LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiTorfhús
Ártal1943-2019
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurKirkjuból
ByggðaheitiDýrafjörður
Sveitarfélag 1950Mýrahreppur V-Ís., Þingeyrarhreppur
Núv. sveitarfélagÍsafjarðarbær, Ísafjarðarbær
SýslaN-Ísafjarðarsýsla, V-Ísafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1943

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-61
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.6.2019/4.7.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Ég er fæddur í torfbæ og ól þar minn aldur til 15 ára. Það var á bænum Kirkjubóli í Dýrafirði. Bærinn var byggður 1907 að mig minnir og var þá lagfærð gerð eldri bæjar er þar stóð. Þá kynntist ég gripahirðingu í torfhúsum, fé, nautgripir, hesta og já einnig hænsn.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Ég reyni ekki að nefna tölu, sjá framanritað, það er liðlega mánuður síðan ég kom í slíkt hús .Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.

Þau standa fyrir sjálfsbjörg, heilbrigða skynsemi en líka töluverð fræði um það hvernig þau skal byggja og þeim skal halda við. Ég get vel viðurkennt að rómantík æskuára segir til sín þegar að þessum húsum kemur en ég man líka alla þá annmarka sem á þeim voru: Erfitt viðhald, takmörkuð ending, leki, músagangur, kuldi, saggi ...


Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?

Mér finnst athyglisvert hvernig torfhús hafa þróast en um leið hvernig ákveðnir drættir þeirra hafa haldist óbreyttir um aldabil. Merkilegt er líka hve vel þau falla að náttúru og umhverfi. Sömuleiðis tel ég það merkilegt að ef allrar kunnáttu aldanna er beitt við byggingu húsanna og hennar neytt til vals á byggingarefnum sem nú er völ á til viðbótar þeim náttúrulegu - torfi og grjóti - má fá hús sem taka flestum öðrum byggingarmátum okkar fram, hvort heldur er í efnislegu/tæknilegu eða fagurfræðilegu tilliti.

Hvað ómerkilegast? Satt að segja ekkert og raunar skil ég ekki þann hluta spurningarinnar ....


Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.

Að sýna þann ramma sem forfeður okkar bjuggu við og þær rætur sem vistmenning okkar byggir á. Þau eru viðmiðun þegar við skoðum og metum þá byggingarkosti sem við búum við í dag. Með rannsóknum á gerð, byggingu, viðhaldi og umhirðu torfhúsa má byggja fræðslu um þau, þannig að ekki sé með einhæfum hætti bggð upp rómantísk mynd af þeim eða þau fordæmd ... Mikið vantar á að við séum komin á þann stað. Þjóðinni lá svo mikið á að komast úr þessum húsum inn í nútímann, sem aftur svarar hraðanum með því að fyllast söknuði og trega þegar mannvirkin ber á góma.


Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?

Í alþjóðlegu samhengi eru torfhúsin okkar um margt sérstæð. Fyrir það þurfum við ekki að skammast okkar. Þau eru raunar framlag okkar til húsvistarsögu heimsbyggðarinnar. Eðlilega eru þau hluti af sjálfsmynd okkar og og þjóðerni, og ekkert til þess að skammast sín fyrir, dæmi um það hvernig maðurinn nýtti sér náttúrukosti landsins til þess að byggja sér skjól til dvalar og búsetu...


Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?

..... þetta er skrýtin spurning? Geta steinsteypt hús eða bárujárnsklædd "haft gildi á vettvangi stjórnmálanna...." ? Nei, ég hleyp yfir þessa ...


Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Vekja ekki torfhús minjasafnanna sérstakan áhuga ferðamanna, sbr. Glaumbær, Laufás, Grenjaðarstaður ... og túristar í Reykholti gera sér göngu upp að Höskuldargerði, sem reist er úr torfi, grjóti og bálkum, teljandi þar standa bæ Snorra Sturlusonar? Torfhúsin okkar eru tilsvarandi höllum Evrópubúa, gamma Lappanna, snjóhúsum Grænlendinga og holanna sem fólk bjó í á Kanaríeyjum ... Þar sér landkönnuðurinn mikilvægt einkenni þess svæðis sem hann ferðast um ... Gildið er óumdeilt.Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?

Geri það við engar athugasemdir svo framarlega sem sú nýting byggist á traustri þekkingu á torfhúsum en ekki yfirborskenndri þekkingu rómantikera sem ekki hafa sofið nótt í slíku húsi - eða starfað þar svo neinu nemi. Rannsóknir og markviss framsetning reynslu af þessum mannvirkjum verða að hjálpa þeim.


Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?

Sjálfsagt. Ekki er nóg að draga aðeins fram stórbýli og höfðingsbæi, og ekki bara íbúðarhús heldur einnig hús til atvinnustarfsemi, landbúnaðar og sjávarútvegs. Auka þarf enn menntun á sviði slíkrar húsagerðar þannig að við látum ekki sýndarmennsku eina ráða heldur höldum þekkingunni við og aukum hafa og útbreiðum.


Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?

Það kostar að varðveita hús, ekki síst torfhús sem endurbyggja þarf á 20-40 ára fresti. Ég vísa til áður talins, að varðevita ekki aðeins hina betri bæi, heldur þverskurð af torfhúsakosti sem þjóðin notaði. Mér hefur hins vegar sýnst að okkur veittisr örðugt að halda við þeim húsum sem þegar hefur verið ákveðið að varðveita svo ég er ekki bjartsýnn á að við ráðum við meira ...


Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Það er svo vinsælt að vísa á hrepp eða ríki þegar að kostnaði kemur.. Torfhús eru gildur þáttur af þjóðmenningu okkar eins og óumdeilt er. Það er hlutverk hinnar opinberu þjóðminjavörslu að skilgreina hlut torfhúsanna í menningarvarðveislu þeirri sem ríki og sveitarfélög bera uppi lögum samkvæmt, ýmist með beinum hætti eða óbeinum, þ.e. með stuðning við einkaaðila er taka vilja á sig afmarkaða og skilgreinda þætti hennar.Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?

Á þessu hef ég litla þekkingu. Grunar samt að framvinda hafi orðið í takt við ný og breytt byggingarefni, m.a. með tilkomu bárujárns og tjörupappa. Alltaf bættist í þekkingu kynslóðanna og við hverja torfhúsreisn bættist í - torfhúsið varð betra en það sem áður stóð...


Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?

Vissulega. Þau eru hnarreistari og meira er borið í hlesðlur en almennt gerðist áður - enda geri ég ráð fyrir að hlesðlumenn opg húsbyggjendur hafi almennt rýmri efni nú en áður og ætli þessum húsum þaðr að auk að standa til muna lengur...


Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Ég hugsa að fleiri kunni tökin nú en fyrir aldarfjórðungi, m.a vegna námskeiða og aukins áhuga, fari svo fram sem horfir mun þeim fjölga á næstu árum ... Ég þekki nokkra sem til verka kunna, og tel sjálfan mig svo sem hálfdrætting á því sviði...Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

.... allt er þetta hluti afr framvindu sögunnar, hún varð ekki bara í stökkum heldur einnig hægri framvindu. Torfbær minn hafði steypt framhús, á honum var bárujárn undir torfi og tréetex hafði verið sett innan í hluta hans til einangrunar - allt líður í því að nota hin nýju efni sem voru að koma. Hví skyldum við ekki með e-m hætti halda til haga þeirri þróunarsögu þó ekki væri með öðru en ljósmyndum, rannsóknum og greiningu á hinum þjóðlega fróðleik.Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

... hef ekki þekkingu til upptalningar en nefni bara fjósið á heimajörð minni, Kirkjubóli í Dýrafirði, sem að stofni til er líklega eldra en frá 1877, og enn stendur. Svo nefni ég líka sjóarhúsið/Naustið á næsta bæ, sem hlaðið var líklega 1915 og er eingöngu hlaðið úr grjóti, sérstætt hús, sem á sér fleiri sömu gerðar, en hér hefur ekki verið spurt um ...


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana