LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFramhaldsskóli, Menntaskóli, Siður
Ártal1967-1971
Spurningaskrá114 Framhaldsskólasiðir

StaðurMenntaskólinn á Akureyri
ByggðaheitiBrekkan
Sveitarfélag 1950Akureyri
Núv. sveitarfélagAkureyrarkaupstaður
SýslaEyjafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2011-1-134
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.11.2011/17.4.2012
TækniTölvuskrift

Sæll Gústi     Og þakka þér fyrir boðið um að taka þátt í kynningu á menningunni sem ríkti á  meðal okkar skólafélaganna í Menntaskólanum á Akureyri.   á árunum. 1967 til 1971.    Ég vona að út úr þessu bréfi mínu skíni einungis mín eigin heimska, ekki þín og vissulega ekki annara þeirra sem þetta kunna að lesa.   Ég veit að vísu ekki alveg hvers ætlast er til, en eitt veit ég þó. Ég er ekki fær um að skapa neitt sem gæti lagt eitthvað að mörkum til varðveislu þekkingar úr Menntaskólanum á Akureyri og færi forgörðum sé það ekki skapað. Það er alveg sama hvað Þjóðminjasafnið vonar í þeim efnum.    Hitt er annað mál að mér er skylt og mér finnst reyndar öllum vera skylt að sinna samfélagi sínu. Þegar þér finnst samfélagið fara fram á eitthvað af .þinni hálfu er þér skylt að sinna því af bestu samvisku jafn vel þótt þú skiljir ekki hvers ætlast er til af þér, því skapa ég þann óskapnað sem þetta bréf er.    Sú vissa mín að þessi óskapnaður minn sé ekki framlag til þekkingar á rætur sínar að rekja til uppeldis míns í skólum. Til dæmis í Menntaskólanum á Akureyri. Þegar ég kom þangað hafði ég lokið bæði Landsprófi og gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum í Neskaupsstað. Frammistaða mín í skóla var svo léleg að mér stóð ekki til boða heimavistarpláss eins og öðrum krökkum utan af landi. Ég var lesblindur og svo mikill sauður að þegar kynnti sig fyrir mér maður þá gleymdi ég hvað hann hét meðan hann sagði mér föðurnafn sitt. Enda þreittust lærifeður mínir ekkert á því að telja mér trú um að mér myndi aldrei auðnast að skapa nokkurn hlut sem gæti sómt sér annarsstaðar en í ruslafötu.    Það er kanski rétt að taka það fram hér að þetta bréf er mitt svar við Spurningaskrá nr. 114 “Framhaldsskólasiðir” frá Þjóðminjasafni Íslands. Og mér að meinalausu má hver sem er afrita það, skrá og túlka að egin geðþótta eins og á við um öll sköpunarverk sem ég eða aðrir halda að ég hafi gert.   Ég veit ekki hvað aðrir halda að svör sem þeir gefa við spruningum sé. En þegar ég er spurður að einhverju er mér ómögulegt að svara með öðru en sögu sem ég bý til á því augnabliki sem svarið er gefið. Tenging þess sem ég svara við eitthvað sem heitir raunveruleiki eða sannleikur velti ég mér ekki uppúr enda veit ég ekki hvað það er. Og hef vitnisburði lærifeðra minna sem afsökun fyrir þeirri heimsku minni.    Það getur nú verið dálítið sárt að vera svo heimskur að skilja ekki einusinni sannleikann.  Og ég get ekki kvartað yfir því að ekki hafi verið gerðar tilraunir til þess að útskíra hann fyrir mér. Málið er bara það að þegar einhver reynir að skýra út fyrir mér sannleikann þá fer ég í stað þess að öðlast á honum skilning að sjá bjána sem  mér finnst hafa logið að sjálfum sér og er að reyna að troða í mig eihverju bulli sem mér finnst vera deginum ljósara að hann skilur ekki sjálfur.  