LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiEndurnýting, Nýtni, Sjálfsþurft, Viðgerð
Ártal1950-2010
Spurningaskrá113 Heimatilbúið, viðgert og notað

ByggðaheitiMosfellssveit
Sveitarfélag 1950Mosfellshreppur
Núv. sveitarfélagMosfellsbær
SýslaKjósarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1945

Nánari upplýsingar

Númer2010-2-27
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.11.2010/29.11.2010
TækniSkrift

Nr. 2010-2-27

(..1..)

s1
Gert við smábilanir á fatnaði. Móðir mín saumaði allt á okkur, snéri við fatnaði og saumaði upp úr gömlu, lök úr hveitipokum, rúmföt bætt og saumuð heima. Ég lærði smá hjá mömmu hún vann á fínni kjólasaumastofu í Aðalstræti og lærði margt þar, mikill sparnaður. Föt fara stundum í viðgerð, aðallega rennilásar, þrengja, víkka flíkur. Gerum ekki við bíla e.t.v. smá við hjól. Látum skipta um dekk, gerum ekki við sjálf. Börnin okkar gift, eigum 4 barnabörn, stundum er rétt hendi við að laga leikföng, ekki heimilistæki. Maðurinn minn gerir við svo til allt í sambandi við húsið okkar sem hann byggði sjálfur 2001 - 2002. Verkfæri öll helstu verkfæri sem smiður notar. Fer með skó í viðgerð ef það borgar sig, hef alltaf gert það. Maðurinn minn sér um viðhald og smíðar t.d. sólpalla og veggi í kringum þá. Erum með bílskúr, bíll inni yfir vetur, geymsla fyrir ýmislegt t.d. v. bíls og gamalt dót, málning og svo drasl. Það er bakað en mikið minna en áður þegar dæturnar tvær voru heima. Maðurinn minn bakar stundum á veturnar brauð og bollur og klatta, notar hveiti, heilhveiti, sykur, rúgmjöl, púðursykur sesamfræ, hnetur, sólblómafræ, hveitiklíð, speltmjöl. Hann hnoðar sjálfur eða notar brauðvél. Ég baka tertur fyrir afmæli og saumaklúbba sem eru tveir og báðir yfir 50 ára gamlir, annar hefur að vísu farið út í að hafa mat og eina köku og kaffi á eftir. Allar mögulegar kökur, marens, brúnar, hrærðar, með rjóma og ávöxtum, eplakökur. Uppskriftir koma úr blöðum, bókum og að miklum hluta frá vinkonum og vinnufélögum. Eina uppskrift á ég sem heitir Maack kaka þá uppskrift fékk ég fyrir 1970 frá vinkonu sem sagði hana koma frá Maríu Maack í Farsóttahúsinu. Haframjölskaka með rabarbarasultu á milli. Við gerðum rabarbarasultu og rifsberjasultu í mörg ár, það var mikið af hvoru tveggja í garðinum okkar í gamla húsinu okkar en fengum bæði sykursýki 2 og hættum sultugerð

s2
Kæfa var alltaf gerð í fjölda ára en núna ca. einu sinni á ári. Ís stundum fyrir hátíðar en hefur minnkað. Við tökum 10 slátur á hverju hausti með dætrum okkar, barnabörnin hjálpa mikið til frá ca. 4 ára aldri, halda í keppi, sauma, hjálpa til við að hakka og pakka, núna 4 - 12 ára. Höfum næstum alltaf tekið slátur, ég sýð og allir koma í mat og fara heim með soðið slátur. Rækta ekkert grænmeti eða rabarbara, gerði það þegar ég var yngri, ca. 10 - 15 ár, þá kartöflur, kál, rabarbari. Fer ekki í berjamó eða tína annað sem vex í náttúrunni. sauma lítið, laga stundum föt fyrir barnabörn á saumavél, prjóna aldrei en dætur prjóna peysur, húfur og fleira. Í gamla daga bjó ég til grímubúninga en léleg við föndur. Elsta barnabarnið 12 ára mjög flink að gera kort fyrir ýmisleg tækifæri og selur kortin, hún gerir mikið af gjöfum og málar myndir. Allt sem er heimagert bæði matur og annað er efnahagslega til bóta, það sparar peninga. Að gera hlutina sjálfur og kenna börnum er gott fyrir alla efnahagslega og uppeldislega. Notum stundum hluti frá öðrum þó meira áður t.d. notuð hjól, barnavagn, oftast keypt eftir auglýsingar. Okkar dætur notuðu stundum gömul föt af systur aðallega þó útiföt, 6 ára aldursmunur. Dóttir okkar á tvær stelpur þær nota föt sem hin hefur átt og frá frændfólki og vinum. Hin dóttir okkar á tvö börn stelpu og strák þau fá föt frá vinum og frændfólki og eru allir ánægðir með það. Brúðkaupsföt leigð, kjóll og smókingur og brúðarkjóll. Skólabókum var og er skipt eða notað frá öðrum ef hægt er. Flöskur og dósir í endurvinnslu sultukrukkur endurnotað. Engin samnýting á tækjum eða samkaup á blöðum. Jú annars í gömlu götunni okkar áttu 4 hús saman stóra bensínsláttuvél. Nýti vel mat, oft afgangadagur í kvöldmat, þá eru afgangar vikunnar teknir úr ísskáp og þá er veisla.

s3
Fer ekki með nesti, maðurinn minn borðar í mötuneyti í hádegi, í 35 ár. Ég fæ létt fæði á vinnustað í hádegi. Nýtni er góður kostur sem hefur góð áhrif á efnahag. Mætti hvetja unga fólkið að nýta betur mat og afganga. Nýtni á mínum vinnustað er ekki mikil, stundum var heilu bílförmunum hent af ýmsu dóti, t.d. pappír, umslögum, pennum og fl., ekki rétt útlit eða litur. Fín húsgögn tekin og þau gufuðu upp og annað keypt. Nýtni getur farið út í öfgar og orðið að nísku, oft er það vegna uppeldis og aðstæðna í æsku t.d. fátæktar. Á okkar æskuheimilum var allt gjörnýtt bæði fæði og klæði. Í mér kemur stundum upp ýmislegt frá í gamla daga t.d. að slökkva ljós þar sem ekki er verið í herbergi. Ekki henda hlutum ef e.t.v. væri hægt að nota aftur (frekar óvinsælt).
Vona að þið getið stautað ykkur fram úr þessu.
Kveðja (..2..)


Kafli 1 af 4 - Viðgerðir og endurbætur

Er gert við fatnað? Hvaða fatnað? Hversu umfangsmiklar eru viðgerðirnar? Hve algengt er þetta? Hefur einhver á heimilinu kunnáttu sem nýtist við fataviðgerðir eða fatasaum og hvaðan er sú kunnátta komin? Hverju hefur hún skilað?
Í hvaða mæli er gert við reiðhjól eða bíla? Skiptir þú um dekk eða gerir við þau sjálf(ur)? Hve algengt er það?
Er dyttað að leikföngum, heimilistækjum og áhöldum? Hvað er hér helst um að ræða?

Kafli 2 af 4 - Búið til heima

Er bakað á þínu heimili? Hvaða brauð, kökur eða tertur eru helst bakaðar og úr hvaða mjöli eða korntegundum? Hvenær og af hvaða tilefni er helst bakað? Hve oft er bakað (t.d. einu sinni í viku)? Getur þú nefnt einhverjar uppskriftir og hvaðan þær eru komar (úr bókum, af netinu t.d.)?
Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?

Kafli 3 af 4 - aadas

Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?
Notar þú húsgögn eða tæki sem aðrir hafa átt áður? Hvað hluti er hér einkum um að ræða og hvaðan eru þeir fengnir (t.d. frá nytjamörkuðum eða skyldfólki)?

Kafli 4 af 4 - Nýting

Kemur fyrir að notuð föt séu gefin? Hverjum er gefið og af hvaða tilefni? Er saumað upp úr gömlum fötum? Hve algengt er það?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.