala um bankaránið í stað hrunsins.  Og þykir mér það reyndar réttnefni.

Bróðir minn orti góðan brag um ástandið en  því miður er ég ekki með hann tiltækan.  Það væri vel við hæfi að enda þessi skrif með honum.

(..3..)


Kafli 1 af 4 - Viðgerðir og endurbætur

Er gert við fatnað? Hvaða fatnað? Hversu umfangsmiklar eru viðgerðirnar? Hve algengt er þetta? Hefur einhver á heimilinu kunnáttu sem nýtist við fataviðgerðir eða fatasaum og hvaðan er sú kunnátta komin? Hverju hefur hún skilað?
Í hvaða mæli er gert við reiðhjól eða bíla? Skiptir þú um dekk eða gerir við þau sjálf(ur)? Hve algengt er það?
Er dyttað að leikföngum, heimilistækjum og áhöldum? Hvað er hér helst um að ræða?

Kafli 2 af 4 - Búið til heima

Er bakað á þínu heimili? Hvaða brauð, kökur eða tertur eru helst bakaðar og úr hvaða mjöli eða korntegundum? Hvenær og af hvaða tilefni er helst bakað? Hve oft er bakað (t.d. einu sinni í viku)? Getur þú nefnt einhverjar uppskriftir og hvaðan þær eru komar (úr bókum, af netinu t.d.)?
Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?

Kafli 3 af 4 - aadas

Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?
Notar þú húsgögn eða tæki sem aðrir hafa átt áður? Hvað hluti er hér einkum um að ræða og hvaðan eru þeir fengnir (t.d. frá nytjamörkuðum eða skyldfólki)?

Kafli 4 af 4 - Nýting

Kemur fyrir að notuð föt séu gefin? Hverjum er gefið og af hvaða tilefni? Er saumað upp úr gömlum fötum? Hve algengt er það?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.