Þar sem ég þekki ekki sannleikann frá öðrum sögum, þá treysti ég mér ekki heldur til þess að greina á milli þess í svörunum sem ég gef hvað er byggt á eigin reynslu og hvað er eitthvað sem ég hef heyrt frá öðrum. það er einnig ógreinanlegt frá því sem ég hreinlega bý til án þess að nokkur flugufótur sé fyrir því.   Ég ætla að skrifa svörin í samfeldu máli en reyni samt að afgreiða þau í sömu röð og þau koma fram í spurningaskjalinu nr. 114. Ég veit ekki hvað ópersónugreinanlegt þýðir. Ég átta mig ekki heldur á hví það er til umræðu í spurningaskránni. Ég skil heldur ekki hvað átt er við með við með því að óska aðeins eftir lágmarksupplýsingum um þann sem segir frá.   Það er eins með þetta bréf og önnur sköpunarverk sem ég skapa, það er partur af sjálfum mér og er í reynd sinni ekkert annað en upplýsingar um mig.  Í trausti þess að þjóðminjasafnið geti uppfyllt ósk sína um lágmarksupplýsingar um mig með því að henda þessum óskapnaði mínum í ruslafötuna er hann skapaður.    Kennitalan mí er [...] að öðruleiti treysti ég þér Gústi minn til að fylla út fyrsta partinn af spurningaskjalinu um kyn, skóla og námstímabil sem var ef ég man rétt það sama og þegar þú varst sjálfur í skólanum.     Busavígslunni þegar við vorum busaðir treysti ég mér ekki til að lýsa. Ég er samt á því að ég hafi verið busaður. Þetta var ábyggilega framhvæmt fljótlega eftrir að við mættum í skólann haustið 1967 kannski í 3. eða 4. viku. Mér finnst það hafi verið athöfn sem fram fór á sal. Gott  ef það var ekki gefið frí. Athöfnin var framkvæmd á einum eftirmiddegi. 6. bekkingar voru gerendur og við í 3. bekk þolendur. Ég man ekki til þess að kennarar eða skólayfirvöld hafi fylgst með eða skipt sér af framkvæmdinni. Ég er búin að gleyma því hvernig þessi busavígsla fór fram en mér finnst að það hafi verið framhvæmdur einhver fíflagangur sem á rætur að rekja í skírnarathöfnum.  Á þessum árum var ekki mikið um búninga. Ég klæddi mig ábyggilega með tilliti til þess að geta lent í tuski og átökum af einhverju tagi. Það voru ekki til farsímar og tölvur en það gæti verið að Fjölnir ætti einhverjar myndir úr þessari busavígslu. en það var ekki skipulegur þáttur í vígslunni.    Það er dálítið erfitt fyrir mig að segja hvað var gert á eftir busavígslunni okkar. Mér finnst  að á eftir busavígslunni minn sé bara ekki ennþá liðið.    Eins og áður er fram komið man ég ekki eftir busavígslunni minni og get því ekki fullyrt hver viðhorf mitt til hennar hefur verið á þeim tíma sem hún var framkvæmd. Í dag tel ég mér trú um að mér hafi fundist þetta bara fíflagangur, tíma og orkueyðsla út í bláinn.     Það styrkir þessa skoðun mína að ég man ekkert eftir busun annara árganga í Menntaskólanum heldur og er nánast viss um að hafa ekki tekið þátt í því þegar okkar árgangur átti að busa 3. bekkinga og veit ekki hvort það var gert.      