LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFramhaldsskóli, Menntaskóli, Siður
Ártal1959-1963
Spurningaskrá114 Framhaldsskólasiðir

StaðurMenntaskólinn á Akureyri
ByggðaheitiBrekkan
Sveitarfélag 1950Akureyri
Núv. sveitarfélagAkureyrarkaupstaður
SýslaEyjafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1943

Nánari upplýsingar

Númer2011-1-137
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.11.2011/3.8.2012
TækniTölvuskrift

Kyn: Kvenkyn Aldur: 68/69 ára Nafn skóla: Menntaskólinn á Akureyri Tímabil sem nám var stundað: 1959-1963   Busavígsla Getur þú lýst vígslu nýnema? (Hvað heitir þessi athöfn, hvar og hvenær fer/fór hún fram, hverjir taka þátt, hvaða hlutverkum gegna hinir ýmsu þátttakendur, hversu lengi stendur/stóð hún yfir, hvað heita þeir sem sjá um framkvæmdina og hvernig eru/voru þeir valdir, eru/voru einhverjir nýnemar teknir sérstaklega fyrir, fylgjast/fylgdust kennarar og annað starfsfólk með o.s.frv.).
Busavígsla okkar var skömmu eftir að skólinn hófst haustið 1959. Auglýst var að tolleringar ættu að fara fram á ákveðnum degi og tíma og sérstaklega tekið fram að stúlkur skyldu mæta í slysavarnarbuxum. Það voru eldri nemendur, aðeins strákar, sem sáu um tolleringarnar Ekki vitum við til þess að til þessa hafi verið valdir neinir sérstakir, heldur verið sjálfskipaðir í samræmi við langa hefð, líklega mest 5-bekkingar. Kennarar fylgdust ekki með né annað starfsfólk Eru/voru busar látnir klæðast öðruvísi en aðrir nemendur á þessum degi? Hvernig? Hver ræður/réði því hvernig þeir eru/voru klæddir? Aðeins munum við eftir þessu með slysavarnarbuxurnar enda algengt að stelpur á þessum árum gengju í pilsum. Að öðru leyti voru engir sérstakir búningar. Klæða/klæddu þeir sem sjá um busavígsluna sig einnig í búninga? Hvernig búninga ef svo er? Nei, engir sérstakir búningar voru fyrir tolleringa-liðið. Hafa nýnemar sýnt mótþróa við busavígslu eða reynt að sleppa undan henni? Ef svo er hvernig lýsir/lýsti þetta sér? Af hverju heldur þú að þetta sé? Já, við stelpurnar vorum með einhvern mótþróa og reyndum að flýja en vorum allar gripnar og tolleraðar. Í minningunni var mótþróinn hluti af spennunni og spenningnum og við tókum okkur saman um að mótmæla þessari tolleringu. Ef til vill var þetta líka spurning um tap og niðurlægingu að  láta þetta ekki  yfir sig ganga mótþróalaust og þess vegna brugðumst við líka við með „hefndinni“ sem nefnd er hér á eftir, en við munum ekki eftir einu slíku meðal strákanna þótt þeir hafi trúlega verið tolleraðir líka. Stelpur gegn strákum var bæði valdabarátta en líka spenna fyrir hinu kyninu. Eru/voru notuð tæki við athöfnina (myndavélar, símar, tölvur)? Á hvaða hátt, ef svo er? Engin tæki voru á þessum tíma, nema kannski myndavél en samt eru myndir af skornum skammti af þessum atburðum. Hvernig er/var busavígsla undirbúin? Eru/voru t.d. teknar myndir til að sýna við vígsluna eða settar á netið? Hvað finnst þér um það? Busavígslan var undirbúin með auglýsingu um klæðnað. Við stelpurnar höfðum engin bein afskipti af  undirbúningnum. Hvað er/var gert á eftir busavígslu? Eftir hina eiginlegu tolleringu fórum við stelpurnar í næstu frímínútum inn á karlavistina til að hefna okkar. Við umsnerum öllu í heimavistarherbergjum strákanna, tókum dýnur úr rúmum, tæmdum bókahillur á gólfið og fataskápana líka en mættum svo í tíma. Strákarnir hefndu sín svo á okkur þannig að þegar við komum úr tíma biðu þeir eftir okkur, voru búnir af fylla baðker á kvennavistinni með köldu vatni og við vorum síðan baðaðar! Við streittumst á móti og ein fékk tognun á öxl. Ein man eftir því að henni var boðið að setja hausinn í blátt, litað baðvatnið eða fara á kaf. Ekki var beðið eftir svari og viðkomandi drifinn í baðkarið. Ekki þarf að orðlengja að allir gangar voru fljótandi í vatni og fengum við mikla skömm í hattinn hjá skólameistara og umsjónarkonu með heimavistinni og meistari hótaði jafnvel að banna okkur að fara á skólaball um kvöldið. Við stelpurnar vorum látnar þurrka upp bleytuna enda var þetta á kvennavistinni. Engir eftirmálar urðu og líklega vorum við dálítið montnar með okkur í stað þess að skammast okkur. Ekki vitum við hvort þetta var einstakt tilvik og við höfum ekki heyrt um svipaðar aðgerðir, hvorki fyrr né síðar. Hvernig upplifðir þú þína eigin busavígslu? Fannst þér hún jákvæð og skemmtileg eða gekk hún hugsanlega of langt (niðurlægjandi t.d.) Þetta var mjög eftirminnilegur og skemmtilegur hasar. Við vitum ekki af hverju þessi mótþrói skapaðist meðal þessara 10 stelpna sem voru í þriðja bekk á heimavistinni eða hver átti upptökin. Hvernig er/var viðhorfið til nýrra nemenda? Breytist/breyttist það í kjölfar busavígslu? Við munum ekki eftir að viðhorfið hafa verið neitt sérlega neikvætt hvorki fyrir busavígsluna né eftir. Hvernig er/var tekið á móti nýjum nemendum að öðru leyti? Skólameistari kallaði alla nýnema heim til sín til þess að heilsa okkur og það merkilega var að hann vissi hver við vorum og hvaðan og ávarpaði okkur með nafni strax við fyrstu kynni. Fljótlega eftir komu okkar í Menntaskólann var haldið skólaball þar sem fyrsta kynningin átti sér stað meðal eldri nemenda. Með hverju haustinu sem leið virtumst við hækka í virðingarstiganum enda oft verkefni og „embætti" falin þeim sem eldri voru.   Er/var upphaf skólaársins mismunandi eftir því hvar þú ert/varst stödd/staddur í skólagöngunni? Hvernig þá?  Nei, við minnumst þess ekki.   Dansleikir og félagsstarf Hvaða dansleikir eru/voru haldnir af nemendum? Hvar og hvenær eru/voru þeir? Bera/báru þeir einhver ákveðin heiti? Hver? Skólaböll voru haldin á sal í gamla skólanum. Líklega voru það kennararnir sem skipulögðu þau, a.m.k. voru þeir einhverjir á vakt yfir að öllu velsæmi væri fylgt. Nemendur tóku einhvern þátt í undirbúningi, og þá væntanlega eldri nemendur. Einnig verður að nefna frábæra skólahljómsveit sem í voru tónlistarmenn sem síðar urðu landsfrægir. Þetta voru Vilhjálmur Vilhjálmsson, Þorvaldur Halldórsson, Friðrik Guðni Þórleifsson og Arnmundur S. Bachmann. Ýmsir aðrir nemendur voru flinkir að spila og má þar nefnda Hlöðver Áskelsson og Tómas Inga Olrich sem báðir spiluðu t.d. undir söngsal. Hittast/hittust nemendur fyrir böllin? Ef svo er, hvaða nemendur, hvar og hvað er/var gert? Nei. Við vorum í heimavist og þar var lítill möguleiki á að hittast fyrir böllin, en við notuðum langar stundir til að undirbúa okkur saman  og punta (eftir því sem þá tíðkaðist) allavega hárgreiðslu og á einhverju stigi var gerð tilraun til að mála okkur. Það var heilmikil stemning og tilhlökkun fyrir böllin. Hvar og hvenær eru/voru haldnar árshátíðir? Hvaða viðburðir eru/voru í kringum þær? Fullveldishátíð var haldin 1. desember með miklum tilþrifum og tóku nemendur mikinn þátt í undirbúningi hátíðarinnar, sáu um skreytingar á matsalnum og yngri nemendur gengu um beina enda flott borðhald. Stúlkur í 6. bekk mættu gjarnan í þjóðbúningi og til er mynd af okkur flestum í íslenskum búningi. Við munum alla vega eftir einu hlöðuballi og klæddum við okkur upp í samræmi við það. Árshátíð eða 6-bekkjar hátíð var haldin að vori. Þá var Laugalandsmeyjum, þ.e. stelpum í Húsmæðraskólanum á Laugalandi boðið til veislunnar. Líklega var ein af ástæðunum að stelpur í  menntaskólanum voru miklu færri en strákarnir. Einhver dæmi eru um kunningsskap og jafnvel hjónabönd eftir þessar hátíðir. Mjög eftirminnilegt atvik átti sér stað vorið 1963 þegar Laugalandsmeyjum var boðið til hátíðardagskrárinnar. Settur var upp leikþáttur úr Gullna hliðinu. Leikarnir voru Sigurður Helgi Guðmundsson, sem síðar varð prestur, sem lék skrattann og Sigrún Klara Hannesdóttir sem lék konu Jóns. Sigurður var gríðarlega mikill leikari og fór með þuluna um vald fjandans sem gæti skekið heiminn af braut sinni og það var eins og við manninn mælt að yfir reik jarðskjálfti mikill. Skólameistari reis fyrstur upp og sagði: „Hvað hafið þið nú gert!“ Allir urðu skelfingu lostnir, en einhverjum tókst þó að fá hópinn til að slappa af eins og hægt var. Þetta var eftirminnilegt kvöld og ákveðið að við sem vorum í heimsvistinni svæfum fullklædd og þetta var eina skiptið sem heimavistin var opin alla nóttina en að öðru leyti var alltaf læst kl. 10.00 nema á bíókvöldum þegar opið var til 11. Hvaða aðrar samkomur eða viðburðir eru/voru á vegum nemenda (hópsöngur, keppnir, þemavika t.d.)? Hver eru/voru helstu félög og klúbbar í skólanum og hvert er/var hlutverk þeirra (leikfélag, íþróttafélag, nemendafélag, skólakór t.d.)? Á þessum árum var skólakór sem stýrt var af Hermanni Stefánssyni leikfimikennara og jafnvel líka karlakvartett um skeið. Hann og kona hans Þórhildur voru mjög virk í félagslífi nemenda og íþróttaiðkun. Ein hefð sem tengist söng var að nemendur hópuðust fyrir framan kennarastofuna og báðu um „söngsal“. Þá var gefið frí í kennslu og allir nemendur mættu uppi á Sal og sungu við píanó-undirleik. Söngsalurinn og ýmislegt óformlegt í þessu heimavistarsamfélagi var ómetanlegt og ógleymanlegt. Ýmiskonar íþróttakeppnir voru haldnar, sundkeppni, blak og eitt sinn leyfði leikfimikennarinn okkur að róa yfir fjörðinn að hausti og njóta veðurblíðunnar og haustlitanna. Eitt sinn vorum við látin grafa og ræsa fram íþróttavöllinn! Einnig munum við eftir málfundum (fáar stúlkur tóku þátt í málfundunum) FÁLMA var starfandi félag áhugamanna um myndatökur. Það var aðallega fyrir stráka en einstaka stelpur fengu inngöngu, líklega til að horfa á strákana framkalla myndirnar því ekki voru margar myndavélar í eigu stelpnanna.  Leikrit var sett upp á hverju ári og fengnir leikstjórar til að stýra leiknum, en margar okkar voru aðstoðarkonur og sáum um kaffi og kakó og hressingu fyrir leikara og aðra aðstandendur. Kynjamunur var mikill á þessum árum.  Við stelpurnar tókum sjaldan til máls á málfundum eða samkomum enda voru umræðuefnin  yfirleitt á svið „gáfumannaklíkanna" sem réðu miklu um umræðuna og samkvæmt hefðum gerði skólinn ekkert til að breyta því.  Strákar á öllum aldri sem voru í þessum gáfumanna klúbbum þóttust heldur betur góðir með sig og töluðu um stjórnmál og bókmenntir sem þótti miklu merkilegra en það sem við höfðum áhuga á. Þær stelpur sem hefðu haft áhuga hefðu tæplega verið spurðar eða boðið að vera með.  Er/var einhver útgáfustarfsemi á vegum þessara félaga? Um hvaða rit eða netmiðla er/var að ræða?   Gefið var út blaðið Mímir og fjölritað blað sem kallað var Gambri sem líklega var aðeins gefið út af okkar árgangi.   Hvernig er/var þátttaka í félagslífi nemenda? Hvaða munur er/var á þátttöku eftir kyni, aldri, fötlun, þjóðerni eða öðru? Eru/voru einhverjir hópar útilokaðir frá þátttöku eða kjósa/kusu að vera ekki með? Hverjir, ef svo er, og hvers vegna? Krakkarnir í heimavistinni tóku yfirleitt þátt í öllu. Það var  viss aðskilnaður milli þeirra sem voru aðkomnir og þeirra sem voru búsettir á Akureyri. Það voru engir alvarlega fatlaðir í skólanum á þessum tíma enda aðstæður mjög óvinsamlegar, miklir stigar alls staðar. Talsverðar breytingar urðu á félagslífi nemenda þegar setustofa var tekin í gagnið þegar við vorum í 5. bekk. Hvaða hlutverk spilar netið og farsímar í tengslum við félagslíf nemenda? Ekkert slíkt komið til! Hvernig standa/stóðu þeir nemendur sem ekki eru/voru keppendur að stuðningi við sín lið eða fulltrúa í viðburðum eins og Morfís, Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna? Myndast/myndaðist rígur á milli skóla þegar þeir mætast/mættust á keppnisgrundvelli? Hvernig lýsir/lýsti hann sér, ef svo er? Það voru bara þrír menntaskólar á þessum árum. Í hugum flestra var MR besti menntaskólinn og svo kom MA. Laugarvatn var svo neðstur í virðingarstiganum. En okkur fannst MA náttúrulega bestur en lítil samskipti voru milli skólanna. Þó fóru fulltrúar nemenda í heimsókn suður og aðrir nemendur komu norður til að kynnast lífinu norðan heiða. Eru/voru sérstaklega mikil samskipti á milli þíns skóla og einhvers annars skóla? Í hverju felast/fólust þessi samskipti, ef svo er?   Hversdagslíf Hvað er/var gert í frímínútum/hádegishléi eða í beinu framhaldi af kennslu? Er/var ákveðin sætaskipan í kennslustofum, í matsal eða á öðrum svæðum innan skólans? Eftir hverju fer/fór það, ef svo er? Í heimavist var matsalur og borðuðum við þar, trúlega sátum við saman sem voru í sama bekk. Einnig borðuðu sumir kennararnir með okkur sem bjuggu einir úti í bæ. Í skólanum hafði hver bekkur sína stofu, þriðjubekkingar á fyrstu hæð og svo eftir því sem virðingarstiginn og aldurinn jókst, færðust þeir upp á efri hæðir skólans. Tengjast/tengdust einhverjir siðir eða venjur sérstaklega við heimavist, þar sem þær eru/voru? Hvað er helst um ræða, ef svo er?     Það var siður að þeir sem bjuggu í heimavist þrifu herbergin sín,  gangana og klósettin og til eru myndir af strákum að bóna ganga heimavistarinnar. Matráðskonan annaðist þvotta af okkur og fórum við með böggla með óhreinum þvotti til hennar og sóttum svo til baka þegar búið var að þvo og þurrka. Eftirminnileg var vika þegar við vorum í þriðja bekk þegar rafmagnslaust var í heila viku í janúar. Þá þurfti að halda á okkur hita einhvern veginn og við vorum kölluð á sal þar sem við hlustuðum á upplestur t.d.  sagði skólameistari okkur af kynnum sínum og Kjarvals í París, og síðan var dansað. Erfitt var líka að elda mat handa okkur öllum og fengum við annan daginn heita súpu og brauð og hinn daginn pylsur og skyr.   Ferðalög Er/var útskriftarferð? Ef svo er, hvenær er/var hún farin (fyrir eða eftir síðasta námsárið)? Fer/fór fram fjáröflun fyrir ferðina og hvernig er/var staðið að henni? Farin var nemendaferð eftir 5. bekk og farið í Surtshelli og út á Snæfellsnes. Leiðbeinandinn okkar var Steindór Steindórsson sem kenndi okkur náttúrufræði.  Hvaða aðrar ferðir eru/voru farnar á vegum skólans og/eða nemenda?   Við  munum eftir ferð út á Tjörnes sem líklega var haustferð. Einnig var Öskju-gos 1961 og var þá áætlað að fara með nemendur í rútum að sjá eldgosið, en ekki voru margir sem komust og hætt var við ferðirnar vegna veðurs.   Dimission Hvernig fer/fór dimission fram? Hvaða dag, klukkan hvað byrjar/byrjaði hún og hvenær lýkur/lauk henni, hvað er/var gert og hvert er/var farið? Dimission fór  fram þannig að fengin var dráttarvél með vagni og vorum við flest á vagninum. Nokkrir voru á hestum. Síðan var keyrt að heimilum kennaranna og einhver nemandi færði hverjum kennara blóm í þakklætisskyni og sungið var fyrir hvern kennara. Síðan fór fram dansleikur sem var kveðjusamsæti fyrir þá sem voru að útskrifast. Er eitthvað annað nafn á þessari athöfn? Hvaða? Nei. Borða/borðuðu útskriftarnemar saman morgunmat? Hvar, ef svo er? Á þetta við um alla útskriftarnema eða einstaka bekki og hópa? Já bara eins og venjulega. Er/var sameiginleg máltíð nemenda og kennara? Ef svo er, hvar og hvenær að deginum? Hver stendur/stóð fyrir þessari máltíð? Nei. Hittast/hittust útskriftarnemar í heimahúsi um kvöldið? Hverjir hittast/hittust og hvað er/var gert? Er/var ball í skólanum um kvöldið eða er/var farið á einhvern skemmtistað? Ekki við sem vorum í heimavistinni. Ball var um kvöldið. Klæðast/klæddust útskriftarnemar sérstökum fötum eða búningum? Ef svo er, hvernig búningum og hvaðan eru/voru þeir fengnir? Eru/voru allir í eins búningum eða fer/fór það t.d. eftir bekkjum? Hvað ræður/réði valinu á þessum fatnaði? Nei. Við höfðum ekki aðstæður til þess og við munum ekki að neinir hafi verið í sérstökum búningum. Þó eru til myndir af einstaklingum úr eldri árgöngum sem klæddu sig upp í einhverja búninga, en bara sem einstaklingar.
Hvaða máli skipta/skiptu búningar almennt séð í hinum ýmsu hefðum og siðum í skólanum? Er/var þetta eitthvað sem er nauðsynlegt eða má/mátti sleppa? Af hverju? Hver finnst þér vera munurinn á því sem nemendur gera/gerðu á dimission og svo á útskriftinni sjálfri? Hvar og hvernig fer/fór útskriftin fram í aðalatriðum?   Eftir að prófum lauk gerðum við okkur glaðan dag. 15 og 16 júní voru miklir gleðidagar ekki síst aðfaranótt 16. júní og gleðin og galsinn var mikill og vakað alla nóttina. Einhverjir tóku árabát í leyfisleysi og reru yfir fjörðinn og enduðu í heimsókn hjá einum samstúdent sem var þar að borða morgunverð.  Við vorkenndum trúlofuðum bekkjarsystrunum að geta ekki tekið þátt í fjörinu!!   Á útskriftinni sjálfri hittumst við á Sal og þar kvaddi meistari okkur með ræðu sem hann beindi sérstakleg til hvers útskriftarárgangs. Þessar ræður hafa nú verið gefnar út.  Mikil þrengsli voru enda salurinn lítill og aðstandendur mættu alls staðar af af landinu til að vera með okkur á þessari stund. Síðan settum við húfurnar upp og síðan var farið í Lystigarðinn og þar var tekin mynd af okkur. Síðan var ball um kvöldið á KEA og þar mættu afmælisárgangarnir um kvöldið.      


Kafli 1 af 5 - Busavígsla

Getur þú lýst vígslu nýnema? (Hvað heitir þessi athöfn, hvar og hvenær fer/fór hún fram, hverjir taka þátt, hvaða hlutverkum gegna hinir ýmsu þátttakendur, hversu lengi stendur/stóð hún yfir, hvað heita þeir sem sjá um framkvæmdina og hvernig eru/voru þeir valdir, eru/voru einhverjir nýnemar teknir sérstaklega fyrir, fylgjast/fylgdust kennarar og annað starfsfólk með o.s.frv.).
Eru/voru busar látnir klæðast öðruvísi en aðrir nemendur á þessum degi? Hvernig? Hver ræður/réði því hvernig þeir eru/voru klæddir?
Klæða/klæddu þeir sem sjá um busavígsluna sig einnig í búninga? Hvernig búninga ef svo er?
Hafa nýnemar sýnt mótþróa við busavígslu eða reynt að sleppa undan henni? Ef svo er hvernig lýsir/lýsti þetta sér? Af hverju heldur þú að þetta sé?
Eru/voru notuð tæki við athöfnina (myndavélar, símar, tölvur)? Á hvaða hátt, ef svo er?
Hvernig er/var busavígsla undirbúin? Eru/voru t.d. teknar myndir til að sýna við vígsluna eða settar á netið? Hvað finnst þér um það?
Hvað er/var gert á eftir busavígslu?
Hvernig upplifðir þú þína eigin busavígslu? Fannst þér hún jákvæð og skemmtileg eða gekk hún hugsanlega of langt (niðurlægjandi t.d.)?
Hvernig er/var viðhorfið til nýrra nemenda? Breytist/breyttist það í kjölfar busavígslu?
Hvernig er/var tekið á móti nýjum nemendum að öðru leyti?
Er/var upphaf skólaársins mismunandi eftir því hvar þú ert/varst stödd/staddur í skólagöngunni? Hvernig þá?

Kafli 2 af 5 - Dansleikir og félagsstarf

Hvaða dansleikir eru/voru haldnir af nemendum? Hvar og hvenær eru/voru þeir? Bera/báru þeir einhver ákveðin heiti? Hver?
Hittast/hittust nemendur fyrir böllin? Ef svo er, hvaða nemendur, hvar og hvað er/var gert?
Hvar og hvenær eru/voru haldnar árshátíðir? Hvaða viðburðir eru/voru í kringum þær?
Hvaða aðrar samkomur eða viðburðir eru/voru á vegum nemenda (hópsöngur, keppnir, þemavika t.d.)?
Hver eru/voru helstu félög og klúbbar í skólanum og hvert er/var hlutverk þeirra (leikfélag, íþróttafélag, nemendafélag, skólakór t.d.)?
Er/var einhver útgáfustarfsemi á vegum þessara félaga? Um hvaða rit eða netmiðla er/var að ræða?
Hvernig er/var þátttaka í félagslífi nemenda? Hvaða munur er/var á þátttöku eftir kyni, aldri, fötlun, þjóðerni eða öðru?
Eru/voru einhverjir hópar útilokaðir frá þátttöku eða kjósa/kusu að vera ekki með? Hverjir, ef svo er, og hvers vegna?
Hvaða hlutverk spilar netið og farsímar í tengslum við félagslíf nemenda?
Hvernig standa/stóðu þeir nemendur sem ekki eru/voru keppendur að stuðningi við sín lið eða fulltrúa í viðburðum eins og Morfís, Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna?
Myndast/myndaðist rígur á milli skóla þegar þeir mætast/mættust á keppnisgrundvelli? Hvernig lýsir/lýsti hann sér, ef svo er?
Eru/voru sérstaklega mikil samskipti á milli þíns skóla og einhvers annars skóla? Í hverju felast/fólust þessi samskipti, ef svo er?

Kafli 3 af 5 - Hversdagslíf

Hvað er/var gert í frímínútum/hádegishléi eða í beinu framhaldi af kennslu?
Er/var ákveðin sætaskipan í kennslustofum, í matsal eða á öðrum svæðum innan skólans? Eftir hverju fer/fór það, ef svo er?
Tengjast/tengdust einhverjir siðir eða venjur sérstaklega við heimavist, þar sem þær eru/voru? Hvað er helst um ræða, ef svo er?

Kafli 4 af 5 - Ferðalög

Er/var útskriftarferð? Ef svo er, hvenær er/var hún farin (fyrir eða eftir síðasta námsárið)? Fer/fór fram fjáröflun fyrir ferðina og hvernig er/var staðið að henni?
Hvaða aðrar ferðir eru/voru farnar á vegum skólans og/eða nemenda?

Kafli 5 af 5 - Dimission

Hvernig fer/fór dimission fram? Hvaða dag, klukkan hvað byrjar/byrjaði hún og hvenær lýkur/lauk henni, hvað er/var gert og hvert er/var farið?
Er eitthvað annað nafn á þessari athöfn? Hvaða?
Borða/borðuðu útskriftarnemar saman morgunmat? Hvar, ef svo er? Á þetta við um alla útskriftarnema eða einstaka bekki og hópa?
Er/var sameiginleg máltíð nemenda og kennara? Ef svo er, hvar og hvenær að deginum? Hver stendur/stóð fyrir þessari máltíð?
Hittast/hittust útskriftarnemar í heimahúsi um kvöldið? Hverjir hittast/hittust og hvað er/var gert? Er/var ball í skólanum um kvöldið eða er/var farið á einhvern skemmtistað?
Klæðast/klæddust útskriftarnemar sérstökum fötum eða búningum? Ef svo er, hvernig búningum og hvaðan eru/voru þeir fengnir? Eru/voru allir í eins búningum eða fer/fór það t.d. eftir bekkjum? Hvað ræður/réði valinu á þessum fatnaði?
Hvaða máli skipta/skiptu búningar almennt séð í hinum ýmsu hefðum og siðum í skólanum? Er/var þetta eitthvað sem er nauðsynlegt eða má/mátti sleppa? Af hverju?
Hver finnst þér vera munurinn á því sem nemendur gera/gerðu á dimission og svo á útskriftinni sjálfri? Hvar og hvernig fer/fór útskriftin fram í aðalatriðum?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.