LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFramhaldsskóli, Menntaskóli, Siður
Ártal1966-1970
Spurningaskrá114 Framhaldsskólasiðir

StaðurMenntaskólinn í Reykjavík
Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2011-1-126
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.11.2011/18.12.2011
TækniTölvuskrift

Kyn: Karl Aldur: 62 ára (f. 1949) Nafn skóla: MA (og einn vetur í MR)   Busavígsla Getur þú lýst vígslu nýnema? (Hvað heitir þessi athöfn, hvar og hvenær fer hún fram, hverjir taka þátt, hvaða hlutverkum gegna hinir ýmsu þátttakendur, hversu lengi stendur hún yfir, hvað heita þeir sem sjá um framkvæmdina og hvernig eru þeir valdir, eru einhverjir nýnemar teknir sérstaklega fyrir, fylgjast kennarar og annað starfsfólk með o.s.frv.). Haustið 1966 voru busar í MA látnir vita fyrirfram hvaða dag tollerað yrði og mig minnir að kennarar hafi ráðlagt okkur að mæta allavega ekki í sparifötunum. Sjöttubekkingar sáu um athöfnina, sem fór mjög skipulega fram. Ein bekkjardeild í 3. bekk var sótt í einu og mig minnir að við höfum einfaldlega stillt okkur upp í röð. Síðan vorum við tolleruð, og gott ef við fengum svo ekki að standa álengdar og fylgjast með þegar kom að næsta sauðahóp. Nú man ég ekki lengur hvort tolleringin var þreföld, eða talið nægja að koma okkur einu sinni sæmilega hátt í loft upp. Þetta haust varð það slys að einn þriðjubekkingur fótbrotnaði. Hann þurfti að leggjast á sjúkrahús og nám hans frestaðist um heilt ár. Ekki veit ég hvort nokkrum datt í hug að fara fram á eða greiða bætur á þessum tíma, en ég man að mér þótti þetta nokkuð hart. Í MR fylgdu talsvert meiri læti. Þar tíðkuðust miklir eltingarleikir. Þriðjubekkingar flúðu, en á sjöttubekkingum hvíldi sú skylda að ná þeim og tollera. Kennarar reyndu svo að hafa einhverja lágmarksstjórn á öllu saman. Ég var í MR í 5. bekk, en fór svo aftur norður. Haustið 1969 fóru sjöttubekkingar í MA í árlega ferð til Reykjavíkur og að einhverju leyti minnir mig að heimsóknin hafi tengst MR. Ég man að ég notaði tækifærið og settist sem gestur inn í D-bekkinn minn eina kennslustund. Svo vildi til að þennan dag stóðu yfir tolleringar í MR. Ég var staddur niðri við útidyrnar ásamt einhverjum fleiri norðanmönnum, þegar Guðni kjaftur, sem kallaður var, Guðmundsson og þá conrektor, kom hlaupandi niður í stigann, en sá þá enga niðri nema okkur norðanmennina. Enn í dag sé ég hann ljóslifandi fyrir mér, þar sem hann horfði yfir sviðið, þekkti mig í hópnum og sagði: „Þér, Jón! Þér eruð gamall nemandi skólans. Passið þér bakdyrnar!“  Eru busar látnir klæðast öðruvísi en aðrir nemendur á þessum degi? Hvernig? Hver ræður því hvernig þeir eru klæddir? Okkur var ráðlagt að vera ekki í sparifötunum. Klæða þeir sem sjá um busavígsluna sig einnig í búninga? Hvernig búninga ef svo er? Sjöttubekkingar voru minnir mig heldur ekki í sínum sparifötum. Hafa nýnemar sýnt mótþróa við busavígslu eða reynt að sleppa undan henni? Ef svo er hvernig lýsir þetta sér? Af hverju heldur þú að þetta sé? Eins og ég nefndi að ofan minnir mig að athöfnin hafi gengið nokkuð áreynslulaust fyrir norðan, en sá siður var greinilega kominn til sögunnar í MR 1969 að busarnir reyndu að sleppa. Einhverjar óskráðar reglur giltu þó greinilega. Líklega hefur eltinga- og feluleikur og hugsanleg átök ekki mátt berast út fyrir skólalóðina og greinilega hefur verið reynt að handsama sem flesta innandyra, sbr. það sem segir hér að ofan um bakdyrnar. Eru notuð tæki við athöfnina (myndavélar, símar, tölvur)? Á hvaða hátt, ef svo er? Ekki minnist ég þess að myndir hafi verið teknar. Mögulega gætu einhverjir áhugasamir kennarar gert það, eða meðlimir í FÁLMA (Félagi ÁhugaLjósmyndara í MA). Hvernig er busavígsla undirbúin? Eru t.d. teknar myndir til að sýna við vígsluna eða settar á netið? Hvað finnst þér um það? Hm. Þetta var sem sagt nokkru fyrir daga netsins. Hvað er gert á eftir busavígslu? Ekki minnist ég þess. Mögulega gæti skólaball hafa verið haldið um kvöldið, en í rauninni var þetta bara einföld skylduathöfn og þar með búið. Einhverjir gætu þó munað þetta betur. Hvernig upplifðir þú þína eigin busavígslu? Fannst þér hún jákvæð og skemmtileg eða gekk hún hugsanlega of langt (niðurlægjandi t.d.)? Ég man að fyrirfram bar maður nokkurn ugg í brjósti, en eftir að hafa verið tolleraður hafði maður endanlega verið meðtekinn og viðurkenndur í þessu samfélagi og ég fann til nokkurs stolts yfir því. Hvernig er viðhorfið til nýrra nemenda? Breytist það í kjölfar busavígslu? Tolleringar virtust mér bara vera formsatriði. Ég varð aldrei var við neina fyrirlitningu efribekkinga, miklu fremur vilja til að leiðbeina. Hvernig er tekið á móti nýjum nemendum að öðru leyti? Hér má vel skjóta inn persónuleika skólameistara. Þegar ég kom í MA var Steindór Steindórsson skólameistari í forföllum Þórarins Björnssonar. Steindór sást bara á Sal ef hann þurfti eitthvað að tilkynna. Haustið eftir var Þórarinn komin aftur og hann kallaði hvern og einn fyrir sig. Í minningunni finnst mér að ég hafi setið hjá honum í kannski 10 mínútur. Hann spurði um ættir og uppruna og líðan í skólanum og gaf sér tíma til spjalla. Óvenjulega hlýr og hugljúfur maður. Er upphaf skólaársins mismunandi eftir því hvar þú ert stödd/staddur í skólagöngunni? Hvernig þá?  Eiginlega ekki. Sjálfum fannst manni fyrsta haustið trúlega merkilegast og það er auðvitað bara eðlilegt.   Dansleikir og félagsstarf Hvaða dansleikir eru haldnir af nemendum? Hvar og hvenær eru þeir? Bera þeir einhver ákveðin heiti? Hver? Skólaböll voru haldin nokkuð reglulega í MA, ekki man ég sérstaklega eftir skipulagi þeirra, nema svokölluðu „Hlöðuballi“ sem getur verið að hafi verið á ábyrgð þriðjubekkinga. Svo mikið er víst að okkur félögunum á Hótel Varðborg (sem þá var leigt skólanum sem heimavist) barst til eyrna að hefð væri fyrir því að þriðjubekkingar byrjuðu að smakka vín á Hlöðuballinu. Til þess þurfti auðvitað að senda einhvern í Ríkið. Nú voru góð ráð dýr. Á Varðborg varð það að ráði að efna til skeggvaxtarkeppni og þeir sem einhverja skeggrót höfðu sem vert var um að tala voru látnir safna alskeggi í líklega mánuð fyrir hlöðuballið. Kepninni lauk með tilheyrandi þukli og síðan atkvæðagreiðslu. Ég hafði á endanum nauman sigur. Þar með dæmdist á mig að fara í Ríkið. Til ferðarinnar fékk ég stærstu skólatösku sem fannst í húsinu, virðulegan frakka af Borgfirðingi og gott ef ekki trefil og hatt. Þannig búinn fór ég í Ríkið og keypti 8 flöskur af sterku áfengi, nokkru fyrir 18 ára afmælið. Ekki þarf að taka fram að margir voru um hverja flösku. Satt að segja datt mér jafnvel þá ekki í hug eitt andartak að ég hafi verið svona fullorðinslegur. Kannski hefur hefðin verið kunn meðal starfsmanna. Ég hef aldrei fengið úr því skorið. En heima á Varðborg var mín beðið í miklum spenningi og fögnuðurinn varð mikill þegar ég birtist með troðfulla tösku. Hittast nemendur fyrir böllin? Ef svo er, hvaða nemendur, hvar og hvað er gert? Nei, svokölluð fyrirpartí tíðkuðust ekki fyrir skólaböll, enda sást þar yfirleitt ekki vín á nokkrum manni. En í sjötta bekk var maður hættur að stunda skólaböll, fluttur úr heimavistinni og í herbergi út í bæ. Og allavega í mínu herbergi voru iðulega partý bæði fyrir og eftir ball í Sjallanum, en það herbergi var reyndar ekki leigt menntaskólanemum framar. Hvar og hvenær eru haldnar árshátíðir? Hvaða viðburðir eru í kringum þær? Ég á í fórum mínum gamlan þríblöðung með söngtextum. Hann ber titilinn „Skólahátíð MA 1966“, en nú er mér ógerlegt að muna hvers konar hátíð þetta var. Gæti þetta hafa verið matarveisla og þá líklegast í matsal heimavistarinnar? Mér er ógerlegt að muna það. Hvaða aðrar samkomur eða viðburðir eru á vegum nemenda (hópsöngur, keppnir, þemavika)? Þemavikur voru óþekktar og ekki man ég eftir neinni keppni. Hins var stundum fjöldasöngur á sal. Það var þá að frumkvæði nemenda, sem í frímínútum hópuðust saman á ganginum fyrir framan skrifstofu skólameistara og sungu: Kæri skólameistari / Gefðu okkur söngsal í dag / Skólameistari – og ýmis fleiri tilbrigði. Skólameistari lét ævinlega bíða eftir sér. Oftast varð hann við beiðinni, en stöku sinnum ekki, þá trúlega til að undirstrika að söngsalurinn væri ekki sjálfgefið fyrirbrigði og ekki mætti biðja of oft. Hver eru helstu félög og klúbbar í skólanum og hvert er hlutverk þeirra (leikfélag, íþróttafélag, nemendafélag, skólakór t.d.)? Þó nokkur félög voru starfrækt. FÁLMA hef ég nefnt. LMA, leikfélagið var mjög öflugt, setti upp sýningu á hverjum vetri og gerir held ég enn. Ég tók þátt í þessu starfi í 3. og 6. bekk (var utanskóla í 4 bekk og fékk mér vinnu sem kennari en í MR í 5. bekk). Hefð var fyrir því að fara með sýninguna til Siglufjarðar. Málfundafélög voru tvö, annað einungis fyrir þriðjubekkinga til að þeir næðu upp dálítilli grunnþjálfun fyrir djúpu laugina. Óðinn minnir mig að það félag héti. Skólafélagið minnir mig að sæi sjálft um hina almennu málfundi. Formleg félög eða klúbbar gætu hafa verið fleiri þótt ég muni ekki eftir. En ekki má gleyma Sporni, félagi antisportista. Þar giltu nokkuð strangar reglur um líkamshreyfingu, en undantekningar voru þó viðurkenndar. T.d. var heimilt að hlaupa til að ná strætó, en þó því aðeins að sanna mætti að sú áreynsla væri minni en hin að ganga á ákvörðunarstað. Mér var synjað um inngöngu í þennan félagsskap, þó ekki fyrir þá sök að ég hefði á mér orð fyrir að hlaupa, heldur hafði ég séð forseta félagsins hlaupa við nokkuð ankannalegar aðstæður, gert úr því dálitla gamansögu og sagt frá. Það var stærri synd en svo að hún yrði mér fyrirgefin. Er einhver útgáfustarfsemi á vegum þessara félaga? Um hvaða rit eða netmiðla er að ræða? Skólafélagið gaf út skólablaðið Munin. Einhvern tíma um það leyti sem ég var í MA, þótti einhverjum Muninn of hefðbundinn og uppreisnarhópur tók sig og gaf út fjölritað blað sem hét Grýta. Muninn var hins vegar á þessum tíma prentaður í Prentsmiðju Odds Björnssonar, ef ég man rétt. Þessi 4 skólaár mín voru nokkrir umbrotatímar, einkum síðasti veturinn. Það var þó ekki fyrr en ári síðar, sem sagt 1971, sem skipt var um nafn á skólablaðinu og það kom út undir heitinu „Hælistíðindi“. Hvernig er þátttaka í félagslífi nemenda? Hvaða munur er á þátttöku eftir kyni, aldri, fötlun, þjóðerni eða öðru? Félagslíf var almennt ljómandi gott en að mestu óformlegt. Flestir voru í fæði í mötuneyti heimavistarinnar og eftir mat hittist fólk oft í setustofunni uppi og spjallaði saman. Terían (Kaffitería KEA) var líka vinsæll samkomustaður. Flest hið formlega er áður nefnt, málfundir, félagastarf og þess háttar. Svona löngu eftir á að hyggja, held ég einfaldlega að þörf fyrir að formgera félagsstarfið hafi verið sáralítil. Það sá ágætlega um sig sjálft. Aldursmunur gat verið nokkur. Í mínum bekk voru allmargir fæddir 48, flestir ‚49 eða ‚50 og líklega 1 eða 2 ‚51. Þetta skipti held ég engu máli. Ég man hvorki eftir neinum fötluðum, né heldur af öðru þjóðerni. Eru einhverjir hópar útilokaðir frá þátttöku eða kjósa að vera ekki með? Hverjir, ef svo er, og hvers vegna? Nei. Ég held alveg örugglega að enginn hafi verið útilokaður frá einu né neinu. Hvaða hlutverk spilar netið og farsímar í tengslum við félagslíf nemenda? 1970 hefði ég spurt: Hvaða net? Hvað er farsími? Hvernig standa þeir nemendur sem ekki eru keppendur að stuðningi við sín lið eða fulltrúa í viðburðum eins og Morfís, Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna? 1970 hefði maður spurt: Hvað er ...? Myndast rígur á milli skóla þegar þeir mætast á keppnisgrundvelli? Hvernig lýsir hann sér, ef svo er? Reyndar var einhver gamall rígur milli MR og MA. Mig rámar í að kennarar við MA hafi reynt að færa rök fyrir því að MA en ekki MR væri arftaki Bessastaðaskóla, eða mögulega Hólavallaskóla. Einhver samskipti voru milli skólanna. Mig minnir sem sagt að það hafi verið árvisst að sjöttubekkingar færu í hópferð suður á haustin og líklega hefur það verið stjórn skólafélagsins í MR sem kom árlega í heimsókn í MA. A.m.k. í einhverjum tilvikum fór þá fram ræðukeppni. Mér er allavega minnisstætt að Vilmundur heitinn Gylfason bað um orðið á slíkum fundi, tók hljóðnemann, bar hann að öfugum enda og gaf frá sér miður kurteislegt hljóð - við afar misjafnar undirtektir. Krafturinn fór hins vegar ekki milli mála, hvorn endann sem hann notaði. Eru sérstaklega mikil samskipti á milli þíns skóla og einhvers annars skóla? Í hverju felast þessi samskipti, ef svo er? Ekki annað en það sem lýst hefur verið. En þegar byrjaði í MA haustið 1966 voru bara þrír menntaskólar á landinu. Sá fjórði tók reyndar líklega til starfa þetta sama haust.   Hversdagslíf Hvað er gert í frímínútum/hádegishléi eða í beinu framhaldi af kennslu? Eitthvað var spjallað. Sumir fóru út að reykja. Er ákveðin sætaskipan í kennslustofum, í matsal eða á öðrum svæðum innan skólans? Eftir hverju fer það, ef svo er? Ekki að öðru leyti en því að þeir sem höfðu takmarkaðan áhuga á að vekja athygli kennarans, reyndu að sitja aftast. Ég var í þeim hópi. Reyndar minnir mig að sú sætaskipan í kennslustofu, sem réðist að hausti hafi enst út veturinn. Tengjast einhverjir siðir eða venjur sérstaklega við heimavist, þar sem þær eru? Hvað er helst um ræða, ef svo er?   