Eins og þú  mannst eftir þá var hefð fyrir því áður en við komum í skólann að allir 3. bekkingar voru tolleraðir. Tolleringarnar voru bannaðar þegar við komum í skólann 1967 því árið áður hafði Ingvar Rögnvaldsson brotnað í tolleringunum og honum seinkaði um ár í skóla af þeim sökum. Mér skilst að tolleringarnar hafi stundum  tekið nokkra daga og merkt við þá sem höfðu verið tolleraðir. Efstu bekkingar lögðu metnað sinn í að allir yrðu tolleraðir og 3. bekkingar höfðu gaman af  því að láta elta sig.     Viðhorf er hugtak sem er mér óskiljanlegt. Það er að segja að skilningur minn á viðhorfi er þann veg að ég treysti mér ekki til að útskýra það fyrir sjálfum mér hvað þá fyrir öðru fólki. Þetta er býsna breytilegt. Ég hef tildæmis allt annað viðhorf þegar ég ligg á vinstri hliðinni en þegar ég ligg á bakinu. Það er allt annað uppi á teningnum áður en ég borða hafragrautinn á morgnanna en eftir hafragrautinn og algjör viðhorfsbreyting eiginlega bara bylting verður ef ég borða lifrarpylsu með hafragrautnum.     Ég á ekki bara í vandræðum með hugtakið viðhorf  ég á líka í vandræðum með hugtökin jákvætt og skemtilegt. Þessi vandræðagangur er sami vandræðagangurinn og þetta með viðhorfið. Jákvætt og skemtilegt er nefnilega viðhorf. Eða ætti kanski frekar að segja eru nefnilega viðhorf.  Veistu hvort jákvætt og skemtilegt er eitt viðhorf eða tvö? Ég held að þetta séu fleiri en tvö viðhorf.  Jákvætt er eitt viðhorf, skemtilegt er annað viðhorf, jákvætt og skemtilegt er þriðja viðhorfið og skemtilegt og jákvættt er svo fjórða viðhorfið.  AAAA. Þarna er jákvætt og skemtilegt aftur orðið að einu viðhorfi.  Ég er viss um að þjóðminnjasafnið á eftir að komast að þessu.   Maður verður bara að skilja spurningarnar til þess að geta svarað.   Of langt og niðurlægjandi eru líka viðhorf.    Þar sem ég skil ekki viðhorf  ætti ég ekki að brúka það orð.  Samt? Busavígsla og tolleringar eru arfleifð vihorfs eða kanski arfleifð viðhorfa.    Ef þú vaknar að morgni dags og átt von á því að verða busaður á einhvern hátt til dæmis tolleraður þennan dag. þá vaknarðu trúlega með jákvætt viðhorf gagnvart busun. Þú átt von á því að umhverfi þitt eða samfélag sýni þér áhuga á einhvern máta. Viðhorf þitt til þess sem framundan er fer eftir því hvernig þú hefur sofið hvað þig dreymdi og hvað þú hefur látið ofan í þig daginn áður.  Þar sem þú ert í skóla túlkarðu ef til vill að þettta sé kennsludagur. Þú ákveður að læra. Læra undirgefni. Læra að sætta þig við stöðu þína og samfélag. Ert kannski meðvitaður um að þú þurfir að undirbúa þig undir það að það komi að því að þú komir í framtiðinni til með að vera í þeirri stöðu að busa. Kannski átarðu þig á þvi að viðhorfið sem þú ert að búa til gagnvart komandi degi er sama viðhorfið og það sem búa þarf til í hugum fólks til að það geti réttlætt fyrir sjálfu sér að tortíma samborgurum sínum eða viðhorfið sem þarf til að senda barnunga samborgara sína til þess að tortíma hver öðrum.  Kannski vaknarðu bara ungur og vitlaus og hugsar ekki neitt.    Segjum svo að þú ákveðir að taka þátt í leiknum á þann máta að þú ákveðir að vera tregur til busunar , ákveðinn í því að láta elta þig. ákveðinn í að þeir sem ættla að busa þig fái að finna að þú lætur ekki busa þig baráttulaust. Þú vilt kenna veröldinni í kringum þig að þú sért ekkert lamb að leika við. Með þessu viðhorfi þínu áttu von á tvennskonar framhaldi. Annað hvort gefast þeir sem busa upp á því að eltast við þig, eða þú hreinlega tapar og upplifir það að vera nauðgað til hluta sem þú hafðir ekki hugsað þér að yrðu framkvæmdir.   Sama hvernig þetta fer, þú öðlast nýtt viðhorf.. Ef þetta nýja viðhorf snýr að sjálfum þér og þér finnst þú hafa hagað þér heimskulega og skammast þín þá er eitthvað athugavert við geðheilsu þína og þú ættir að leita læknis. það er ekki trúlegt að þetta hafi verið viðhorf þitt. Hitt er trúlegast að þú komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem tóu að sér að busa þig hafi ekki verið starfi sínu vaxnir. Þeir ekki ráðið við hlutverk sitt.  Þetta gæti verið kveikja eineltis. Þegar einelti á sér stað þá gera hlutaðeigendur sér oft ekki grein fyrir því hvað er í gangi. það getur jafnvel verið svo að gerandi og þolandi séu á öndverðum meiði um það hvor er hvor.      Þegar spurt er um viðhorf þá er erfitt að svara. ég held að sá maður sem tekur sér það í munn viti ekki alveg hvað hann er að segja. Allir hlutir breytast. Hraði breytinga er svo mikill að andartakið sem leið fyrir sekúndubroti síðan verður ekki skýrt né borið saman við nokkurn hlut  hvorki andartakið sem nú er að líða né önnur andartök sem óliðin eru. Annað er bull og þetta er líka bull.  Á mínum árum í Menntaskólanum á Akureyri varð til siðvenja. Hún byrjaði 1968 og er enn við líði. Þegar við komum í skólann 1968 var árgagnum skipt í máladeild, náttúrufræðideild og eðlisfræðideild.  Ég fór í Eðlisfræðideild og var í beknum: 4.x . Í eðlisfræði og í stærðfræði voru kenslubækurnar nú á dönsku. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hafði kennslubækur í öðrum greinum en í erlendum tungumálum sem voru ekki á Íslensku.  Það er erfitt fyrir lesblindan mann að lesa sér til gagns á móðurmálinu en á öðrum tungumálum getur það orðið ómögulegt. Ég tel mig  hafa gert virðingarverða tilraun til þess að komast í gegnum þessa lesningu og man ekki betur en mér hafi tekist að komast í gegnum nokkrar blaðsíður. En þegar ég hafði barist í nokkrar vikur kom ég að þessu orði á einni blaðsíðunni: “længdeudvidelseskoefficient” Það má segja að lýsing Orwells á því þegar asninn var að rembast við að læra að lesa lýsi vandræðaganginum sem ég átti við þetta orð. Þegar ég var búin að átta mig á fjórum fyrstu stöfum orðsins og reyndi að fá samhengi í fimmta stafinn þá gleymdi ég þeim fyrsta.   Ég bar þennan vandræðagang minn við eðlisfræðinámið undir Maríu frænku mína sem ég bjó hjá. Hún ráðlagði mér að leita mér aðstoðar við að komast í gegnum þetta námsefni með því að fá hjálp þeirra sem hefðu farið í gegn um þetta námsefni árið áður. Benidikt Ásgeirsson sem nú er sendiherra tók að sér þetta verkefni. Að öðrum kosti hefði eðlisfræði kunnátta mín trúlegast  ennþá verið hinumeginn við længdeudvidelsesekoefficientinn. Þegar Benni var búinn að leysa úr honum, tók ég eftir því að ég gat ekki haft neitt að viti gagn af Benna nema ég gæti gert mér grein fyrir því hvað það væri sem ég skildi ekki. En þegar ég var búinn að finna út úr .því gat hann verið ómetanlegur.Hann hjálpaði mér í þrjú eða fjögur skipti.     Annar vendipunktur í framgangi eðlisrfæðimenntunar minnar varð 11. desember þetta ár. Þann dag átti að vera miðsvetrarpróf í eðlisfræði í þriðja og fjórða tíma. Í fyrstu tveim tímmum þennan morgun átti Helgi Hallgrímsson að kenna okkur náttúrufræði. Allir nemendurninr í bekknum voru mættir á réttum tíma um morguninn. Við vorum að spjalla saman og eihver fullyrti að ef kennara seinkaði um 15 mínútur mætti túlka þannig að þá félli kennsla niður. Tíminn leið og við biðum. Einhver hafði rænu á því að skrepa út og hafa gætur á því hvort Helgi væri á leiðinni. 14 mínutm eftir að tíminn átti að vera byrjaður kom hann inn og kallaði að Helgi væri á leiðinni.  Við tókum öll dótið okkar og hlupum út úr stofunni og niður stigann niður í kjallara. Við fórum út um kjallaradyrnar þar sem smókurinn var. Smókurinn var svæði utan við kjallaradyrnar þar sem óátalið var að nemendur reyktu í frímínútum.  Þar sem við stóðum þarna úti sáum við að í neðri stofunni í nyrðri álmunni var Ingólfur Georgsson sem kenndi okkur Eðlisfræði að skrifa á töfluna. Við drógum þá ályktun að þetta gæti verið prófið sem átti að leggja fyrir okkur í 3. og 4. tíma. Þarna var hann að leggja það fyrir annan náttúrufræðibekkinn Það var meira en 2,5 metrar upp í gluggana. Þegar Ungi stóð uppi á herðunum á Lofti gat hann kíkt á gluggann og lesið það sem Ingófur var að skrifa á töfluna.  Við sem vorum niðri skrifuðum upp það sem hann las. Við vorum nánast öll úr beknum þarna fyrir framan. Þegar við vorum búin að skrifa niður prófið fórum við öll upp í heimavistarbygginguna og niður í herbergið þar sem borðtennisborðið var. Þar skiptum við með okkur verkum í því að leysa prófdæmin.       Þriðji ágalli minn sem fylgt hefur mér í gegnum lífið er þunglindi og kvíði. Ég skilgreini þetta sem eitt fyrirbrigði. En það lýsir sér meðal annars í því að mér er nánast ómögulegt að taka próf. Ég hef leyst þetta með því að fara út úr líkhamanum og stjórna honum utanfrá. Toga í sérhvern fingur sem þarf að hreyfa, halda á hausnum og hreynlega rífa sjálfan mig upp á rassgatinu. Og leyfa mér hreinlega að skrifa hreynlega með ypsulon án þess að fletta því upp í orðabók. Þessu ástandi hjá mér fylgir líka það að öll hugsun verður sein. Veröldin á það til að frjósa. Ég tek mér tíma til að hugsa um hvaða fingur ég eigi næst að toga í. Lestur er nærri því ómögulegur. Dómgreindin ekki til. Þetta ástand er óraunverulegt og það sem gerir mér erfitt með að lýsa því er það að það gleymist. Fyrsta sem vitundin gerir þegar ég fer í líkamann á nýjan leik er að þurrka út það sem gerðist meðan hún var annarsstaðar.     Ég fór á gamalsaldri í nokkur háskólanámskeið til að rannsaka þetta ástand. Prófkvíðinn lét ekki á sér standa. Ég fór meðal annars í heimspekileg forspjallsvísindi og þar fékk ég sönnun. Ég sótti alla fyrirlestrana, Ég las allt námsefnið og megnið af ítarefninu (Ég er langt frá því að vera hraðlæs). Ég undirbjó mig undir prófið eftir bestu getu. Ég drullaði sjálfum mér í próf. Ég vann allan próftímann það veit ég því ég rankaði við mér í eigin líkama með úrlausnarbéfin í hendinni þegar sá sem sat yfir var að kalla eftir úrlausnarblöðum frá okkur og annar nemandi sem setið hafði líka út próftímann var að reyna að fá mig og þann sem sat yfir til þess að hjálpa sér örlítið við úrlausnina. Aðrir nemendur voru farnir. Ég er með samviskubit yfir því að hafa ekki aðstoðað þennan unga mann eftir bestu getu. Ég fékk 5,5 í einkunn í heimspekilegum forspjallsvísindum fyrir þetta próf. Það sannar fyrir mér að það er annað hvort óheiðarleg afskiptasemi einhverra eða mikið kraftaverk að ég skuli hafa klárað yfirleitt nokkur próf á námsferli mínum hvað þá próf í vélaverkfræði.    En í eðlisfæðiprófinu 11 desember 1968 í Menntaskólanum á Akureyri sat ég sjálfur í eigin líkama og tók próf og hafði ánægju af því að skrifa úrlausnirnar eftir bestu samvisku.  Og ég er þess fullviss að væri þetta próf lagt fyri mig í dag óundirbúið þá fengi ég ekki lægri einkunn en ég fékk fyrir þessa úrlausn tækist mér að halda vitund minni í venjulegu ástandi.  Þeir aðrir sem tóku þátt í að leysa dæmin í borðtennisstofunni í heimavistinni þennan morguninn voru heldur ekki í vandræðum með úrlausnirnar. meðaleinkunin í bekknum okkar var af stærðargráðunni 7 eða 8 meðan einkun þeirra sem tóku prófið í fyrstu tveim tímunum var í kringum 3.    Það ríkti sérkennileg stemming það sem eftirlifði þennan dag árið 1968 í 4. bekk X í Menntaskólanum á Akureyri. Við héldum upp á þetta svindlafrek okkar um kvöldið krakkarnir í bekknum með því að fara saman í bíó.  11 desember á hverju ári eftir það héldum við upp á þennan svindldag sögðum gleðilega hátíð hvert við annað og fórum saman í bíó. Við sem fórum í skóla í Reykjavík héldum þessari siðvenju áfram með því fyrstu árin að fara saman í leikhús. Síðan höfum við hist þennan dag á matsölustað í Reykjvaík og borðað saman.          Það er dálítið undarleg og ólýsanleg tilfinning að vera að reyna að segja sögu vita sjálfan sig part af sögunni en upplifa samt að þetta er saga sem þú veist mjög lítið um. Saga sem þér finnst ekki vera í þínum verkahring að vera að segja. Hafa kannski jafn vel á tilfinningunni að brölt þitt við að hnoða þessu saman af veikum mætti komi til með að eyðileggja fyrir því að sagan verði nokkurtíma sögð á almennilegan máta.      11. desember í fyrra mættm við á veitingahúsið Ask um kvöldmatarleitið. Þetta var í 45. skiptið sem haldið var upp á prófsvindlið 11 des 1968. Við vorum um það bil 10 sem mættum og pöntuðum borð að ári um leið og við gerðum upp reikninginn.      Mér líður illa yfir því að vera að hreykja mér af því að brjóta reglur það á fólk ekki að gera. Það er að segja hvorki að brjóta reglur né  því síður að hreykja sér af því að hafa gert það. Samt á kannski allara helst að gera það sem það ekki á að gera. Nauðsyn brýtur lög  er gamalt máltæki til brúks fyrir réttlætingu á óheiðarlegum athöfnum. Eitt er alla vega skoðun mín í þessu. Í þessum efnum er enginn þess umkominn að segja öðrum til.         Desember dagana 1968 upplifði ég á fleiri máta og ekki síður menntandi en þann að svindla ógleymanlega í eðlisfæði. Síldarbáturinn Sæfaxi 2 var í viðgerð á Akureyri. Gísli Garðarsson sonur útgerðarmannsins Garðars Lárussonar, sem var á sama aldri og við samdi við okkur mig, [NN] og [NN] um að við færum með Sæfaxa 2 frá Akureyri til Neskaupstaðar í jólafrí og kæmum við á Rauða Torginu og tækjum nokkur síldar köst. Við stóðum stímvaktir á stíminu á miðin. Vistarverur hásetana voru frammí undir hvalbaknum. Ég átti frívakt fyrst en áttti að vera ræstur á stímvakt uppúr miðnætti. það var leiðinda kvikuslampadi á stíminu. Hátalarakerfi var notað til að kalla menn á vaktina. Ég var sjóveikur og því fór ég að sofa um það leiti sem við komum út úr Eyjafirðinum. Loftræsting í hásetaíbúðunum var lofttúða sem kom upp úr kvalbaknum og í pusi fór sjór niður um hana svo að á stíminu var breitt yfir hana. Efri koja í fremri klefa hafði komið í minn hlut. Það varð mjög mollulegt, heitt og undarlegt loft svo ég fór úr kojunni og lagði mig á mjóan bekk sem var við borðið í öðrum aftari  klefanum.  Þetta var óþægilegt flet.  það var farið að bæta í kulið og veltingurinn jókst ég taldi mér samt trú um að svækjan væri bærilegri þarna en í kojunni.  Það er ekki beint  auðvelt að leggjast útaf á bekk sjóveikur í 7 vindstigm á móti og fara að sofa. Enda held ég ekki að ég hafi gert það. Ég lagðist  bara niður og slökkti á vitund minni. Ég rankaði við það að það var rifið í mig og ég hristur.  Það var eins og allur mannskapurinn hefði breyst við þennan sérkennilega svefn undi kvalbaknum. Skipsfélagarnir mínir höfðu eiginlega verið komnir á þá skoðun að ég hefði farið fyrir borð.          


Kafli 1 af 5 - Busavígsla

Getur þú lýst vígslu nýnema? (Hvað heitir þessi athöfn, hvar og hvenær fer/fór hún fram, hverjir taka þátt, hvaða hlutverkum gegna hinir ýmsu þátttakendur, hversu lengi stendur/stóð hún yfir, hvað heita þeir sem sjá um framkvæmdina og hvernig eru/voru þeir valdir, eru/voru einhverjir nýnemar teknir sérstaklega fyrir, fylgjast/fylgdust kennarar og annað starfsfólk með o.s.frv.).
Eru/voru busar látnir klæðast öðruvísi en aðrir nemendur á þessum degi? Hvernig? Hver ræður/réði því hvernig þeir eru/voru klæddir?
Klæða/klæddu þeir sem sjá um busavígsluna sig einnig í búninga? Hvernig búninga ef svo er?
Hafa nýnemar sýnt mótþróa við busavígslu eða reynt að sleppa undan henni? Ef svo er hvernig lýsir/lýsti þetta sér? Af hverju heldur þú að þetta sé?
Eru/voru notuð tæki við athöfnina (myndavélar, símar, tölvur)? Á hvaða hátt, ef svo er?
Hvernig er/var busavígsla undirbúin? Eru/voru t.d. teknar myndir til að sýna við vígsluna eða settar á netið? Hvað finnst þér um það?
Hvað er/var gert á eftir busavígslu?
Hvernig upplifðir þú þína eigin busavígslu? Fannst þér hún jákvæð og skemmtileg eða gekk hún hugsanlega of langt (niðurlægjandi t.d.)?
Hvernig er/var viðhorfið til nýrra nemenda? Breytist/breyttist það í kjölfar busavígslu?
Hvernig er/var tekið á móti nýjum nemendum að öðru leyti?
Er/var upphaf skólaársins mismunandi eftir því hvar þú ert/varst stödd/staddur í skólagöngunni? Hvernig þá?

Kafli 2 af 5 - Dansleikir og félagsstarf

Hvaða dansleikir eru/voru haldnir af nemendum? Hvar og hvenær eru/voru þeir? Bera/báru þeir einhver ákveðin heiti? Hver?
Hittast/hittust nemendur fyrir böllin? Ef svo er, hvaða nemendur, hvar og hvað er/var gert?
Hvar og hvenær eru/voru haldnar árshátíðir? Hvaða viðburðir eru/voru í kringum þær?
