LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLoftslagsbreytingar
Ártal2018
Spurningaskrá125 Loftslagsbreytingar og framtíðin

Sveitarfélag 1950Kópavogshreppur
Núv. sveitarfélagKópavogsbær
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1949

Nánari upplýsingar

Númer2018-1-67
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.10.2018/29.10.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Almennt

Hvað tengir þú helst við loftslagsbreytingar af mannavöldum? Hér getur þú látið hugann reika.

Fernt aðallega: Orsakir. Auðvitað er koltvísýringur frá brennslu jarðefnaeldsneytis aðalatriðið, áhrif sem hófust með iðnbyltingunni. En líka landnotkun og landbúnaður, áhrif sem mögulega hefur gætt öldum saman. Auk þess mengun, annars vegar gróðurhúsaáhrif loftkenndra mengunarefna, hins vegar sótmengun sem dregur úr endurkasti sólarljóss frá snjó eða jöklum. Afleiðingar. Þá hugsar maður helst um skaðlegar afleiðingar, m.a. sjávarborðshækkun, veðuröfgar, súrnun sjávar (sem að hluta stafar af hlýnun, að hluta af þeim hluta koltvísýringinsins sem hafið bindur, hefur þar með ekki gróðurhúsaáhrif en er skaðlegur engu að síður) og bein áhrif hærri lofthita á gróður og dýralíf, landbúnaðarframleiðslu og mannvist. Og svo óvissari áhrif, sérstaklega á hafstrauma en líka t.d. eldvirkni (undir núverandi jöklum). Vítahringir, þ.e. afleiðingar sem jafnframt eru orsakir. Eins og losun metans úr freðmýrum þegar þær þiðna vegna hlýnunar. Losun koltvísýrings úr jarðvegi sem eyðist þegar hlýnun veldur gróðureyðingu. Minni endurspeglun sólarljóss þegar jöklar og hafísþekja minnka og snjór hylur bæði minni svæði og í skemmri tíma á ári. Pólitík. Þ.e. vandkvæðin á að ná samstöðu um ákvarðanir sem eru skynsamlegar, jafnvel knýjandi, þegar litið er á heildarhagsmuni til langs tíma, en eru meira og minna óæskilegar fyrir einstaka aðila, a.m.k. til skamms tíma.Kafli 2 af 8 - Eigin upplifun

Loftslagsbreytingar eru hnattrænar en hækkað hitastig á jörðinni getur einnig haft miklar staðbundnar afleiðingar. Hefur þú upplifað einhverjar afleiðingar af loftslagsbreytingunum? Hvaða afleiðingar, hvar og hvernig? Hafa loftslagsbreytingar haft áhrif á líf þitt? Á hvaða hátt?

Hitastig á jörðinni hefur þegar hækkað um eitthvað nálægt eina gráðu, á Íslandi trúlega eitthvað meira. Og áhrifin á veðuröfgar eru líka orðin töluverð. Örugglega hef ég í mörg skipti, bæði heima og erlendis, verið úti í allt öðru vísi veðri en verið hefði án loftslagsbreytinga. En maður veit aldrei nákvæmlega hvernig veðrið hefði verið ef engin áhrif mannsins kæmu til. Þess vegna er aldrei hægt að fullyrða að nákvæmlega þetta veður (hiti, vindur, úrkoma) á þessum tíma hafi verið afleiðing hlýnunar. Spurningin „hvar og hvernig“ er að því leyti villandi. „Áhrif á líf mitt“, með því er væntanlega átt við eitthvað almennt og viðvarandi, gagnstætt þeim einstöku og tímabundnu aðstæðum sem ég hef „upplifað“. Í þeim skilningi veit ég ekki hvort loftslagsbreytingar eru farnar að hafa veruleg áhrif á líf mitt, önnur en þau sem felast í vitneskjunni um þetta yfirgnæfandi mikilvæga viðfangsefni mannkynsins. Hún breytir óhjákvæmilega hugsun manns um alþjóðamál og um framtíðina.Kafli 3 af 8 - Hvað get ég gert?

Hefur þú gert eitthvað sjálf(ur) til að draga úr loftslagsbreytingum? Hvaða máli telur þú að daglegt líf þitt eða lífstíll skipti fyrir loftslagsbreytingar?

