LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiBátasmíði, Skipasmíðar
Ártal1953-1976
Spurningaskrá108 Skipasmíðar

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1936

Nánari upplýsingar

Númer15483/2007-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið28.9.2006/26.10.2007
TækniTölvupóstur, Tölvuskrift
Kársstöðum 20. október 2007

 Komdu sæll Ágúst.

 Ég tók mér það bessaleyfi að breyta uppsetningu spurningalistans í það horf sem hentaði mér betur og vona að það komi ekki að sök.

    Þetta hefur verið skemmtileg upprifjun löngu liðinna tíma en því miður hefur berlega komið í ljós að minnið er orðið valt og ber þér því að hafa orð Ara fróða í huga þegar þú lest skrifið, að hafa skal það er sannara reynist. Ég hef farið margar ferðir yfir svörin og lagfært það sem við nánari skoðun mátti betur fara og á ekki von á að um stórlegar eða grófar missagnir sé að ræða en alltaf getur eitthvað leynst og svo lítur hver sínum augum á silfrið þannig að tvær frásagnir af sama atburði geta verið á margan hátt gerólíkar.

 

   Mér þykir rétt að geta fjögurra bóka sem ég hef stuðst við til þess að hressa upp á minnið. Því miður er lítið til af bókum sem fjalla um faglega skipasmíði og þótt víða sé í öðrum skrifum getið um skipasmíðar þá ná þær frásagnir skammt verklega séð, nánast ekkert fram yfir að geta um bát og smiði.

 

   Samgönguráðuneytið gaf út þann 11. nóvember 1947 hefti sem ber heitið Reglur um smíði tréskipa og var það gert samkvæmt lögum nr 68 5. júní 1947 um eftirlit með skipum. Þetta prent var okkar biblía þann tíma sem ég starfaði við skipasmíðar hvað svo sem síðar hefur orðið.

 

   Næst er að geta sérprentunar úr tímaritinu Akranes að nafni Saga Slippfélagsins í Reykjavík í fimmtíu ár. Hún kom út árið 1955 og er eftir Ólaf B. Björnsson.

 

   Þá er það rit Sveinafélags skipasmiða í Reykjavík, Byrðingur, sem hefur að geyma myndskreytta sögu félagsins frá árinu 1936 til og með árinu 1961 en hana festi á blað Gunnar M. Magnúss rithöfundur.

 

   Í fjórða lagi er bók Hjálmars R. Bárðarsonar Fyrsta stálskip smíðað á Íslandi, gefin út af honum sjálfum árið 1993.

 

   Þá vil ég að síðustu benda þér á kafla í ritinu Safn til Iðnsögu Íslendinga þar sem Smári Geirsson skrifar Iðnsögu Austurlands og kallar Frá skipasmíði til skógerðar. Er skaði að hann skuli ekki hafa verið skikkaður til þess að gera öðrum hlutum landsins svipuð skil.

 

   Vonandi verður eitthvert gagn að þessum samtíningi hér á eftir og eins vona ég að þú fáir líka svör frá einhverjum sem raunverulega hafa starfað sem fagmenn þ.e. smíðað báta og skip frá kili upp í masturshún.

    Bestu kveðjur 

 Jón E. Ísdal.

  
1. Námið

 
 
1.1. Í hvaða iðnskóla stundaðir þú nám og hvenær?
 
Ég hóf nám við Iðnskólann í Reykjavík haustið 1953 og var fyrstu árin í blendingi af kvöldskóla og dagskóla í Iðnaðarmannahúsinu við Vonarstræti undir styrkri stjórn Helga Hermanns Eiríkssonar en lauk námi vorið 1956 í dagskóla í nýju húsnæði skólans á Skólavörðuholti sem þá var stýrt af öðlingnum Þór Sandholt. 
 
1.2. Hver voru inntökuskilyrðin?
 
Ég minnist ekki neinna inntökuskilyrða.
 
1.3. Hvaða faggrein lærðir þú?
 
Tréskipasmíði.
 
1.4. Var eitthvað sem torveldaði eða auðveldaði þér að fara í námið og þá hvað helst?
 
Á þessum árum var farið að gæta samdráttar í öllu atvinnulífi landsmanna eftir gegndarlaust „stríðsgróðafyllirí“ verulegs hluta þjóðarinnar á áratugnum á undan svo og vegna starfsemi hinnar alræmdu Fjárhagsnefndar, en til hennar þurfti að sækja um uppáskrift ef menn vantaði pakka af saum eða poka af sementi. Afleiðingarnar komu m.a. fram í að iðngreinameistarar héldu að sér höndum þegar fjölgun nema bar á góma og því gagnaðist mér ekki að beita hefðbundnum aðferðum samanber svör við 1.5, 1.8 og 1.9.
 
1.5. Komstu t.d. strax að eða þurftirðu að bíða?
 
Hóf nám í sömu viku og ég fór fram á það.
 
1.6. Var námið dýrt?
 
Helsti kostnaður við námið var kaup á skjólgóðum vinnufötum (tréskipasmíði var að miklu leyti útivinna og þá tíðkaðist ekki, né var liðið, að menn stæðu í skjóli þó blési) og verkfærum sem á þeim árum voru rándýr.
 
1.7. Hver var helsti kostnaðurinn?
 
Sjá svar við 1.6.
 
1.8. Hvers vegna varð þetta nám fyrir valinu?
 
Þessi spurning kallar á nokkurn formála svo að henni verði svarað á viðunandi hátt. Ég lauk námi í Gagnfræðaskóla Verknámsins vorið 1952 og hélt þá ásamt félaga mínum til Svíþjóðar í atvinnuleit. Við vorum ljónheppnir og fengum strax vinnu, í akkorði, við að gera við trékassa fyrir tvö stórfyrirtæki í Gautaborg, Vin och Spritcentralen, núverandi Systembolaget, og Mjölkcentralen. Við þetta störfuðum við fram að jólum en þá varð heimþráin útivistinni sterkari. Hér heima var þá eins og fyrr segir hálfgert kreppuástand allavega fyrir ólærða unga menn og ekki um neitt annað að ræða en að fara á „eyrina“ en þar sátu eðlilega þeir eldri, sem höfðu fyrir fjölskyldu að sjá, fyrir um þau störf sem ráðið var í. Mig hafði nokkuð lengi langað til þess að læra útvarpsvirkjun og vatt mér því í að tala við meistara í þeirri iðngrein en hlaut allsstaðar frávísun, sama var um trésmíðar en mér höfðu líkað ágætlega kassaviðgerðirnar í Svíþjóð og gat því vel hugsað mér starf við smíðar. Þar voru svörin svipuð „tek enga lærlinga í ár“ þá opnaðist það sem reyndist mér bakdyraleið í skipasmíðina því í Morgunblaðinu birtist auglýsing þar sem leitað var eftir afgreiðslumanni til afleysinga í Slippbúðinni og hlaut ég starfið. Þegar leið að hausti og ég hafði, að eigin mati, kynnt mig nokkuð vel fyrir þeim verkstjórum sem stýrðu skipasmiðum Slippfélagsins, Antoni Jónssyni frá Arnarnesi við Eyjafjörð og Peter Wigelund, en hann var Færeyingur sem starfað hafði á Austfjörðum árin 1928 til 1934 og ávann sér þar merka sögu, fór ég og spurði Wigelund hvort ég gæti ekki komist á samning með þeim árangri að ég hóf störf í sömu viku. Þar sem þessi tilfærsla var innan sama fyrirtækis var ekkert talað um uppsagnarfrest enda held ég að ég hafi ekki, sem sumarstarfsmaður, verið skráður í Verslunarmannafélag Reykjavíkur en ég man enn hve vænt mér þótti um það þegar Magnús verslunarstjóri sagðist hafa ætlað að hafa mig áfram en þá var teningunum kastað og ekki aftur snúið.
 
1.9. Hefðir þú frekar kosið annað nám og ef svo er hvaða?
 
Sjá svar við 1.8.
 
1.10. Varstu að velja þér ævistarf?
 
Ekki held ég að ég hafi neitt hugsað um það, frekar um að hafa trygga vinnu.
1.11. Hvað var námstíminn langur og hvernig var skiptingu í bóklegt og verklegt nám háttað?
 
Námstíminn var fjögur ár sem náði bæði yfir bóklega og verklega þáttinn. Ætlast var til að bóklega þættinum væri skipt jafnt niður á árin en mér tókst að komast fram hjá þeirri tilskipan. Ég hafði sem sé fengið þær upplýsingar hjá lærlingunum í Slippnum að fyrstu tvö námsárin fengu þeir enga yfir-nætur eða helgidagavinnu en á seinni árunum rýmkaðist heldur um það. Því fannst mér einsýnt að best væri að ljúka bóknáminu sem fyrst meðan engar aukagreiðslur væri að fá og hóf því námsferilinn með því að fara strax í Iðnskólann. Sjá svar við 1.1.
 
1.12. Hjá hvaða skipasmíðastöð eða meistara lærðir þú og af hverju varð hann fyrir valinu?
 
Slippfélaginu í Reykjavík, meistarar Anton Jónsson eða Peter Wigelund eins og stendur í námssamningi. Sjá svar við 1.8.
 
1.13. Hvernig var staðið að verklegri kennslu og hverjir önnuðust hana?
 
Í þá daga sem og endranær byggðist þetta upp á einstaklingnum sjálfum. Maður tók eftir því hvernig þeir vönu báru sig að, spurði þá sem maður vænti skætingslausra svara frá og reyndi að halda sig að þeim sem skildu kjánalegar spurningar. Staðreyndin var sú að í þessum þrjátíu manna hópi sem þarna vann þegar ég hóf nám voru ansi margir sem veröldin hafði ekki tekið blítt á og bitu því fyrst frá sér áður en þeir svöruðu efnislega og þá oft með hálfkæringi. Þá var stríðni landlæg og smá hrekkir algengir og bitnaði þetta ekki síst á nýgræðingum sem voru að reyna að fóta sig í faginu. Þannig virtist þetta vera á flestum vinnustöðum þar sem ég þekkti til við höfnina og í raun allir þurftu að kljást við aðfinnslulaust því að þá var ekki búið að finna upp hið nú vinsæla orð einelti til skýringar á þessum mannlega samskiptaþætti. Í raun voru þetta samt hinir bestu karlar þegar inn úr skrápnum var komið en hann var ansi þykkur á sumum.
 
1.14. Hvaða vinnu hafðir þú stundað áður en þú fórst í námið?
 
Sjá svar við 1.8.
 
 
2. Ófaglærðir skipasmiðir

 

 
2.1. Hversu algengt var að ófaglærðir skipasmiðir ynnu sömu störf og skólagengnir?
 
Í Slippnum, á þeim tuttugu og þremur árum sem ég vann þar, voru ávallt starfandi einn eða fleiri „ófaglærðir skipasmiðir“ og ástæðan sú að við mörg þeirra verka sem unnin voru var ekki krafist „faglegra“ vinnubragða heldur laghentra manna sem nenntu að vinna. Þeir voru nær alltaf látnir í verk með „fagmönnum.“
 
2.2. Hvaða eiginleikum þurftu ófaglærðir að vera búnir í þessu sambandi?
 
Sjá svar við 2.1.
 
2.3. Gátu ófaglærðir unnið sig upp á við útlærða að því er snerti verkefni og laun?
 
Ef ráða átti „ófaglærða“ til starfa um lengri eða skemmri tíma þurfti að sækja um leyfi til Sveinafélags skipasmiða í Reykjavík fyrir ráðningunni. Það leyfi fékkst ekki nema þeim væri greitt sama kaup og lærðum.
 
2.4. Hvaða máli skipti handlagni og reynsla í þessu sambandi?
 
Lengi vel var það talið til kosta að ná í starfsmann sem hafði til að bera bæði reynslu og handlagni og skiptu þá réttindi minna máli.
 
2.5. Er þér kunnugt um ólærða smiði sem höfðu formlegar eða óformlegar undanþágur og máttu t.d. ráða menn í vinnu?
 
Á fyrstu árum mínum í Slippnum vann ég með tveimur „skipasmiðum“ sem höfðu ekki sveinspróf heldur meistarabréf útgefið af ráðherra samkvæmt einhverri reglugerð sem þá var í gildi og var sett vegna fjölda góðra smiða sem orðnir voru við aldur, höfðu smíðað marga báta og gert við mörg skip, en treystu sér ekki á námskeið í skóla til þess að afla sér sveinsréttinda. Þessi meistarabréf veittu þeim heimild til þess að standa fyrir verkum og ráða menn í vinnu en ekki að taka lærlinga. Samtök skipasmiða voru mjög á móti þessum lögum og töldu þau skerða rétt hinna lærðu og þurfti oft ekki nema eina eða tvær vel valdar setningar til þess að hleypa öllu í bál og brand ef sagðar voru í návist meistaranna tveggja.
 
 
3. Ráðning
 
 
3.1. Hvernig fór ráðningin fram?
 
Ef átt er við mína ráðningu þá vísa ég á 1.8. Í öðrum tilvikum var skoðað sveinsbréf, meistarabréf eða gerður námssamningur. Haft var samband við trúnaðarmann á vinnustað og/eða stjórnarmann í Sveinafélaginu ef um var að ræða „ófaglærðan“ umsækjanda.
 
 
3.2. En uppsagnir og með hve miklum fyrirvara?
 
Þann tíma sem ég vann í Slippnum man ég aðeins eftir einum manni sem var sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara en sú uppsögn var síðar dregin til baka.
 
3.3. Í hvaða skipasmíðastöðvum hefur þú unnið og á hvaða tímabili í hverri um sig?
 
Slippfélaginu í Reykjavík frá hausti 1953 til hausts 1976.
 
 
4. Kaup og kjör
  
 
4.1. Hvernig þóttu kjörin við skipasmíðarnar?
 
Þekki engan sem var ánægður með sín kjör aftur á móti marga sem voru ánægðir með að hafa vinnu.
 
4.2. Hvernig gekk að framfleyta sér af þessum launum?
 
Ég hugsa að enginn þeirra skipasmiða sem ég vann með hafi talið sig lifa kóngalífi en þeir komust þokkalega af enda komu af og til yfirvinnuskorpur sem reynt var að deila nokkuð jafnt á mannskapinn. Gerðu þær það að verkum að menn áttu stundum fyrir rúmlega saltinu í grautinn. Að auki gripu yngri mennirnir feginsamlega alla þá aukavinnu sem utan vinnustaðar var að fá. Sem dæmi um það fór svo hjá mér að sumarið 1956 tók ég að mér viðgerðir á sumarhúsi og fréttin flaug. Hafði ég allnokkurn starfa á þeim vettvangi næstu tíu árin svo mikinn að að mér hvarflaði nokkuð sú hugmynd að leggja þetta fyrir mig sem aðalstarf en þá höfðu örlögin, mér óafvitandi, gripið í taumana svo að ekki varð af því en áráttan hefur ætíð fylgt mér.
 
4.3. En af nemalaunum?
 
Mig minnir að laun nema á fyrsta ári hafi verið, þegar ég hóf nám, 20% af kaupi sveina og verið komin í 50% þegar námi lauk. Því lifði ég að mestu á foreldrum mínum allan námstímann. 
 
4.4. Tíðkuðust yfirgreiðslur umfram taxta ?
 
Nei.
 
4.5. Var samið um einhver einstaklingsbundin fríðindi og þá hvaða?
 
Verkstjórar sáu gegnum fingur sér við smiðina, einkum átti það við um okkur hina yngri, um afnot af Smíðahúsinu, sem var mjög rúmgott, til smíða utan vinnutíma ef það braut ekki í bága við þarfir fyrirtækisins og sjaldan vorum við látnir borga fyrir vélavinnu í vélasal. Einnig var alltaf reynt að gefa mönnum frí, burtséð frá sumarleyfi, ef farið var fram á það. Öðrum fríðindum var ekki til að dreifa.
 
4.6. Var dregið af launum ef menn mættu of seint til vinnu?
 
Ávallt.
 
4.7. Hvers konar fyrirkomulag var á því?
 
Stimpilkort og klukka og hart tekið á því ef stimplað var fyrir aðra. Þurfti þar ekki verkstjóra til því hinir eldri í hópi starfsmanna liðu ekki slíkan óheiðarleika.
 
4.8. Þekktist að menn væru í öðru launuðu starfi og hvers vegna?
 
Ef átt er við í vinnutíma, þá var það ástæða framangreindrar uppsagnar samanber svar við 3.3. Um önnur launuð störf er mér ekki kunnugt.
 
 
5. Vinnutími
 
 
5.1. Klukkan hvað byrjaði vinnudagurinn og hvenær lauk honum?
 
Dagvinna hófst klukkan hálfátta og henni lauk klukkan hálffimm en með einhverjum tilfæringum, sem ég man ekki hverjar voru, hættum við þegar klukkan var tíu mínútur gengin í fimm. Þá tóku við tveir tímar í yfirvinnu sem, með sömu tilfæringum, var lokið klukkan sex.  
 
5.2. Hve mikið var um yfirvinnu og vinnu um helgar?
 
Flest áranna sem ég starfaði í Slippnum var unnin yfirvinna frá mánudegi til og með fimmtudegi. Ég man aðeins eftir tveimur tímabilum, nokkuð löngum, þar sem aðeins dagvinna var unnin. Það var á árunum 1957 og 58 svo og 1968 en síðustu árin mín var oft unnin eftirvinna, þótt þess þyrfti ekki, til þess eins að halda mannskapnum. Nætur og helgidagavinna var þó nokkur en oftast bundin vertíð eða sjótjónum.
 
5.3. Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?
 
Þegar ég hóf störf í Slippnum var matartími klukkustund í hádeginu og dagvinnu lokið klukkan fimm en með tilkomu kaffistofu, sjá svar við 11.7 og krafna yngri starfsmanna varð matartíminn þrjátíu mínútur og styttist vinnudagurinn tilsvarandi við það.  Kaffitímar í dagvinnu voru fimmtán mínútur hver, sá fyrri klukkan níu og sá síðari klukkan þrjú en sá siður var á að setið var til tuttugu mínútur yfir en aldrei lengur. Samningsbundinn kaffitími í upphafi yfirvinnu var aldrei tekinn hann fór í tilfæringarnar sem um getur í svari við 5.1.
 
5.4. Voru gerð önnur hlé á vinnunni yfir daginn? Hvað fannst yfirmönnum um þau?
 
Ég var svo heppinn að alast þarna upp í hópi manna sem flestir báru þá virðingu fyrir sjálfum sér að leggja metnað í að stunda sína vinnu eftir bestu getu. Þeir sem áttu erfitt með að semja sig að því siðferði flosnuðu fljótlega upp og fóru í aðra vinnu. Þessu gerðu yfirmenn sér vel grein fyrir og báru traust til síns fólks enda hefði verið útilokað fyrir tvo verkstjóra að halda utan um þrjátíu manna hóp dreifðan víðsvegar um Reykjavíkurhöfn án þess.
 
 
6. Vinnuumhverfi

 
 
6.1. Hve mikill hluti af vinnunni fór fram úti og hve mikill inni?
 
Þessari spurningu treysti ég mér engan veginn til þess að svara.
 
6.2. Hvenær komu skemmur til sögu og hverju breyttu þær?
 
Í minni tíð bættust engar skemmur við húsnæði skipasmíða hjá Slippnum.
 
6.3. Í hvaða mæli var unnið úti þrátt fyrir aðstöðu innanhúss?
 
Sama svar og við 6.1.
 
6.4. Lýstu vinnuumhverfi, t.d. húsakynnum og dráttarbraut og segðu frá breytingum þar að lútandi í tímans rás.
 
Húsnæði það sem skipasmiðir höfðu til umráða í Slippnum var: Bátastöð Magnúsar, Smíðahúsið, vinnuaðstaða í Vélahúsi og á Bekkjaverkstæði. Bátastöð Magnúsar stóð fyrir ofan litla slippinn en áður en hann kom til sögunnar var þar enn minni dráttarbraut sem dregið gat hina smærri báta inn í Bátastöðina. Því var hætt þegar ég hóf störf og einu notin sem ég man eftir að skipasmiðir hefðu af stöðinni voru þau að á einhverju fyrstu ára minna var þar höggvið til mastur í bát og nokkrum sinnum smíðaðar langar flaggstangir að öðru leyti var Bátastöðin notuð sem hráefnisgeymsla fyrir Málningarverksmiðju Slippfélagsins sem þá var í steinhúsi áföstu við Bátastöðina. Smíðahúsið var aðalvinnusvæði smiðanna. Það var tvö til þrjú hundruð fermetrar að stærð með góðri lofthæð og stórum dyrum þar sem inn komust nokkuð stórir masturslausir bátar til viðgerða. Algengt var að þar væri gert við lífbáta af nýsköpunartogurunum en þeir voru miklir og þungir hlunkar. Þar voru verkfæraskápar flestra þeirra smiða sem að jafnaði unnu um borð í skipunum svo og geymsla fyrir þau áhöld sem smiðirnir áttu ekki sjálfir. Þá var þar kaffistofa sem rúmaði sextán manns og í henni fataskápar fyrir yfirhafnir smiðanna. Vélahúsið var mjög vel (á þeirra tíma vísu) búið tækjum. Þar starfaði verkstjóri og með honum að jafnaði tveir menn. Ekki unnu þeir fyrir okkur smiðina nema í undantekningartilvikum heldur urðum við oftast að sæta lagi og fara í vélarnar þegar færi gafst. Kostaði það stundum rimmu. Á Bekkjaverkstæðinu, sem var á hæðinni fyrir ofan Vélahúsið, var unnin öll „fínni“ smíði, eins og innréttingar í skip, og einnig mörg handarviðvik fyrir hina ótrúlega mörgu „góðvini“ Slippsins. Þar störfuðu yfirleitt þrír smiðir og var oft grunnt á því góða milli þeirra og hinna sem úti þurftu að standa hvernig sem viðraði. Þetta var reynt að bæta með því að senda „fínsmiðina“ um borð í skipin til þess að lagfæra þar innanstokks það sem hæfði kunnáttu þeirra en hleypa þess í stað öðrum á Bekkjarverkstæðið á meðan. Það lægði öldurnar um skeið.
 