Hvaða aðrar samkomur eða viðburðir eru/voru á vegum nemenda (hópsöngur, keppnir, þemavika t.d.)?
Hver eru/voru helstu félög og klúbbar í skólanum og hvert er/var hlutverk þeirra (leikfélag, íþróttafélag, nemendafélag, skólakór t.d.)?
Er/var einhver útgáfustarfsemi á vegum þessara félaga? Um hvaða rit eða netmiðla er/var að ræða?
Hvernig er/var þátttaka í félagslífi nemenda? Hvaða munur er/var á þátttöku eftir kyni, aldri, fötlun, þjóðerni eða öðru?
Eru/voru einhverjir hópar útilokaðir frá þátttöku eða kjósa/kusu að vera ekki með? Hverjir, ef svo er, og hvers vegna?
Hvaða hlutverk spilar netið og farsímar í tengslum við félagslíf nemenda?
Hvernig standa/stóðu þeir nemendur sem ekki eru/voru keppendur að stuðningi við sín lið eða fulltrúa í viðburðum eins og Morfís, Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna?
Myndast/myndaðist rígur á milli skóla þegar þeir mætast/mættust á keppnisgrundvelli? Hvernig lýsir/lýsti hann sér, ef svo er?
Eru/voru sérstaklega mikil samskipti á milli þíns skóla og einhvers annars skóla? Í hverju felast/fólust þessi samskipti, ef svo er?

Kafli 3 af 5 - Hversdagslíf

Hvað er/var gert í frímínútum/hádegishléi eða í beinu framhaldi af kennslu?
Er/var ákveðin sætaskipan í kennslustofum, í matsal eða á öðrum svæðum innan skólans? Eftir hverju fer/fór það, ef svo er?
Tengjast/tengdust einhverjir siðir eða venjur sérstaklega við heimavist, þar sem þær eru/voru? Hvað er helst um ræða, ef svo er?

Kafli 4 af 5 - Ferðalög

Er/var útskriftarferð? Ef svo er, hvenær er/var hún farin (fyrir eða eftir síðasta námsárið)? Fer/fór fram fjáröflun fyrir ferðina og hvernig er/var staðið að henni?
Hvaða aðrar ferðir eru/voru farnar á vegum skólans og/eða nemenda?

Kafli 5 af 5 - Dimission

Hvernig fer/fór dimission fram? Hvaða dag, klukkan hvað byrjar/byrjaði hún og hvenær lýkur/lauk henni, hvað er/var gert og hvert er/var farið?
Er eitthvað annað nafn á þessari athöfn? Hvaða?
Borða/borðuðu útskriftarnemar saman morgunmat? Hvar, ef svo er? Á þetta við um alla útskriftarnema eða einstaka bekki og hópa?
Er/var sameiginleg máltíð nemenda og kennara? Ef svo er, hvar og hvenær að deginum? Hver stendur/stóð fyrir þessari máltíð?
Hittast/hittust útskriftarnemar í heimahúsi um kvöldið? Hverjir hittast/hittust og hvað er/var gert? Er/var ball í skólanum um kvöldið eða er/var farið á einhvern skemmtistað?
Klæðast/klæddust útskriftarnemar sérstökum fötum eða búningum? Ef svo er, hvernig búningum og hvaðan eru/voru þeir fengnir? Eru/voru allir í eins búningum eða fer/fór það t.d. eftir bekkjum? Hvað ræður/réði valinu á þessum fatnaði?
Hvaða máli skipta/skiptu búningar almennt séð í hinum ýmsu hefðum og siðum í skólanum? Er/var þetta eitthvað sem er nauðsynlegt eða má/mátti sleppa? Af hverju?
Hver finnst þér vera munurinn á því sem nemendur gera/gerðu á dimission og svo á útskriftinni sjálfri? Hvar og hvernig fer/fór útskriftin fram í aðalatriðum?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.