LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1968-1970
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn að Laugarvatni
ByggðaheitiLaugarvatn
Sveitarfélag 1950Laugardalshreppur
Núv. sveitarfélagBláskógabyggð
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1953

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-16
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/12.11.2017
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

Héraðsskólinn á Laugarvatni, 1968/69 og 1969/70. Hornfirðingar sóttu í þennan skóla þar sem ekki var hægt að fara í landspróf á Hornafirði á þessum árum. Systir mín hafði rutt veginn tveimur árum áður.


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Flogið var Flugfélagi Íslands "suður" þar sem hringvegurinn sunnanlands var ófær vegna brúaleysis yfir jökulár sunnan jökla. Farið af stað daginn fyrir komudagsetninguna á Laugarvatn (blálok septembermánaðar). Farangurinn voru föt til skiptanna, skór og lítið meira. Og sumarhýran (vann hörðum höndum í launavinnu Höfn um sumarið) sem lögð var inn hjá gjaldkera Héraðsskólans, Bergsteini Kristjónssyni. Þar gat maður svo sótt eyðslufé ef með þurfti. Leigubíll tekinn frá Reykjavíkurflugvelli í Reynihvamminn til föðursysturinnar sem þar bjó. Gist hjá henni og farið daginn eftir með Óla Ket upp að Laugarvatni.


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Rúmfatnað, föt til skiptanna, gamla skólatösku. Engin "leiktæki" en notfærði mér óspart flygilinn í einni stofunni sem ég fór fljótlega að spila á eftir eyranu (hafði tíðkað það heima hjá mér). Engar plötur, átti ekki hljómflutningstæki fyrr en síðar (í MA):


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Við vorum nokkrir Hornfirðingar saman á ferð. Þótti leiðin löng upp að Laugarvatni (enda ók Ólafur Ketilsson hægt og stoppaði víða). Hálfan dag eða svo í endurminningunni. Ég var ekki kvíðinn, sjálfsagt eftirvæntingarfullur. Og aldrei leiddist mér og engin heimþrá gerði vart við sig eins og hjá sumum félögunum sem fóru í drengjavistirnar þrjár, í Grund, Mörk og Hlíð. Þar mynduðust samfélög þar sem sterkir karakterar (þá) náðu að setja svip sinn á mannlífið. Var á herbergi með æskufélaga úr Nesjunum. Sú sambúð gekk vel.


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

1. okt til 31. maí. Frí var um jólin frá líklega svona 18.12 eitthvað fram á þrettándann eða svo. Flaug þá á Hornafjörð og dvaldi heima um jólin. Um páskana var ég í fríi í Kópavoginum hjá föðursystur minni. Raunar hundveikur því ég fékk fyrra árið slæma lungnasýkingu (bronchitis) og í framhaldinu hettusótt þannig að ég var frá skóla vikum saman og missti þá úr skólanum.