 
7. Verkfæri og vélar

 

 
7.1. Segðu frá handverkfærum tré- eða stálskipasmiða og notkunarsviði hvers fyrir sig.                                            ¯¯
 
Verkfæri skipasmiða voru, þótt ótrúlegt sé, nokkuð misjöfn. Einn gat unnið sitt starf þótt hann vantaði áhald sem annar taldi nauðsynlegt til verksins og sá þriðji glotti og sagði svona gerðum við þetta í minni sveit og kom með þriðju aðferðina. Það sem var merkilegast var að allir leystu þeir viðfangsefnið á viðunandi hátt og á svipuðum tíma. Ég varð oft var við að mjög misjafnt var af tólum í verkfæraskápunum hjá körlunum og ætla því að halda mig við það sem ég man úr mínum þremur en geri mér fyllilega grein fyrir því að ekki verður sú talning fullkomin því að minnið er orðið ansi götótt. Þar var meðal annars: Pinnahamar, kúluhamar, munnahamar, klaufhamar, súgjárn, léttur slaghamar, þungur slaghamar, nokkur rífjárn, létt sleggja, þyngri sleggja, góður dór með skafti, ýmsar breiddir sporjárna, stutthefill, falshefill, langhefill, bjúghefill með stillanlegum geira, svæhnífur, járnsög, stingsög, bakkasög, langskera, þverskera, nokkrar stærðir af skrúfjárnum, tvær til þrjár stærðir af skiptilyklum, saumklippur, borasett bæði fyrir járn og tré, borsveif, bortrilla, ásoðnir borar, slönguborar, spíkaraborar, skerpingaþjalir, skekkingatöng, kúbein, rissmát, sniðmát, krómpassi, þrjár stærðir af smíðavinklum, tveir sirklar, tréraspur, tveir meitlar, siklingur, siklingsútleggjari, kjörnari, dúkknálar, úrrek stórt og lítið, tvær til þrjár tangir, naglbítar stór og lítill, úrsnararar fyrir borsveif og bortrillu, skófluöxi, tvær skaraxir, tíu metra málband, tveggjametra málband, tommustokkur „skydemaal“ blikkkassi með fjórum gerðum olíubrýna og að síðustu poki úr segldúki sem í voru níu eða tíu kalfaktjárn, tvær kjullur ásamt tveimur járnum til þess að ná hampi upp úr hnoðum og skafa til þess að skafa bik
.
7.2. Hvaða breytingar hafa orðið á verkfærakostinum?
 
Þekki þær ekki.
 
7.3. Hversu algengt var að menn smíðuðu verkfæri sín sjálfir?
 
Mér er ekki kunnugt um að skipasmiðir hafi smíðað annað en sköft í axir sínar. Það var nákvæmnissmíði mikil því bæði voru axarhausar misjafnir að gerð og lögun svo og beittu smiðir þeim á misjafnan hátt (má segja að hver hafi haft sitt handbragð) því skipti miklu máli að skaftið væri með réttri lögun sem hæfði bæði haus og hendi. Ég man eftir einu tilfelli þar sem smíða þurfti þrjú sköft þar til notandi varð endanlega sáttur.
          
 
7.4. Hvenær var farið að nota rafmagnshandverkfæri?
 
Mér er ekki kunnugt um það.
 
7.5. Um hvaða verkfæri var að ræða og til hvers voru þau notuð?
 
Þegar ég hóf störf voru til fimm til sex rafmagnsborvélar í Slippnum og að auki tvær loftdrifnar sem keyptar höfðu verið vegna brautanna en mátti notast við í byrðingi og böndum. Það var þó lítið gert því að þær voru þungar og loftslangan gerði þær lítt meðfærilegar.
 
7.6. Segðu frá öðrum vélakosti og helstu breytingum þar að lútandi.
 
Upp úr 1960 var keyptur handvélhefill en hann var vandmeðfarinn og því hálfgerður vandræðagemsi. Menn vildu heldur nota gömlu Uxana enda vanir þeim. Um svipað leyti voru keyptar tvær borðaslípivélar en það sama varð uppi á teningnum með þær og hefilinn. Bæði þessi áhöld voru rammalaus og grófu sig því niður í viðinn ef þeim var hallað. Þá rykkti hefillinn í og varð beinlínis hættulegur en slípivélarnar, sem mest voru notaðar á spónlagða fleti, fóru við það niður úr spæninum. Uxarnir voru tréheflar með handföngum fyrir tvo, það er annar ýtti en hinn dró, og í höndum röskra stráka voru þeir geysiafkastamikil áhöld. Ég man eftir tveimur gerðum, annarri sléttri að neðan til notkunar á slétta fleti en hinni íbjúgri fyrir rúnnholt.
 
7.7. Hvar var vélvæðing á vegi stödd þegar þú varst að byrja?
 
Vélahúsið í Slippnum var mjög vel búið tækjum miðað við það sem almennt gerðist en þar voru aðeins niðurboltuð rafmagnstæki sem bundin voru sínum stað enda engin handáhöld. Þar var mjög öflug kílvél sem var notuð til framleiðslu á gluggaefni, gólfborðum, allskyns veggjapanel og þegar mikið magn vantaði af þilfarsefni eða garneringu. Stór og afkastamikil flettisög (bandsög) með vélknúinni mötun, minni bandsög og svo mikil bandsög sem var hið mesta þarfaþing fyrir skipasmiði því að halla mátti sagarblaðinu og kom það sér vel þegar saga þurfti eikarblakkir í byrðing eða bönd. Þar voru tveir fræsarar með matara og afsogslögnum fyrir spæni einnig tvær misstórar hjólsagir sú stærri með matara og sogi. Þá var þar aflmikil bútsög með löngu borði og stillanlegu landi. Mest notaða verkfærið var stór og kraftmikill þykktarhefill sem ásamt tveimur afrétturum var tengdur við sogið. Á fyrstu árum mínum í Slippnum var spónum og sagi blásið í kjallara sem var undir öllu Vélahúsinu og síðan mokað í poka og flutt á „haugana“ en þessi aðferð hafði þann ókost að engin vinnsla gat farið fram í Vélahúsinu á meðan. Því var það um tíu árum síðar að hengdur var stór járnkassi utan á Vélahúsið og öllu blásið í hann í stað kjallarans síðan var ekið með kassann á vörubílspalli á „haugana.“
 
7.8. Hvernig leist mönnum á vélarnar?
 
Þeim yngri vel, sumum þeim eldri síður.
 
7.9. Var um einhvern rafeinda- eða hátæknibúnað að ræða og hvenær kom hann til sögu?
 
Ekki í minni tíð.
 
7.10. Hversu algengt var að menn ættu verkfærin sjálfir?
 
Menn áttu sín verkfæri, þó mismunandi mörg, í svipuðum dúr og sjá má í svari við 7.1.
 
7.11. Tíðkaðist verkfæragjald í því sambandi?
 
Undantekningarlaust.
 
 
8. Vinna og verklag
 
 
8.1. Við hvaða verkefni var helst unnið innanhúss?
 
Allt sem í húsum var hæft.
 
8.2. En utanhúss?
 
Það sem ekki komst í þau hús sem til staðar voru.
 
8.3. Skýrðu einnig frá tímabundnum breytingum á vinnunni, t.d. árstíðabundnum.
 
Skipafélög og útgerðarmenn fóru mjög lítið eftir árstíðum með þarfir sínar. Það var helst í upphafi vertíðar að skara þurfti að kolunum og svo þoldu tryggingafélög aldrei bið.
 
8.4. Við hvers konar verkefni hefur þú unnið, t.d. nýsmíði, viðgerðir eða viðhald?
 
Nær eingöngu viðgerðir og viðhald.
 
8.5. Hvaða störf voru einkum í þínum verkahring?
 
Allt sem til féll, þó einkanlega þegar þurfti að „redda einhverju í snarhasti“ því að ég var aldrei mikill fagmaður en útsjónarsamur og góður í „reddingum.“
 
8.6. Segðu frá nýsmíði tréskipa og vinnubrögðum þar að lútandi, einnig á bandaplani.
 
Sjá svar við 8.4.
 
8.7. Hvaða viðartegundir voru notaðar í mismunandi hluta bátsins?  
 
Algengast var að bátar væru byggðir að mestu úr eik að minnsta kosti kilir ásamt kjalbökum, stefnum, botnstokkum, böndum, styttum, húfsíum, bjálkasúð, bjargsíum og byrðingi, þilfarsbitum og hnjám, meginþiljum og þröm. Í þilfar var hins vegar oftast notuð fura og þegar mikið var haft við Oregon Pine en í lunningu og skansklæðningu nær alltaf fura. Í öldustokkum var þó alltaf eik. Í lestarþil og garneringu var alltaf notuð fura svo og í klæðningu og innréttingar í lúkar og káetu. Stýrishús voru með öllu móti en hvalbakur oftast úr járni.
 
8.8. Voru heiti á einstökum smíðahlutum og ef svo er hver?
 
Sjá svar við 8.7.
 
8.9. Hvort voru notuð mót, teikningar eða módel?
 
Sjá svar við 8.4.
 
8.10. Hve langan tíma tók að smíða mismunandi stærðir báta?
 
Sjá svar við 8.4.
 
8.11. Lýstu búnaði sem notaður var við að hita borð eða planka.
 
Í Slippnum voru tvær svokallaðar Svitakistur, það er stokkar nótaðir saman á alla kanta og hertir saman með járnvinklum og boltum til þéttingar. Kisturnar voru opnanlegar í annan endann og þar á sett þétt lok en í hinn endann var tengt járnrör sem lá inn í lítinn skúr við enda kistanna og þar í rafmagnshitaðan gufuketil. Stærri kistan tók alla þá byrðingsplanka sem við þurftum að svita en sú minni var notuð til þess að svita borð í súðbyrðinga enda mun fyrri til en sú stóra.
 
8.12. Hvað var hann kallaður?
 
Svitakista.
 
8.13. Segðu frá hampþéttingu (kalföktun) og bikun.
 
Þegar kalfaktað var í byrðing þurfti að beita annarri aðferð en ef kalfaktað var í þilfar. Þá vafði rétthentur maður nokkrum vafningum af hampi um vinstri úlnlið, en í þeirri hendi hélt hann á kalfaktjárninu, lagði svo með hægri hendi hampendann við hnoðuna og ýtti á eftir með járninu tók það svo með þeirri vinstri og barði á það með kjullunni sem hann hélt nú á í þeirri hægri. Nú var hampendinn fastur. Þá var hampurinn hnyklaður með járninu, hve mikið fór eftir vídd hnoðunnar, og enn slegið inn þar til lykkjan sat föst. Þetta var svo endurtekið nokkrum sinnum, hve oft fór eftir kringumstæðum, og hnyklarnir síðan allir reknir inn og nú var oft notað þykkara kalfaktjárn en í upphafi. Þetta var svo endurtekið tvisvar, þrisvar eða þar til hnoðan var orðin það full að einungis var eftir rými fyrir bik eða kítti til þess að loka hnoðunni endanlega. Við hverja umferð var notað þykkara og þykkara kalfaktjárn og barið hressilega á. Mun léttara var að kalfakta í þilfar þar sátu menn flötum beinum með hnykilinn við innanverðan vinstri fót og börðu í hnoðuna af kappi. Bikunin var líka mun auðveldari því að nú var því hellt í hnoðuna úr þar til gerðum ausum með mjóum stút og vanir menn gerðu lítið meira en að fylla hnoðuna svo að nánast ekkert þurfti að skafa. Þegar kíttað var yfir var það gert með stífum kíttisspöðum og að sjálfsögðu þurfti þá ekki að skafa á eftir.
 
 
8.14. Hverjir önnuðust þessi störf?
 
Í Slippnum voru, allan þann tíma sem ég starfaði þar, tveir menn sem eingöngu sinntu kalfakti og undirbúningi þess. Þetta voru afkastamiklir menn, þó ekki færi mikið fyrir þeim, sem dró þann dilk á eftir sér að sáralítið þurfti að hlaupa í skarðið fyrir þá. Allir skipasmiðir lærðu, og höfðu þokkaleg tök á, að kalfakta en menn ryðga í því sem þeir stunda ekki og verða þar af leiðandi ekki afkastamenn á því sviði. Þess vegna lögðust allir á eitt um að sjá til þess að Bjarni og Lúlli, en það voru nöfn kalfaktaranna, hefðu sem besta aðstöðu, þótt margir væru að vinna á sama stað, og að  þeir yrðu fyrir sem minnstum töfum. Þeir höfðu smákompu fyrir sig og sitt úthald og þar sátu þeir og spunnu hamp þegar þeir voru ekki að kalfakta. Hampurinn var fluttur til landsins í svokölluðum plötum og var gerður nothæfur til kalföktunar (spunninn) á þann hátt að plöturnar voru raktar upp og endinn tekinn, hreinsaðir burt úr honum harðir og sverir þræðir ásamt óhreinindum, hann lagður á annaðhvort lærið og síðan ýtt og rúllað með lófanum og teygt á þar til æskilegri lögun og sverleika var náð. Síðan var hampurinn undinn í mátulega stóra hnykla sem geymdir voru í stórum strigapokum tilbúnir til notkunar. Þeir höfðu einnig sérstakar fötur og sleifar sem þeir notuðu til þess að búa til kýtti í en í það þurfti fernisolíu, kalk og annað jukk sem reynslan hafði kennt þeim að gott væri að hræra saman svo að úr yrði eðalvara. Ekki þýddi að bjóða þeim annað til notkunar þó margt nýtt kæmi á markaðinn í þeim efnum á þessum árum. Að auki sáu þeir um prímusa og önnur áhöld til þess að bræða stálbiksblöndu sem þeir voru höfundar að og notuð var í hnoðurnar yfir hampinn.
 
8.15. Nefndu hvaða verkfæri voru notuð og mismunandi hlutverk þeirra.
 
Kalfaktjárn voru af ýmsum gerðum og með ýmissi lögun eftir því hvar átti að nota þau. Kjullur voru allar mjög svipaðar yfirleitt úr frekar mjúkum viði með sterkum járnhringum á báðum endum til þess að varna því að viðurinn kvarnaðist og ætist illa upp við höggin. Vinkilbeygð járn slegin út og mjög þunn í endann voru notuð þegar hreinsað var úr hnoðum þar sem vart hafði orðið við leka og þurfti að þétta aftur. Prímusar í sérstöku statífi til varnar því að kviknaði í bikfötunum, ásamt bikfötum og ausum. Þetta voru helstu áhöldin sem ég man eftir við þéttingu skipa.  
 
8.16. Segðu frá nýsmíði stálskipa og vinnubrögðum þar að lútandi.
 
Þetta er ekki á mínu sviði þó ég hafi unnið mikið á sínum tíma við allt tréverk í dráttarbátnum Magna sem var „Fyrsta stálskip smíðað á Íslandi“ eins og bók Hjálmars R. Bárðarsonar heitir og vil ég því vísa í hana.
 
8.17. Hvaða heiti voru á einstökum smíðahlutum?
 
Sjá svar við 8.16.
 
8.18. Hve langan tíma tók að smíða mismunandi stærðir skipa?
 
Sjá svar við 8.16.
 
 
 
8.19. Hefur þú tekið þátt í að teikna tré- eða stálskip og hefur verið smíðað eftir teikningunni?
 
Nei. Teiknaði aðeins línuteikningu sem námsmaður í Iðnskólanum undir leiðsögn ljúfmennisins Hafliða Hafliðasonar sem um langt árabil kenndi skipasmiðum þar.
 
 
 
8.20. Hvaða bátar voru þetta?
 
Engir.
 
8.21. Segðu frá ýmsum siðum eða venjum þegar búið var að reisa öll bönd, báti var gefið nafn, hleypt af stokkunum, jómfrúrferð og fleiru þar að lútandi.
 
Kannast ekki við neitt slíkt úr Slippnum.
 
8.22. Lýstu viðgerðum og viðhaldi á tré- eða stálskipum, að setja báta í slipp og niður aftur, vinnupöllum o.fl. Í hverju var þessi vinna helst fólgin og hverjir sáu um hana?
 
Slippfélagið í Reykjavík var stofnsett 1902 með það að höfuðmarkmiði að taka upp báta til botnhreinsunar og málunar svo og viðgerða á bolnum neðan sjólínu. Þetta hafði áður verið gert á þann máta að sigla bátunum á háflæði í stækkandi straumi upp í stórgrýtislausa fjöru, binda þá þar og láta falla undan þeim. Með útfallinu var svo hafist handa við að skrapa, skafa og bera á botninn eða ef um viðgerð var að ræða rífa úr þann plankabút sem átti að skipta um og ef verkinu var ekki hægt að ljúka á fjörunni þá var negldur margfaldur segldúkur yfir gatið og verkið klárað á næstu fjöru. Ef um stærri viðgerðir var að ræða féll sjór inn og út úr skútunum og gat þá orðið ansi stuttur vinnudagurinn þegar lágsjávað var. Seinna komu svo stálskipin. Þau voru margfalt stærri en skúturnar sem voru upphaflegu verkefni dráttarbrautanna og því var fljótlega eftir seinni heimstyrjöldina hafist handa við að endurbyggja allar brautirnar ásamt útaffærslum við tvær þeirra. Mesta átakinu var lokið þegar ég hóf störf en það var bygging 1500 smálesta dráttarbrautar með hliðarfærslu fyrir þrjú 900 smálesta skip en það voru nýsköpunartogararnir svokölluðu taldir vera tómir. Í Slippnum var stór hópur manna, „brautakallarnir“, sem sáu um að setja skip og báta í vagnana, botnhreinsa þau og mála. Þeirra hlutverk var jafnframt að setja upp stillansa bæði fyrir þá sjálfa í málninguna svo og allar bolviðgerðir. Var þar nokkur munur á því að þeir létu sér duga einn 3x9” planka til að spígspora eftir í þriggja til fjögurra metra hæð og fannst skipasmiðum sæma vel tveir plankar en járnsmiðirnir heimtuðu fjóra og að auki góða slá til þess að styðjast við. Búkkarnir sem plönkunum var stungið í voru af ýmsum stærðum og gerðum, þeir hæstu um sex metra háir og þeir lægstu um metri, sumir voru festir á garðana en mest var af „fjórfætlingunum“ og þeir flestir sex metra háir. Ef þetta dugði ekki, sem gat gerst til dæmis þegar um stór skip eins og Hekluna eða Esjuna var að ræða, þá smíðuðu brautarkallarnir bara hærri stillansa því að nóg var timbrið í timbursölunni hjá Kalla og tryggingin borgaði. Þetta voru stæltir strákar sem líka þurfti til því að sex metra langir stillansplankar úr 3x9” voru níðþungir og ekki létt verk að koma þeim upp á axlir fjórfætlinganna. Verkstjórarnir í brautunum sáu um að setja skipin í vagnana og var það mikil nákvæmnisvinna því að ef illa vildi til og skipin komu ekki rétt í vagninn gátu þau lagt botnklossana útaf og varð þá að draga vagninn upp, lagfæra klossana og byrja á ný að setja skipið. Þótti það mikil háðung þegar svo fór. Ekki man ég eftir nema einum slæmum mistökum við setningu skipa en þau urðu í þýska vagninum sem settur var upp 1954 og tók þá öll skip íslenska flotans nema fimm stæstu skip Eimskipafélagsins, þegar eitthvað gaf sig í vagninum og varðskipið Þór lagðist þar á hliðina.
 
 
 
8.23. Kom fyrir að viðgerðir eða viðhald færu fram á öðrum stað en í skipasmíðastöð og ef svo er hvar og hvers vegna?
 
Vinnusvæði skipasmiða Slippfélagsins voru allar bryggjur og viðlegukantar Reykjavíkurhafnar ásamt þeirri aðstöðu sem var í Slippnum sjálfum.
 
8.24. Varðst þú var við einhverjar gamlar starfsaðferðir við nýsmíði eða viðgerðir? Hér má t.d. nefna ýmsar festingar við bita, bönd eða byrðing, seymingu, trénagla og hnoð.
 
Nánast allar starfsaðferðir við tréskipasmíði eru ævagamlar ef frá er skilin notkun rafmagnsáhalda.

8.25. Var fylgst náið með starfsfólkinu meðan á vinnu stóð? Hver gerði það og hvernig var það liðið?

Sjá svar við 5.4.

8.26. Hvað einkenndi helst vinnuframlag nema? Í hvaða mæli fengu þeir t.d. að vinna við nýsmíði?

Nemar unnu fyrstu árin ávallt undir handarjaðri sveina en seinni árin fengu þeir oft að spreyta sig einir við þau verkefni sem þeir voru taldir menn fyrir.
 
8.27. Hvaða störfum gegndu ófaglærðir, aðrir en þeir sem unnu að smíðum?
 
Tveir kalfaktarar sinntu sínu starfi og einn verkfæravörður sá um þau áhöld sem Slippurinn átti, að þau væru ávallt í lagi og tilbúin þegar á þurfti að halda.
 
 
9. Vinnufatnaður
 
 
9.1. Lýstu vinnufatnaði, hlífðarfötum, fóta- og höfuðbúnaði.
 
Að vetrarlagi voru flestir í síðum ullarnærbuxum og bol, þar utanyfir í bómullarskyrtu og þunnri peysu og venjulegum buxum. Þeir sem áttu samfestinga fóru í þá næst og síðan í hettuúlpu frá Vinnufatagerðinni. Hinir, einkum þeir eldri, bættu á sig í stað samfestinganna öðrum buxum, oft smekkbuxum og vel þykkri peysu og fóru þar utanyfir í gamla klæðis- eða rykfrakka, sem þeir hertu að sér í mittisstað, sumir með bandspotta. Til fótanna voru ullarsokkar, oft tvennir og síðan gúmmístígvél. Á höfði var svo skinnhúfa með loðnuna inn eða þá gamall hattkúfur stundum bundinn undir höku. Yfir sumartímann voru menn léttklæddari. Við yngri mennirnir vorum þá í bómullarnærbuxum, stundum síðum, í kakíbuxum þar yfir og þunnri skyrtu og stormjakka yst. Á fótum voru svo léttir strigaskór sem þá voru að verða móðins. Eldri smiðirnir voru íhaldssamari. Þeir voru eins og birkið, létu maíglennu ekki hafa áhrif á sig og héldu í föðurlandið fram eftir sumri og sumir notuðu það árið um kring. Sögðust klæða af sér hitann og höfðu nokkuð fyrir sér í því. Þeir létu þá einar utanyfirbuxur nægja, helst víðar smekkbuxur og voru oft í nankinsjakka með járnhnöppum utanyfir ullarbolnum eða skyrtunni. Nú voru þeir líka komnir í margsólaða „danska skó“ sem lokið höfðu skeiði sínu sem spariskór og að auki berhöfðaðir þótt hattkúfurinn eða húfan væri innan seilingar. Ekki má gleyma gömlum snjáðum jakkafötum en þau þótti sjálfsagt að nýta sem sumargalla þó létu hinir yngri jakkann einan oftast duga og svo „toppuðu múnderinguna sixpensararnir“ einkennishöfuðfat skipasmiða um langt árabil. Rétt er að taka fram að hluti þessarar lýsingar á við fimm/sex gamla vinnufélaga mína sem ég naut þeirra forréttinda að vinna með á fyrstu árunum í faginu. Þessi klæðaburður breyttist verulega um og upp úr 1960 og færðist þá í nútímalegra horf og um líkt leyti hurfu margir hinna eldri af vettvangi.
 
9.2. Útvegaði atvinnurekandi vinnufatnað og hvenær fór það að tíðkast?
 
Ekki á mínum tíma.
 
9.3. Hvað með öryggisbúnað?
 
Ekki heldur. Hver sá um sitt öryggi á sína vísu því einum þótti fært þar sem öðrum var lokað og byggðu báðir á sinni reynslu.
 
9.4. Voru skápar eða herbergi til að geyma í vinnuföt og hafa fataskipti?
 
Sjá svar við 11.7.
 
9.5. Hvenær kom slík aðstaða fyrst til sögu?
 
Sjá svar við 11.7.
 
 
10. Hreinlæti og hollustuhættir
 
 
10.1. Hvernig var hreinlætisaðstöðu háttað (salerni, vaskur, sturta)?
 
Í minni tíð var slík aðstaða fyrir starfsmenn í kjallara aðalbyggingar Slippsins á horni Mýrargötu og Ægisgötu en með nýrri hæð á miðbygginguna (1963) fluttist hún þangað. Þó var aldrei sturta í kjallaranum og þar voru áfram salerni og kaffistofa fyrir brautakallana.  
 
10.2. Hvenær kom þessi aðstaða?
 
Sjá svar við 10.1
 
10.3. Hvernig var umgengnin meðal starfsfólksins?
 
Eins og við mátti búast af mönnum í sóðalegri vinnu, þó með snyrtilegra lagi á þriðju hæðinni.
 
10.4. Hve oft var þrifið?
 
Man það ekki.

 

10.5. Segðu frá eftirliti með hreinlæti og hollustuháttum og hvenær það kom til sögu.

Ég býst við því að það hafi verið innanhússmál hjá stjórnendum Slippfélagsins í það minnsta minnist ég þess ekki að neitt því viðkomandi hafi komið inn á borð hjá mér þau tíu ár sem ég var verkstjóri.
10.6. Hvað geturðu sagt um loftræstingu og varnir gegn hávaða?
 
Ekkert því hvorugt var til staðar.
 
10.7. Hvenær fór sérstakur búnaður að tíðkast?
 
Mér er ekki kunnugt um það.
 
 
11. Matur og tóbak
 
 
11.1. Höfðu menn með sér í nesti og ef svo er hvað?
 
Já, yfirleitt kaffi og brauðsneiðar, sumir stundum afgang af kvöldmat dagsins á undan.
 
11.2. Hve algengt var að borða heima?
 
Það gerðu aðeins þeir sem bjuggu í nálægum húsum.
 
11.3. Hverjir sátu saman við borð?
 
Man ekki lengur nöfn þeirra eða sæti.
 
11.4. Áttu menn föst sæti?
 
Já.
 
11.5. Um hvað var helst talað í matar- og kaffitímum?
 
Sjá svar við 11.6. 
 
11.6. Hvað var gert annað en að borða?
 
Spiluð vist allan tímann. Við það var miðað þegar kaffistofan var innréttuð að þar kæmust fyrir tvö borð sem hvort tæki átta í sæti (4x4 = 16 manns að spila).
 
11.7. Hvenær kom fyrst mat- eða kaffistofa og hvaða tæki voru þar til afnota?
 
Um 1958, minnir mig, var hólfuð af kaffistofa í Smíðahúsinu þar sem aðstaða var, eins og fyrr segir, fyrir sextán manns við tvö borð og fataskápar fyrir álíka marga. Þetta dugði því að margir hinna eldri héldu vana sínum, sátu í sínu fari frammi í Smíðahúsinu og hengdu yfirhafnirnar á sömu naglana, eins og áður, utan á verfæraskápunum. Sumir hinna yngri voru líka orðnir „sjoppustrákar“ svo að notuð séu orð gamals smiðs.
 
11.8. En mötuneyti?
 
1963 var byggð þriðja hæðin ofan á miðbyggingu Slippfélagsins við Mýrargötu. Var þar innréttað fullkomið mötuneyti og jafnframt sett upp hreinlætisaðstaða fyrir alla starfsmenn fyrirtækisins.
 
11.9. Hversu algeng var tóbaksneysla og hvernig tóbak var aðallega notað?
 
Ég get ekki lagt mat á það en bæði var tekið í nefið og reykt. Þó var lítið um pípureykingar.
 
11.10. Tóku menn sérstök reykinga- eða neftóbakshlé?
 
Ekki minnist ég þess.
 
 
12. Starfsfólk og samskipti á vinnustað
 
 
12.1. Hver var fjöldi starfsmanna um það bil ?
 
Um þrjátíu þegar ég hóf störf en átta þegar ég hætti.
 
12.2. Í hvaða störfum voru konur og hve margar?
 
Engum.
 
12.3. Nefndu helstu starfsheiti á vinnustaðnum.
 
Verkfæravörður, kalfaktarar, lærlingar, smiðir og verkstjórar.
 
12.4. Hvernig var samskiptum háttað meðal almennra starfsmanna?
 
Ef átt er við starfsandann á vinnustað þá var hann ávallt í betri kantinum, sérstaklega þegar nýliðar voru orðnir sjóaðir og samþykktir af þeim sem fyrir voru.
 
12.5. En milli yfir- og undirmanna?
 
Sjá svar við 12.4.
 
12.6. Var hægt að tala saman meðan á vinnu stóð og við hvaða tækifæri?
 
Sumir voru „sögumenn“ en þurftu ekki að stöðva vinnu sína til þess að nýta þá krafta. Fleiri voru þó þeir þöglu.
 
 
 
12.7. Hvaða augum voru þess konar samræður litnar?
 
Ég minnist ekki annars en að allir hafi haft ánægju af einnig þeir þöglu því að þeir áttu það líka til að skjóta inn orði og orði oft beittu sem kynti vel.
 
12.8. Hvað geturðu sagt um samstöðu varðandi aðbúnað, laun eða aðra hagsmuni?
 
Sveinafélag skipasmiða var stofnað á kreppuárunum af biturri nauðsyn og eignaðist strax harðsnúna forystumenn sem ekki víluðu fyrir sér að sækja lögregluna til þess að stöðva vinnu réttindalausra um borð í skipum í Reykjavíkurhöfn ef af þeim spurðist. Þessir sömu karlar voru líka ótrúlega fastir fyrir og snúnir á samningafundum um kaup og kjör við atvinnurekendur og þeim þá oft óþjáll ljár í þúfu. Ekki voru allir félagsmenn alltaf sáttir við sína stjórn og nöldruðu, eins og gerist og gengur, og marga félagsfundi sat ég þar sem heitt var í kolunum en þegar menn höfðu tappað af sér stóðu þeir, út á við, einarðir að baki sinni stjórn. Trúnaðarmenn voru kjörnir á hverjum vinnustað en ekki man ég eftir því að þeir væru neitt sérstaklega virkir enda stjórn Sveinafélagsins oftast þannig samsett að einn stjórnarmaður í það minnsta kom frá hverjum vinnustað í Reykjavík og þeir héldu vel utanum sína vinnufélaga.
 
12.9. Hvernig lærðu nýliðar á starfið?
 
Sjá svör við 1.11. og 1.13.
 
12.10. Þekktist stríðni gagnvart þeim eða öðrum starfsmönnum?
 
Sjá svar við 1.13.
 
12.11. Í hvaða mæli var hlustað á útvarp við vinnuna?
 
Útvarp var í kaffistofu og á Bekkjaverkstæði ég minnist þess ekki annarsstaðar.
 
 
13. Heilsufar og slys
 
 
13.1. Hvaða áhrif hafði vinnan á heilsufarið (bakverkur, höfuðverkur, þreyta t.d.)?
 
Tréskipasmíði er erfiðisvinna sem fylgir ómæld líkamleg áreynsla og slit. Sjúkdómar og kvillar eru eflaust í samræmi við það.
 
13.2. Hvað með hávaða? Var eitthvað gert til úrbóta ef á þurfti að halda?
 
Nei.
 
13.3. Voru menn oft frá vinnu vegna veikinda?
 
Ég minnist þess ekki að mikið hafi verið um það. Aðeins hraustir menn entust í starfinu hinir fóru annað.
 
 
 
13.4. Hvaða störf þóttu hættulegri en önnur og hver vann þau?
 
Að vinna á tveimur 3x9 tommu plönkum upp á sex metra háum búkkum með bandspotta til þess að styðja sig við til varnar falli var staða sem allir gátu lent í.
 
13.5. Hversu algeng og alvarleg voru slys?
 
Þau voru fá og þá helst bundin Vélahúsinu þegar menn fóru óvarlega við hjólsagir, bandsagir og fræsara. Það kom fyrir að menn féllu af stillönsum og hlutu skrokkskjóður en var sjaldgæft. Ég man þó eftir hnúabroti hjá skipasmið af þeim sökum.

13.6. Var eitthvert eftirlit með vélum eða tækjum og hvenær kom það til sögu?

Ef átt er við af hendi opinberra aðila minnist ég ekki að svo hafi verið á mínum starfstíma í Slippnum.

13.4. Þekktir þú til reglna sem giltu í þessu sambandi?

Ég kannast ekki við að neinar slíkar hafi verið til.
 
14. Samskipti utan vinnutíma
 
 
14.1. Hvaða tengsl voru milli vinnufélaga utan vinnutíma?
 
Frekar lítil minnir mig. Þó voru undantekningar.
 
14.2. Var haldið upp á afmæli starfsmanna eða þegar fólk hætti störfum?
 
Nei.
 
14.3. Hvað með ferðir og árshátíðir?
 
Engin ferðalög svo ég minnist en árlega hélt Slippfélagið árshátíð. Ég fór á eina og þar við sat í tuttugu og þrjú ár. Það gekk fram af mér að sjá fylliríið og blóðug slagsmál því fylgjandi sem að því er mér skildist síðar var ávallt fylgifiskur þessara samkoma.
 
14.4. Hvert var hlutverk vinnuveitanda í þessu sambandi (jólakort, gjafir t.d.)?
 
Verkstjórar skipasmiða og aðrir yfirmenn Slippfélagsins fengu jólagjafir.
 
 
 
 
 
15. Dularfull fyrirbæri
 
 
15.1. Kannast þú við ýmsa trú í sambandi við smíði og viðgerðir báta (ótrú á ákveðnum viðartegundum, hefja nýsmíði eða hleypa af stokkunum á vissum dögum t.d.)? Þekktist að setja mynt undir fram- eða afturmastur eða annað hvort stefnið? Hversu algengt var það og í hvaða tilgangi?
 
Var talað um að einhver vera byggi um borð í sumum skipum sem komu í viðgerð eða voru í smíðum? Á hvern hátt urðu menn hennar helst varir og hvað nefndist hún? Um hvaða skip var að ræða?
 

Manstu eftir einhverjum óútskýranlegum atvikum sem gerðust í skipasmíðastöðinni (óvæntar bilanir, undarleg slys, draugar)? Hvað með drauma og spá í bolla eða spil?
 

Ekkert af vinnustað aðeins það sem ég hef lesið um.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.