Ekki man ég sérstaklega til þess. Ég var þó bara tvo vetur í MA – í 3. og 6. bekk. Á Hótel Varðborg höfðum við matsalinn til afnota sem eins konar setustofu og vorum þar mikið. Í 6. bekk var ég á „Gömlu vistum“ sem svo voru kallaðir, uppi í risinu á gamla skólahúsinu. Þar tíðkaðist að lauma sér út um glugga eftir talningu á föstudagskvöldum og fara í Sjallann. Til þess var einn gluggi í kjallaranum afar hentugur. Hann var vissulega þröngur, en maður var grannvaxinn á þeim tíma. Sumir voru vissulega gripnir við þennan glugga, en ég slapp. Eftir áramót man ég að mér ofbauð áhættan og leigði mér herbergi úti í bæ.   Ferðalög Er útskriftarferð? Ef svo er, hvenær er hún farin (fyrir eða eftir síðasta námsárið)? Fer fram fjáröflun fyrir ferðina og hvernig er staðið að henni? Ég minnist tveggja árvissra ferða. Leikfélagið fór til Siglufjarðar. Kostnaðinn greiddi félagið örugglega og við fengum gistingu í heimahúsum. Sjöttubekkingar fóru svo til Reykjavíkur eins og áður greinir. Þær ferðir voru nokkuð sukksamar. Einn bekkjarbróðir minn, lagðist til sunds í Tjörninni og afhjúpaði síðan styttuna af Ólafi Thors, líklega nóttina fyrir tilsettan dag. En rúturnar hafa sennilega verið á kostnað skólans. Allavega man ég ekki eftir að kostnaður væri neinn að ráði. Fjáröflun var óþekkt hugtak. Hvaða aðrar ferðir eru farnar á vegum skólans og/eða nemenda? Siglufjarðarferðina á auðvitað að flokka hér.   Dimission Hvernig fer dimission fram? Hvaða dag, klukkan hvað byrjar hún og hvenær lýkur henni, hvað er gert og hvert er farið? Nú vandast málið. Einhverjir muna þetta vafalaust betur. Ég man þó eftir balli, mögulega hefur verið borðað fyrst. Allavega var safnast saman uppi í setustofunni og gengið síðan fylktu liði niður í borðsal. Þetta er í eina skiptið (fyrir utan útskriftina) sem annað hvort var gerð krafa um formlegan kvöldklæðnað eða það þótti bara svona sjálfsagt. Í þessu sambandi var líka ætlast til að fólk paraði sig saman og það er líka í eina skiptið sem ég man til þess. Stelpurnar voru færri þannig að örugglega hafa einhverjir orðið útundan, en ég man að ég herti upp hugann og fékk borðdömu, nema það hafi verið hún sem herti upp hugann. Þótt skömm sé frá að segja man ég það ekki með fullri vissu. En þetta hlýtur að hafa verið kvöldið fyrir dimissionina sjálfa. Eftir henni man ég nefnilega afar óljóst. Sú athöfn hófst um morguninn og við fórum milli bústaða kennaranna og kvöddum þá. Sungið var fyrir utan hvert hús, kennarinn kom út og stúlkurnar færðu honum blóm og kysstu líklega á báðar kinnar. Sennilega hafa allir kennarar verið karlkyns. Þegar ég hugsa málið nú meira en 40 árum síðar, man ég aðeins eftir þremur konum sem kenndu mér við MA og engri við MR. Þannig situr þetta í minni mínu að við höfum farið um bæinn á hestvögnum, líklega eitthvað skreyttum. Einhverjir hljóta þó að hafa gengið af þessum 120 manna hópi, en hitt er líka mögulegt að einhverjir hafi hreinlega setið heima. Ég hygg að ég hafi mjög fljótlega komið mér fyrir á vagni, orðinn ófús til gangs af eðlilegum ástæðum. Ef ég man rétt náði ég ekki að heimsækja alla kennarana. Mig minnir að ég hafi notað tækifærið og laumað mér inn á Teríuna, sennilega ásamt fleirum, einhvern tíma þegar leiðin lá þar hjá. Ekki löngu síðar hef ég gengið óstyrkum fótum heim í herbergið mitt og kann ekki fleiri tíðindi að segja frá þessum degi. Er eitthvað annað nafn á þessari athöfn? Hvaða? Ekki það ég man. Borða útskriftarnemar saman morgunmat? Hvar, ef svo er? Á þetta við um alla útskriftarnema eða einstaka bekki og hópa? Ekki man ég eftir neinum morgunmat, nema þeim sem við höfðum sumir með okkur í vökvaformi. Er sameiginleg