LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLoftslagsbreytingar
Ártal2018
Spurningaskrá125 Loftslagsbreytingar og framtíðin

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1965

Nánari upplýsingar

Númer2018-1-70
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.10.2018/24.10.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Almennt

Hvað tengir þú helst við loftslagsbreytingar af mannavöldum? Hér getur þú látið hugann reika.

Sóðaskapur mannanna, tæknibyltingin og hirðuleysi mannfólksins. Óheft mengun, bílafloti, kolakynding, álverksmiðjur og fl. Fáir hirða um hvað verður um "efnin" þegar búið er að nota þau. Plastuppfinningin, eins stórkostlega þægileg sem hún var mönnunum, hefur orðið til þess að hafið er fullt af drasli sem drepur dýrin þar. Ósonlagið og hið svokallaða gat olli skelfingu í byrjun og margir hættu að nota spreybrúsa en svo urðu allir samdauna og hættu að hugsa um þetta. Global warming (gróðurhúsaáhrifin) hafa verið umdeild sem manni finnst stórskrýtið og ekki hjálpar þegar hálfvitar eru við stjórnvölinn eins og t.d. Trump, Bandaríkjaforseti sem "trúi" ekki á nein slík áhrif og neitar að taka þátt í samstarfi til að draga úr áhrifunum.Kafli 2 af 8 - Eigin upplifun

Loftslagsbreytingar eru hnattrænar en hækkað hitastig á jörðinni getur einnig haft miklar staðbundnar afleiðingar. Hefur þú upplifað einhverjar afleiðingar af loftslagsbreytingunum? Hvaða afleiðingar, hvar og hvernig? Hafa loftslagsbreytingar haft áhrif á líf þitt? Á hvaða hátt?

Ég hef nú kannski ekki orðið fyrir miklum áhrifum sjálf þannig séð en vandamálið er bæði að maður gleymir fljótt, verður samdauna og svo er loftslag líka breytilegt. Ég hef heyrt um loftslagstímabil þannig að í kannski 10 ár eru lélegir vetrar og góð sumur og svo koma næstu 10 ár með meiri rigningatíð?? Þannig að það er auðvelt að afskrifa allar breytingar með að þetta sé bara tímabil en mér finnst samt veðrið hafa breyst. Eins og t.d. í dag: 23. október 2018 er algjört logn, rigning á köflum og milt. En maður hefur líka fengið vetrarstorm um hásumar og sumarið í Reykjavík í sumar var hörmung, örfáir sólardagar (aðeins 2 bongódagar) og annars rigning og ský út í eitt.Kafli 3 af 8 - Hvað get ég gert?

Hefur þú gert eitthvað sjálf(ur) til að draga úr loftslagsbreytingum? Hvaða máli telur þú að daglegt líf þitt eða lífstíll skipti fyrir loftslagsbreytingar?

Ég er farin að flokka sorp (gerði það reyndar á meðan ég bjó í Noregi og fyrsta árið eftir að ég flutti heim (2000-2001)) en þegar ég frétti að þessu væri svo bara öllu blandað saman hérna á sorphaugunum þá hætti ég að nenna þessu og fór í fýlu út í flokkun. En núna flokka ég, þoli ekki plastumbúðir og reyni að stýra hjá því að versla í Costco sem er því miður með allt í plasti og endurspeglar að mínu mati fyrirlitningu Bandaríkjanna á umhverfismálum. Ég spái í umhverfisfótspor og reyni að vanda fæðuval mitt með tilliti til þess. Kaupi helst kjöt af bónda hérlendis (sem minnkar umhverfissfótsporin til muna, sparar flutning á milli landa o.þ.h.). Ég tel að miklu skipti að allir leggi sitt af mörkum varðandi umhverfið. En ég keyri samt úr Árbænum í Mosó í vinnuna af því að ég get ekki hugsað mér að standa úti í vondu veðri og bíða eftir strætó og þurfa síðan að fara aftur út á skiptistöð og bíða eftir næsta og hef heldur ekki áhuga á að eyða of miklum tíma í þetta en þegar ég bjó í Noregi tók ég alltaf neðanjarðarlestina/lestina þegar ég gat því það var þægilegur ferðamáti og hvorki löng bið né kuldi á útistoppistöð.Kafli 4 af 8 - Upplýsingagjöf

Hvar hefur þú helst fengið upplýsingar um loftslagsbreytingar (sjónvarp, netmiðlar t.d.)?

Já, kannski einna helst en hef líka reynt að lesa mér til og greinar um þessi málefni voru einnig í náminu mínu (grunnskólakennari og þjóðfræðingur).Kafli 5 af 8 - Úrræði

Telur þú að það sé hægt að takmarka hinar hnattrænu loftslagsbreytingar? Hvernig? Heldur þú að ný tækni, eins og t.d. rafmagnsbílar, skip og flugvélar, skipti máli fyrir loftslag í framtíðinni?

Ég ætla rétt að vona að það sé hægt bæði að sporna við þessum breytingum en líka að leiðrétta þær að einhverju leyti. Ég held að allur heimurinn þurfi að opna augun og fara í samstillt átak (sá vestræni með sitt óhóf í öllu og þriðji heimurinn með fræðslu um mengun og slíkt). Ég tel að það sé verið að æða áfram í leit að nýrri tækni til að taka við t.d. bensín/díselbílum með t.d rafmagnsbílum en umhverfisfótsporin við framleiðslu þessara "umhverfisvænu" bíla eru gríðarleg enn sem komið er og lítið vitað um hver umhverfiskostnaðurinn verður í heildina. Ég hefði viljað skoða meiri rannsóknir á t.d. metanbílum. Ég held að það þurfi að breyta hugarfari heimsins með tilliti til skipa og flugvéla og bíla almennt til að einhverjar breytingar nái fram að ganga. Allir vilja fara til útlanda á sem skemmstan hátt og neyslumynstrið kallar á vöruflutning á vörum. Lógóið hugsið hnattrænt en verið staðræn (frjálslega þýtt frá think global - act local) þarf að verða eðlislægt.Kafli 6 af 8 - Aðrar ógnir

Eru einhverjar aðrar samfélagslegar ógnir að þínu mati sem eru uggvænlegri en loftslagsbreytingar? Ef svo er, hvaða?

Ég sem grunnskólakennari hef einnig miklar áhyggjur af hvað snjalltækjavæðingin hefur á börnin okkar. Hef tekið eftir miklum breytingum á börnum sem eru háð þessum tækjum og hafa misst einbeitingu á annað, eru pirruð þegar þau eru ekki í tækinu til að nefna nokkuð en kannski aðallega lítil börn sem fá ekki sömu tengslamyndun í venjulegum hefðbundum samskiptum við foreldra sína þar sem foreldrarnir eru háðir sínum tækjum og eru endalaust í símum sínum á kostnað samskipta. Það hræðir mig líka.Kafli 7 af 8 - Framtíðin

Flestir eða allir reyna að gera sér einhverja grein fyrir hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Við viljum gjarnan að þú segir frá hugmyndum þínum um framtíðina, væntingum, óskum eða áhyggjum. Frásögnin má bæði vera um nærumhverfi þitt og framtíð jarðarinnar, eða annað hvort, og hún þarf ekki endilega að vera um loftslagsbreytingar. Hvernig sérð þú framtíðina fyrir þér?

Ég er ekkert svo viss um að framtíðin sé björt. Þegar ég var lítil stelpa þá var þessi umræða um loftslagsbreytingar ekki inni á borðinu, þær hafa komið með ógnarhraða. Ég minnist bíómynda um framtíðina þar sem fólk hafði ekki súrefni lengur vegna mengunar mannfólksins og þurfti að búa í himinkúpli og gat ekki ferðast úti nema í hylkjum og þess háttar. Vélmenni og tæki höfðu tekið við af manneskjunni í öllum störfum og maður hló og fannst þetta fjarstæðukennt. Þessi framtíð átti að gerast á árunum 2020-2070 sem er eiginlega bara núna og hvar erum við stödd? Eiginlega ekkert alltof langt frá þessum fjarstæðukenndu framtíðarmyndum, því miður.
Ég hef einnig áhyggjur af spillingu hér á Íslandi og hvernig litla landinu okkar mun reiða af bæði fjárhagslega séð en einnig siðferðislega. 10 árum eftir hrun er margt að færast í sama far. Íslendingar setja í fyrsta sæti að vera fremsti í lífsgæðakapphlaupinu á kostnað fjölskyldu sinnar og sjálfra sinna. Það þarf að vinna mikið, klifra metorðastigann, vera í ræktinni, fara til útlanda, eiga flott hús, börn sem eru Íslandsmeistarar og flottasta hundinn til að nefna nokkuð. Síðan þarf að sjálfsögðu að fara í saumó, hitta vinkonur/vini og fara svo í leikhús, tónleika, út að borða og allt það og svo kannski smá djamm um helgar og hvar er fjölskyldan stödd í þessu? (ég veit að þetta er pínu ýkt en samt sannleikur í þessu).Ég vona svo sannarlega að barnabörnin mín og þeirra kynslóð beri gæfu til að láta lífið snúast um hamingju, friðsæld og góðmennsku fyrir þau sjálf, heiminn og umhverfið.Kafli 8 af 8 - Viðbætur og athugasemdir

Hér hefur þú pláss fyrir viðbætur eða athugasemdir við spurningaskrána.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana