LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiEndurnýting, Nýtni, Sjálfsþurft, Viðgerð
Ártal1950-2010
Spurningaskrá113 Heimatilbúið, viðgert og notað

ByggðaheitiSeyðisfjörður
Sveitarfélag 1950Seyðisfjörður
Núv. sveitarfélagSeyðisfjarðarkaupstaður
SýslaGullbringusýsla, N-Múlasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1943

Nánari upplýsingar

Númer2010-2-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.11.2010/18.12.2010
TækniTölvuskrift
Nr. 2010-2-2.

Svör miðast við uppvaxtarár heimildarmanns og fyrstu búskaparár. Sum svörin gilda þó um nútímann enda spurt um það.

Viðgerðir og endurbætur
Er gert við fatnað? Hvaða fatnað? Hversu umfangsmiklar eru viðgerðirnar? Hve algengt er þetta?
Í barnæsku var gert við allan fatnað. Vinnuföt föður míns voru bætt og allir sokkar voru stagaðir. Mamma saumaði upp úr eldri flíkum. Þetta var alltaf gert á mínum uppvaxtarárum. Mamma saumaði öll föt á okkur systurnar og á sjálfa sig. Ég man líka eftir að hún saumaði vinnubuxur á föður minn úr vaðmáli sem hún fékk fyrir ull sem send var til Akureyrar. Ég sjálf notaði eldri flíkur og saumaði á son minn sem fæddur er 1974 allt til ársins 1980 að hann byrjaði í skóla.  
Hefur einhver á heimilinu kunnáttu sem nýtist við fataviðgerðir eða fatasaum og hvaðan er sú kunnátta komin? Hverju hefur hún skilað?
Ég tel mig kunna vel til verka ennþá en þetta er ekki mikið gert lengur. Bæði er að flíkur endast lengur og svo þykir ekki “við hæfi” að gert sé við föt. Þessi kunnátta er komin frá heimilinu og uppvexti mínum.
Þekkist að fara með fatnað á saumastofur til viðgerða? Hvaða fatnað helst?
Á mínum uppvaxtarárum var aldrei farið með fatnað á saumastofu til viðgerða, en mamma fór á saumanámskeið á hverju ári því þar fékk hún flíkur sniðnar. Helst var gert við vinnufatnað og útifatnað okkar systkinanna, en öll jólaföt og skólaföt voru saumuð heima. Ég hef farið með föt á saumastofu til að láta breyta þeim.
Í hvaða mæli er gert við reiðhjól eða bíla?
Við áttum ekki bíl en gert var við reiðhjól heima. Á mínum búskaparárum hefur hvorki verið gert við hjól né bíl heima við.
Skiptir þú um dekk eða gerir við þau sjálf(ur)? Hve algengt er það?
Ég tel mig ekki geta skipt um dekk lengur.
Er dyttað að leikföngum, heimilistækjum og áhöldum? Hvað er hér helst um að ræða?
Já. Á heimili mínu var dyttað að öllu sem talið var að nýttist eftir viðgerð. Öll áhöld sem notuð voru til heyvinnu, svo sem hrífur og baggabönd voru viðgerð. Ekki var gert við diska, skálar eða mataráhöld eftir að ég kom til vits og ára.
Hvað annað er gert við?
Gert var við utanhúss, svo sem girðingar, dyttað að grjótgörðum og öðru sem kallaði á samfellt viðhald.
Hvaða verkfæri eru til á heimilinu?
Á heimili foreldra minna voru til öll verkfæri til utanhúss viðgerðar. Innan húss var saumavélin mikið notuð, svo og hakkavélin og eldavélin sem breyttu hráefni í mat. Á mínu heimili er til saumavél og  ég tel mig sæmilega tæknivædda til að gera við smáhluti, festa skrúfur og negla nagla eða bora í vegg.
Ferð þú með skó í viðgerð? Er meira eða minna um það nú en áður?
Alla mína bernsku var farið með alla skó í viðgerð svo lengi sem taldist mögulegt að gera við þá. Ég fer með eftirlætis skó í viðgerð en það fer síminnkandi.
Annast þú viðhald eða viðgerðir á þínu eigin húsnæði og í hverju er það helst fólgið?
Ég annast einfalt viðhald innan húss. Bý í blokk og þarf því ekki að huga að viðgerðum eða viðhaldi utanhúss.
Ef að þú ert með bílskúr til hvers er hann þá notaður?
Hef bílskýli fyrir bílinn minn. Í barnæsku var enginn bílskúr og enginn bíll.

Búið til heima
Er bakað á þínu heimili?
Á mínu bernskuheimili var allt bakað, brauð og kökur. Ég er hætt að baka enda bý ég ein. Undantekningin er ef ég á von á gestum.
Hvaða brauð, kökur eða tertur eru helst bakaðar og úr hvaða mjöli eða korntegundum?
Áður voru bökuð öll brauð, heilhveitibrauð og hveitibrauð, mikið bakað ef tertum, smákökum, flatbrauði o.s.frv. Nú baka ég kannski eina eplaköku ef ég á von á gestum eða nota Betty Crocket kökuduft til að auðvelda mér verkið!
Hvenær og af hvaða tilefni er helst bakað?
Á bernskuheimili var bakað því faðir minn vann verkamannavinnu og kom í kaffi og mat oft á dag eða þörf var fyrir að nesta hann með brauði. Ég baka núna aðeins ef ég á von á gestum.
Hve oft er bakað (t.d. einu sinni í viku)?
Mamma bakaði í hverri viku. Ég baka kannski einu sinni í mánuði.
Getur þú nefnt einhverjar uppskriftir og hvaðan þær eru komar (úr bókum, af netinu t.d.)?
Mamma átti margar mjög góðar uppskriftir af brauði sem var bakað með geri, tertur og smákökur voru hafðar vel sætar og fallegar, en í kleinurnar voru notaðir afgangar, t.d. rjómi sem hafði súrnað eða annað slíkt. Allt var nýtt. Ég hef bara nokkrar uppskriftir sem mér þykja góðar og er ekki mikið í tilraunastarfsemi.
Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Í barnæsku minni var sultað, saftað, gerð kæfa og rúllupylsa og jafnvel bjúgu úr kindalungum, allt unnið úr þeim lömbum sem slátrað var heima. Aldrei var búið til konfekt en ís var gerður á jólunum. Berjasaft var gerð og var mjög sæt, rabbarbari var soðinn í sultu, og ræturnar líka settar í sætan vökva og notað eins og niðursoðnir ávextir. Ég tíni smávegis af ribsberjum og bý til ribsberjahlaup úr 1 kílói af berjum á ári.
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?
Já. Að sjálfsögðu voru tekin slátur heima, líklega úr 20 lömbum. Ég tek sjálf 3 slátur á hausti og hef gert alla tíð.
Ræktar þú grænmeti (kartöflur, rófur, kál, rabbarbara t.d.)? Í hvaða mæli? Hvað hefur þetta tíðkast lengi á þínu heimili?
Kartöflur, rófur og rabbarbari var ræktaður heima og nýtt í þaula. Við höfðum stóran kartöflugarð. Fyrst í búskap mínum var ég með kartöflugarð en hætti því fyrir 15 árum eða svo.
Ferð þú eða einhver í fjölskyldunni á berjamó, í fjöruna eða tínir sveppi? Hvers vegna?
Á mínu bernskuheimili var farið í berjamó en hvorki nýtt æti úr fjöru eða sveppir. Ég held að ekki hafi verð kunnátta til að nýta þessi jarðargæði. Fjörurnar á Seyðisfirði voru líka mjög mengaðar og engan líklega langað að borða það sem þar hefði verið hægt að tína. Enginn skógur var á Seyðisfirði og þeir sveppir sem ég man eftir voru yfirleitt kallaðir gorkúlur og engum dottið í hug að leggja sér til munns. Eftir að ég setti saman mitt eigin heimili hef ég bæði safnað bláskel og tínt sveppi en ekki í miklum mæli. Meira mér til gamans.
Eru saumuð föt heima hjá þér? Hvers konar föt og á hverja er saumað (t.d. börn)? Hve mikið er um þetta?
Áður voru saumuð föt á alla fjölskylduna eins og ég nefndi fyrr. Saumað var upp úr gömlu en líka úr nýjum efnum eftir því hvers konar fatnaður var um að ræða. Á mínum námsárum saumaði ég nær öll föt handa mér enda hafði ég lítið milli handa.  
Hvaða áhöld til fatasaums eða fataviðgerða eru á heimilinu (t.d. saumavél)?
Sama svar og áður. Ég á saumavél og að sjálfsögðu bæði nálar og tvinna!
Prjónar þú eða einhver á heimilinu? Hvað er prjónað og á hverja? Er mikið/lítið um þetta?
Ég prjóna ekki, en gerði það á árum áður. Á bernskuheimilinu prjónuðu allir, en aðallega sokka og vetlinga sem mikil þörf var fyrir. Ég man þó eftir að hafa eignast útprjónaða lopapeysu sem ég hataði enda með ofnæmi fyrir ullarfötum.
Þekkir þú heimatilbúna (grímu)búninga, skraut, jólagjafir, jólakort og fleira þess háttar? Hve algengt er þetta og um hvað er helst að ræða?
Grímubúningar voru saumaðir heima, jólaskraut var gert en ekki jólakort. Ég hef aldrei verið sniðug í slíku og hef ekki gert þetta í neinu mæli, hvorki fyrr né síðar.
Kannast þú við heimatilbúin leikföng? Hvaða leikföng og úr hvaða efnum? Eru búin til leikföng á þínu heimili?
Já, ég man eftir pappa-dúkkum sem nú eru kallaðar dúkkulísur. Ég teiknaði föt á þessar dúkkur. Við áttum líka bú með beinum og hornum og glerbrotum. Ekkert slíkt hefur verið gert síðan ég hóf búskap.
Hvað annað er búið til?
Heima var búið til allt sem gat nýst en ég er ekki mjög skapandi og hef því lítið sinnt þessu.
Hafa heimastörf af framangreindu tagi einhverja efnahagslega þýðingu eða telur þú þau fremur til tómstundaiðju?
Öll þessi heimastörf voru gríðarlega mikilvæg fyrir efnahag heimilisins í bernsku minni. Þegar ég horfi til baka finnst mér við hafa lifað nokkurn veginn sjálfsþurftarbúskap. Ekkert var keypt sem hægt var að vinna heima. Því var allt saumað, eldað og bakað sem fjölskyldan þurfti að nýta.
Finnst þér að störfin hafi uppeldis- eða þjóðfélagslegt gildi? Hvernig þá ef svo er?
Mér finnst þetta hafa mótað mitt lífsviðhorf mjög og fyrir mér er mjög eðlilegt að fara vel með allt og nýta fremur en að fleygja. Í raun – nú fer ég með rusl í endurvinnslu, fer með notaða hluti í endurvinnslugáma og þetta er mér eðlilegt og ég lít ekki á að þetta sé  nein fyrirhöfn.

Nýting
Notar þú húsgögn eða tæki sem aðrir hafa átt áður? Hvað hluti er hér einkum um að ræða og hvaðan eru þeir fengnir (t.d. frá nytjamörkuðum eða skyldfólki)?
Við notuðum allt til hins ýtrasta. Við nýttum það sem okkur var gefið áður fyrr. Nú á ég marga mjög gamla hluti sem ég hirti úr bernskuheimilinu mínu og lét endurnýja. Fyrst á búskaparárum mínum þáði ég með þökkum það sem mér var gefið, t.d. gömul barnaföt. Nú er ég það vel stæð að ég get gefið öðrum.
Ganga yngri börn í fötum af eldri systkinum? Er það algengt? Þykir niðurlægjandi að vera í fötum af öðrum, ættingjum eða vandalausum?
Það var að sjálfsögðu gert áður fyrr. Ég hef gefið barnaföt, en ég finn að það er ekki vel þegið af fjölskyldunni. Ég gef því til óskildra aðila.
Kemur fyrir að notuð föt séu gefin? Hverjum er gefið og af hvaða tilefni?  
Áður fyrr voru flíkur nýttar til þrautar og voru orðnar ónýtar áður en þeim var fargað. Þær voru stundum notaðar þannig að þær voru klipptar í ræmur og úr þeim ofnar mottur. Nú gef ég – eins og ég nefndi áður – til hjálparstofnana.
Er saumað upp úr gömlum fötum? Hve algengt er það?
Svaraði þessu áður. Geri þetta ekki lengur.
Þekkist að brúðkaups- eða veisluföt séu fengin að láni eða tekin á leigu?
Þekki það ekki.
Hve algengt er að nota gamlar skólabækur? En að selja eða skipta á þeim og öðrum námsbókum?
Í “gamla daga” fengum við allar skólabækur. Ég þekki ekki til núna.
Stundum fá gamlir hlutir nýtt hlutverk eða er breytt í eitthvað annað að hluta til eða alveg. Hvað getur þú sagt um þetta? Nefndu dæmi ef til eru.
Nefndi áður að þegar flíkur voru orðnar of lélegar til að nota sem slíkar voru þær klipptar niður í ræmur og úr þeim ofnar mottur. Ég kann það ekki.
Ferð þú með dósir og flöskur í endurvinnslu, endurnýtir poka, krukkur, snjáð handklæði og boli (t.d. sem tuskur)? Segðu frá!
Já ég fer með allt sem ég get í endurvinnslu. Nú bíð ég eftir að hægt verði að fara með lífrænan úrgang í endurvinnslu. Kynntist því erlendis að hægt var að fara með matarúrgang í endurvinnslu.
Hvað getur þú sagt um samnýtingu á tækjum, samakstur eða sameiginleg kaup á dagblöðum og tímaritum?
Við samnýtum núna áskriftir af dagblöðum. Ekkert slíkt var í barnæsku minni nema að við þurftum að kaupa akstur með hey þar sem við áttum ekki bíl .
Reynir þú að spara rafmagn og hita? Með hvaða hætti?
Já. Þetta er mér í blóð borið. Slekk ljós, nota styttri uppþvottakerfi o.s.frv. Ég held ég geri þetta ómeðvitað.
Hvaða máli skipta umhverfissjónarmið í sambandi við endurnýtingu eða að nota hlutina vel? Býrð þú t.d. til gróðurmold úr lífrænum úrgangi?
Gríðarlegu máli. Mér finnst okkur beri skylda til að fara vel með gæði náttúrunnar.
Hversu vel er matur nýttur? Eru t.d. notaðir matar- eða brauðafgangar? Hvernig? Ferðu með nesti í vinnuna?
Mjög vel. Hendi sjaldan mat.  Ég er komin á eftirlaun og þarf því ekki að nesta mig.
Hver eru tengsl nýtni og þess að gera hlutina sjálfur við efnahag fólks að þínu mati?
Nýtni og nægjusemi eru horfin úr íslensku samfélagi að mestu leyti. Ég finn að það er ekki “í tísku” að fara vel með og það þykir hallærislegt að gera við sokka. Ég píni mínar skoðanir ekki upp á fólk.
Hvernig mundir þú segja að nýtni væri háttað á þínum vinnustað?
Á þeim vinnustöðum sem ég hef verið á hefur verið gert átak í endurvinnslu á pappír og reynt að leggja að fólki að fara vel með. Það hefur gengið misjafnlega.
Hvað finnst þér um útsjónarsemi og nýtni svona yfirleitt? Getur þetta gengið of langt eða of skammt? Nefndu dæmi ef til eru.
Það er kannski fín lína milli nísku og nýtni. En miðað við okkar samfélag erum við ákaflega eyðslusöm og förum illa með það sem við eignumst og þar með förum við illa með gæði náttúrunnar. Við gætum verið miklu nægjusamari og sérstaklega er alvarlegt hvað börnum er gefið mikið og þau geta fengið allt sem þau biðja um.
Er þér kunnugt um viðgerðir og nýtni á öðrum heimilum og hvað búið er til þar? Segðu frá því sem þú veist um þetta efni.
Ég þekki lítið til þess að verið sé að gera við, tel þó að algengara sé að eitthvað sé búið til, t.d. skartgripir, slæður eða eitthvað sem er sérstakt og einstakt.Kafli 1 af 4 - Viðgerðir og endurbætur

Er gert við fatnað? Hvaða fatnað? Hversu umfangsmiklar eru viðgerðirnar? Hve algengt er þetta? Hefur einhver á heimilinu kunnáttu sem nýtist við fataviðgerðir eða fatasaum og hvaðan er sú kunnátta komin? Hverju hefur hún skilað?
Í hvaða mæli er gert við reiðhjól eða bíla? Skiptir þú um dekk eða gerir við þau sjálf(ur)? Hve algengt er það?
Er dyttað að leikföngum, heimilistækjum og áhöldum? Hvað er hér helst um að ræða?

Kafli 2 af 4 - Búið til heima

Er bakað á þínu heimili? Hvaða brauð, kökur eða tertur eru helst bakaðar og úr hvaða mjöli eða korntegundum? Hvenær og af hvaða tilefni er helst bakað? Hve oft er bakað (t.d. einu sinni í viku)? Getur þú nefnt einhverjar uppskriftir og hvaðan þær eru komar (úr bókum, af netinu t.d.)?
Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?

Kafli 3 af 4 - aadas

Er búin til sulta, saft, marmelaði, konfekt, ís, kæfa/paté og fleira þess háttar? Hve lengi hefur þetta verið gert á heimilinu og í hvaða mæli? Hvaða uppskriftir eru notaðar?
Tekur þú eða þínir slátur (blóðmör/lifrarpylsu) og ef svo er hve mörg? Á þetta sér lengri eða skemmri sögu á heimilinu?
Notar þú húsgögn eða tæki sem aðrir hafa átt áður? Hvað hluti er hér einkum um að ræða og hvaðan eru þeir fengnir (t.d. frá nytjamörkuðum eða skyldfólki)?

Kafli 4 af 4 - Nýting

Kemur fyrir að notuð föt séu gefin? Hverjum er gefið og af hvaða tilefni? Er saumað upp úr gömlum fötum? Hve algengt er það?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.