máltíð nemenda og kennara? Ef svo er, hvar og hvenær að deginum? Hver stendur fyrir þessari máltíð? Það gæti sem sagt hafa verið þetta paraða ball sem ég gat um að ofan. Hittast útskriftarnemar í heimahúsi um kvöldið? Hverjir hittast og hvað er gert? Er ball í skólanum um kvöldið eða er farið á einhvern skemmtistað? Um þetta er ég sem sagt ekki til frásagnar. Klæðast útskriftarnemar sérstökum fötum eða búningum? Ef svo er, hvernig búningum og hvaðan eru þeir fengnir? Eru allir í eins búningum eða fer það t.d. eftir bekkjum? Hvað ræður valinu á þessum fatnaði? Eitthvað vorum við skreytt, en sérstakir búningar? Nei. Hvaða máli skipta búningar almennt séð í hinum ýmsu hefðum og siðum í skólanum? Er þetta eitthvað sem er nauðsynlegt eða má sleppa? Af hverju? Þetta er tæpast „relavant“ í mínum huga. Hver finnst þér vera munurinn á því sem nemendur gera á dimission og svo á útskriftinni sjálfri? Hvar og hvernig fer útskriftin fram í aðalatriðum? Útskriftin sjálf fór fram í Akureyrarkirkju 17. júní samkvæmt hefð. Vafalaust hefur verið byrjað á messu og síðan afhenti skólameistari okkur prófskírtein og við settum upp hvítu kollana. Um kvöldið minnir mig svo að við höfum hreinlega átt Sjallann. Reyndar hafði áfengiskaupaaldur verið lækkaður þennan vetur niður í 20 ár og því verið nánast alveg löglegt að hafa barinn opinn öllum.   Mig langar að geta nokkurra atriða sem ekki er spurt um: Fyrst tveggja gamalla hefða sem ríktu í MA og báðar urðu mér til bjargar á stúdentsprófi. Önnur bjargaði mér beinlínis frá falli og kom í veg fyrir að ég hefði eytt 4 árum ævinnar til ónýtis. Þetta var sú gullvæga regla að gefa skyldi 1 fyrir viðleitni. Í líffræði var einungis munnlegt próf og ég stóð algerlega á gati. Um lindýr vissi ég ekki annað en að þau myndu vera lin. Kennarinn vildi gefa mér 0 en prófdómarinn stóð fastur á hefðinni og 1 fékk ég – fyrir þá viðleitni eina að mæta í prófið.   Í munnlegu íslenskuprófi tilgreindi ég ákveðna atburðaröð í Þorsteins þætti Stangarhöggs. Kennarinn vildi gefa mér færi á að leiðrétta hana, en ég þóttist muna þetta rétt. Prófdómarinn fletti upp þessu atriði og ég reyndist hafa rétt fyrir mér. Síðan fylgdu þessi orð: „Jæja. Þá er það víst ekkert fleira.“ Og þar með mátti ég fara. Ég skildi þetta ekki, en aðrir kunnu skil á þessari gömlu hefð. Sá sem setur kennara á gat í munnlegu prófi, er ekki spurður frekar og fær 10.   Mér þykir líka skaðlaust að geta um mikla samheldni í útskriftarárgangnum. Allir, eða nánast allir eru á póstlista og fyrir utan stórafmæli á 5 ára fresti eru nú haldin árleg þorrablót. Auðvitað mætir ekki nema hluti, en það er nokkuð samheldinn kjarni sem kemur alltaf og talsvert í viðbót sem kemur stundum. Gamli MR-bekkurinn held ég að hittist aldrei, það skilst mér allavega á þeim eina bekkjarfélaga þaðan sem ég hitti enn stöku sinnum.   Þéringar voru aflagðar í MA þegar ég var þar, en mig minnir til að mér hafi verið sagt að ekki væri mjög langt síðan bindisskylda var í tímum. Í MR þéruðu a.m.k. bæði rektor og conrektor, en flestir aðrir kennarar hafa líklega verið hættir því.   Skömmu fyrir 1990 fór ég niður í MR og hitti Guðna Guðmundsson þeirra erinda að biðja um skólavist fyrir elsta son minn. Hann þéraði mig ekki lengur, en sagði mér að þótt tímar væru breyttir, vildi hann ekki neita börnum gamalla nemenda um skólavist. Þessa afstöðu virtist hann þá, á síðustu árum sínum í embætti, gamla, telja gamla, óskráða reglu og var greinilega í mun að halda fast í hana.   Og má maður ekki til með að láta flakka söguna af því þegar heil bekkjardeild ávann sér sennilega brottrekstrarsök. Þetta var snemma á þorra 1970 og við, strákarnir í C-bekknum, ákváðum að halda þorrablót upp á eigin spýtur. Við leigðum gamla Alþýðuhúsið á Akureyri keyptum þorramat og héldum blótið. Ekki vorum við ríkir og kostnaði þurfti að halda halda í lágmarki. Sanngirni og vinsemd voru þá í meiri hávegum en nú, og trúlega fengum við þorramatinn á miklum afslætti, jafnvel bara kostnaðarverði. En þegar kom að því að velja drykkjarföng vandaðist málið. Niðurstaðan varð að kaupa vodka og blanda hann. Eftir miklar vangaveltur þótti okkur gosdrykkir hlutfallslega of dýrt bland, vegna þess að úr því fékkst ekkert áfengi. Sú ákvörðun var tekin á endanum að kaupa í staðinn dökkan vermút til að þynna vodkann.   Eðlilega urðu menn fljótlega nokkuð ölvaðir og nánast hver einasti maður í salnum fann hjá sér óviðráðanlega hvöt til að ávarpa samkomuna. Áður en lauk höfðu allir safnast saman í biðröð framan við ræðupúltið. Og þar eð öllum lá á að komast sem fyrst í stólinn, púaði röðin niður hvern ræðumanninn á fætur öðrum, en sá sem neyddist til að ljúka máli sínu mikilu fyrr en hann hafði hugsað sér fór og tók sér stöðu aftast í biðröðinni. Þannig gekk lengi. En þorramatnum voru gerð eitthvað minni skil en til stóð. Svo var farið í Sjallann. Ég held að enginn okkar hafi enst lengi þar. Sjálfur var ég svo heppinn að eiga vinafólk af heimaslóðum í nánast næsta húsi við Sjallann. Þangað komst ég við illan leik og var lagður til í sófanum. Aldrei vissi ég hvort skólameistari frétti af þessu uppátæki, en mögulega hefur honum þótt nokkuð mikið í ráðist að reka úr skólanum heilan bekk, sem kominn var svo nálægt lokaprófi. Nú er fyrir mörgum árum orðið of seint að spyrja hann.


Kafli 1 af 5 - Busavígsla

Getur þú lýst vígslu nýnema? (Hvað heitir þessi athöfn, hvar og hvenær fer/fór hún fram, hverjir taka þátt, hvaða hlutverkum gegna hinir ýmsu þátttakendur, hversu lengi stendur/stóð hún yfir, hvað heita þeir sem sjá um framkvæmdina og hvernig eru/voru þeir valdir, eru/voru einhverjir nýnemar teknir sérstaklega fyrir, fylgjast/fylgdust kennarar og annað starfsfólk með o.s.frv.).
Eru/voru busar látnir klæðast öðruvísi en aðrir nemendur á þessum degi? Hvernig? Hver ræður/réði því hvernig þeir eru/voru klæddir?
Klæða/klæddu þeir sem sjá um busavígsluna sig einnig í búninga? Hvernig búninga ef svo er?
Hafa nýnemar sýnt mótþróa við busavígslu eða reynt að sleppa undan henni? Ef svo er hvernig lýsir/lýsti þetta sér? Af hverju heldur þú að þetta sé?
Eru/voru notuð tæki við athöfnina (myndavélar, símar, tölvur)? Á hvaða hátt, ef svo er?
Hvernig er/var busavígsla undirbúin? Eru/voru t.d. teknar myndir til að sýna við vígsluna eða settar á netið? Hvað finnst þér um það?
Hvað er/var gert á eftir busavígslu?
Hvernig upplifðir þú þína eigin busavígslu? Fannst þér hún jákvæð og skemmtileg eða gekk hún hugsanlega of langt (niðurlægjandi t.d.)?
Hvernig er/var viðhorfið til nýrra nemenda? Breytist/breyttist það í kjölfar busavígslu?
Hvernig er/var tekið á móti nýjum nemendum að öðru leyti?
Er/var upphaf skólaársins mismunandi eftir því hvar þú ert/varst stödd/staddur í skólagöngunni? Hvernig þá?

Kafli 2 af 5 - Dansleikir og félagsstarf

Hvaða dansleikir eru/voru haldnir af nemendum? Hvar og hvenær eru/voru þeir? Bera/báru þeir einhver ákveðin heiti? Hver?
Hittast/hittust nemendur fyrir böllin? Ef svo er, hvaða nemendur, hvar og hvað er/var gert?
Hvar og hvenær eru/voru haldnar árshátíðir? Hvaða viðburðir eru/voru í kringum þær?
Hvaða aðrar samkomur eða viðburðir eru/voru á vegum nemenda (hópsöngur, keppnir, þemavika t.d.)?
Hver eru/voru helstu félög og klúbbar í skólanum og hvert er/var hlutverk þeirra (leikfélag, íþróttafélag, nemendafélag, skólakór t.d.)?
Er/var einhver útgáfustarfsemi á vegum þessara félaga? Um hvaða rit eða netmiðla er/var að ræða?
Hvernig er/var þátttaka í félagslífi nemenda? Hvaða munur er/var á þátttöku eftir kyni, aldri, fötlun, þjóðerni eða öðru?
Eru/voru einhverjir hópar útilokaðir frá þátttöku eða kjósa/kusu að vera ekki með? Hverjir, ef svo er, og hvers vegna?
Hvaða hlutverk spilar netið og farsímar í tengslum við félagslíf nemenda?
Hvernig standa/stóðu þeir nemendur sem ekki eru/voru keppendur að stuðningi við sín lið eða fulltrúa í viðburðum eins og Morfís, Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna?
Myndast/myndaðist rígur á milli skóla þegar þeir mætast/mættust á keppnisgrundvelli? Hvernig lýsir/lýsti hann sér, ef svo er?
Eru/voru sérstaklega mikil samskipti á milli þíns skóla og einhvers annars skóla? Í hverju felast/fólust þessi samskipti, ef svo er?

Kafli 3 af 5 - Hversdagslíf

Hvað er/var gert í frímínútum/hádegishléi eða í beinu framhaldi af kennslu?
Er/var ákveðin sætaskipan í kennslustofum, í matsal eða á öðrum svæðum innan skólans? Eftir hverju fer/fór það, ef svo er?
Tengjast/tengdust einhverjir siðir eða venjur sérstaklega við heimavist, þar sem þær eru/voru? Hvað er helst um ræða, ef svo er?

Kafli 4 af 5 - Ferðalög

Er/var útskriftarferð? Ef svo er, hvenær er/var hún farin (fyrir eða eftir síðasta námsárið)? Fer/fór fram fjáröflun fyrir ferðina og hvernig er/var staðið að henni?
Hvaða aðrar ferðir eru/voru farnar á vegum skólans og/eða nemenda?

Kafli 5 af 5 - Dimission

Hvernig fer/fór dimission fram? Hvaða dag, klukkan hvað byrjar/byrjaði hún og hvenær lýkur/lauk henni, hvað er/var gert og hvert er/var farið?
Er eitthvað annað nafn á þessari athöfn? Hvaða?
Borða/borðuðu útskriftarnemar saman morgunmat? Hvar, ef svo er? Á þetta við um alla útskriftarnema eða einstaka bekki og hópa?
Er/var sameiginleg máltíð nemenda og kennara? Ef svo er, hvar og hvenær að deginum? Hver stendur/stóð fyrir þessari máltíð?
Hittast/hittust útskriftarnemar í heimahúsi um kvöldið? Hverjir hittast/hittust og hvað er/var gert? Er/var ball í skólanum um kvöldið eða er/var farið á einhvern skemmtistað?
Klæðast/klæddust útskriftarnemar sérstökum fötum eða búningum? Ef svo er, hvernig búningum og hvaðan eru/voru þeir fengnir? Eru/voru allir í eins búningum eða fer/fór það t.d. eftir bekkjum? Hvað ræður/réði valinu á þessum fatnaði?
Hvaða máli skipta/skiptu búningar almennt séð í hinum ýmsu hefðum og siðum í skólanum? Er/var þetta eitthvað sem er nauðsynlegt eða má/mátti sleppa? Af hverju?
Hver finnst þér vera munurinn á því sem nemendur gera/gerðu á dimission og svo á útskriftinni sjálfri? Hvar og hvernig fer/fór útskriftin fram í aðalatriðum?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.