Ég er ekki viss um að ég hafi, eða við kona mín í sameiningu, gert neitt verulegt eingöngu í því skyni að draga úr loftslagsbreytingum. En vitundin um loftslagsvandann er meðvirkandi í lífstílsákvörðunum okkar. Til dæmis að skipta úr bensínbíl í tvinnbíl. Bíl sem við notum þar að auki sem minnst en reynum frekar að ganga og hjóla; það er aðallega heilsunnar vegna en samt með tilliti til umhverfis- og loftslagsmála um leið. Sama má segja um breytingar á mataræði; þar hugsum við mest um heilsuna, hitt þó jafnframt. Lífstíll hvers einstaks hefur auðvitað óveruleg áhrif. En að því leyti sem lifnaðarhættir fjöldans skipta máli, þá er skylda hvers eins að vera með. Ég hef reyndar ekki trú á að lífstílsbreytingar „úr grasrótinni“ eigi eftir að breyta mjög miklu, heldur séu það stjórnvöld og alþjóðasamfélagið sem geti haft afgerandi áhrif. En þar sem engin einföld lausn á eftir að duga til að ná viðhlítandi árangri er mikilvægt að neytendur virki líka sitt frumkvæði, svo langt sem það dregur. Vissulega er gott að vera meðvitaður um umhverfisáhrif hverrar einstakrar neysluvöru en það einfalda sem verulega getur munað um er annars vegar að draga úr ferðalögum, hins vegar að temja sér nýtni á sem flestum sviðum.Kafli 4 af 8 - Upplýsingagjöf

Hvar hefur þú helst fengið upplýsingar um loftslagsbreytingar (sjónvarp, netmiðlar t.d.)?

Loftslagsvandinn er eitt af því sem ég tek sérstaklega eftir í fréttum, bæði almennum fréttum og vísindafréttum. Vísindafréttirnar les ég eða heyri á vefjum nokkurra erlendra fjölmiðla (norrænna og evrópskra) og fylgi þeim stundum eftir með því að opna skýrslur eða tímaritsgreinar sem þar er vísað í. Ég hef líka notað vef loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna og lesið þar kafla úr skýrslum, sömuleiðs íslenskar skýrslur á vef stjórnarráðsins, leitað uppi svör á Vísindavefnum og stundum leitað á netinu að upplýsingum um tiltekna hluti (sem ég finn þá helst á ensku Wikipedíu). Þetta hef ég að hluta til gert í tengslum við starf mitt, en ég er sögukennari á háskólastigi og hef nokkrum sinnum kennt samþætt námskeið um sögu og landafræði þar sem umhverfismál eru meðal athugunarefna. Stundum líka í tengslum við skoðanaskipti innan fjölskyldunnar, t.d. þegar við sendum hvert öðru krækjur á athyglisverðar greinar um efnið.Kafli 5 af 8 - Úrræði

Telur þú að það sé hægt að takmarka hinar hnattrænu loftslagsbreytingar? Hvernig? Heldur þú að ný tækni, eins og t.d. rafmagnsbílar, skip og flugvélar, skipti máli fyrir loftslag í framtíðinni?

Ef „takmarka“ nær yfir að seinka loftslagsbreytingunum, þá er það að sjálfsögðu hægt og hefur verið gert nú þegar. Breytingarnar væru lengra gengnar ef ekkert hefði verið að gert. Þar má m.a. benda á aðgerðir í kjölfar Kyoto-bókunarinnar. Ef „takmarka“ táknar að hlýnun verði á endanum minni en ef ekkert væri að gert, þá er ég ekki eins viss. Ófullnægjandi aðgerðir geta örugglega dregið hlýnunina á langinn, en hugsanlega myndi samt halda áfram að hlýna þangað til einhverju nýju jafnvægi væri náð, því sama og næðist á skemmri tíma án aðgerða. Ég vona þó fastlega að takast megi að stöðva loftslagsbreytingar áður en þær ná því skelfilega stigi sem augljóslega stefnir í ef ekkert er að gert. Hvort það tekst áður en komið er umfram hina umræddu þröskulda við 1,5° eða 2°, það er annað mál. Tæknilega ætti það að vera kleift, en hvort það er „hægt“ er frekar pólitísk spurning og svarið þá væntanlega neikvætt. Hins vegar ekki útilokað, þegar loftslagsbreytingar eru farnar að valda stórfelldu tjóni, að takast megi að snúa þeim að einhverju leyti til baka. Ný tækni er lykillinn að mögulegum árangri í loftslagsmálum. Þá þýðir ekki að treysta á einhverjar vissar tæknilausnir, heldur þurfa fjölmargar nýjungar að spila saman, bæði þær sem þegar eru í notkun (eins og vind- og sólarorka, rafbílar o.s.frv.), þær sem eru á tilraunastigi (eins og binding koltvísýrings í basalti, svo tekið sé nærtækt dæmi) og örugglega margt sem enn er aðeins á hugmyndastigi (án þess ég viti nákvæmlega hvað af því, t.d. hvort samrunaorka verður að veruleika). Forðast ber að velja sér eitt eða tvennt (eins og að hætta kjötáti eða virkja sjávarföll) og láta áhugann á því skyggja á hina flóknu heild. Ný tækni er samt ólíkleg til að skila þeim árangri að hún ein dugi til að bægja loftslagsvandanum frá eða lifa með afleiðingum hlýnunarinnar. Fólksfjöldi jarðarinnar hlýtur t.d. líka að skipta máli, sömuleiðis neyslumynstrið, bæði hve mikil neyslan er og að hvaða gæðum hún beinist.Kafli 6 af 8 - Aðrar ógnir

Eru einhverjar aðrar samfélagslegar ógnir að þínu mati sem eru uggvænlegri en loftslagsbreytingar? Ef svo er, hvaða?

Ef „uggvænlegt“ táknar í senn að eitthvað sé mjög skaðlegt fyrir mjög marga og mjög mikil hætta á að það gerist, þá eru loftslagsbreytingarnar væntanlega það uggvænlegasta sem mannkynið stendur frammi fyrir í bili, a.m.k. ef hugsað er kynslóðir fram í tímann. Stórfellt kjarnorkustríð gæti valdið víðtækari eyðileggingu á miklu skemmri tíma, en er ekki mjög ógnvænlegt í þeim skilningi að það sé sérlega líklegt, a.m.k. að svo stöddu. Ef „samfélagslegar“ ógnir tákna ógn sem vofir yfir staðbundnum samfélögum, frekar en mannkyni í heild, þá er augljóst að á ófriðarsvæðum eru stríðsátök ógnvænlegri en loftslagsbreytingar, a.m.k. til skamms tíma litið. Fyrir Ísland má á sama hátt segja að til fárra áratuga litið séu eldgos eins ógnvænleg og loftslagsbreytingar, því að Ísland er ekki í bráðri hættu á allra næstu stigum hlýnunar (m.a. vegna þess að minnkandi aðdráttarkraftur Grænlandsjökuls dregur úr sjávarborðshækkun hér um slóðir). En ef samfélagið er mannkynið allt, og ef hugsað er til næstu kynslóða, þá er fátt svo uggvænlegt að jafna megi við loftslagsröskunina.Kafli 7 af 8 - Framtíðin

Flestir eða allir reyna að gera sér einhverja grein fyrir hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Við viljum gjarnan að þú segir frá hugmyndum þínum um framtíðina, væntingum, óskum eða áhyggjum. Frásögnin má bæði vera um nærumhverfi þitt og framtíð jarðarinnar, eða annað hvort, og hún þarf ekki endilega að vera um loftslagsbreytingar. Hvernig sérð þú framtíðina fyrir þér?

Ég svara eingöngu út frá loftslagsbreytingum. Sú viðleitni til að hægja á loftslagsbreytingum sem þegar er hafin, einkum af hálfu opinberra og alþjóðlegra aðila en neytenda þó líka, mun vafalaust halda áfram og það af vaxandi krafti. Ekkert eitt eða tvennt á eftir að hafa afgerandi áhrif, en þegar horft er á heildina og reynt að draga úr loftslagsáhrifum á öllum sviðum, þá skilar það verulegum árangri. Þó tæplega svo skjótum að takast megi að takmarka hlýnun við 2°, enn síður 1,5°. Þegar komið er umfram þau mörk fer að muna verulega um ýmiss konar vítahringi (sbr. fyrsta svarið) sem magna vandann. Jafnframt koma fram skaðlegar afleiðingar loftslagsbreytinga sem á heildina litið skerða lífskjör og tækifæri mannkynsins stórlega frá því sem nú er. Þá vona ég, „þegar neyðin er stærst“, að samstaða náist um svo róttækar aðgerðir að takast megi að snúa loftslagsbreytingum að einhverju marki við. Sem myndi þá tákna að mannkynið hafi, með nýrri tækni og heildarskipulagi, tekið sér vald til að stýra jafnvægi náttúrunnar á víðtækum sviðum. Það vald er vandmeðfarið og mistök geta orðið afdrifarík. En með því ætti að vera hægt að afstýra hættunni á nýju jökulskeiði ísaldar, hættu sem annars væri býsna uggvænleg þegar horft er til næstu árþúsunda.Kafli 8 af 8 - Viðbætur og athugasemdir

Hér hefur þú pláss fyrir viðbætur eða athugasemdir við spurningaskrána.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana