LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1971-1973
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn í Reykholti
ByggðaheitiReykholtsdalur
Sveitarfélag 1950Reykholtsdalshreppur
Núv. sveitarfélagBorgarbyggð
SýslaBorgarfjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1956

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-11
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/11.11.2017
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

1971-72 og 72-73 í Reykholti í Borgarfirði. Hér verður miðað við fyrri veturinn varðandi tímasetningar, frí og annað slíkt því síðari veturinn var mjög svipaður hvað það snerti.Það var enginn gagnfræðaskóli né framhaldsskóli í heimabyggð minni. Ég hafði góðar spurnir af skólanum og það höfðu nokkrir Austur-Skaftfellingar verið þar og létu vel af. Svo var mikið íþróttalíf í Reykholti og það freistaði mín líka.


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Faðir minn sá um bréfaskipti við skólann og þann undirbúing sem laut að greiðslu skólagjalda. Móðir mín sá um fatnað og aðrar nauðsynjar, svo sem saumadót svo ég gæti bjargarð mér með að festa á tölur og slíkt. Sjálfur gekk ég frá harmonikunni í traustan pappakassa því engin taska var til utan um hana. Ég man nú ekki kveðjustundina en afi og amma létu mig ábyggilega hafa aura til fararinnar, þó ég muni ekki upphæðina.


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Harmonikuna og einhverjar námsbækur sem ég taldi að kæmu að notum.


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Fyrst var flogið til Rvíkur. Þar fékk ég gistingu hjá frændfólki mínu og svo næsta dag var lagt í hann upp í Borgarfjörð. Það var örugglega eftirvænting í loftinu en ekki svo mikill kvíði. Rútan frá Sæmundi var full af unglingum sem allir voru á leið í Reykholt og þar hitti ég nokkra Austur-Skaftfellinga sem ég þó ekki vissi fyrirfram að væru að fara í skólann.


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

Skólinn hófst 1. október og ég fór í landsprófsdeild en skólasetning fór fram 10. okt. Prófum lauk seint í maí. Það voru mánaðarfrí, svokölluð, einn aukafrídagur mánaðarlega að loknum mánaðarprófunum. Svo hófst jólafríið um 20. des. og lauk 6.-8. janúar minnir mig. Páskafríið var


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

Eftir próflok í landsprófsdeild fórum við nokkur bekkjarsystkinin í sumarbústað í Húsafelli. Ekki man ég hver útvegaði okkur bústaðinn né hvort og þá hvernig við greiddum fyrir leiguna. Það héldum við upp á próflokin og var áfengi haft um hönd en allt fór vel fram og enginn eftirmáli varð af þessu. Daginn á eftir kvöddumst við og það var saknaðarstund. Aldrei hafði ég kysst eins margar stelpur og þann dag á ævi minni og þetta var saknaðarstund. Ég kvaddi þessa góðu skólafélaga með eftirsjá og hef alltaf átt góðar minningar um dvöl mína í Reykholt.
Við lok síðara skólaársins, þegar ég var í 5. bekk gagnfræðaskóla eða "framhaldsdeildinni" eins og hún var kölluð, þá var engin lokaprófshátíð en kveðjustundin var innilega og mikið kysst og faðmast en slíkt var ekki algengt í mínu uppeldi né kunningjahópi í heimasveit á þessum árum.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Ég átti nokkur símtöl heim að Hala í Suðursveit til foreldra minna og afa á þessum árum. Það var símaklefi á heimavistinni og þar var hægt að hringja í símstöðina í Reykholti og panta símtal heim. Síðan var beðið við klefann eftir að símstöðin hringdi til baka og væri búið að ná sambandi austur, yfirleitt gekk það vel enda var símstöð heima á Hala og því tiltölulega einfalt mál að ná sambandi. Nokkur sendibréf hef ég varðveitt frá þessum tíma, annars vegar bréf frá Steinþóri Þórðarsyni afa mínum og svo Torfa Steinþórssyni föður mínum. Einnig hafa varðveist nokkur bréf frá mér til þeirra. Engar heimsóknir fékk ég að heiman þessi skólaár enda 2ja daga ferðalag austan úr Skaftafellssýslu í Borgarfjörð. Þá var enginn hringvegur kominn og ár óbrúaðar á Skeiðarársandi. Hins vegar átti Fjölnir bróðir minn leið fram hjá á landleið úr Reykjavík og norðurfyrir og austur í Suðursveit, var í fylgd með félaga sínum sem hafði keypt sér nýjan bíl og var á heimleið.


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Ég fann fyrir heimþrá, en ekki nema í nokkra daga og þá sérstaklega fyrra haustið. Eftir jólafrí fann ég ekki svo mikið til söknuðar við mína nánustu enda var í nógu að snúast þegar í skólann var komið og félagar og vinir tókum manni fagnandi á þessum árum og það tók tíma manns og athygli af fullum krafti og lítið svigrúm fyrir heimþrá. Mér finnst eftirá að ég hefði haft mjög gott af þessum aðskilnaði við heimahagana og þurfa að standa á eigin fótum í nýju umhverfi með nýju fólki. Ég var svo lánsamur að eignast góða vini og kunningja og var líka nógu sjálfstæður til þess að standa á eigin fótum þó á móti blési, sem var alls ekki oft á þessum árum.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

Húsakynnin í Reykolti voru mjög góð. Heimavistin Útgarðar, sem strákarnir höfðu, var nýlegt hús og vel búið, sjónvarpsstofa og setustofa og aðbúnaður eins og best var á kosið á þessum tíma. Gamli skólinn var byggður um 1930 og var vel við haldið og þar voru kennslustofurnar, matsalur, íþróttasalur og sundlaug. Þessi hluti var barn síns tíma, byggður af stórhug en var ekki lengur í samræmi við þarfir tímans, t.d. var íþróttasalurinn gamall braggi. En húsnæðinu var öllu vel við haldið og manni leið vel og fannst góður aðbúnaður.


Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

Hefðbundin í alla staði, við sátum tvö/tveir saman við borð sem stillt var upp á hefðbundinn hátt. Eitt var þó sérstakt við landsprófsstofuna en það var kennarapúltið, þar þurfti kennarinn að standa, því það var ræðupúlt og ekkert borð né stóll til að sitja við til hliðar. Þetta hef ég ekki oft séð í almennri kennslustofu fyrr né síðar.


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Við vorum 3 saman í herbergi. Skipað var í rúm eftir bekkjum, þannig að blandað var saman 4. bekkingum, 3. bekkingum og landsprófsnemendum og það var Vilhjálmur Einarsson skólameistari sem skipulagði þetta með kennurum skólans. Við vorum saman allt skólaárið. En ástæðan fyrir þessari blöndun var sú að bekkirnir voru ekki í stöðugri kennslu allan daginn. Við vorum nefnilega alltaf í "gati" annan hvern tíma. Á meðan við í landsprófi vorum í tíma voru t.d. 3. bekkingar í lærdómsgati og nemendur lærðu á herbergjum sínum og undirbjuggu sig fyrir næsta tíma. Þannig gekk þetta líka fyrir sig í 4. bekk A annars vegar og 4. bekk B hins vegar. Skóladagurinn var því nokkuð langur eða frá 8 - 18 mán. - fös. en fram að hád. á laugard.


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

Kojur annars vegar og stakur legubekkur hins vegar. Handlaug og fataskápur en ekkert salerni né baðaðstaða inni á herberginu.


Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Það var ákveðin sætaskipan í kennslustofunum eins og flestir þekkja en að öðru leyti voru engin föst borð né sæti.


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Til að spjalla og horfa á sjónvarp. Einnig kom nokkrum sinnum fyrir að við komum með hljóðfærin í setustofuna á Útgörðum og þá var fjöldasöngur og mikið fjör. Þar var ég yfirleitt eini harmonikuleikarinn en oft 1-2 gítarar. Ekki var dansað enda engar stelpur á vistinni.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?

Morgunmatur var um kl. 8:30 - 9:00. Þá komu nemendur úr 1. tíma og fengu mat og þeir í "hinu hollinu" sem áttu að byrja kl. 9 fengu næringu áður en þeir fóru í 1. tímann að morgni. Hádegismatur var um kl. 12-12:50, minnir mig. Síðdegishressing/kaffitími um 15:00 og kvöldmatur að lokinum kennsludegi um kl. 18:15. Svo fengum við kvöldhressingu til okkar út á vist.


Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

Það var frekar einhæft fæði fyrri veturinn og matráðskonan hætti að honum loknum. Síðari veturinn var fjölbreytt fæði með nýjum kokki og tilbreyting í fæðuvali. Til dæmis fékk ég þar í fyrsta sinn ávaxtasalat, djúpsteiktan fisk og ýmislegt meðlæti. Matartímarnir voru kærkomnir fyrir okkur marga strákana, man ég, og við fórum stundum í kappát og var hvergi slegið af en ekki man ég til þess að maður veiktist af þessu tiltæki. Það var föst venja að skólastjóri kom með almennar tilkynningar í hádegismatartíma, einhver skilaboð sem þurftu að berast fljótt og vel og svo stundum áminning um bætta umgengni eða betri siði, eins og gengur í 130 nemenda hópi.


Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

Við skiptum okkur í 4ra manna borðstofuflokka þar sem við aðstoðuðum mest í borðsal. Þetta var vikuskipt þannig að við vorum að mig minnir 2svar á önninni í þessari þjónustu. Nemendur ræstu herbergin sín sjálfir og líklega var skipt á herbergin að ryksjúga ganginn og stigann á vistinni. Man ekki hve oft en allavega 2svar hverja viku.


Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

Það var þvottahús og þar unnu 2 konur við að þvo af nemendum. Líklega var þvegið aðra hverja viku og þá þurftum við að koma plöggunum til þeirra og sækja þau svo aftur. Mikið fannst manni það góð þjónusta og góður ilmur af fötunum þegar þau voru sótt hrein og strokin.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?

Kennsla var mán.-lau. og eins og áður kom fram frá kl. 8 - 18:00 með lærdómsgötum á milli. Laugard. voru kl. 8-12, minnir mig og lærdómsgöt á milli.


Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

Fastar skyldugreinar þessa tíma og svo valdi ég vélritun og sé ekki eftir því. Kennsluaðferðir voru bæði hefðbundnar og nýstárlegar. Það sem var nýtt fyrir mér var mikil verkefnavinna í tímum, mest þó einstaklingsvinna. Ekki man ég eftir hópvinnu í bóklegum greinum, en samvinna sessunauta var algeng. Svo var myndvarpi mikið notaður með fínum glærum og góðum skýringarmyndum. Einnig var mikið til af landakortum. Kennararnir voru mjög hæfir í sínu starfi, aðstoðu nemendur í tímum, gengu á milli og buðu fram aðstoð. Og eins og áður kom fram var enginn kennarastóll í landsprófsstofunni þannig að það var ekki sest mikið niður. Farið var í jarðfræðiferðir og vettvangsferðir og skólaheimsóknir, allt mjög eftirminnilegt og vel skipulagt.


Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Ég man ekki eftir að hafa verið í smíði eða handavinnu, en það var samt kennt í 3ja og 4ða bekk og handavinnustofan var mikið notuð. Man ekki eftir að stelpurnar væru í hannyrðum eða slíku.


Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?

Engin verkleg þjálfun, þá tel ég ekki íþróttir með því bæði voru skólaíþróttirnar vel skipulagðar og svo voru frjálsir íþróttatímar öll síðdegi og kvöld og þá skipt á milli íþróttagreina. Þarna kynntist ég í fyrsta sinn körfuknattleik, svo dæmi sé tekið.


Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?
Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

Frímínútur voru í raun engar því þá hófst "lærdómstími" fyrir næsta tíma dagsins.


Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

Heimanámið fór fram í þessum lærdómstímum sem áður var lýst og eftir kl. 18 á daginn var í raun frítími og vinnudegi / lærdómstíma lokið.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

Skólasetning, tollering nemenda í íþróttasalnum í vikunni þar á eftir, haustferð, vorferð, kennarar sáu um skemmtiatriði á kveðjukvöldi við upphaf jólafrís, árshátíð skólans í mars, skólakór var starfræktur, skíðaferð var fastur liður þessi ár, farið í Fornahvamm fyrra árið og svo í Skálafell síðari veturinn.


Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?

Man ekki eftir neinu sérstöku en eflaust var eitthvað til af slíku.


Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).

Það var reimt á smíðastofuloftinu. Í smíðahúsinu bjó húsvörðurinn, sem við annars urðum lítið vör við. Hann var þó ekki dularfull persóna en þessi fjarlægð milli okkar og hans gerði það að verkum að reimleikar gátu vel þrifist á loftinu hjá honum...


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

Böll/diskótek einu sinni í mánuði, morgunsöngur á skólagangi einn morgun í viku, skólakór, dansæfingar (þar sem ég spilaði nokkrum sinnum fyrir dansi á nikkuna), klúbbar voru starfræktir, t.d. skákklúbbur, íþróttaklúbbur, kvikmyndanefnd, ljósmyndanefnd, mælskuklúbbur. Haldin var hátíð 1. des. og svo var árshátíðin, oftast í mars minnir mig. Nemendur skipulögðu klúbbastarfið og svo voru nemendur og kennarar í samvinnu um undirbúning 1. des. og árshátíðar. Almenn þátttaka var í öllum viðburðum og tóku stúlkurnar jafnt þátt sem strákarnir. En einhverjir voru virkari en aðrir, eins og gengur, og einhverjir hafa eflaust lítið haft sig í frammi.


Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Já, það var lögð áhersla á félagslíf og þátttöku af skólayfirvöldum. Kennarar voru virkir og nálægir í öllu sem sneri að almennum undirbúningi og gott samstarf var um alla meginþætti og góður samstarfsandi og traust milli aðila.


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

Allar helstu íþróttagreinar sem stundaðar voru af ungu fólki í landinu á árunum upp úr 1970. Nemendur voru mjög mikið virkjaðir til þátttöku, ekki síst með almennu æfingunum sem voru í íþróttasalnum öll kvöld og helgar. Það voru haldnar margar keppnir árlega við aðra skóla (Bifrös, Hvanneyri, Varmaland, Reykjaskóla í Hrútafirði...) og félagslið, t.d. Skallagrím í Borgarnesi.


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Það var bann við áfengisneyslu og nokkuð vel gekk að framfylgja því en auðvitað voru undantekningar á því. Það var ekki mikið um að nemendum væri vísað úr skóla, satt að segja man ég ekki eftir nema 1 tilviki þessa tvo vetur. Sterkari efni vissi ég ekki að væru höfð um hönd af nemendum þessi árin. Hins vegar voru reykingar leyfðar ef "kom leyfi frá foreldrum" og þurfti það að vera skriflegt og berast til skólastjóra. Aðrir máttu ekki vera í "smóknum" eins og reykingaaðstaðan var kölluð. Það var forstofuhol í gamla skólanum og lyktin barst að sjálfsögðu um allt hús.


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

Það voru ákveðnar reglur á heimavist um svefntíma og heimsóknir, líkt og í öðrum heimavistaskólum á þessum tíma. Mig minnir að vistinni væri lokað kl. 10 á kvöldin. Heimsóknartími var eftir hád. á sunnudögum og þá máttu stúlkurnar koma og aðrir sem vildu. Mig minnir nú að ekki væri gengið hart eftir því að þessi heimsóknartími væri sá eini yfir vikuna því oft sá maður gestum bregða fyrir og engir árekstrar urðu út af því svo ég muni.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Man ekki eftir öðru en góðum og jákvæðum samskiptum og ég heyrði ekki talað um alvarlega árekstra milli fólks. Mér verður það sífellt ljósara eftir ví sem tíminn líður hversu góða og hæfa kennara við höfðum í Reykholti þessi ár. Flestir voru þeir ungir (yngir en 40 ára) og höfðu áhuga á starfinu, lögðu sig fram og vildu ná góðu sambandi við okkur nemendur. Þáttur Vilhjálms Einarssonar skólastjóra var áreiðanlega mjög drjúgur í að skapa þennan góða og heilbrigða starfsanda, hann réði þetta fólk til starfa, hann lagði línurnar með skólastarfið, skipulagði stundaskrá og ytri umgjörð skólastarfsins og sá til þess að fólk fengi að njóta sín í þessu umhverfi, bæði kennarar og nemendur.


Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

Dvölin í Reykholti var manni holl þá og einnig notadrjúg á lífsleiðinni. Ég minnist þessa tíma með þakklæti og hlýju og vildi ekki hafa misst af því tækifæri sem skólavistin færði mér.


Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Það urðu til vinasambönd og jafnvel hjónabönd. Einhver hafa haldið alla tíð síðan og nokkrum sinnum hafa nemendur hist á árgangamótum þar sem rifjaðar voru upp gamlar minningar og sagðar sögur í góðum hópi.


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

Nokkur kærustupör urðu til og fóru ekki leynt. Skólayfirvöld lögðu ekki stein í götu þeirra para sem voru að skjóta sig saman á þessum árum. Pör fengu að kyssast á almannafæri og í rútunni var farið í sleik án þess nokkrum þætti það athugavert. Kynlíf mátti ekki stunda og það varð að fara leynt en sögur af slíku kann ég ekki.


Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?

Það voru eflaust einhverjir foringjar í hópnum en þeir voru hvorki áberandi né drottnandi.


Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Ég varð fyrir því áreiti að einn skólafélagi minn reyndi ítrekað að toga í punghárin á mér í baðklefanum, en hann vissi að ég tók hart á móti þessu og réðst stundum á hann fyrir tiltækið. Það var eflaust það sem hann beið eftir, hann var eldri og stærri en ég og taldi sig kannski eiga í fullu tré við mig, en ég held að hann hafi komist að því um síðir að hann ætti ekkert að abbast upp á mig því ég lét ekkert eiga inni hjá mér á þessum árum. En við vorum góðir félagar þess á milli og hann spilaði oft með mér á gítarinn sinn í setustofunni á kvöldin og þá var allt gott milli okkar... En svona er lífið, það er ekki alltaf dans á rósum og áreiðanlega fengu margir að kynnast því á þessum árum þó ég kunni ekki frá að segja.


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Þau eru mismikil. Sjálfur hef ég ekki mikil tengsl við þetta fólk í dag, en hef einu sinni farið á árgangsmót og það var gaman, en það voru ekki margir mættir af mínum árgangi /árgöngum.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Flestu hef ég lýst hér að framan. Eitt get ég nefnt sem er mér minnisstætt úr líffræðikennslu Jóns Þórissonar en það er hvernig hann nálgaðist kynfræðsluþáttinn í kennslunni. Flestir muna það hvernig kennari fór eins og köttur kringum heitan graut þegar kom að þessu efni, ef því var þá ekki alveg sleppt. En Jón fór öðruvísi að. Hann sagði strax í upphafi tímans yfir okkur stráka og stelpur í bekknum að þetta þyrftum við að vita og hjá því yrði aldrei komist að við áttuðum okkur á hvernig kynlífi og æxlun væri háttað. Þannig fór hann yfir þetta með okkur blátt áfram og hispurslaust í máli og myndum og enginn flissaði, enginn skellti upp úr og ekkert pískur heyrðist. Eftir á að hyggja þá var þetta eins og heilög stund fyrir bekkinn og ég minnist þessarar kennslustundar alla tíð þegar talið berst að góðri og árangursríkri kennslu eða misheppnaðri kynfræðslu sem sumir hafa upplifað.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.