LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiTorfhús
Ártal1955-2019
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurHéðinshöfði 1
ByggðaheitiTjörnes
Sveitarfélag 1950Tjörneshreppur
Núv. sveitarfélagTjörneshreppur
SýslaS-Þingeyjarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1960

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-66
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.6.2019/11.7.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Það er tæplega hægt að segja að ég þekki slík hús af eigin raun.
Þegar ég var að alast upp voru þrjú uppistandandi torfhús hér, Eitt aflagt fjárhús sem skömmu fyrir mína tíð var notað sem hesthús. Jafnað við jörðu milli 1970 og 1975. Eitt fjárhús áfast bárujárns fjárhúsi. Notað á vorin fram undir 1975 en jafnað við jörðu um 1980. Og smá kofi sem var áfastur tóttum af fjárhúsi þær tóftir og kofin voru jafnaðar við jörðu um 1986.
Fyrst nefnda húsið hét Gata og var það víst sér býli í landi Héðinshöfða á Tjörnesi. Fjárhúsið var við Héðinshöfða og kofin nefndist Hornhús og var þar sem túngarðurin myndaði horn til suð austurs.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Ég hef komið í torfhús um það bil 10 sinnum fyrir utan þessi torfhús sem nefnd eru hér að framan og ég mynnist úr æsku.
Það eru að öllum líkindum um fimm ár síðan ég kom síðast í torfhús (Glaumbæ í Skagafirði.Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.

Torfhús standa fyrir merkan menningararf og hefði mátt sýna þeim meiri virðingu hér áður.
Fyrsta hugsunin er að það sé á margan hátt skiljanlegt að menn hafi viljað láta þessi hús hverfa þau voru jú í hugum margra einkenni þess molbúa háttar sem margir töldu hafa verið rík jandi á Íslandi. Hugsun mín um torfhús er líklega frekar jákvæð. Og þá vegna þess að mér finnast þau vera merkileg arfleið liðins tíma sem beri að varðveita. Og að þau sem enn standa uppi eða til eru leifar af hafi bæði sögulegt og menningarlegt gildi.


Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?

Mér finnst merkilegast hversu morg þeirra virðast hafa verið góðar byggingar og merkilegt að þau hafi ekki verið verri íverustaðir en sagan segir. Þau virðast til að mynda ekki hafa verið mjög köld og varið sig ótrúlega vel fyrir vatni. Þetta er sagt án þess að ég þekki þetta af eigin raun. Hvort hægt sé að segja að eitthvað hafi verið ómerkilegt við þau, þá hlýtur það nú eiginlega að vera, en mér kemur svo sem ekkert sérstakt í hug.


Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.

Þarna er komið að nokkuð umdeilanlegu máli. Spurningin er líka hvað er sögulegt gildi og frá hvaða sjónarhorni gildið er metið. Ég myndi telja að byggingarsögulegt gildi sé þó nokkurt sem og menningarsögulegt. Þessi húsagerð var alveg til loka 19. aldar nær alsráðandi í landinu að minnsta kosti til sveita og tengist þannig allri menningu í landinu. Bæði hvað varðar húsagerð og lífsstandard, því torfhús virðast hafa verið mjög misjöfn að gæðum. Hvað menntunar og fræðslugildin varðar þá er auðveldara að fræða um það sem þú getur séð og skoðað heldur en það sem aðeins er til á pappír.


Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?

Það er líklegt að torfhúsin hafi eitthvert þjóðernislegt gildi og þá í þá veru að styrkja þá trú að við séum sterk og frekar heilsuhraust því slæmt viðurværi í lélegum húsakynnum hafi sigtað burt þá sem veikburða voru. Ég held þó að í dag sé farið að draga úr þessu vegna þess að þær kynslóðir sem nú eru að komast á fullorðins ár hafa ekki til að bera þekkingu á þeim aðstæðum sem forfeður þeirra ólust upp við.


Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?

Torfhúsin hafa á vettvangi stjórnmála líklega mjög takmarkað gildi nema þá helst ef verið er að fjalla um menningartengt efni á tillidögum.


Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Torfhúsin eru og hafa verið sýnd ferðalöngum og að vissu leiti svipar þeim til kastala og merkra bygginga annara landa hvað það varðar. Því þó að þau séu lágreist, þröng og dimm þá eru þau mannabústaðir liðins tíma. Og í húsakinnum sem þessum bjuggu forfeður okkar bæði háir og lágir.Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?

Að því er mér sýnist þá eru þau sem til sýnis eru vel nýtt sem slík.


Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?

Hér er vissulega stórt spurt. Má ekki alltaf gera betur og eða gera hlutina með öðrum hætti, en þegar verið er að huga að sliku er mjög mikilvægt að rasa ekki um ráð framm. Allt sem gert er þarf að hugsa vel og passa að gera ekki eitthvað sem er óafturkræfi. Á einum stað gæti verið þörf á einhverjum úrbótum meðan á öðrum gætu breytingar frekar skaðað en hitt. En vilji menn gera breytingar og hafi hugmyndir sem til bóta ættu að vera er það yfirleitt nær eingöngu fjármagnið sem á strandar.


Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?

Að því er ég best veit eru þau torfhús sem eftir eru í landinu ekki ýkja mörg og ætti því að viðhalda sem flestum. Þetta fyrra svar mitt þýðir væntanlega fleiri frekar en færri svo ég nefni sem ástæðu sögulegt, menningarlegt og byggingarsögulegt gildi þessara húsa. Má þá einu gilda hvort um er að ræða bæjarhús, gripahús eða önnur hús, geymslur, reykkofa og fleira.


Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Sé áhugi fyrir varðveislu, viðhaldi (verndun) og nýtingu fleiri torfhúsa ætti það að vera á kosnað ríkisins að stæstum hluta en sveitarfélög gætu einnig lagt sitt af mörkum og eins þeir sem nýta ætla húsin til einhvers.Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?

Hér skortir mig þekkingu til að geta tjáð mig um málið.


Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?

Eftirgerðir eru vitanlega frábrugðnar þó ekki væri nema vegna þess eins að verkþekking er allt önnur í dag en var fyrir 100 - 200 árum.


Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Ég þekki einn aðila sem hefur þessa þekkingu í dag en fyrir 25 árum þekkti ég engan. Ég get ekki ýmindað mér hver staðan verður eftir 25 ár. Vonandi læra einhverjir þessa iðju en það veltur vissulega mikið á því hvort þörfin fyrir þekkinguna er til staðar eða ekki. Ef verið er að vinna að endurgerð, viðhaldi og viðgerðum að einhverju ráði gætu alltaf einhverjir fengið áhuga á að læra.Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Mitt álit er að nær öll hús hafi eitthvert gildi. sé það sögulegt, menningarlegt og eða byggingarsögulegt svo varðveita ætti sem mest af þeim. Það er svo aftur annað mál hvaða hús á að varðveita og hver eiga að hverfa. Þar getur komið til margra álitamála, tilfinningalegra, sögulegra og fleira þess háttar. Svo sem hver byggði húsið, hver hannaði það, hver bjó í því, hvers vegna var það byggt og svo mætti lengi telja.Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Fyrir utan þau hús sem flestum er kunnugt um þekki ég lítið til og mun því ekki verða mér til skammar með því að nefna hér eitthvað.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana