LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1960-1963
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurSkógaskóli
ByggðaheitiSkógar
Sveitarfélag 1950A-Eyjafjallahreppur
Núv. sveitarfélagRangárþing eystra
SýslaRangárvallasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1947

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-63
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/30.11.2017
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

Ég var í Héraðskólanum í Skógum 3 skólaár, 1960 - 1963. Ég er uppalinn í Vestur Landeyjum í Rangárvallasýslu og þetta var héraðskóli þeirrar sýslu og styst að fara í hann.


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Ég var aðeins 3 vetur í barnaskóla, frá byrjun október til loka apríl, annan hvern dag.
Þegar ég var á 10. ári var í fyrsta sinn heimaakstursskóli fyrir allan hreppinn Vestur-Landeyjar, en fram að því var farskóli haldinn í mismunandi hverfum. Skólinn var í Hemlu. Kristín Skúladóttir bjó þar með seinni manni sínum, Ágústi Andréssyni sem lengi var hreppstjóri og var þá orðinn nokkuð aldraður. Kristín var menntaður kennari og kenndi á sínum yngri árum, en hafði ekki kennt um árabil þegar þarna kom sögu. Ég held hún hafi kennt í Hemlu í 6 ár og náði einnig að kenna Sigríði, systur minni, sem fædd er 1953. Kristín hafði einnig
Kennslan var á efri hæð í íbúðarhúsi hennar. Skipt í tvær deildir, eldri deild og yngri deild og voru deildirnar skólanum til skiptis, 3 daga í viku hvor deild. Mér fannst koma vel út að vera bara annan hvern dag í skólanum, nægur tími til að lesa heima og auk þess sinna bústörfum sem öll sveitarbörn gerðu á þeim tíma.
Það var ekki algengt að börn í V-Landeyjum héldu áfram í skóla að fullnaðarprófi loknu, sem flestir tóku 13 ára en ég tók 12 ára. Fáir af mínum jafnöldrum héldu áfram eftir það.
Mamma og fóstri minn keyrðu mig á Land-Rovernum í Skóga. Þá voru vegir holóttir og hlykkjóttir og þótti talsvert ferðalag að aka að Skógum sem nú tekur bara 40 mín. en tók þá um 1 1/2 klst. Mér fannst þetta spennandi. Ég var settur á 6 manna herbergi (3 kojur) sem hét Kirkjubær og var innréttað þar sem áttu að vera áhorfendasvalir fyrir íþróttasalinn. Í herberginu voru 2 stólar og vinnuborð fyrir 2. Hinir áttu að læra heima í skólastofu.


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Við höfðum með rúmföt og öll föt til úti- og inniveru, og náttföt. Síðan sendi ég föt heim í þvott á nokkurra vikna fresti. Ég eignaðist minn fyrsta gítar um þetta leyti en ekki segulbandstæki fyrr en nokkrum árum síðar.


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Ég man lítið eftir fyrstu ferðinni, hef sjálfsagt verið bæði spenntur og kvíðinn. Það var færra fólk á bænum yfir veturinn en á sumrin og spennandi að komast um haustið í fjölmenni, fjölmennari skóla með mötuneyti og félagslífi.


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

Skólaárið í Skógum hóft í byrjun október og lauk í byrjun maí, ef ég man rétt. Að sjálfsögðu jólafrí og páskafrí og svo var eitt helgarfrí að hausti og eitt milli áramóta og páska, farið í Hvolsvöll í rútu og ég sóttur þangað. Þetta var langt úthald fjarri foreldrum fyrir ungan dreng eins og mig sem var yngstur í bekknum fyrustu 2 árin og næstyngstur það þriðja þegar ég fór í landsprófsdeildina.


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

Það voru tekin vorpróf og pakkað saman, þrifið eins og venju lega og svo var rúta heim. Það var útivistartími á hverjum degi í Skógum en þegar dag lengdi vorum við líka úti á kvöldin og um helgar og það var oft gaman. Oft gengið út að Skógafossi eða austur í Hvernugil, eða spilaður fótbolti.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Þetta voru langar lotur að heiman fyrir lítinn dreng, rúmur mánuður í senn, en farið heim um jól og páska og tvö helgarfrí að auki. Við mamma skrifuðumst á en nánast ekkert notaður sími. Ég fékk aldrei heimsóknir að heiman, en stöku sinnum farið með mig að hausti eða sóttur að vori.


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Bæði fannst mér gott að komast frá fásinninu á sveitarbænum en oft slæmt að geta ekki leitað til mömmu eða fóstra míns, ekki síst þegar verið far að hrekkja mig eða stríða, en mikið var um slíkt.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

Skólastofur voru góðar, að vísu frekar þröngar, góður íþróttasalur sem var nýnæmi fyrir mig, ágætur borðsalur. Síðasta árið var tekin í notkun lítil innisundlaug. Gallinn við hana var að vatnið var aðeins 19° heitt, enda allt kynt með olíu.


Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

Skólastofurnar voru líkar því sem gerist í dag. Borð í röðum, oft tvö saman, kennarinn fremst við krítartöfluna. Harðir stólar og borð frekar lítil, þó ekki púlt.


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Heimavistin var afar þröng. Bara lítil herbergi og þröngur gangur. Ekkert almannarými nema eitt klósett fyrir allan ganginn. Bað var bara í tengslum við íþróttir. Strákar voru á sér gangi og stelpurnar sér. Allar stelpurnar voru á einum gangi á efstu hæð aðalbyggingarinnar. Þangað máttum við strákarnir aldrei stíga fæti og lá ströng refsins við! Stelpurnar máttu heldur ekki stíga fæti inn á strákagang. Við strákarnir í 1. og 2. bekk vorum á litlum gangi í aðalbyggingu með 6 herbergjum. Síðasta árið vorum við í öðru heldur nýrra húsi sem nefnt var Byggingin. Yfirleitt voru 4 í hverju herbergi en fyrsta árið var ég á eina 6 manna herbergi. Yfirleitt sömu herbergisfélagar allan veturinn.
Einn kennari eða kennarafjölskylda hafði umsjón með hverjum gangi. Hjá mér var það Snorri Jónsson íþróttakennari og Olga kona hans fyrstu tvö árin, en Jón R. Hjálmarsson skólastjóri og Guðrún hans ágæta kona síðasta árið. Við gátum bankað hjá þeim ef eitthvað kom uppá og þau litu stöku sinnum inn til okkar og vöktu okkur á morlgnana.


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

Fyrsta árið voru bara borð og stóll fyrir 2 af 6 herbergisfélögum og ætlast til að heimanám færi aðallega fram í kennslustofu í sérstökum lestímum þar sem kennarar voru á vakt. Svo var efri og neðri koja. Þannig rúm fyrir 4 í flestum herbergjum. Öðrum húsgögnum var vart til að dreifa.


Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Hver átti sitt sæti og hvert borð, bæði í matsal og skólastofu. Mig minnir að kennarar hafi skipað til sætis í skólastofum, jafnvel borðsal líka.


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Það var setustofa í Byggingunni þar sem við stákarnir voru síðasta árið, með fátæklegum húsbúnaði. Annars bara skólagangarnir. Þar var stundum líf og oft stóð þar skólastjórinn eða einn kennari og spjallaði við okkur. Ég á góðar minningar um slíkt spjall.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?

Morgunmatur var u.þ.b. kl. 9, svo hádegismatur (1/2 tími), síðdegiskaffi (15/30), þá útitími til 16/30 (?), þá lestími fram að kvöldmat kl.19 (?) þá stuttur útitími og svo stuttur lestími, allt í matsal. Svo minnir mig að síðar um kvöldið (ca. kkl. 10, að lestíma loknum) hafi verið kvöldhressing, mjólkurglas og kexkaka, inni á heimavistunum.
Svona var þetta alla 6 kennsludaga vikunnar, en sunnudagar með frjálsara sniði.


Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

Ég man lítið eftir hvað var á boðstólum (gleymt er þá gleypt er!). Ég var sáttur við fæðið. Mórallinn í matsalnum var svona bæði og. Kennarar og venjulega skólastjóri sátu við annað fremsta borðið. Einn þeirra stóð upp og sagði ,,Gjörið svo vel" og þá máttum við sækja okkur á diska.


Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

ÉG man ekki eftir að nemendur þyrftu að vinna í borðsal, en það var hins vegar í Menntaskólanum að Laugarvatni þar sem ég var síðar. Við s´ttum okkur þó á diskana og skiluðum aftur.


Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

Mig minnir að ég hafi skolað úr einhverjum flíkum í handlaug en fyrst og fremst sent þvott heim til mömmu á nokkurra vikna fresti.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?

Það var kennt 6 daga vikunnar. Heimavistarskólarnir héldu 6 kennsludögum lengi en reyndu í staðinn að hafa skólahárið heldur styttra.
Kennsla kl. 8 - 15 með morgun- og hádegisverðarhléum, Svo voru tveir útitímar og tveir lestímar síðdegis hvern virkan dag.


Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

Kennarinn sat við kennaraborð, spjallaði eða las yfir nemendum. Einnig voru nemendur ,,teknir upp", þ.e látnir þá koma upp að töflu og svara spuringum eða reikna dæmi á töfluna. Svo lásum við eitthvað í sætum og leystum þar skrifleg verkefni.
Willjam Möller kenndi reikning og líka eðlisfræði. Willjam var með stóra ístru og lést því miður fyrir aldur fram, nokkrum árum eftir að ég lauk námi að Skógum. Mér er minnisstætt að hann gerði eðlisfræðitilraunir á kennaraborðinu og notaði til þess sérstök tæki í þar til gerðum trékössum. Mér fannst ég læra mikið af þessari verklegu kennslu.


Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Leikfimi tvisvar eða þrisvar í viku í sérbúnum litlum íþróttasal. Fyrst hlaupnir nokkrir hringir, síðan nokkar æfingar (Möllersæfingar?), þá stökk á dýnum eða á hesti og stundum boltaleikur í lokin.
Síðasta árið var synt í sundlaug með 19°heitu vatni sem mér fannst afar kalt.
Rétt ofan við skólabygginguna var frekar hrörlegt timburhús með díselrafstöð og sérbútbúinni smíðastofu. Þar smíðuðum við m.a. húsgögn. Ég smíðaði mér mér sófaborð með renndum löppum (sem ég renndi sjálfur) og einnig mikið útvarpsborð úr gabon (krossviður límdur beggja vegna á þunna trégrind) og allt spónlagt á röndum og að lokum lakkað. Tvær skúffur og stórt hólf neðst. Ég held það hafi tekið megnið úr vetrinum að smíða svo mikla mublu.
Verklegu tímarnir voru allir kynjabundnir. Stúlkurnar saumuðu meðan við strákarnir smíðuðum.
í síðasta bekk kenndi skólastjórafrúin okkur að vélrita blindandi á vélar sem skólinn átti.


Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?

Öll þessi verklega kennsla (og öll kenslan yfirleitt) hefur nýst mér vel í lífinu.
T.d. nýt ég vel vélritunarkennslunnar þegar ég pikka þetta inn á tölvuna - með réttri fingrasetningu!
Ég var frekar stirður og máttlaus á þessum árum og gekk ekki vel í leikfiminni, en var með í öllu og hef eflaust haft gott af.


Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Leikfimi tvisvar eða þrisvar í viku í sérbúnum litlum íþróttasal. Fyrst hlaupnir nokkrir hringir, síðan nokkar æfingar (Möllersæfingar?), þá stökk á dýnum eða á hesti og stundum boltaleikur í lokin.
Síðasta árið var synt í sundlaug með 19°heitu vatni sem mér fannst afar kalt.
Strákar og stelpur voru ekki saman í verklegum greinum.


Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

Í stuttum frímínútum vorum við á ganginum eða útí á stétt. Svo voru tveir útitímar og tveir lestímar síðdegis hvern virkan dag.
Í lengri útitímum var annað hvort sparkað bolta á íþróttavellinum við skólann eða farið í göngutúr, gjarna út að Skógarfossi eða austur í Kvernigil (hvort tveggja u.þ.b. 1 km). Þar blómstraði ástin gjarna og algengt að pörin færu í ,,sleik þegar ekki sást lengur heim að skólanum. í SKÓLANUM var stranglega bannað að kyssast og gilti það jafnt úti sem einni. Einnig var bannað að dansa vangadans á dansleikjum. þvílíkar athafnir kallaði skólastjórinn ,,flangs", og sögnin var að flangsa. Hef ekki heyrt þetta hugtak notað annars staðar í annan tíma.
Ég man ekki vel hvernig við vörðum sunnudögunum. Man þó að stöku sinnum fórum við sjálf í göngur, t.d. upp í fjall eða niður á veg, eða liklt og í frímínútum að Skógarfossi eða í Kvernugil. Man eitt sinn eftir að einhverjir ofurhugar gengu á Drangshlíðarhnúk.
Stöku sinnum var gengið í Drangshlíð, nokkra kílómetra, en þar var lítil búð. Þar keyptu menn m.a. ,,Asis" sem var e.k. ávaxtasafi á plastbrúsum líkum vasapela í laginu (plast var þá sjaldgæft) og með litlu drykkjarmáli yfir tappanum. Þetta var kallað Asis, eftir vörumerkinu, en ég held að orðið djús hafi þá ekki verið farið að festaast í málinu. Þeir sem lögðu á sig að sækja Asis og annað góðgæti í Drangshlíð nýttu tækifærin þegar heim kom og seldu okkur hinum t.d. eitt mál af asis með góðri álagningu, fengu vel fyrir fyrirhöfnina og söfnuðu upp í næstu verslunarferð.


Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

Sett var fyrir heimanám í bóklegum greinum. Sérstakir lestímar voru síðdegis og á kvöldin. Nemendur gátu lesið áherbergjum meðan pláss þar leyfði eða í kennslustofum. Einhver kennari var þá til taks og leit við til að ussa á okkur og jafnvel hjálpa við námið. Ég held að heimanámið hafi alveg verið einstaklingsbundið, man ekki eftir neinum hópverkefnum.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

Skólasetning og skólaslit með venjulegum hætti. Gróðursetning í hlíðinni ofan við skólann dagspart að vori. Þessi tré eru nú orðin að álitlegum skógi


Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?

Tveimur árum eftir að ég útskrifaðist var ég í skólahljómsveit Menntaskólans á Laugarvatni, Hröfnum, og við komum til að spila á árshátíð á Skógum. Það var stuð og gaman þar til Albert kennari kemur til mín, á milli laga, með veskið mitt í poka og var það rennblautt. Ég varð mjög hissa, vissi ekki að ég hafði tapað því, og spurði hvar það hefði verið. "Ég vil helst ekki segja það", svaraði Albert - og ég skildi - og skammaðist mín.
Ég held að þetta hafi slegið bassaleikara Hrafna nokkuð út af laginu það sem eftir var kvölds.
Áratugum eftir að við vorum á Skógum sögðu stúlkur frá ævintýrum sínum á Skógaskóla, þegar þær ætluðu að fylgja góðum ráðum sem þær höfðu fengið um hárþvott, enda mikið atriði að líta vel út, ekki síst á þessum aldri. Þær fóru eitt kvöldið í fjósið á Skógum (þaðan sem við fengum mjólkina), sættu lagi og létu kýrnar pissa í fat eða fötu og höfðu með sér heim. Síðan þvoðu þær hárið upp úr hlandi kúnna, skoluðu og þerruðu. En árangurinn var annar en ætlast var til, hárið fékk ekki þann glans sem fyrir var sagt og lyktin var vægast sagt ekki góð. Mér skildist að þær hafi ekki treyst sér í skólann daginn eftir. Sjálfur skil ég ekki hví þetta fór svona illa, því sagt er að þjóðin hafi þvegið sér upp úr keytu um aldir. Keytan er reyndar hland sem búið er að standa og gerjast þannig að myndast ammóníak sem er ágætt hreinsiefni, að vísu lyktarsterkt. Hugsanlega hefðu stúlkurnar þurft að geyma hlandið í nokkrar vikur áður en þær þvoðu sér úr því.


Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

Samkomusalurinn voru tvær kennslustofur sem hægt var að opna á milli. Þar voru oft dansleikir um helgar, svonenfdar Dansæfingar. Stundum plötuspilari en einnig skólahljómsveit. Skólahljómsveitin var mjög öflug um tíma, er þar voru tvíburarnir Guðmundur og Guðni, synir Sigurðar barnaskólaskólastjóra á Skógum, Halli bróðir Ladda, Rúnar Georgsson á Sax o.fl. Píanó var í einni stofunni sem nemendur máttu æfa sig á (falskt að vísu).
Ég man ekki eftir danskennslu á þessum ,,dansæfingum". Á þessum árum voru rokklög að vinna á en sving og djössuð danslög lilfðu áfram góðu lífi. Lang algengasti dansinn var jif eða djæf. Yfirleitt héldu pörin utan um hvort annað þó svo að frjálsari dansar væru að komast í tísku. Dansað var djæf eftir rokklögum, sjaldan tjúttað, að mig minnir.
Það var stranglega bannað að "Flangsa" á dansæfingum, þ.e. að pör kysstust eða dönsuðu vangadans. Því voru venjulega björt ljós í danssalnum, en stundum deyfð ef kennarinn á vakt brá sér frá.
Það var náttúrulega árshátíð á vormánuðum með leikþáttum o.þ.h.
Tveimur árum eftir að ég útskrifaðist var ég í skólahljómsveit Menntaskólans á Laugarvatni, Hröfnum og við komum að spila á árshátíð á Skógum.
Stöku sinnum kom sr.Sigurður í Holti og messaði í skólanum.
Man ekki eftir fleiri föstum viðburðum.


Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Þórður Tómason, safnvörður, stofnaði kór nemenda og ég söng í honum ættjarðarlög einn eða tvo vetur og hafði af bæði gagn og gaman.
Snorri íþróttakennari gekkst fyrir íþróttamótum.


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

Eitthvað var um boltaleiki í salnum en ég man ekki eftir neinum mótum þar. Fótbolti var spilaður nær daglega á vellinum við skólann og þar voru haldin bekkjarmót. Ég man ekki eftir keppni við aðra skóla.


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Áfengi og tóbak var bannað. Ég man ekki eftir áfengisneyslu, en einhverjir nemendur stálust til að reykja þegar þeir fóru frá skólanum, t.d. út undir Skógafossi eða við Kvernu. Stefkari efni voru þá óþekkt.


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

Mig minnir að ljósin hafai verið slökkt á áiveðnum tíma á kvöldin, ca. kl. 11. og nemendur vaktir um kl. 7:30. Kynin máttu aldrei nokkurn tíma fara inn á vist hins kynsins. Vistirnar voru læstar yfir nóttina.
Við nemendur héldum vistarverum okkar hreinum, var gengið eftir því. Einu sinni á ári kom maður að nafni Axel, einhvers konar eftirlitsmaður og hann gekk í öll herbergi meðan við vorum í tímum og gaf hverju herbergi einkunn fyrir snyrtimennsku og hreinlæti. Við gengumst upp í að taka vel til þessa daga og gólfin voru stífbónuð. Axel gaf oft hára einkunnir og fóru oft hækkandi þegar á vikuna leið og hann hikaði ekki við að sprengja 10-skalann og gefa 12 í einkunn, jafnvel 13! Okkur fannst þetta gaman.
Það hengu brunakaðlar í gluggum á herbergjum á 2. og 3. hæð. Ég man eftir að við nokkrir strákar hafi notað brunakaðla til að síga í klett inn á fjalli og sækja hrafnsunga í hreiður. Við ætluðum að ala okkur upp hrafna og höfðum ungana í kassa í setustofunni í ,,Byggingunni" og gáfum þeim að éta í nokkra daga. En þeir voru frekir og hávaðasamir og vond lykt af þeim svo tveimur dögum seinna fórum við tveir drengir með ungana tvo til að skila þeim í hreiðrið aftur. Ég var léttari og ónýtari svo það kom í minn hlut að síga með ungana en hinn hélt í bandið og lét mig síga og hífði upp aftur. Erfitt en gekk - og við lausir við þessi leiðinda gæludýr.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Minningar mínar um samskipti við kennara og annað starfsfólk eru góðar og notarlegar. Kennarar og skólastjórinn gátu verið strangir og jafnvel ónotarlegir við nemendur. Ég var almennt löghlýðinn (enda átti ég þá lítinn sjens í stúlkurnar og því laus við allt flangs) og sjaldan skammaður. Ég man þó að (...) enskukennari átti það til að vera mjög stríðinn og hæðst að okkur, mér finnst eins og ég hefi eitthvað tekið það nærri mér. Mér fannst Albert Jóhannsson einstaklega ljúfur og þægilegur, einnig skólastjórafrúin sem kenndi vélritun. Jón R. Hjálmarsson (Stjóri eins og við kölluðum hann) spjallaði oft og einatt við okkur öll, gjarna á ganginum nálægt skólabjöllunni og mér fannst hann stundum skemmtilegur. Ég man einmitt eftir slíkri spjallstund þegar Kúbudeilan stóð sem hæst og menn héldu að þriðja heimstyrjöldin væri að brjótast út. ÉG held það hafi róað taugar okkar krakkanna að ræða um þessi mál í hópi frammi á gangi - við stjóra.


Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

Smskipti mín við aðra nemmendur voru allur skalinn: alveg frá andstyggðar stríðni og hrekkjum upp í ljúfa og notarlega samveru. Mér var almennt frekar í nöp við ,,þorparana" frá Þykkvabæ, Hellu og Hvolsvelli, en best féll mér við sveitarfólkið úr Skaftafellssýslu, enda sveitarmaður sjálfur og ættaður úr Skaftártungu.
Þetta var mjög harður heimur fyrir 12 ára dreng sem var óvanur slagsmálum og kýtingi, en fór batnandi með árunum eftir því sem ég eltist og þroskaðist og minningar mínar um síðasta veturinn, landsprófsárið, eru mjög góðar.
Næsta vetur eftir landsprófið stundaði ég ýmis störf, fór m.a. á vertíð í Þorlákshöfn. En svo settist ég í Menntaskólann á Laugarvatni og var þar á heimavist í 4 ár, allt þar til ég lauk stúdentsprófi vorið 1968. Minningar mínar um heimavistarlífið þar eru mjög góðar, í heildina mun betri en um heimavistarlífið á Skógaskóla. Þar held ég að aldurinn skipti miklu máli. Á Skógum var t.d. glatað að vera öðruvísi en hinir en á Laugarvatni var sérvitringum hampað - og ég naut að vissu leyti góðs af því. Þar gerðist það einn daginn (sem var ekki tíska á þeim árum) að þrír nemendur mættu krúnurakaðir í matsalinn einn daginn. Það var mjög töff! Þeir sem höfðu forgöngu um að stofna O-listann um 1970 voru uppaldir á heimavistinni á Laugarvatni. Þetta var á þeim árum sem menntafrömuðurinn Jóhann S. Hannesson var skólameistari við ML.


Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Ég myndaði ágæt kunningjatengsl við nokkuð marga á Skógum. Nokkur þeirra urðu síðar að vináttuböndum, fólk sem ég var samvista eða vann með eftir að dvölinni á Skógaskóla sleppti.


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

Jú, það var mikið pælt í hinu kyninu og varð jafnvel enn meira spennandi vegna þeirra ströngu reglna sem giltu um samskipti kynjanna. Almennt var spenna í samskiptum kynjanna. Sumar stelpurnar voru mjög vinsælar og eftirsóttar, aðrar síður.
Jú, það urðu til mörg kærustupör og einhver sem enduðu með hjónabandi sem jafnvel stendur enn. Ástin fékk sýnilega útrás t.d. á grasflötum við Skógafoss eða Kvernu þar sem kannski lágu 4 pör hlið við hlið saman í grasinu og kossarnir gátu staðið í 10 mínútur. Þetta þótti töff, var að öðrum ásjáandi - nema náttúrulega kennurunum - og var einatt staðinn vörður til að geta látið vita ef einhver kennari væri að nálgast.
Ég man eftir að ég féllst eitt sinn á að gera pari nokkru greiða og standa drjúga stund vörð við fjárhúskofa meðan ást þeirra fékk einhverja útrás þar inni.
Á bak við útihurðina við aðaldyr skólans myndaðist ferhyndur krókur þegar hurðin var opin. Þar gátu 4-6 pör staðið í faðmlagi og sleik, en þeir sem ekki áttu sjens þá stundina stóðu í og við dyrnar á spjalli - og á verði ef kennari skyldi koma.


Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?

Það var klárlega goggunarröð. Ég var neðst í henni í byrjun en þokaðist ofar er á leið.


Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Samskipti mín við aðra nemmendur voru allur skalinn: alveg frá andstyggðar stríðni og hrekkjum upp í ljúfa og notarlega samveru. Mér var almennt frekar í nöp við ,,þorpara" úr Þykkvabæ, Hellu og Hvolsvelli, en best féll mér við sveitarfólkið úr Skaftafellssýslu, enda sveitarmaður sjálfur og ættaður úr Skaftártungu.
Þetta var harður heimur fyrir 12 ára dreng sem var þá frekar smár vexti, máttlítill og óvanur slagsmálum og kýtingi, en fór batnandi með árunum eftir því sem ég eltist, stækkaði og þroskaðist, og minningar mínar um síðasta veturinn, landsprófsárið, eru mjög góðar.
Ég á mér minningar um að hafa verið uppnefndur, niðurlægður og hrint.
Ég man eitt sinn að mér tókst að snúa atburðarás mér í vil. Einn stóri drengurinn var að atast í mér úti í Byggingu. Þar var stór og mikill ruslakassi og mér tókst að stjaka við honum þannig að hann datt ofan í ruslakassann. Þá fannst mér ég hafa fengið uppreist æru (!)
Ég man að strákar töluðu niður til sumra stúlkna og uppnefndu jafnvel, en varð þó ekki var við kynferðislegt ofbeldi.
Ég held að þessi mál hafi yfirleitt farið fram hjá kennurunum.


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Minn árgangur og næstu tveir á eftir hafa komið saman á nokkra ára fresti, oftar með árunum, og átt mjög gefandi stundir. Ýmisst hist í bústað hjá einhverjum, á veitingastað í Reykjavík eða farið austur að Skógum, Hvolsvelli, Fljótshlíð, Eyjafjöll eða Vík, heilsað upp á gamla skólann okkar (sem breyttist í hótel og byggðasafn) og komið við á veitingastöðum, borðað og spjallað og sungið þar og í rútunni. Mjög gefandi. Takk þið foringjar okkar sem hafið haldið þessu tengslum lifandi. Mér er minnisstækk að fyrir 2-3 árum fórum við, þessir 3 árgangar, að Skógum og hittum þar skólastjórarnn okkar, Jón R. Hjálmarsson, þá um nírætt, og Þórð Tómasson, þá vel yfir nírætt. Við skoðuðum safnið með Þórði. Hann settist þar við orgelið og við sungum einhver af lögunum frá því í den. Fórum svo og drukkum kaffi á hótelinu, í gamla matsalnum okkar. Þar sat stjóri við kennaraborðið, stóð upp og sagði (eins og forðum): Gjörðið þið svo vel!


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.