LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFramhaldsskóli, Menntaskóli, Siður
Ártal1962-1966
Spurningaskrá114 Framhaldsskólasiðir

StaðurMenntaskólinn í Reykjavík
Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2011-1-128
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.11.2011/26.1.2012
TækniTölvuskrift

Kyn:                                                   karl Aldur:                                                 fæddur 1946 Nafn skóla:                                         Menntaskólinn í Reykjavík Tímabil sem nám var stundað:          1962-1966   Busavígsla Getur þú lýst vígslu nýnema? (Hvað heitir þessi athöfn, hvar og hvenær fer/fór hún fram, hverjir taka þátt, hvaða hlutverkum gegna hinir ýmsu þátttakendur, hversu lengi stendur/stóð hún yfir, hvað heita þeir sem sjá um framkvæmdina og hvernig eru/voru þeir valdir, eru/voru einhverjir nýnemar teknir sérstaklega fyrir, fylgjast/fylgdust kennarar og annað starfsfólk með o.s.frv.). Athöfnin heitir tollering eða tolleringar. Orðið er af latneskum uppruna: tollere: lyfta upp. Mig minnir að tollerað hafi verið á þokkalegum veðurdegi snemma hausts. Í einfaldri mynd gerist þetta þannig að 3 - 4 taka einn flatan á milli sín, lyfta honum tvisvar og kasta honum síðan upp í loftið og grípa hann aftur. Athöfnin fór fram á túnbrekkunni framan við skólann. Nemendur eldri bekkja sáu um þetta undir forystu helstu embættismanna Skólafélagsins og fylgdu gömlum reglum um tilhögun og ávörp. Þessu fylgdu alls konar ærsl, slagsmál, hróp og köll og læti. Mér fannst eitt yfir alla ganga, en átök og læti voru mismikil.   Eru/voru busar látnir klæðast öðruvísi en aðrir nemendur á þessum degi? Hvernig? Hver ræður/réði því hvernig þeir eru/voru klæddir? Nei, en margir höfðu farið úr yfirhöfnum og tekið úr vösum, skilið gleraugu eftir inni o.s.frv.   Klæða/klæddu þeir sem sjá um busavígsluna sig einnig í búninga? Hvernig búninga ef svo er? Ég man ekki eftir neinum sérstökum búningum.   Hafa nýnemar sýnt mótþróa við busavígslu eða reynt að sleppa undan henni? Ef svo er hvernig lýsir/lýsti þetta sér? Af hverju heldur þú að þetta sé? Margir veittu mótspyrnu og sumir kröftuga, og þótti hetjuskapur og gaman. Ég held að allir hafi viðurkennt tolleringarnar og álitið eðlilegt og sjálfsagt að menn hefðu eitthvað fyrir þessu. Eitthvað var hlaupið um umhverfis og sumir vildu taka sprett áður en þeir ,,létu ná sér".   Eru/voru notuð tæki við athöfnina (myndavélar, símar, tölvur)? Á hvaða hátt, ef svo er? Mikið var um myndatökur, og mig minnir að einhver eða einhverjir hafi verið með kvikmyndatökur við þetta. Einhverjar hreyfimyndir fóru í safn Skólafélagsins eða skólans.   Hvernig er/var busavígsla undirbúin? Eru/voru t.d. teknar myndir til að sýna við vígsluna eða settar á netið? Hvað finnst þér um það? Ekki man ég eftir neinu slíku. Þetta var alkunn hefð.   Hvað er/var gert á eftir busavígslu? Líklega var tollerað í síðasta tíma. Einhverjir skrámuðust eða rifu föt og þurftu að skreppa heim þess vegna. Flestir eða allir aðrir vissu að þetta var hefðbundin athöfn sem ,,átti að eiga sér stað" og hafði engin áhrif á það sem á eftir kom. - Löngu síðar var ég skólastjóri Samvinnuskólans á Bifröst. Þar var ,,baðað" eins og um sauðfé væri að ræða. Þá þurftu menn náttúrlega að skjótast frá á eftir og skipta um föt. Sem ný skólastjórahjón vorum við hjónin bæði böðuð með hefðbundnum hætti.   Hvernig upplifðir þú þína eigin busavígslu? Fannst þér hún jákvæð og skemmtileg eða gekk hún hugsanlega of langt (niðurlægjandi t.d.)? Mér fannst þetta skemmtilegt. Ég man ekki eftir neinu ,,niðurlægjandi" við þetta. - Þegar ég var skólastjóri á Bifröst löngu síðar kynntist ég ýmsum öðrum viðbótar-hefðum á heimavistinni. Sumt af því var svolítið niðurlægjandi og ég vann að því með forystu nemendanna að leggja þær athafnir niður stig af stigi á nokkrum árum.   Hvernig er/var viðhorfið til nýrra nemenda? Breytist/breyttist það í kjölfar busavígslu? Ég man ekki eftir neinu sérstöku í þessu, enda þekktust margir persónulega áður. Hins vegar tíðkuðu margir kennarar við Menntaskólann að sýna nýnemum í 3. bekk fyrirlitningu framan af vetri. - Nokkrum árum síðar var ég orðinn kennari við skólann, og þá kynntist ég því að sumir kennarar töldu þetta ,,nauðsynlega" hefð.   Hvernig er/var tekið á móti nýjum nemendum að öðru leyti? Ég man svo sem ekki eftir öðru en að Skólafélagið og önnur félög nemenda héldu kynninngarfundi, og svo var haldinn sérstakur kynningarfundur 3. bekkjar eftir að kosnir höfðu verið bekkjarráðsmenn og umsjónarmenn bekkja.   Er/var upphaf skólaársins mismunandi eftir því hvar þú ert/varst stödd/staddur í skólagöngunni? Hvernig þá?    Ekki að öðru leyti það ég man. Auðvitað voru eldri nemendur smám saman drembilátari við hina yngri, stig af stigi eftir bekkjum upp úr.     Dansleikir og félagsstarf Hvaða dansleikir eru/voru haldnir af nemendum? Hvar og hvenær eru/voru þeir? Bera/báru þeir einhver ákveðin heiti? Hver? Um það leyti sem ég kom í Menntaskólann í Reykjavík voru síðustu eiginlegu skólaböllin. Nemendafjöldi var orðinn slíkur að það var ekki unnt að halda þau svo að skaplegt yrði, hvorki í skólanum né utan hans. Og svo datt okkur nemendunum hreint ekki í hug að virða áfengisreglurnar, og það hafði líka sín áhrif. Rétt er að hafa í huga að skólinn fylgdi alls konar gömlum hefðum og venjum, og þegar nemendahópur hafði ,,lært á" hefðir og reglur var það mikið áhugamál að ganga eins langt og frekast yrði unnt í að brjóta þær eða teygja þær eftir hentugleikum. - Á mínum árum var enn reynt að halda uppi þeirri gömlu hefð að hafa ,,gangaslag" í Menntaskólanum, en það var orðið mjög erfitt vegna nemendafjöldans. Ég man eftir tveimur gangaslögum og þeir tókust þokkalega og enginn slasaðist, en þetta var augljóslega ekki hægt lengur. Nokkrum árum síðar urðu meiðsli við gangaslag, og þá var ákveðið að hætta við þessa ágætu hefð. - Rétt er að taka fram að mikil ævintýradýrð lék um áfengi á þessum árum, og unglingar lögðu mikið á sig til að komast yfir flösku, t.d. í leigubílum. Af áfengismálum þessara tíma er mikil og óviðjafnanleg ,,menningarsaga". Fæstir kunnu með þetta að fara, duttu, veiktust, ældu o.s.frv. En ég man aldrei til þess að nein önnur efni kæmu til umræðu eða vitundar. Þegar ég kom aftur til Menntaskólans í Reykjavík sem kennari nokkrum árum eftir að ég útskrifaðist þaðan voru önnur efni orðin áberandi, og ég man eftir nokkrum efnisnemendum mínum sem fóru illa út úr því.   Hittast/hittust nemendur fyrir böllin? Ef svo er, hvaða nemendur, hvar og hvað er/var gert? Við fóru mest á Borgina, en ég vissi um aðrar klíkur sem fóru á Röðul og Þórskaffi. Auðvitað hittust nemendur í hópum fyrir öll böll, hvort sem tengdust skóla eða ekki.   Hvar og hvenær eru/voru haldnar árshátíðir? Hvaða viðburðir eru/voru í kringum þær? - Sjá ofar.   Hvaða aðrar samkomur eða viðburðir eru/voru á vegum nemenda (hópsöngur, keppnir, þemavika t.d.)? Það var talsvert íþróttastarf, málfundir, skák og spil, en ég man ekki eftir söngstarfi. Svo vaqr auðvitað mikið starf fyrir kosningar í Skólafélaginu, Framtíðinni o.s.frv. - Í Samvinnuskólanum var þetta var allt á fullu enda heimavist og stundum svolítið einangrað yfir veturinn.   Hver eru/voru helstu félög og klúbbar í skólanum og hvert er/var hlutverk þeirra (leikfélag, íþróttafélag, nemendafélag, skólakór t.d.)? Leikfélagið Herranótt er frægt, og málfundafélagið Framtíðin. Skólafélagið hafði talsverða starfsemi. Ég held að margir íþróttamenn í skólanum hafi, líklega flestir, tekið þátt í almennum íþróttafélögum í borginni.   Er/var einhver útgáfustarfsemi á vegum þessara félaga? Um hvaða rit eða netmiðla er/var að ræða? Skólablaðið kom út og fyrir því var ritstjórn. Við og við var einhver önnur útgáfa. Ég man eftir Söngbók sem notuð var í Sel-ferðum, en Menntaskólaselið fyrir ofan Hveragerði var heimsótt nokkrum sinnum á mínum árum.   Hvernig er/var þátttaka í félagslífi nemenda? Hvaða munur er/var á þátttöku eftir kyni, aldri, fötlun, þjóðerni eða öðru? Nemendafjöldi var slíkur að það var algerlega ómögulegt að fylgjast með virkni eða þátttöku nemenda almennt. Ég met það svo að þriðjungur til helmingur hafi verið mjög óvirkur í flestu. Þar fyrir utan skiptust menn algerlega, t.d. íþróttaáhugamenn alveg út af fyrir sig og áhugamenn um bókmenntir og stjórnmál út af fyrir sig, o.s.frv. Ég man eftir því að sjónvarpið hafði talsverð áhrif þegar það hóf útsendingar og þá dró nokkuð úr félagsþátttöku.   Eru/voru einhverjir hópar útilokaðir frá þátttöku eða kjósa/kusu að vera ekki með? Hverjir, ef svo er, og hvers vegna? - Sjá ofar, sjálfsagt meira en um þriðjungur nemenda. - Að loknu stúdentsprófi liðu tvö ár uns ég var aftur kominn í skólann, sem kennari. Þá var þetta eins: tiltölulega fáir mjög virkir, allmargir flutu með, en síðan um þriðjungur til helmingur alveg frá - nema ef til vill í íþróttunum.   Hvaða hlutverk spilar netið og farsímar í tengslum við félagslíf nemenda? Hugmyndin, hugtakið, ,,farsími" var óþekkt og óhugsanlegt á mínum árum. En ég hef kynnst því sem kennari síðar að farsíminn er við hjartastað yngri kynslóðanna og lífið orðið óhugsanlegt án hans.   Hvernig standa/stóðu þeir nemendur sem ekki eru/voru keppendur að stuðningi við sín lið eða fulltrúa í viðburðum eins og Morfís, Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna? Ekkert af þessu var byrjað. Á næstsíðasta ári mínu var ég forseti Framtíðarinnar, og þá áttum við samskipti við forystumenn nemendafélaga í Verslunarskólanum og Kennaraskólanum. Milli þessara skóla höfðu engin tengsl verið áður, gagnkvæm tortryggni og rígur ef eitthvað var.   Myndast/myndaðist rígur á milli skóla þegar þeir mætast/mættust á keppnisgrundvelli? Hvernig lýsir/lýsti hann sér, ef svo er? Það var mikill rígur. Líklega hefur hans eitthvað gætt á sviði íþrótta, en annars var það bara á almennum skemmtistöðum sem þetta birtist. En auðvitað svindluðu allir sér inn alls staðar eftir því sem menn frekast gátu, og víðast gekk það þokkalega því að skemmtistaðirnir vildu auðvitað fá þessa unglinga.   Eru/voru sérstaklega mikil samskipti á milli þíns skóla og einhvers annars skóla? Í hverju felast/fólust þessi samskipti, ef svo er?   Helstu samskiptin voru nemendaskipti, nokkrir nemendur saman nokkra daga í senn einu sinni á vetri, við Menntaskólann á Akureyri og Menntaskólann á Laugarvatni.   Hversdagslíf Hvað er/var gert í frímínútum/hádegishléi eða í beinu framhaldi af kennslu? Um mína daga var mikið dvalist á ,,Skalla" sem var sjoppa nálægt skólanum, og reyndar voru fleiri slíkar nálægt. Ýmislegu félagslífi var sinnt í frímínútum, helst í löngu frímínútum eftir 3. tíma. Skólanum var skipt í stúlknabekki og strákabekki að mestu leyti, og þetta bætti náttúrlega miklu við mikilvægi frímínútnanna.   Er/var ákveðin sætaskipan í kennslustofum, í matsal eða á öðrum svæðum innan skólans? Eftir hverju fer/fór það, ef svo er? Hver nemandi hafði sitt sæti í stofu. Þessu var ráðið í fyrstu stund að hausti, og ég man ekki eftir neinum vandræðum með það. Þetta var leyst með einhvers konar samkomulagi en sjálfsagt hafa frekjurnar ráðið mestu. - Hver bekkur kaus sér umsjónarmann sem merkti við mætingar og annaðist eitt og annað fyrir bekkinn og kennarana.   Tengjast/tengdust einhverjir siðir eða venjur sérstaklega við heimavist, þar sem þær eru/voru? Hvað er helst um ræða, ef svo er?     Um slíkt var ekki að ræða í Menntaskólanum í Reykjavík. - Í heimavistinni á Bifröst var aftur á móti fullt af alls konar hefðum, embættum, athöfnum og siðum.   Ferðalög Er/var útskriftarferð? Ef svo er, hvenær er/var hún farin (fyrir eða eftir síðasta námsárið)? Fer/fór fram fjáröflun fyrir ferðina og hvernig er/var staðið að henni? Vegna nemendafjöldans var þetta orðið vandamál í Menntaskólanum. Farin var skólaferð á næstsíðasta ári, en ég tók ekki þátt í henni.   Hvaða aðrar ferðir eru/voru farnar á vegum skólans og/eða nemenda?   Ég man eftir tveimur eða þremur Sels-ferðum, hvorri um sig um helgi.     Dimission Hvernig fer/fór dimission fram? Hvaða dag, klukkan hvað byrjar/byrjaði hún og hvenær lýkur/lauk henni, hvað er/var gert og hvert er/var farið? Dimission fór fram á Sal Menntaskólans í Reykjavík. Þar var hefðbundin athöfn, og mikið um hróp og köll á eftir þegar dimittendi yfirgáfu skólann, eða yngri nemendur ,,ráku dimittendos út" með hávaða og látum, með hefðbundnum skömmum, hrópum og ávörpum og dimittendi svöruðu fyrir sig um leið og þeir þokuðust niður stiga og út um aðaldyrnar og niður tröppurnar úti. Flestir höfðu byrjað í hópum í heimahúsum og margir höfðu troðið fleyg eða pyttlu inn á sig og notuðu síðasta tækifærið til að þverbrjóta áfengisreglur skólans. Það þótti okkur sérstaklega skemmtilegt. Að þessu loknu stigu dimittendi upp í heyvagna sem dregnir voru um borgina og komið við hjá allnokkrum kennurum og sungið og hrópað til þeirra þar.   Er eitthvað annað nafn á þessari athöfn? Hvaða? Aðeins talað um dimissjón.   Borða/borðuðu útskriftarnemar saman morgunmat? Hvar, ef svo er? Á þetta við um alla útskriftarnema eða einstaka bekki og hópa? Mjög almennt komu nemendur saman í bekkjum eða vinahópum í heimahúsi um kl. 7,00 áður en haldið var til skóla.   Er/var sameiginleg máltíð nemenda og kennara? Ef svo er, hvar og hvenær að deginum? Hver stendur/stóð fyrir þessari máltíð? Þessi máltíð var kvöldverður á Hótel Borg að loknum prófum og brautskráningu. Hefð var að einstakir kennarar byðu einstökum nemendum, að eigin vali, dús á þessu kvöldi, en flestir kennarar notuðu þéringar við kennsluna.   Hittast/hittust útskriftarnemar í heimahúsi um kvöldið? Hverjir hittast/hittust og hvað er/var gert? Er/var ball í skólanum um kvöldið eða er/var farið á einhvern skemmtistað? Um þetta er svipað að segja sem um dimissjón. Eftir brautskráningu voru böll og partí út um allt og þetta stóð yfir nokkra daga.   Klæðast/klæddust útskriftarnemar sérstökum fötum eða búningum? Ef svo er, hvernig búningum og hvaðan eru/voru þeir fengnir? Eru/voru allir í eins búningum eða fer/fór það t.d. eftir bekkjum? Hvað ræður/réði valinu á þessum fatnaði? Þetta var ekki byrjað á mínum tíma.   Hvaða máli skipta/skiptu búningar almennt séð í hinum ýmsu hefðum og siðum í skólanum? Er/var þetta eitthvað sem er nauðsynlegt eða má/mátti sleppa? Af hverju? Sjá hér ofar um þetta.   Hver finnst þér vera munurinn á því sem nemendur gera/gerðu á dimission og svo á útskriftinni sjálfri? Hvar og hvernig fer/fór útskriftin fram í aðalatriðum?   Brautskráningin var virðuleg athöfn sem fór fram í Háskólabíói - vegna nemendafjöldans. Þar voru allir upp á búnir í smóking og stúlkurnar glæsilega búnar. Langflestir fengu sér stúdentshúfu og báru hana. Í tengslum við athöfnina var hópmyndataka í Hljómskálagarðinum. Eitthvað voru menn að tala um að hætta við stúdentshúfuna, en það náði ekki lengra á mínum tíma. Það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar að menn létu til skarar skríða um að hafna svo ,,borgaralegu" prjáli. Þegar ég brautskráðist voru ýmis ávörp við athöfnina, fulltrúar allnokkurra afmælisárganga og nokkrir fulltrúar árgangsins fluttu ávörp. Ég man að t.d. var ég látinn ávarpa á latínu, en held að þeirri hefð hafi verið hætt skömmu síðar.   --------------------------------------  


Kafli 1 af 5 - Busavígsla

Getur þú lýst vígslu nýnema? (Hvað heitir þessi athöfn, hvar og hvenær fer/fór hún fram, hverjir taka þátt, hvaða hlutverkum gegna hinir ýmsu þátttakendur, hversu lengi stendur/stóð hún yfir, hvað heita þeir sem sjá um framkvæmdina og hvernig eru/voru þeir valdir, eru/voru einhverjir nýnemar teknir sérstaklega fyrir, fylgjast/fylgdust kennarar og annað starfsfólk með o.s.frv.).
Eru/voru busar látnir klæðast öðruvísi en aðrir nemendur á þessum degi? Hvernig? Hver ræður/réði því hvernig þeir eru/voru klæddir?
Klæða/klæddu þeir sem sjá um busavígsluna sig einnig í búninga? Hvernig búninga ef svo er?
Hafa nýnemar sýnt mótþróa við busavígslu eða reynt að sleppa undan henni? Ef svo er hvernig lýsir/lýsti þetta sér? Af hverju heldur þú að þetta sé?
Eru/voru notuð tæki við athöfnina (myndavélar, símar, tölvur)? Á hvaða hátt, ef svo er?
Hvernig er/var busavígsla undirbúin? Eru/voru t.d. teknar myndir til að sýna við vígsluna eða settar á netið? Hvað finnst þér um það?
Hvað er/var gert á eftir busavígslu?
Hvernig upplifðir þú þína eigin busavígslu? Fannst þér hún jákvæð og skemmtileg eða gekk hún hugsanlega of langt (niðurlægjandi t.d.)?
Hvernig er/var viðhorfið til nýrra nemenda? Breytist/breyttist það í kjölfar busavígslu?
Hvernig er/var tekið á móti nýjum nemendum að öðru leyti?
Er/var upphaf skólaársins mismunandi eftir því hvar þú ert/varst stödd/staddur í skólagöngunni? Hvernig þá?

Kafli 2 af 5 - Dansleikir og félagsstarf

Hvaða dansleikir eru/voru haldnir af nemendum? Hvar og hvenær eru/voru þeir? Bera/báru þeir einhver ákveðin heiti? Hver?
Hittast/hittust nemendur fyrir böllin? Ef svo er, hvaða nemendur, hvar og hvað er/var gert?
Hvar og hvenær eru/voru haldnar árshátíðir? Hvaða viðburðir eru/voru í kringum þær?
Hvaða aðrar samkomur eða viðburðir eru/voru á vegum nemenda (hópsöngur, keppnir, þemavika t.d.)?
Hver eru/voru helstu félög og klúbbar í skólanum og hvert er/var hlutverk þeirra (leikfélag, íþróttafélag, nemendafélag, skólakór t.d.)?
Er/var einhver útgáfustarfsemi á vegum þessara félaga? Um hvaða rit eða netmiðla er/var að ræða?
Hvernig er/var þátttaka í félagslífi nemenda? Hvaða munur er/var á þátttöku eftir kyni, aldri, fötlun, þjóðerni eða öðru?
Eru/voru einhverjir hópar útilokaðir frá þátttöku eða kjósa/kusu að vera ekki með? Hverjir, ef svo er, og hvers vegna?
Hvaða hlutverk spilar netið og farsímar í tengslum við félagslíf nemenda?
Hvernig standa/stóðu þeir nemendur sem ekki eru/voru keppendur að stuðningi við sín lið eða fulltrúa í viðburðum eins og Morfís, Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna?
Myndast/myndaðist rígur á milli skóla þegar þeir mætast/mættust á keppnisgrundvelli? Hvernig lýsir/lýsti hann sér, ef svo er?
Eru/voru sérstaklega mikil samskipti á milli þíns skóla og einhvers annars skóla? Í hverju felast/fólust þessi samskipti, ef svo er?

Kafli 3 af 5 - Hversdagslíf

Hvað er/var gert í frímínútum/hádegishléi eða í beinu framhaldi af kennslu?
Er/var ákveðin sætaskipan í kennslustofum, í matsal eða á öðrum svæðum innan skólans? Eftir hverju fer/fór það, ef svo er?
Tengjast/tengdust einhverjir siðir eða venjur sérstaklega við heimavist, þar sem þær eru/voru? Hvað er helst um ræða, ef svo er?

Kafli 4 af 5 - Ferðalög

Er/var útskriftarferð? Ef svo er, hvenær er/var hún farin (fyrir eða eftir síðasta námsárið)? Fer/fór fram fjáröflun fyrir ferðina og hvernig er/var staðið að henni?
Hvaða aðrar ferðir eru/voru farnar á vegum skólans og/eða nemenda?

Kafli 5 af 5 - Dimission

Hvernig fer/fór dimission fram? Hvaða dag, klukkan hvað byrjar/byrjaði hún og hvenær lýkur/lauk henni, hvað er/var gert og hvert er/var farið?
Er eitthvað annað nafn á þessari athöfn? Hvaða?
Borða/borðuðu útskriftarnemar saman morgunmat? Hvar, ef svo er? Á þetta við um alla útskriftarnema eða einstaka bekki og hópa?
Er/var sameiginleg máltíð nemenda og kennara? Ef svo er, hvar og hvenær að deginum? Hver stendur/stóð fyrir þessari máltíð?
Hittast/hittust útskriftarnemar í heimahúsi um kvöldið? Hverjir hittast/hittust og hvað er/var gert? Er/var ball í skólanum um kvöldið eða er/var farið á einhvern skemmtistað?
Klæðast/klæddust útskriftarnemar sérstökum fötum eða búningum? Ef svo er, hvernig búningum og hvaðan eru/voru þeir fengnir? Eru/voru allir í eins búningum eða fer/fór það t.d. eftir bekkjum? Hvað ræður/réði valinu á þessum fatnaði?
Hvaða máli skipta/skiptu búningar almennt séð í hinum ýmsu hefðum og siðum í skólanum? Er/var þetta eitthvað sem er nauðsynlegt eða má/mátti sleppa? Af hverju?
Hver finnst þér vera munurinn á því sem nemendur gera/gerðu á dimission og svo á útskriftinni sjálfri? Hvar og hvernig fer/fór útskriftin fram í aðalatriðum?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.