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

ÉG féll í landsprófsdeildinni á Laugarvatni eins og fimm af sex öðrum Hornfirðingum sem þarna voru með mér í bekknum. Munaði þar verulega um að hafa misst úr náminu síðla vetrar og geta ekki sótt tíma. Var rétt undir meðaleinkunn og mátti þreyta haustpróf en ákvað að endurtaka bekkinn 2969/70. Námslega séð voru allir Hornfirðingarnir illa undirbúnir til að fara beint í "Landspróf", sjálfur hafði ég ekki lært tungumál að neinu viti áður þannig að við byrjuðum þar meira og minna á núlli. Og endurspegluðu einkunnir það hjá okkur öllum. Himinn og haf var í undirbúningi okkar sem komum inn í bekkinn og þeirra sem farið höðfu í gegn um 2. bekk á Laugarvatni (og annars staðar, félagarnir komu jú víða að af landinu).
Ég er það félagslyndur að eðlisfari að ég saknaði félaganna örugglega þegar ég hélt heim á leið um vorið en fjórum mánuðum síðar hittumst við á ný. Það var eiginlega verra að slíta tengslin eftir seinni veturinn sem varð auðvitað námslega séð léttur fyrir mig (að stærstum hluta endurtekið efni) eins og sést á bréfum sem ég fékk (og skrifaði sjálfur) nokkrum "vinkonum" mínum næstu misserin eftir að ég hafði lokið landsprófinu og ákveðið að fara í MA þar sem mér hugnaðist ekki rígurinn sem var milli skólanna á Laugarvatni (einkum ML og Hérans, en sambúðin við Þróttarana einkenndist svolítið af stælum, enda þeir eldri, reyndari og "píndu" okkur Hérana í æfingaleikfimi). Öll sóttum við í sama mötuneytið í kjallara Héraðsskólans þannig að við sáumst oft á dag. En mér leið vel á Laugarvatni, í þeim hópi sem aðlagast breyttum aðstæðum án þess að vera með mikinn mótþróa eins og sumir sem sýndu verulega sjálfstæðistilburði og lutu illa aga sem var auðvitað ekki hafinn yfir krítik sem er alveg sér mál.Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Já, aginn á Laugarvatni. Og skólareglurnar og stjórnunarstíllinn. Við höfum stundum rætt þetta á síðari árum sem þarna vorum. Þeir sem beygðu sig undir agann og fóru eftir reglum mótþróalaust áttu ekki í neinum vandræðum. En stjórnurnarstíll (NN) var auðvitað út úr öllu korti og gekk út á það að brjóta mótþróaseggi í duftið, - gjarnan fyrir framan skólafélagana með afar ósmekklegum munnsöfnuði - niður, Og ef menn ekki sýndu betrun þá voru menn reknir. Vandamálin voru allt frá umgengni á herbergjum (við skúruðum sjálf og tókum til, saúm um klósett þrif á víxl, viku og viku í einu) upp í reykingar og ég tala nú ekki um áfengisneyslu. Hvoru tveggja var gert mjög áhugavert með þessum ofstækisfullu viðbrögðum. Lítið var um að mönnum væri hrósað fyrir vel gerða hluti, það var talið sjálfsagt og ekki umtalsefni. Ef einhver stóð sig ekki í klósettþrifum var viðkomandi lýst fyrir framan félagana með orðfæri sem ætlað var að brjóta menn niður. Og það tókst mjög oft því þarna voru flestir óharnaðir sveitkrakkar sem voru að fara að heimaní fyrsta skipti, 14 eða 15 ára og þeir komu úr mjög mismunandi aðstæðum. Hæfilegt kæruleysi og vilji til að gera vel hjáfpaði mönnum mikið við að takast á við þessar breyttu aðstæður. Ég varð á þessum árum sjálfstæður og sjálfbjarga (var það kannski fyrir) og hef búið að því alla ævi.Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Reglulegar bréfaskriftir - stöku símtöl. Engar heimsóknir.


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Nefnt hér að framan


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

Þau voru ágæt. Góð aðstaða til sund- og íþróttaiðkana, Engin setustofa enda markvisst unnið að því að aðskilja stráka og stelpur. Á sunnudögum máttu drengir þó fara upp á kvennavistir (uppi í kennsluhúsnæðinu) og þá var nú stundum handagangur í öskjunni. Þess vegna voru samskiptin aðallega í kennslustofum og á mátmálstímum. Stöku kvöldvökur voru einnig haldnar (böll) og við fengum að fara á Menntaskólaböll (aðallega vorum við nú þar fyrir, en mikilvægt að hafa okkur með til að borga niður kostnað við að fá hljómsveitir eins og Óðmenn, Hljóma (eða var það Trúbrot).
Húsakynnin voru hrein, auðvelt að þrífa því lineóleum dúkar voru á gólfum (þoldu ágætlega vatnsslagi sem farið var í þegar skólastjórinn fór af bæ). Mikilvægt að vera búinn að þurrka vel upp áður en hann kom aftur heim......


Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

Fyrri vetruinn vorum við 23 í landsprófi, við sátum við borð, tveir stólar pössuðu undir hvert um sig, borðin voru í þremur röðum framan við púlt þar sem kennarinn stóð, og tafla við hliðina á því á veggnum. Man ekki eftir að hafa fengið nein eymsli af stólum eða borðum.


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Tveir og tveir strákar saman í flestum herbergjum, tvö þriggja manna herbergi í endunum á þremur húsum (Hlíð, Mörk, Grund). 3+3+2*7=20 drengir í Mörk og Grund, símstöð í enda Hlíðarinnar skar af eitt eða tvö innstu herbergin. Menn gátu óskað efir því að vera saman. Seinna árið var ég með félaga sem ég síðan deildi herbergi í heimavist MA í fjóra vetur. Menn læra fljótt að draga línur sem ekki skal farið yfir. Þá lukkast sambúð. Menn sátu uppi veturlangt með sína herbergisfélaga.


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

Á að giska 10 m2 herbergi. Tvö lítil borð, tveir stólar, ofn með sírennsli af sjóðandi vatni (Laugarvatni!) þannig að gluggar voru upp á gátt hvernig sem viðraði. Baðhiti inni. Tvö rúm og litlir skápar fyrir föt. Allt ólæsanlegt. Enda hurfu stundum peningar. Töskuloft yfir herbergjunum. Tvö klósett og vaskar framan við, einir þrír hvoru megin, og svo sérstakt þvottahús þar sem skúringatækinn og straujárn voru geymd. Menn gátu pressað þar buxur, t.d. Og þvegið hvítar nælonskyrtur! Annars var starfrækt sérstakt þvottahús niðri við vatnið þar sem sængur- og nærföt voru þvegin. Innangengt úr vistarherbergjunum um þvottahúsið yfir til íbúða kennara (skólastjórinn og Adda Benediktsdóttir kona hans í Mörk), Þórir Þorgeirsson í Grundinni og mannvinurinn Þórarinn Stefánsson í Hlíð.


Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Menn sátu alltaf á sömu stöðum ef ég man þetta rétt, nema kannski í mötuneytinu. Ég sat aftast, veit ekki af hverju.


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Það var engin setustofa! En við vorum oft inni í kennslustofunum og í holinu þar framan við. Og í einni stofunni var ágætur flygill sem ég vandi mig á að spila eftir eyranu. Sumir gátu spilað aðeins eftir nótum. Eftir á að hyggja er svakalegt að hafa misst af öllum tækifærum til að læra tónlist eða nótnalestur í uppvextinum og á ungdómsárunum. Þar er mikill munur frá því sem tíðkast í dag.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?
Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?
Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?
Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Hafragrautur og slátur og eitthvað slíkt á morgnanna í sameiginlegu mötuneyti skólanna þriggja eins og áður hefur komið fram. Heitur hádegis- og kvöldmatur, hundakex og köld" mjölk í brúsa á kvöldin heima á vistinni. Eini fiskurinn sem komst óskemmdur upp að Laugarvatni var skata og saltfiskur. Allt af á laugardögum! Menn gleyptu þetta í sig og fóru svo út. Svo skiptust krakkarinir á því að vera "í eldhúsinu "viku í einu" minnir mig, alla vegana einhverja daga í röð, Það var tilbreyting.
Ólseigar gamlar beljur voru oft í matinn, sagðar frá heimilum skólafélaganna í sveitunum þarna í kring. Þekki ekki hvor svo var rétt með farið. Annars ágætur matur, súrmeti, hrísgjrónagrautur, nóg af mjólk, brauð og smjör. Menn snæddu það sem á borð var borið.
Hef áður nefnt þrif og fataþvott á Laugarvatni.Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?

Má-Ld, fyrir hádegi á laugardögum. Samfelld dagskrá frá morgni fram á síðdegi. Íþróttir og útivistartímar síðdegis. Lestímar á ákveðnum tímum dags þar sem allir áttu að vera inni á herbergjum ef ég man rétt.


Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

Farið skipulega í gegn um ákveðnar námsbækur, skýringar dregnar upp á töflu. Í tungumálum voru menn látnir lesa upphátt og leiðréttur framburður (oft í bland við svívirðingar í enskutímum ef menn fóru rangt með, sérlega niðurrífandi fyrir egóið, menn reyndu að komast hjá því að verða teknir upp). Segulbönd (Oxford enska) notuð til að láta menn rita upp eftir lesnu máli.
Kjaftafögin (mannkynssaga, landafræði) og slíkt, dæmigerður páfagaukalærdómur.


Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Ekkert verklegt (nema íþróttir). Fannst vont að fá ekki að fara í smíði en smíðakennari var á svæðinu (Óskar Jónsson). Strákar voru í sértímum í íþróttum og sundi.


Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?
Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?

sjá framar


Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

Menn héngu nú aðallega inni við og spjölluðu ef ég man þetta rétt. Óskipulagt kaos, inni við, aðallega. Mikið lagt upp úr því að raða skóm, nýpússuðum, upp í raðir fyrir framan stofurnar.....ekki farið út.


Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

Lestímar síðdegis, menn lærðu einir og sjálfir, menn áttu að vera komnir inn á herbergi kl. 22:00 og slökkt kl. 23:00 Og öllu læst.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

Lítið um hefðir, man best eftir því þegar allir voru kallaðir saman og skólastjórinn gerði einhver atriði (sem betur máttu fara) að umtalsefni. Oft mjög orðljótur og nafngreindi sökudólgana hægri vinstri. Heldur lítt uppbyggjandi eins og áður hefur komið fram.


Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?

Þarna unnu margir góðir kennarar og miklir mannvinir þótt skólastjórinn félli tæpast í þann hóp nema hvað að hann var góður enskukennari þótt aðferðirnar væru fruntalegar sem hann beitti til að halda mönnum við efnið og halda uppi aga! Óskar Ólafsson var alltaf kallaður Plútó, hann kenndi landafræði (m.a.) og hafði víst einhverju sinni orðiuð tíðrætt um nýfundna reikistjórnu. Og svo var hann svolítið smámæltur þannig að menn hermdu gjarnan eftir honum þegar orðið var borið fram. Bergsteinn Kristjónsson var annálað ljúfmenni rétt eins og Þórarinn Stefánsson og raunar flestir starfsmenn skólans. Adda Geirsdóttir kona skólastjórans vildi okkur vel og reyndist nemendum oftast ágætlega.Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).

Man ekki eftir neinu slíku


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

Það var stjórn í skólafélagi sem skipulagði böll, keyptar voru inn nýjustu plöturnar og spilaðar á grammón í einu horni einnar kennslustofunnar. Þetta voru eftirminnileg böll, vel sótt og mikið vangað! Og í endurminningunni hin besta og saklausasta skemmtun.


Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Lítið fór fyrir því. Engin skipuleg tónlistariðkun td. eins og ég hef áður nefnt.


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

Sund, körfubolti, liðakeppnir milli bekkja. Man ekki eftir neinum heimsóknum til Héranna! Og þeir fóru aldrei neitt nema einu sinni var fjölmennt í rútu frá Óla Ket á Selfoss að sjá kvikmyndina á Hverfandi hveli, og svo í maí 1970 var farið í hópferð í Skjólkvía til að sjá Heklugosið í fullum gangi. Farið að hraunjaðrinum. Annað var nú ekki farið nema eina mynd á ég af strákum sem gengu á Hlöðufell einhverju sinni að vetrarlagi.


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Bannað var að reykja og neyta áfengis eins og ég hef áður nefnt og varðaði hvoru tveggja brottrekstri. Bæði árin voru menn reknir í ákveðinn tíma (vikur) fyrir þetta þannig að í útivist laumuðust menn með reykingar, gjarnan földu menn sig uppi í skógi (við styttuna af Bjarna Bjarnasyni eða er hún af Hriflu Jónasi?) eða í bílaportinu hjá Ólafi Ketilssyni. Ýmsir klókir reyktu að staðaldri og létu aldrei nappa sig. Engin efni önnur þekktust á þessum tíma.


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

ÁÐur nefnt


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Áður nefnt


Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

Áður nefnt


Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Mörg ágæt kunningjasambönd urðu þarna til sem gjarnan er vitnað í. Eitt dæmi, skólabróðir í öðrum bekk en landsprófi, búsettur á bæ í Borgarfirði, sem lauk námi 1969 hafði í fyrsta sinn samband við mig sumarið 2027 og spurði mig sem sérfræðing út í lúsmýsplágu sem skyndilega fór að hrjá hann og heimilismenn. Hann ræddi við mig eins og við hefðum kvaðst fyrir nokkrum vikum (og ég við hann) nú 48 árum síðar!. Já, menn kynnast vel á þessum mótunarárum og það er auðvelt að finna í svona hópum samferðamenn sem hafa svipuð lífsgildi og viðhorf, fólk sem manni líkar við og þykir vænt um. Gaman að segja frá því að við héldum einhvern tíman "reuion" samkomu á knæpu hér í bænum, þar hittust gamlir skólafélagar, maðurinn hafði nýlega misst konuna sína, og þau rugluðu í framhaldinu saman reitum sínum! Og hafa verið saman síðan. Og sumir krakkarnir eru giftir í dag og hafa verið saman allar götur síðan.


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?
Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?
Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Vissulega voru einhverjir lagðir í einelti, jafnvel af skólastjóranum eins og ég hef ítrekað nefnt. Sumir áttu undir högg að sækja, það fór ekki á milli mála en oftast var grínið nú innan marka og bundið við uppnefni og slíkt. Einhvern vegin komst ég hjá því að verða lagður í einelti, jafnvel þótt ég væri gormæltur fyrri veturinn sem ég var á Laugarvatni. En ég leið mjög fyrir það. Fór í talkennslu eftir fyrra árið og lærði réttan framburð á "errinu" á nokkrum klukkutímum! Mikill léttir það.
Varð aldrei var við neitt kynferðiselgt áreiti á Laugarvatni, þetta voru jú upp til hjópa bara reynslulitlir 14 og 15 ára sveitakrakkar sem þarna voru samankomnir. Mikið var gert i því að halda kynjunum aðskildum.


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Tugir okkar komu saman á 40 ára útskriftarafmæli okkar upp á Laugarvatni 2010, yndisleg stund og skemmtileg. Margir eru vinir á FB í dag og maður fylgist með fólkinu úr fjarlægð, suma hittir maður reglulega.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.