LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1981-1983
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn að Laugarvatni
ByggðaheitiLaugarvatn
Sveitarfélag 1950Laugardalshreppur
Núv. sveitarfélagBláskógabyggð
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1967

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-7
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/10.11.2017
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

Héraðsskólinn á Laugarvatni, 1981-1983. Skólinn var minn heimaskóli, því ég bjó í Grímsnesi.


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Það var enginn sérstakur undirbúningur. Systkini mín voru búin að vera í skólanum og því vissi maður nokkuð um hvað biði manns. Auk þess fórum við sveita krakkarnir heim lang flestar helgar, það var því ekki verið að fara til langdvalar.


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Það var ekki mikið, mest var notað það sem var til í skólanum, en flestir áttu kassettutæki. Spil og töfl voru á vistinni ef ég man rétt. Sjónvarp var frammi á gangi. Rúmföt og handklæði kom maður með að heiman. Ég fór oft á bókasafnið í skólanum og las mikið.


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Það var auðvitað spenna og óöryggi í fyrstu, en ekkert sem er sérstaklega minnisstætt.


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

Skólinn byrjaði ekki fyrr en um miðjan september og var búinn í byrjun maí. Fríin voru bara hefðbundin jóla- og páskafrí.


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

Það sem er aðallega minnisstætt frá skólabókum á vorin var mjög glæsileg handavinnusýning. Handavinnukennsla var mjög metnaðarfull. Það var val um sauma eða smíðar. Flestar stelpur völdu sauma og flestir strákar smíðar. Í smíðum voru mest smíðuð tekk skrifborð, ýmist stór eða lítil. Stór voru með þremur skúffum öðru megin og skáp hinu megin, auk skúffu á milli. Einnig voru smíðaðar hillueiningar og fleiri mublur. Smíðin var vönduð og flest handgert, skúffur geirnegldar og kantlímdar. Fyrir skólaslit dvöldum við mikið í smíðahúsinu til að ná að klára stykkin, alla daga eftir skóla og jafnvel fram á kvöld. Saumastykkin voru ekki síður glæsileg, bútasaumsteppi í fullri stærð kjólar og draktir.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Við dvöldum svo stutt í einu að samskipti voru mjög lítil heim, einstaka símtöl út tíkallasíma ef eitthvað var, en heimsóknir fáar og þá eingöngu ef mann vantaði eitthvað að heiman sem ekki gat beðið næstu helgar.


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Maður saknaði þess eitthvað að vera ekki heima, en á hinn bóginn var mjög mikill félagsskapur, því fjöldinn var það mikill. Í minningunni er dvölin að lang mestu skemmtileg.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

Manni fannst húsakynnin býsna góð. Það voru tveir saman í herbergi með vaski. Klósett og sturtur sameiginleg fyrir allan ganginn. Engin setustofa reyndar, en ég man ekki eftir að hafa fundist þetta annað en ágætt.


Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

Skólastofurnar voru frekar fátæklegar, þar var enginn búnaður af neinu tagi, nema krítartafla, borð og stólar voru gömul.


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Tveir og tveir saman, tilviljun réði hverjir lentu saman í heilan vetur.


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

Handlaug í hverju herbergi og klósett og sturtur frammi á gangi.


Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Það var alveg föst sætaskipan í kennslustofum, sem hélst allan verurinn, maður átti bara sitt sæti. Í matsalnum var sætaskipan ekki föst, en oft svipuð.


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Það voru engar setustofur. Helsti samkomustaðurinn var “smókurinn”, og svo herbergin sjálf. Þegar horft var á sjónvarp tókum við stóla úr herbergjunum og settum þá fram á gang framan við sjónvarpið.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?

Nákvæmum tímasetningum er ég búinn að gleyma, en þetta var í mjög föstum skorðum og maður mætti alltaf í öll mál því það var ekki mikið verið að kaupa sér eitthvað annað, enda átti maður ekki fyrir því.


Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

Maturinn var góður og fjölbreyttur í minningunni, en þar sem ég var sjaldnast um helgar var ég ekki í helgarmatnum.


Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

Nemendur þurftu að ganga frá í matsal og skúra. Það lentu tveir og tveir saman og þurftu að sinna þessu. Vegna fjölda var það hins vegar ekki oft á hverjum vetri.


Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

Við sveitakrakkarnir fórum með þvottinn heim um helgar. Ég man ekki betur en þvottavélar hafi verið å hverjum gangi.Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?

Það var kennt alla virka daga og annan hvern laugardag fram að hádegi. Skóladagurinn var fram yfir hádegi, en síðan voru íþróttir og smíðar seinna um daginn og stundum hlé á milli tíma eftir hádegi.


Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

Í minningunni var kennsla tíðindalítil, en ef borið er saman við nútímann leyfðu sér sumir kennarar framkomu við einstaka nemendur, sem ekki væri liðin núna. Sérstaklega átti þetta við um nemendur sem stóðu höllum fæti í námi eða félagslega.


Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Sjá svar framar við þessari spurningu.


Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?

Sjå svar framar.


Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Leikfimi- og sundkennslu var að mestu sinnt af nemendum í Íþróttakennaraskólanum. Það var skemmtilegt og fjölbreytt og alltaf kynjaskipt.


Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

Frímínútur voru frjálsar og mest eytt frammi á gangi, en stundum inni í kennslustofunni við að spila.


Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

Heimanám var hefðbundið, hver og einn gerði sitt, hópvinna þekktist varla.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

Ég man ekki eftir sérstökum hefðum í skólastarfinu, nema handavinnusýningunni á vorin. Hins vegar var mikið sport að fara á nóttunni inn á stelpnavist. Það var talsvert eftirlit með því að passa að allir væru komnir inn í sín herbergi á réttum tíma, og eins með því að strákar væru ekki að þvælast á stelpnavistinni eftir að þeir ættu að vera komnir inn á sína víst.


Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?

Fleiri en hægt er að hafa tölu á, sérstaklega um kennara og skólastjóra.


Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).

Það var almenn trú á að það væri draugagangur uppi á efstu vist í Héraðsskólanum, þ.e. uppi í efra risi. Það var oft farið í andaglas þar á kvöldin og svo söfnuðust margir saman í herbergin til að sófa á eftir vegna hræðslu.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

Skipulagt félagslíf í Héraðsskólanum var ekki mikið, helst spilað og telft. Við nutum hins vegar nálægðar við menntaskólann og húsmæðraskólann og þess félagslífs sem var þar. T.d. voru reglulega bíósýningar í menntaskólanum og böll, sem “Hérar” máttu sækja.


Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Ég man ekki eftir að það hafi verið mikil þátttaka af hálfu kennara, nema í skákkvöldum.


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

Það var ekki mikið um íþróttir utan leikfimi og sunds, en einhverjir æfðu körfubolta og einhverjir sund. Fótbolti var talsvert stundaður á þeirra tíma mælikvarða, helst á haustin og vorin þegar veður og snjóalög leyfðu.


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Åfengisneysla var alfarið bönnuð að viðlögðum brottrekstri, en þónokkuð stunduð samt. Reykingar voru leyfðar utandyra og í “Smóknum”, sem var kjallarakompa með lítilli lofthæð undir einni vistinni. Nemendur þurftu leyfi frá foreldrum til að mega reykja, en á því var allur gangur. Hassneysla var nokkur og á þessum tíma var sniffað, hvoru tveggja var þó mest bundið við nemendur sem voru sendir úr Reykjavík austur á Laugarvatn, vegna vandamála heimafyrir.


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

Sjá svör framar.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Flestar minningar góðar um gott fólk, með fáum undantekningum.


Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

Reynslan var góð og ég held að það hafi verið gott veganesti, að hafa kynnst mörgum vel, sem komu úr mismunandi aðstæðum - ekki alltaf góðum. Þessi reynsla hjálpaði við að læra góð samskipti, því þeir sem ekki komu vel fram við aðra fengu það í andlitið strax.


Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Já mörg mjög góð, en leiðir hafa að mestu skilið.


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

Sjá fyrri svör um áhuga á að komast inn á stelpnavist á nóttunni. Það snérist ekki síður um spennuna en að komast í náin kynni. Á því var allur gangur enda voru það ungir krakkar í Héraðsskólanum.


Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?

Þetta var mest spurning um aldur. Þeir eldri réðu talsvert mikið yfir þeim yngri.


Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Sumir urðu fyrir einelti, en ég man varla eftir að það væri litið á það sem slíkt. Það var ekki fyrr en það var orðið líkamlegt sem afskipti hófust og þá vegna einstakra tilvika. Sumir kennarar leyfðu sér að gera lítið úr nemendum sem stóðu höllum fæti í námi eða félagslega.


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Nei ekkert slíkt.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.