LeitaVinsamlega sýnið biðlund
HeitiAltaristafla

StaðurHítardalskirkja
Sveitarfélag 1950Hraunhreppur
Núv. sveitarfélagBorgarbyggð
SýslaMýrasýsla
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer3617/1891-96
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð51 x 150 cm
EfniGull, Marmari
TækniMálun

Lýsing

Úr aðfangabók:
 Þeir 6 myndaflokkar er nú skal lysa, eru með helgum myndum merkilegum og gömlum, þeir eru úthöggnir í marmara, myndirnar eru víðast meir en lágupphleyptar myndir (Basrelief) heldr háupphleyptar (Hautrelief).  Utan um þessa myndaflokka hafa á síðari tíma verið gerðir rammar lítt vandaðir, en þó strikaðir framan og málaðir dökkrauðir, 2 flokkar eru í töflum hver sér, en 2 og 2 hafa verið settir saman með ramma í milli, en eiga þó ekki saman hvorki að hæðinni til né öðru, tel eg þetta því 6 nr. því það þyrfti að smíða nýja og fallega ramma um hvern flokk fyrir sig, svo það yrðu 6 töflur, en nú eru þær 4.
Myndatafla  20¼ þuml. á hæð með ramma, taflan sjálf eða marmarinn 18 þuml. á hæð, breidd með ramma 12 ¼ þuml.  Stærsta myndin á þessari töflu er í miðjunni, og í sitjandi stöðu, sem mun eiga að vera Guðfaðir, uppyfir eru sem bogar, og mun eiga að tákna geislabrot í skýjunum, myndin hefir gylta kórónu á höfði, sítt hár er liggr á herðum niðri, og mikið skegg klofið hvorutveggja gylt, hún heldr upp höndunum líkt og hún væri að blessa; myndin sýnist vera í kyrtli, að því er sést, en umutan í síðri kápu er liggr í fellíngum og hefir verið með gyltum hlöðum, en nú farið mjög af, myndin stendr á palli.  Til beggja hliða við þessa mynd að ofan, eru vængjaðir Einglar í hululíki er standa á smápöllum, þeir hafa verið með gylt hár, eru í dragkyrtlum með belti um sig að því er sést, því kyrtlarnir leggjast í fellíngum ofanyfir, nokkuð er brotið framanaf höndunum sumstaðar.  Fyrir framan Guðsmyndina er krossmarkið eða Kristr á krossinum, það nær uppundir brjóstið á myndinni, en nokkuð lengra niður, hár og skegg hefir verið gylt; til beggja hliða eru Englar, sem halda sinn á hverjum bikar eða kaleik, sem vera skal undir blóðið sem drýpr niðr úr naglaförunum á höndunum, kaleikrinn hefir verið gyltr; sömuleiðis eru 2 Englar neðst á töflunni er báðir halda um kaleik undir blóðið er niðr drýpr af fótunum.  Vera má að alt þetta eigi að tákna Guð í sinni dýrð.  Grunnrinn milli myndanna er helst sést að ofan, hefir verið gyltr, en er nú nokkuð af, og sumstaðar málaðr með rósum, þar sem gylt hefir verið á öllum þessum myndatöflum, hefir það verið skýrt gull, því annars væri það löngu fölt orðið.
(Miðmynd).

Úr Gersemar og þarfaþing:  (Texti eftir Beru Nordal)
„Í Þjóðminjasafni Íslands er altarisbrík úr kirkjunni í Hítardal á Mýrum er kom til safnsins árið 1891.  Hún er úr alabastri og sýnir sögu Maríu guðsmóður.  Slíkar altaristöflur voru fjöldaframleiddar á verkstæðum í Englandi frá 1330-1550, einkum í Nottingham.  Mikið var selt af þeim í Englandi en einnig var töluverður útflutningur til annarra Evrópulanda, þ.á.m. til Íslands.  Í fyrstu voru töflurnar einfaldar að myndskipan og skrauti, en er leið á 15. öldina varð skreytingin yfir myndunum íburðarmeiri og myndirnar flóknari og órólegri.  Jafnframt varð skurður þeirra grófari, en slík lýti huldu litur og gylling vel í upphafi.  Einnig stækkuðu altaristöflurnar og var lágmyndum þá jafnvel skipað í tvær raðir.
Maríubríkin frá Hítardal er með sjö lágmyndum er sýna frá vinstri til hægri:
1)Jóhannes skírara, 2) boðun Maríu, 3) fæðingu Krists, 4) heilaga þrenningu í miðið (dúfuna vantar), 5) upphafningu Maríu, 6) krýningu Maríu og 7) Jóhannes guðspjallamann.  ...  Á þessa mynd, sem sýnir heilaga þrenningu, er greinileg hola á brjósti Guðs föður en þar hefur dúfa upphaflega verið fest.  Sú er nú glötuð.
Þetta er mjög venjuleg Maríubrík að táknmáli og myndefni.  Lágmyndirnar eru nokkuð eyddar og hefur litur nær allur máðst af, en þó má enn sjá gyllingu í hári.  Upphafleg umgjörð er glötuð og hafa töflurnar verið settar í einfaldan tréramma.  
 Þetta hefur verið vængjabrík, þ.e. altaristafla með vængjum, eins og allar aðrar íslenskar alabasturstöflur.  Það má sjá á því að samanlögð breidd vængjanna er jöfn breidd miðhlutans.  Hítardalstaflan hefur sama myndefni og önnur alabasturstafla sem varðveist hefur hér á landi og er sú frá Möðruvallakirkju í Eyjafirði, fyrir utan miðtöfluna.  Á Hítardalstöflunni er miðtaflan með heilagri þrenningu en á Möðruvallatöflunni er þar sýnd uppstigning Krists, sem var ekki eins vanalegt myndefni þegar um Maríubríkur var að ræða.“
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 18.8.2010)


Heimildir

Bera Nordal. „Alabastur fyrir altari.“ Storð. 1985, bls. 39 og 41.
Bera Nordal. „Skrá um enskar alabastursmyndir sem varðveist hafa á Íslandi.“ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1985. Reykjavík 1986, bls. 85-128.
Bera Nordal. „Alabastur frá Hítardal.“ Gersemar og þarfaþing. Reykjavík 1994, blæs. 68-69.
Cheetham, Francis. English Medieval Alabasters, with a Catalogue of the Collection in the Victoria and Albert Museum. Oxford 1984, bls. 44, 47 og 57.
Frásögur um fornaldarleifar I. Reykjavík 1983, bls. 296-297.
Kristján Eldjárn. „Brík með alabastur.“ Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Reykjavík 1962, 29. þáttur.
Íslenskt fornbréfasafn V. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1857-1972, bls. 408.
Kirkjur Íslands, 15.bindi. Ritstjórar: Jón Torfason, Þorsteinn Gunnarsson. Reykjavík, 2010.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.