LeitaVinsamlega sýnið biðlund
HeitiKnipliskrín
Ártal1834

LandÍsland

GefandiIngveldur Einarsdóttir

Nánari upplýsingar

Númer13508/1946-16
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð29 cm
EfniFura
TækniTrésmíði

Lýsing

Úr aðfangabók:
Knippliskrín, smíðað úr furu, botninn 20,5x30,5 cm, hæð að framan 29 cm. Burstin nær töluvert fram yfir gaflinn og inn í hana miðja er rennt lítilli skúffu, sem í eru nokkur sýnishorn af knipplingum og nokkrir pergamentrenningar. Framan á skúffunni eru útskorin upphleypt blöð og eins ofan við hana, en stafirnir IB hvor sínum megin við hana, einnig upphleyptir. Á stafninum er gat til að stinga henni inn um og fyrir því tvær útskornar lokur, er renna hvor til sinnar handar, en ofan við er ártalið 1834. Skrínið er málað, dökkgrænt, en rautt í útskurðinum, og ofan á því er grænn flosvefnaður, nældur niður á brúnum með látúnsbólum. Í skríninu eru 36 knipplistokkar renndir, af mismunandi gerðum, sumir með silfur- eða gullvír á.

Úr Gersemar og þarfaþing:  (Texti eftir Elsu E. Guðjónsson)
   „Árið 1946 bárust Þjóðminjasafni Íslands gjafir frá Ingveldi Einarsdóttur sem lengi bjó að Suðurgötu 2, í Dillonshúsi, í Reykjavík.“   (Texti Kristjáns Eldjárn úr skrá safnins - sjá hér að ofan).
„Knipliskrín þetta er vafalítið íslensk smíð.  Við lýsingu Kristjáns á skríninu sjálfu er engu að bæta.  En hvað innihaldið varðar er þess að geta að því hafa undanfarin ár fylgt 42 stokkar.  Eru þeir af 18 mismunandi gerðum; virðast tveir þeirra vera íslensk smíð (tálgaðir), en hinir, renndir, eru líkast til fengnir erlendis frá.  Fimm kniplsýnishorn voru í skúffunni og fjögur kniplibréf, , ef til vill elstu knipluppdrættir sem varðveist hafa hér á landi.  Á knipliskríninu er nýuppsett 30 stokka hvítt línknipli sem sýnishorn á vinnuaðferðinni.
    Ekki voru skráðar upplýsingar um hver hefði átt knipliskrínið í upphafi, en ljóst er að áletrunin I B muni eiga við Ingileifu Bachmann (f.1812, d. 1894), seinni konu Páls Melsted amtmanns (g. 1846), en hún bjó ekkja í Dillonshúsi frá 1861 ásamt syni sínum, Hallgrími landsbókaverði (d. 1906) og tveimur fósturdætrum, sem bjuggu þar áfram eftir hennar dag.  Önnur þeirra, Sigríður Thorarensen (f. 1850, d. 1942), handavinnukennari, var sögð mikil kniplkona.  Ingveldur mun í fyrstu hafa verið vinnukona hjá Sigríði; bjó hún áfram í Suðurgötu 2 að henni látinni og hefur þá vísast fengið ýmsa gripi úr búi hennar, meðal annars knipliskrínið.
   Af kniplingum á Íslandi fer litlum sögum fyrr en undir lok 17. aldar.  Þá var þessi erlenda tísku- og munaðarvara farin að berast hingað, bæði vírknipli og línknipli, og að líkindum einnig silkiknipli.  Ekki er ljóst hvenær farið var að knipla á Íslandi, en sennilega hefur það ekki verið síðar en snemma á 18. öld þar sem Páll Vídalín lögmaður nefnir  „kniplaskrín“ í upptalningu á þingum kvenna, meðal annars á ýmsum þarflegum hlutum til hannyrða.  Íslensk knipliskrín sem um er vitað eru öll með líku lagi og af gerð sem tíðkaðist í Niðurlöndum á 17. öld og barst til Danmerkur og Svíþjóðar þegar fyrir öldina miðja, elstu íslensku knipliskrínin sem um er vitað, annað í Þjóðminjasafni, hitt í Minjasafninu á Akureyri, eru bæði merkt ártalinu 1791.
   Helst var kniplað hér úr ullarbandi, mjög fínum togþræði úr dregnu togi, ýmist úr einum eða fleiri litum, grænum, rauðum, gulum, bláum og hvítum, en stundum var hvíti þráðurinn língarn.  Voru kniplingar þessir aðallega hafðir til að skreyta neðan föt kvenna:  pils, svuntur og samfellur.  Knipl af þessu tagi var stundað hér fram yfir miðja 19. öld en hvarf þegar af lögðust kniplaðar leggingar á samfellum.  Miðað við líklegan aldur knipliðju á Íslandi er athyglisvert að íslensku togkniplunum svipar mörgum hverjum, ef ekki flestum,hvað munstur áhrærir, til erlendra kniplinga frá 16. öld og öndverðri 17.öld.  Auk togniplinganna hafa varðveist hér, einkum á kvenfatnaði, mjó silki- og vírknipli frá 18. og 19. öld sem sum hver geta verið íslensk.“
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 2.9.2010)


Heimildir

Elísabet Valdimarsdóttir. Leiðarvísir til að nema ýmsar hannyrðir og fatasaum. Reykjavík 1928.
Elsa E. Guðjónsson. „Knipliskrín frá 1834.“ Gersemar og þarfaþing. Reykjavík 1994, bls. 178-179.
Fríða Björnsdóttir. „Kniplingar.“ Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1985. Reykjavík 1986, bls. 46-47.
Halldóra Bjarnadóttir. Vefnaður á íslenzkum heimilum á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar. Reykjavík 1966.
Inga Lárusdóttir. „Vefnaður, prjón og saumur.“ Iðnsaga Íslands II. Reykjavík 1943, bls. 154-192.
Kristín Jónsdóttir Schmidhauser. „Knipl.“ Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1983. Reykjavík 1983, bls. 42-44.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.