LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1971-1972
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn á Núpi
ByggðaheitiDýrafjörður
Sveitarfélag 1950Mýrahreppur V-Ís.
Núv. sveitarfélagÍsafjarðarbær
SýslaV-Ísafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-19
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/13.11.2017
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

Núpi í Dýrafirði
Skólinn varð fyrir valinu þar sem eldri systir hafði verið í skólanum.


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Ég man lítið eftir undirbúningi og eiginlega ekkert eftir brottför. En ég var mjög vön því að fara að heiman. Hafði verið mikið í sveit á sumrin.


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Ég tók fyrst og fremst með mér föt minnir mig. Man ekki eftir því hvort ég tók rúmfatnað eða handklæði.


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Ég upplifði mest eftirvæntingu þar sem systur minni hafði líkað mjög vel.


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

Ég var í skólanum allan veturinn, fór bara heim um jól og páska.


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

Ég var bara í eitt ár. Ég upplifði eftirsjá eftir samfélaginu. Ég eignaðist góða vini og hef haldið samband við suma þeirra síðan.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Ég talaði við móður mína í síma nokkrum sinnum, en mest samskipti milli mín og fjölskyldu og vina var í gegnum bréfaskriftir. Ekki var hægt að koma við heimsóknum þar sem ég bjó í Reykjavík. Ég fékk þó að fara með skólasystur sem bjó á Vestfjörðum einu sini í helgarleyfi og vera með fjölskyldu hennar eina helgi. Ég fékk líka pakka að heiman.


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Ég var vön að vera að heiman og upplifði ekki söknuð eða heimþrá. Ég naut þess að vera á Núpi og vissi að þetta var tímabundið.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

Mér fannst húsakynni vera ágæt. Ég veit það var plássleysi en upplifði það ekki sjálf.


Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

Ég var í frekar lítilli stofu í kjallara í flestum fögum í gömlu byggingunni þar sem minn bekkur var frekar fámennur. Stundum var ég einnig í annarri kjallarastofu í nýju byggingunni fyrir neðan mötuneytið.


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Flestir voru tveir eða þrír saman. Ég var í herbergi með tveimur stelpum. Þær höfðu verið í herbergi saman árið áður og buðu mér að vera með þeim. Við vorum saman allan veturinn og gekk sambúðin mjög vel.


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

Herbergið var frekar stórt. Það var koja öðrum megin og rúm hinum megin í herberginu. Síðan var einn skápur sem við notuðum saman. Mig minnir að það hafi verið vaskur í herberginu. Það var frekar langur gangur að klósettinu, en nær okkur var þvottaherbergi.


Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Ég man ekki eftir sætaskiptingu í kennslustofu en ég sat alltaf á sama stað með sama hópnum í matsal og taldi mig mjög heppna þar vorum við herbergissystur og þrír strákar sem voru mjög indælir.


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Það var notað til að spila borðtennis, einnig voru æfð leikrit ofl. Einnig voru bíósýningar og böll. Ég man þó ekki mikið eftir böllunum.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?

man ekki


Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

Ég er ekki matvönd og get borðað allt, en mér fannst maturinn frekar einhæfur. Það var mikið um kássur og hrefnukjöt í mörgum réttum sem mér fannst ekki gott og hef ekki getað smakkað síðan. Stundum var boðið uppá kakó sem okkur þótti gott. Annars var ágætis grautur á morgnanna og yfirleitt eitthvað ágætt með kaffinu.
Ég saknaði mikið matsins að heiman og við sátum oft vinkonur og töluðum um matinn sem við söknuðum. Til dæmis að fá egg ofl.


Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

Ég man ekki eftir því. Ef til vill að aðstoða í borðsal en ekki við ræstingar - fyrir utan eigið herbergi og sameiginleg klósett. Það var allavega ekki íþyngjandi.


Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

Það var þvegið af okkur. En síðan var þvottaherbergi á minni vist þar sem við gátum handþvegið peysur og annað sem við vildum ekki að færi í þvottavél.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?

mig minnir að það hafi verið kennt 6 daga - styttra þó á laugardögum.


Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

Ég kom úr besta bekk í skóla í Reykjavik þar sem hafði verið mikill metnaður, svo námið var mér ekki mjög erfitt. Ég var nokkuð sátt við kennsluna, nema í særðfræði. Ég var í litlum bekk svo hver nemandi fékk athygli. Við lærðum allar helstu greinar sem kenndar voru á gagnfræðaskólastigi. Kennsluaðferðir fólust meðal annars í ritgerðum og verkefnum sem kennari fór yfir og svo prófum í lokin.


Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Ég man ekki eftir neinum verklegum greinum. En það hlýtur að hafa verið kennd handavinna þar sem ég var sísaumandi þennan vetur. Við vorum með nokkuð flókin útsaum sem mér finnst að við hljótum að hafa fengið aðstoð við. Við saumuðum mikið í frítíma okkar stelpurnar.


Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?

man það ekki - en mér finnst að ég hafi lært einhvern saumaskap. Allavega hef ég stundað mikla handavinnu síðan.


Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Leikfimi var kennd í leikfimissal að mestu og stundum var farið út. Stelpur voru sér. Mig grunar að strákar hafi veirð meira í boltaíþróttum. Við höfðum ágætis íþróttakennara (konu frá Reykjavík).


Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

Frímínútur voru frjálsar. Ég man lítið eftir þeim. Sumir krakkar voru byrjuð að reykja og fóru út til þess. Mig minnir að ég hafi yfirleitt bara setið inn með þeim sem ekki reyktu.


Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

Heimanám var skipulagt þannig að einn lærði á herbergi en aðrir lærðu í kennslustofum þar sem kennari sat yfir þeim. Ég man ekki hve lengi á hverjum degi. En þessi aðferð var fín leið til að halda manni við efnið og virkaði vel fyrir mig.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

Man ekki eftir mörgum hefðum.


Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?

nei man ekki


Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).

Það var nokkuð mikið um það á minni vist að stelpur töldu vera draugagang á vistinni. Þetta gekk ansi langt og þurfti vistarstjóri sem var einn kennara að finna leið til að stöðva og var ekkert rætt um drauga eftir það. Man þó ekki hvaða aðferðum hann beitti
Það var mikið farið í andaglas og margir töldu að það væri draugur í íþróttahúsinu.
Varðandi próf þá var nokkuð um það að setja bækurnar undir kodda nóttina fyrir próf.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

Ég tók ekki mikinn þátt í félagslífi í skólanum. Mætti þó á böllin, á leiksýningar og bíó. Ég veit að margir voru á kafi í félagslífinu og skipulögðu ýmsa viðburði.


Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Þar sem ég tók ekki mikinn þátt veit ég ekki um þátttöku kennara. Ég held þó að þeir hafi verið með...


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

Ég tók ekki þátt í íþróttum. Strákarnir spiluðu fótbolta og ég man eftir að hafa horft á þá keppa við lið sem kom annars staðar frá - sennilega frá öðrum skóla.


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Krakkarnir þurftu að hafa leyfi frá foreldrum til að fá að reykja. Eitthvað var um að fólk útvegaði sér áfenga drykki og brást skólinn við með brottrekstri, eða ef um minna brot var að ræða að nemandi og skólastjóri hringdu í foreldra og fóru yfir málið.


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

Ég man ekki eftir reglunum um heimavistina. Við máttum þó ekki heimsækja stráka eftir ákveðin tíma á kvöldin. Þó gerðist það að strákar komu í næturheimsókn - yfirleitt nokkrir saman og stelpurnar fóru yfir til strákanna - ég hafði ekki kjark í það.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Kennarar og starfsfólk í mötuneyti kom fram við okkur af virðingu og sem jafningja. Ég man eftir að hafa farið að hitta eldri starfskonu úr mötuneyti sem átti bækur sem hún lánaði mér.
Sérsaklega er mér minnistætt að skólastjórinn settist með okkur og ræddi við okkur þegar við brutum af okkur og notaði ekki hótanir. Hann var ákveðin en talaði þó á sama tíma við okkur sem jafningja og hann fékk okkur ekki uppá móti sér.Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

Það hafði mikil áhrif á mig að vera heilan vetur með sömu krökkunum alla daga. Öll tengsl urðu miklu nánari en ég hafði kynnst áður og við töluðum saman um fjölskyldur okkar og líf okkar. Ég held að þessi reynsla hafi haft mjög góð áhrif á mig og hafi styrkt mig sem einstakling. Mér finnst ótrúlegt hve samskiptin voru alltaf á jákvæðum nótum. Man til dæmis ekki eftir að við höfum nokkurn tíma rifist í mínu herbergi.


Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Já það urðu sterk vinasambönd. Nokkur þeirra hafa haldist, þrátt fyrir að við höfum flust í aðrar heimsálfur um tíma sköpuðust sterk tensl sem liggja djúpt og sem við finnum fyrir þegar við hittumst.


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

Það voru mörg kærustupör á staðnum og nokkur þeirra áttu eftir að giftast og eignast börn. Ég átti kærasta um tíma. Við keluðum en höfðum ekki kynlíf. Hann hefur verið vinur minn síðan. Mikið var verið að kela og eitthvað hlýtur að hafa verið um kynlíf þar sem sumar stelpurnar töluðu um að hafa farið til læknis til að athuga hvort þær væru óléttar. Mig minnir að ein stúlkan hafi orðið ólétt.
Í fyrsta skipti eignaðist ég góða vini af hinu kyninu. Fyrir þann tíma hafði ég aðeins átt vinkonur. Það var góð reynsla að kynnast strákum svona vel bara sem vinum. Þetta voru til dæmis strákarnir sem ég borðaði með á hverjum degi. Við fórum í göngutúra og röbbuðum mikið saman.
Ég átti líka vinkonur sem voru mikið að sauma eins og ég. V


Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?

Ég varð ekki vör við það þennan vetur.


Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Ég er viss um að það hafi verið einelti þó svo að ég hafi ekki sjálf orðið vitni að því. Ég varð ekki vör við kynferðislegt áreiti eða niðurlægingu.
Ég man eftir að við töluðum niður til tveggja stelpna sem við töldum "lauslátar" og mér finnst að ég hafi tekið undir þá umræðu þó ég hafi þó ekki verið virkur gerandi. Það var einhver sem skrifaði niðrandi orð á dyrnar hjá þeim. Ég upplifði þessar stelpur samt á sama tíma sem mjög sterkar og mikla töffara sem var samt líka litið upp til.


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Ég hef farið tvisvar í skólann til að hitta fyrrum skólafélaga yfir helgi og tvisvar á þorrablót. Þátttakan hefur verið mismikil. Ég hef þó mest bara hitt þá einstaklinga sem urðu vinir mínir.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.