LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiGæludýr, Gæludýragrafreitur
Ártal1970-2017
Spurningaskrá124 Gæludýr

Sveitarfélag 1950Reykjavík, Selfosshreppur, Skeiðahreppur
Núv. sveitarfélagReykjavík, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg
SýslaÁrnessýsla, Gullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2016-1-597
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið21.12.2016/22.8.2017
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Skilgreining

Hvað er gæludýr í þínum huga? Er einhver munur á því hvernig menn skilgreina gæludýr í dag og áður fyrr? Hvaða munur ef svo er?

Gæludýr eru dýr sem fólk hefur yfirleitt í húsnæðinu sem það býr í, gefur daglega og er mikið í samneyti við t.d. hundar og kettir.

Fólk hér áður hafði yfirleitt ekki gæludýr nema það væru not fyrir þau, t.d. kettir til að veiða mýs og hundar að smala fé. Fólki var ekki með gullfiska, hamstra, froska og slíkt og hvað þá að því dytti í hug að klæða dýr í föt.
Kafli 2 af 8 - Mitt gæludýr

Átt þú eða hefur þú átt gæludýr? Hvernig eða hvaða tegund? Hefur þú átt fleira en eitt gæludýr eða nokkur í einu? Ef svo er hve mörg og voru þau af sömu tegund eða mismunandi? Hvað kostar að eiga gæludýr?

Ég hef átt nokkra ketti yfir ævina.
Ég bjó í sveit þegar ég var unglingur. Þar eignaðist ég læðu sem átti nokkra kettlinga sem voru gefnir eða fengu að lifa, þannig að ég hef ekki nákvæma tölu á kattaeigninni. Þegar ég bjó í Reykjavík ca. 1983-84 fékk ég mér kött og það hafa verið fimm kettir á heimilinu síðan ég flutti á Selfoss 1991. Kettirnir hafa verið af mismunandi tegundum, engin hreinræktun.

Núna eru 3 kettir á heimilinu, ég á einn þeirra, dóttir mín á einn og sonur minn eignaði sér einn eða öllu heldur kötturinn eignaði sér soninn. Kettirnir sem við eigum núna eru öll hálfsystkini, tvö eru loðin og einn er snöggur, öll eru þau blanda af skógarketti og ókunnugu faðerni.

Hef ekki hugmynd um hvað kostar að eiga gæludýr, það þarf að kaupa matardalla, kattabúr og fl. Helsti kostnaðurinn er líklega matur og dýralæknir ef þess þarf. Kattamatur 4 kg. poki kostar um 6000 kr. veit ekki hversu lengi hann dugar, síðan kostar eitthvað að láta skrá kettina, sprauta og ormhreinsa þá.
Kafli 3 af 8 - Af hverju gæludýr?

Hvers vegna fékkst þú þér gæludýr (félagsskapur, útivist, vegna barna t.d.)? Hvað réð vali þínu (tegund, útlit, stærð t.d.)? Hvar og hvernig fékkst þú dýrið (frá vinum, í gæludýrabúð t.d.)? Undirbjóstu þig á einhvern hátt áður en þú tókst við dýrunu? Hvernig ef svo er?

Kettirnir komu á heimilið vegna eigin óska og barnanna.

Fyrsti köttinn sem ég eignaðist var hálfgerður villiköttur sem hafði fæðst í útihúsi í annarri sveit.
Alla hina höfum við fengið af sveitabænum sem ég fæddist í. Íbúarnir þurftu að losa sig við þá og ég féll alveg fyrir þeim. Ég hugsa að ég hefði etv. ekki tekið kettina nema vegna litar og hárafars en auðvitað spilaði inn í að krakkarnir suðuðu í mér.

Eini undirbúningurinn fyrir að fá dýrin heim var að kaupa kattaról, kattabúr, kattamat, kattasand, dall fyrir sandinn og matar- og vatnsdalla. Síðan bættust við klórustaur, kattabæli og dót, það voru reyndar börnin sem fóru fram á dótakaupin.
Kafli 4 af 8 - Upplifun og reynsla

Hvernig er að vera með gæludýr? Hvað er jákvætt og hvað neikvætt? Passar einhver dýrið fyrir þig þegar þú getur það ekki og ef svo er hver? Passar þú gæludýr fyrir aðra? Hverja?

Það er æðislegt að vera með gæludýr, kettir fara reyndar sínu fram og ákveða hvenær þeir vilja félagsskap og hvenær ekki.

Það jákvæða er félagsskapur og væntumþykja á báða bóga. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að kettir geti stundum verið á við sálfræðiþjónustu, það er róandi að klappa þeim og hægt að segja þeim hvað sem er. Það fyrsta sem sonur minn gerði þegar hann kom heim úr skólanum var að gá að kettinum enda var kötturinn einn besti félagi hans.

Það neikvæða er að kettirnir ólust upp í sveit og þar með voru þeir orðnir útikettir þegar ég fékk þá og engin leið að breyta því. Það getur líka verið vesen að finna pössun ef þess þarf. Sömuleiðis getur verið pirrandi þegar þeim þóknast ekki að fara út og inn um gluggana heldur vilja láta opna fyrir sér,og svo er ekkert sérstaklega gaman að þrífa klósettið þeirra.

Þegar öll fjölskyldan fer að heiman þarf að finna aðila til að gefa þeim og við myndum aldrei fara öll að heiman í langan tíma þessvegna. Vinkona dóttur minnar passar fyrir okkur þ.e. kemur og gefur þeim og sér um að allt sé í lagi. Hér áður fórum við með kettina í sveitina til mömmu í pössun.

Ég hef ekki passað gæludýr fyrir aðra í langan tíma, en dóttir mín passar fyrir vinkonu sína þega þess þarf, þ.e. fer og gefur hennar ketti og sér um að allt sé í lagi.
Kafli 5 af 8 - Umönnun

Hvernig aðlagar þú heimili þitt að þörfum gæludýrsins? Hver sér um að gefa því að borða, viðra það og þrífa búrið eða klósettkassann? Á dýrið ákveðinn stað eða svæði á heimilinu eða má það vera hvar sem er ef um þannig skepnu er að ræða (uppi í rúmi t.d.)?

Það er í rauninni ekki hægt að aðlaga heimilið að þörfum katta þeir ráða sér sjálfir, en ég er með kattamatinn og sandinn í þvottahúsinu. Það sjá allir á heimilinu um að fæða og þrífa.

Kettirnir meiga vera hvar sem er og þeir sofa á mjög misjöfnum stöðum, troða sér í litlar körfur, upp á grilli, ofan í blaðakörfunni helst allsstaðar annarsstaðar en í kattabælinu. Stundum vilja þeir kúra hjá okkur og þá fá þeir það hvort sem við erum í svefnherberginu eða stofunni.
Kafli 6 af 8 - Nafngift

Hvað heita þau gæludýr sem þú hefur átt? Hvað réð vali þínu á nafni/nöfnum? Geta heimilisdýr haft gælunöfn? Nefndu dæmi ef svo er. Finnst þér að nöfn á gæludýrum hafi verið að breytast? Hvernig ef svo er?

Fyrsta hét Súsý hef ekki hugmynd af hverju ég skýrði hana það. Man ekki nöfnin á hinum sem ég átti í sveitinni, Ramóna var Reykjavíkurmærin og á Selfossi höfum við átt Grámann, Blámann, Bjart, Skugga og Aríu. Grámann var grár og Blámann líka, mig minnir að það hafi verið barnaefni í sjánvarpinu sem hér Blámann og þessvegna hafi hann fengið það nafn. Bjartur fékk nafnið vegna þess að hann er sandgulur og Skuggi fékk sitt nafn vegna þess að hann er silfurgrár. Aría fékk sitt nafn frá dótturinni og ég geri ráð fyrir að það sé vísum í tónlist.

Já heimilisdýr geta haft gælunöfn, allar skepnur í sveitinni áttu nöfn, kindur, hross, kýr, hundar, kettir.

Ég hef ekki hugmynd um hvort nöfn hafi breyst en ég geri ráð fyrir að það sé meira um erlend nöfn núna en áður. Það er heldur ekki ólíklegt að það séu færri nöfn eins og Branda, brandur, Snati og slíkt.
Kafli 7 af 8 - Veikindi og missir

Hefur þú upplifað að gæludýr þitt hafi orðið fyrir slysi, horfið eða dáið? Viltu segja frá þeirri reynslu? Hvað finnst þér að eigi að veita veiku eða slösuðu gæludýri mikla aðhlynningu (út frá fjárhagslegu-, tilfinningalegu eða praktísku sjónarmiði t.d.)? Hefur þú jarðað gæludýr? Hvar og hvernig ef svo er?

Fyrsta kisan mín hvarf og fannst löngu síðar, ég var alltaf að kalla á hana og leita að henni, bóndi á næsta bæ fann hana dána og lét mig vita.

Reykjavíkurmærin Ramóna þoldi ekki lífið þegar við fluttum í blokk, hún var útiköttur og höndlaði ekki blokkarlífið þannig að við urðum að láta aflífa hana, dýralæknirinn sá um að farga hræinu.

Einn köttur hvarf og fannst sömuleiðis löngu seinna, við hengdum upp auglýsingu og krakkarnir fóru dag eftir dag að leita og kalla, en hann fannst ekki. Löngu seinna fann maður í götunni köttinn þegar hann var að fjarlægja sólpall hjá sér, kötturinn hafði líklega skriðið þangar til að deyja.

Einn fannst dáinn í bælinu sínu og var farið með hann í kassa í sveitina og hann jarðaður þar, gerðum kross og krakkarnir sungu eitthvað fyrir hann.

Skuggi sem við eigum ennþá lenti í slysi, hann kom skríðandi inn um gluggann hjá syninum og dró afturfótinn. Við vitum ekki hvort það var keyrt á hann eða einhverjum hafi verið illa við hann. Við fórum með hann til dýralæknis og það kom í ljós að lærleggurinn var brotinn. Þar sem kötturinn og sonurinn voru miklir félagar ákváðum við að láta gera aðgerð á kettinum, þannig að kötturinn er með stáltein í fætinum. Þetta kostaði alveg helling en tilfinningalega hliðin var sterkari en sú praktísa, sumum fannst við galin að taka þessa ákvörðun. Ég er alin upp í sveit og ólst því upp við að dýr sem mér þótti vænt um væri lógað og etv. hefði ég látið lóga kettinum ef ég byggi ein.
Kafli 8 af 8 - Staður og tímabil

Við hvaða stað/staði og tímabil miðast svar þitt?

ca. 1970-1980 Skeiðahreppur
ca. 1983-84 Reykjavík
1991-2017 SelfossÞetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 4 milljónir mynda, um 300 þúsund muni og tæpar 25 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 40 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.